Hvalfjarðargöngin

Einn að þeim sem heimsótti bloggið mitt mynnti mig góðlátlega á skrif mín um Hvalfjarðargöngin hér á sínum tíma. Í framhaldi af því þá er rétt að ég á þessum nýja vettvangi sem „bloggheimurinn“ er minni á mína afstöðu. 

Ég sá aldrei skynsemina í því hvar gögnunum var valin staður. Að velja Hnausaskersleiðina sem var dýrari kosturinn skildi ég aldrei . Ef Kiðafellsleiðin hefði verið valin hefðu göngin orðið kílómetri styttri og leiðin frá Reykjavík til Akureyrar hefði stytts um níu kílómetra.  Ég var ekki heldur sáttur við þá miklu áhættu sem var tekin með því hefja gangnagerð undir fjörðinn án nauðsynlegra jarðtæknirannsókna. Aldrei skildi ég heldur að þessi framkvæmd væri kölluð einkavæðing. Það er ekki einkavæðing þegar opinberir aðilar eins og Ríkið, Vegagerðin, Sementsverksmiðjan (100% ríkisfyrirtæki) og sveitarfélögin í Hvalfirði stofna saman félag og láta það sjá um gerð ákveðins samgöngumannvirkis. Ríkið lét síðan þetta "opinbera" félag fá án útboðs einkarétt á þverun Hvalfjarðar og heimild til gjaldtölu að vild.  

Síst af öllu skildi ég þó og skil ekki enn af hverju menn samþykktu að þarna væri tekið upp veggjald. Gjald sem er í algjörri andstöðu við grundvallarhugmyndir okkar sem þjóðar og í algjörri andstöðu við allt sem við höfum hingað til gert í vegagerð. 

Það er sátt um það meðal þjóðarinnar að vegagerð skuli greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Fjármangið til vegagerðar er fengið með því að leggja gjald á bifreiðar og eldsneyti. Því dýrari sem bíllinn er og því meira sem þú eyðir af eldsneyti því meira borgar þú í skatt. Sanngjarnt og réttlátt.  

Þessi hugmyndafræði hefur verið hornsteinn uppbyggingar íslenska vegakerfisins. Á grundvelli þessarar hugmyndafræði þá var gengið í að tengja saman sveitir landsins og vegur skyldi lagður heim á hvern bóndabæ. Í þeim anda voru allar brýrnar yfir Svartá í Svartárdal í Austur Húnavatnssýslu byggðar og brúin yfir Jökulsá Austari að einum bæ, Merkigili, vegurinn niður á Rauðasand. Svona má áfram telja "dýrar" vegaframkvæmdir sem gerðar voru fyrir fáa en var samt ráðist í á grundvelli þess jafnréttis og jafnræðis sem hingað til hafði stjórnað gjörðum ríkisins. Þessum gömlu góðu gildum var hent út í ystu myrkur við gerð Hvalfjarðarganga og hugmyndafræði „íslenska Thatcherismanns“ innleidd í vegagerð á Íslandi.  

Ég hef frá upphafi hafnað þessum „Thatcherisma“. Ég vil að gömlu gildin ráði áfram för. Þjóðin er búin að hafna þessari hugmyndafræði. Þeir sem stóðu fyrir þessari gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum hafa verið gerðir afturreka með hana þegar þeir á undanförnum árum hafa verið að reyna að koma á slíkri gjaldtöku við önnur samgöngumannvirki. Þessi hugmyndafræði á ekki heima hér. Nóg borga landsmenn samt fyrir notkun á sínum bifreiðum. 

Rétt er líka að benda á að forystumennirnir í héraði sem stóðu að gerð þessara gangna röðuðu sér allir á spenana hjá Speli, eru þar ýmist í vinnu eða í stjórn. Almenningur er látin greiða laun þeirra með veggjaldinu.

Það er mikið félagslegt ranglæti falið í því að skattleggja með þessum hætti einn landshluta umfram aðra. Slík mismunun er óþolandi. Þetta veggjald átti aldrei að setja á og það á að fella það niður strax. Það eru siðblindir menn sem ekki sjá ranglætið í þessari gjaldtöku. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Góður pistill

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.11.2008 kl. 18:15

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þvert á móti Björn, ég vil halda þeim skrifum mínum til haga. Ekki síst vegna þess að það stendur enn hvert orð sem þar er sagt. Þessar greinar eru aðgengilegar á þessari síðu: http://www.simnet.is/fhg/. Þar er líka að finna fleiri greinar sem ég hef skrifað.

 

Það er rétt að ég notaði orðið „einkavæðing“ hér að ofan en þessir opinberu aðilar kölluðu þessa framkvæmd sína „einakframkvæmd“ segir þú. Það er samt jafn vitlaust að nota orðið „einkaframkvæmd“ yfir framkvæmdir félags sem er 100% í eigu opinberra aðila. Félags sem fær án útboðs einkaleyfi á þverun Hvalfjarðar. Að nota orðið "einkaframkvædm" í þessu samhengi er bara enn eitt „bullið“ (þú fyrirgefur orðbragðið) sem einkennt hefur þessa framkvæmd frá upphafi.

 

Það er rétt að ég gagnrýndi harðlega þær takmörkuðu rannsóknir sem gerðar voru áður en verkið var boðið út. Sú gagnrýni var réttmæt. Aðeins var boruð ein rannsóknarhola í landi að sunnanverðu. Að öðru leiti var ekkert vitað hvað menn voru að fara út í. Hvergi í heiminum hefur verið ráðist í sambærilegt verkefni á grundvelli jafn takmarkaðra rannsókna. Áhættan var gríðarleg. Og framkvæmdin stóð ekkert sérlega vel þegar  tæplega sextíu gráðu vatn streymdi inn í göngin á tímabili.

 

Verktakar sem ætluðu að bjóða í verkið í upphafi hættu við því þeir töldu verkið og áhættusamt vegna þess að ekkert var vitað um hvernig bergið var sem átti að bora í gegnum. Þetta þýddi að þau tvö tilboð sem bárust voru með háu öryggisálagi. Með öðrum orðum menn gáfu há tilboð. Það að rannsaka nánast ekkert varð til þess að verkið varð óþarflega dýrt. Rúmeterinn í Hvalfjarðargöngunum var um 50% dýrari en rúmeterinn í aðrennslisgöngunum í Sultartangavirkjun sem voru unnin á svipuðum tíma.

 

Að ekki sé minnst á allan þann gríðarlega fjármagnskostnað sem fallið hefur á þetta verk. Fjármagnskostnaður sem ekki hefði fallið til ef Vegagerðinni hefði verið falin framkvæmd verksins. Að ekki hafi verið til fjármagn var fyrirsláttur í ljósi þess sem gerðist í framhaldinu í vegagerð á Íslandi. Göngin fyrir norðan og austan, tvöföldun Reykjanesbrautar, allar skuldir ríkissjóð greiddar upp á þessum árum o.s.frv. o.s.frv.

 

Einn af valkostunum að þvera Kleppsvíkina yfir í Grafarvoginn er að gera það með göngum. Það er mikill munur á hvernig Vegagerðin ætlar að standa að þeirri framkvæmd verði hún valin. Þar á að bora 15 til 20 rannsóknarholur þannig að þar vita þeir sem munum gefa tilboð í þá framkvæmd hvað mætir þeim þegar þeir fara að bora þau göng.

 

Það var nauðsynlegt að þvera Hvalfjörðinn. Það er ein hagkvæmasta framkvæmd í vegagerð á Íslandi. Það er hins vegar mjög gagnrýnivert hvernig staðið var að þeirri þverun. Sú leið sem var valin var sú dýrasta og óhagkvæmasta sem hægt var að velja.

 Nei, ég er ekki búinn að lesa þessa bók hans Atla. Hef bara haft skemmtilegri hluti að gera. Atli Rúnar er búinn að vera leigupenni Spalar frá upphafi og án efa þegið fyrir það góð laun. Ég fékk hann einu sinni til að skrifa um byggingaverkefni á Grænlandi sem við vorum að ljúka. Atli Rúnar skrifar það sem honum er borgað fyrir að skrifa. Að Atli Rúnar telji nauðsynlegt að gefa út sérstaka bók um þetta mál sýnir best að þeir telja sig komna upp við vegg með þessi göng sín og þurfi nauðsynleg að reyna að bæta ímynd þeirra. 

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.11.2008 kl. 18:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband