Er búið að tæma Lífeyrissjóð verkfræðinga?

Lítil frétt birtist í blöðunum í dag þess efnis að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga hafi látið af störfum. Hvorki framkvæmdastjórinn né formaður stjórnar lífeyrissjóðsins vill tjá sig um málið.

Þegar það hefur gerst að framkvæmdastjórar lífeyrissjóða hætta skyndileg störfum  og engin vill eða þorir að segja neitt við fjölmiðla þá segir reynslan manni það að eitthvað mikið hafi gerst og eitthvað mikið sé að í Lífeyrissjóði verkfræðinga.

Lífeyrissjóður verkfræðinga er nokkuð stór og er/var stöndugur sjóður sem í er stór hluti tæknimanna landsins ásamt fleirum sem eru með háskólamenntun á sviði raungreina svo sem eðlisfræðingar, efnafræðingar, stærðfræðingar o.s.frv.

Hroll hlýtur nú að setja að sjóðsfélögum við þessar fréttir.

Einkennilegt er þetta sér íslenska hugarfar að þegja og upplýsa aldrei neitt. Af hverju þegir stjórnarformaður sjóðsins?

Ef allt er í lagi með sjóðinn og fjármuni hans, af hverju er það þá ekki upplýst?

Ef eitthvað er að og framkvæmdastjórinn hættir vegna þess, af hverju er það þá ekki sagt?

Af hverju velja Íslendingar svo oft þessa leið sem er versta leiðin af öllum, að þegja?

Hvaðan kemur þessi ruglaði "kúltúr" að þegja og segja engum frá eins og hægt sé að leysa vandamálin með því að þegja um þau?

Framkvæmdastjórinn hætti 7. desember s.l., í dag er 10. desember þegar þessi frétt birtist. Af hverju var ekki þegar búið að senda út fréttatilkynning um þetta mál í stað þess að þegja bara?

Það er ljóst að þessi stjórnarformaður er annað tveggja sjálfur á kafi í þessu máli / málum sem verða þess valdandi að framkvæmdastjórinn lætur af störfum eða stjórnarformaðurinn er ekki starfi sínu vaxinn.

Nú held ég að sjóðsfélagar verði að koma saman til fundar og fá botn í þetta mál og komast að því hvað þarna er í gangi. Það bendir allt til þess að félagsmenn þurfi að draga þessar upplýsingar út úr stjórn sjóðsins með töngum.

 


mbl.is Hættur hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég er sammála þér Friðrik, hér virðist strúturinn og sandurinn aðferðin vera á ferðinni enn einu sinni.  Ætli Íslendingar séu komnir af strútum ?

Að öllu gamni slepptu þá er ljóst að um grafalvarlegt mál er að ræða, þögnin segir okkur það.

Tómas Ibsen Halldórsson, 10.12.2009 kl. 15:52

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Friðrik,

Því miður er stjórnun lífeyrissjóða mikið ábótavant á Íslandi.  Allt gangsæi og ábyrgð vantar.  Gífurleg aðsókn er í þetta fé frá alls konar fólki sem er eftir peningum annarra.

Andri Geir Arinbjarnarson, 10.12.2009 kl. 20:38

3 Smámynd: Kama Sutra

Maður getur ekki varist þeirri hugsun að eitthvað skuggalegt sé í gangi þarna.

Ætli það verði ekki send út pínulítil fréttatilkynning um málið, á innsíðum blaðanna, í miðri jólaösinni rétt fyrir jól.  Til að hún fari alveg örugglega framhjá öllum.

Kama Sutra, 10.12.2009 kl. 23:40

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sameina eigi alla lífeyrissjóði í einn stórann lífeyrissjóð.  Þessi, sameinaði, lífeyrissjóður hefði átt að taka yfir tvo af föllnu bönkunum og reka sem einn lífeyrissjóðsbanka.  Sjóðsfélagar myndu kjósa í stjórn með rafrænum hætti, enginn stjórnarmaður væri lengur í stjórn en fimm til sjö ár í senn, einum til tveim stjórnarmönnum yrði skipt út árlega.  Bankaeftirlit yrði eflt verulega og endurskoðendum yrði gert að skila skýrslum árlega til þjóðarinnar með birtingu í dagblöðum og Alþingis þar sem sérstakri nefnd yrði falið að fara í gegnum reikninga lífeyrissjóðsbankans.

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.12.2009 kl. 10:03

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þetta er áhugaverð hugmyndi hjá þér Tómas.

Hættan er svo mikil, eins og Andri bendir á, að framkvæmdastjórar lífeyrissjóðanna séu hreinlega "keyptir" og þeir vélaðir til að setja fjármuni sjóðsins sem þeir gæta í hendur óvandaðra aðila. Nú er ég ekki að segja að það hafi gerst hjá LVFÍ, en við þekkjum mörg slík dæmi, t.d. það sem gerðist með lífeyrissjóð lækna.

Þess vegna er þessi hugmynd þín áhugaverð Tómas. Hvað til dæmis ef Lífeyrissjóðirnir tækju í dag yfir Landsbankann og myndu reka hann á eins faglegum og traustum grunni eins og hægt er að reka banka, banka sem setti sér enn ákveðnari reglur en nýja lagfrumvarp viðskiptaráðherra gerir ráð fyrir.

Yrði þetta gert þá væri fé sjóðsfélaga miklu öruggara en nú þegar allir þessir smásjóðir með alla sína framkvæmdastjóra eru að grauta hver í sínu horni með þetta fé.

Ég sé ekki þörfina að lífeyrissjóðirnir sameinist, því það mun aldrei gerast, þó þeir tækju yfir Landsbankann. Hver sjóður gæti haldið sínum séreinkennum og haldið til haga sérhagsmunum sinna sjóðsfélaga þó svo sameiginlegur banki þeirra myndi sjá um að geyma og ávaxta allt þetta fé.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.12.2009 kl. 10:39

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Við orð síðasta ræðumanns er það að athuga, að Lífeyrissjóður lækna hefur aldrei lent í þeim hremmingum, sem gefnar eru í skyn hér að ofan. Um var að ræða lokaðan eftirlaunasjóð sem var í einkaeigu takmarkaðs hóps lækna. Hann hafði ekkert með starfsgreinar lífeyrissjóðinn að gera sem nú er Almenni lífeyrissjóðurinn.

Það er vert að vekja athygli á því að Almenni lífeyrissjóðurinn fullnægir flestum þeim skilyrðum, sem nú er kallað á við endurbætur á lífeyrissjóðakerfinu m.a. er honum stjórnað af sjóðfélögum, sem kjósa stjórn sína á ársfundi.

Sigurbjörn Sveinsson, 11.12.2009 kl. 13:04

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Þakka þessa leiðréttingu Sigurbjörn.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.12.2009 kl. 13:37

8 identicon

Hvernig væri að senda tölvupóst á sjóðinn og óska eftir fundi.  Sendi hér með grein úr lögum sjóðsins.

16.6 Aukaaðalfund skal halda, þegar meirihluti sjóðstjórnar telur ástæðu til eða minnst 25 sjóðfélagar senda stjórninni skrifleg tilmæli um það og greina tilefni. Fundinn skal halda innan þriggja mánaða eftir að tilmælin berast.

Gunnbjörn Berndsen (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 18:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband