Stjórnlagaþing - Forseti og Alþingi skipi dómara.

Eins og stjórnskipunin hefur þróast undanfarna áratugi þá er mjög óljóst hve víðtækt valdsvið framkvæmdavaldsins er. Í dag er flestum ljóst að framkvæmdavaldið stjórnar því sem gerist á Alþingi og þingið er í raun afgreiðslustofnun og nánast formsatriði að láta þingið samþykkja það sem ríkisstjórnin / ráðherrar ákveða.

IMG_0068Svipað en þó á annan hátt er upp á teningnum varðandi dómsvaldið. Dómsvaldið er tengt framkvæmdavaldinu sterkum böndum. Til skamms tíma var Hæstiréttur með skrifstofur sínar í Arnarhváli og starfsmenn stjórnarráðsins og Hæstaréttar deildu sama húsnæðinu og sömu kaffistofunni og bílastæðum.

Þegar ákveðið var að byggja yfir Hæstarétt þá vildi framkvæmdavaldið ekki missa dóminn langt frá sér og bílastæðið við Arnarhvál var tekið undir hús Hæstaréttar. Hús Hæstaréttar var byggt þannig að það passaði réttinum eins og hann var þá. Örfáum árum eftir að húsið var tekið í notkun þá var dómurum fjölgað og nú leigir Hæstiréttur á ný skrifstofuaðstöðu í Arnarhváli og í dag deila starfsmenn, ráðuneytisstjórar og ráðherrar kaffistofu með dómurum Hæstaréttar.

Þetta er rifjað upp hér til að minna á þá staðreynd að um það má deila hvort íslensk stjórnvöld séu með þessu að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar um aðskilnað dóms- og framkvæmdavalds.

Telst dómsvaldið vera aðskilið frá framkvæmdavaldinu þegar það er dómsmálaráðherra sem skipar alla dómara landsins og ráðherrann og ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins vinna undir sama þaki og deila kaffistofu og bílastæðum með dómurum Hæstaréttar?

Þetta fyrirkomulag gengur ekki. Í dag fær maður það á tilfinninguna að Hæstiréttur er útibú frá dómsmálaráðuneytinu.

Ef hér væri Stjórnlagadómstóll, sjá þennan pistil hér, þá myndi ég kæra þetta fyrirkomulag að hús Hæstaréttar sé alveg ofaní Arnarhváli og dómarar leigi þar skrifstofur. Að mínu mati er þetta brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um að aðskilja ber framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Byggja á nýtt hús fyrir Hæstarétt í að lámarki kílómeters fjarlægð frá Alþingi og næsta ráðuneyti. Nýr Stjórnlagadómstóll á einnig að vera í góðri fjarlægð frá Alþingi, ráðuneytum og Hæstarétti. Það gengur ekki að dómarar, ráðherrar og ráðuneytisstjórar séu að ráða ráðum sínum á sameiginlegum kaffistofum. Það getur ekki samrýmst ákvæðum stjórnarskrárinnar. Aðskilnaður fellst ekki því að vinna undir sama þaki og deila kaffistofum og bílastæðum.

Fyrsta skrefið er að losa dómsvaldið undan klóm framkvæmdavaldsins. 20 gr. stjórnarskrárinnar segir að forseti veiti þau embætti sem lög mæla. Í áranna rás hafa ráðherrar sölsað þessi völd forseta undir sig. Nú eru það ráðherrar sem veita öll embætti, forseti engin. Í öðrum lýðræðisríkjum þá skipar þingið og forsetinn dómarana saman. Það fyrirkomulag lýst mér vel á. Ég sé fyrir mér að valnefnd meti hæfi dómara hvort heldur er í Héraðsdóm eða Hæstarétt. Í framhaldi tilnefnir forseti einn þeirra. Alþingi staðfestir síðan skipun dómara og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða.

Vina-, frænda- og sonavæðing dómstólanna heyrir þá sögunni til.

Sjá nánar um mínar áherslur hér: www.fridrik.info

Mynd: Göngustígurinn upp Esju.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta er rétt hjá þér. Dagleg umgengni þarna á milli er óheppileg og þó ekki nema bara vegna gruns um "samráð" (?). Það myndast kunningsskapur, vinátta sem svo aftur getur haft áhrif inn í vinnuna. Það er svipað og þegar maður í gamla daga heyrði að áberandi lögfræðingar og þungavigtarmenn hittust reglulega á Borginni, í kaffi. Svo voru þeir að vinna fyrir deiluaðila öðru hverju.  Það er víða í örþjóðfélagi sem grunsemdir kvikna eðlilega; læknar sem meta örorku, lögmenn að slást við tryggingafélag, hinum megin við borðið er gamall skólafélagi. Nú veit ég ekki hvort þessar stéttir sverja eiða eða hvernig kútúrinn er en við óbreyttir erum ansi berskjölduð.

Villi (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 18:10

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Að horfa á einstaklinga, félög og fyrirtæki glíma við ríkisvaldi er oft eins og að horfa á mann glíma við þurs sem er með Dómsvaldið í hægri hendi og Alþingi í þeirri vinstri.

Ef barátta ríkisvaldsins vinnst ekki í réttarsölunum þá er Alþingi látið setja breytt lög.

Við verðum að ná hér fram réttarbótum um leið og við setjum okkur nýja stjórnarskrá.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 5.11.2010 kl. 19:02

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband