Sómi Íslands, sverð og skjöldur?

Verður það með þessum orðum sem forseta Íslands verður minnst um ókomin ár?

18122009223Eða verður hans minnst með bölvi þeirra Íslendinga sem enn standa óbugaðir í þessum efnahagshörmungum og neita að lúta nauðasamningum, þvingunum og fordæmalausum hótunum Breta og Hollendinga?

Það er ekki oft sem forystumenn þjóða standa frammi fyrir málum eins og Icesave. Það er ekki oft sem þjóðarleiðtogar þurfa og fá tækifæri til að taka ákvarðanir eins og þessa.

Ákvörðun forseta getur breytt valdahlutföllum á Íslandi. Ákvörðun forseta getur fært framkvæmdavaldið nær forsetaembættinu og þar með nær þjóðinni. Í tíð núverandi forseta hefur embættið aftur öðlast hluta af því valdi sem því er ætlað samkvæmt stjórnarskrá og er orðið líkara embættinu eins og það var í tíð Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar. Núverandi forseti tók við embættinu úr höndum tveggja mjög atkvæðalítilla forseta sem litu ekki til  stjórnarskrárinnar sem hinn eina grundvöll sinna embættisfærslna. Þessir forsetar létu telja sér trú um að einhverjar "hefðir, venjur og almennur skilningur" ættu fremur en stjórnarskráin að móta starf forseta og forseti ætti ekki að þvælast fyrir starfi ráðherra og Alþingis.

Þessir fyrrum forsetar stuðluðu að því að embættið varð að valdalausu "sameiningartákni". Afleiðingar þessa er að valdamesta embætti landsins þar sem þjóðin kýs í beinni kosningu æðsta yfirmann framkvæmdavaldsins, þetta embætti var nánast eyðilagt. Vegna þessa komst hér á ráðherraræði sem á sér nánast ekki fordæmi í hinum vestræna heimi. Samkvæmt stjórnarskrá þá er valdinu þrískipt. Alþingi fer með löggjafarvaldið, dómstólar fara með dómsvaldið og forseti sem kosinn er í beinni kosningu á fjögurra ára fresti fer með með framkvæmdavaldið. Þrettánda grein stjórnarskrárinnar hljómar síðan svo "Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt".

Við skulum átta okkur á tvennu. 

  • Samkvæmt stjórnarskrá þá kjósum við á fjögurra ára fresti alþingismenn til að fara með löggjafarvaldið. 
  • Samkvæmt stjórnarskrá þá kjósum við á fjögurra ára fresti forseta til að fara með framkvæmdavaldið.

Samkvæmt Stjórnarskrá er Alþingi og alþingismönnum ekki falið af fara með framkvæmdavaldið. Í Alþingiskosningum er ekki verið að kjósa einstaklinga til að fara með framkvæmdavaldið. Þingmenn hafa hins vegar viljað sölsa undir sig vald forsetaembættisins og forsetaembættið hefur með aðgerðarleysi sínu síðustu áratugi heimilað það "valdarán". Stjórnmálaflokkarnir hafa í framhaldi í raun tekið þetta vald til sín frá forsetaembættinu og þar með fólkinu í landinu því það eru í raun stjórnmálaflokkarnir og formenn þeirra sem skipa ráðherrana.

Það er ekkert sem segir að ráðherrar þurfi að vera alþingismenn og við skulum átta okkur á því að forsetinn hefur samkvæmt stjórnarskrá fulla heimild til að skipa hér utanþingsstjórn. Slík utanþingsstjórn gæti starfað hér áratugum saman eða þar til nýr forseti yrði kosinn. Nýr forseti gæti síðan valið að halda áfram með ráðherra sem ekki væru þingmenn eða blöndu af þingmönnum og utanþingsmönnum líkt og nú er. Það er í krafti þessara valda forsetans að hér eru nú tveir ráðherrar sem ekki eru þingmenn, núverandi dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra.

Þegar menn krefjast þess í dag að endurnýja þurfi stjórnarskrána og hér verði sett á stjórnlagaþing til að vinna að slíkum málum fyrir "Nýja Ísland" þá þurfum við að átta okkur á því að við erum með stjórnarskrá þar sem gert er ráð fyrir öðrum valdahlutföllum og annarskonar innviðum en við höfum í dag. Það er bara ekki verið að fara eftir þessum leikreglum stjórnarskrárinnar. Á undangengnum áratugum hafa stjórnmálamenn, flokkarnir og ráðuneytin / ráðuneytisstjórar svipt forsetaembættið öllum völdum og krafist þess að forsetinn yrði valdalaus þjóðhöfðingi og sameiningartákn. Embættið hefur verið sett í stofufangelsi á Bessastöðum og svipt málfrelsi. Sjá nánar þennan pistil minn:

Aðförin að forsetaembættinu - Embættið svipt málfrelsi og er í stofufangelsi á Bessastöðum

Afleiðing þessa er að almenningur er hættur að sjá tilganginn með þessu forsetaembætti og vill afnema það. Stjórnmála- og embættismenn ýta undir þessa kröfu þó það skerði stórlega það beina lýðræði sem við þó höfum í dag að geta kosið handhafa framkvæmdavaldsins í beinni kosningu. Forsetaebmættið hefur alltaf verið valdasjúkum stjórnmála- og embættismönnum mikill þyrnir í augum.

Núverandi forseti hefur á sínu fjórða og hugsanlega síðasta kjörtímabili tækifæri til þess að gera þrennt:

  • Færa þjóðinni að gjöf endurnýjað og öflugt forsetaembætti sem er mótvægi við það mikla ráðherraræði sem hér hefur ríkt. Forsetaembætti sem hefur burði til að halda í eyrun á þeim ráðherrum sem hér munu komast til valda á komandi árum. Burði sem forsetaembættið hafði ekki þegar núverandi forseti settist í embættið.
  • Slá niður í eitt skipti fyrir öll þann orðróm að þegar forseti hafnaði Fjölmiðlalögunum þá hafi það eingöngu verið vegna persónulegrar óvildar í garð þáverandi forystumanna í ríkisstjórn. Þegar allt moldviðrið hefur sest eftir áratug og allir sjá að núverandi forseti synjað lögum hvort heldur þau komu frá hægri stjórn eða vinstri stjórn, þá sjá allir að synjun lagana var af þeim ástæðum sem forseti tilgreindi. Einstaka persónur höfðu ekkert með það að gera.
  • Standa með þeim 70% þjóðarinnar sem vill taka slaginn og berjast gegn kúgun og ofríki þeirra þjóða sem hafa sett okkur á bekk með hryðjuverkamönnum í þeim tilgangi að lítillækka okkur og koma á okkur höggi fjárhagslega og alþjóðlega. Standa með þeim 25% atkvæðabærra manna og kvenna sem hafa undirritað áskorun til forseta að hafna nýjustu útgáfunni af Icesave ábyrgðunum. Standa með þeim 25% atkvæðisbærra manna og kvenna sem segir: Hingað og ekki lengra, annað hvort sætta Bretar og Hollendingar sig við Icesave lögin og ábyrgðirnar sem Alþingi samþykkti í ágúst sl. og forsetinn áritaði eða Bretar og Hollendingar verða að stefna þessu einkaréttarmáli fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Vegna þessa Icesave máls eru þessir sólbjörtu janúardagar nú í ársbyrjun 2010 orðnir að ögurstund fyrir forsetaembættið. Vegna þessa máls gæti forsetinn orðið að ástsælasta forseta þjóðarinnar frá upphafi í augum vel flestra Íslendinga. Vegna þessa máls gæti forsetinn líka orðið sá hataðasti.

Á nýjársdag veitti forsetinn valinkunnum einstaklingum Fálkaorðuna fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóðar. Samþykki forsetinn fyrirliggjandi Icesave lög þá mun stór hluti þjóðarinnar aldrei vilja að núverandi forseta verði veitt "Fálkaorðan".

Synji forsetinn lögunum staðfestingar þá mun stór hluti þjóðarinnar ekki bara vilja veita forsetanum "Stórriddarakrossinn", einkunnarorðin í fyrirsögn þessa pistils yrðu hans.

Stór hluti þjóðarinnar mun þá minnast núverandi forseta um ókomin ár með orðunum:

Sómi Íslands, sverð og skjöldur.

 

Mynd: Kerlingafjöll í des. 09, Hofsjökull og Kjölur í baksýn. 

 


mbl.is Fundi lokið á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Þetta er svo satt!  Dagsatt. 

Jón Ásgeir Bjarnason, 3.1.2010 kl. 00:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband