Mánudagur, 25. október 2010
Vefritið Svipan tekur forystu í kynningu á frambjóðendum til Stjórnlagaþings.
Vefritið Svipan hefur tekið frumkvæðið og forystuna í kynningu á þeim sem bjóða sig fram til Stjórnlagaþings. Vefritið birtir á síðum sínum í stafrófsröð nöfn allra þeirra frambjóðenda sem hafa boðið sig fram.
Vefritið gerir meira en það. Öllum frambjóðendum er boðið að kynna sig á heimasíðu þess. Frambjóðendur senda inn helstu upplýsingar ásamt mynd og svara nokkrum spurningum. Þessar upplýsingar tekur vefritið saman og birtir með mynd á síðum sínum.
Hluti þeirra sem hafa boðið sig fram hefur þegar sent inn upplýsingar og svarað spurningum Svipunnar.
Í dag er vefritið Svipan komin með stærsta gagnabankann um þá sem bjóða sig fram til Stjórnlagaþings. Vilji kjósendur kynna sér þessa frambjóðendur þá er og verður Svipan vettvangurinn.
Sjá nánar hér: Vefritið Svipan.
Stóru vefritin eins og mbl.is og visir.is verða að hugsa sinn gang ætli þau að halda í hylli netnotenda á komandi misserum.
Það dugir ekki bara að fylla þessa stóru vefrit með auglýsingum og hætta að þjónusta almenning og sinna því sem helst er í gangi.
![]() |
523 í framboði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 18. október 2010
Er frambjóðandi til Stjórnlagaþings
Í framhaldi af því að ég hef skrifað nokkra pistla á síðustu misserum sem tengjast stjórnarskránni og stjórnskipun Íslands og það að ég var valinn í þetta 1000 manna úrtak sem mun sitja Þjóðfundinn 6. nóvember næstkomandi þá ákvað ég að gefa kost á mér í framboð til stjórnlagaþingsins.
Það er sérstakt og í raun einstakt að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá.
Ég hefði gjarnan viljað taka þátt í því.
Pistlarnir sem ég skrifað og tengjast stjórnskipun Íslands eru hér:
Hef sett upp nýja heimasíðu í tilefni af þessu framboði, sjá: www.fridrik.info.
![]() |
Skiptar skoðanir um stjórnlagaþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 6. október 2010
Skora á ríkisstjórn og Alþingi að stoppa þessa ósvinnu.
Það er ekki hægt að horfa aðgerðarlaus upp á að nú í október eiga að fara fram 250 nauðungaruppboð á íbúðum sem eigendur búa sjálfir í og eiga þar sitt lögheimili.
Væntanlega hefur allt þetta fólk keypt íbúðir sínar í góðri trú og farið í greiðslumat hjá bönkunum.
Vegna glannaskapar í rekstri íslensku bankana þá verður hér hrun, allar forsendur bresta, atvinnumissir, launalækkanir, lán hækka um 40% (verðtryggð) til 100% (gengistryggð) og fjöldi fólks getur ekki staðið í skilum.
Þegar hafa á árinu um 1.200 fjölskyldur misst heimili sín og búist er við að á milli 2.000 til 3.000 manns bætist í þann hóp á næstu mánuðum og misserum. Öll þessi heimili eru full af börnum og unglingum.
Ég neita að trúa því að forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og aðrir ráðherrar og þingmenn ætli að halda áfram að sitja aðgerðarlaus og horfa á allt þetta fólk borið út úr húsum sínum vegna þessa forsendubrests sem hér varð.
Í skil ekki af hverju þessi mál eru ekki leyst þannig að ekki þurfi að koma til nauðungaruppboðs og útburðar. Það eru ótal leiðir til þess ef einhver einasti vilji er fyrir hendi. Hvað liggur svona ofboðslega á að losa þessar eignir. Lánin eru öll til 25 til 40 ár. Af hverju ekki frysta þessi lán í 4 til 6 ár eða bara borga af þeim vexti og lengja lánstímann í 60 til 80 ár eins og svo algengt er með fasteignalán á hinum Norðurlöndunum.
Af hverju finna menn ekki lausnir í dýpstu kreppu Íslandssögunnar þannig að ekki þurfi að bera öll þessi börn út á götu og setja foreldra þeirra í ævilangt gjaldþrota þar sem þau losna aldrei við skuldirnar?
Til hvers?
Eitt veit ég og það er að þessi fantatök bankana, nauðungaruppboð og fjöldagjaldþrot verða ekki liðin. Það mun aldrei verða fyrirgefið ef henda á öllum þessum fjölskyldum á götuna og allt þetta fólk gert gjaldþrota.
Það mun enda með því að þessar óeirðir munu stigmagnast og þá er það bara spurning um tíma hvenær kveikt verður í Alþingsihúsinu, Stjórnarráðinu, bankaútibúum eða aðrar byggingar verða brenndar.
Við vitum að fjármálaráðherra lofaði bankamönnum háum bónusum eftir því hve miklu þeir næðu út úr lánasöfnum bankana. Það er ljóst að bankamenn ætla sér feita bónusa.
Ég skora samt á þá og á sýslumenn og starfsmenn þeirra, ekki taka þátt í þessum aftökum.
Segið bara NEI, við tökum ekki þátt í þessu.
Ég skora á ríkisstjórn og Alþingi að stoppa þessa ósvinnu.
Göngustígurinn upp Esju.
![]() |
Viðhorf bankanna hafa breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 2. október 2010
Af hverju stendur Steingrímur J gegn lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur?
Á annað ár hefur verið kallað eftir úrbótum fyrir þá sem verst hafa farið út úr hruninu. Því kalli svaraði Lilja Mósesdóttir fyrir rúmu ári þegar hún lagði fram frumvarp sem fékk fljótlega nafnið lyklafrumvarpið.
Þetta frumvarp er að hluta að bandarískri fyrirmynd og er í grunninn þannig að þeir sem lenda í því óláni að forsendur fyrir íbúðarkaupunum bresta, atvinnumissir, veikindi eða hvað annað sem veldur, þá getur fólk skilið lyklana eftir og labbað út úr eignum sínum án þess að verða persónulega gjaldþrota. Við skulum átta okkur á því að engin labbar út úr íbúðarhúsnæði sínu nema engir aðrir kostir eru í stöðunni.
Frekar en samþykkja lyklafrumvarpið vilja alþingismenn horfa upp á þúsundir einstaklinga missa íbúðahúsnæði sitt og horfa upp á þessa einstaklinga sitja áfram uppi með lánin sem þýðir að þetta fólk fer allt beint í persónulegt gjaldþrot. Blóðhundar bankanna fá síðan það verkefni að elta þetta fólk allt þeirra líf.
Þetta fólk keypti sínar eignir í góðri trú eftir að hafa farið í greiðslumat hjá bönkunum og stendur nú frammi fyrir gjaldþroti og ríkisstjórnin ætlar sér ekkert að gera.
Ekki bara það, Steingrímur J kemur í veg fyrir að lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur nái fram að ganga.
Hverju haldið þið að bankarnir nái hvort sem er af þessu fólki eftir að það er orðið gjaldþrota?
Bankarnir eiga að taka þessar eignir yfir og búið. Það hefur engan tilgang að gera allt þetta fólk gjaldþrota, það bætir ekki stöðu bankana og þeir hafa af því engan fjárhagslegan ávinning að elta þetta fólk alla æfi þess.
Hvers vegna ætlar þú að senda allt þetta fólk í gjaldþrot Steingrímur?
Af hverju stendur þú gegn lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur?
Mynd: Gönguleiðin upp Esju
![]() |
Auðmenn græða á uppboðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:13 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 29. september 2010
Skipstjórinn sendur í sjópróf, áhöfnin sleppur.
Þetta er sögulegur dagur í dag, 28. september 2010. Hann er sögulegur vegna þess að þessi niðurstaða Alþingis breytir íslenskum stjórnmálum. Íslensk stjórnmál verða aldrei aftur söm.
Það að vera ráðherra verður aldrei aftur það ábyrgðarlausa glamor starf sem það hefur hingað til verið.
Það var orðið löngu tímabært að ábyrgð yrði tengd því mikla valdi sem ráðherrar hafa tekið sér á undanförnum áratugum af Alþingi og Forsetaembættinu.
Niðurstaða Alþingis í dag að ákæra forsætisráðherra en hlífa öðrum ráðherrum í ráðuneyti hans er Salómonsdómur.
Rannsóknarnefnd Alþingis vann mikið og gott starf og skilaði af sér tímamótaverki sem var Sannleiksskýrslan. Um það voru og eru allir sammála. Í skýrslunni var lagt til að þrír ráðherrar yrðu ákærðir fyrir gáleysi og vanrækslu í starfi. Alþingi átti því engra annarra úrkosta en afgreiða þessa körfu Rannsóknarnefndarinnar.
Eftir að sérstök þingmannanefnd komst að sömu niðurstöðu og bætti reyndar fjórða ráðherranum við þá átti öllum að vera ljóst að einhver eða allir þessara ráðherra myndu sæta ákæru enda sigldi skipstjórinn og áhöfn hans þjóðarskútunni beint upp í Skarfasker svo af hlaust gríðarlegt tjón sem enn sér ekki fyrir endan á.
Eftir slíkt strand þá er það lágmark að fram fari sjópróf yfir skipstjóranum, er það ekki?
Það er engin ástæða fyrir skipstjórann, áhöfnina, aðstandendur og vini að fárast yfir slíkri niðurstöðu.
Það er venja á Íslandi að kalla þá sem sigla skipum sínum í strand fyrir sjópróf. Af hverju skildi slíkt ekki líka gilda gagnvart skipstjóranum á þjóðarskútunni?
Íslenskir skipstjórar hafa hingað til tekið slíku af æðruleysi.
Mynd: Gönguleiðin upp Esju
![]() |
Mál höfðað gegn Geir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 25. september 2010
Íslandsmeistaratitillinn í Kópavoginn
það er gaman að sjá Íslandsmeistaratitilinn fara þetta árið í Kópavoginn.
Að öðrum sveitarfélögum ólöstuðum þá er hvergi eins vel búið að knattspyrnunni og í Kópavogi. Kópavogur státar af tveim yfirbyggðum knattspyrnuvöllum, glæsilegri útiaðstöðu á nokkrum stöðum í bænum og þeim metnaði og kunnáttu sem þarf til að standa í fremstu röð.
Reykjavíkurliðin með sitt eina knattspyrnuhús eiga orðið ekki möguleika á móti sveitarfélögum sem tefla fram strákum sem síðustu tíu ár hafa alist upp í yfirbyggðum knattspyrnuhúsum og fengið þar inni allan þann tíma sem þeir hafa viljað.
Við hljótum öll að óska Kópavogi til hamingju og fagna því að nýtt knattspyrnuveldi er að verða til.
Nú er bara að vona að það verði svo gamla liðið mitt í Austurbænum, HK, sem tekur svo við.
![]() |
Breiðablik er Íslandsmeistari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 19. september 2010
Lög um ráðherraábyrgð úreld?
Nú hrópa þingmen að lög um ráðherraábyrgð séu úreld. Þau uppfylli ekki nýjustu ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og rangt sé að ákæra ráðherra á grundvelli úreldra laga.
Af hverju voru þessir þingmenn ekki búnir að breyta þessu lögum fyrir löngu?
Er aðgerðarleysi, skortur á frumkvæði og vanræksla þau orð sem best lýsa því sem hefur verið í gangi á Alþingi síðustu áratugi?
Ef lög um ráherraábyrgð eru löngu úreld, hvernig er staðan þá á öðrum sviðum? Erum við hér með gamalt og úrelt lagasafn sem er í engum takt við löndin hér í kring um okkur?
Eru í gildi fullt af lögum sem ekki uppfylla þær skyldur sem við tókum á okkur þegar Ísland varð aðili að mannréttindasáttmála Evrópu?
Verður það gráglettni örlaganna að fyrstu ráðherrar Íslandssögunnar verða dæmdir fyrir vanrækslu í starfi eftir gömlum og lögnu úreldum lögum. Lögum sem þessir sömu ráherrar höfðu allir einn til tvo áratugi til að breyta. Vanræksla þeirra að breyta lögum um ráðherraábyrgð verður hún til þess að þeir verða dæmdir fyrir þá vanrækslu sem rakin er í Rannsóknarskýrslu Alþingis?
Eða vildu þessir forystumenn okkar hafa þessi lög óbreytt? Var það mat þessara forystumanna og þeir sem á undan höfðu gengið að svo torsótt yrði að sækja þá til saka eftir þessum gömlu lögum að þeirra persónulegu hagsmunum var best borgið með því að hafa þau óbreytt?
Annað hvort hefur þessum lögum vísvitandi aldrei verið breytt eða þessi lög eru enn ein staðfestingin á aðgerðaleysi þingsins, skorti þess á frumkvæði og að þingið hefur vanrækt skyldur sínar að setja okkur lög sem svara kalli tímans.
Mynd: Gönguleiðin upp Esju
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.9.2010 kl. 09:59 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 19. september 2010
Jón Gnarr vill Héraðsdóm Reykjavíkur burt
Ég er sammála borgarstjóra. Héraðsdómur á ekki heima á Lækjartorgi. Vegna þeirrar neikvæðu ímyndar sem hús sem hýsa dómstóla, fangelsi og lögreglustöðvar hafa almennt í hugum fólks, innlendra og erlendra, þá er það ekki til að lífga upp á miðbæinn að hafa þessa neikvæðu starfsemi á miðju Lækjatorgi.
Á Lækjatorgi á að sjálfsögu að vera starfsemi sem fólk sækir sér til skemmtunar og ánægju. Í þessu fallega húsi ættu að vera verslanir og kaffihús eða hótel. Eitthvað sem tengist lífi og listum en ekki deilum og lögbrotum, dópi og dauða.
Nú má ekki skilja mig þannig að ég sé á móti Héraðsdómi eða dómstólum. Þeir eru því miður nauðsynlegur hluti af okkar samfélagi eins og fangelsin og lögreglustöðvarnar. Við eigum að vera því fólki þakklátt, lögmönnum og dómurum, sem hafa valið sér að vinna með skuggahliðar samfélagsins. Einhverjir verða að vinna þessi störf.
Engin ástæða er samt til að hafa þessa starfsemi í hjarta borgarinnar.
Vonandi dettur engum í hug að hafa fangelsi á Lækjartorgi. Sú starfsemi þar sem verið er að dæma menn í fangelsi á ekki heldur heima þar.
Það er mikið af lausu húsnæði upp á Höfða og lausum lóðum uppi á Esjumelum og Hádegismóum. Þessi starfsemi væri vel komin þar.
Það mun líka birta yfir Þjóðleikhúsinu, Þjóðmenningarhúsinu og Arnarhváli þegar Hæstiréttur flytur þaðan sem hann er í nýtt og stærra húsnæði.
![]() |
Jón Gnarr: Héraðsdómur flytji sig annað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 16. september 2010
Hæstiréttur aftur orðinn eins og við þekkjum hann.
Ríkisvaldið pantar niðurstöður frá Hæstarétti og Hæstiréttur úrskurðar í samræmi við pöntun ríkisvaldsins.
Nú er allt aftur orðið eins og það var. Dómsvaldið aftur orðið hægri hönd ríkisvaldsins.
Ekkert hefur breyst á Íslandi.
![]() |
Staðfesti dóm héraðsdóms |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:34 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 14. september 2010
Njörður P. Njarðvík sendi mér bréf.
"Þú átt öruggleg eftir að verða leiðinlegur þar" sagði sonur minn og hló við þegar að ég sagði honum að ég hafi fengið boð á Þjóðfundinn og að ég hafi síðasta vetur sett nokkra pistla um stjórnarskrána á bloggið mitt.
En hvernig breytingar viljum við sjá á stjórnarskránni?
Jú, skýrari aðskilnað framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds. Það held ég að flestir eru sammála um. Sérstaklega þarf að halda með einhverjum hætti í eyrun á framkvæmdavaldinu / flokkunum og tryggja sjálfstæði Alþingis. En hvernig?
Eins og ég skil lýðræðisríkin í löndunum í kring um okkur þá eru þessi lýðræðisríki tvenns konar.
Annar vegar eru það konungsríkin og hins vegar lýðveldin.
Þar sem við erum ekki konungsríki þá hljóðum við að horfa til lýðveldanna. Frakkland er þeirra elst auðvita en tungumálið er þröskuldur þannig að ég þekki ekki gjörla til hefða í Frakklandi. Finnar eru okkur nær og Bandaríkin og bandaríska stjórnkerfið þekkjum við en þessi tvö lönd byggja sitt lýðveldi á þessum franska grunni. Öll Austur Evrópa, þar á meðal Rússar tóku upp þetta franska lýðveldið þegar þessi lönd voru endurreist eftir fall kommúnismans fyrir um 20 árum.
Öll þessi "frönsku" lýðveldi byggja á þjóðkjörnum forseta sem kosinn er í beinni kosningu. Forsetinn skipar ráðherra í ríkisstjórn. Engin hefð er fyrir því í þessum löndum að ráðherrar þurfi endilega að vera þingmenn. Ef þingmenn verða ráðherrar þá er það víða þannig að þá segja þeir af sér þingmennsku.
Eitthvað er mismunandi hve sterkir þessir forsetar eru. Í Bandaríkjunum er forsetinn mjög sterkur. Svo viðrist einnig vera í Rússlandi.
Eitt eiga þessi lýðveldi sameiginlegt. Forsetinn sem er eini embættismaðurinn sem þjóðin kýs í beinni kosningu og þar með eini fulltrúi þjóðarinnar sem þjóðin getur ráðið og rekið á fjögurra ára fresti. Þetta er valdamesti maðurinn í öllum þessum lýðveldum. Ef þessar þjóðir eru óánægðar með stjórn landsins þá kjósa þær sér nýjan forseta. Eins og við þekkjum frá Bandaríkjunum þá getur forsetinn verið í minnihluta á þingi en hann og ráðherrar hans eigi að síður sinnt störfum sínum með prýði.
Er það þannig lýðveldi sem við viljum? Alvöru franskt, bandarísk, finnskt, rússneskt, pólskt, Evrópskt lýðveldi?
Eigum við að gera það sem öll Austur Evrópa gerði fyrir 20 árum og skipta út okkar gömlu stjórnarskrá sem búið er að afbaka og gjörbreyta með vísan í allskonar "hefðir, venjur og skilning" og taka í staðinn upp vel útfærða nýja Evrópska stjórnarskrá?
Eigum við þá að horfa til þeirrar finnsku, frönsku, pólsku eða bandarísku?
Sjá einnig þessar greinar hér:
Mynd: Gönguleiðin upp Esju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 12. september 2010
Þau ákváðu að ræna Deutche bank, Seðlabanka Evrópu, HSBC og alla hina bankana.
Í ákærum þingmannanefndarinnar er eingöngu horft til vanrækslu ráðherra í aðdraganda hrunsins. Ekkert er horft til þess sem gerðist í hruninu. Í hruninu stóð ríkið fyrir einu stærsta ráni í Evrópu og það sem ég vil kalla glæp gegn þjóðinni.
Ekkert er horft til þess að ríkisstjórnin ákvað að tryggja að fullu allar innstæður í bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en landsframleiðslan. Þar með talið Icesave. Það að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að tryggja að fullu allar innistæður í bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en landsframleiðslan er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni.
Þetta er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni því þær ábyrgðir sem verið var að leggja á þjóðina með því að láta hana ábyrgjast þessar innistæður, þær skuldbindingar er tvöfaldar þær stríðsskaðabætur sem lagðar voru á hvern þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Bætur sem þá þóttu óheyrilegar. Hitler komst m.a. til valda í Þýskalandi þegar hann lofaði að hætt yrði að borgar þessar háu bætur. Uppreiknað þá samsvara stríðsskaðabætur þjóðverja til 4.700 evra á mann. Það sem ríkisstjórnin og Alþingi ætlar Íslendingum að greiða til að tryggja allar innistæður að fullu eru 8.800 evrur á mann. Sjá nánar um þessar tölur hér.
Það var eitt að tryggja þessar innistæður að fullu. Annar var að að taka ákvörðun um að ræna Deutche bank, Seðlabanka Evrópu, Seðlabanka Svíþjóðar, HSBC bankann, Commercebank og allar hinar fjármálastofnanirnar sem áttu í viðskiptum við gömlu bankana.
Með neyðarlögunum var framið eitt stærsta rán sem framið hefur verið í Evrópu frá dögum sjóræningja soldánanna í Alsír sem rændu Evrópu í um 300 ár, frá 1500 til 1800, þar á meðal Vestmannaeyjar.
Með neyðarlögunum þá var röð kröfuhafa breytt þannig að við uppgjör gömlu bankana er fé sem Deutche bank, Seðlabanki Evrópu og HSBC áttu að fá, það fé er tekið og sett í hendur innistæðueigenda.
Með þessu ráni þá var Íslandi breytt á einni nóttu úr réttarríki í ræningjabæli.
Að ræna viðskiptavini gömlu bankana með þessum hætti og breyta þjóðinni í ræningjabæli það er ekki bara glæpur gegn þjóðinni, það er einnig glæpur gegn alþjóðasamfélaginu.
Þó ríkisstjórn og Alþingi hafi séð fyrir að fjöldi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja myndu tapa stórum hluta af innistæðum sínum, færu bankarnir í þrot, þá var engin ástæða til þess fyrir ríkið að fara út í þjófnað og rán.
Það var engin ástæða að eyðileggja orðspor Íslensku þjóðarinnar næsta mannsaldurinn með því að ríkið fór í það að ræna fé frá öllum helstu fjármálastofnunum heimsins. Það var engin ástæða til að breyta Alþingi í ræningjabæli þó einhverjir væru að tapa fé.
Þingvallastjórnin fórnaði orðspori heillar þjóðar og æru elsta samfellt starfandi þings í heimi í þeim tilgangi að tryggja fjármuni auðmanna Íslands.
Er að furða þó Orkuveitan og Landsvirkjun fái hvergi lán? Auðvita þorir engin að lána þessum opinberu fyrirtækum af hættu við að peningunum verði stolið með nýrri lagasetningu frá Alþingi. Sama fólkið er hér meira og minna enn við völd.
Þeir þingmenn og ráðherrar sem ákváðu að ræna þessar erlendu fjármálastofnanir með lagasetningu að næturlagi, tveir þriðju hlutar þessa fólks situr enn á þingi.
Einu sinni þjófur, alltaf þjófur.
Engin sátt verður í þessu samfélagi fyrr en þetta fólk er allt horfið á braut úr trúnaðarstörfum á Alþingi.
Ekkert traust verður hægt að byggja upp, hvorki hér heima né erlendis, fyrr en það fólk sem setti þessi Neyðarlög og stóð að þessu ráni er horfið á braut.
Það er á ábyrgð okkar kjósenda að sjá til þess að slík endurnýjun eigi sér stað sem fyrst.
Að kalla saman Landsdóm og rétta yfir þessum ráðherrum er óhjákvæmilegt skref á þeirri leið.
Sjá einnig: Skjaldborg slegin um stræsta rán Íslandssögunnar.
Mynd: Göngustígurinn upp Esju.
![]() |
Röng niðurstaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 21. ágúst 2010
Íslendingar "ræningjalýður" í augum Evrópu?
Ekkert ríki leyfði bankakerfinu sínu að vaxa ríkinu þannig yfir höfðuð að ríkið gat ekki sinnt skyldum sínum sem lánveitandi bankana til þrautavara nema íslenska ríkið.
Ekkert ríki missti allt bankakerfið sitt í gjaldþrot vegna þessarar vanrækslu ríkisstjórnarinnar og eftirlistaðila nema íslenska ríkið.
Ekkert ríki, hvorki í Evrópu né annarstaðar, setti lög eins og neyðarlögin í þeim tilgangi að hafa fé af þeim sem höfðu lánað bönkunum þeirra fjármuni nema íslenska ríkið.
Öll ríki Evrópu ákváðu að ábyrgjast innistæður í bönkum en það var bara íslenska ríkið sem breytti lögum og reglum í þeim tilgangi að láta erlenda lánadrottna bankana bera stóran hluta af því sem það loforð kostaði.
Þess vegna líta fjölmargir útlendingar á okkur Íslendinga sem "ræningjalýð", því miður. Margir líta svo á að við Íslendingar höfum framið eitt stærsta "rán" í sögu Evrópu þegar við settum neyðarlögin á lánadrottna íslensku bankana.
Og það sem er sárast er að þetta "rán" frömdu ekki einhverjir glæpamenn heldur ríkisstjórn Íslands og Alþingi.
Þess vegna er það svo nauðsynlegt að við losum okkur við það fólk úr öllum opinberum trúnaðarstörfum sem sat í ríkisstjórn og á þing og framdi þennan gjörning, þetta "rán".
Fyrr getum við Íslendingar ekki byggt á ný upp trúnað og komið fram sem trúverðug þjóð en ekki sem "ræningjalýður" gagnvart þjóðum heims.
Sjá einnig greinar:
Neyðarlögin stærsta "rán" í sögu Evrópu?
Skjaldborg slegin um stærsta "rán" Íslandssögunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 19. ágúst 2010
Neyðarlögin stærsta "rán" í sögu Evrópu?
Var íslenski bankamálaráðherrann undrandi á því að evrópskir ráðamenn voru honum fjandsamlegir eftir að hann og íslenska ríkisstjórnin hafði breytt öllum leikreglum á íslenska fjármálamarkaðnum og framið eitt stærsta "rán" sem nokkurn tíma hefur verið framið í sögu Evrópu?
"Rán" sem fólst í því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Þingvallarstjórnin, ákvað að ræna þá banka og fjármálastofnanir sem höfðu átti í viðskiptum við íslensku bankana og höfðu lánað íslensku bönkunum fé. Það fé sem ríkisstjórnin tók með þessum hætti af lánadrottnum gömlu bankana það fé fengu innistæðueigendur í hendurnar.
Með því að breyta lagarammanum á íslenska fjármálamarkaðnum á einum næturfundi í byrjum október 2008 þá var þetta "rán" mögulegt í skjóli þess að Ísland er sjálfstætt ríki og setur sín eigin lög og það er ríkistjórn og Alþingi sem saman framkvæma þetta "rán". Það sem mestu skipti í þeirri breytingu sem gerð var með setningu neyðarlaganna er að innlán voru gerð að forgangskröfu. Það þýðir að þegar þrotabú bankana eru gerð upp þá fá innistæðueigendur allt sitt fyrst. Síðan kemur að öðrum kröfuhöfum.
Þannig voru lögin og reglurnar ekki þegar Deutscke bank, HSBC, Commerce bank og allar hinar fjármálastofnanirnar lánuðu íslensku bönkunum fé. Þvert á móti, þá voru þessi innlán eingöngu tryggð af Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta.
Er að undra þó ráðmenn í Evrópu hafi verið fjandsamlegir við íslenska bankamálaráðherrann eftir að hann og ríkisstjórnin sem hann sat í framdi eitt allra stærsta "rán" ef ekki það stærsta sem framið hefur verið í Evrópu þegar hann og ríkisstjórnin "rændi" á annað þúsund milljörðum frá öllum helstu fjármálastofnunum Evrópu og setti það fé í hendurnar á innistæðueigendum?
Er að undra?
Sjá nánar um stærsta "rán" Íslandssögunnar í þessum pistli hér:
Skjaldborg slegin um stærsta "rán" Íslandssögunnar.
Mynd: Meyjarós í Reykjavík.
![]() |
Bildt var fjandsamlegur í garð Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 16. ágúst 2010
Skjaldborg slegin um stærsta "rán" Íslandssögunnar.
Stærsta "rán" Íslandssögunnar og eitt stærsta "rán" í Evrópu framdi Alþingi haustið 2008 undir forystu ríkisstjórnar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Stærsta "rán" Íslandssögunnar var framið þegar Þingvallastjórnin ákvað að "ræna" Deutsche bank, HSBC, Commerce bank og alla hina bankana og fjármálafyrirtækin sem höfðu lánað íslensku bönkunum fé.
Þetta "rán" sem Alþingi og íslenska stjórnsýslan framdi var framkvæmt þannig að leikreglum og lögum á Íslandi var breytt á einni nóttu þannig að Íslendingar sem áttu innistæður í íslensku bönkunum þær innistæður ákváðu þingmenn / "ræningjarnir" að tryggja að fullu á kostnað þessara erlendu lánadrottna.
Til þess að hægt væri að trygga íslenskum innistæðueigendum innistæður sínar að fullu ákváðu réttkjörnir fulltrúar almennings á Alþingi að setja hin svokölluð Bráðabirgðalög. Með því var hægt að "ræna" þá banka og fjármálafyrirtæki sem höfðu átt í viðskiptum við íslensku bankana og lánað þeim fé.
Með því að breyta lögum og reglum, lögum og reglum sem var grundvöllur þess að erlendir bankar og fjármálafyrirtæki lánuðu íslensku bönkunum fé og gera innistæður að forgangskröfum þannig að fyrst verða þær greiddar út að fullu áður en byrjað verður að greiða inn á kröfur erlendu lánastofnanna þegar þrotabúa bankana verður gert upp, með þessu þá var Alþingi að fremja eitt stærsta "rán" sem framið hefur verið í Evrópu.
Líkalega þarf að fara aftur til sjóræningjana sem ríktu og stjórnuðu Alsír frá um 1500 og fram yfir aldamótin 1800, þ.e. "Tyrkina" sem rændu og rupluðu Evrópu til að finna samjöfnuð við það rán sem "réttarríkið" Ísland undir forystu Alþingis framdi haustið 2008. Þessi ræningjalýður sem stjórnaði og ríkti í Alsír í nærri 300 ár, þeir komu meðal annars hingað til lands og rændu Vestmannaeyjar. Í heimildum frá Grænlandi er einnig að finna sagnir um komur slíkra sjóræningja til Íslendingabyggðanna á Grænlandi og eru þær taldar ein af orsökunum þess að byggð lagðist þar af. Danir stofnuðu á þessum öldum svokallaðan "Slavekasse" sem allir sjófarendur voru látnir borga í sem nokkurskonar tryggingu þannig að til væri fé í sjóði svo danska ríkið gæti keypt brottnumda Dani heim af Soldánunum í Alsír. Norðmenn fóru heldur ekki varhluta af sjóræningjum frá Alsír, sjá þessa grein hér.
Á sama hátt og þegar ræningjalýður stjórnaði Alsír og stóð fyrir skipulögðum sjóránum urðu þjóðir Evrópu, þá eins og nú, að reiða fram háar fjárhæðir, nú í formi lána frá AGS / Slavekassen, til að tryggja hagsmuni sína, sinna þegna, banka og fjármálafyrirtækja sem "ræningjalýðurinn" sem stjórnar Íslandi er búinn að "ræna" og setja í gíslingu með gjaldeyrishöftum.
Mikil er ábyrgð þeirra "ræningja" sem sátu á Alþingi þegar þessi bráðabirgðalög voru sett.
En íslenskum þingmönnum nægði ekki að "ræna" Deutsche bank, HSBC, Commerce bank og allar hinar erlendu fjármálastofnanirnar til að tryggja hagsmuni íslenskra innistæðueigenda og fjárfesta. Nei það var ekki nóg. Þeir ákváðu líka að "ræna" Íslenska Seðlabankann. Íslenski Seðlabankinn var tæmdur nokkrum vikum eftir hrun. Hver einasta króna, pund, dollar og evra var tekin út úr Seðlabankanum, tæpir 300 milljarðar og settir í hendur þeim fjárfestum sem keyptu bréf í peningamarkaðssjóðum íslensku bankana. Í framhaldi var Íslenski Seðlabankinn lýstur gjaldþrota.
Mikil er ábyrgð þeirra "ræningja" sem gerðu Seðlabankann gjaldþrota með því að tæma hann og afhenda féð fjárfestum sem gömbluðu með sitt fé í peningamarkaðssjóðum gömlu bankana.
En það að "ræna" alla erlenda banka og fjármálastofnanir sem lánuðu gömlu bönkunum og tæma Seðlabankann og setja í gjaldþrot það dugði "ræningjum" á Alþingi ekki. Ekki þegar hagsmunir íslenskra innistæðueigenda og fjárfesta eru annar vegar. Þess vegna var ráðist í það að gera alla íslensku þjóðina ábyrga fyrir því að tryggja allar innistæður að fullu í íslenska bankakerfinu. Engu máli skipti þó bankakerfið væri tíu sinnum stærra en árleg þjóðarframleiðsla. Engu máli skipti þó þjóðin verði þar með að tryggja allar innistæður vegna Icesave og Edge reikninga Landsbankans og Kaupþings. Hér ráða ferð einkahagsmunir, ekki almannaheill.
þegar búið var að "ræna" erlenda lánadrottna gömlu bankana og gera Seðlabanka Íslands gjaldþrota þá skildi það koma í hlut launafólks á Íslandi, bænda, verkafólks og sjómanna að borga það sem upp á vantaði til að bæta að fullu þær innistæður sem íslenskir innistæðueigendur og fjárfestar töpuðu í gjaldþroti íslensku bankana.
Ef Ísland væri réttarríki og þingmenn ekki hagað sér eins og þjófar að nóttu þá hefðu íslenskir innistæðueigendur og fjárfestar tapað 70% til 80% af innistæðum sínum í gjaldþroti bankana.
Mikil er ábyrgð þeirra "ræningja" sem sátu á Alþingi þegar ákveðið var að gera vandamál innistæðueigenda að vandamáli íslenskra launþega og fyrirtækja. Að breyta tapi innistæðueigenda í gjöld á almenning á Íslandi.
Mikil er ábyrgð þeirra þingmanna sem heimiluðu innistæðueigendum að ganga í vasa almennings á Íslandi og sækja þangað það fé sem þessir innistæðueigendur töpuðu þegar bankarnir fóru í gjaldþrot.
Það fé sem innistæðueigendur og fjárfestar töpuðu í gjaldþroti bankana er líklega á milli 1.500 til 2.000 milljarðar. Ríkistjórn Geirs Haarde og þeir þingmenn sem sátu á þingi haustið 2008 þeim tókst að tryggja hag þessara innistæðueigenda og fjárfesta með því að "ræna" erlenda lánadrottna gömlu bankana, "ræna" Seðlabankann og með því að veðsetja almenning og fyrirtækin á Íslandi fyrir afganginum.
Til að standa vörð um þetta mikla "rán" þá var við myndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur valin maður sem bankamálaráðherra sem var þá nýhættur í stjórn Félags fjárfesta eftir 8 ára setu.
Til að kóróna herlegheitin kom svo Goðmundur kóngur á Glæsivöllum og lýsti því yfir í frægasta sjónvarpsviðtali eftirstríðsáranna að íslenska "bankaránið" hafi heppnast vel og við Íslendingar myndum hagnast gríðarlega á gjörningnum öllum. Hálf þjóðin og heimurinn allur stóð á öndinni þegar Goðmundur kóngur á Glæsivöllum toppað flesta sjóræningjasoldána þeirra Alsírbúa.
Fátt hefur breyst í aldanna rás. Stórbændur á Norðurlöndunum og soldánarnir í Alsír sendu húskarla sína í ránsferðir um víða veröld hér á öldum áður. Okkar tíma "útrásarvíkingar" eru okkar tíma húskarlar. Okkar tíma "stórbændur" og "soldánar" heita í daga innlánseigendur / fjárfestar / auðmenn og svo aftur ráðherrar.
Hagsmunabandalag okkar helstu stjórnmálamanna og auðmanna hefur breytt okkar samfélagi úr því að vera friðsælt bænda- og fiskveiðisamfélagi í það að vera "ræningjabæli" þar sem lög og réttur skiptir engu máli þegar hagsmunir auðmanna eða okkar æðstu stjórnmálamanna er annars vegar.
Ljóst er að þessi ríkisstjórn hefur slegið skjaldborg um þetta stærsta "rán" Íslandssögunnar og ætlar sér að verja "þjófnaðinn" með öllum ráðum. Í kvöldfréttum fékk bankamálaráðherrann klapp á kollinn frá forsætisráðherra fyrir að standa sig vel í að verja "ránið" og vinna og stuðla að því að í stað ólöglegrar gengistryggingar verði teknir upp okurvextir. Eftir 8 ár í stjórn Félags fjárfesta klikkar bankamálaráðherrann ekki á aðalatriðunum.
Vonandi að komandi Stjórnlagaþing komi á þeim réttarbótum sem þarf þannig að hér komist á svipað réttarríki og aðrar þjóðir Evrópu búa við. Réttarríki þar sem ríkisvaldið kemst ekki árum saman upp með mannréttindabrot og þingmen breyta ekki grundvallarþáttum í lögum samfélagsins á skyndifundum á nóttunni. Samfélag þar sem stjórnvöld og auðmenn í hagsmunabandalagi komast ekki upp með "rán" og "gripdeildir" og hafa ekki umboð til að veðsetja samfélag okkar með þeim hætti sem hér var gert.
Myndir: Í garði í Reykjavík
![]() |
Krafðist skýringa frá Seðlabankanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2010 kl. 00:54 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 29. júlí 2010
Hvalfjarðargöngin frá upphafi aldrei uppfyllt alþjóðlegar öryggiskröfur.
Áður en hafist var á gerð Hvalfjarðargangana fór fram lífleg umræða um göngin og gerð þeirra. Í þeirri umræðu bentu fjölmargir á þá staðreynd að þau göng sem til stóð að gera undir Hvalfjörðinn uppfyltu ekki þær öryggiskröfur sem gerðar voru á þeim tíma til slíkra botnganga. Síðan þá hafa þessar öryggiskröfur aukist enn frekar.
Þeir sem stóðu að gerð Hvalfjarðarganga völdu að nota sem forskrift fyrir þessum göngum einhverjar gamlar norskar reglur sem þeir grófu upp. Reglur sem þá þegar voru orðnar úreltar í Noregi. Eftir þessum gömlu úreltu norsku reglum voru göngin síðan gerð. Þess vegna hafa þessi göng aldrei staðist neinar alþjóðlegar reglur sem gilda um öryggismál í svona göngum.
Vegna þess að menn menn gáfu sér mikinn afslátt frá þessum alþjóðlegu öryggiskröfum þá tókst mönnun að sýna fram á að göng voru ódýrari leið til að þvera Hvalfjörðinn en þvera hann með brú.
Ef göngin hefðu ekki verið gerð í samræmi við löngu úreltar norskar kröfur en miðað við þær alþjóðlegu kröfur sem giltu í Evrópu eða Bandaríkjunum á sínum tíma þá hefði brú verið ódýrari kostur við þverun Hvalfjarðar.
Eftir stendur sú staðreynd að gerð Hvalfjarðarganga er ein misheppnaðasta einkaframkvæmd sem farið hefur verið í hér á landi. Í fyrsta sinn sem öðrum en Vegagerðinni var falin slík jarðgangna- og vegagerð þá fóru þessir "einkaaðilar" og byggðu og hafa rekið verst gerðu og hættulegustu jarðgöng í Evrópu ef ekki í heiminum.
Það að við skulum vera að reka hér í "einkaframkvæmd" einhver hættulegustu jarðgöng í heimi er klúður á borð við það hvernig staðið var að einkavæðingu bankana á sínum tíma.
Að svindla sér undan öryggiskröfum með þessum hætti í þeim tilgangi að spara fé kann aldrei góðri lukku að stýra.
Mikil er ábyrgð þeirra manna sem það gerðu.
Þar sem ég á sínum tíma tók þátt í þeirri líflegu umræðu sem fór fram um gerð Hvalfjarðarganga áður en framkvæmdir hófust þá hefur þessi umræða komið upp nokkrum sinnum á þessu bloggi. Ég vil því benda á eftirfarandi pistla hér á blogginu og á gömlu heimasíðuna mína en þar er að finna þær greinar sem ég skrifaði um málið á sínum tíma:
http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/822696/
http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/711516/
http://www.simnet.is/fhg/index_files/Page2550.htm
![]() |
Unnið að því að bæta öryggið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 2. júlí 2010
Byggingaiðnaðurinn og mannvirkjagerðin látin taka allt höggið.
Sveitarstjórnir um allt land hældu sér að því fyrir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar að hafa skorið niður nær allar verklegar framkvæmdir. Ríkisstjórnin hælir sér af því að hafa skorið niður útgjöld ríkisins um 90 milljarða. Nær allur þessi niðurskurðar er niðurskurður til framkvæmda og viðhalds.
Afrakstur þessa niðurskurðar hefur samfélagð verið að uppskera síðustu misseri með fjöldagjaldþrotum og massífu atvinnuleysi í þessum greinum.
Botnlaus verkefni bíða við hvert fótmál í byggingaiðnaði og mannvirkjagerð. Leið allra landa út úr efnahagssamdrætti og atvinnuleysi er að dæla fjármangi inn í þessar greinar. Með því skapast strax störf og velta í samfélaginu. Þessa leið hafa allar þjóðir farið nema Íslendingar. Þegar kreppir að á Íslandi þá skera opinberir aðilar framkvæmdir niður eins og enginn sé morgundagurinn. Í uppsveiflu á Íslandi bjóða opinberir aðilar endalaust út verkefni eins og engin sé morgundagurinn. Af hverju þarf íslenska stjórnsýslan að gera allt öfugt?
Lífeyrissjóðirnir eru fullir af fé og hafa beðið í rúmt ár eftir að ríkisvaldið eða sveitarfélögin bjóði þeim til samstarfs í einhver af þessum framkvæmdaverkefnum sem liggja á borðum þessara opinberu aðila og gætu skapað fullt af störfum.
Af hverju horfa ráðamenn aðgerðalausir upp á síðustu fyrirtækin á íslenska verktakamarkaðnum segja upp síðasta starfsfólkinu?
Af hverju hafa ráðamenn ekki nýtt þau tækifæri sem eru og hafa verið í boði og skapað hér ný verkefni og ný störf í samstarfi við Lífeyrissjóðina?
Það er ljóst að eitthvað mjög mikið er að í íslenskri stjórnsýslu og það vandamál nær langt út fyrir ríkisstjórnina.
![]() |
Sextíu sagt upp hjá KNH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:07 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 30. júní 2010
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið áfram ótrúverðugustu stofnanir á Íslandi.
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið voru fyrir tæpum tveim árum staðnar að einhverju ævintýralegasta rugli Íslandssögunnar. Æðstu stjórnendur þessara stofnana á þeim tíma eru nú opinberlega sakaðir um vanrækslu í starfi.
Allt bendir til að núverandi yfirmenn þessara stofnanna muni innan ekki of langs tíma verða sakaðir um, ekki vanrækslu heldur afglöp í starfi.
Ótrúlegt er að þessir menn ætli sér að grípa inn í samninga milli banka og lántakanda og taka sér það vald að breyta ákvæðum samninga milli aðila.
Ótrúlegt er að fjármálaráðherra bakkar upp þessar áætlanir.
Með því að þvæla ríkinu inn í þessa samninga, þ.e Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ákvarða aðra vexti á lánasamningunum en um er samið, þetta gæti í versta falli skapað ríkinu bótaskyldu telji lántakendur brotið á rétti sínum og þeir orðið fyrir tjóni vegna þessa inngrips stjórnsýslunnar i þessa lánasamninga.
Í besta falli sleppur ríkið frá þessum inngripi án þessa að verða dæmt bótaskylt.
Eftir standa trausti rúinn Seðlabanki og Fjármálaeftirlit þar sem ekkert virðist hafa breyst frá því löngu fyrir hrun.
Eftir þetta útspil stjórnsýslunar standa viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra veikari en nokkru sinni fyrr.
Það getur aldrei verið stjórnmálamönnum hollt að taka alltaf afstöðu með hagsmunum banka og fjármagnseigenda gegn hagsmunum almennings. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
![]() |
Miða við lægstu vexti á hverjum tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 30. júní 2010
Pétur Blöndal æfur vegna dóms Hæstaréttar.
Í framhaldi af dómi Hæstaréttar þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögleg hafa nokkrir einstaklingar gengið fram með hreint ótrúlegum hætti.
Fremstur meðal jafningja í þeirri umræðu hefur farið Pétur Blöndal. Hann skammast og rífst yfir því að þessi gengistrygging lána hafi verið dæmd ólögleg og hellir sér yfir þá sem fagna þessari niðurstöðu Hæstaréttar. Hann talar um að lántakendur hugsi bara um naflann á sjálfum sér og svo framvegis.
Pétur Blöndal gleymir eða vill ekki ræða aðal atriði í þessa máls
- Almenningur á Íslandi var óspurður neyddur til þess með neyðarlögunum sem Alþingi setti að næturlagi í október 2008 að tilstuðlan Péturs Blöndal og félaga að ábyrgjast allar innistæður í íslenskum bönkum langt umfram það sem lög og reglur gerðu ráð fyrir. Með þessu var almenningur á Íslandi látinn ábyrgjast um 2.000 milljarða hér heima plús það sem kemur út úr Icesave.
- Með þessum neyðarlögum þá var Pétur Blöndal og félagar að veðsetja Íslensku þjóðina fyrir um 2.000 milljörðum til að tryggja innistæður á Íslandi 100%. Innistæður sem almenningi á Íslandi bar og ber engin skylda til að ábyrgjast.
- Pétur Blöndal og félagar gerðu sér grein fyrir því þegar bankarnir féllu að allt það fé sem fjármagnseigendur áttu í bönkunum, það fé var horfið, tapa og glatað.
- Það er þá þegar myrkraverkin hefjast. Það er þá þegar Pétur Blöndal og félagar byrja að haga sér eins og þjófar að nóttu. Það er þá þegar Pétur Blöndal og félagar ákveða að breyta lögum og reglum og fara í það að "stela" fé til að láta fjármagnseigendur fá.
- Pétur Blöndal og félagar ákváðu að "stela" fé af lánadrottnum gömlu bankana. Það gera þeir með því að setja neyðarlög sem breyta forgangsröðum kröfuhafa þannig að innistæður verða nú allt í einu í forgangi fram yfir aðrar kröfur þegar bú bankana eru gerð upp.
- Pétur Blöndal og félagar ákváðu að "ræna" Seðlabankann öllu því fé sem hann átti enn eftir og setja það fé inn í peningamarkaðssjóði bankana, um 270 milljarða. Þessi "þjófnaður" varð til þess að Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota. Seðlabankanum og ríkinu og þar með almenningi bar engin skylda að tryggja innlán í þessum peningamarkaðssjóðum.
- Pétur Blöndal og félagar ákveða síðan að "stela" því sem þá vantar hugsanlega upp á af almenningi á Íslandi með því að gera íslensku þjóðina ábyrga fyrir öllum þessum innistæðum, það er ríkið er látið tryggja allar innistæður 100%.
Þetta nefnir Pétur Blöndal ekki þegar hann rótast yfir því að hugsanlega muni ríkið tapa 100 milljörðum falli nýju bankarnir vegna þess að gengistryggðu lánin reyndust ólögleg. Svo þvaðrar hann um það að orðspor landsins sé í hættu tapi erlendir lánadrottnar fé vegna þessa klúðurs.
Fyrir mér eru þessir 100 milljarðar smámunir miðað við það að Pétur Blöndal og félagar stóðu fyrir því að "ræna" 2.000 milljörðum af lánadrottnum gömlu bankana, Seðlabankanum og almenningi á Íslandi og létu í hendur fjármagnseigenda.
Pétur Blöndal var tilbúinn að taka þátt í því að "stela" 2.000 milljörðum og láta fjármagnseigendur fá.
Pétur Blöndal er ekki tilbúinn til að gera neitt fyrir aðra hópa í þessu samfélagi.
Það lætur ekki að sér hæða það fólk sem situr í dag á þingi í boði bankana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 28. júní 2010
AGS segir viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra að slappa af.
Eftir að hafa lesið þessa frétt af blaðamannafundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, í dag þá er AGS á mannamáli að segja eftirfarandi:
- AGS er að segja viðskiptaráðherra og seðlabankastjóra að slappa af.
- AGS er að segja þessum mönnum að í lýðræðissamfélögum er það dómsstóla að ljúka máli eins og þessu með gengistryggðu lánin, ekki ríkisstjórnarinnar.
- AGS er að segja að það er í góðu lagi fyrir efnahagslífið á Íslandi þó stór hluti bankana fari aftur í þrot. Þeir einu sem munu tapa á því eru núverandi eigendur bankana, eigendur sem engin veit hverjir eru. Allar innistæður eru tryggðar af ríkinu og engin mun því tapa fé sem þeir eiga í bönkunum þó bankarnir fari í þrot. Þess vegna er í lagi, þjóðhagslega, þó allt eða stór hluti bankana fari aftur í þrot.
- AGS er að segja að það er í góðu lagi þó tekið sé til í bankakerfinu og þetta allt of stóra bankakerfi sé skorið verulega niður með gjaldþrotum. Það sé bara jákvætt og mun engu breyta fyrir þjóðarbúskapinn. Þó einhverjir bankamenn missi vinnuna þá sé ódýrara fyrir samfélagið að hafa þá á atvinnuleysisbótum skapandi engin verðmæti en á himinháum bankalaunum skapandi engin verðmæti.
- AGS er að segja að það er jákvætt fyrir þjóðarbúskapinn að fjölskyldurnar í landinu skuli skornar niður úr skuldasnörunni sem þær eru nú í vegna þess forsendubrest sem hér varð vegna þeirrar glæpastarfsemi sem þáverandi og núverandi starfsmenn bankana stunduðu hér um árabil. Þessi skuldaaflausn muni bara hjálpa þjóðinni að ná sér á strik og auka verulega líkurnar á því að þjóðin borgi til taka peningana sem AGS lánaði þjóðinni. Þar með brosa allir hjá AGS og allir hjá vinaþjóðunum sem lánuðu okkur.
- Hvern varðar um þessa vogunarsjóði sem keyptu skuldatryggingar bankana á sent fyrir dollarann á uppboði í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn í febrúar 2009 og eiga í dag þessa banka? Það er ljóst eftir þennan blaðamannafund að AGS hefur meiri taugar til almennings á Íslandi en til eigenda þessara banka.
Í fyrsta sinn frá því AGS fór að hafa afskipti að málum hér á landi er ég sammála því sem AGS er nú að leggja til.
Ég skil vel að AGS hafi hlaupi til og haldið þennan blaðamannafund í snarhasti eftir að þeir fréttu af viðbrögðum viðskiptaráðherra, seðlabankastjóra, bankamanna og margra þingmanna og hvaða tökum þetta lið vill taka á þessum dómi Hæstaréttar rétt eins og hér á landi sé ekki neitt til sem heitir þrískipting valdsins.
Ótrúlegt að það skulu svo eftir allt vera AGS sem er sá aðili sem stendur vörð um fjölskyldurnar í landinu gegn siðblindum bankamönnum og spilltum stjórnmálamönnum sem sitja á þingi í boði bankana.
Hvern hefði grunað að það yrði svo eftir allt AGs sem sem slær skjaldborg um fjölskyldurnar í landinu á sama tíma og stjórnvöld slá, eins og alltaf áður, skjaldborg um fjármálastofnanirnar?
![]() |
Kreppunni lokið segir AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 27. júní 2010
Valkostur á hægri vængnum, Norræni íhaldsflokkurinn.
Eftir ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins þar sem samþykkt var ályktun þess efnis að draga ætti umsókn Íslands um aðild að ESB til baka þá hafa línur skýrst í íslenskri pólitík.
Sjálfstæðisflokkurinn velur á þessum landsfundi sínum að stíga enn eitt skrefið í átt frá uppruna sínum.
Sjálfstæðisflokkurinn velur að hverfa frá því pólitíska hlutverki sínu að vera sú fjöldahreyfing sem hann lengst af var, regnhlífarsamtök á hægri kanti og miðju íslenskra stjórnmála.
Sjálfstæðisflokkurinn velur sömu braut og Framsóknarflokkurinn valdi fyrir mörgum árum að gerast hagsmunasamtök fyrir ákveðna aðila, fjölskyldna og einstaklinga, flokkur sem eins og Framsóknarflokkurinn mun verða með 5% til 15% fylgi á komandi árum.
Eftir mesta afhroð sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hlotið í Alþingiskosningum frá upphafi þegar hann í síðustu þingkosningum, 2009, fékk 23% atkvæða á landsvísu þá velur flokkurinn að bíta af sér alla stuðningsmenn flokksins sem horfa jákvætt til frekari samvinnu við Evrópu.
Norræni íhaldsflokkurinn var stofnaður 1. desember 2008. Þetta er flokkur sem byggir á hugmyndafræði borgaraflokkana á hinum Norðurlöndunum, ekki síst borgaraflokkana í Danmörku. Í Danmörku hafa borgaraflokkarnir verið við stjórn í 17 ár á síðustu 25 árum. Danir búa í dag við eitt öflugasta velferðarkerfi í Evrópu ásamt öflugu atvinnulífi.
Norræni íhaldsflokkurinn vill leiða hugmyndafræði hægri flokkana á hinum Norðurlöndunum til áhrifa í stjórnmálum á Íslandi. Sjá heimasíðu Norræna íhaldsflokksins hér. (Ath í augnablikinu er bara hægt að skoða heimasíðuna með vafraranum Explorer)
Hátt í tvö hundruð manns hafa þegar skráð sig í flokkinn. Hafðu samband og taktu þátt í að búa til nýtt stjórnmálaafl á hægri væng Íslenskra stjórnmála.
![]() |
Óþarfi að sundra flokksmönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook