Gott mál ef lífeyrissjóðirnir eignast Landsvirkjun

Mikið fagna ég þeirri umræðu sem nú er hafin að lífeyrissjóðir landsmanna eignist Landsvirkjun. Slíkt myndi styrkja stöðu bæði ríkissjóðs og Landsvirkjunar. Með nýjum eiganda að Landsvirkjun sem væri fjárhagslega jafn sterkur og lífeyrissjóðirnir eru þá mun lánshæfismat bæði Landsvirkjunar og ríkisins hækka.

111_1172Þetta myndi þýða að þau lán sem Landsvirkjun þarf að taka á næstu misserum til að endurfjármagna eldri lán, þau lán munu fást með verulega hagstæðari vaxtakjörum.

Mér fróðari menn segja mér að ef ríkið færi úr ábyrgð fyrir Landsvirkjun og hætti þar með að vera í beinni ábyrgð fyrir skuldum Landsvirkjunar, skuldum sem í dag nema 500 til 600 milljörðum, þá muni lánshæfismat Íslenska ríkisins hækka. Staða ríkisins mun batna það mikið við þetta að vextir af lánum sem ríkið eða aðrir opinberir aðilar þurfa að taka á komandi misserum og árum munu verða töluvert lægri.

Fyrir okkur Íslendinga skiptir það í sjálfu sér ekki máli hvort við eigum Landsvirkjun í gegnum lífeyrissjóðina okkar eða í gegnum ríkið. Það hefur lengi verið skylduaðild að lífeyrissjóðakerfinu okkar þannig að allir Íslendingar munu eftir sem áður vera eigendur að Landsvirkjun.

Fyrir lífeyrissjóðina er Landsvirkjun mjög góð eign. Annars vegar er um að ræða fasteignaveð í virkjunum og línum og hins vegar sölusamningar á raforku til margra áratuga. Langtíma arðsemi í virkjunum og orkusölu fellur vel að langtíma ávöxtun lífeyrissjóðanna enda hafa lífeyrissjóðir um allan heim mikið fjárfest í orkufyrirtækjum.

Fyrir Landsvirkjun og starfsmenn fyrirtækisins eru lífeyrissjóðirnir miklu betri eigandi en ríkið. Lífeyrissjóðirnir er fagfjárfestar og með þeim koma fagleg vinnubrögð og fagþekking á fjárfestingum og rekstri. Í stjórn Landsvirkjunar mun því setjast fyrir hönd lífeyrissjóðanna fagfólk í rekstri í stað pólitískt skipaðra silkihúfa. Þetta mun án efa skila sér í bættum rekstri félagsins á komandi árum.

Fyrir erlenda fjárfesta er það miklu betra ef félag eins og Landsvirkjun er ekki í eigu ríkisins. Það eru margir hræddir við að eiga viðskipti við ríkisfyrirtæki. Mörg erlend stórfyrirtæki eru með það í Samþykktum sínum að þeim er bannað að eiga viðskipti við banka eða önnur félög sem eru í eigu opinberra aðila. Áratuga reynsla víða um heim hefur kennt þessum fyrirtækjum að það er ekki hægt að treysta ríkisbönkum eða ríkisfyrirtækjum.

Ef Landsvirkjun fer í hendur fagfjárfesta eins og lífeyrissjóðanna þá munu fleiri erlend fyrirtæki á komandi árum sýna því áhuga að eiga viðskipti við Landsvirkjun.

Ég skora á stjórnvöld og lífeyrissjóðina að skoða mjög vel hvort ekki sé rétt að lífeyrissjóðirnir eignist Landsvirkjun.

Þetta er "win win" staða fyrir alla.

Mynd: Gamall torfbær frammi á Kjálka.

 


mbl.is Landsvirkjun ekki föl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góð hugmynd. Með góðar hugmyndir koma oft mörg ef.

Ég er mjög mótfallinn því að Lífeyrissjóðum sé beitt til að kaupa upp fyrirtæki eða hlut í einhverri atvinnustarfsemi. Þeirra eina prinsipp á að vera að ávaxta pund lífeyrissjóðsfélaga og punktur. Þeir eiga ekki og mega ekki vera í einhverjum glæfralegum fjárfestingum eins og síðastliðnir 2 áratugir sýna. Þeir hafa verið að auka hlut sinn í allskonar atvinnustarfsemi keyptu meðal annars hlut í ensku fótboltafélagi sem gerði lítið annað en rýra tilvonandi lífeyrir þeirra sem í þeim sjóði áttu. Þeir hafa verið að auka hlut sinn í bankakerfi landsins sem síðan hrundi. Þetta orsakaði enn skerðingu lífeyris fólks. Það að ætla sér að láta Lífeyrissjóðina kaupa Landsvirkjun er góðra gjalda verð, en skuldsett fyrirtæki eins og Landsvirkjun er ekki góð fjárfesting. Það vantar betri útlistun á þessari hugmynd og hvernig almenningi myndi reiða af við það að fá nýja eigendur inn. Lífeyrissjóðir eiga bara að hugsa um að hámarka fé sitt og ef þeir halda þeirri stefnu ef svo óheppilega vildi til að þeir kæmust yfir Landsvikrjun, liði ekki langur tími þar til þeir færu að hækka gjaldskrá uppúr öllu valdi. Það hefur verið raunin allstaðar þar sem einkaframtak hefur verið við völdin og ég er ekki að sjá að einhver breyting yrði þar á með Lífeyrissjóðina við stjórnvölinn í Landsvirkjun.

Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 18:06

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

En Baldvin, ef raforkuverðið hækkar þá hækka eftirlaunin þín þegar þar að kemur því þá hefur lífeyrissjóðurinn þinn úr meiru að moða.

Við þurfum því sjálf að stilla af hvað er eðlilegt í gjaldtöku á raforku. Því meira sem lífeyrissjóðirnir þéna því hærri ellilífeyrir geta þeir borgað.

Hins vegar má ekki ganga of nærri mjólkurkúnni eins og þú réttilega bendir á.

En eru launþegarnir og fulltrúar þeirra í lífeyrissjóðunum ekki einmitt rétti aðilinn til að ákveða á hverjum tíma þessa hárfínu línu?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.10.2009 kl. 22:32

3 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég held að þessi hugmynd sé vel þess virði að hún sé skoðuð nánar.

Mér finnst ekki rétt að setja málið fram eins og Baldvin gerir því það er munur á einkaaðilum sem hafa það eitt markmið að hámarka arð eigenda sinna, sem í flestum tilvikum eru takmarkaður hópur fjárfesta, og svo lífeyrissjóðum sem hafa það markmið að ávaxta sitt pund í þágu almennings.

Fram hefur komið að hvernig sem á málið er litið þá er það á endanum almenningur sem ber áhættuna af rekstri Landsvirkjunnar.

Landsvirkjun er sennilega það fyrirtæki á Íslandi sem hvað mesta möguleika á að vaxa og dafna til lengri tíma litið og ef hægt er að samþætta hagsmuni almennings og Landsvirkjunar þá get ég ekki séð neitt nema gott við þá tilhögun.

Hjalti Tómasson, 24.10.2009 kl. 10:54

4 Smámynd: Rauða Ljónið

Efnahagsreikningar LV sýna góða afkoma nú á seinni hlut árs 2009 rekstraumhverfið er að batna.
Það veit Steingrímur þó svo að hann hafi ekki hátt um það frekar en aðrir félagar í VG.
Sú er eflaust afstaða hann að vilja ekki selja Gullhænu sína sem á næstu misserum og árum mun verpa sínum gulleggjum í gríð og erg og um bæta afkomu ríkissjóð og lánhæfis LV og landsins.

Sem sýnir að það er góður kostur fyrir lífeyrissjóðina að eignast LV og vert að skoða.

Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 24.10.2009 kl. 14:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband