Hvalfjarðargöngin án kampavíns

14Þar sem umræður um Hvalfjarðargöngin ber upp með reglulegu millibili hér á blogginu mínu þá vil ég minna á eftirfarandi atriði sem ég var og er enn ósáttur við varðandi þessi jarðgöng.

Ég sá aldrei skynsemina í því hvar gögnunum var valin staður. Að velja Hnausaskersleiðina sem var dýrari kosturinn skildi ég aldrei. Ef Kiðafellsleiðin hefði verið valin hefðu göngin orðið kílómetri styttri og leiðin frá Reykjavíkur til Akureyrar hefði stytts um níu kílómetra. Af hverju vildu menn ekki ódýrari göng og styttingu leiðarinnar til Akureyrar?

Ég var heldur ekki sáttur við þá miklu áhættu sem var tekin með því að hefja gangnagerð undir fjörðinn án nauðsynlegra jarðtæknirannsókna. Aðeins var boruð ein rannsóknarhola í landi að sunnanverðu. Hvergi í heiminum hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla framkvæmd á grundvelli jafn lítilla rannsókna. Vegagerðin hefur verið að skoða möguleika á því að þvera Kleppsvíkina með göngum. Þar er gert ráð fyrir að bora 15 til 20 rannsóknarholur á þeirri leið. Ég er sáttur við það. Þar er staðið rétt að undirbúningi. Hitt var bull.

Verktakar sem ætluðu að bjóða í Hvalfjarðargöngin á sínum tíma hættu við, töldu verkið og áhættusamt vegna þeirra takmörkuðu rannsókna sem lágu fyrir. Þessi mikla áhætta þýddi að þau tvö tilboð sem bárust voru mjög há. Sprengdur rúmeter í Hvalfjarðargöngunum var til dæmis 50% dýrari en rúmeterinn í aðrennslisgöngum Sultartangavirkjunar sem unnin voru á svipuðum tíma.

Að ekki sé minnst á þann gríðarlega fjármagnskostnað sem fallið hefur aukalega á þetta verk vegna þess að það er eignarlaust félag sem er eigandi þeirra og tekur öll lánin. Ef Vegagerðin hefði verið falin gerð gangana þá hefði þessi fámagnskostnaður verði minnst tvöfalt lægri. Vegagerðin/ríkið hefði fengið miklu hagstæðari lánakjör en hlutafélag sem var án ríkisábyrgðar að gera göng. Kostnaður  almennings sem borgar þessi göng, hefði verið miklu lægri ef staðið hefði verið að gerð þeirra með hefðbundnum hætti og þau fjármögnuð gegnum fjárlög.

Þá skildi ég aldrei að gerð gangana væri kölluð einkaframkvæmd. Þegar Ríkið, Vegagerðin, sveitarfélögin í Hvalfirði og Sementsversmiðjan sem var 100% í eigu ríkisins stofna saman hlutafélag um að gera jarðgöng er það þá "einkaframkvæmd"? Ríkið lét síðan þetta félag sitt fá án útboðs einkarétt á þverun Hvalfjarðar og heimild til gjaldtöku að vild.

Rangar eru þær fullyrðingar að ríkið hafði ekki haft efni á að fjármagna þessi göng í gegnum fjárlög. Á þeim árum sem liðin eru frá gerð þessara ganga þá er ríkið búið eða er að gera fern önnur göng og í ofanálag borga upp allar sínar skuldir og fylla lífeyrissjóð opinberra starfsmanna af peningum. Sjóð sem átti að vera gegnumstreymissjóður. Nei, nægir peningar voru til og hafa verið til að fjármagna þessi göng með hefðbundnum hætti ef vilji hefði verið fyrir hendi.

Verst af öllu finnst mér þó að þarna skuli hafa verið hent út í ystu myrkur þeim gildum sem allar okkar framkvæmdir í vegagerð höfðu byggst á. Það að taka upp veggjald á þessum eina stað á öllu landinu er í algjörri andstöðu við allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður staðið fyrir í Íslenskri pólitík. Á grundvelli okkar gömlu gilda var innheimt gjald á eldsneyti og bíla. Því dýrari sem bíllinn var og því meir sem ekið var því meira er borgað í skatt. Þessar skatttekjur hafa verið það miklar að þær hafa einnig verið notaðar í annað. En á grundvelli þessa skattstofns og á grundvelli þess félagslega jafnréttis sem hér var í hávegum haft voru allar brýrnar yfir Svartá í Svarárdal byggðar. Einnig brúin yfir Jökulsá Austari að einum bæ, Merkigili. Sömuleiðis fjallvegurinn að fjórum bæjum á Rauðasandi fyrir Vestan. Öllum þessum gildum var fórnað þegar "Íslenski Thatcherisminn" var innleiddur í vegagerð á Íslandi. Ég hef frá upphafi hafnað þessum "Thatcherisma" og margir hafa hafnað mér vegna þess. Það verður svo að vera.

Það fellst mikið félagslegt ranglæti í því að skattleggja með þessum hætti einn landshluta umfram aðra. Slík mismunun er óþolandi. Þennan skatt átti aldrei að leggja á og þennan skatt á að fella niður strax. Þar eru siðblindir menn sem sjá ekki ranglæti í þessari gjaldtöku.

Þá leyfi ég mér að benda þeim sem áhuga hafa á að lesa meira um "Hvalfjarðargöngin án kampavíns" á annan stað hér á blogginu mínu þar sem þessi göng eru til umræðu og á gömlu heimasíðuna mín en þar er að finna þessar fimm greinar sem ég hef skrifað um málið.

http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/711516/

http://www.simnet.is/fhg/index_files/Page2550.htm

 

Myndin hér fyrir ofan er af ísbirni sem hangir inni í flugstöðinni í Kulusuk, Grænlandi. Hann var skotinn fyrir utan flugstöðina veturinn 1995 eftir að hafa brotið fjórðunginn af flugbrautarljósunum á flugvellinum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband