Lögbann á afborganir af gjaldeyrislánum?

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda íhugar að krefjast lögbanns á að bankar innheimti afborganir gjaldeyrislána og miði við gengi krónunnar eins og það er nú. Sagði Gísli í fréttum Ríkisútvarpsins, að ástæðan sé sú að fyrri tillögum hans til stjórnvalda og banka hafi ekki verið svarað.

Það er sérstakt að hvorki bankar eða stjórnvöld hafa svarað þessu erindi talsmanns neytenda.

Er það á þennan hátt sem loforð ríkisstjórnarinnar um skjaldborgina um fjölskyldurnar eru efnd?

Ef talsmaður neytenda er ekki virtur viðlits, hverju má þá einstaklingurinn búast við?

 


mbl.is Lögbann á afborganir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málstaður Íslands bíður hnekki eftir tap Kaupþings í máli gegn breska fjármálaeftirlitinu.

Það er áfall fyrir okkur Íslendinga að Kaupþing skuli tapa máli sem bankinn höfðaði gegn breska fjármálaeftirlitinu. Í frétt breska blaðsins Financial Times af málinu birtist ný söguskoðun og ný lýsing af stöðu Kaupþings í aðdraganda hrunsins.

IMG_1682Financial Times vitnar í málsgögn þar sem fram kemur að breska fjármálaeftirlitið hafði í aðdraganda hrunsins ítrekað varað Kaupþing / Singer og Friedlander við bágri fjárhagsstöðu bankans í Bretlandi og hafði krafist þess að bankinn kæmi með meira fé inn í reksturinn.

Samkvæmt gögnum málsins sinnti Kaupþing ekki þessum ítrekuðu fyrirmælum breska fjármálaeftirlitsins. Því hafi ekki verið um annað að ræða en að taka yfir bankann því hann uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru.

Sú söguskoðun sem að okkur Íslendingum hefur verið haldið er að Kaupþing  hafi staðið vel og það hafi verið eitthvert gerræði af hálfu Breta og þeir nánast tilefnislaust farið inn í Singer og Friedlander og yfirtekið hann. Það hafi svo aftur valdið falli Kaupþings. Auðsótt muni vera að sækja bætur í hendur Bretum vegna þessara ranginda og líklegt að verulegar fjárhæðir muni fást í bótagreiðslur vegna falls Kaupþings.

Ef niðurstaða þessa dómstóls í Bretlandi er rétt og hún látin standa þá þarf að umskrifa söguskoðun okkar Íslendinga.

Ef þessi nýja söguskoðun er rétt þá stóðu mál þannig rétt fyrir hrun að Kaupþing var á barmi gjaldþrots og í raun í gjörgæslu breska fjármálaeftirlitsins þegar ríkistjórnin ákveður að lána bankanum stærsta lán Íslandssögunnar, um 92 milljarða króna (500 milljónir evra).

Í ljós þessa þá er þessi lánveiting ríkisins til Kaupþings hreint ótrúleg. Þetta lán hefði aldrei átt að veita nánast gjaldþrota bankanum.

Var ríkisstjórnin blekkt til að veita þetta lán?

Vissi ríkisstjórnin hver raunveruleg staða Kaupþings var?

 


mbl.is Mál Kaupþings óraunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn áfram eitt okkar af okkar stærstu vandamálum.

Aftur og aftur berast böndin að sömu örfáu aðilunum sem bera nær alla ábyrgð á hvernig fyrir þessari þjóð er komið.

Lán Seðlabankans upp á 250 til 300 milljarða til bankana þriggja án haldbærra veða er eitthvert ótrúlegasta málið í þessu hruni.

03102009124Um það mál segir dr. Jón Steinsson hagfræðingur á Pressunni í dag:

„Það er grundvallarregla í viðbrögðum seðlabanka við fjármálakrísu að seðlabanki láni einungis þannig að hann hafi algeran forgang varðandi eignir bankanna sem hann lánar til ef þeir fara í þrot. Þetta er grunnregla! En Seðlabankinn okkar fór því miður svo rosalega á skjön við þessa grunnreglu að ég tel líklegt að gjaldþrot hans verði notað sem víti til varnaðar í kennslubókum í hagfræði í a.m.k. nokkur hundruð ár. Jafn æðisgengið klúður hefur líklega aldrei áður átt sér stað í peningamálasögu heimsins.“

Það er ótrúlegt að menn ætli að láta duga í Seðlabankanum að skipta bara um þá pólitískt skipuðu bankastjóra sem þar voru og ráða í staðinn fyrrverandi aðalhagfræðing bankans sem bankastjóra.

Þó bankastjórar Seðlabankans beri á því alla ábyrgð að Seðlabankinn hélt þannig á málum að bankinn varð gjaldþrota þá er það skelfileg tilhugsun að það fagfólk sem stóð á bak við þær ákvarðanir sem þar voru teknar skuli í dag ennþá sitja í bankanum og einn þeirra skuli hafa verið gerður að Seðlabankastjóra.

Þjóðin nýtur þessa dagana "ávaxtanna" af áframhaldandi "stjórnvisku" þess "fagfólks" sem hefur það einstaka afrek á ferilskrá sinni að hafa starfað í eina Seðlabanka heims sem hefur orðið gjaldþrota.

Miðað við stefnu bankans í vaxta- og gengismálum þá er eins og metnaður starfsmanna bankans standi í dag helst til þess að gera sem flesta einstaklinga og fyrirtæki gjaldþrota.

Það er eins og bankinn sé að reyna að safna sem flestum meðlimum í "Seðlabankaklúbbinn", klúbb gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga.

Það er því miður bara ein leið sem þjóðin á ef hún ætlar að komst úr höndum þessara "hæfu" manna sem nú stjórna Seðlabanka Íslands. Það er að ganga í Evrópusambandið, ESB. Í framhaldi mun Evrópski seðlabankinn hafa yfirumsjón með starfsemi Íslenska seðlabankans og Maastricht skilyrðin verða aðal leiðarljósið í peninga- og fjármálastjórn landsins.

Ég sé ekki aðra leið til að komast úr út þeirri vanhæfu og spilltu stjórnsýslu sem hér hefur hreiðrað um sig.

 


Serious Fraud Office og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis.

Góðar fréttir og slæmar fréttir berast þessa dagana af rannsóknum á meintum lögbrotum í aðdraganda hrunsins. 

Góðu fréttirnar eru að Serious Fraud Office, SFO, íhugar að hefja eigin sakamálarannsókn á starfsemi Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi.

03102009127Slæmu fréttirnar eru að rannsóknarnefnd Alþingis frestar nú, tveim vikum áður en hún á að leggja fram skýrslu sína, afhendingu hennar um 3 mánuði. Þessi dráttur á afhendingu skýrslunnar kemur mjög á óvart. Í byrjun ágúst tilkynnti formaður nefndarinnar að mikilla tíðinda væri að vænta í lok október þegar skýrslan yrði lögð fram. Ekkert var þá minnst á að nefndin myndi þurfa lengri tíma til að ljúka skýrslunni.

Þessi skýrsla rannsóknarnefndarinnar sem manna á milli hefur oft verið nefnd "Hvítþvottarskýrslan" því í hana var skipað pólitískt af stjórnvöldum sem voru við völd í aðdraganda hrunsins og nafngiftin er til komin vegna þess að margir telja að eini tilgangurinn með skipun þessarar nefndar hafi verið að búa til skýrslu sem ætlað er að hvítþvo stjórnvöld og þá einstaklinga sem um stjórnvölin héldu í aðdraganda hrunsins.

Því haldið fram að Geir Haarde og aðrir forystumenn í ríkisstjórn hans hafi ekki beðið þjóðina afsökunar á því sem hér gerðist því að þetta fólk er að bíða eftir skýrslu Rannsóknarnefndarinnar. Skýrslu sem muni hvítþvo það af öllum áburði um afglöp, mistök eða hafa gert, sagt eða framkvæmt eitthvað sem þörf er að biðjast afsökunar á.

Þá er því einnig haldið fram að ákvörðun Evrópusambandsins sem kynnt var nýverið að sambandið ætli að fjármagna og kosta sjálft sjálfstæða og óháða rannsókn á aðdraganda hrunsins á Íslandi, rannsókn sem átti að hefjast nú í byrjun nóvember þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lægi fyrir, þessi ákvörðun ESB hafi sett allt starf rannsóknarnefndar Alþingis úr skorðum. Nú þegar rannsóknarnefndin veit að það munu óháðir aðilar fara mjög djúpt ofaní málið, hér heima og erlendis, þá hafi nefndin séð sitt óvænna og ákveðið að endurskrifa skýrsluna. Þess vegna er þessi seinkun á afhendingu skýrslunnar komin til.

þessir sömu aðilar halda því fram að úr því sem komið er þá muni rannsóknarnefndi Alþingis ekki heldur vera með skýrsluna tilbúna 1. febrúar. Nefndin muni þá biðja um enn frekari fresti.

Í framhaldi mun koma upp misklíð milli nefndarmanna um niðurstöður og frágang skýrslunnar. Nefndarmenn muni í framhaldi segja sig frá störfum í nefndinni og þessi nefnd mun aldrei leggja fram neina skýrslu.

Framgangsmáti eins og þessi sé ekki óalgengur í íslenskri stjórnsýslu og þessari aðferð eigi að beita.

Með vinnu rannsóknarnefndarinnar hafi stjórnsýslunni hins vegar gefist tóm til að vinna sér tíma og samræma framburð manna af atburðum og athöfnum. Nú eru rétt gögn til á réttum stöðum til að staðfesta  það sem þarf að staðfesta, önnur gögn eru horfin.

Þannig muni með vinnu rannsóknarnefndarinnar nást að tryggja að engir stórir áfellisdómar falli á stjórnsýsluna né ráðamenn þó svo ESB eða síðari tíma menn geri rannsóknir á hruninu.

 

 


mbl.is Auknar líkur á breskri rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland borgi þó dómstólar dæmi að Ísland eigi ekki að borga!

Það er eitthvað mjög mikið að ef trúnaðarmenn þjóðarinnar samþykkja að þjóðin losni ekki við Icesave þó dómar falli á þann veg að þjóðinni beri ekki skylda til að greiða Icesave.

03102009122Í frétt Morgunblaðsins segir:

Á hinn bóginn hefur niðurstaða dómsins, þótt hann yrði Íslendingum í hag, ekki sjálfkrafa þau áhrif að greiðslur falli niður. Verði dómurinn Íslandi í vil hefur hann aðeins þau áhrif að  sest verði aftur að samningaborði.

Þeir trúnaðarmenn þjóðarinnar sem láta sér detta í hug að samþykkja slíkt ákvæði fyrir hönd þjóðarinnar eru að fremja pólitískt sjálfsmorð. Það verða fáir sem munu kjósa slíkt fólk aftur sem sína "trúnaðarmenn".

Að samþykkja að við borgum þó dómstólar dæmi á þann veg að við eigum ekki að borga er þvílíkt rugl að ég trúi ekki að þetta sé svona í þessum nýju samningsdrögum um Icesave.

Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá Morgunblaðinu í þessari frétt af málinu.

 


mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun stjórnsýslan falla eins og Dómínó?

Fyrsta málið sem almenningi er kynnt í fjölmiðlum gegn einni af þeim lykilpersónum sem ber ábyrgð á því að í aðdraganda hrunsins var lítið sem ekkert gert til að takmarka það tjón sem hér varð og er enn að verða sætir nú rannsókn sérstaks saksóknara.

Við þessa frétt vaknar sú von að þeir sem bera ábyrgð á þessu mikla tjóni sem hér hefur orðið með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi verði með einum eða öðrum hætti dregnir til ábyrgðar.

Verði það raunin þá munu lykilleikendur í hruninu falla einn af öðrum eins og dómíno.

Þá verður hægt að fara í nauðsynlega endurnýjun í stjórnsýslunni. 

 


mbl.is Hlutabréfasala ráðuneytisstjóra rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lægsta fasteignaverð í Evrópu á Íslandi.

Mælt í evrum, dollar eða dönskum krónum þá er fasteignaverð á Íslandi að verða það lægsta í vestur Evrópu. Í dag er verið að selja fermetrinn af íbúðarhúsnæði á um kr. 200.000 í Hraunbænum í Árbæ. Það gera um 8.000 danskar krónum á fermetrinn eða um 1.100 evrur.

116_1693Haldi þetta verð áfram að lækka eins og verið er að spá þá verður að fara til austur Evrópu til að finna jafn lágt fasteignaverð.

Ef horft er til þess að verð á notuðu atvinnuhúsnæði er jafnvel komið niður í kr. 100.000 til 150.000 á fermetra þá samsvarar það 4.000 / 6.000 dönskum krónum á fermetra eða 550 / 815 evrum.

Þetta eru fáránlega lágt verð.

Það er hvergi hægt að kaupa húsnæði í vestur Evrópu eða Bandaríkjunum á þessu verði.

Þetta hlýtur hjálpa til við að lokka hingað erlend félög og fyrirtæki með sína starfsemi. Eins hlýtur þetta að opna ákveðin tækifæri fyrir þá innlendu aðila sem hafa sínar tekjur í erlendum gjaldeyri.

 

 

 


mbl.is Raunlækkun fasteignaverðs 36%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangur neyðarlagana engin eftir yfirtöku lánadrottna á Íslandsbanka.

Þjóðinni voru seld neyðarlögin á þeirri forsendu að það ætti að vernda eignir og skuldir okkar Íslendinga. Koma átti í veg fyrir að þær lentu í höndum erlendra aðila og þar með að erlendir aðilar eignuðust í raun Ísland. Samhliða þessu þá var í neyðarlögunum þær birgðar lagðar á almenning á Íslandi að hann átti að tryggja innistæður í bankakerfi sem var tíu sinnum stærra en árleg landsframleiðsla.

03102009119Þjóðinni var fyrir ári seld sú hugmyndafræði að þessi leið að setja neyðarlög væri miklu betri en láta bankana fara í gjaldþrot og þeir gerðir upp samkvæmt gildandi lögum um gjalþrot því þá myndu lánadrottnarnir eignast bankana. Það mátti ekki gerast. Auk þess væru innistæður þá aðeins tryggðar samkvæmt reglum um Tryggingasjóð innistæðueigenda.

Hver er svo niðurstaðan?

Við erum að fagna því í dag að erlendir lánadrottnar Glitnis skuli vera að koma sem eigendur að rekstri bankans. Loksins eru erlendir bankar að koma að bankarekstri á Íslandi og þeir munu koma hingað með þær hefðir, venjur og traust sem einkennir rekstur erlendra banka í einkaeign.

Þetta fáránlega loforð að þjóðin ætli að tryggja allar innistæður að fullu í þessu gríðarstóra gjaldþrota bankakerfi mun sliga þjóðina um ókomin ár. Þetta loforð hefur valdið þvílíkum misskilningi, misklíð og deilum við öll okkar nágrannaríki að engu tali tekur og eyðilagt orðspor okkar um allan heim.

Setning neyðarlaganna eru einhver svakalegustu mistök sem hér hafa verið gerð.

Ég óska starfsmönnum Íslandsbanka og landsmönnum öllum til lukku með það að hér skuli nú vera að verða til fyrsti "alvöru" bankinn á Íslandi.

Það fer nú ekki svo að það komi ekki líka eitthvað jákvætt og gott út úr þessu öllu þó í þessu tilfelli séu góðu hlutirnir að verða til þvert á vilja og tilgang neyðarlaganna.

Mynd: Hafnarfjall

 


mbl.is Íslandsbanki í erlendar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rakalaus þvættingur Lansbankans um byggingamarkaðinn.

Enn á ný heldur Landsbankinn af stað og ber rangar og villandi upplýsingar um byggingamarkaðinn á borð fyrir landsmenn. Er bankinn og starfmenn hans í einhverskonar herför gegn þjóðinni? Er markmið bankans að valda hér enn meira tjóni en þeir hafa þegar valdið? 

Bankinn fær besta tímann í fréttunum á rúv í gærkvöldi með þennan rakalausa þvætting að hér þurfi ekki að byggja nýjar íbúðir næstu 4 til 5 árin.

Rök bankans fyrir þessu eru að hér standi um 3.000 nýjar óseldar íbúðir og það taki 4 til 5 ár að selja þær.

03102009120Ég leyfi mér að efast um þessar tölur bankans um fjölda nýrra íbúða. Ég held það sé ofmat eins og allt annað um þessi mál frá bankanum. Ég trúi betur tölum Dags B Eggertssonar sem nýverið upplýsti að fjárfesting sem liggur í nýju ónotuðu íbúðarhúsnæði nemi 73 milljörðum. Ef meðalverð fullbúinna íbúða er 36,5 milljónir þá samsvarar þessi fjárfesting 2.000 íbúðum.

Hvort hér standa 2.000 eða 3.000 fullbúnar íbúðir óseldar þá breytir það ekki þeirri staðreynd að á síðustu 10 árum, frá árinu 1998 til 2008, þá hafa verið byggðar og seldar að jafnaði um 2.730 íbúðir á ári, skv. tölum Hagstofunnar. Þessar nýju íbúðir sem nú standa óseldar samsvara eins árs þörf samfélagsins fyrir nýjar íbúðir. Það eru öll ósköpin. Hvað gengur Landsbankanum eiginlega til með þessum málatilbúnaði sínum?

Hvað varðar þá staðreynd að um 1.300 manns hafa flutt frá landinu þá ber að hafa það í huga að mikill fjöldi þeirra eru útlendingar sem komu hér til tímabundinna starfa. Þetta fólk og þessir menn bjuggu hér í vinnubúðum, á gistiheimilum eða leigðu margir saman íbúðir og hús. Þá er hluti þeirra sem hafa flutt á brott íslenskir iðnaðarmenn sem eru í tímabundnum verkefnum erlendis en fjölskyldur þeirra, konur og börn, búa áfram hér heima. Fjöldi þeirra íbúða sem þetta fólks skilur eftir sig auðar hér heima er ekki verulegur.

Aðal atriði þessa máls er þó það að inn á fasteignamarkaðinn eru að koma stærstu árgangar Íslandssögunnar. Á árunum 1980 til 1990 fæddust að jafnaði 4.300 börn á ári. Þetta er unga fólkið okkar í dag á aldrinum 20 til 30 ára. Í öllu eðlilegu árferði þá kallar bara þessi hópur á um 2.000 íbúðir á ári. Þessi fjárfesting sem nú liggur í óseldu íbúðarhúsnæði, þessar 2 - 3.000 íbúðir, duga rétt rúmlega fyrir einn af þessum árgöngum.

Lausafjárkreppan skall á í heiminum í júlí 2007. Íslensku bankarnir hættu allir haustið 2007 að lána almenningi til íbúðakaupa. Íbúðalánasjóður hefur verið nánast einn á markaðnum síðan. Áður en það gerðist var ekki til ný fullbúin óseld íbúð á markaðnum. Allt sem byggt var, það seldist. 

Eitt er víst, það vantaði ekki kaupendur að nýjum íbúðum á markaðinn haustið 2007 þegar bankarnir lokuðu skyndilega fyrir öll sín íbúðarlán vegna fjárskorts.

Fasteignamarkaðurinn hefur nú verið frosinn í tvö ár og bankamenn eru að fara á límingunum yfir því að það skuli liggja fjárfesting í íbúðarhúsnæði sem samsvarar rúmlega eins árs þörf samfélagsins fyrir nýtt íbúðarhúsnæði. Það sem verra er, þeir ljúga því að þjóðinni að þessar íbúðir eigi að geta annað allri þörf fyrir nýjar íbúðir næstu 4 til 5 árin. Auðvita geta menn látið þessar íbúðir endast í öll þessi ár ef lánafyrirgreiðsla til kaupenda verður lítil sem engin. Er það málið? Ætla bankarnir að halda áfram að draga fæturna í búðarlánum sínum? Er það planið að handstýra hér öllu og hafa hér allt í frosti næstu árin? Byggja hér enn eina stífluna á fasteignamarkaðnum og bíða þess að hún springi með braki og brestum?

Ef horft er til þess að hér á landi búa 2,5 einstaklingar í hverri íbúð en 1,8 í hverri íbúð í Kaupmannahöfn og 1,9 í hverri íbúð í Osló þá er ljóst að mikið þarf að byggja ef við ætlum að ná nágrönnum okkar í þessu efni. Ef við byggjum þannig upp hér að það búi af jafnaði 2,0 einstaklingar í hverri íbúð þá þyrftum við að byggja allt það sem er á skipulagsuppdráttum sveitarfélaganna frá Selfossi að Akranesi.

Ég held það væri verðugra verkefni fyrir bankamenn í dag að finna leiðir til að hjálpa unga fólkinu til að kaupa sér sína fyrstu íbúð, bjóða t.d. upp á hagstæð lán til 70 til 80 ára eins og víða tíðkast, en skammast í fjölmiðlum yfir því að  sveitarfélög landsins og byggingaraðilar hafi verið að sinna sínum samfélagslegu skyldum og hafi verið á fullu að byggja íbúðir upp í fyrirséða þörf fyrir íbúðir handa ungu fólki þegar bankarnir lokuðu og frystu óvænt fasteignamarkaðinn haustið 2007.

Ég legg til að Landsbankinn ráði til bankans 15 til 20 erlenda sérfræðinga í bankarekstri og noti þá síðan til að kenna íslenskum starfsmönnum Landsbankans hvernig menn reka alvöru banka. Þá er kannski von til þess að bankinn verði rekinn sem banki og starfsmenn hans hætti að þvaðra í fjölmiðlum um mál sem þeir hafa ekki gripsvit á.  

Mynd: Útihús í Melasveit.

 


Strandar lánið frá AGS á endurreisn bankana en ekki Icesave?

Þær sögusagnir ganga að sá dráttur sem orðið hefur á afgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, á láni númer tvö sem átti að afgreiða í febrúar, að þessi dráttur sé til kominn vegna þess að AGS hefur ekki fengið umsamin gögn um endurreisn bankana. 

Á meðan ekki er vitað með hvaða hætti á að endurreisa bankana og efnahagsreikningur þeirra liggur ekki fyrir og þar með uppgjör á milli nýju og gömlu bankana, þá komi ekkert lán frá AGS. Íslendingar verið að klára sína heimavinnu eins og um var samið áður en lán númer tvö kemur. Þessa heimavinnu eru Íslendingar ekki enn búnir að vinna. Þetta átti að klára í febrúar en er ekki búið enn.

29092009111Töfin á afgreiðslunni á láninu frá AGS sé því alfarið á ábyrgð Íslands og hafi ekkert með Icesave að gera.

Þá halda menn því fram að íslensk stjórnvöld séu að nota Icesave í þessu máli til að breiða yfir þá staðreynd að þau hafi ekki lagt fram þau gögn sem þau eiga að leggja fyrir AGS. 

Hér er verið er að nota sömu taktikk og þegar stjórnvöld lögðu Icesave samninginn fyrir þingið. Þá sögðu þau að öll gögn væru uppi á borðinu. Síðan þegar eftir var spurt þá týndu þau hvert fylgiritið af öðru upp úr pússi sínu.

Þennan leik er nú verið a leika á ný þegar stjórnvöld fullyrða að þau séu búin að afhenda öll gögn sem AGS hafi beðið um. Þetta sé ekki rétt, lán númer tvö verður ekki afhent fyrr en efnahagsreikningur bankana liggur fyrir og það hafi öllum verið ljóst frá því í nóvember í fyrra þegar samningurinn milli AGS og Íslands var undirritaður.

Íslendingar hafi fengið þau skilaboð á fundi sjóðsins í Tyrklandi að þeir ættu að fara heim og vinna vinnuna sína og síðan skyldu menn tala saman.

Af hverju fer ekki einhver fréttamaður og fær þetta á hreint hjá yfirmönnum AGS og spyr:

Er AGS að bíða eftir gögnum frá Íslandi um endurreisn bankana til að geta afgreitt lán númer tvö?

Við verðum að fá það staðfest hvort drátturinn á láninu frá AGS er vegna Icesave eða hvort það er vegna þess að dregist hefur að setja upp efnahagsreikning bankana.

 


mbl.is Ríkið leggi til mun minna fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„McCarthyismi“ og fjármálaglæpir eiga ekkert sameiginlegt.

Að líkja umræðunni hér á landi við "McCartyisma" er út í hött.

Pólitískar ofsóknir í Bandaríkjunum í kjölfar þess að leyndarmálinu um gerð kjarnorkusprengjunnar var stolið og síðan lekið til Rússa á sama tíma og Bandaríkjamenn stóðu í tvísýnu stríð í Kóreu við Kínverska herinn sem barðist með rússneskum vopnum að ógleymdum átökunum um Berlín, þær ofsóknir eiga ekkert skylt við umræðuna á Íslandi í dag.

Hér er verið að ræða um meint lögbrot og fjárglæfra þess fólks sem ber beint og óbeint ábyrgð á því að íslensku bankarnir töpuðu hátt í  12.000 milljörðum króna. Hér er umræða í gangi sem snýst um það fólk sem ber ábyrgð á hruni bankana. Hruni sem hefur valdið gríðarlegri skuldsetningu ríkissjóðs og óheyrilegu tjóni almennings og fyrirtækja í landinu sem engin sér í dag fyrir endann á.

Vilji menn líkja ástandinu á Íslandi við eitthvert tímabil í bandarískri sögu á fyrri hluta síðustu aldar væri nær að líkja ástandinu hér við "Al Capone tímabilið" þar sem Eva Joly er okkar Eliot Ness. 

Seint hefði þó bæjarstjórinn í Chicago farið að skrifa greinar í blöð þar sem hann hefði hvatt til þess að það "hæfileikaríka" fólk sem starfaði með Al Capone yrði kallað til trúnaðarstafa í samfélaginu á sama tíma og menn biðu réttarhaldanna yfir Al Capone.

 

 


Að venju koma helstu fréttir af hruninu erlendis frá.

Enn á ný berast okkur Íslendingum helstu fréttir frá Íslandi í gegnum erlenda fréttamiðla. Ég hef oft kvartað yfir þessu og því hvernig íslenskir fréttamenn virðast forðast að taka á mörgum þeim málum sem snúa að hruninu.

Er það virkilega svo að íslenskir fjölmiðlar þora ekki og treysta sér ekki til að birta frétt eins og þessa um Sigurð Einarsson?

Er það virkilega svo að þeir leka slíkum fréttum til erlendra fjölmiðla því þeir treysta sér ekki til að birta þær sjálfir?

Löngum hefur verið rætt um að sjálfstæði íslenskra fjölmiðla væri lítið og þeir undir hæl eigendanna. Er það virkilega svo að það eru ákveðin svið og ákveðnir einstaklingar sem þeir mega ekki fjalla um nema með ákveðnum hætti?

 


mbl.is Fyrstur til að fá stöðu grunaðs manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að koma formegt svar frá Noregi

Þetta er ekki boðleg pólitík og þetta eru ekki boðleg vinnubrögð að samskipti manna í þessu máli séu öll munnleg. Allar fyrirspurnir í þessu máli eru munnlegar eða með óformlegum tölvupóstum.

29092009107Það er ekki boðlegt að þetta mál sé sett þannig upp að almenningi sé gert að meta þetta mál út frá trúverðugleika forsætisráðherra annars vegar og trúverðugleika formanns Framsóknarflokksins hins vegar.

Það er ekki boðlegt að þetta mál sé skilið eftir í þessum "lásý" farvegi íslenskra stjórnmálamanna. Málinu lokað með "taktíkinni", orð gegn orði.

Það er bara ein leið til að loka þessu máli.

Ég skora á ríkisstjórnina að senda formlegt erindi á Norsku ríkisstjórnina og á Stórþingið. Norska ríkisstjórnin og þingið verða þá að afgreiða málið. Þá kemur frá þeim formlegt svar.

Það er orðið nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að fá formlegt svar þannig að ef þetta var bara fagurgali í þingmönnum norska Stórþingsins í eyru þessara ungu manna frá Íslandi þá þarf það að koma í ljós. Þangað til þetta svar kemur trúa þessir ungu menn þessum fagurgala. Það gerir líka stór hluti þjóðarinnar.

Það verður að ljúka þessu máli með formlegu svari frá norska þinginu. Það er einfalt, eitt bréf með afrit á fjölmiðla.

Þetta tekur 5 mínútur, eitt frímerki og nokkrar faxsendingar og málið dautt.

Boltinn er þá hjá Norðmönnum og sátt um málið á Íslandi.

 


mbl.is Ummælin fráleitur þvættingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar sukka á kostnað íslenskra skattgreiðenda

Hún er ævintýraleg þessi frásögn af ferð stjórnenda bresku verslunarkeðjunnar Iceland til Flórída. Stjórnendur í 800 verslunum eyða 800 milljónum í skemmtiferð til Disney World í boði skilanefndar Landsbankans.

Ekki kemur þetta sukk til með að auka verðmæti eigna Landsbankans sem eiga að ganga upp í Icesave. Eins og við vitum öll þá mun það sem upp á vantar lenda á íslenskum skattgreiðendum.

Það verða því ég og þú sem munum á endanum borga þessa ferð þessa fólks til Flórída.

Ljóst er að "móralinn" hjá Bretum virðist vera að sólunda og sukka með eignir Landsbankans í Bretlandi.

Hver er það sem er að gæta hagsmuna íslenskra skattgreiðenda og er verja eignir Landsbankans í Bretlandi?

Það er ljóst að sá aðili annað hvort sefur á verðinum eða er sjálfur á fullu að sólunda og sukka með eignir Landsbankans.

 


mbl.is Yfirmenn Iceland í 800 milljóna króna ferð í Disney
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ótrúlegri þvælu" svarað á AMX

Það er alltaf mjög sérstakt þegar menn nota orðfæri eins og það sem er í fyrirsögn þessa pistils. Það gerði einn af okkar helstu forystumönnum í orkugeirnanum, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í pistli sínum á AMX í vikunni, sjá hér, þegar hann svarði pistli Ágústs Þórhallssonar, sjá hér. Ágúst vitar í grein sinni til pistla á þessu bloggi hér. Sæstrengur vestur um haf mjög álitlegur og Borgum Icesave með rafmagni til Bretlands gegnum sæstreng.

Tilefni þessara gífuryrða aðstoðarframkvæmdastjórans er að leikmenn eru að leyfa sér að giska á hvert eitt mesta og best geymda leyndarmál allra tíma á Íslandi er.

21082009082Leyndarmálið hvaða verð álfyrirtækin eru að greiða fyrir raforkuna.

Á meðan það verð er ekki upplýst og staðfest af Landsvirkjun þá eru öll verð ágiskun og öll verð jafn trúverðug.

Það kemur því á óvart að aðstoðarframkvæmdastjórinn velur að vitna í þessu samhengi í Hagfræðistofnun HÍ að þeirra niðurstaða væri að orkuverð til "stóriðju" væri 25-28 mills, sem samsvarar í  dag 3,3 kr.

Þetta er jafn "upplýsandi" og annað í umræðunni. Síldarbræðslur og allt að því garðyrkjubændur eru skilgreind sem "stóriðja" á Íslandi.  Verð til "stóriðju" hefur lítið með verð til "álvera" að gera.

Tryggvi Bjarnason kom inn á bloggið hjá mér og fullyrti að verðið til álvera væri 27 aurar á kWh. Hvort þetta eru "gamlar" krónur án 100% gengisfallsins veit ég ekki. Í "gömlum" krónum væri þetta um ein króna.

Við værum kannski eitthvað nær sannleikanum, þó ég efist um það, ef við horfðum til blaðaviðtalsins fræga við forstjóra Alcoa sem haft var við hann á ferð hans um S-Ameríku þegar hann sagði blaðamanni að þeir væru að borga 15 mills á Íslandi, í dag um 1,8 kr/kwh.

Hver svo sem sannleikurinn er í þessu máli þá ætti enginn að "úthúða" samferðafólki sínu þó það leyfi sér að giska á þetta verð meðan það liggur ekki fyrir.

Varðandi söluverð á raforku í Evrópu sem aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku gagnrýnir í pistli sínum þá er rétt að minna á að ESB er að leggja á kolefnisskatta á alla raforku sem unnin er með kolum og olíu. Þessir skattar leggjast á 2012. Bretar gera ráð fyrir að fjöldi kolaorkuvera loki í framhaldi. Fyrirséður er okurskortur í Bretlandi á næstu árum. Þessir skattar munu ekki leggjast á græna orku frá Íslandi sem kæmi þangað um sæstreng. Þessi græna orka verður seld á sama verði og þetta skattlagða "kolarafmagn". Þess vegna kemur meira í hlut þeirra sem selja græna raforku en þeirra sem selja "kolaraforku".

Ekki skil ég hvað aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku er að fara þegar hann ræðir í þessari grein sinni um skatta, orkutap, og sölu á rafmagni allan sólahringinn o.s.frv.

Ég held menn hljóti að telja það sanngjarnt að þegar verið er að kynna á þeim vettvangi sem þetta blogg er, útreikninga á verði á raforku þá geri menn ráð fyrir að seldar gígavattsstundir á ári séu seldar gígavattsstundir.

Eigum við nokkuð að vera að gera mönnum það upp að þeir séu svo vitlausir að þeir reikni með því að þeir geti selt orku sem tapast í flutningum?

Hvað varðar fullyrðingar aðstoðarframkvæmdastjórans að íslensk orkufyrirtæki hafi lagt mat á orkusölu um sæstreng og hún hingað til ekki verið metin arðsöm þá er þessi fullyrðing í mótsögn við fullyrðingu fyrrverandi forstjóra Landsvirkjunar sem nú síðast í haust lét hafa það eftir sér að sala á raforku í gegnum sæstreng væri kostur sem ætti að skoða.

Öll álfyrirtæki landsins eru aðilar að Samorku og greiða þar inn árgjöld. Aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku þiggur því laun sín frá þessum fyrirtækjum.

Þó miklir hagsmunir séu hér á ferð og menn fulltrúar ákveðinna hagsmunaaðila þá er það skylda allra að ræða þessi mál á skynsamlegum nótum og helst án gífuryrða.

 


Allt í rétta átt varðandi skuldir heimilanna

Tillögur félagsmálaráðherra sem hann hefur kynnt varðandi lausnir á vanda heimilanna eru allar í rétta átt. Hann og hans samstarfsfólk og aðrir þeir sem hafa komið að því að móta þessar tillögur eiga þakkir skildar.

21082009081Ég er viss um að það er þungu fargi létt af mörgum fjölskyldum þegar þær sjá til hvaða ráðstafanna ætlunin er að grípa.

Þessar fjölskyldur sjá fram á að það á að skera þær niður úr þeirri snöru sem hrun krónunnar á síðustu 18 mánuðum hefur sett um háls þeirra.

Þetta er eitt stærsta málið í dag. Eins og öll hin "stóru" málin þá er þetta mál að bjarga 20.000 fjölskyldum frá gjaldþroti, það er í sjálfu sér ekki flokkspólitískt mál. Allir flokkarnir á þingi eru með svipaðar tillögur og allir sammála um að það eigi ekki að setja þetta fólk í gjaldþrot.

Nú þegar félagsmálaráðherra er búinn að leggja þetta mál fyrir þingið þá fær það sína meðferð þar.

Ég hef trú á því að eftir að þingið er búið að fara höndum um þetta frumvarp og þingmenn allra flokka og hagsmunasamtök hafa komið fram með sín sjónarmið þá verði þetta góða frumvarp félagsmálaráðherra orðið enn betra.

Á bak við þessar 20.000 fjölskyldur sem eru í mestum vanda eru 50.000 til 60.000 manns. Þegar allt þetta fólk er farið að geta sofið rólega um nætur og veit að það mun ekki missa íbúðina eða húsið sitt þá mun hinum 260.000 íbúunum þessa lands einnig líða betur.

Mjög mikilvægur grunnur hefur þá verið lagður að því að hefja hér uppbyggingu á ný.

 


mbl.is Ekki nógu langt gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur eða AGS eru að blekkja

Annað hvort er Steingrímur eða Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, AGS, að blekkja.

21082009083AGS hefur hingað til haldið því fram að það vanti nauðsynleg gögn um stöðu bankana til þess að þeir geti afgreitt næsta lán til okkar.

Steingrímur heldur því hér fram að stjórnvöld hafi afhent öll gögn sem AGS hafi beði um.

Að það hafi verið niðurstaða fundar fjármálaráðherra með framkvæmdastjóra AGS í Tyrklandi að við höfum lagt allt fram sem við áttum að leggja fyrir sjóðinn getur ekki staðist. Eitthvað hlýtur að vanta fyrst sjóðurinn hefur ekki fyrir löngu tekið mál Íslands fyrir og afgreitt það. Engin ákvörðun liggur fyrir hvenær það verður gert.

Setur AGS það sem skilyrði að niðurstaða fáist fyrst í Icesave eða er það vegna þess að enn vantar göng um stöðu bankana?

Við hljótum að gera þá kröfu að þjóðin verði upplýst um það hvað það er sem vantar til þess að AGS afgreiði þetta lán.

Er vandamálið Íslensk stjórnvöld eða AGS?

 


mbl.is Gagnlegur fundur með AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurskurðurinn á fjárlögum fer í peningamarkaðssjóðina

Þeir fjármunir sem ríkið lagði inn í peningamarkaðssjóði bankana, þessir 83 milljarðar, það er nánast sama upphæð og nú á að skera niður fjárlög ríkisins um. 

Þessi niðurskurður á ríkisútgjöldum bitnar illa á mörgum. Ekki eru menn heldur beint sáttir við þær skattahækkanir sem þarf að ráðast í.

21082009080Þeir sem áttu fé í peningamarkaðssjóðum þegar bankarnir fóru í gjaldþrot fyrir ári, það fé tapaðist þá að stórum hluta. Bréf í peningamarkaðssjóðum eru forgangskröfur þegar gjaldþrota bankar eru gerðir upp þannig að eigendur þeirra hefðu að öllu eðlilegu fengið eitthvað upp í kröfur sínar hjá Kaupþingi og Glitni. Þeir sem áttu í sjóðum Landsbankans hefðu örugglega tapað miklu. 

Eins voru allar innistæður í bönkum yfir 20.778 evrur að mestu tapað fé fyrir ári síðan. Þeir sem áttu meira en 20.778 evrur á sínum reikningum voru í kröfuröðinni eins og hver annar lánadrottinn í komandi uppskiptum á þrotabúum bankana. Ljóst var að lítið myndi koma í þeirra hlut.

Fyrir ári síðan voru engir peningar til inni í bönkunum, allt fé þeirra var horfið, ótrúlegt verðhrun var á öllum mörkuðum, og þeir sem áttu og geymdu sitt fé í þessum bönkum voru búnir að tapa stórum hluta af þessum peningum sínum. 

Aðrir geymdu sitt fé annarstaðar en í bönkunum. Í atvinnurekstri, fasteignum, fyrirtækjum, lóðum og lendum og tap margra þeirra varð síst minna en þeirra sem geymdu sitt fé í bönkunum.

Þannig voru leikreglurnar fyrir hrun. Þannig var samfélagssáttmálinn fyrir hrun. Þannig verður samfélagssáttmálinn aftur eftir eitt ár þegar neyðarlögin falla úr gildi eftir tveggja ára gildistíma.

Það að ríkið skuli hafa breytt þessum leikreglum með setningu neyðarlaganna og tryggt allar bankainnistæður að fullu óháð upphæð og keypt bréf í gjaldþrota fyrirtækjum út úr þessum peningamarkaðssjóðum og þar með látið tap þessar innlánseigenda lenda á skattgreiðendum er einn ljótasti glæpurinn sem framinn var hér á landi í tengslum við þetta hrun.

Það er ekki skattgreiðenda að bera tap þeirra sem áttu og geymdu fé sitt í atvinnurekstri, fasteignum, fyrirtækjum, lóðum og lendum þó hér hefði orðið kerfishrun.

Það er ekki skattgreiðenda að bera tap þeirra sem áttu og geymdu fé sitt í bönkunum eða peningamarkaðssjóðum þó hér hefði orðið kerfishrun.

Hér er verið að slíta sundur samfélagssáttmálann. 

Þessum gjörningum á að rifta.

 


mbl.is 63 milljarðar í kaup úr sjóði Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innistæðueigendur verða líka að afskrifa

Rangar eru þær áherslur að gera innlendum og erlendum innistæðueigendum hærra undir höfði en öðrum þegnum þessa lands. Það að hér voru sett sérstök lög sem tryggðu hag þeirra umfram aðra voru mistök sem fela í sér mikla og óþolandi mismunun.

Engin þjóð er eða hefur verið í okkar sporum þar sem allir bankar landsins, fyrir utan tveir eða þrír smábankar, hafa orðið gjaldþrota á sama tíma. Þar með talinn Seðlabankinn.

21082009085Engin þjóð stendur í þeim sporum að þurfa að bæta innlán í gjaldþrota bankakerfi sem var orðið 10 til 12 sinnum stærra en landsframleiðslan. Engin þjóð hefur lent í slíku.

Að taka á sig allar skuldbindingar vegna innlána í slíku bankakerfi langt umfram allar lögboðnar skyldur plús það að tryggja að mestu þá fjármuni sem voru í þessum peningamarkaðssjóðum, það er komið langt út yfir alla skynsemi. Þegar krakkarnir mínir, sem öll eru nú í framhaldsnámi, koma út á vinnumarkaðinn þá munu þau þurfa að bera þessar byrgðar í formi hærri skatta og minni opinberrar þjónustu næstu einn eða tvo áratugina.

Það er siðferðislega rangt að skuldbinda komandi kynslóðir með þessum hætti og tryggja þessar innistæður með neyðarlögum langt út fyrir okkar lagalegu og alþjóðlegu skyldur. Með þessu er í raun verið að ræna unga fólkið okkar og færa ránsfenginn fjármagnseigendum, innlendum og erlendum. Að gera þetta svona er ekkert annað en glæpur gegn skattgreiðendum á Íslandi.

Það er með öllu óviðunandi að það fé sem tapaðist í gjaldþroti bankana skuli ekki allt vera afskrifað. Það er með öllu óviðunandi að menn ætla sér að láta skattgreiðendur bera það tjón sem sumir viðskiptavinir bankana urðu fyrir þegar þegar bankarnir fóru í gjaldþrot. Þetta tjón eiga þessir viðskiptavinir bankana, hvort sem þeir eru lánadrottnar, innistæðueigendur eða eigendur bréfa í peningamarkaðssjóðum að bera. Ekki skattgreiðendur.

Ríkisstjórn og þing á ekkert með að mismuna þegnum landsins með þessum hætti. Fjármagnseigendur eiga ekki að hafa forgang með sérstökum lögum á skattgreiðendur þessa lands. Mín krafa er sú að þessi neyðarlög verði felld úr gildi og samfélagið tryggi innistæður samkvæmt lagaskyldu sem eru 20.887 evrur á hvern reikning og rift verði greiðslum sem fóru í peningamarkaðssjóðina.

Með því að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn vegna þessara innlána, innlána sem bankarnir hafa tapað, þá er verið að framlengja kreppuna hér á landi um mörg ár.

Með því að fella neyðarlögin úr gildi þá leysist þetta Icesave mál af sjálfu sér. Fjölmörg málaferli m.a. málaferli Hollensku innlánseigenda gegn ríkinu munu þá falla niður.

Fellum neyðarlögin úr gildi, afskrifum það sem þarf að afskrifa hjá innlánseigendum eins og aðrir lánadrottnar bankana þurfa að gera og förum í uppbygginguna á næstu árum án þess að skattgreiðendur séu með þessar drápsklyfjar á bakinu.

 

 


mbl.is Vilja óháðan dómstól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpur gegn skattgreiðendum á Íslandi.

Það hvernig staðið var að því að kaupa bréf peningamarkaðssjóðanna út úr þessum þrem gjaldþrota bönkum á margföldu yfirverði er einn stærsti glæpurinn sem var framinn af stjórnvöldum í tenglsum við hrun bankana.

Það að láta skattgreiðendur á Íslandi borga tapið af gambli þess fólks sem valdi að taka meiri áhættu vegna hærri ávöxtunar og geyma fé sitt í þessum peningamarkaðssjóðum er einfaldlega glæpur gegn Íslenskum skattgreiðendum.

Það er ekki og á ekki að vera hlutverk skattgreiðenda að bæta tap þeirra sem glata sínu fé vegna kaupa á hlutabréfum.

Þessum gjörningi á að rifta.

Þessi endurskoðunarfyrirtæki á að sækja til saka.

 


mbl.is Of hátt mat á virði bréfa í peningamarkaðssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband