Stjórnlagaþing - Forseti tilnefnir ráðherra að franskri / finnskri fyrirmynd.

Í lýðveldum Evrópu þá eru það forsetarnir sem kosnir eru beinni kosningu af þjóðinni sem ráða því hverjir verða ráðherrar, ekki þingið eða þingmenn.

Í lýðveldum Evrópu fer forsetinn með framkvæmdavaldið, hann skipar ráðherra, hann gerir samninga við erlend ríki, skipar sendiherra og er æðsti yfirmaður hersins, ekki þingið eða þingmenn.

Þingið sinnir löggjafarhlutverkinu, hefur eftirlit með framkvæmdavaldinu og sér um mikilvægasta þáttinn sem eru fjármálin. Þingið er með fjárveitingarvaldið og skammtar framkvæmdavaldinu fé.

Í finnsku stjórnarskránni þá fær þingið reyndar að kjósa um forsætisráðherrann sem forsetinn tilnefnir. Hafni þingi forsætisráðherraefni forseta þá tilnefnir forseti annað forsætisráðherraefni. Hafni þingið líka þeim einstakling þá fær þingið að kjósa milli þessara tveggja einstaklinga. Sá þeirra sem fær þá fleiri atkvæði, hann verður forsætisráðherra. Þingmenn verða ekki ráðherrar í þessum lýðveldum Evrópu. Evrópskir ráðherrar eru fagmenn sem forseti velur og felur þeim að stjórna ráðuneytunum í sínu umboði.

Íslenska stjórnarskráin er í grunninn eins og sú franska og finnska. Hér hefur hins vegar ekki verið neinn stjórnlagadómstóll til að verja stjórnarskrána og því hefur íslenska stjórnarskráin verið túlkuð út og suður af okkar valdagráðugu stjórnmálamönnum í gegnum áratugina þannig að í dag höfum við hér stjórnskipun sem byggir á einhverjum hefðum og venjum sem engin veit hverjar eru.

Jafnvel Sigurður Líndal fyrrv. lagaprófessor sagði eitthvað á þessa leið í síðasta viðtali sem ég sá hann í nú í haust:

"Það væri allt í lagi með íslensku stjórnarskrána ef það væri farið eftir henni"

Málið er að það er ekki farið eftir henni, þess vegna þarf að setja okkar nýja stjórnarskrá svipaða þeirri frönsku eða finnsku.

Sjá tengil á finnsku stjórnarskrána á ensku hér

Sjá tengil á frönsku stjórnarskrána á ensku hér

PS, ég mæli með þeirri finnsku, hún er auðlesnari fannst mér. Hugmyndafræðin er mjög svipuð, nánast sú sama.

 


Styrktartónleikarnir í Grafarvogskirkju tókust vel - forsetinn kom og borgaði fyrir sig og frú.

Styrktartónleikarnir í Grafarvogskirkju í kvöld tókust frábærlega enda tónlistarmennirnir sem komu fram og gáfu vinnu sína einvalalið. 

Gestir kvöddu ánægðir og nokkrir höfðu á orði að þetta hefðu verið einhverjir bestu tónleikar sem þeir höfðu farið á. Þannig hefur þetta reyndar verið á hverju ári frá því við byrjuðum með þessa tónleika.

Við í Lionsklúbbnum Fjörgyn höfum í þessi átta ár sem við höfum haldið þessa tónleika alltaf sent tvo boðsmiða á Bessastaði. Forsetinn og frú hafa, fyrir utan eitt ár, alltaf mætt og alltaf kemur Ólafur og borgar fyrir þau bæði eins og aðrir gestir...    Hann fær reyndar sæti á góðum stað  :)

tónleikar 2010 veggspjald

11112010901


Uppselt á Stórtónleikana í Grafarvogskirkju

Uppselt á Stórtónleikana í Grafarvogskirkju sem fram fara annað kvöld. Fyrir tónleikunum stendur Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi. "Landslið" íslenskra tónlistamanna kemur fram á þessum tónleikum og gefa allir þessir listamenn vinnu sína. Ágóðinn rennur til BUGL og í Líknarsjóð Fjörgynjar.

Meðal þeirra sem fram koma eru

Buddy Holly sönghópur (Ingó, Sjonni Brinks, Felix ofl.?)
Egill Ólafsson
Fjallabræður, kór
Gissur Páll Gissurarson 
Gréta Hergils
Gréta Salome fiðluleikari
Helgi Björnsson
Hörður Torfason
Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Ómar Ragnarsson 
Óskar Pétursson og Guðrún Gunnarsdóttir
Páll Rósinkransson
Ragnar Bjarnason
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú
Voces Maskulorum

Kynnir: Felix Bergsson
Undirleikarar: Jónas Þórir, Þorgeir Ástvaldsson

tónleikar 2010 veggspjald

 

 

 


Að loknum Þjóðfundi

Þetta var áhrifaríkur dagur fyrir okkur sem sátum Þjóðfundinn. Að taka þátt í 1000 manna fundi sem þessum er ógleymanlegt öllum þeim sem þátt tóku.

Það var ljóst strax í upphafi að allir þeir sem þarna voru komnir tóku verkefnið alvarlega. Allir lögðu sitt af mörkum og öllum var ljóst mikilvægi verkefnisins. Það var alvarleiki í loftinu þarna inni en samt voru allir léttir og samstarfið og umræðan gekk átaklaust fyrir sig. Það var eins og niðurstöðurnar yrðu til af sjálfu sér á þessum 8 manna borðum.

IMG_0072Þetta fólk sem valið hafði verið af handahófi úr þjóðskrá var sannarlega mætt til að leggja grunn að nýrri og endurbættri stjórnarskrá. Það var ljóst að allir gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi málsins.

Við borðið sem ég sat við lengstan tíma var ein kona sem hafði það á orði að ef slíkur þjóðfundur hefði verið boðaður fyrir 5 árum þá hefðu örugglega ekki komið fram jafn mikið af tillögum að breytingum á stjórnarskránni. Fyrir fimm árum hefði án efa stór hluti fundarmanna spurt: "Er bara ekki í lagi með stjórnarskrána eins og hún er?"

Ég held ég geti fullyrt að engin á fundinum í dag kom með þessi rök: "Er stjórnarskráin bara ekki í lagi eins og hún er".

Á þessum fundi komu flestir með einhverjar tillögur að breytingum og betrumbótum á stjórnarskránni og allir sögðu sitt álit með því að kjósa með þeim breytingum sem þeim leist best á.

Allt þetta fólk vildi sjá breytingar og betrumbætur á stjórnarskránni og stjórnsýslunni.

Annar borðfélagi sagið: "Ef það væri ekki fyrir Hrunið og kreppuna þá værum við ekki hér í dag að gera tillögur að endurnýjun stjórnarskrárinnar".

"Ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott" segir gamalt máltæki og ef þetta Hrun og þessi kreppa verður til þess að við fáum hér nýja stjórnarskrá með réttlátari og betri stjórnsýslu þá munu jafnvel við byggingakallarnir eiga auðveldara með að sætta okkur við að allir þessir viðskiptavinir eru farnir í þrot og mikill fjöldi starfsfélaga, vina og kunningja hefur flutt til útlanda.

Vegna þessa boðs sem ég fékk á þennan þjóðfund þá ákvað ég í framhaldi að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings.

Hvort heldur ég verð kjörinn á Stjórnlagaþingið eður ei þá er þátttaka mín á þessum fundi mér mikið og gott veganesti fyrir vikurnar fram að kosningum þann 27. nóv. nk.

Á þessum fundi lærði ég margt og á þessum fundi sá ég fullt af góðum hugmyndum hvernig betrumbæta má stjórnarskrána og stjórnsýsluna.

Um þessar hugmyndir mun ég blogga hér á þessu bloggi fram að kosningum.

Sjá einnig nánar á: www.fridrik.info

Mynd: Göngustígurinn upp Esju.

 


mbl.is Telja niðurstöður gagnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing - Forseti og Alþingi skipi dómara.

Eins og stjórnskipunin hefur þróast undanfarna áratugi þá er mjög óljóst hve víðtækt valdsvið framkvæmdavaldsins er. Í dag er flestum ljóst að framkvæmdavaldið stjórnar því sem gerist á Alþingi og þingið er í raun afgreiðslustofnun og nánast formsatriði að láta þingið samþykkja það sem ríkisstjórnin / ráðherrar ákveða.

IMG_0068Svipað en þó á annan hátt er upp á teningnum varðandi dómsvaldið. Dómsvaldið er tengt framkvæmdavaldinu sterkum böndum. Til skamms tíma var Hæstiréttur með skrifstofur sínar í Arnarhváli og starfsmenn stjórnarráðsins og Hæstaréttar deildu sama húsnæðinu og sömu kaffistofunni og bílastæðum.

Þegar ákveðið var að byggja yfir Hæstarétt þá vildi framkvæmdavaldið ekki missa dóminn langt frá sér og bílastæðið við Arnarhvál var tekið undir hús Hæstaréttar. Hús Hæstaréttar var byggt þannig að það passaði réttinum eins og hann var þá. Örfáum árum eftir að húsið var tekið í notkun þá var dómurum fjölgað og nú leigir Hæstiréttur á ný skrifstofuaðstöðu í Arnarhváli og í dag deila starfsmenn, ráðuneytisstjórar og ráðherrar kaffistofu með dómurum Hæstaréttar.

Þetta er rifjað upp hér til að minna á þá staðreynd að um það má deila hvort íslensk stjórnvöld séu með þessu að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar um aðskilnað dóms- og framkvæmdavalds.

Telst dómsvaldið vera aðskilið frá framkvæmdavaldinu þegar það er dómsmálaráðherra sem skipar alla dómara landsins og ráðherrann og ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins vinna undir sama þaki og deila kaffistofu og bílastæðum með dómurum Hæstaréttar?

Þetta fyrirkomulag gengur ekki. Í dag fær maður það á tilfinninguna að Hæstiréttur er útibú frá dómsmálaráðuneytinu.

Ef hér væri Stjórnlagadómstóll, sjá þennan pistil hér, þá myndi ég kæra þetta fyrirkomulag að hús Hæstaréttar sé alveg ofaní Arnarhváli og dómarar leigi þar skrifstofur. Að mínu mati er þetta brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um að aðskilja ber framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Byggja á nýtt hús fyrir Hæstarétt í að lámarki kílómeters fjarlægð frá Alþingi og næsta ráðuneyti. Nýr Stjórnlagadómstóll á einnig að vera í góðri fjarlægð frá Alþingi, ráðuneytum og Hæstarétti. Það gengur ekki að dómarar, ráðherrar og ráðuneytisstjórar séu að ráða ráðum sínum á sameiginlegum kaffistofum. Það getur ekki samrýmst ákvæðum stjórnarskrárinnar. Aðskilnaður fellst ekki því að vinna undir sama þaki og deila kaffistofum og bílastæðum.

Fyrsta skrefið er að losa dómsvaldið undan klóm framkvæmdavaldsins. 20 gr. stjórnarskrárinnar segir að forseti veiti þau embætti sem lög mæla. Í áranna rás hafa ráðherrar sölsað þessi völd forseta undir sig. Nú eru það ráðherrar sem veita öll embætti, forseti engin. Í öðrum lýðræðisríkjum þá skipar þingið og forsetinn dómarana saman. Það fyrirkomulag lýst mér vel á. Ég sé fyrir mér að valnefnd meti hæfi dómara hvort heldur er í Héraðsdóm eða Hæstarétt. Í framhaldi tilnefnir forseti einn þeirra. Alþingi staðfestir síðan skipun dómara og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða.

Vina-, frænda- og sonavæðing dómstólanna heyrir þá sögunni til.

Sjá nánar um mínar áherslur hér: www.fridrik.info

Mynd: Göngustígurinn upp Esju.

 


Stjórnlagaþing - Við eigum að koma á fót Stjórnlagadómstóli.

Eitt stærsta skrefið í að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og að stjórnarskráin verði virt er að koma hér á fót Stjórnlagadómstóli.

IMG_0066Ef grunur er um að lög sem Alþingi er að setja eða hefur sett brjóti í bága við stjórnarskrána, alþjóðlega sáttmála sem Ísland hefur undirgengist eða önnur íslensk lög þá á að vera hægt að vísa slíkum málum til sérstaks Stjórnlagadómstóls eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Eins ef ráðherrar, ráðuneyti eða aðrar valdastofnanir eru með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, þá á að vera hægt að fara með slík mál fyrir Stjórnlagadómstól. 

Sem dæmi um mál sem slíkur dómstóll myndi fjalla um er þegar núverandi forsætisráðherra setti norðmanninn Svein Harald Öygard tímabundið í embætti Seðlabankastjóra. Sjá hér. Í 20. grein stjórnarskrárinnar stendur: "Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt". Sjá hér.

Annað dæmi er þegar EES samningurinn var gerður á sínum tíma. Mjög var deilt um hvort samningurinn bryti í bága við Stjórnarskrána. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins fullyrtu að svo væri ekki. Aðrir héldu því fram að EES samningurinn skerti það mikið sjálfsforræði þjóðarinnar að slíkan samning yrði annað tveggja að leggja undir þjóðaratkvæði eða gera breytingar á Stjórnarskránni þannig að þessi samningur rúmaðist innan ákvæða hennar.

Þriðja dæmið sem má nefna var þegar þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra ákváðu nánast upp á sitt einsdæmi að Ísland yrði þátttakandi í stríðinu í Írak. Áfram má telja slík dæmi því þau eru mörg þessi álitamál.

Ef við Íslendingar hefðum sett á fót Stjórnlagadómstól strax við stofnun Lýðveldisins, dómstól sem hefði staðið vörð um stjórnarskrána, þá hefði verið hægt að skjóta ráðningu norðmannsins og EES samningnum fyrir slíkan dómstól. Dómstóllinn hefði þá úrskurðað hvort þessar athafnir framkvæmdavaldsins hefðu rúmast innan ramma stjórnarskrárinnar. Eins hvort ráðherrarnir tveir höfðu umboð til að skuldbinda Ísland sem þátttakanda í Írak stríðinu.

Það er tilgangslaust að vera með stjórnarskrá sem engin fer eftir. Það er ástæðulaust að blása til Stjórnlagaþings og setja þjóðinni nýja stjórnarskrá ef löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið halda áfram og komast upp með að virða ákvæði stjórnarskrárinnar að vettugi. Ef við ætlum okkur að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá þá verðum við einnig að setja á fót Stjórnlagadómstól að t.d. þýskri fyrirmynd sem úrskurðar um hvort ný lög, samningar við erlendi ríki og embættisfærslur ráðherra og reglugerðir ráðuneytanna samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar og annarra laga og samninga sem Ísland hefur gert.

Þessi dómstóll þarf að vera þannig að einstaklingar, félög og fyrirtæki geta kært löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið til slíks dómsstóls telji þeir á sér og stjórnarskránni brotið. Höfundur þessa pistils á t.d. að geta kært forsætisráðherra fyrir að hafa ráðið norðmann í stól Seðlabankastjóra þegar skýrt er skv. stjórnarskrá að það er bannað!

Fyrir hvaða dómstóli er í dag hægt að láta reyna á réttmæti slíkra embættisfærslna?

Hvað nú með önnur mál. T.d. samræmist það ákvæðum stjórnarskrárinnar að ríkið og í framhaldi sveitarfélögin hafa leigt/selt afnotaréttinn á orkuauðlindum HS orku til næstu 130 ára?

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt að með núgildandi fiskveiðilögum er íslenska ríkið að brjóta mannréttindi á almenningi á Íslandi. Við, almenningur höfum engin úrræði til að stöðva framkvæmdavaldið í þessum brotum sínum. Hér þarf úrræði og Stjórnlagadómstólar í löndunum hér í kring hafa slík úrræði. Þeir einfaldlega fella slík lög úr gildi. Þeir geta fellt úr gildi lög sem brjóta gegn stjórnarskránni og þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.

Málið er að slíkur Stjórnlagadómstóll er eitur í beinum íslensku stjórnmálaflokkanna og fulltrúum þeirra á þingi. Þetta fólk vill hafa sjálfdæmi í því hvernig ber að túlka stjórnarskrána og þá erlendu sáttmála sem Ísland hefur undirritað. Þetta fólk vill hafa sjálfdæmi í því hvort samningur eins og EES samningurinn stenst stjórnarskrána eða ekki. Þetta fólk vill ekki hafa yfir höfði sér einhvern dómstól sem getur stöðvað stjórnmálaflokkana i hagsmunagæslu þeirra og vildarvinaþjónustu. Þess vegna hafa þingmenn okkar síðasta mannsaldurinn sjaldan eða aldrei minnst á að setja hér á fót Stjórnlagadómstól. Stjórnlagadómstól sem mun halda í eyrun á Alþingi og stjórnsýlunni.

Ef Stjórnlagadómstóll hefur komið til umræðu þá er farið að bera við kostnaði o.s.frv. Að halda út slíkum dómstól er álíka kostnaður og fer í dag í að reka almannatengsladeildina hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Kostnaður er engin ástæða fyrir því að að stofna ekki Stjórnlagadómstól. Ef við höfum ekki efni á að vera hér með Stjórnlagadómstól þá höfum við ekki efni á að vera sjálfstæð þjóð.

Er það ekki löngu tímabært að við komum okkur upp dómsvaldi sem er í einhverju samræmi við það sem tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum?

Að setja hér á fót Stjórnlagadómstól er eitt mikilvægasta skrefið í þá átt að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og að farið verði eftir þeirri stjórnarskrá sem þjóðin mun setja sér á næstu misserum.

Með nýrri stjórnarskrá eiga einnig að fylgja réttarbætur eins og að hér verði stofnaður Stjórnlagadómstóll.

Sjá nánar áherslur mínar varðandi stjórnlagaþingið hér: www.fridrik.info

Mynd: Gönguleiðin upp Esju.

 


Stjórnlagaþing - Hér verði forseti að Franskri / Finnskri / Bandarískri fyrirmynd

Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að hér sé konungsveldi með sama hætti og er í Danmörk, Noregi og Svíþjóð. Ísland er hins vegar lýðveldi eins og Frakkland, Finnland, Rússland, Bandaríkin og lönd austur Evrópu. Þess vegna eigum við að aðlaga okkar stjórnarskrá að stjórnarskrám þessara lýðvelda og leita þangað að fyrirmyndum.

IMG_0065Öll ríki austur Evrópu settu sér nýjar stjórnarskrár þegar Múrinn féll fyrir um 20 árum. Þessi lýðveldi settu sér stjórnarskrá að Franskri / Finnskri fyrirmynd. Mikil þekking og reynsla er til í dag í Evrópu hvernig stjórnarskrár eiga að vera og hvernig mismunandi útfærslur á þeim hafa reynst. Þessa þekkingu eigum við Íslendingar að nálgast og nýta nú þegar við setjum okkur nýja stjórnarskrá.

Þar sem ekki er konungsveldi þá fer forsetinn með framkvæmdavaldið. Forsetinn er kosinn beinni kosningu og það er forsetinn sem skipar ráðherra. Ráðherrarnir sjá um daglegan rekstur ríkisins. Í Evrópu er skipaður verkstjóri fyrir ráðherrunum, þ.e. forsætisráðherra. Í Bandaríkjunum er forsetinn jafnframt forsætisráðherra. Í þessum lýðveldum þá kýs þjóðin sér forseta til að fara með framkvæmdavaldið og þingmenn til að fara með fjárveitinga- og löggjafarvaldið.

Ef þjóðin er ekki ánægð með störf ríkisstjórnarinnar þá er einfalt að breyta því með því að kjósa nýjan forseta. Ný forseti tekur þá við stjórnartaumunum og skipar nýja ráðherra. Forseti sem vill standa sig vel í embætti hann vandar valið á ráðherrum sínum og skipar fagmann í hvert rúm. Breytum við stjórnarskránni með þessum hætti þá munu í framtíðinni kunnáttumenn verða valdir til að stjórna Íslandi.

Aldrei aftur mun þá nýútskrifaður stúdent verða menntamálaráðherra, sagnfræðingur gerður að ráðherra bankamála og dýralæknir að fjármálaráðherra.

Einni spurningu þurfum við að svara er; hvort eigum við að velja Evrópsku leiðina eða þá Bandarísku, þ.e. vera með forseta og forsætisráðherra eða bara forseta. Undirritaður hallast að Evrópsku leiðinni. Þá þarf í raun bara orðalagsbreytingar á núverandi stjórnarskrá.

Eitt er ljóst. Verði gerðar breytingar á stjórnarskránni og hún aðlöguð að stjórnarskrám lýðveldanna í Evrópu þá mun það hafa í för með sér verulegar breytingar á stjórnskipun landsins. Völd flokkanna og forystumanna þeirra munu minnka verulega.

Öruggt má telja að flokkarnir og þingmenn þeirra muni setja sig upp á móti öllum breytingum á stjórnarskránni sem minnka völd þeirra. Slíkar breytingar munu ekki fara átakalaust í gegnum þingið eins og það er skipað í dag og hugsanlega aldrei komast þar í gegn.

Líklega þarf til ný framboð og nýtt fólk inn á þing til að koma síkum breytingum í gegn um Alþingi, þ.e. gera Ísland að alvöru lýðveldi og leggja niður það ráðherraræði sem hér hefur fengið að grassera allt of lengi með þekktum afleiðinum og stórtjóni.

Sjá nánar um Stjórnlagaþingið og stjórnarskrána hér: www.fridrik.info

Mynd: Gönguleiðin upp Esju.


Stórtónleikar í Grafarvogskirkju, 11. nóvember

Lionsklúbburinn Fjörgyn stendur fyrir tónleikum til styrktar Barna- og unglingageðdeild LSH og líknarsjóði Fjörgynjar í Grafarvogskirkju, 11. nóvember 2010, kl. 20:00.

Eftirtaldir listamenn koma fram og styrkja verkefnið:


Buddy Holly sönghópur (Ingó, Sjonni Brinks, Felix ofl.?)
Egill Ólafsson
Fjallabræður, kór
Gissur Páll Gissurarson 
Gréta Hergils
Gréta Salome fiðluleikari
Helgi Björnsson
Hörður Torfason
Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Ómar Ragnarsson 
Óskar Pétursson og Guðrún Gunnarsdóttir
Páll Rósinkransson
Ragnar Bjarnason
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú
Voces Maskulorum

Kynnir: Felix Bergsson
Undirleikarar: Jónas Þórir, Þorgeir Ástvaldsson

Miðaverð: 2.500 kr.

Miðasölustaðir: 

N1; Ártúnshöfða - Bíldshöfða - Gagnvegi

Olís; Álfheimum - Gullinbrú - Norðlingaholt ( við Rauðavatn) 

Hjá höfundi þessa bloggs, Friðriki Hansen Guðmundssyni í síma 894 1949 eða pantið miða á netfanginu fhg@simnet.is.

Tryggið ykkur miða sem fyrst. Síðustu ár hafa allir miðar selst upp nokkrum dögum fyrir tónleika. 

Sjá nánar á heimasíðu Lionsklúbbsins Fjörgyn, Grafarvogi:
https://sites.google
.com/site/lklfjorgyn/

tónleikar 2010 veggspjald

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Vefritið Svipan tekur forystu í kynningu á frambjóðendum til Stjórnlagaþings.

Vefritið Svipan hefur tekið frumkvæðið og forystuna í kynningu á þeim sem bjóða sig fram til Stjórnlagaþings. Vefritið birtir á síðum sínum í stafrófsröð nöfn allra þeirra frambjóðenda sem hafa boðið sig fram.

Vefritið gerir meira en það. Öllum frambjóðendum er boðið að kynna sig á heimasíðu þess. Frambjóðendur senda inn helstu upplýsingar ásamt mynd og svara nokkrum spurningum. Þessar upplýsingar tekur vefritið saman og birtir með mynd á síðum sínum.

Hluti þeirra sem hafa boðið sig fram hefur þegar sent inn upplýsingar og svarað spurningum Svipunnar.

Í dag er vefritið Svipan komin með stærsta gagnabankann um þá sem bjóða sig fram til Stjórnlagaþings. Vilji kjósendur kynna sér þessa frambjóðendur þá er og verður Svipan vettvangurinn.

Sjá nánar hér: Vefritið Svipan

Stóru vefritin eins og mbl.is og visir.is verða að hugsa sinn gang ætli þau að halda í hylli netnotenda á komandi misserum.

Það dugir ekki bara að fylla þessa stóru vefrit með auglýsingum og hætta að þjónusta almenning og sinna því sem helst er í gangi. 

 

 


mbl.is 523 í framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er frambjóðandi til Stjórnlagaþings

Í framhaldi af því að ég hef skrifað nokkra pistla á síðustu misserum sem tengjast stjórnarskránni og stjórnskipun Íslands og það að ég var valinn í þetta 1000 manna úrtak sem mun sitja Þjóðfundinn 6. nóvember næstkomandi þá ákvað ég að gefa kost á mér í framboð til stjórnlagaþingsins.

Það er sérstakt og í raun einstakt að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá.

Ég hefði gjarnan viljað taka þátt í því.

Pistlarnir sem ég skrifað og tengjast stjórnskipun Íslands eru hér:

Hef sett upp nýja heimasíðu í tilefni af þessu framboði, sjá:  www.fridrik.info.


mbl.is Skiptar skoðanir um stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skora á ríkisstjórn og Alþingi að stoppa þessa ósvinnu.

Það er ekki hægt að horfa aðgerðarlaus upp á að nú í október eiga að fara fram 250 nauðungaruppboð á íbúðum sem eigendur búa sjálfir í og eiga þar sitt lögheimili. 

IMG_0060Væntanlega hefur allt þetta fólk keypt íbúðir sínar í góðri trú og farið í greiðslumat hjá bönkunum.

Vegna glannaskapar í rekstri íslensku bankana þá verður hér hrun, allar forsendur bresta, atvinnumissir, launalækkanir, lán hækka um 40% (verðtryggð) til 100% (gengistryggð) og fjöldi fólks getur ekki staðið í skilum.

Þegar hafa á árinu um 1.200 fjölskyldur misst heimili sín og búist er við að á milli 2.000 til 3.000 manns bætist í þann hóp á næstu mánuðum og misserum. Öll þessi heimili eru full af börnum og unglingum.

Ég neita að trúa því að forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og aðrir ráðherrar og þingmenn ætli að halda áfram að sitja aðgerðarlaus og horfa á allt þetta fólk borið út úr húsum sínum vegna þessa forsendubrests sem hér varð.

Í skil ekki af hverju þessi mál eru ekki leyst þannig að ekki þurfi að koma til nauðungaruppboðs og útburðar. Það eru ótal leiðir til þess ef einhver einasti vilji er fyrir hendi. Hvað liggur svona ofboðslega á að losa þessar eignir. Lánin eru öll til 25 til 40 ár. Af hverju ekki frysta þessi lán í 4 til 6 ár eða bara borga af þeim vexti og lengja lánstímann í 60 til 80 ár eins og svo algengt er með fasteignalán á hinum Norðurlöndunum.

Af hverju finna menn ekki lausnir í dýpstu kreppu Íslandssögunnar þannig að ekki þurfi að bera öll þessi börn út á götu og setja foreldra þeirra í ævilangt gjaldþrota þar sem þau losna aldrei við skuldirnar?

Til hvers?

Eitt veit ég og það er að þessi fantatök bankana, nauðungaruppboð og fjöldagjaldþrot verða ekki liðin. Það mun aldrei verða fyrirgefið ef henda á öllum þessum fjölskyldum á götuna og allt þetta fólk gert gjaldþrota.

Það mun enda með því að þessar óeirðir munu stigmagnast og þá er það bara spurning um tíma hvenær kveikt verður í Alþingsihúsinu, Stjórnarráðinu, bankaútibúum eða aðrar byggingar verða brenndar.

Við vitum að fjármálaráðherra lofaði bankamönnum háum bónusum eftir því hve miklu þeir næðu út úr lánasöfnum bankana. Það er ljóst að bankamenn ætla sér feita bónusa.

Ég skora samt á þá og á sýslumenn og starfsmenn þeirra, ekki taka þátt í þessum aftökum. 

Segið bara NEI, við tökum ekki þátt í þessu.

Ég skora á ríkisstjórn og Alþingi að stoppa þessa ósvinnu.

Göngustígurinn upp Esju.



mbl.is „Viðhorf bankanna hafa breyst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju stendur Steingrímur J gegn lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur?

Á annað ár hefur verið kallað eftir úrbótum fyrir þá sem verst hafa farið út úr hruninu. Því kalli svaraði Lilja Mósesdóttir fyrir rúmu ári þegar hún lagði fram frumvarp sem fékk fljótlega nafnið lyklafrumvarpið.

IMG_0059Þetta frumvarp er að hluta að bandarískri fyrirmynd og er í grunninn þannig að þeir sem lenda í því óláni að forsendur fyrir íbúðarkaupunum bresta, atvinnumissir, veikindi eða hvað annað sem veldur, þá getur fólk skilið lyklana eftir og labbað út úr eignum sínum án þess að verða persónulega gjaldþrota. Við skulum átta okkur á því að engin labbar út úr íbúðarhúsnæði sínu nema engir aðrir kostir eru í stöðunni.

Frekar en samþykkja lyklafrumvarpið vilja alþingismenn horfa upp á þúsundir einstaklinga missa íbúðahúsnæði sitt og horfa upp á þessa einstaklinga sitja áfram uppi með lánin sem þýðir að þetta fólk fer allt beint í persónulegt gjaldþrot. Blóðhundar bankanna fá síðan það verkefni að elta þetta fólk allt þeirra líf.

Þetta fólk keypti sínar eignir í góðri trú eftir að hafa farið í greiðslumat hjá bönkunum og stendur nú frammi fyrir gjaldþroti og ríkisstjórnin ætlar sér ekkert að gera. 

Ekki bara það, Steingrímur J kemur í veg fyrir að lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur nái fram að ganga.

Hverju haldið þið að bankarnir nái hvort sem er af þessu fólki eftir að það er orðið gjaldþrota?

Bankarnir eiga að taka þessar eignir yfir og búið. Það hefur engan tilgang að gera allt þetta fólk gjaldþrota, það bætir ekki stöðu bankana og þeir hafa af því engan fjárhagslegan ávinning að elta þetta fólk alla æfi þess.

Hvers vegna ætlar þú að senda allt þetta fólk í gjaldþrot Steingrímur?

Af hverju stendur þú gegn lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur?

Mynd: Gönguleiðin upp Esju


mbl.is Auðmenn græða á uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipstjórinn sendur í sjópróf, áhöfnin sleppur.

Þetta er sögulegur dagur í dag, 28. september 2010. Hann er sögulegur vegna þess að þessi niðurstaða Alþingis breytir íslenskum stjórnmálum. Íslensk stjórnmál verða aldrei aftur söm.

IMG_0058Það að vera ráðherra verður aldrei aftur það ábyrgðarlausa glamor starf sem það hefur hingað til verið.

Það var orðið löngu tímabært að ábyrgð yrði tengd því mikla valdi sem ráðherrar hafa tekið sér á undanförnum áratugum af Alþingi og Forsetaembættinu.

Niðurstaða Alþingis í dag að ákæra forsætisráðherra en hlífa öðrum ráðherrum í ráðuneyti hans er Salómonsdómur.  

Rannsóknarnefnd Alþingis vann mikið og gott starf og skilaði af sér tímamótaverki sem var Sannleiksskýrslan. Um það voru og eru allir sammála. Í skýrslunni var lagt til að þrír ráðherrar yrðu ákærðir fyrir gáleysi og vanrækslu í starfi. Alþingi átti því engra annarra úrkosta en afgreiða þessa körfu Rannsóknarnefndarinnar.

Eftir að sérstök þingmannanefnd komst að sömu niðurstöðu og bætti reyndar fjórða ráðherranum við þá átti öllum að vera ljóst að einhver eða allir þessara ráðherra myndu sæta ákæru enda sigldi skipstjórinn og áhöfn hans þjóðarskútunni beint upp í Skarfasker svo af hlaust gríðarlegt tjón sem enn sér ekki fyrir endan á.

Eftir slíkt strand þá er það lágmark að fram fari sjópróf yfir skipstjóranum, er það ekki?

Það er engin ástæða fyrir skipstjórann, áhöfnina, aðstandendur og vini að fárast yfir slíkri niðurstöðu.

Það er venja á Íslandi að kalla þá sem sigla skipum sínum í strand fyrir sjópróf. Af hverju skildi slíkt ekki líka gilda gagnvart skipstjóranum á þjóðarskútunni?

Íslenskir skipstjórar hafa hingað til tekið slíku af æðruleysi.

Mynd: Gönguleiðin upp Esju

  


mbl.is Mál höfðað gegn Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandsmeistaratitillinn í Kópavoginn

það er gaman að sjá Íslandsmeistaratitilinn fara þetta árið í Kópavoginn.

Að öðrum sveitarfélögum ólöstuðum þá er hvergi eins vel búið að knattspyrnunni og í Kópavogi. Kópavogur státar af tveim yfirbyggðum knattspyrnuvöllum, glæsilegri útiaðstöðu á nokkrum stöðum í bænum og þeim metnaði og kunnáttu sem þarf til að standa í fremstu röð.

Reykjavíkurliðin með sitt eina knattspyrnuhús eiga orðið ekki möguleika á móti sveitarfélögum sem tefla fram strákum sem síðustu tíu ár hafa alist upp í yfirbyggðum knattspyrnuhúsum og fengið þar inni allan þann tíma sem þeir hafa viljað.  

Við hljótum öll að óska Kópavogi til hamingju og fagna því að nýtt knattspyrnuveldi er að verða til.

Nú er bara að vona að það verði svo gamla liðið mitt í Austurbænum, HK, sem  tekur svo við. Smile

 


mbl.is Breiðablik er Íslandsmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög um ráðherraábyrgð úreld?

Nú hrópa þingmen að lög um ráðherraábyrgð séu úreld. Þau uppfylli ekki nýjustu ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og rangt sé að ákæra ráðherra á grundvelli úreldra laga.

IMG_0057Af hverju voru þessir þingmenn ekki búnir að breyta þessu lögum fyrir löngu?

Er aðgerðarleysi, skortur á frumkvæði og vanræksla þau orð sem best lýsa því sem hefur verið í gangi á Alþingi síðustu áratugi?

Ef lög um ráherraábyrgð eru löngu úreld, hvernig er staðan þá á öðrum sviðum? Erum við hér með gamalt og úrelt lagasafn sem er í engum takt við löndin hér í kring um okkur?

Eru í gildi fullt af lögum sem ekki uppfylla þær skyldur sem við tókum á okkur þegar Ísland varð aðili að mannréttindasáttmála Evrópu?

Verður það gráglettni örlaganna að fyrstu ráðherrar Íslandssögunnar verða dæmdir fyrir vanrækslu í starfi eftir gömlum og lögnu úreldum lögum. Lögum sem þessir sömu ráherrar höfðu allir einn til tvo áratugi til að breyta. Vanræksla þeirra að breyta lögum um ráðherraábyrgð verður hún til þess að þeir verða dæmdir fyrir þá vanrækslu sem rakin er í Rannsóknarskýrslu Alþingis?

Eða vildu þessir forystumenn okkar hafa þessi lög óbreytt? Var það mat þessara forystumanna og þeir sem á undan höfðu gengið að svo torsótt yrði að sækja þá til saka eftir þessum gömlu lögum að þeirra persónulegu hagsmunum var best borgið með því að hafa þau óbreytt?

Annað hvort hefur þessum lögum vísvitandi aldrei verið breytt eða þessi lög eru enn ein staðfestingin á aðgerðaleysi þingsins, skorti þess á frumkvæði og að þingið hefur vanrækt skyldur sínar að setja okkur lög sem svara kalli tímans.

Mynd: Gönguleiðin upp Esju


Jón Gnarr vill Héraðsdóm Reykjavíkur burt

Ég er sammála borgarstjóra. Héraðsdómur á ekki heima á Lækjartorgi. Vegna þeirrar neikvæðu ímyndar sem hús sem hýsa dómstóla, fangelsi og lögreglustöðvar hafa almennt í hugum fólks, innlendra og erlendra, þá er það ekki til að lífga upp á miðbæinn að hafa þessa neikvæðu starfsemi á miðju Lækjatorgi.

Á Lækjatorgi á að sjálfsögu að vera starfsemi sem fólk sækir sér til skemmtunar og ánægju. Í þessu fallega húsi ættu að vera verslanir og kaffihús eða hótel. Eitthvað sem tengist lífi og listum en ekki deilum og lögbrotum, dópi og dauða.

Nú má ekki skilja mig þannig að ég sé á móti Héraðsdómi eða dómstólum. Þeir eru því miður nauðsynlegur hluti af okkar samfélagi eins og fangelsin og lögreglustöðvarnar. Við eigum að vera því fólki þakklátt, lögmönnum og dómurum, sem hafa valið sér að vinna með skuggahliðar samfélagsins. Einhverjir verða að vinna þessi störf.

Engin ástæða er samt til að hafa þessa starfsemi í hjarta borgarinnar.

Vonandi dettur engum í hug að hafa fangelsi á Lækjartorgi. Sú starfsemi þar sem verið er að dæma menn í fangelsi á ekki heldur heima þar.

Það er mikið af lausu húsnæði upp á Höfða og lausum lóðum uppi á Esjumelum og Hádegismóum. Þessi starfsemi væri vel komin þar.

Það mun líka birta yfir Þjóðleikhúsinu, Þjóðmenningarhúsinu og Arnarhváli þegar Hæstiréttur flytur þaðan sem hann er í nýtt og stærra húsnæði.

 


mbl.is Jón Gnarr: Héraðsdómur flytji sig annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstiréttur aftur orðinn eins og við þekkjum hann.

Ríkisvaldið pantar niðurstöður frá Hæstarétti og Hæstiréttur úrskurðar í samræmi við pöntun ríkisvaldsins.

Nú er allt aftur orðið eins og það var. Dómsvaldið aftur orðið hægri hönd ríkisvaldsins.

Ekkert hefur breyst á Íslandi.

 


mbl.is Staðfesti dóm héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Njörður P. Njarðvík sendi mér bréf.

"Þú átt öruggleg eftir að verða leiðinlegur þar" sagði sonur minn og hló við þegar að ég sagði honum að ég hafi fengið boð á Þjóðfundinn og að ég hafi síðasta vetur sett nokkra pistla um stjórnarskrána á bloggið mitt.

En hvernig breytingar viljum við sjá á stjórnarskránni?

IMG_0056Jú, skýrari aðskilnað framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds. Það held ég að flestir eru sammála um. Sérstaklega þarf að halda með einhverjum hætti í eyrun á framkvæmdavaldinu / flokkunum og tryggja sjálfstæði Alþingis. En hvernig?

Eins og ég skil lýðræðisríkin í löndunum í kring um okkur þá eru þessi lýðræðisríki tvenns konar.

Annar vegar eru það konungsríkin og hins vegar lýðveldin.

Þar sem við erum ekki konungsríki þá hljóðum við að horfa til lýðveldanna. Frakkland er þeirra elst auðvita en tungumálið er þröskuldur þannig að ég þekki ekki gjörla til hefða í Frakklandi. Finnar eru okkur nær og Bandaríkin og bandaríska stjórnkerfið þekkjum við en þessi tvö lönd byggja sitt lýðveldi á þessum franska grunni. Öll Austur Evrópa, þar á meðal Rússar tóku upp þetta franska lýðveldið þegar þessi lönd voru endurreist eftir fall kommúnismans fyrir um 20 árum. 

Öll þessi "frönsku" lýðveldi byggja á þjóðkjörnum forseta sem kosinn er í beinni kosningu. Forsetinn skipar ráðherra í ríkisstjórn. Engin hefð er fyrir því í þessum löndum að ráðherrar þurfi endilega að vera þingmenn. Ef þingmenn verða ráðherrar þá er það víða þannig að þá segja þeir af sér þingmennsku. 

Eitthvað er mismunandi hve sterkir þessir forsetar eru. Í Bandaríkjunum er forsetinn mjög sterkur. Svo viðrist einnig vera í Rússlandi.

Eitt eiga þessi lýðveldi sameiginlegt. Forsetinn sem er eini embættismaðurinn sem þjóðin kýs í beinni kosningu og þar með eini fulltrúi þjóðarinnar sem þjóðin getur ráðið og rekið á fjögurra ára fresti. Þetta er valdamesti maðurinn í öllum þessum lýðveldum. Ef þessar þjóðir eru óánægðar með stjórn landsins þá kjósa þær sér nýjan forseta. Eins og við þekkjum frá Bandaríkjunum þá getur forsetinn verið í minnihluta á þingi en hann og ráðherrar hans eigi að síður sinnt störfum sínum með prýði.

Er það þannig lýðveldi sem við viljum? Alvöru franskt, bandarísk, finnskt, rússneskt, pólskt, Evrópskt lýðveldi?

Eigum við að gera það sem öll Austur Evrópa gerði fyrir 20 árum og skipta út okkar gömlu stjórnarskrá sem búið er að afbaka og gjörbreyta með vísan í allskonar "hefðir, venjur og skilning" og taka í staðinn upp vel útfærða nýja Evrópska stjórnarskrá?

Eigum við þá að horfa til þeirrar finnsku, frönsku, pólsku eða bandarísku?

Sjá einnig þessar greinar hér:

Mynd: Gönguleiðin upp Esju.

 


Þau ákváðu að ræna Deutche bank, Seðlabanka Evrópu, HSBC og alla hina bankana.

Í ákærum þingmannanefndarinnar er eingöngu horft til vanrækslu ráðherra í aðdraganda hrunsins. Ekkert er horft til þess sem gerðist í hruninu. Í hruninu stóð ríkið fyrir einu stærsta ráni í Evrópu og það sem ég vil kalla glæp gegn þjóðinni. 

IMG_0054Ekkert er horft til þess að ríkisstjórnin ákvað að tryggja að fullu allar innstæður í bankakerfi sem var 10 sinnum stærra en landsframleiðslan. Þar með talið Icesave. Það að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að tryggja að fullu allar innistæður í bankakerfi sem var  10 sinnum stærra en landsframleiðslan er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni.

Þetta er ekkert annað en glæpur gegn þjóðinni því þær ábyrgðir sem verið var að leggja á þjóðina með því að láta hana ábyrgjast þessar innistæður, þær skuldbindingar er tvöfaldar þær stríðsskaðabætur sem lagðar voru á hvern þjóðverja eftir fyrri heimstyrjöldina. Bætur sem þá þóttu óheyrilegar. Hitler komst m.a. til valda í Þýskalandi þegar hann lofaði að hætt yrði að borgar þessar háu bætur.  Uppreiknað þá samsvara stríðsskaðabætur þjóðverja til 4.700 evra á mann. Það sem ríkisstjórnin og Alþingi ætlar Íslendingum að greiða til að tryggja allar innistæður að fullu eru 8.800 evrur á mann. Sjá nánar um þessar tölur hér.

Það var eitt að tryggja þessar innistæður að fullu. Annar var að að taka ákvörðun um að ræna Deutche bank, Seðlabanka Evrópu, Seðlabanka Svíþjóðar,  HSBC bankann, Commercebank og allar hinar fjármálastofnanirnar sem áttu í viðskiptum við gömlu bankana.

Með neyðarlögunum var framið eitt stærsta rán sem framið hefur verið í Evrópu frá dögum sjóræningja soldánanna í Alsír sem rændu Evrópu í um 300 ár, frá 1500 til 1800, þar á meðal Vestmannaeyjar.

Með neyðarlögunum þá var röð kröfuhafa breytt þannig að við uppgjör gömlu bankana er fé sem Deutche bank, Seðlabanki Evrópu og HSBC áttu að fá, það fé er tekið og sett í hendur innistæðueigenda. 

Með þessu ráni þá var Íslandi breytt á einni nóttu úr réttarríki í ræningjabæli.

Að ræna viðskiptavini gömlu bankana með þessum hætti og breyta þjóðinni í ræningjabæli það er ekki bara glæpur gegn þjóðinni, það er einnig glæpur gegn alþjóðasamfélaginu.

Þó ríkisstjórn og Alþingi hafi séð fyrir að fjöldi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja myndu tapa stórum hluta af innistæðum sínum, færu bankarnir í þrot, þá var engin ástæða til þess fyrir ríkið að fara út í þjófnað og rán. 

Það var engin ástæða að eyðileggja orðspor Íslensku þjóðarinnar næsta mannsaldurinn með því að ríkið fór í það að ræna fé frá öllum helstu fjármálastofnunum heimsins. Það var engin ástæða til að breyta Alþingi í ræningjabæli þó einhverjir væru að tapa fé. 

Þingvallastjórnin fórnaði orðspori heillar þjóðar og æru elsta samfellt starfandi þings í heimi í þeim tilgangi að tryggja fjármuni auðmanna Íslands.

Er að furða þó Orkuveitan og Landsvirkjun fái hvergi lán? Auðvita þorir engin að lána þessum opinberu fyrirtækum af hættu við að peningunum verði stolið með nýrri lagasetningu frá Alþingi. Sama fólkið er hér meira og minna enn við völd.

Þeir þingmenn og ráðherrar sem ákváðu að ræna þessar erlendu fjármálastofnanir með lagasetningu að næturlagi, tveir þriðju hlutar þessa fólks situr enn á þingi.

Einu sinni þjófur, alltaf þjófur.

Engin sátt verður í þessu samfélagi fyrr en þetta fólk er allt horfið á braut úr trúnaðarstörfum á Alþingi.

Ekkert traust verður hægt að byggja upp, hvorki hér heima né erlendis, fyrr en það fólk sem setti þessi Neyðarlög og stóð að þessu ráni er horfið á braut.

Það er á ábyrgð okkar kjósenda að sjá til þess að slík endurnýjun eigi sér stað sem fyrst.

Að kalla saman Landsdóm og rétta yfir þessum ráðherrum er óhjákvæmilegt skref á þeirri leið.

Sjá einnig: Skjaldborg slegin um stræsta rán Íslandssögunnar.

Mynd: Göngustígurinn upp Esju. 

 


mbl.is „Röng niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar "ræningjalýður" í augum Evrópu?

Ekkert ríki leyfði bankakerfinu sínu að vaxa ríkinu þannig yfir höfðuð að ríkið gat ekki sinnt skyldum sínum sem lánveitandi bankana til þrautavara nema íslenska ríkið.

Ekkert ríki missti allt bankakerfið sitt í gjaldþrot vegna þessarar vanrækslu ríkisstjórnarinnar og eftirlistaðila nema íslenska ríkið.

IMG_4046Ekkert ríki, hvorki í Evrópu né annarstaðar, setti lög eins og neyðarlögin í þeim tilgangi að hafa fé af þeim sem höfðu lánað bönkunum þeirra fjármuni nema íslenska ríkið. 

Öll ríki Evrópu ákváðu að ábyrgjast innistæður í bönkum en það var bara íslenska ríkið sem breytti lögum og reglum í þeim tilgangi að láta erlenda lánadrottna bankana bera stóran hluta af því sem það loforð kostaði.

Þess vegna líta fjölmargir útlendingar á okkur Íslendinga sem "ræningjalýð", því miður. Margir líta svo á að við Íslendingar höfum framið eitt stærsta "rán" í sögu Evrópu þegar við settum neyðarlögin á lánadrottna íslensku bankana.

Og það sem er sárast er að þetta "rán" frömdu ekki einhverjir glæpamenn heldur ríkisstjórn Íslands og Alþingi.

Þess vegna er það svo nauðsynlegt að við losum okkur við það fólk úr öllum opinberum trúnaðarstörfum sem sat í ríkisstjórn og á þing og framdi þennan gjörning, þetta "rán".

Fyrr getum við Íslendingar ekki byggt á ný upp trúnað og komið fram sem trúverðug þjóð en ekki sem "ræningjalýður" gagnvart þjóðum heims.

Sjá einnig greinar:

Neyðarlögin stærsta "rán" í sögu Evrópu?

Skjaldborg slegin um stærsta "rán" Íslandssögunnar. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband