Að loknum Þjóðfundi

Þetta var áhrifaríkur dagur fyrir okkur sem sátum Þjóðfundinn. Að taka þátt í 1000 manna fundi sem þessum er ógleymanlegt öllum þeim sem þátt tóku.

Það var ljóst strax í upphafi að allir þeir sem þarna voru komnir tóku verkefnið alvarlega. Allir lögðu sitt af mörkum og öllum var ljóst mikilvægi verkefnisins. Það var alvarleiki í loftinu þarna inni en samt voru allir léttir og samstarfið og umræðan gekk átaklaust fyrir sig. Það var eins og niðurstöðurnar yrðu til af sjálfu sér á þessum 8 manna borðum.

IMG_0072Þetta fólk sem valið hafði verið af handahófi úr þjóðskrá var sannarlega mætt til að leggja grunn að nýrri og endurbættri stjórnarskrá. Það var ljóst að allir gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi málsins.

Við borðið sem ég sat við lengstan tíma var ein kona sem hafði það á orði að ef slíkur þjóðfundur hefði verið boðaður fyrir 5 árum þá hefðu örugglega ekki komið fram jafn mikið af tillögum að breytingum á stjórnarskránni. Fyrir fimm árum hefði án efa stór hluti fundarmanna spurt: "Er bara ekki í lagi með stjórnarskrána eins og hún er?"

Ég held ég geti fullyrt að engin á fundinum í dag kom með þessi rök: "Er stjórnarskráin bara ekki í lagi eins og hún er".

Á þessum fundi komu flestir með einhverjar tillögur að breytingum og betrumbótum á stjórnarskránni og allir sögðu sitt álit með því að kjósa með þeim breytingum sem þeim leist best á.

Allt þetta fólk vildi sjá breytingar og betrumbætur á stjórnarskránni og stjórnsýslunni.

Annar borðfélagi sagið: "Ef það væri ekki fyrir Hrunið og kreppuna þá værum við ekki hér í dag að gera tillögur að endurnýjun stjórnarskrárinnar".

"Ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott" segir gamalt máltæki og ef þetta Hrun og þessi kreppa verður til þess að við fáum hér nýja stjórnarskrá með réttlátari og betri stjórnsýslu þá munu jafnvel við byggingakallarnir eiga auðveldara með að sætta okkur við að allir þessir viðskiptavinir eru farnir í þrot og mikill fjöldi starfsfélaga, vina og kunningja hefur flutt til útlanda.

Vegna þessa boðs sem ég fékk á þennan þjóðfund þá ákvað ég í framhaldi að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings.

Hvort heldur ég verð kjörinn á Stjórnlagaþingið eður ei þá er þátttaka mín á þessum fundi mér mikið og gott veganesti fyrir vikurnar fram að kosningum þann 27. nóv. nk.

Á þessum fundi lærði ég margt og á þessum fundi sá ég fullt af góðum hugmyndum hvernig betrumbæta má stjórnarskrána og stjórnsýsluna.

Um þessar hugmyndir mun ég blogga hér á þessu bloggi fram að kosningum.

Sjá einnig nánar á: www.fridrik.info

Mynd: Göngustígurinn upp Esju.

 


mbl.is Telja niðurstöður gagnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Sæll Friðrik.  Nú hef ég lesið það sem þú hefur fram að færa fyrir komandi stjórnarskrá.  Finn þó ekkert um fullveldisákvæðið.  Hvað viltu þar?  Viltu að 51% kjósenda eða stjórnvöld sjálf geti lagt fullveldi okkar undir erlent vald, eins og núverandi ríkisstjórn hefur hafið með því að sækja um inngöngu í EU án þess að þjóðin fengi við ráðið?  Viltu að 51% eða 70% eða hærra hlutfall kjósenda ráði slíkum málum og öðrum alvarlegum málum eins og ICESAVE-nauðunginni? 

Elle_, 7.11.2010 kl. 14:31

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Smá aðfinnsla. Að afljúka er að opna eða gera opinbert, aflæsa.  Betra væri að segja: Að loknum þjóðfundi.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2010 kl. 18:12

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Elle

Með fullveldisákvæðinu þá ert þú væntanlega að meina Þessa grein hér:

"21. grein

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til."

Ísland er lýðveldi og þjóðin hefur búið hér við ákveðið lýðræði frá því á landnámöld. Hér er elsta samfellt starfandi Þing í heimi. Þingið á eyjunni Mön í Írlandshafi, það heitir líka Alþingi, er eldra. Okkar Alþingi er hins vegar elsta samfellt starfandi þing í heimi.

Í yfir þúsund ár höfum við ráðið ráðum okkar með þeim hætti að einfaldur meirihluti ræður.

Ég held við eigum ekki að brjóta þessa eldgömlu hefð okkar og fara að breyta þessum gömlu leikreglum samfélagsins, þó svo mörgum þyki mikið liggja undir vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB.

Frá upphafi byggðar á Íslandi hefur einfaldur meirihluti atkvæða  fengið að ráða för. Ég vil að svo verði áfram óháð því hvort við göngum í ESB eða ekki.

Varðandi EES samninginn þá hefði ég viljað sjá þann samning lagðan fyrir þjóðaratkvæði á sínum tíma. Eins finnst mér að það eigi að leggja væntanlegan samning um ESB í þjóðaratkvæði.

Og taktu eftir Elle hvernig stjórnmálamenn síðasta mannsaldurinn hafa náð að snúa stjórnarskránni og túlka eftir eigin geðþótta. Samkvæmt þessari grein er það forsetinn einn sem getur gert samninga við erlend ríki. Af hverju stendur þetta svona í stjórnarskránni ef ekki er farið eftir því?

Það er löngu tímabært að hér verði settur á fót Stjórnlagadómstóll sem stendur vörð um stjórnarskrána. Það eiga ekki að vera ráðherrar og þingmenn sem túlka það hvort þessi lög eða þessi samningur brjóti í bága við stjórnarskrána. Það á að vera sérstakur dómstóll, Stjórnlagadómstóll, sem á að úrskurða í slíkum álitamálum. Sjá nánar þennan pistil hér.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 7.11.2010 kl. 22:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband