Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Munu innviðir valdakerfis gömlu bankana falla eða standa af sér storminn?

Það er mikið áfall fyrir fyrrum eigendur og starfsmenn íslensku bankana að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunar, SFO, ætli að fara í gang með opinbera rannsókn á Kaupþingi.

IMG_3750Í breskum fjölmiðlum í gær kom fram að þessi rannsókn gæti leitt til þess að starfsmenn bankans yrðu ákærðir í Bretlandi fyrir brot á hegningarlögum sem gæti leitt til fangelsisdóma. Fram hefur komið í breskum blöðum, að fyrrum stjórnendur Kaupþings hafi ráðið lögmannsstofuna Burton Copeland, sem sérhæfir sig í fjársvikamálum, til að gæta hagsmuna sinna vegna rannsóknarinnar.

Þessi frétt frá Bretlandi er mikið áfall fyrir það valdakerfi sem þessir bankar voru búnir að byggja upp hér heima. Þetta valdakerfi hlýtur allt að titra núna. Fyrsta alvöru áfallið sem þetta valdakerfi varð fyrir frá því í sjálfu hruninu varð 9. desember síðastliðinn þegar Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi tvo fyrrum starfsmenn Kaupþings, sjóðstjóra peningamarkaðssjóðs og skuldabréfamiðlara  í átta mánaða fangelsi fyrir markaðsmisnotkun.

Það kom mér mjög á óvart að þessir menn skyldu hafa verið dæmdir fyrir þetta hátterni. Ég átti ekki von á því að íslenskir bankamenn yrðu dæmir af íslenskum dómstólum í fangelsi. Ég hafði enga trú á því að það myndi nokkurn tíma gerast. 

Í umræddu máli voru brotin framin í ársbyrjun 2008. Margt bendir því til þess að Fjármálaeftirlitið, FME, hafi ekki kært þessa men fyrr en eftir að skipt hafði verðið um stjórn og forstjóra FME.

Áður en skipt var um stjórn og forstjóra hjá FME hafði stofnunn aldrei lagt fram ákæru af þessum toga og ég held að það hafi aldrei staðið til að FME færi að senda kærur um eitthvað misjafnt í starfsemi bankana til saksóknara. Gerði FME slík mistök þá hefði sú kæra endað hjá Valtý Guðmundssyni, ríkissaksóknara. Sonur hans er fyrrum forstjóri Exista sem var stærsti hluthafinn í Kaupþingi og einn stærsti einstaki lántakinn hjá bönkunum þrem. Þessum bát sem þetta valdakerfi bankana er, því valdakerfi myndi Valtýr aldrei rugga því sonur hans er um borð í þeim bát.

Hér stóð aldrei til að sækja neinn til saka hvað þá dæma menn til fangelsisvistar.

Það sem virðist vera að gerast er að sú valdaklíka bankana sem hér hefur komist til valda í stjórnsýslunni, í viðskiptalífinu og fjölmiðlum er að missa tökin á samfélaginu og þar með atburðarrásinni. Það virðist vera að fjara undan völdum þeirra og áhrifum.

Nú ganga þær sögur fjöllunum hærra að þeir stjórnmála- og embættismenn "sem sitja í boði bankana" á þing og í öðrum valdaembættum í stjórnsýslunni, þeir berjist nú um á hæl og hnakka við að reyna að þagga niður og hylma yfir sín fjárhagslegu tengsl við þessa banka, fyrrum eigendur þeirra, útrásarvíkingana og fyrirtæki í þeirra eigu.

Lög sem ætlunin er að setja á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er eitt blygðunarlausasta dæmið um þessa þöggun og um þessa yfirhylmingu.

Sjá einnig þennan pistil hér: Á nú að fela það í 80 ár að okkar helstu stjórnmálamenn og embættismenn þáðu mútur?

Mynd: Á Landmannaleið, Löðmundarvatn.

 


mbl.is Vill rannsókn á starfsemi Singer & Friedlander
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hafinn undirbúningur að því að kalla saman Landsdóm?

Eyjan birtir í dag frétt þess efnis að í forystusveitum stjórnmálaflokkanna hafi verið í gangi umræða um að líklega verði að kalla Landsdóm saman í framhaldi af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Álitið er að í skýrslunni verði svo fast að orði kveðið um vanrækslu fyrrverandi ráðherra að líkur eru á að einn eða fleiri þeirra verði látnir sæta ákæru fyrir Landsdómi. Sjá frétt Eyjunnar hér.

IMG_3749Ég hef skrifað nokkra pistla á þetta blogg hér og hvatt til þess að þeir sem bera ábyrgð á því að banka í einkaeigu var leyft að veðsetja þjóðina fyrir á annað þúsund milljarða (næstum heilli landsframleiðslu) á tæpum tveim árum, það fólk verði dregið fyrir Landsdóm og ákært fyrir Landráð.

Sjá eftirfarandi pistla.

Mikil viðbrögð hafa verið við þessum pistlum. Greinilegt er að fólki um allt land er ofboðið. 

Á annað hundrað manns haft samband og vill leggja lið. Sumir vilja leggja fram vinnu, aðrir fjármagn og enn aðrir vilja sýna stuðning í verki með því að skrá sig sem þátttakendur. 

Þessi hópur hefur ákveðið að bíða með aðgerðir og sjá hver niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis verður og í framhaldi af því viðbrögð þingsins.

Þeir sem hafa áhuga á að stuðla að því að slík ákæra verði lögð fram hafið samband og sendið póst á fhg@simnet.is.

Mynd: Á Landmannaleið, Löðmundarvatn.

 


Ætlar klúður stjórnsýslunnar engan endi að taka?

Enn eitt málið er komið upp þar sem stjórnsýslan er að klúðra málum. Í þetta sinn eru það starfsmenn Ríkisskaupa sem eru að valda ríkinu og þar með okkur skattgreiðendunum tjóni þegar þeir ganga fram hjá einu öflugasta matvælafyrirtæki landsins, SS, sem átti lægst tilboð í 600.000 máltíðir fyrir ríkisspítalana. Ríkiskaup ákvað að ganga til samninga við þann sem var með næst lægsta tilboðið með þeim afleiðingum að nú er ríkið orðið skaðabótaskylt gagnvart lægstbjóðandi og útboðið allt hefur verið fellt úr gildi.

IMG_3748Því miður, það eina sem mér dettur í hug þegar ég les svona frétt er: "Hver er að borga hverjum hvað?" Ég ætla að vona að ekkert slíkt sé þarna í gangi og þetta megi skrifa á vanhæfni, vankunnáttu og aulahátt starfsmanna Ríkiskaupa.

En hvað er að gerast í stjórnsýslunni?

Um helgina var upplýst að starfsmenn stjórnsýslunnar hafa verið að senda inn fölsuð nöfn á undirskriftarlista InDefence í þeim tilgangi að kasta rýrð að þessa undirskriftasöfnun. Sjá hér: http://indefence.is/

Í umræðum um nýtt fjárlagafrumvarp er það upplýst að nær undantekningalaust hafa á undanförnum árum stofnanir og fyrirtæki ríkisins keyrt fram úr þeim fjárlagaramma sem þeim er settur. Þetta þýðir annað tveggja.

  • Þessar stofnanir hafa ekki á að skipa stjórnendum sem geta tekist á við það verkefni að reka þessar stofnanir og þessi fyrirtæki. Þessum stofnunum og fyrirtækjum stjórnar fólk sem hefur ekki burði né getu til að skera niður, halda kostnaði í skefjum, takmarka mannaráðningar eða segja upp starfsmönnum.
  • Eða þá að þessir stjórnendur líta svo á að þeir þurfi ekki að fara að fyrirmælum þeirra fulltrúa sem almenningur kýs á Alþingi til að fara með löggjafar- og framkvæmdavaldið í landinu. Þessir stjórnendur láta ekki neinn segja sér fyrir verkum og þeir komast upp með það.

Við höfum horft upp á starfsfólk / sérfræðinga Seðlabanka Íslands gera bankann gjaldþrota.

Við höfum horft upp á starfsfólk Fjármálaeftirlitsins heimila Landsbankanum að veðsetja þjóðina fyrir 1.500 milljarða á tveim árum vegna Icesave.

Einn æðsti yfirmaður íslenskrar stjórnsýslu, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, sætir nú rannsókn vegna innherjasvika.

Stanslaust og endalaust virðist bætast í þennan haug endalausra mistaka, misbeitingar og vanhæfni íslensku stjórnsýslunnar.

Þeir fulltrúar þjóðarinnar sem kosnir hafa verið til að fara með löggjafar- og framkvæmdavaldið fyrir hönd þjóðarinnar hljóta að þurfa að fara að taka á þessu vandamáli sem íslenska stjórnsýslan er.

Af hverju setur þingið ekki tímabundin lög sem heimila framkvæmdavaldinu að hreinsa, nú eftir hrun, út úr stjórnsýslunni þannig að hægt verði að segja upp stjórnendum og millistjórnendum án þess að það valdi ríkinu miklum kostnaði. Í staðin fyrir þetta fólk verði okkar hæfustu ráðningarstofur fengnar til að ráða nýtt fólki í þessar stöður.

Fagfólk en ekki pólitískir gæðingar munu þá stýra stjórnsýslunni, stofnunum og fyrirtækum ríkisins.

Mynd: Á Landmannaleið, Löðmundur og Löðmundarvatn.

 


mbl.is Matsala boðin út að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna Adolf Hitler og Mikki mús í stjórnarráðinu?

Þegar ég skráði mig á undirskriftalistann hjá InDefence hér um daginn þá sá ég að rétt áður höfðu bæði Adolf Hitler og Mikki mús skrifað undir þessa sömu áskorun til forseta Íslands.

IMG_3747Einn forsvarsmanna söfnunarinnar, Ólafur Elíasson, segir að búið sé að fara ítarlega yfir þessa lista og að um 0,5% undirskrifta séu slíkar falsanir. Síðan kemur frétt ársins: 

„Það sem hefur vakið furðu okkar er að stjórnarráðslén kemur upp sem og lén Fréttablaðsins, RÚV og Hagstofu Íslands. Þetta kemur sem sagt út tölvum sem er á þeirra vef,“ segir Ólafur. Aðspurður segir Ólafur ekki hægt að rekja nákvæmlega úr hvaða ráðuneyti skráningarnar berast, aðeins að þær komi úr stjórnarráðinu".

Frá árinu 2000 hafa verið hér einir mestu uppgangstímar í sögu þjóðarinnar. Slegist var um hverja einustu vinnandi hönd og atvinnulífið yfirborgaði starfsfólk sitt út í það óendanlega til að halda því eða til að fá það í vinnu. Þeir sem völdu að vinna í stjórnsýslunni misstu af þessum gæðum.

Í framhaldi af hinni alþjóðlegu bankakreppu verður hér á landi hrun sem á sér ekki fordæmi í hinum vestræna heimi frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Ástæður þessa er að stórum hluta vegna þess að stjórnsýslan sinnti ekki skyldum sínum og sínu eftirlitshlutverki.

Og nú er þetta starfsfólk stjórnsýslunnar að reyna að eyðileggja framtak áhugafólks og skemma fyrir því undirskriftarlista sem það er að safna á netinu.

Hvernig fólk er það sem hefur safnast inn í íslensku stjórnsýsluna á undangengnum góðærisárum?

Þær einu hreinsanir sem almenningi er kunnugt um að hafi verið gerðar í stjórnsýslunni frá hruni er að þrem seðlabankastjórum var sagt upp störfum og forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Allt hitt liðið situr þarna eins og ekkert hafi gerst í íslensku samfélagi og er meðal annars að dunda sér við að eyðileggja undirskriftalista sem áhugafólk er að safna á netinu.

Ótrúlegt er að það fólk sem þjóðin hefur kallað til valda á Alþingi og í ríkisstjórn skuli ekki taka á því augljósa vandamáli sem núverandi stjórnsýsla er og fara í umfangsmikla endurnýjun á því starfsfólki sem þar vinnur.

Undirskriftalista InDefence er að finna hér: http://indefence.is/

Mynd: Á Landmannaleið.

 

17.12.2009 - Ég tek mér það bessaleyfi setja hér inn "athugasemdina" sem Halldór birti um málið í Morgunblaðinu í dag: 

Adolf og Mikki


Rannsókn lögbrota á fullu en hvað með siðferðis- og ábyrgðarskyldubrotin?

Það er áfall að Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar hefur ákveðið eftir  fjögurra mánaða skoðun að hafin verði formleg rannsókna á starfsemi íslensku bankana í Bretlandi. Það hefði verið gott ef Bretar hefðu ákveðið að frekari rannsóknar væri ekki þörf. Með þessari rannsókn sem nú er farin í gang með þáttöku landana hér í kring þá eru allar líkur eru á að mál sem snúa að lögbrotum bankana muni upplýsast.

IMG_3746Hins vegar þá er ekkert að gerast í þeim málum sem snúa að íslensku stjórnsýslunni og þeim stjórnmálamönnum sem báru ábyrgð á því sem hér gerðist. 

Fyrir utan rannsóknir á lögbrotum bankamanna þá snýst uppgjör vegna þessa hruns í dag fyrir mér fyrst og fremst um fernt.

  • Hver heimilaði og ber ábyrgð á því að banki í einkaeign fékk leyfi til að veðsetja þjóðina fyrir 1.500 milljarða (samsvarar landsframleiðslunni) á tæpum tveim árum með þessum Icesave reikningum?
  • Hver heimilaði og ber ábyrgð á því að Seðlabankinn var "rændur" og skilinn eftir gjaldþrota eftir að hafa tapað 345 milljörðum á lánum án veða til bankana?
  • Hver heimilaði og ber ábyrgð á því að 270 milljarðar voru teknir út úr Seðlabankanum og settir inn í peningamálasjóði bankana eftir að þessir einkabankarnir voru komnir í gjaldþrot?
  • Hver heimilaði og ber ábyrgð á því að Seðlabankinn heimilaði útgáfu Jöklabréfa fyrir allt að 700 milljarða. Jöklabréf sem er dýrasta leiðin til að ná í gjaldeyri og fjármagn inn í landið. Þetta fé sem lá í þessum Jöklabréfum er nú að leita úr landi með tilheyrandi þrýstingi á krónuna til lækkunar. Hver heimilaði þetta glæfraspil sem þessi Jöklabréfaútgáfa er og hver ber ábyrgð á þessu?

Þeir einstaklingar sem á þessu bera ábyrgð vil ég að verði eltir uppi og ákærðir. Suma fyrir landráð, Icesave liðið, hina fyrir vítaverða vanrækslu og gáleysi í starfi.

Af hverju er ekkert verið að ræða þessi mál? Af hverju er ekkert að gerast varðandi þennan þátt hrunsins?

Á að leggja allt undir og veðja bara á eina skýrslu, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis?

Mun skýrlsa rannsóknarnefndarinnar taka á þessum fjórum stærstu málum hrunsins? Ef ekki hver á og ætlar þá að gera það? Enginn?

Af hverju er Alþingi að setja sér lög um meðhöndlun þeirra gagna sem rannsóknarnefndin er að vinna með og banna birtingu þeirra í 80 ár?

Af hverju fjalla 1/3 hluti lagagreinanna í þessum lögum bara um sektir og fangelsisdóma brjóti menn trúnað og birti eitthvað af þessum gögnum innan þessara 80 ára?

Mynd: Á Landmannaleið, Helka.

 


mbl.is Bretar hefja rannsókn á íslensku bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnum skattatillögu Sjálfstæðisflokksins að seilast í lífeyrissjóðina.

Það sem mér þykir verst í þessum skattatillögum Sjálfstæðisflokksins er að nú vill flokkurinn seilast í lífeyrissjóði landsmanna, séreignasjóðina, og taka þar út 110 milljarða plús 11 milljarða á ári á næstu árum til að ekki þurfi að koma til skattahækkana núna.

IMG_3745Þetta er lásý 2007 lausn. Taka lán inn í framtíðina til að nota í nútímanum.

Mölva á grunnhugsun lífeyrissjóðakerfisins til að við sem berum ábyrgð á stöðu mála nú þurfum ekki að axla ábyrgð á því sem hér hefur gerst. Til að við þurfum ekki að axla ábyrgð á gerðum þeirra stjórnmálamanna sem við kölluðum til valda.

Þessi lausn Sjálfstæðisflokksins að seilast í skatttekjurnar af séreignarsparnaðnum virkar þannig að þegar ég eftir 30 ár tek út minn séreignarsparnað þá borga ég engan skatt af honum. Þessar tekjur mínar verða skattlausar. Af þessum tekjum mínum legg ekkert með mér inn í reksturinn á samfélaginu.

Lykilinn að þessari skattalausn Sjálfstæðisflokksins byggir á því að ég kem ekki til með að greiða til samfélagsins sama hlutfall af mínum tekjum og þeir sem þá verða á vinnumarkaðnum. Þeir sem þá verða á vinnumarkaðnum munu þurfa að greiða hærra hlutfall af sínum launum til samfélagsins en ég þannig að ég geti notið góðrar heilsugæslu, niðurgreiddra lyfja o.s.frv..

Það á sem sagt að senda reikninginn vegna hrunsins á skattgreiðendur framtíðarinnar. Við eru að ætlast til að það fólk greiði hærri skatta svo við þurfum ekki hækka skatta núna.

Ég fyrir mína parta segi ég NEI, nú er nóg komið af slíku. Þetta tjón og þessar byrgðar verðum við sjálf að axla. Við eigum að drekka þennan bikar í botn á næstu þrem til fimm árum. Þetta gerðist á okkar vak og við eigum að bera á ábyrgð á því sem hér gerðist og við eigum að axla þessar byrgðar. Ekki börnin okkar.

Í öðru lagi þá má það ekki gerast að við samþykkjum að stjórnmálamenn komist í fjármuni lífeyrissjóðanna. Horft úr frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna þá er það bara hræðilegt ef nú á að fara að heimila að það megi ganga í fé lífeyrissjóðanna og nota í rekstur ríkissjóðs.

Í þriðja lagi þá held ég að þegar ég eftir 30 ár fer að taka út minn séreignarsparnað og greiði engan skatt af þessum tekjum mínum þá verði hinn almenni skattgreiðandi grautfúll yfir því. Eðlilega. Ég efast um að þetta verði liðið og þessar tekjur mínar munu verða skattlagðar með einhverjum hætti.

Með þessum tillögum Sjálfstæðismanna að leysa tímabundna tekjuþörf ríkissjóðs með því að seilast í fjármuni lífeyrissjóðanna, með þeim þá erum við að mölva allt of marga hornsteina í þessu samfélagi. Hornsteina sem við megum alls ekki mölva.

Ég skora á allt gott fólk í Sjálfstæðisflokknum að skoða mjög vel afleiðingar þessara nýju skattatillögu flokksins.

Þetta er leið sem við eigum ekki að fara.

Mynd: Á Landmannaleið, Hekla.

 

 


mbl.is Gagnrýna Sjálfstæðismenn fyrir vafasama framsetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangar áherslur síðustu ára í ríkisfjármálum hafa tvöfaldað skuldir ríkissjóðs.

Þegar lesin er yfir skýrsla Ríkisendurskoðunar um reikisreikning sést glöggt að rangar áherslur í ríkisfjármálum síðasta áratuginn er ástæða þess að skuldir ríkisins hafa tvöfaldast á einu ári. Með öðrum áherslum þá værum við ekki í þessari stöðu sem við eru í nú.

Helstu ástæður slæmrar stöðu ríkissjóðs nú og helstu ástæður þess að skuldir ríkissjóðs hafa aukist úr 527 milljörðum í 1200 milljarða á einu ári eru skv. ríkisendurskoðun, sjá skáletraða textann:

a)   Um 121 milljarður er vegna meiri útgáfu ríkisbréfa á innlendum lánamarkaði. Þegar leið á árið voru gefnir út nýir flokkar ríkisbréfa í því skyni að auka framboð á ríkisskuldabréfum. Með því var ætlunin að afstýra því að fjárfestar flyttu fé úr landi og veiktu þannig gengi krónunnar.

Ástæðan fyrir því að þessi staða kom upp er að Seðlabankinn samþykkti botnlausa útgáfu Jöklabréfa sem á tímabili nam 700 milljörðum króna. Útgáfa Jöklabréfa er dýrasta leiðin sem hægt var að fara til að fá erlendan gjaldeyrir inn í landið. Þessa útgáfu Jöklabréfa átti Seðlabankinn aldrei að heimila!

b)   270 milljarðar eru vegna veðlána sem ríkissjóður yfirtók frá Seðlabankanum. Eftir gjaldþrot bankanna í október urðu þessar veðkröfur verðlitlar en Seðlabankinn hafði lánað bönkunum háar fjárhæðir fyrr á árinu, m.a. með veði í skuldabréfum sem þeir gáfu út. Til að forða Seðlabankanum frá þroti yfirtók ríkissjóður þessar veðkröfur.

Þetta er einn mesti skandall í samfelldri sögu seðlabanka heimsins. Fátt fær betur lýst færni þeirra sem hér stýrðu og stjórnuðu fjármálum þjóðarinnar.

c)   Erlendar skuldir ríkissjóðs jukust um 163 milljarða króna vegna gengislækkunar íslensku krónunnar á árinu.

Þessi herkostnaður við það að reyna að halda hér út sjálfstæðum gjaldmiðli fellur á ríkissjóð. Kostnaður sem fellur á almenning og fyrirtækin í landinu af sömu ástæðum er margfalt hærri. Okkar var í lófa lagið á síðustu 10 árum að ganga inn í ESB og taka upp evru. Ef við hefðum gert það þá væri ríkissjóður ekki að taka á sig þessar skuldir af þessum ástæðum. Ekki heldur almenningur og fyrirtækin í landinu.

d)   Lífeyrisskuldbindingar jukust um 112 milljarða, einkum vegna neikvæðrar raunávöxtunar á fjárfestingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, yfirtekinna skuldbindinga og áhrifa réttindaávinnslu vegna launabreytinga.

Með falli krónunnar þar sem erlendir gjaldmiðlar hafa hækkað um 100% og íslenska hlutabréfavísitalan hefur fallið um 95% þá er ljóst að tjón lífeyrissjóða landsins er gríðarlegt. Ef við hefðum gengið inn í ESB á síðustu 10 árum og hefðum verið með evru í hruninu þá má gera ráð fyrir að við værum í svipuðum sporum og aðrar þjóðir Evrópu. Hlutabréfavísitalan í löndunum í kring féll um 30% til 40% í fyrra haust. Staðan á mörkuðum erlendis í dag er þannig að 80% til 90% af þessu falli er gengið til baka. Ómögulegt er að segja um hvort bankarnir hefðu fallið þó við hefðum verið í ESB. Eitt er þó vist, möguleikar þeirra til að lifa af hefðu verið meiri. Ef við værum hér með evru væru vextir á húsnæðislánum, bílalánum o.s.frv. 3% til 5%. Innfluttar vörur væru á í dag á svipuðu verði og árið fyrir hrun. Tjón okkar hefði aldrei orðið eins gríðarlegt og það er nú orðið og er enn að verða.

Ég held það sé tími til kominn að við förum að horfast í augu við raunverulegar ástæður þess af hverju við erum að fara langverst allra þjóða út úr þessu hruni.

Ástandið í löndunum í kring um okkur er víða slæmt en hvergi eins og hér.

  • Hvergi hafa afborganir af íbúðalánum hækkað um 35% á tveim árum.
  • Hvergi hafa afborganir af bílalánum hækkað um 100% á einu og hálfu ári.
  • Engin þjóð hefur tekið á sig jafn mikla kaupmáttarrýrnun.
  • Hvergi hefur kaupmáttur venjulegs launamanns sem staddur er erlendis verið skertur um 50% á einu og hálfu ári.
  • Hvergi í hinum vestræna heimi eru hærri vextir
  • Og svo má áfram telja.

Allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að það er ekki hægt að halda áfram að feta þennan stíg með íslensku krónuna í annarri hendi og hentistefnu íslenskra stjórnmálamanna í hinni.

 


mbl.is Langtímaskuldir ríkissjóðs tvöfölduðust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er búið að tæma Lífeyrissjóð verkfræðinga?

Lítil frétt birtist í blöðunum í dag þess efnis að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga hafi látið af störfum. Hvorki framkvæmdastjórinn né formaður stjórnar lífeyrissjóðsins vill tjá sig um málið.

Þegar það hefur gerst að framkvæmdastjórar lífeyrissjóða hætta skyndileg störfum  og engin vill eða þorir að segja neitt við fjölmiðla þá segir reynslan manni það að eitthvað mikið hafi gerst og eitthvað mikið sé að í Lífeyrissjóði verkfræðinga.

Lífeyrissjóður verkfræðinga er nokkuð stór og er/var stöndugur sjóður sem í er stór hluti tæknimanna landsins ásamt fleirum sem eru með háskólamenntun á sviði raungreina svo sem eðlisfræðingar, efnafræðingar, stærðfræðingar o.s.frv.

Hroll hlýtur nú að setja að sjóðsfélögum við þessar fréttir.

Einkennilegt er þetta sér íslenska hugarfar að þegja og upplýsa aldrei neitt. Af hverju þegir stjórnarformaður sjóðsins?

Ef allt er í lagi með sjóðinn og fjármuni hans, af hverju er það þá ekki upplýst?

Ef eitthvað er að og framkvæmdastjórinn hættir vegna þess, af hverju er það þá ekki sagt?

Af hverju velja Íslendingar svo oft þessa leið sem er versta leiðin af öllum, að þegja?

Hvaðan kemur þessi ruglaði "kúltúr" að þegja og segja engum frá eins og hægt sé að leysa vandamálin með því að þegja um þau?

Framkvæmdastjórinn hætti 7. desember s.l., í dag er 10. desember þegar þessi frétt birtist. Af hverju var ekki þegar búið að senda út fréttatilkynning um þetta mál í stað þess að þegja bara?

Það er ljóst að þessi stjórnarformaður er annað tveggja sjálfur á kafi í þessu máli / málum sem verða þess valdandi að framkvæmdastjórinn lætur af störfum eða stjórnarformaðurinn er ekki starfi sínu vaxinn.

Nú held ég að sjóðsfélagar verði að koma saman til fundar og fá botn í þetta mál og komast að því hvað þarna er í gangi. Það bendir allt til þess að félagsmenn þurfi að draga þessar upplýsingar út úr stjórn sjóðsins með töngum.

 


mbl.is Hættur hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn er kominn upp við vegg vegna undirskriftalista InDefence.

Yfir 32.000 undirskriftir hafa safnast á undirskriftalista InDefence og enn bætast þúsundir manna á dag við þennan lista. Ekkert lát virðist vera á fjölgun undirskrifta enda mæla skoðanakannanir 70% til 75% andstöðu við Icesave samninginn hjá þjóðinni.

Skerjafjörður fSkilaboðin eru skýr. Þjóðin ætlar sér ekki að borga gjaldþrotaskuldir banka sem var í einkaeigu.

Það að fjöldi undirskrifta er orðin 32.000 það markar skýr og ákveðin vatnaskil. Ástæðan er að það voru 32.000 manns sem skoruðu á Forseta að staðfesta ekki fjölmiðlalögin. Forsetinn varð við þeirri áskorun.

Bara það að nú hafa safnast jafn margar undirskriftir og þá setja málið í mjög ákveðna stöðu. Í dag verður mjög erfitt, að mínu mati ómögulegt, fyrir Forseta að staðfesta lögin. Undirskriftalistar InDefence staðfesta að sama gjá, reyndar enn stærri, er nú milli þings og þjóðar.

Haldi þúsundir áfram að skrifa undir lista InDefence á hverjum degi þá bendir allt til þess að fjöldi undirskrifta um jól verði milli 50.000 til 60.000. Það samsvarar 20% til 25% atkvæðisbærra manna. Sjá undirskriftarlista InDefence hér: http://indefence.is/.

Þessi mikli fjöldi undirskrifta sem nú er að safnast gerir það að verkum að Forsetinn, trúnaðarmaður almennings á Íslandi númer eitt og eini fulltrúi þjóðarinnar sem þjóðin kýs í beinni kosningu, hann á ekki lengur val. Hann verður að synja lögunum staðfestingar.

Geri hann það ekki þá eyðileggur sitjandi forseti ekki bara allt það sem hann hefur staðið fyrir í sinni embættistíð sem forseti, hann eyðileggur Forsetaembættið í þeirri mynd sem hann hefur mótað það.

Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11109.

 


mbl.is Fleiri áskoranir en árið 2004
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Ísland gengur í ESB þá fellur Noregur innan 10 ára.

Ég hef þá trú að samningurinn sem við fáum við ESB verið okkur hagfeldur. ESB mun koma vel til móts við okkur í öllum okkar helstu kröfum því þeir vita að ef við göngum í ESB þá fellur Noregur og þar með Liechtenstein innan 10 ára. Íslenska samninganefndin á að ganga ákveðin til þessara samninga. Samningurinn verður að vera góður ætli menn að snúa almenningsálitinu á Íslandi.

Skerjafjörður eBesta innleggið sem samninganefndin hefur fengið til þessa var góð ræða sjávarútvegsráðherra á dögunum á Spáni þar sem fiskveiðimál voru til umræðu. Þar lýsti ráðherra yfir eindreginni andstöðu sinni við aðild Íslands að ESB. Þetta var besta útspilið sem sjávarútvegsráðherra gat komið með til að undirbúa jarðveginn fyrir samninganefndina. Samningamenn ESB líta án efa á þessi ummæli sem taktískt útspil sjávarútvegsráðherra og hluta af komandi samningaspili. Þetta skilja þeir. Þessu eru þeir vanir.  

Nú vita allir í Evrópu sem um sjávarútvegsmál fjalla að ef ekki verður komið vel til móts við sérkröfur okkar í sjárvarútvegsmálum þá fara kosningarnar á Íslandi á sama veg og í Noregi. Samningurinn verður feldur og upp rís fylking "Nei sinna" sem munu halda Íslandi og Noregi utan ESB um ókomin ár.

Samþykki ESB á annað borð að fara í samningaviðræður við okkur þá spái ég því að þessi samningur verður okkur hagfeldur. Svo hagfeldur að líklegt má telja að þjóðin samþykkja hann. Gangi Ísland í ESB þá fellur Noregur innan 10 ára. Eftir að Noregur fellur þá kenur Liechtenstein af sjálfu sér. Öll Evrópa mun þá endanlega sameinast innan vébanda í ESB. Það hlýtur að vera ákveðið metnaðarmál hjá mörgum, ef ekki draumur, að ná þessu markmiði nú þegar öll austur Evrópa er komin inn eða er á leiðinni inn.

Það eina sem stendur í vegi fyrir að allt norður Atlantshafið falli undir lögsögu ESB og öll lönd Evrópu sameinist innan vébanda ESB er að þeir þurfa að leyfa Íslendingum að sýsla sjálfir með þennan fisk sem þeir hafa hvort sem er einir séð um að veiða síðustu 30 árin og að leyfa Íslendingum að styrkja sinn landbúnað eins og verið hefur. 

Haldið þið að það sé eitthvað vandamál fyrir ESB að ganga að þessum sérkröfum?

Ég spái því að þeir munu samþykkja allar okkar helstu kröfur.

Þetta vita Norðmenn.

Þeir vita að í kosningunum á Íslandi mun það ráðast hvort Norðmenn verða komnir inn í ESB innan 10 ára. Þeir vita að ef Ísland, eitt af þrem löndum að EES samningnum, fer inn í EES þá mun EES samningurinn renna sitt skeið á enda innan 10 ára.

Ef Ísland er komið í ESB og ESB vill ekki endurnýja EES samningurinn þá er samningsstaða Norðmanna orðin veik. Með því að hóta að endurnýja ekki EES samninginn við Norðmenn þá getur ESB stillt Norðmönnum upp við vegg eftir að Ísland er komið inn í ESB.

Þetta vita Norðmenn.

Í væntanlegri kosningum hér á Íslandi um ESB munu takast á miklir hagsmunir. Inn í þessa kosningabaráttu munu flettast hagsmunir útgerðarmanna í Noregi og fleiri. 

Ef Íslandi ákveður að ganga í ESB þá mun það hafa mikil áhrif víða.

Þrátt fyrir mikil áföll, Icesave, o.s.frv. þá er samningsstaða okkar nú þegar við óskum eftir aðildarviðræðum við ESB mjög sterk.

Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11.09.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband