Skora á ríkisstjórn og Alþingi að stoppa þessa ósvinnu.

Það er ekki hægt að horfa aðgerðarlaus upp á að nú í október eiga að fara fram 250 nauðungaruppboð á íbúðum sem eigendur búa sjálfir í og eiga þar sitt lögheimili. 

IMG_0060Væntanlega hefur allt þetta fólk keypt íbúðir sínar í góðri trú og farið í greiðslumat hjá bönkunum.

Vegna glannaskapar í rekstri íslensku bankana þá verður hér hrun, allar forsendur bresta, atvinnumissir, launalækkanir, lán hækka um 40% (verðtryggð) til 100% (gengistryggð) og fjöldi fólks getur ekki staðið í skilum.

Þegar hafa á árinu um 1.200 fjölskyldur misst heimili sín og búist er við að á milli 2.000 til 3.000 manns bætist í þann hóp á næstu mánuðum og misserum. Öll þessi heimili eru full af börnum og unglingum.

Ég neita að trúa því að forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og aðrir ráðherrar og þingmenn ætli að halda áfram að sitja aðgerðarlaus og horfa á allt þetta fólk borið út úr húsum sínum vegna þessa forsendubrests sem hér varð.

Í skil ekki af hverju þessi mál eru ekki leyst þannig að ekki þurfi að koma til nauðungaruppboðs og útburðar. Það eru ótal leiðir til þess ef einhver einasti vilji er fyrir hendi. Hvað liggur svona ofboðslega á að losa þessar eignir. Lánin eru öll til 25 til 40 ár. Af hverju ekki frysta þessi lán í 4 til 6 ár eða bara borga af þeim vexti og lengja lánstímann í 60 til 80 ár eins og svo algengt er með fasteignalán á hinum Norðurlöndunum.

Af hverju finna menn ekki lausnir í dýpstu kreppu Íslandssögunnar þannig að ekki þurfi að bera öll þessi börn út á götu og setja foreldra þeirra í ævilangt gjaldþrota þar sem þau losna aldrei við skuldirnar?

Til hvers?

Eitt veit ég og það er að þessi fantatök bankana, nauðungaruppboð og fjöldagjaldþrot verða ekki liðin. Það mun aldrei verða fyrirgefið ef henda á öllum þessum fjölskyldum á götuna og allt þetta fólk gert gjaldþrota.

Það mun enda með því að þessar óeirðir munu stigmagnast og þá er það bara spurning um tíma hvenær kveikt verður í Alþingsihúsinu, Stjórnarráðinu, bankaútibúum eða aðrar byggingar verða brenndar.

Við vitum að fjármálaráðherra lofaði bankamönnum háum bónusum eftir því hve miklu þeir næðu út úr lánasöfnum bankana. Það er ljóst að bankamenn ætla sér feita bónusa.

Ég skora samt á þá og á sýslumenn og starfsmenn þeirra, ekki taka þátt í þessum aftökum. 

Segið bara NEI, við tökum ekki þátt í þessu.

Ég skora á ríkisstjórn og Alþingi að stoppa þessa ósvinnu.

Göngustígurinn upp Esju.



mbl.is „Viðhorf bankanna hafa breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur ertu Friðrik, þúsundir manna hefðu getað skapað sér skemmtileg og vel launuð störf,

hefði Jóhanna staðið við loforð sem hún gaf Þjóðinni, frjálsar handfæra veiðar .

15.000. manneskjur eru án vinnu, afhverju efnir Jóhanna ekki þetta loforð.

Aðalsteinn Agnarsson, 6.10.2010 kl. 01:11

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sælir hér ræður ríkum mafía og okkur er skylt að vinna á henni! Stjórnvöld eru ekki að standa sig né stjórnarandstaða þegar kemur að bankamafíunni því hún er varin með löggjafanum og dómskerfinu!

Sigurður Haraldsson, 6.10.2010 kl. 01:34

3 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Bankarnir eru alveg jafn rotnir og áður.  Þeir afskrifa fyrir vildarvini en keyra aðra í þrot með mikilli hörku.  Þeim er svo nákvæmlega sama hvort að fólk missi vinnuna eða húsnæðið og fari á götuna.  Þeir hlægja að börnunum sem missa heimilin sín og skála fyrir því með reglulegu millibili.  Stjórnendum bankana gæti ekki verið meira sama um þetta fólk sem er "pakk" í þeirra augum.  

Guðmundur Pétursson, 6.10.2010 kl. 02:34

4 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Fantabrögðin, sem þú nefnir svo réttilega voru ákveðin og undirskrifuð í áætlun 2 frá AGS.  Nú nú hugsaði maður með sér, þau (Steingrímur og Jóhanna) hljóta að hafa eitthvað bitastætt upp í erminni í sumar til að milda fantaskapinn svo um munar.

Hvað gerist, koma þau bæði út úr helli sínum með stírurnar í augunum, gapandi yfir að  almenningur hefur nú sagt í þverpólitískri samstöðu; " hingað og ekki millimeter lengra".

Stundum velti ég fyrir mér hvort þé séu með eitthvað ofursnjallt plott til að stinga upp í örþreyttan landann á ögurstundu, en nú hef ég meira segja misst þá von líka! ..... sem magnar vonleysið satt best að segja.

Horfði á unga yndisfríða íslenska stúlku með hvíta húfu í Kastljósi í kvöld, lýsa tilfinningum sínum.  Þó að snoppufegurð hennar skiptir svo sem ekki máli, þá finnst mér hún vera aldeilis hnarreistur fulltrúi sinnar kynslóðar.  Það er það sem ég óttast mest.  Hún er farin við fyrsta tækifæri.

Takk annars fyrir hófsemi og raunsæi sem er fágætur eiginleiki. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.10.2010 kl. 03:58

5 identicon

Hnitmiðað og eins og talað út úr mínu hjarta, hvert einasta orð. Hér er að eiga sér stað, beint fyrir framan nefið á okkur, grófasta rán sögunnar og mun grófara en þegar útrásarvíkingarnir ryksuguðu bankana.

Og ráðamenn okkar á löggjafaþinginu sitja bara og horfa á.

Við VERÐUM að koma þessu liði út og fá fólk á þing sem stöðvar þessa ósvinnu!

                                   

Hólímólí (IP-tala skráð) 6.10.2010 kl. 04:09

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband