Laugardagur, 11. desember 2010
Bandaríkin snúast gegn hinum frjálsa heimi.
Það fór þá þannig að það eru Bandaríkin sem leiða herförina gegn hinum frjálsa heimi sem orðið hefur til með tilkomu netsins á síðasta áratug. Hinum frjálsa heimi þar sem upplýsingar streyma frjálst milli landa á samtengdu neti sem nær í dag inn á hvert heimili þar sem er símasamband.
Það fór þá þannig að það eru ekki kommúnistastjórnir eða einræðisherrar þessa heims sem reyna að stöðva umræður og frjálst fræði upplýsinga um hinn frjálsa heim.
Nei, það eru Bandaríkin.
Einræðisstjórnin í Kína reynir að takmarka aðgang Kínverja að netinu með ýmsum leiðum og reynir að ritskoða þær umræður sem fara fram í Kína. Í Kína eins og í Sovétríkjunum fyrrverandi eru rithöfundar fangelsaðir fyrir skoðanir sínar. Í Kína hefur ný stétt manna bæst á lista þeirra sem eru fangelsaðir fyrir skoðanir sínar og það eru "bloggarar".
Bandaríkin hafa skotið þessum kommúnistaríkjum ref fyrir rass og eru nú að reyna að stjórna því hvaða upplýsingum og hvaða gögnum hinn frjálsi heimur skal hafa aðgang að.
Hver er munurinn á framgöngu Kína í máli kínverska friðarverðlaunahafans, Liu Xiaodo, og framgöngu Bandaríkjanna í máli WikiLeaks?
Í báðum tilfellum eru þessi heimsveldi að þagga niður í hinum frjálsa heimi þar sem táningafrelsi og mannréttindi eru leiðarljósið.
Málið er að Kínakallarnir eru þó heiðarlegir í sinni afstöðu. Við vitum hvar við höfum þá. Hjá þeim er samræmi í orðum og athöfnum.
Bandaríkjamenn segja eitt en gera annað. Þeir segjast vera boðberar frelsis og mannréttinda á sama tíma og þeir beita öllum brögðum, þar á meðal bolabrögðum til að stöðva hinn frjálsa heim.
Að Bandaríkin skuli grípa til yfirhylminga og kúgunar þegar umræðan fer að snerta þá of náið, með því þá hafa þeir þessa síðustu daga afhjúpað sig sem þennan falska boðbera "frelsisins".
Hvers konar "frelsi" er það sem Bandaríkin standa fyrir eftir síðustu aðför að WikiLeaks þar sem Bandaríkjastjórn beitir fyrir sig greiðslukortafyrirtækjum til að þagga niður í hinum frjálsa heimi?
Ætla íslensk stjórnvöld ekki að kalla bandaríska sendiherrann á sinn fund, lesa honum pistilinn og senda formleg mótmæli til Wasington vegna þessa?
Alltaf fjölgar þeim ástæðum sem valda því að við Íslendingar eigum að skilja að skiptum við þessa gömlu hernámsþjóð okkar og skipa íslenskri þjóð til borðs með frjálsum ríkjum Evrópu.
Mynd: Göngustígurinn upp Esju
Hættir netárásum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 10. desember 2010
Nánast sami samningur.
Eftir að hafa lesið yfir þau drög sem birst hafa á íslensku um Icesave 3 þá er mín niðurstaða sú að þetta er nánast sami samningur og þjóðin felldi í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrr á þessu ári.
Þetta er einnig niðurstaða hollenska fjármálaráðherrans skv. skýrslu sem hann sendi hollenska þinginu í dag, sjá hér
Við Íslendingar eigum eins og áður að ábyrgjast og greiða Hollendingum 1,3 milljarða evra og Bretum 2,35 milljarða punda. Alls um 626 milljarða króna. Eða eins og hollenski fjármálaráðherrann segir þá munu Íslendingar greiða allar Icesave innistæður upp að fullu. Hvað hefur breyst frá Icesave 2?
Allt er með sömu formerkjum og áður. Ísland er með þessum samningi að samþykkja að ábyrgjast og greiða Icesave að fullu. Til þess fáum við þrotabú Landsbankans. Við eigum eins og áður að bera ábyrgð á því ef þær eignir duga ekki til. Enda takið eftir að í fréttinni leggur "aðal samningamaður" Íslands áherslu á það að þessi samningur er til 37 ára.
Það sem hefur breyst frá því þjóðin hafnaði Icesave 2 er eftirfarandi:
- Vextir hafa lækkað í 3,0% fyrstu 5 árin og því verða greiðslurnar lægri.
- Gengið hefur styrkst og því hefur upphæðin sem við eigum að greiða lækkað í krónum.
- Skilanefnd Landsbankans heldur því nú fram að meira fáist upp í eignir Landsbankans en áður en leggur samt mikla áherslu á að þeir hafi fyrir því enga vissu.
Að öðru leiti er þetta sami grautur í sömu skál.
Þá er athyglisvert það ósamræmi sem er í kynningu samninganefndarinnar á samningnum, sjá hér. Lesið er greinar 9 og 10 þar sem nákvæmlega er útfært og lýst hvernig greiðslur eiga að fara fram næstu 37 árin annars vegar og hinsvegar það sem fram kemur í grein 12 þar sem gefið er í skin að 50 milljarðar falli á ríkið og það eigi að klára allar greiðslur fyrir árið 2016. Þá er rætt er um "greiðslur" og svo aftur "greiðslur vaxta" þannig að ekki er hægt skilja við hvað er átt. "Greiðslur vaxta" eiga að hefjast strax en síðan er rætt um að "greiðslur" eigi að hefjast 20016?
Þá er það athyglisvert hvernig vextir munu hækka eftir 2016 úr 3% í eitthvað sem heitir "viðeigandi CIRR vexti". Öllum sem þetta les er ljóst að þeir vextir verða hærri en þessi 3%. Í þessum Icesave 3 samningi er gert ráð fyrir að á hverju ári í 37 ár verða greiðslur að berast frá skilanefnd Landsbankans og ríkissjóði til Bretlands og Hollands. Í 32 ár af þessum 37 verða vextir mun hærri en 3%.
Ég spyr því eru þessir 3% vextir fyrstu 5 árin bara eitthvað blöff?
Það sem í raun hefur breyst frá Icesave 2 og einhverju máli skiptir hefur í raun ekkert með samninginn að gera, án þess þó að ég sé að gera lítið úr lægri vöxtum fyrstu 5 árin, lögsagan færð frá Bretlandi til alþjóðadómstólsins í Haag o.s.frv, þá eru það fyrst og fremst utanaðkomandi þættir sem gera Icesave 3 hagstæðari en Icesave 2.
Í eðli sínu er þetta sami samningur.
Það sem hefur breyst er að gengið hefur styrkst og skilanefnd Landsbankans telur að nú fáist eitthvað meira upp í kröfur.
Og er ætlast til að ég samþykki þetta?
Mynd: Göngustígurinn upp Esju
Býsna góð niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 1. desember 2010
Að loknum kosningum til Stjórnlagaþings
Að loknum kosningum til Stjórnlagaþings þá er ég ánægður með að hafa tekið þátt í þessum kosningum sem frambjóðandi. Við sem tókum þátt með því að bjóða okkur fram, við studdum með orðum og athöfnum þetta framtak.
Full ástæða er til að óska þeim sem náðu kjöri til hamingju.
Eins er ég ánægður með þann hóp sem valdist á þingið. Allt er þetta ágætlega þekkt fólk og það af góðu einu. Sex af þeim sem ég skrifaði á minn lista náðu kjöri.
Það er fyllsta ástæða að ætla að þær vonir og væntingar sem ég og aðrir hafa til þessa Stjórnlagaþings, að þær vonir og væntingar verði að veruleika.
Verður það svo að á þessum fullveldisdegi, 1. desember 2010, þegar við fögnum nýkjörnum fulltrúum þjóðarinnar á þing sem mun setja þjóðinni nýja stjórnarskrá, að þetta verði dagurinn þar sem við hefjumst handa við að byggja upp nýtt Ísland?
Skuldir ríkissjóðs vaxa um 2,2% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 28. nóvember 2010
Dræm kjörsókn
Dræm kjörsókn er vissulega vonbrigði. Æskilegt hefði verið að væntanlegt Stjórnlagaþing hefði fengið sterkara umboð til að breyta stjórnarskránni.
Það breytir því ekki að þetta stjórnlagaþing mun fara fram og án efa verða til þess að löngu tímabærar breytingar á stjórnarskránni verða að veruleika.
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Veitum Stjórnlagaþinginu fullt umboð til að breyta stjórnarskránni.
Til þess að þær breytingar sem við viljum öll sjá á stjórnarskránni, þ.e. skýrari aðgreining framkvæmda-, löggjafar-, og dómsvalds ásamt ákvæðum um eignarhald á auðlindum o.s.frv., til þess að þær nái fram að ganga þá þarf góða kjörsókn.
Mætum á kjörstað og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 26. nóvember 2010
Það lítur vel út með þátttöku í kosningunni á morgun.
Það lítur vel út með þátttöku í kosningunni á morgun ef marka má þetta litla úrtak sem sýnt er í þessu fréttaskoti á mbl.is.
Áríðandi er að komandi Stjórnlagaþing fái gott og skýrt umboð frá þjóðinni. Með því þá verða þær breytingar sem Stjórnlagaþingið vill gera, þær mun Alþingi ekki treysta sér til að standa á móti.
Við erum sem samfélag að kosta miklu til með því að efna til þessa Stjórnlagaþings. Eftir að hafa tekið þátt í þessum kosningum sem frambjóðandi þá er ég þess fullviss að þjóðin mun kjósa frambærilegt fólk á þetta þig og þetta Stjórnlagaþing mun koma með og leggja fram nýja og breytta stjórnarskrá sem mun verða þessu samfélagi mjög til framdráttar á komandi árum.
Það eina sem getur komið í veg fyrir það er að Alþingi og flokkarnir og þau hagsmunasamtök sem á bak við þá standa snúist gegn þessum breytingum.
Til þess að þær breytingar sem við viljum öll sjá, þ.e. aðgreining framkvæmda-, löggjafar-, og dómsvalds ásamt ákvæðum um eignarhald á auðlindum o.s.frv., til þess að þær nái fram að ganga þá þarf góða kjörsókn.
Mætum á kjörstað á morgun og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama.
Veitum Stjórnlagaþinginu fullt umboð til að laga og breyta stjórnarskránni.
Ætlar fólk að kjósa? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 25. nóvember 2010
Álver á Bakka slegið út af borðinu?
Niðurstaða Skipulagsstofnunar virðist vera mjög afdráttarlaus. Álver á Bakka er nánast slegið út af borðinu. Mikil óafturkræf umhverfisáhrif, mikil aukning í útblæstri gróðurhúsalofttegunda og ekki víst að næg orka sé fyrir hendi.
Fyrir byggingakall eins og mig eru þessar niðurstöður áfall. Fyrir heimamenn hljóta þessar niðurstöður Skipulagsstofnunar líka að vera áfall.
Síðasta vor kynnti ég forystumönnum þessara sveitarfélaga þann möguleika að setja þarna upp verksmiðju sem framleiddi háspennukapla og sæstrengi. Fyrsta verkefni slíkrar verksmiðju yrði að framleiða 400 - 500 MW sæstreng og leggja til Bretlands. Slík verksmiðja myndi skapa jafn mörg störf per MW og álver. Verðið sem fæst fyrir rafmagnið á smásölumarkaði í Bretlandi er hins vegar fjórfalt hærra en fæst fyrir rafmagn til álbræðslu.
Heimamenn ákváðu í vor að halda sig við álverið.
Möguleikinn með kapalverksmiðjuna er enn opinn. Kaupendur á rafmagninu í Bretlandi bíða tilbúnir. Framleiðandinn sem leggur til allan vélbúnað til að framleiða kaplana, þ.e. verksmiðjuna bíður eftir hringingu. Það eina sem vantar er rafmagnið. Um leið og rafmagn fæst og sala er tryggð þá koma fjármögnunaraðilar að verkefninu.
Vilji menn setja upp kapalverksmiðju í stað álvers á Húsavík þá er síminn hjá mér er 551 3499.
Umtalsverð umhverfisáhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Er "þingbundin stjórn" þýðing á "semi-presidential"?
Af hverju sömdu höfundar stjórnarskrárinnar nýyrðið "Þingbundin stjórn" og settu það nýyrði inn í fyrstu grein stjórnarskrárinnar? Af hverju notuðu þeir ekki hið vel þekkta orð "þingræði" yfir það stjórnarfyrirkomulag sem hér átti að vera?
Fyrsta grein stjórnarskrárinnar hljóðar svo: "1.gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn?"
Á vísindavef HÍ sjá hér er að finna þessa tilvitnun:
"Hugmyndir hafa komið fram um að nefna þingræðisregluna skýrum orðum í stjórnarskránni, m.a. í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983 en í núverandi stjórnarskrá leikur vafi á því hvort orðalagið "þingbundin stjórn" feli þingræðisregluna í sér. [?] Ólafur Jóhannesson bendir réttilega á að orðalagið "þingbundin" lögfesti ekki þingræðisregluna á Íslandi. Þá vaknar engu að síður sú spurning hvaða stjórnskipunarreglu höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlað sér að innleiða með þessu ákvæði. Hvergi í umræðum á Alþingi er að finna viðhlítandi skýringu á þessu orðalagi að öðru leyti en því að í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að þessi grein geri "enga efnisbreytingu á þeirri skipan, sem nú er, svo langt sem hún nær." (Alþ. tíð. A, 1919: 104.)"
Konungsveldi Evrópu eru almennt með þingræði "parliamentary". Í BNA er forsetaræði "presidential" þar sem forseti og forsætisráðherra er eitt og sama embættið. Í Frakklandi og Finnlandi er hins vegar stjórnskipan sem kallast á ensku "semi-presidential". Yfir þetta hugtak er ekki til neitt orð á Íslensku.
"Þingbundin stjórn", er það þýðingin þeirra sem sömdu stjórnarskrána á "semi-presidential"?
Í forsetatíð Sveins Björnssonar þá var stjórnarskráin túlkuð með allt öðrum hætti en nú. Í fyrstu ríkisstjórn hans sátu engir þingmenn. "Lýðveldi Sveins Björnssonar" var franskt / finnst lýðveldi. Í forsetatíð Sveins Björnssonar þá var farið að stjórnarskránni. Þá voru óskrifaðar hefðir og venjur ekki það sem var látið ráða för við stjórnskipun landsins eins og nú er.
Það sem hefur breyst frá forsetatíð Sveins Björnssonar er að þeir stjórnmálamenn sem settust á Alþingi eftir 1944 þeir byrjuðu að túlka stjórnarskrána eftir eigin höfði. Það gátu þeir gert því hér er engin Stjórnlagadómstóll.
Þannig náðu þeir að sölsa undir sig vald forsetans, heimtuðu að hann yrði óskilgreint "sameiningartákn", sviptu hann málfrelsi og settu í stofufangelsi á Bessastöðum.
Raunveruleikinn varð síðan sá að framkvæmdavaldið hefur lent í höndum flokkana og eigendum þeirra. Fjórflokkurinn, ekki forseti, hefur farið með framkvæmdavaldið og skipað ráðherra.
Ég vil fá hér það lýðveldi sem við eigum að hafa skv stjórnarskránni, franskt / finnst lýðveldi. Lýðveldi þar sem framkvæmdavaldið er tekið úr höndum fjórflokksins og sett í hendur almennings. Lýðveldi þar sem almenningur kýs framkvæmdavaldið á fjögurra ára fresti. Lýðveldi þar sem almenningur getur skipt út forsetanum og öllum ráðherrum hans á fjögurra ára fresti og kosið sér nýjan forseta og fengið með honum nýja ráðherra.
Alþingi fari hinsvegar með löggjafarvaldið, fjárveitingarvaldið og hafi eftirlit með framkvæmdavaldinu.
Saman skipa forseti og 2/3 hlutar Alþingis dómara til að fara með dómsvaldið.
Þannig tryggjum við best þrískiptingu valdsins sem var ein helsta krafa Þjóðfundarins þann 6. nóv. sl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Veit engin hvað "þingbundin" stjórn er?
Veit einhver hvað þetta þýðir: "1.gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn?"
Ekki vissi Ólafur Jóhannesson fyrr. lagaprófessor, forsætisráðherra og höfundur bóka um stjórnskipun Íslands, m.a. "Lög og réttur", hvað þetta þýddi.
Af hverju sögðu menn ekki bara: "Ísland er lýðveldi og stjórarfarið er þingræði"?
Hvað þýðir þetta nýyrði "þingbundin" stjórn? Af hverju að nota nýyrði?
Á vísindavef HÍ sjá hér er að finna þessa tilvitnun:
"Hugmyndir hafa komið fram um að nefna þingræðisregluna skýrum orðum í stjórnarskránni, m.a. í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983 en í núverandi stjórnarskrá leikur vafi á því hvort orðalagið "þingbundin stjórn" feli þingræðisregluna í sér. [?] Ólafur Jóhannesson bendir réttilega á að orðalagið "þingbundin" lögfesti ekki þingræðisregluna á Íslandi. Þá vaknar engu að síður sú spurning hvaða stjórnskipunarreglu höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlað sér að innleiða með þessu ákvæði. Hvergi í umræðum á Alþingi er að finna viðhlítandi skýringu á þessu orðalagi að öðru leyti en því að í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að þessi grein geri "enga efnisbreytingu á þeirri skipan, sem nú er, svo langt sem hún nær." (Alþ. tíð. A, 1919: 104.)"
Þetta er eitt það merkilegasta sem ég hef lesið um stjórnarskrána. Okkar helsti sérfræðingur um stjórnskipun Íslands, Ólafur Jóhannesson fyrrv. lagaprófessor og forsætisráðherra taldi að það léki vafi á því hvort orðalagið "þingbundin" stjórn fæli í sér þingræðisregluna. Þessi efi hefur sjálfsagt ekki verið að ástæðulausu hjá Ólafi. Ólafur hlýtur að hafa vitað eitthvað meira um þetta mál en við leikmennirnir.
Af hverju völdu þeir sem sömdu stjórnarskrána að nota þetta nýyrði "þingbundin" stjórn í stað þess að segja einfaldlega að á íslandi væri "þingræði". Setning og orð sem allir vissu hvað þýddi og merkti?
Með því að nota þetta nýja orð "þingbundin" stjórn, lá þá ekki ljóst fyrir að skv. stjórnarskránni þá var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944 að "þingræði" var EKKI sú stjórnskipan sem hér átti að ríkja?
Á þessu geta verið tvær skýringar. Annað hvort voru þeir sem sömdu stjórnarskrána á sínum tíma að rugla með orð og hugtök. Með öðrum orðum vissu ekki hvað þeir voru að gera. Eða þá að þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Ef þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera þá var ætlunin greinilega að koma hér á fót lýðræði að franskri fyrirmynd. Ef það var ætlunin þá þurfti að finna nýtt íslenskt orð yfir það sem þá ensku er kallað "semi-presidential". Það er, íslenskt orð yfir stjórnskipulagið eins og það er í Frakklandi og Finnlandi.
Og takið eftir að í athugasemdum um frumvarpið segir: "þessi grein geri enga efnisbreytingu á þeirri skipan og nú er" en á þessum tíma,1919, var ekki þingræði á íslandi. Konungur tilnefndi á þessum tíma ráðherra og ríkisstjórn. Sama gerði Sveinn Björnsson í sínu fyrsta ráðuneyti þegar Ísland laut enn stjórn stjórn Danakonungs á stríðsárunum.
Konungsveldi Evrópu er almennt með þingræði "parliamentary". Í BNA er forsetaræði "presidential" þar sem forseti og forsætisráðherra er eitt og sama embættið. Í Frakklandi og Finnlandi er hins vegar stjórnskipan sem kallast á ensku "semi-presidential". Yfir þetta hugtak er ekki til neitt orð á Íslensku.
Við hljótum að spyrja: Af hverju sömdu höfundar stjórnarskrárinnar nýyrðið "Þingbundin stjórn" og settu það í stjórnarskrána þegar þeir sömdu hana? Af hverju notuðu ekki hið vel þekkta orð "þingræði" yfir það stjórnarfyrirkomulag sem hér átti að ríkja? Hvað vissi Óli Jó?
"Þingbundin" stjórn, er það þýðingin á "semi-presidential"?
Að túlka stjórnarskrána með þessum hætti eins og ég geri hér hlýtur að hafa verið eins og eitur í beinum íslenskra stjórnmálaflokkanna á sínum tíma. Með því missa þeir framkvæmdavaldið úr sínum höndum og í hendur þjóðarinnar. Þjóðarinnar sem í beinni kosningu skiptir um forseta og þar með ráðherra eftir geðþótta. Það hefur engin íslenskur þingmaður áhuga á því. Hvorki þá né nú.
Frá því ég las stjórnarskrána "aftur" fyrir 3 til 4 árum þá rann þessi "sannleikur" upp fyrir mér. Stjórnmálaforingjar okkar frá lýðveldisstofnun hafa náð að túlka stjórnarskrána eins og þeim hentar af því að hér er engin Stjórnlagadómstóll. Þannig hafa þeir náð að sölsa undir sig vald forsetans, heimtað að hann verði sameiningartákn, svipt hann málfrelsi og sett í stofufangelsi á Bessastöðum. Með þessu hefur þjóðin misst mikils sem er hið beina lýðræði sem aldamótakynslóðin frá um 1900 gaf þjóðinni þegar við fengum sjálfstæði frá Dönum. Það beina lýðræði að kjósa handahafa framkvæmdavaldsins í beinni kosningu.
Raunveruleikinn varð síðan sá að framkvæmdavaldið hefur lent í höndum flokkana og eigendum þeirra. Flokkarnir, ekki forseti, hafa skipst á að fara með framkvæmdavaldið og skipa ráðherra.
Það er þess vegna sem sátt hefur verið um það á Alþingi frá lýðveldisstofnun að hreifa ekki við stjórnarskránni. Það er þess vegna sem allir okkar helstu stjórnmálamenn hafa frá því ég fór að fylgjast með upp úr 1970 sagt stjórnarskrána illa skrifaða, illa hugsaða og til bráðabyrgða. En er það svo og var það svo? Var hún ekki einmitt skrifuð til að koma böndum á flokkana og þingmennina og gefa þjóðinni sömu lýðréttindi og Frakkar hafa að geta kosið framkvæmdavaldið í beinni kosningu á fjögurra ára fresti?
Mín niðurstaða er sú að ég vil fá það lýðveldi sem við eigum að hafa hér skv stjórnarskránni, franskt / finnst lýðveldi. Lýðveldi þar sem framkvæmdavaldið er tekið úr höndum fjórflokksins og sett í hendur almennings.
Alþingi fari með löggjafarvaldið og fjárveitingarvaldið.
Saman skipa forseti og 2/3 hlutar Alþingis dómara til að fara með dómsvaldið.
Þannig tryggjum við best þrískiptingu valdsins sem var ein helsta krafa Þjóðfundarins þann 6. nóv. sl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Landinu skipt í tvö kjördæmi?
Ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið í aðdraganda Stjórnlagaþings er að landinu verið skipt í tvö kjördæmi.
Hér verði eitt landsbyggðarkjördæmi og annað kjördæmi fyrir höfuðborgarsvæðið.
Þessi kjördæmi verði með jafn marga þingmenn og jafnt vægi atkvæða. Oddamaður flyst á milli kjördæma á fjögurra ára fresti. Þannig fer landsbyggðin með meirihluta á Alþingi í eitt kjörtímabil og höfuðborgarsvæðið á næsta kjörtímabili.
Við verðum að horfast í augu við það að ef við ætlum að endurnýja stjórnarskána og uppfæra mannréttindakafla hennar þá er ljóst að ekki er hægt að mismuna landsmönnum eftir búsetu með þeim hætti sem nú er gert. Ekki frekar en ef kosningafyrirkomulagið væri þannig að atkvæði karla gilti tvöfalt á við atkvæði kvenna og nýbúa. Með núverandi fyrirkomulagi er verið að brjóta mannréttindi á stórum hluta landsmana.
Íbúar landsbyggðarinnar eru vanir að hafa "sína þingmenn". Að breyta landinu í eitt kjördæmi hentar því mörgum á landsbyggðinni ekkert sérlega vel og leggst ekki vel í marga.
Að skipta landinu í tvö kjördæmi, eitt landsbyggðarkjördæmi og annað á höfuðborgarsvæðinu, er kannski ágætis lausn og góð málamiðlun á milli þeirra sem vilja halda í óbreytta kjördæmaskipan og þeirra sem vilja gera landið að einu kjördæmi.
Mynd: Göngustígurinn upp Esju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 22. nóvember 2010
Umræðan og kosningabaráttan fyrir Stjórnlagaþingið að komast á skrið.
Þetta er mikið framtak hjá rúv að kynna alla frambjóðendur til Stjórnlagaþings á Rás 1 nú í vikunni fyrir kosningar. Allir frambjóðendur fá 5 mínútur til að kynna sig og áherslur sínar.
Þetta er einstakt framtak en þessar kosningar eru líka einstakar.
það er ekki eitt, það er og verður allt sögulegt við þessar kosningar og þetta þing.
Talað var við nærri 500 frambjóðendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 19. nóvember 2010
Farið í manninn en ekki boltann.
það var aðall íslenskrar knattspyrnu til skamms tíma að fara í manninn en ekki boltann. Sú hefð hefur mikið breyst á síðustu árum. Knattspyrnan hér heima hefur þróast mikið og þroskast.
Ekkert hefur hins vegar breyst hjá íslenskum fjölmiðlamönnum.
Fjölmiðlamenn vaða ennþá í manninn en ekki boltann.
Lítið hefur breyst í íslenska fjölmiðlaheiminum og hvernig fjölmiðlamenn nálgast umræðuna. Allt er við það sama á þeim vettvangi og var á tímum Kalda stríðsins. Fjölmiðlamenn spila enn sinn bolta á mölinni á Melavellinum á sama tíma og samfélagið spilar sinn bolta á gerfigrasi í knattspyrnuhúsum.
Með einmitt svona vinnubrögðum þá eru frétta- og blaðamenn búnir að reka allt sómakært fólk út úr sviðsljósinu og út úr stjórnmálunum.
Ég held að fjölmiðlafólk þessa lands verði að fara að átta sig á því að í dag er hér allt annar veruleiki en var.
Fjölmiðlafólk, gefið þessu áhugafólki (eins og Marinó G Njálssyni) sem er að koma fram á sjónarsviðið, fólki sem er hvert með sínum hætti og hvert á sínu sviði að takast á við þetta mikla pólitíska og efnahagslega hrun, gefið þessu fólki grið.
Ekki greint frá skuldum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 18. nóvember 2010
Hvað með þriðja dómstigið, Ögmundur?
Ögmundur var búinn að segjast ætla að koma á þriðja dómstiginu. Hvað breyttists?
Af hverju var hætt við þessar réttarbætur sem felast í því að hér verði sett á fót þriðja dómstigið eins og víðast hvar er í nágrannalöndum okkar?
Af hverju voru þessi nýju dómarar sem þarf hvort sem er að ráða og borga laun, af hverju voru þeir ekki settir inn í nýtt millidómstig? (Landsdóm, Þjóðdóm?)
Af hverju erum við Íslendingar með úrelt réttarkerfi sem á sér ekki samjöfnuð í hinum vestræna heimi?
Hér er ekki einu sinni stjórnlagadómstóll.
Ríkisstjórn og þing kemst því upp með að túlka stjórnarskrána eins og þeim einu sinni hentar. Komi upp álitamál hvort lög eða lagagrein, samningur við erlend ríki eða aðrar stjórnarathafnir brjóti í bága við stjórnarskrána þá er mat þingmanna sem sitja í stjórn á hverjum tíma látið ráða. Í öðrum lýðveldum Evrópu þá úrskurða sérstakir stjórnlagadómstólar í slíkum álitamálum.
Afleiðing þessa að hér er engin stjórnlagadómstóll blasir við. Stjórnskipan Íslands er í engu samræmi við texta stjórnarskrárinnar enda sagði Sigurður Líndal fyrr. lagaprófessor í síðasta viðtali hans í rúv eitthvað á þessa leið:
"Það væri allt í lagi með íslensku stjórnarskrána ef það væri farið eftir henni."
Þetta er kjarni málsins. Þar er ekki farið eftir stjórnarskránni og það er tilgangslaust að þjóðin fari að setja sér nýja stjórnarskrá ef það verður ekki heldur farið eftir þeirri nýju.
Þess vegna verður að setja hér á fót stjórnlagadómstól. Sjá nánar þessa grein hér og í farmhaldi draga íslensku lögmannastéttina inn í nútímann og koma hér á fót millidómstigi að Evrópskri fyrirmynd. Millidómstigi sem Ögmundur sagðist fyrir örfáum dögum ætla að setja á fót.
Einhver bið verður á því að við Íslendingar fáum þær réttarbætur sem aðrar þjóðir njóta en nú er tækifærið með komandi stjórnlagaþingi.
Sjá heimasíðuna mína og þær réttarbætur sem ég vil að verði komið á samfara því að við fáum nýja stjórnarskrá.
Sjá hér: www.fridrik.info
Dómurum fjölgað tímabundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.11.2010 kl. 01:12 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 18. nóvember 2010
Stjórnlagaþing - Ráðherrum vikið frá störfum
Sett verði skýrari ákvæði um ábyrgðir ráðherra og fyrir hvaða afglöp ber að vísa ráðherra úr starfi, t.d fyrir það að fara vitandi vits með ósannindi í ræðustól Alþingis.
Aðrar hefðir eru í lýðveldum Evrópu en í konungsveldum Evrópu með afsagnir ráðherra. Í lýðveldum eins og Frakklandi og Finnlandi þar velur og skipar forsetinn ráðherrana. Þessir ráðherrar þurfa eigi að síður að hafa traust þingsins. Missi þessir ráðherrar það traust þá verða þeir að segja af sér og forseti skipar þá nýjan ráðherra. Í lýðveldum Evrópu gerist það oft að forseti víkur ráðherra og skipar nýjan þó svo ekki hafi komið fram vantraust á ráðherrann í þinginu. Ef traustið milli þings og ráðherra er farið þá er ráðherrunum vikið og nýr skipaður.
Þá hefur það oft komið fyrir að ráðuneyti forsetans missir allt traust þingsins. Þá þarf forsetinn að skipta úr stórum hluta ríkisstjórnar sinnar og í sumum tilfellum allri ríkisstjórninni.
Í konungsveldunum eru ráðherraskipti ekki eins algeng. Ráðherrar koma þá úr þingmannahópnum og sitja sem ráherrar á þingi með sama hætti og hér hefur verið. Þetta fyrirkomulag hefur gengið ágætlega upp í þessum konungsveldum enda hafa þessi lönd öll stjórnlagadómstól sem stendur vörð um stjórnarskrána.
Hér heima hefur það verið eftirlátið þingmönnum og ráðherrum að ákveða og meta hvort lög, samningar við erlend ríki og aðrar stjórnarathafnir brjóti í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar. Í lýðveldum Evrópu og BNA er sérstakur stjórnlagadómstóll látinn úrskurða um slík vafaatriði.
Ástæða þess að stjórnskipunin á Íslandi hefur þróast í átt að einhvers konar "flokksræði" eða nánast "einræði", það er vegna þess að formönnum stjórnmálaflokkana sem stýra ríkisstjórninni á hverjum tíma hefur verið leyft í gegnum áratugina að túlka stjórnarskrána eins og þeim hentar. Engin hefur eða getur mótmælt eða kært það hvernig einstak ráðherrar eða þingið túlkar stjórnarskrána.
Þess vegna er svo mikil þörf á að stjórnarskráin verið endurskoðuð og með því lagður grunnur að nýrri stjórnskipan á Íslandi þar sem þrískipting valdsins að franskri / finnskri fyrirmynd er fest í sessi.
Sjá frönsku og finnsku stjórnarskrána hér á ensku:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 17. nóvember 2010
Stjórnlagaþing - Forseti tilnefnir ráðherra að franskri / finnskri fyrirmynd.
Í lýðveldum Evrópu þá eru það forsetarnir sem kosnir eru beinni kosningu af þjóðinni sem ráða því hverjir verða ráðherrar, ekki þingið eða þingmenn.
Í lýðveldum Evrópu fer forsetinn með framkvæmdavaldið, hann skipar ráðherra, hann gerir samninga við erlend ríki, skipar sendiherra og er æðsti yfirmaður hersins, ekki þingið eða þingmenn.
Þingið sinnir löggjafarhlutverkinu, hefur eftirlit með framkvæmdavaldinu og sér um mikilvægasta þáttinn sem eru fjármálin. Þingið er með fjárveitingarvaldið og skammtar framkvæmdavaldinu fé.
Í finnsku stjórnarskránni þá fær þingið reyndar að kjósa um forsætisráðherrann sem forsetinn tilnefnir. Hafni þingi forsætisráðherraefni forseta þá tilnefnir forseti annað forsætisráðherraefni. Hafni þingið líka þeim einstakling þá fær þingið að kjósa milli þessara tveggja einstaklinga. Sá þeirra sem fær þá fleiri atkvæði, hann verður forsætisráðherra. Þingmenn verða ekki ráðherrar í þessum lýðveldum Evrópu. Evrópskir ráðherrar eru fagmenn sem forseti velur og felur þeim að stjórna ráðuneytunum í sínu umboði.
Íslenska stjórnarskráin er í grunninn eins og sú franska og finnska. Hér hefur hins vegar ekki verið neinn stjórnlagadómstóll til að verja stjórnarskrána og því hefur íslenska stjórnarskráin verið túlkuð út og suður af okkar valdagráðugu stjórnmálamönnum í gegnum áratugina þannig að í dag höfum við hér stjórnskipun sem byggir á einhverjum hefðum og venjum sem engin veit hverjar eru.
Jafnvel Sigurður Líndal fyrrv. lagaprófessor sagði eitthvað á þessa leið í síðasta viðtali sem ég sá hann í nú í haust:
"Það væri allt í lagi með íslensku stjórnarskrána ef það væri farið eftir henni"
Málið er að það er ekki farið eftir henni, þess vegna þarf að setja okkar nýja stjórnarskrá svipaða þeirri frönsku eða finnsku.
Sjá tengil á finnsku stjórnarskrána á ensku hér
Sjá tengil á frönsku stjórnarskrána á ensku hér
PS, ég mæli með þeirri finnsku, hún er auðlesnari fannst mér. Hugmyndafræðin er mjög svipuð, nánast sú sama.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 12. nóvember 2010
Styrktartónleikarnir í Grafarvogskirkju tókust vel - forsetinn kom og borgaði fyrir sig og frú.
Styrktartónleikarnir í Grafarvogskirkju í kvöld tókust frábærlega enda tónlistarmennirnir sem komu fram og gáfu vinnu sína einvalalið.
Gestir kvöddu ánægðir og nokkrir höfðu á orði að þetta hefðu verið einhverjir bestu tónleikar sem þeir höfðu farið á. Þannig hefur þetta reyndar verið á hverju ári frá því við byrjuðum með þessa tónleika.
Við í Lionsklúbbnum Fjörgyn höfum í þessi átta ár sem við höfum haldið þessa tónleika alltaf sent tvo boðsmiða á Bessastaði. Forsetinn og frú hafa, fyrir utan eitt ár, alltaf mætt og alltaf kemur Ólafur og borgar fyrir þau bæði eins og aðrir gestir... Hann fær reyndar sæti á góðum stað :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2010 kl. 16:22 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 10. nóvember 2010
Uppselt á Stórtónleikana í Grafarvogskirkju
Uppselt á Stórtónleikana í Grafarvogskirkju sem fram fara annað kvöld. Fyrir tónleikunum stendur Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi. "Landslið" íslenskra tónlistamanna kemur fram á þessum tónleikum og gefa allir þessir listamenn vinnu sína. Ágóðinn rennur til BUGL og í Líknarsjóð Fjörgynjar.
Meðal þeirra sem fram koma eru
Buddy Holly sönghópur (Ingó, Sjonni Brinks, Felix ofl.?)
Egill Ólafsson
Fjallabræður, kór
Gissur Páll Gissurarson
Gréta Hergils
Gréta Salome fiðluleikari
Helgi Björnsson
Hörður Torfason
Jóhann Friðgeir Valdimarsson
Ómar Ragnarsson
Óskar Pétursson og Guðrún Gunnarsdóttir
Páll Rósinkransson
Ragnar Bjarnason
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú
Voces Maskulorum
Kynnir: Felix Bergsson
Undirleikarar: Jónas Þórir, Þorgeir Ástvaldsson
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 7. nóvember 2010
Að loknum Þjóðfundi
Þetta var áhrifaríkur dagur fyrir okkur sem sátum Þjóðfundinn. Að taka þátt í 1000 manna fundi sem þessum er ógleymanlegt öllum þeim sem þátt tóku.
Það var ljóst strax í upphafi að allir þeir sem þarna voru komnir tóku verkefnið alvarlega. Allir lögðu sitt af mörkum og öllum var ljóst mikilvægi verkefnisins. Það var alvarleiki í loftinu þarna inni en samt voru allir léttir og samstarfið og umræðan gekk átaklaust fyrir sig. Það var eins og niðurstöðurnar yrðu til af sjálfu sér á þessum 8 manna borðum.
Þetta fólk sem valið hafði verið af handahófi úr þjóðskrá var sannarlega mætt til að leggja grunn að nýrri og endurbættri stjórnarskrá. Það var ljóst að allir gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi málsins.
Við borðið sem ég sat við lengstan tíma var ein kona sem hafði það á orði að ef slíkur þjóðfundur hefði verið boðaður fyrir 5 árum þá hefðu örugglega ekki komið fram jafn mikið af tillögum að breytingum á stjórnarskránni. Fyrir fimm árum hefði án efa stór hluti fundarmanna spurt: "Er bara ekki í lagi með stjórnarskrána eins og hún er?"
Ég held ég geti fullyrt að engin á fundinum í dag kom með þessi rök: "Er stjórnarskráin bara ekki í lagi eins og hún er".
Á þessum fundi komu flestir með einhverjar tillögur að breytingum og betrumbótum á stjórnarskránni og allir sögðu sitt álit með því að kjósa með þeim breytingum sem þeim leist best á.
Allt þetta fólk vildi sjá breytingar og betrumbætur á stjórnarskránni og stjórnsýslunni.
Annar borðfélagi sagið: "Ef það væri ekki fyrir Hrunið og kreppuna þá værum við ekki hér í dag að gera tillögur að endurnýjun stjórnarskrárinnar".
"Ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott" segir gamalt máltæki og ef þetta Hrun og þessi kreppa verður til þess að við fáum hér nýja stjórnarskrá með réttlátari og betri stjórnsýslu þá munu jafnvel við byggingakallarnir eiga auðveldara með að sætta okkur við að allir þessir viðskiptavinir eru farnir í þrot og mikill fjöldi starfsfélaga, vina og kunningja hefur flutt til útlanda.
Vegna þessa boðs sem ég fékk á þennan þjóðfund þá ákvað ég í framhaldi að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings.
Hvort heldur ég verð kjörinn á Stjórnlagaþingið eður ei þá er þátttaka mín á þessum fundi mér mikið og gott veganesti fyrir vikurnar fram að kosningum þann 27. nóv. nk.
Á þessum fundi lærði ég margt og á þessum fundi sá ég fullt af góðum hugmyndum hvernig betrumbæta má stjórnarskrána og stjórnsýsluna.
Um þessar hugmyndir mun ég blogga hér á þessu bloggi fram að kosningum.
Sjá einnig nánar á: www.fridrik.info
Mynd: Göngustígurinn upp Esju.
Telja niðurstöður gagnast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 5. nóvember 2010
Stjórnlagaþing - Forseti og Alþingi skipi dómara.
Eins og stjórnskipunin hefur þróast undanfarna áratugi þá er mjög óljóst hve víðtækt valdsvið framkvæmdavaldsins er. Í dag er flestum ljóst að framkvæmdavaldið stjórnar því sem gerist á Alþingi og þingið er í raun afgreiðslustofnun og nánast formsatriði að láta þingið samþykkja það sem ríkisstjórnin / ráðherrar ákveða.
Svipað en þó á annan hátt er upp á teningnum varðandi dómsvaldið. Dómsvaldið er tengt framkvæmdavaldinu sterkum böndum. Til skamms tíma var Hæstiréttur með skrifstofur sínar í Arnarhváli og starfsmenn stjórnarráðsins og Hæstaréttar deildu sama húsnæðinu og sömu kaffistofunni og bílastæðum.
Þegar ákveðið var að byggja yfir Hæstarétt þá vildi framkvæmdavaldið ekki missa dóminn langt frá sér og bílastæðið við Arnarhvál var tekið undir hús Hæstaréttar. Hús Hæstaréttar var byggt þannig að það passaði réttinum eins og hann var þá. Örfáum árum eftir að húsið var tekið í notkun þá var dómurum fjölgað og nú leigir Hæstiréttur á ný skrifstofuaðstöðu í Arnarhváli og í dag deila starfsmenn, ráðuneytisstjórar og ráðherrar kaffistofu með dómurum Hæstaréttar.
Þetta er rifjað upp hér til að minna á þá staðreynd að um það má deila hvort íslensk stjórnvöld séu með þessu að brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar um aðskilnað dóms- og framkvæmdavalds.
Telst dómsvaldið vera aðskilið frá framkvæmdavaldinu þegar það er dómsmálaráðherra sem skipar alla dómara landsins og ráðherrann og ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins vinna undir sama þaki og deila kaffistofu og bílastæðum með dómurum Hæstaréttar?
Þetta fyrirkomulag gengur ekki. Í dag fær maður það á tilfinninguna að Hæstiréttur er útibú frá dómsmálaráðuneytinu.
Ef hér væri Stjórnlagadómstóll, sjá þennan pistil hér, þá myndi ég kæra þetta fyrirkomulag að hús Hæstaréttar sé alveg ofaní Arnarhváli og dómarar leigi þar skrifstofur. Að mínu mati er þetta brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um að aðskilja ber framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Byggja á nýtt hús fyrir Hæstarétt í að lámarki kílómeters fjarlægð frá Alþingi og næsta ráðuneyti. Nýr Stjórnlagadómstóll á einnig að vera í góðri fjarlægð frá Alþingi, ráðuneytum og Hæstarétti. Það gengur ekki að dómarar, ráðherrar og ráðuneytisstjórar séu að ráða ráðum sínum á sameiginlegum kaffistofum. Það getur ekki samrýmst ákvæðum stjórnarskrárinnar. Aðskilnaður fellst ekki því að vinna undir sama þaki og deila kaffistofum og bílastæðum.
Fyrsta skrefið er að losa dómsvaldið undan klóm framkvæmdavaldsins. 20 gr. stjórnarskrárinnar segir að forseti veiti þau embætti sem lög mæla. Í áranna rás hafa ráðherrar sölsað þessi völd forseta undir sig. Nú eru það ráðherrar sem veita öll embætti, forseti engin. Í öðrum lýðræðisríkjum þá skipar þingið og forsetinn dómarana saman. Það fyrirkomulag lýst mér vel á. Ég sé fyrir mér að valnefnd meti hæfi dómara hvort heldur er í Héraðsdóm eða Hæstarétt. Í framhaldi tilnefnir forseti einn þeirra. Alþingi staðfestir síðan skipun dómara og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða.
Vina-, frænda- og sonavæðing dómstólanna heyrir þá sögunni til.
Sjá nánar um mínar áherslur hér: www.fridrik.info
Mynd: Göngustígurinn upp Esju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 31. október 2010
Stjórnlagaþing - Við eigum að koma á fót Stjórnlagadómstóli.
Eitt stærsta skrefið í að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og að stjórnarskráin verði virt er að koma hér á fót Stjórnlagadómstóli.
Ef grunur er um að lög sem Alþingi er að setja eða hefur sett brjóti í bága við stjórnarskrána, alþjóðlega sáttmála sem Ísland hefur undirgengist eða önnur íslensk lög þá á að vera hægt að vísa slíkum málum til sérstaks Stjórnlagadómstóls eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Eins ef ráðherrar, ráðuneyti eða aðrar valdastofnanir eru með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, þá á að vera hægt að fara með slík mál fyrir Stjórnlagadómstól.
Sem dæmi um mál sem slíkur dómstóll myndi fjalla um er þegar núverandi forsætisráðherra setti norðmanninn Svein Harald Öygard tímabundið í embætti Seðlabankastjóra. Sjá hér. Í 20. grein stjórnarskrárinnar stendur: "Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt". Sjá hér.
Annað dæmi er þegar EES samningurinn var gerður á sínum tíma. Mjög var deilt um hvort samningurinn bryti í bága við Stjórnarskrána. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins fullyrtu að svo væri ekki. Aðrir héldu því fram að EES samningurinn skerti það mikið sjálfsforræði þjóðarinnar að slíkan samning yrði annað tveggja að leggja undir þjóðaratkvæði eða gera breytingar á Stjórnarskránni þannig að þessi samningur rúmaðist innan ákvæða hennar.
Þriðja dæmið sem má nefna var þegar þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra ákváðu nánast upp á sitt einsdæmi að Ísland yrði þátttakandi í stríðinu í Írak. Áfram má telja slík dæmi því þau eru mörg þessi álitamál.
Ef við Íslendingar hefðum sett á fót Stjórnlagadómstól strax við stofnun Lýðveldisins, dómstól sem hefði staðið vörð um stjórnarskrána, þá hefði verið hægt að skjóta ráðningu norðmannsins og EES samningnum fyrir slíkan dómstól. Dómstóllinn hefði þá úrskurðað hvort þessar athafnir framkvæmdavaldsins hefðu rúmast innan ramma stjórnarskrárinnar. Eins hvort ráðherrarnir tveir höfðu umboð til að skuldbinda Ísland sem þátttakanda í Írak stríðinu.
Það er tilgangslaust að vera með stjórnarskrá sem engin fer eftir. Það er ástæðulaust að blása til Stjórnlagaþings og setja þjóðinni nýja stjórnarskrá ef löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið halda áfram og komast upp með að virða ákvæði stjórnarskrárinnar að vettugi. Ef við ætlum okkur að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá þá verðum við einnig að setja á fót Stjórnlagadómstól að t.d. þýskri fyrirmynd sem úrskurðar um hvort ný lög, samningar við erlendi ríki og embættisfærslur ráðherra og reglugerðir ráðuneytanna samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar og annarra laga og samninga sem Ísland hefur gert.
Þessi dómstóll þarf að vera þannig að einstaklingar, félög og fyrirtæki geta kært löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið til slíks dómsstóls telji þeir á sér og stjórnarskránni brotið. Höfundur þessa pistils á t.d. að geta kært forsætisráðherra fyrir að hafa ráðið norðmann í stól Seðlabankastjóra þegar skýrt er skv. stjórnarskrá að það er bannað!
Fyrir hvaða dómstóli er í dag hægt að láta reyna á réttmæti slíkra embættisfærslna?
Hvað nú með önnur mál. T.d. samræmist það ákvæðum stjórnarskrárinnar að ríkið og í framhaldi sveitarfélögin hafa leigt/selt afnotaréttinn á orkuauðlindum HS orku til næstu 130 ára?
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt að með núgildandi fiskveiðilögum er íslenska ríkið að brjóta mannréttindi á almenningi á Íslandi. Við, almenningur höfum engin úrræði til að stöðva framkvæmdavaldið í þessum brotum sínum. Hér þarf úrræði og Stjórnlagadómstólar í löndunum hér í kring hafa slík úrræði. Þeir einfaldlega fella slík lög úr gildi. Þeir geta fellt úr gildi lög sem brjóta gegn stjórnarskránni og þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.
Málið er að slíkur Stjórnlagadómstóll er eitur í beinum íslensku stjórnmálaflokkanna og fulltrúum þeirra á þingi. Þetta fólk vill hafa sjálfdæmi í því hvernig ber að túlka stjórnarskrána og þá erlendu sáttmála sem Ísland hefur undirritað. Þetta fólk vill hafa sjálfdæmi í því hvort samningur eins og EES samningurinn stenst stjórnarskrána eða ekki. Þetta fólk vill ekki hafa yfir höfði sér einhvern dómstól sem getur stöðvað stjórnmálaflokkana i hagsmunagæslu þeirra og vildarvinaþjónustu. Þess vegna hafa þingmenn okkar síðasta mannsaldurinn sjaldan eða aldrei minnst á að setja hér á fót Stjórnlagadómstól. Stjórnlagadómstól sem mun halda í eyrun á Alþingi og stjórnsýlunni.
Ef Stjórnlagadómstóll hefur komið til umræðu þá er farið að bera við kostnaði o.s.frv. Að halda út slíkum dómstól er álíka kostnaður og fer í dag í að reka almannatengsladeildina hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Kostnaður er engin ástæða fyrir því að að stofna ekki Stjórnlagadómstól. Ef við höfum ekki efni á að vera hér með Stjórnlagadómstól þá höfum við ekki efni á að vera sjálfstæð þjóð.
Er það ekki löngu tímabært að við komum okkur upp dómsvaldi sem er í einhverju samræmi við það sem tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum?
Að setja hér á fót Stjórnlagadómstól er eitt mikilvægasta skrefið í þá átt að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og að farið verði eftir þeirri stjórnarskrá sem þjóðin mun setja sér á næstu misserum.
Með nýrri stjórnarskrá eiga einnig að fylgja réttarbætur eins og að hér verði stofnaður Stjórnlagadómstóll.
Sjá nánar áherslur mínar varðandi stjórnlagaþingið hér: www.fridrik.info
Mynd: Gönguleiðin upp Esju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.11.2010 kl. 01:41 | Slóð | Facebook