Miðvikudagur, 11. nóvember 2009
Greiningardeild Glitnis enn í "2007 gírnum".
Fyrst forstöðumaður greiningardeildar Glitnis tjáir sig um lækkun á lánshæfismati ríkissjóðs um tvö þrep þá er einkennilegt að hann skuli velja að gera það með þeim hætti sem hann gerir.
Forstöðumaðurinn reynir að gera mikið úr jákvæðum smáatriðum þessara slæmu fréttar og forðast að ræða kaldann raunveruleikann, það að lánshæfismatið skuli hafa falli, ekki bara um eitt þrep heldur tvö og að tvö af þrem matsfyrirtækjunum telja horfur neikvæðar.
Það er einkennilegt að forstöðumaðurinn skuli ekki gera neina tilraun til að skýra ástæður þess að lánshæfismat ríkisins var lækkað um tvö þrep.
Ef þetta eiga að vera vinnubrögðin að snúa út úr slæmum fréttum og reyna að breyta þeim í góðar fréttir í stað þetta að greina vandann og ástæðurnar fyrir honum, þá líst mér ekki á framhaldið.
Ég skora á Ingólf Bender og aðra í svipuðum stöðum að hætta þessum 2007 töktum og fara að segja okkur sannleikann.
Af hverju lækkaði þetta matsfyrirtæki lánshæfismat ríkisins um heil tvö þrep?
Af hverju lækkar lánshæfismat ríkisins nú þegar AGS hefur loks endurskoðað efnahagsáætlun ríkisins?
Er lánshæfismatið lækkað vegna þess að með AGS láninu er verið að auka enn við erlendar skuldir ríkissjóð?
Mun lánshæfismat ríkissjóðs lækka enn frekar ef ríkið tekur meiri lán hjá AGS?
Er lánshæfismatið lækkað vegna þess að menn telja að Alþingi muni samþykkja Icesave og þær skuldbindingarnar muni falla á ríkissjóð?
Er lánshæfismatið lækkað vegna þess að efnahagsreikningar bankann voru að koma fram og staðan er verri en matsfyrirtækið ætlaði?
Er lánshæfismatið lækkað vegna fjárlagafrumvarpsins sem gerir ráð fyrir miklum skattahækkunum m.a. á stóriðjuna með hækkun skatta á raforku? Metur matsfyrirtækið það svo að það sé líklegt að það komi bakslag í þær áætlanir? Að líkur hafi því aukist á því að tekjuáætlun ríkissjóða á næsta ári, sem gerir ráð fyrir miklum stórframkvæmdum, að þær framkvæmdir muni ekki ganga eftir, áætlaðar skatttekjur vegna framkvæmdanna bregðast og þar með aukist líkur á að ríkið muni ekki geta staðið undir sínum skuldbindingum?
Hvað gerðist hér á síðustu mánuðum sem veldur því að lánshæfismatið fellur um tvö þrep?
Af hverju upplýsa greiningardeildirnar okkur ekki um það sem er í raun að gerast og hver hin raunverulega staða er?
Af hverju er alltaf verið að nota sveppaaðferðina, "kepp them in darkness and feed them wiht horseshit" á almenning á Íslandi?
Mynd: Veiðihúsið í Elliðaárdaldnum, 1.11.09.
![]() |
Minni samdráttur en spáð var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 10. nóvember 2009
Tónleikar með Páli Óskari og Móniku, Kristjáni Kristjánssyni (KK) og Herði Torfasyni , 12. nóv. í Grafarvogskirkju.
Tónleikar með Páli Óskari og Móniku, Kristjáni Kristjánssyni (KK) og Herði Torfasyni og fleirum, 12. nóv. kl. 20.00 í Grafarvogskirkju.
Grafarvogskirkja er önnur stærsta kirkja landsins. Við hönnun og gerð kirkjunnar var sérstakt tillit tekið til tónlistarflutnings.
Mánudagur, 9. nóvember 2009
"Stóra planið": Hækka skatta og skera niður framkvæmdir.
Þegar blaðað er yfir fjárlagafrumvarpið þá sést fljótt að það eina sem á að skera niður í rekstri ríkisins á næsta ári, það er viðhald og framkvæmdir.
Flest ráðuneyti og málaflokkar þeirra hafa nánast úr sömu fjármunum að moða og á síðasta ári. Það er ljóst að litlar eða engar breytingar á að gera á ríkisrekstrinum sem þandist út eftir hvert metárið síðasta áratuginn.
Ekkert á að taka á þessum ofvexti ríkisins í þessum fyrstu kreppufjárlögum. Plan ríkisstjórnarinnar er einfalt:
Hækka skatta og skera niður framkvæmdir.
Ég fullyrði að aldrei hafa verið lögð fram fjárlög sem hafa mismunað þjóðfélagshópum jafn mikið á milli fjárlagaára eins og þessi fjárlög gera.
Það er forkastanlegt að leggja allan samdrátt ríkisútgjalda á bygginga- og verktakastarfsemina í landinu.
Það er forkastanlegt að leggja allan samdrátt ríkisútgjalda á næsta ári á fjölskyldur þess fólks sem hefur haft atvinnu sína af því að starfa í byggingar- og verktakastarfsemi.
Af hverju má ekki hagræða í rekstri ríkisins?
Af hverju er bara skorið niður í viðhaldi og framkvæmdum?
Mynd: Í Elliðaárdalnum, 1.11.09.
![]() |
47% skattur á launatekjur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 8. nóvember 2009
Rjúpnaveiðar.
Engu virðist vera til sparað þegar kemur að því að vernda rjúpnastofninn. Nú virðist vera byrjað að vakta með þyrlum svæði þar sem rjúpnaveiði er bönnuð og rjúpnaveiðimenn eltir uppi á þyrlum sjáist til þeirra á þessum svæðum.
Lögreglan stöðvar líka rjúpnaskyttur og gerir afla og skotvopn upptæk hafi menn ekki á sér veiðikortið við rjúpnaveiðarnar.
Það er eins gott að lögreglan hafi ekki sama háttinn á og geri bíla og farangur upptækan þegar lögreglan stöðvar ökumenn sem hafa ekki á sér ökukortið.
Ég held lögreglan ætti nú að taka þessu aðeins rólega þó menn séu að sportast við að ná sér í rjúpur í jólamatinn. Á mörgum heimilum landsins þá eru engin jól nema það séu rjúpur á borðum enda ilmurinn af þeim þegar þær eru steiktar í ofni einstakur. Þetta er fyrir mörgum hin eina og sanna jólalykt. Ef það eru ekki rjúpur um jólin þá eru engin jól.
Nú er bannað að selja rjúpur þannig að þeir sem vilja halda sínum gömlu jólasiðum, þeir verða að fara á stúfana og veiða þær sjálfir.
Fjölmargir virðast vera tilbúnir að leggja mikið á sig til að eyðileggja þennan gamla jólasið fyrir þessum "rjúpnafjölskyldum" og hafa allt á hornum sér þegar rjúpnaveiðimenn fara til rjúpnaveiða.
Það er ljóst að þetta árið verða þessir rjúpnaveiðimenn ekki teknir neinum vettlingatökum og þó að ekki finnist fé til að kaupa eldsneyti á þyrlur Landhelgisgæslunnar þegar þarf að sinna einhverjum ferðalöngum í vandræðum á hálendinu þá virðist vera nægt fé til þegar þarf að vakta rjúpnaveiðilendur.
Alvarlegustu aðförina að þessum sið að hafa rjúpur í jólamatinn gerði þó Sif Friðleifsdóttir í ráðherratíð sinni í Umhverfisráðuneytinu. Hún bannaði alfarið alla rjúpnaveiði í nokkur ár.
Mynd: Í Elliðaárdalnum, 1.11.2009.
![]() |
Skyttur teknar á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.11.2009 kl. 23:56 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 7. nóvember 2009
Frábærar fréttir um gagnaver í Reykjanesbæ.
Þeim fjölgar stöðugt góðu fréttunum. Á síðustu vikum þá hefur okkur borist hver góða fréttin á eftir annari. Nú er það frétt úr Reykjanesbæ þar sem Verne Holding hefur fengið úthlutað 18 hektara landsvæði til að þróa og byggja gagnaver og tengda þjónustu.
Ljóst er að forráðamenn Verne Holding ætla sér stóra hluti fyrst þeir hafa óskað eftir þetta miklu landsvæði fyrir þá starfsemi sem þeir ætla sér að fara í gang með þarna.
Við hljótum að óska aðstandendum Verne Holding og Reykjanesbæ til lukku og óskum þeim velfarnaðar með það verkefni sem þarna er að fara í gang.
Mynd: Undir Gullinbrú, 1.11.09, Reykjavík.
![]() |
180.000 fm fyrir gagnaver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 6. nóvember 2009
Bretar og Hollendingar eru að gera Íslendinga afhuga aðild að ESB.
Mikill viðsnúningur hefur orðið á mjög skömmum tíma í viðhorfum Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu, ESB, ef marka má nýjustu skoðunarkannanir.
Eina haldbæra skýringin sem finna má á þessum viðsnúningi er Icesave málið sem nánast öll umræða hefur hverfst um frá því snemma í vor.
Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur mikilli óbilgirni í þessu máli. Samningurinn sem þeir hafa verið að reyna að þvinga stjórnvöld til að samþykkja er með þvílíkum ólíkindum að hann hlaut að kalla á mikla andúð hjá almenningi.
Bretar og Hollendingar hafa beitt öllum brögðum til að þvinga okkur til að samþykkja þennan nauðasamning. Þar hafa þeir beitt leynt og ljóst jafnt pólitískum þrýstingi sem og fjárhagslegum og notað til þess Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem og vina- og frændþjóðir okkar.
Hefur þátttaka okkar helstu vina- og frændþjóða í þessum þjösnaskap Breta og Hollendinga, valdið mörgum Íslendingnum miklum vonbrigðum. Frændþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum hafa valið að blanda sér í deiluna um Icesave og tekið einarða og skýra afstöðu gegn okkur í þessum máli. Þau hafa sett klár skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð / lánum sínum. Við verðum að skrifa undir Icesave nauðasamninginn annars fáum við engin lán.
Þegar við Íslendingar stöndum einir Evrópuþjóða frammi fyrir fordæmalausu bankahruni og fordæmalausri gjaldeyriskreppu þá eru þessar þjóðir ekki tilbúnar að hjálpa okkur nema með því að þær lána okkur fé á okurvöxtum, lán sem þær ætla sér sjálfar að hagnast vel á. Auk þess þá krefjast þær þess að við gefum eftir rétt okkar í flóknu og erfiðu deilumáli sem við eigum í við Breta og Hollendinga.
Þessi ótrúlega afstaða frændþjóða okkar hefur án efa fengið margan Íslendinginn til að snúa baki við öllum hugmyndum um aðild að ESB.
Eins og staðan er í dag þá bendir allt til þess að Bretar og Hollendingar verði, með framgöngu sinni í Icesave deilunni, þess valdandi að þjóðin hafnar aðild að ESB.
Tjónið og skaðinn er mikill sem Bretar og Hollendingar hafa valdið okkur með því að setja á okkur hryðjuverkalög, eru að valda okkur með Icesave samningnum og munu valda okkur takist þeim að vekja upp svo mikla andúð almennings á vina- og frændþjóðum okkar að þjóðin verður fráhverf inngöngu í ESB.
Hefnd Breta og Hollendinga á þjóðinni vegna framkomu 5 til 10 íslenskra bankamanna væri þá fullkomnuð.
Mynd: Við Gullinbrú í Grafarvogi, 1.11.09.
![]() |
Icesave skemmir Evrópuumræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:25 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 5. nóvember 2009
Silfurskeiðin sem breyttist í taðköggul.
Í stað þess að börn þessara stofnfjáreigenda alist upp með silfurskeið í munni þá sitja þau uppi með taðköggul sem foreldrarnir reyna nú með öllum ráðum að ná úr munni þeirra.
Foreldrar þessara barna berjast nú um á hæl og hnakka og eru að reyna að koma sökinni í þessu máli yfir á alla aðra en þau sjálf. Þau vilja að lánin verði afskrifuð og bankinn látinn bera ábyrgð á því að að hafa veitt börnunum þessi lán.
Ef þessi börn og unglingar hefðu með aðstoð foreldranna farið inn í bankann og rænt þessum 208 milljónum og eytt þeim þá væri þetta mál ekki tekið neinum vettlingatökum.
Fróðlegt verður að fylgjast með þessu máli, hver verður dreginn til ábyrgðar og hver verður látinn borga.
Hver verður látinn bera þetta tjón, bankinn, börnin eða foreldrarnir?
Mynd: Við Gullinbrú, Grafarvogi, 1.11.09.
![]() |
31 barn átti í Byr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:24 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 5. nóvember 2009
Tónleikar með Friðrik Ómar og Jógvan Hansen, Lay Low og Páli Rósinkranz verða 12. nóv. kl. 20.00
Tónleikar með Friðrik Ómar og Jógvan Hansen, Lay Low og Páli Rósinkranz og fleium verða haldnir í Grafarvogskirkju 12. nóvember næstktkomandi kl. 20.00.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 4. nóvember 2009
Hvað gerir fjárbóndinn á Svörtuloftum á morgun?
Á morgun, 5. nóvember, tekur fjárbóndinn á Svörtuloftum og húskarlar hans ákvörðun um hve mikið á að gefa á garðann því fé sem þeir hafa á húsi. Ákveði þeir að hafa gjöfina óbreytta þá mun fátt af því fé sem nú hímir á húsi þora út í leit að betri bithögum. Þetta fé mun una sælt við sitt í öruggu skjóli fjárhúsanna á Svörtuloftum.
Taki fjárbóndinn og húskarlar hans hins vegar ákvörðun um að minnka gjöfina á garðann þá verður þetta fé fljótt svangt og sprækasta féð fer að leita sér að grænum nálum í bithögum bóndans utan fjárhúsanna.
Utan fjárhúsanna bíða smalarnir á Svörtuloftum þess óþreyjufullir að féð byrji að leita út. Þeir ætla sér að fara með það beint í bestu bithagana þar sem bíður kafgras, kvist- og fjörubeit. Inni í fjárhúsi Svörtulofta gerir féð lítið meira en rétt hanga í holdum. Fari féð út og á beit þá verður það fljótt bústið og fallegt segja smalarnir.
En það er beygur í fjárbóndanum á Svörtuloftum. Það varð mikill fjárfellir hjá honum frostaveturinn mikla 1918 (+ 90) þegar mikil ofsaveður og frosthörkur gengu yfir. Hann óttast frekari fjárfelli og hefur líka miklar áhyggjur af því að ef hann fer að gefa minna á garðann þá muni féð fara að flykkjast úr húsi. Sérstaklega er hann hræddur um féð frá Suðurheimum. Bóndi óttast að fari það fé úr húsi þá muni það ekki stoppa við í landi Svörtulofta heldur leita út yfir lækinn. Fátt óttast bóndi meir en að féð fari yfir lækinn. Hann óttast að það fé muni hann ekki sjá meir.
Þess vegna hefur fjárbóndinn á Svörtuloftum verið með húskarla sína í girðingavinnu. Hafa þeir verið í rúmt ár að girða og dytta að girðingum í landi Svörtulofta, sérstaklega þó upp með læknum. Girðingarnar eru nú vel fjárheldar þannig að þó féð sé tekið af húsi þá rennur það ekki í burtu. Búið er að sjá til þess að féð kemst ekkert og verður að vera kyrrt í heimahögum.
Fjárbóndinn á Svörtuloftum er samt kvíðinn og hræddur og óttast að girðingarnar haldi ekki eða nýtt óveður skelli á. Bóndi hefur viljað gefa svo vel á garðann að féð fari helst ekki af húsi. Hann er hræddur um að annars falli féð eða það strjúki.
Húsfreyjan á Svörtuloftum, smalarnir, skyldmenni og sveitungar eru ekki par ánægðir með þetta ráðslag bónda enda hefur húsfreyjan þurft að taka af fjölskylduarfi sínum til heykaupa fyrir bónda svo hann geti haldið fénu inni á gjöf allt árið.
Fjárbóndinn á Svörtuloftum hlýtur að vera farinn að sjá villu síns vegar og tekur ákvörðun um það á morgun að gefa minna á garðann á næstunni þannig að eitthvað af þessu fé fari úr húsi og byrji að bíta heimahagana.
Við þetta þá mun fækka á fóðrum hjá bónda og með fleira fé í haga þá mun búskapurinn færast fyrr í eðlilegt horf.
Mynd: Grafarvogskirkja, 1.11.09.
![]() |
Ræða ágreining um skatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:24 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 3. nóvember 2009
Ísland að rísa úr sæ.
Miðað við undanfarna 12 mánuði þá hreinlega rignir yfir okkur góðum fréttum þessa dagana. Í orðsins fyllstu merkingu þá er búið að höggva á Gordons hnútinn hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, AGS, sem þeir hnýttu svo fast Gordon Brown og Darling.
Slagkraftur Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið leystur á læðingi og getur félagið haldið áfram á þeirri braut uppbyggingar sem þar var í gangi fyrir Hrun.
Samningar hafa tekist á vinnumarkaði og stöðuleikasáttmálinn staðfestur.
Ferðaþjónustan er að ljúka einu sínu allra besta ári.
Sjávarútvegurinn blómstrar og Íslenskur landbúnaður stendur svo sterkt að flaggskip Ameríska hagkerfisins, McDonalds, verður að játa sig sigrað hér á landi.
Viðskiptajöfnuðurinn við útlönd er hagstæður 14. mánuðinn í röð.
Erlendir fjárfestar hafa áttað sig á því að hér eru nú tækifæri sem aldrei fyrr og ýmsir eru byrjaðir að skoða möguleika á koma hér inn með nýjar fjárfestingar, jafnt sjúkrahús fyrir útlendinga sem hefðbundin stóriðja og allt þar á milli.
Skuldirnar sem á samfélagið hafa fallið eru í dag eini dökki bletturinn. Tímasetning á að birta þessa skýrslu frá AGS þar sem segir að skuldastaðan sé ekki eins slæm og áður var talið er vel valin og sérpöntuð nú þegar Icesave er enn á ný lagt fyrir Alþingi.
Fyrir helgi voru skuldirnar taldar vera 300% til 500% af landsframleiðslu. Í dag eru skuldirnar ekki sagðar eins slæmar og í síðustu viku.
Það er ekki fyrir hvítan mann að henda reiður á hvað er rétt og hvað er rangt í þessum efnum. Látum börnin okkar njóta vafans og fellum nýjustu útgáfuna á Icesave samningnum.
Gerum Bretum og Hollendingum ljóst að þeim stendur til boða Icesave samningurinn með fyrirvörum Alþingis frá í sumar. Punktur.
Mynd: Í Grafarvogi, 1.11.09, Reykjavík
![]() |
Skuldastaðan ekki jafn slæm og áður var talið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:23 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 2. nóvember 2009
Hér og erlendis er fylgst náið með samningum Kaupþings við Bónusfeðga.
Það er eins gott að allt verði upp á borðum og jafnræðis verði gætt gagnvart öðrum skuldurum og lánadrottnum, hvernig svo sem Kaupþing ákveður að ljúka þessu máli varðandi þá Bónusfeðga og verslanir þeirra hér heima.
Það er ekki bara að við Íslendingar fylgjumst með þessu máli, öll heimsbyggðin gerir það líka.
Menn bíða spenntir eftir hvernig Íslensku ríkisbankarnir munu meðhöndla einn vaskasta útrásarvíkinginn og fjölskyldufyrirtæki þeirra feðga hér heima. Fyrirtæki sem hafa algjöra yfirburðastöðu á Íslenska matvörumarkaðnum.
Mynd: Í Grafarvogi, 1.11.09, Reykjavík.
![]() |
Tugmilljarða afskriftir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:23 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 1. nóvember 2009
Stórtónleikar í Grafarvogskirkju 12. nóvember
Margt af okkar besta tónlistarfólki mun koma fram á Stórtónleikum Lionsklúbbsins Fjörgyn sem haldnir verða í Grafarvogskirkju 12. nóvember næstkomandi. Tónleikarnir eru haldnir til styrktar Barna- og unglingageðdeild LSH og líknarsjóði Fjörgyn.
Eftirtaldir listamenn koma fram og styrkja verkefnið.
- Karlakórinn Fóstbræður, Stjórnandi Árni Harðarson
- Voces Masculorum
- Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson
- Friðrik Ómar og Jógvan Hansen
- Hörður Torfason
- Jóhann Friðgeir Valdimarsson
- Kristján Kristjánsson (KK)
- Lay Low
- Óskar Pétursson
- Páll Óskar og Monika´
- Páll Rósinkranz
- Ragnar Bjarnason
- Píanóleikari: Jónas Þórir
- Kynnir: Felix Bergsson
Verð aðgöngumiða er kr. 2.500. Miðasala er dagana 3. til 11. nóvember hjá N1, Ártúnshöfða, Bíldshöfða, og Gagnvegi. Einnig hjá Olís, Álfheimum, Gullinbrú og Norðlingaholti. Tónleikadaginn verða miðar seldir í Grafarvogskirkju milli 16.00 og 20.00.
Þetta er sjötta árið í röð sem við í Lionsklúbbnum Fjörgyn í Grafarvogi stöndum fyrir slíkum tónleikum. Í öll skiptin hefur kirkjan fyllst.
Ég hvet alla sem tök hafa á að tryggja sér miða á eina skemmtilegustu tónleka ársins og koma og hlýða á marga af okkar bestu tónlistarmönnum í einni stærstu kirkju landsins við mjög góðar aðstæður en sérstakt tillit var tekið til tónlistarflutnings við hönnun og gerð kirkjunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 31. október 2009
Sækja erlendir fjárglæframenn í samstarf við Íslensku bankana?
Þær eru vonbrigði þessar fréttir af norska athafnamanninum Endre Røsø sem ætlaði / ætlar að koma inn í MP banka sem stór hluthafi. Í norskum fjölmiðlum er hann og fyrirtæki hans sökuð um hótanir, mútugreiðslur og spillingu.
Í vikunni bárust okkur einnig fréttir að Serious Fraud Office, SFO, í Bretlandi er að rannsaka þá þrjá einstaklinga sem voru í hvað mestum viðskiptum við Kaupþing.
Er það svo að þessir bankar okkar hafa dregið til sín marga af helstu fjárglæfra- / glæpamönnum Evrópu?
"Líkur sækir líkan heim", segir einhverstaðar.
Var það og er það enn tilfellið?
Mynd: Í Skálmárdal
![]() |
MP skoðar málefni Røsjøs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 30. október 2009
Hver er sannleikurinn um dráttinn á afgeiðslu láns AGS?
Mark Flanagan fulltrúi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, í málefnum Íslands býður okkur Íslendingum upp á enn eina útskýringuna eða útúrsnúninginn á því af hverju dregist hefur í átta mánuði að afgreiða lán AGS til okkar.
Þeir sem bera ábyrgð á þessu máli hafa allir sína sér skýringu á þessum drætti. Allar stangast þær á.
Flanagan bendir í fumi og fáti, flani og gani, á alla aðra en sjálfan sig og AGS þegar blaðamenn ganga eftir skýringum af hverju AGS hefur dregið að afgreiða umsamin lán til Íslands í átta mánuði.
Ég hvet blaðamenn að fylgja þessu máli eftir og bera þessi ummæli Mark Flanagan undir hin Norðurlöndin og Jón Sigurðsson.
Annað hvort AGS eða hin Norðurlöndin eru að segja okkur Íslendingum rangt til um þetta mál.
Ef AGS er nú að reyna að snúa sig út úr þessu máli og rétta skýringin á drættinum er að þeir voru að knýja Íslendinga til að ganga að nauðasamningum Breta og Hollendinga í Icesave þá þarf að fá það staðfest.
AGS mun ekki geta þurrkað af sér þann handrukkarastimpilinn sem þeir fá á sig hér á landi með þessum vinnubrögðum sínum.
Ísland er stofnaðili að AGS og Alþjóðabankanum. Sem stofnaðili á okkar næsta skref að vera á næsta aðalfundi AGS að leggja fram tilllgögur um breytingar á starfi og skipulagi sjóðsins þannig að í framtíðinni þá verði komið í veg fyrir að ákveðnar þjóðir geti beitt sjóðnum fyrir sig með þeim hætti sem hér hefur verið gert.
Það er skylda okkar sem stofnaðilar að koma í veg fyrir að sjóðnum sé misbeitt í þeim löndum þar sem hann er kallaður til.
Svona vinnubrögð á ekki að líða.
Sé hins vegar Mark Flanagan að segja satt og rétt frá, þá þurfum við heldur betur að endurskoða allt okkar samstarf við hin Norðurlöndin.
Mynd: Skálmárdalur
![]() |
Hver bendir á annan í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 29. október 2009
Seðlabankinn fær 100 milljarða í viðbót til að sólunda.
Mikið óskaplega leggst það illa í mig að Seðlabanki Íslands skuli vera að fá í hendur 100 milljarða í erlendum gjaldeyri.
Ég myndi treysta flestum betur en Seðlabankanum og til að gæta þessa fjár vilji menn endilega taka þetta fé að láni.
Þetta er eini Seðlabanki í Evrópu sem hefur orðið gjaldþrota frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Allt sama fólkið er þarna enn sem stóð að þeim ákvörðunum sem leiddu til þess að bankinn varð gjaldþrota.
Og við erum að láta þetta sama fólk hafa hundruð milljarða af erlendum gjaldreyri að sýsla með.
Allar líkur eru á að bankinn muni sólunda þessu fé á örfáum misserum í einhverju rugli við að verja krónuna.
Þessi banki og starfsfólk hans var ófært að verja sjálfan sig og þjóðina í aðdraganda hrunsins.
Er ekki borin von að hann sé eitthvað frekar fær um það nú?
Mynd: Í Skálmárdal
![]() |
Nota forðann í afborganir lána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 27. október 2009
Samstarf Íslands við hin Norðurlöndin verður aldrei aftur eins.
Mikið er ég sammála ræðu Bjarna Benediktssonar sem hann flutti á þingi Norðurlandaráðs þar sem hann gagnrýnir hin Norðurlöndin fyrir að blanda saman fjárhagsaðstoð sinni til okkar og deilu okkar við Breta og Hollendinga. Ég vil sjá meira af þessu frá hinum fulltrúum okkar á þessu þingi. Þetta þing er tilgangslaust ef þessi mál eru ekki rædd þarna hispurslaust.
Við höfum heyrt marga, bæði innlenda og erlenda lögspekinga, gagnrýna mjög þennan Icesave samning.
Þrátt fyrir rökstudda gagnrýni á Icesave samninginn og réttmæti hans þá velja Norðurlöndin að taka einhliða afstöðu með Bretum og Hollendingum í þessu máli gegn okkur.
Af hverju hin Norðurlöndin hafa valið að aðstoða Breta og Hollendinga við að stilla okkur Íslendingum upp við vegg með þessum hætti er mér óskiljanlegt.
Pólverjar og Færeyingar voru með engin slík skilyrði fyrir sínum lánum. Af hverju gerðu hin Norðurlöndin ekki slíkt hið sama?
Af hverju hin Norðurlöndin völdu að taka svona afgerandi afstöðu í þessum Icesave máli á móti okkur er mér óskiljanlegt. Af hverju þau vilja neyða okkur til að við tökum á okkur skuldbindingar sem eru meiri og ná langt út yfir gildandi lög og reglur ESB um innistæðutryggingar skil ég ekki.
Nokkuð hefur verið í umræðunni að Bretar sem eru að fjármagna sig á lánum með 3,6% vöxtum, þeir endurlána okkur með Icesave samningnum á 5,55% vöxtum. Menn telja að Bretar munu vegna þessa vaxtamunar þéna um 270 milljarða króna eða um 1,5 milljarð evra á þessum Icesave samningi.
Við skulum átta okkur á því að sama staðan er uppi með lán hinna Norðurlandanna til okkar. Svíarnir t.d. eru að fjármagna sig með erlendum lánum með 3,6% vöxtum frá Seðlabanka Bandaríkjanna. Þeir endurlána okkur þessa sömu dollara í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn á 5,5% vöxtum. Þessi lán Norðurlandanna til okkar eru því engin góðgerðastarfsemi. Norðurlöndin ætla sér að græða hundruð milljarða króna á okkur með því að hirða sjálf vaxtamunninn, alveg eins og Bretarnir ætla sér að gera.
Við sjáum vel hvað hug forystumenn hinna Norðurlandanna bera til okkar. Skilaboðin geta ekki verið skýrari.
Það er mitt mat að þeir Íslendingar sem nú eru á lífi munu aldrei líta samstarfið við hin Norðurlöndin sömu augum og áður. Þeim hefur án efa fjölgað mikið á Íslandi sem vilja minnka þetta "samstarf".
Þetta Icesave mál og þessi afstaða Norðurlandanna til þess er ekki beint að vinna með okkur íslensku Evrópusinnunum. Núverandi forystufólk Breta, Holendinga og Norðurlandanna er að öllum líkindum að gera út um vonir okkar Evrópusinnanna að við Íslendingar göngum nokkurn tíma í ESB.
Höfnum þessum lánum frá Norðurlöndunum. Látum ekki þvinga okkur til nauðasamninga. Látum Breta og Hollendinga með aðstoð hinna Norðurlandanna og AGS ekki svínbeygja okkur í þessu Icesave máli þó við séum komin niður á annað hnéð.
Engin þjóð á að láta bjóða sér þessa afarkosti.
Mynd: Á hestbaki við Álku, v-Hún.
![]() |
Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.10.2009 kl. 00:20 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 26. október 2009
Allt jákvætt við það að McDonald´s hættir á Íslandi
Fyrir mér er þetta ein af jákvæðu fréttunum í þessari kreppu. Til hvers í ósköpunum eigum við að vera að flytja inn frá útlöndum nautakjöt, ost og brauð til að búa til hamborgara?
Það er bara jákvætt að þessum innflutningi á matvöru er hætt og það verði hér eftir innlent hráefni sem þessi hamborgarastaður notar í sína "rétti".
![]() |
McDonald's hættir - Metro tekur við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 25. október 2009
Þrálátur orðrómur um peningaþvætti bankana.
Sögusagnir um peningaþvætti íslensku bankana hafa verið þrálátar undanfarin ár. Eins sögusagnir um gríðarlegan flutning á beinhörðum peningum úr landi með íslenskum leiguflugvélum og þeim einkaflugvélum sem hingað lögðu leið sína frá ársbyrjun 2008 fram að hruni í október 2008.
Ganga þessar sögur út á að menn mættu á Reykjavíkurflugvöll með fullt af ferðatöskum, töskum sem vógu 80 kg til 90 kg, og höfðu á brott með sér til útlanda í þessum leiguvélum. Taska full af bókum eða öðrum pappír vegur um 80 til 90 kg. Ef þessar sögusagnir eru réttar þá geta Íslensku leiguflugfélögin, hleðslumenn, og aðrir starfsmenn á Reykjavíkurflugvelli sem þjónuðustu þessar vélar veitt nánari upplýsingar.
Svo eru aðrar sögusagnir sem greina frá því að í íslensku bönkunum hafi verið bankakerfi inni í bankakerfinu sem sérstakar "tölvur/serverar" héldu utan um. Færslur sem fóru fram í þessu "innra" bankakerfi, þær sjást ekki í hinu hefðbundnar bankakerfi. Peningarnir í þessu bankakerfi eru ekki geymdir í bönkum heldur í öryggishólfum sem víða er hægt að leigja í flestum stærri skrifstofubyggingum. Nokkrir slíkir "serverar" er sagðir hafa verið hér á landi og þeim hafi verið flogið úr landi frá Reykjavíkurflugvelli nokkrum vikum fyrir hrun.
Það er öllum í hag að þessi mál séu rannsökuð og þessar fjölmörgu sögusagnir sem eru og hafa verið í gangi verið kveðnar í kútinn, séu þær ósannar.
![]() |
Ásakanir um peningaþvætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 24. október 2009
Bretar og Hollendingar munu þéna þykkt á Icesave samningnum.
"Vaxtakostnaður breska ríkisins á 10 ára skuldbindingum er nú um 3,4 prósent og hollenska ríkið getur fjármagnað sig á 3,6 prósent vöxtum til sama tíma. Jafnaðarvaxtakostnaður Breta og Hollendinga er því um 3,5 prósent. Icesave samningurinn kveður á um að íslenska ríkið þarf að borga 5,55 prósent vexti, eða meira en tveimur prósentustigum yfir því, sem það kostar Breta og Hollendinga að fjármagna Icesave lánið.Þetta leiðir af sér að á þeim 15 árum, sem fyrirhugað er að taki Ísland að endurgreiða Icesave skuldbindinguna, munu bresk og hollensk stjórnvöld hirða um 1,5 milljarða evra í vaxtamun af íslenskum skattgreiðendum. Á gengi dagsins í dag jafngildir þetta meira en 270 milljörðum króna."
Segir í frétt á Pressunni í viðtali við Ársæl Valfells lektor.
Það að Bretar og Hollendingar eru að gera þetta Icesave mál að féþúfu sinni og munu hagnast á þessum samningi um að minnsta kosti 270 milljarða króna er þannig mál að þennan samning má ekki samþykkja óbreyttan.
Ranglætið í þessu Icesave máli er fullkomnað með þessu.
Hvað í ósköpunum gekk þessari íslensku samninganefnd til?
Hvers vegna í ósköpunum samþykkir ríkisstjórnin svona samning?
Eru stjórnvöld búin að missa alla tenginu við raunveruleikann og hætt að geta skilið á milli þess sem er rétt og rangt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 23. október 2009
Gott mál ef lífeyrissjóðirnir eignast Landsvirkjun
Mikið fagna ég þeirri umræðu sem nú er hafin að lífeyrissjóðir landsmanna eignist Landsvirkjun. Slíkt myndi styrkja stöðu bæði ríkissjóðs og Landsvirkjunar. Með nýjum eiganda að Landsvirkjun sem væri fjárhagslega jafn sterkur og lífeyrissjóðirnir eru þá mun lánshæfismat bæði Landsvirkjunar og ríkisins hækka.
Þetta myndi þýða að þau lán sem Landsvirkjun þarf að taka á næstu misserum til að endurfjármagna eldri lán, þau lán munu fást með verulega hagstæðari vaxtakjörum.
Mér fróðari menn segja mér að ef ríkið færi úr ábyrgð fyrir Landsvirkjun og hætti þar með að vera í beinni ábyrgð fyrir skuldum Landsvirkjunar, skuldum sem í dag nema 500 til 600 milljörðum, þá muni lánshæfismat Íslenska ríkisins hækka. Staða ríkisins mun batna það mikið við þetta að vextir af lánum sem ríkið eða aðrir opinberir aðilar þurfa að taka á komandi misserum og árum munu verða töluvert lægri.
Fyrir okkur Íslendinga skiptir það í sjálfu sér ekki máli hvort við eigum Landsvirkjun í gegnum lífeyrissjóðina okkar eða í gegnum ríkið. Það hefur lengi verið skylduaðild að lífeyrissjóðakerfinu okkar þannig að allir Íslendingar munu eftir sem áður vera eigendur að Landsvirkjun.
Fyrir lífeyrissjóðina er Landsvirkjun mjög góð eign. Annars vegar er um að ræða fasteignaveð í virkjunum og línum og hins vegar sölusamningar á raforku til margra áratuga. Langtíma arðsemi í virkjunum og orkusölu fellur vel að langtíma ávöxtun lífeyrissjóðanna enda hafa lífeyrissjóðir um allan heim mikið fjárfest í orkufyrirtækjum.
Fyrir Landsvirkjun og starfsmenn fyrirtækisins eru lífeyrissjóðirnir miklu betri eigandi en ríkið. Lífeyrissjóðirnir er fagfjárfestar og með þeim koma fagleg vinnubrögð og fagþekking á fjárfestingum og rekstri. Í stjórn Landsvirkjunar mun því setjast fyrir hönd lífeyrissjóðanna fagfólk í rekstri í stað pólitískt skipaðra silkihúfa. Þetta mun án efa skila sér í bættum rekstri félagsins á komandi árum.
Fyrir erlenda fjárfesta er það miklu betra ef félag eins og Landsvirkjun er ekki í eigu ríkisins. Það eru margir hræddir við að eiga viðskipti við ríkisfyrirtæki. Mörg erlend stórfyrirtæki eru með það í Samþykktum sínum að þeim er bannað að eiga viðskipti við banka eða önnur félög sem eru í eigu opinberra aðila. Áratuga reynsla víða um heim hefur kennt þessum fyrirtækjum að það er ekki hægt að treysta ríkisbönkum eða ríkisfyrirtækjum.
Ef Landsvirkjun fer í hendur fagfjárfesta eins og lífeyrissjóðanna þá munu fleiri erlend fyrirtæki á komandi árum sýna því áhuga að eiga viðskipti við Landsvirkjun.
Ég skora á stjórnvöld og lífeyrissjóðina að skoða mjög vel hvort ekki sé rétt að lífeyrissjóðirnir eignist Landsvirkjun.
Þetta er "win win" staða fyrir alla.
Mynd: Gamall torfbær frammi á Kjálka.
![]() |
Landsvirkjun ekki föl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook