Höfnum skattatillögu Sjálfstæðisflokksins að seilast í lífeyrissjóðina.

Það sem mér þykir verst í þessum skattatillögum Sjálfstæðisflokksins er að nú vill flokkurinn seilast í lífeyrissjóði landsmanna, séreignasjóðina, og taka þar út 110 milljarða plús 11 milljarða á ári á næstu árum til að ekki þurfi að koma til skattahækkana núna.

IMG_3745Þetta er lásý 2007 lausn. Taka lán inn í framtíðina til að nota í nútímanum.

Mölva á grunnhugsun lífeyrissjóðakerfisins til að við sem berum ábyrgð á stöðu mála nú þurfum ekki að axla ábyrgð á því sem hér hefur gerst. Til að við þurfum ekki að axla ábyrgð á gerðum þeirra stjórnmálamanna sem við kölluðum til valda.

Þessi lausn Sjálfstæðisflokksins að seilast í skatttekjurnar af séreignarsparnaðnum virkar þannig að þegar ég eftir 30 ár tek út minn séreignarsparnað þá borga ég engan skatt af honum. Þessar tekjur mínar verða skattlausar. Af þessum tekjum mínum legg ekkert með mér inn í reksturinn á samfélaginu.

Lykilinn að þessari skattalausn Sjálfstæðisflokksins byggir á því að ég kem ekki til með að greiða til samfélagsins sama hlutfall af mínum tekjum og þeir sem þá verða á vinnumarkaðnum. Þeir sem þá verða á vinnumarkaðnum munu þurfa að greiða hærra hlutfall af sínum launum til samfélagsins en ég þannig að ég geti notið góðrar heilsugæslu, niðurgreiddra lyfja o.s.frv..

Það á sem sagt að senda reikninginn vegna hrunsins á skattgreiðendur framtíðarinnar. Við eru að ætlast til að það fólk greiði hærri skatta svo við þurfum ekki hækka skatta núna.

Ég fyrir mína parta segi ég NEI, nú er nóg komið af slíku. Þetta tjón og þessar byrgðar verðum við sjálf að axla. Við eigum að drekka þennan bikar í botn á næstu þrem til fimm árum. Þetta gerðist á okkar vak og við eigum að bera á ábyrgð á því sem hér gerðist og við eigum að axla þessar byrgðar. Ekki börnin okkar.

Í öðru lagi þá má það ekki gerast að við samþykkjum að stjórnmálamenn komist í fjármuni lífeyrissjóðanna. Horft úr frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna þá er það bara hræðilegt ef nú á að fara að heimila að það megi ganga í fé lífeyrissjóðanna og nota í rekstur ríkissjóðs.

Í þriðja lagi þá held ég að þegar ég eftir 30 ár fer að taka út minn séreignarsparnað og greiði engan skatt af þessum tekjum mínum þá verði hinn almenni skattgreiðandi grautfúll yfir því. Eðlilega. Ég efast um að þetta verði liðið og þessar tekjur mínar munu verða skattlagðar með einhverjum hætti.

Með þessum tillögum Sjálfstæðismanna að leysa tímabundna tekjuþörf ríkissjóðs með því að seilast í fjármuni lífeyrissjóðanna, með þeim þá erum við að mölva allt of marga hornsteina í þessu samfélagi. Hornsteina sem við megum alls ekki mölva.

Ég skora á allt gott fólk í Sjálfstæðisflokknum að skoða mjög vel afleiðingar þessara nýju skattatillögu flokksins.

Þetta er leið sem við eigum ekki að fara.

Mynd: Á Landmannaleið, Hekla.

 

 


mbl.is Gagnrýna Sjálfstæðismenn fyrir vafasama framsetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Hvað meinar þú með "seilast í"... er ekki verið að ræða að skila sköttunum strax núna til ríkissjóðs - í stað þess að  ríkið taki skattana af þegar  greitt verður út úr þessum sjóðum "einhvern tímann síðar" - þ.e. því sem þá verður ekki búið að  sóa til viðbótar hinu sem aular á vegum lífeyrissjóðanna hafa sóað í vitleysu undanfarna áratugi??

Vinsamlega rökstyðja þetta betur hvað þú ert að fara KP

Kristinn Pétursson, 12.12.2009 kl. 14:57

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Kristinn

Eins og þú veist þá er í dag ekki greiddur skattur af lífeyrissjóðsiðgjöldum. Þegar þú tekur hins vegar út úr lífeyrissjóðnum þínum þá greiðir þú skatt af þeim greiðslum eins og ef þetta væru hverjar aðrar launagreiðslur.

Hugmyndin gengur út á að taka út núna þessar skatttekjur. Skatttekjur sem annars á að greiða út þegar séreignarsparnaðurinn er greiddur út. Með þessum tillögum á að seilast í framtíðarskatttekjur ríkisins.

Þannig vilja menn taka strax út 110 milljarða út úr séreignarsjóðunum. Þessir 110 milljarðar eru skatttekjur sem liggja núna inni í séreignarsjóðunum og ríkið mun fá á komandi árum þegar séreignarsparnaðinn verður greiddur út með eðlilegum hætti.

Þessi aðgerð mun þýða minni tekjur ríkissjóðs í framtíðinni.

Þessi aðgerð mun aftur þýða hærri skatta í framtíðinni.

Þessi aðgerð þýðir að við getum í dag sleppt  við að skera niður útgjöld ríkisins eða hætt við fyrirhugaðar skattahækkanir.  

Um leið þá erum við að dæma börnin okkar til að greiða hærri skatta í framtíðinni.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.12.2009 kl. 15:24

3 identicon

Sæll Friðrik.

Þetta er einföld og góð greining hjá þér. Ég var búinn að komast að sömu niðurstöðu. Svolítil synd að þessi hugmynd hafi ekki verið betur rædd í þaula, svo ýta mætti henni út af borðinu.

Þetta er raunverulega eina "konkret" hugmynd xD um það hvernig eigi að brúa risa-halla Ríkissjóðs með öðrum leiðum en ríkisstjórnin er að reyna. ÞAð er þó sá hængur á tillögum stjórnarinnar að þær virðast enn ekki vel útfærðar og m.a. óljóst hvernig niðurskurður muni líta út. Ef stjórinni tekst ekki að minnka hallann fljótt og vel er verið að safna enn meiri skuldum með áframhaldandi halla.

ÞAð gæti farið svo að við neyðumst til að fara þessa leið með að skattleggja lífeyrisiðgjaldagreiðslur, ef aðrar leiðir duga ekki.

Einar Karl (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 15:45

4 Smámynd: Jón Óskarsson

Það er "ekki" verið að rústa lífeyrissjóðakerfi landsmanna með því að hafa þær reglur um séreignarlífeyrissjóði sem í dag eru og munu aldrei verða nema hluti af lífeyriskerfinu í heild og að því leiti til með öðrum formerkjum að þarna er um "séreign" að ræða en ekki "sameign".  Munurinn á þessum tveimur tegundum lífeyrissjóða er mjög mikill. 

Skyldulífeyrissjóðurinn sem er að lágmarki 12% af launatekjum (4+8), er samtryggingarsjóður sem meðal annars stendur undir barnalífeyri, örorkulífeyri og makalífeyri auk ellilífeyris.   Inneignir manna í þessum sjóðum verða að engu fyrir þá og þeirra ættingja, ef svo óheppilega vill til að menn "hrökkva upp af of snemma".

Séreignarlífeyrissjóðir eru frjáls framlög einstaklinga en leggur þær skyldur á herðar launagreiðenda að greiða ákveðið hlutfall á móti. Almennt eru um að ræða 6% af tekjum (4+2) en leyft er að fara í 8% (6+2) núna tímabundið án þess að það teljist til skattskyldra tekna launþegans.  Þessir sjóði er hægt að fá greidda út fyrr en almennu lífeyrissjóðina auk þess sem um er að ræða að þessi lífeyris erfist.

Hugmyndir (ekki bara sjálfstæðismanna) um að skattleggja annars vegar innstæður í þessum sjóðum sem og að skattleggja inngreiðsluna skapar gríðarlegar tekjur núna.  Tekjur sem okkur veitir ekki af.   Rétt er að árétta að ekki er verið að tala um að útborgun launa skerðist af þessum sökum.  Það gera hins vegar skattatillögur ríkisstjórnarinnar.

Ósanngjarnt er að tala um að verið sé að ráðast á tekjustofna framtíðarinnar því að það er líka mjög ósanngjarnt að við útgreiðslu lífeyris sé verið að skattleggja að fullu.  Fólk sem komið er á efri ár og fær takmarkaðar tekjur til að lifa af þarf að greiða af því fullan skatt.   Þrátt fyrir tillögur um að skattleggja nú þegar séreignarlífeyrissjóðina þá standa hinir almennu sjóðir áfram eftir og bíða skattlagningar fram að útgreiðslu.   Í mínum huga væri sanngjarnt að snúa þessum hlutum við (breyta kerfinu) og skattleggja alla lífeyrissjóði strax við inngreiðslu og hafa skattleysi á útgreiðslunum til þeirra sem komnir eru á ellilífeyrir.

Skattlagning á séreignarlífeyrissjóðina skapar ekki bara ríkinu heldur einnig sveitarfélögunum tekjur nú þegar.  Þessi skattlagning gæti dregið úr eða í það minnsta frestað verulegum hluta af skattahækkunum sem verið er að reyna að ná fram með algjörri eyðileggingu á staðgreiðslukerfi skatta.

Jón Óskarsson, 12.12.2009 kl. 16:08

5 Smámynd: Kristinn Pétursson

Rangt hjá ykkur. Málið snýst um hvort betra er að geyma skattlagningu af innstreymi í lífeyrissjóðina - og láta  lélega vörsluaðila á þessum sjóðum ávaxta þessa fjármuni - fyrir ríkissjóð. 

Ég tel að betra sé - að öllu leyti - að taka þessa skatta strax - og ganga ekki eins hrikalega nálægt fjölskyldum landsins með skertum lífskjörum - eins og meiningin er að gera - um það snýst málið.

að þetta "minnki tekjur ríkisins seinna" Friðrik - stenst ekki - því "seinna" þá heldur fyrirkomulagið áfram að taka tekjurnar strax. Þá er ekkert minnkað tekjuflæði að þessu leyti - nema þá að launatekjur hérlendis minnki.

Svo segir Einar: Ef stjórninni tekst ekki að minnka hallann fljótt og vel er verið að safna enn meiri skuldum með áframhaldandi halla.

Þetta er einmitt áhættan  sem þið viljið taka.   Með því að hækka alla skatta of mikið nú - (í stað þess að skattleggja inngreiðslur lífeyrissjóða strax - staðgreitt)   dregur extra mikið úr allri neyslu 2010 - og tekjuáætlanir ríkissjóðs standast því  ekki 2010 og skuldir ríkisins hækka þá árið 2010 ... (meiri halli á fjárlögum en áætlað er)   og þá ætlið þið "að eiga þessa leið til vara" 

´....en þá er það of seint -  skaðinn skeður varanlega með tekjusamdráttinn vegna neyslusamdráttar... og það mun þá verða krónískur neyslusamdráttur þar til lífskjör batna aftur - og hvenær verður það???

Tímasetningar um hvenær X ´skattabreytingar  eru framkvæmdar skipta  hér miklu máli. Skattlagning á lífeyrissjóðum strax - kemur í veg fyrir enn meiri neyslusamdrátt - og þá stenst frekar tekjuhlið fjárlaga - veltan í þjóðfélaginu kemst aftur  af stað - og þannig verður staða ríkissjóðs og fjölskyldna landsins betri...

 en það hallar á braskmöguleika lífeyrissjóðanna sem gerir minna til.  Svona sé ég þetta - praktíst en ekki pólitískt.

Kristinn Pétursson, 12.12.2009 kl. 16:10

6 Smámynd: Jón Óskarsson

Rétt hjá þér Kristinn. 

Nú þarf að örva neyslu til þess að auka skatttekjur en ekki hækka skatthlutföll það mikið að það dragi úr neyslu eins og þegar er farið að bera á og mun sjást svo um munar árið 2010. 

"Dómínóáhrif" af slíku eru meira atvinnuleysi, meiri hallarekstur ríkissjóðs, lengri og dýpri kreppa auk fjölmargra hliðar áhrifa.

Jón Óskarsson, 12.12.2009 kl. 17:11

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Kristinn

Það sem þú ert að lýsa það er gegnumstreymiskerfi.

Gegnumstreymiskerfið var það sem menn höfðu reynt og hurfu frá þegar grunnur var lagður að núverandi kerfi. Vegna vandræða ríkisins að standa bara við skuldbindingar sínar gagnvart eigin starfsfólki þá hefur lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verið breytt í hefðbundinn söfnunarsjóð að fyrirmynd lífeyrissjóðanna á almenna markaðnum.

Málið er að það er ekki hægt að leggja það á ríkið og treysta ríkinu til þess að standa undir lífeyrisgreiðslum og nauðsynlegri samfélagsþjónustu þegar aldurspíramídinn fer að snúast við, þ.e. öldruðum fjölgar meir en nýfæddum. Þess vegna verður að leggja grunn að því að við getum viðhaldið samfélaginu með því að leggja fyrir eins og við gerum nú.

Auðvita Jón, getum við gengið i þessa sjóði meðan þarna er eitthvað fé og spanderað því í að haldið uppi óbreyttum lífskjörum ársins 2007, en er nokkur einasta skynsemi í því?

Við skulum ekki fara með þann skaða og það tjón sem við eru að verða fyrir inni í lífeyrissjóðina og eyðileggja þá líka. Tökum frekar slaginn og herðum sultarólina í þessi 3 til 5 ár. Þá líka eigum við þessa sjóði óskerta og þeir munu tryggja okkur öllum öruggt ævikvöld um ókomin ár.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.12.2009 kl. 17:37

8 Smámynd: Jón Óskarsson

Friðrik.   Þú þarft að greiða skatt við útborgun úr lífeyrissjóðunum (ef eitthvað verður eftir í þeim).   Það er því "ekki" verið að skerða þá.   Það er einungis verið að breyta um aðferðafræði.  Það sem fer til ávöxtunum hjá "misvitrum" stjórnendum lífeyrissjóðanna eru er sá hluti sem lífeyrisþeginn á (í séreignarsjóðakerfinu) að fá sem nettógreiðslu út úr þeim.   Með þessari breytingu er það tryggt að "skatthlutanum" verði ekki glatað í röngum fjárfestingum.

Það er ekki verið að eyðileggja lífeyrissjóðina.  Með þessum tillögum er lagt til að séreignarlífeyrissjóðirnir verði skattlagðir (ekki allur lífeyrissjóður).  Og ég er því algjörlega ósammála að verið sé að eyðileggja sjóðina.

Það er enginn að biðja um óbreytt lífskjör frá 2007.  Þó ég vilji nú reyndar benda þér á það Friðrik að það var einungis einhver forréttinda hópur sem hafði það gríðarlega gott þá.   Það er verið að skapa þær aðstæður að ekki sé verið að minnka hlutfallslega útborgun þeirra launa sem í flestöllum tilfellum hefur lækkað verulega frá fyrra ári hjá hinum almenna launamanni.  Á sama tíma hefur öll þjónusta sem og vöruverð hækkað gríðarlega vegna verðbólgu, gengisbreytinga og síðast en ekki síst gríðarlegra hækkana gjalda til hins opinbera.

Ríkið þarf hins vegar á því að halda að auka neysla því skattar af neyslu skapa fleiri krónur í ríkiskassann en koma í gegnum skattpíningu tekjuskattskerfisins.

Jón Óskarsson, 12.12.2009 kl. 19:15

9 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ég er alls ekki  að tala um gegnumstreymiskerfi - nema að skatturinn fari STRAX til ríkisins - ríkið á hvort eð er skattinn.

Ég er að tala um staðgreiðslu skatta af þeirri upphæð sem fer inn í lífeyrissjóðinn - og þá er enginn skattur þegar lífeyrinn er greiddur út - búið að borga skattinn.

Þá fær  staurblankur ríkissjóður meiri peninga strax - en útblásnir lífeyrirssjóðir með lélega fjármálastjórn - minni peninga.

af 100 kr sem lífeyrissjóðir fær - fara þá c.a. 30 kr strax til ríkisins en lífeyrissjóðurinn fær 70 kr - skilar 30 kr strax til ríkisins

Svo þegar lífeyrinn er greiddur út - greiðist bara 70 til okkar  kr í stað 100  og þá 30 kr teknar af "seinna".. -

Munurinn er bara sá - að lífeyrissjóðirnir liggja með peninga sem ríkið á... og ríkið safnanr skuldum á meðan - til hvers???

Kristinn Pétursson, 12.12.2009 kl. 22:08

10 identicon

Rústa lífeyrissjóðakerfinu? Rólegur á dramanu. Mér finnst þessi leið sjálfstæðisflokksins alveg frábær! Fara í séreignasparnaðinn. Til hvers í andsk.... að láta þessa peninga liggja þarna inni engum til gangs. Okkur vantar þennan pening NÚNA!  Það er verið að skattpina þessa þjóð til helvítis og þessi leið gæti létt einhverju af henni og jafnvel sett hagkerfið í gang aftur. Hugsa út fyrir rammann!

Soffía (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 23:19

11 Smámynd: Jón Óskarsson

Tek undir með ykkur Kristni og Soffíu.

Dæmið er nokkurn veginn þannig að ríkið fengi 24,10 af hverjum 100 og sveitarfélag viðkomandi einstakling frá ca 12,46 krónum og upp í 13,28 af hverjum 100 krónum.   Það verða því um kr. 62,62 sem sjóðurinn hefur til ávöxtunar sem er nákvæmlega sama tala og viðkomandi sjóðfélagi fengi útgreitt ef hann væri að innleysa séreignarsjóðinn.

Venjulegur launagreiðandi þarf að skila staðgreiðslu innan 15 daga frá lokum launamánaðar, en lífeyrissjóðirnir liggja með skattpeninga ríkis og sveitarfélaga allt upp í marga áratugi.  Það þýðir að ríkið tekur sömu áhættu og sjóðfélaginn varðandi ávöxtun.  Þarna er ekki verið að gæta jafnræðis sem á að vera meginregla í skattlagningu.

Það má aftur á móti gagnrýna þá leið sem stjórnvöld hafa farið og eru enn að opna meira fyrir að fólk taki út sinn lífeyrissparnað úr séreignarsjóðum.  Nú á, ef þær tillögur ná fram að ganga, að leyfa úttekt upp á allt að 1,5 milljónum til viðbótar við þá 1 milljón sem leyft var að taka út á árinu 2009.   Þó svo þetta geti hentað einstaklingum í fjárhagsvanda tímabundið, þá er verið að ganga þarna á framtíðar sparnaðinn sem aftur þýðir að þeir sem það gera geta lent í því á efri árum að þurfa að vera meira upp á ríki og sveitarfélög komnir í formi almannatrygginga en annars hefði orðið.

Jón Óskarsson, 13.12.2009 kl. 00:50

12 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Hefur einhver reiknað út hvað ríkið tapaði miklum farmtíðar skattekjum vegna lélegrar fjárfestingastefnu sjóðana því þeir töpuðu stórfé sem að engin hefur enn í raun fengið að vita hvað er mikið. S'iðan er þetta á stefnu stjórnarinnar þeir vilja bara borga fólki meira út úr þeim. EIns og ég sé þetta þá vilja þeir skattleggja fólk til heljar en leyfa því að taka út séreignasparnaðin svo það skrimti meðan þessi stjórnvöld ríkja

Jón Aðalsteinn Jónsson, 13.12.2009 kl. 08:17

13 Smámynd: Sævar Finnbogason

Þetta er ótrúleg færsla. Hér vantar ekki frasana en að þú kryfjir málið til mergjar. Nei og Nei og alveg er þetta dæmigert fyrir alla hina sjálfskipuðu sérfræðinga blogheima.

„Mölva á grunnhugsun lífeyrissjóðakerfisins“ Þú segir aldrei hver þessi gurnnhugsun er, tengist hún eitthvað því hvenær skattur er greiddur af lífeyristekjum. og svo þetta „stjórnmálamenn komist í fjármuni lífeyrissjóðanna“

Það sem þú kallar fjármuni lífeyrissjóðanna eru ekki fjármunir þeirr heldur fjármunir sjóðseygenda. Það hefur hinsvegar alltaf verið farið farið með þá eins og peninga sjóðanna sjálfra og gengið ótrúlega illa um þá á tíðum. Ef eitthvað væri hefði stundum þurft að koma í veg fyrir að starfsmenn lífeyrissjóðanna kæmust í þetta fé.

SAMT ER ÞESSI BEST: „Við eigum að drekka þennan bikar í botn á næstu þrem til fimm árum“

Þú greinilega áttar þig ekki á hvað við erum að tala um stóran pakka. Ef við drykkjum bikarinn í botn eins og þú orðar það þá myndum sennilega ekki geta greitt skaðann af ástarbréfum Davíð sem innan við 5 árum. Og það er ekki nema ,um það bil 1/4 af skuldum ríkissins.

Það er því ljóst að ríkið verður að fara nýjar róttækar leiðir í tekjuöflun. Við erum að tala um að selja orkuframleiðsluna í landinu, stórkostlega einkavæðingu, fella niður vaxtabætur og draga stórkostlega út öllum bótagreiðslum ríkissins og svo er þessi leið í boði. Líklega verður þetta allt gert á endanum.

Hvernig væri að fólk áttaði sig á því sama og Steingrímur Joð þegar hann neyddist til að taka ábyrgð, að skaðinn er skeður og það nú er bara spurningin um að komast í gegnum þetta án mikilla þjáninga og án þess að missa hálfa þjóðina úr landi.

Aftur á móti er færslan ekki alveg gagnslaus vegna þess að nokkrir þeirra sem gera athugasemdir tefla fram rökum og einhverri þekkingu á málið.

Sævar Finnbogason, 13.12.2009 kl. 12:45

14 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sævar

Ég veit ekki alveg hvar á að byrja.

Það sem þú kallar fjármuni lífeyrissjóðanna eru ekki fjármunir þeira heldur fjármunir sjóðseigenda.

Þetta er ein setningin sem ég skil ekki. Það fé sem er í sameignarsjóðunum, það fé er eign sjóðanna. Þeir sem eiga sjóðina eru sjóðsfélagarnir, ekki satt. Orðalag sem notað er varðandi séreignarsjóðina ætti reyndar að vera aðeins annað. En þetta eru hártoganir, bæði af minni hálfu og þinni. Slík umræða skilar okkur engu.

Fyrir mér snýst þetta mál fyrst og fremst um tvennt.

  • Ætlum við að opna hirslur lífeyrissjóðanna og leyfa stjórnmálamönnum að sækja sér þangað fé til að reka ríkissjóð?
  • Höfum við trú á því að þeir stjórnmálamenn sem þetta vilja, þeir muni í reynd nota þetta fé til þess að lækka skatta eða mun þetta fé hverfa eins og allir aðrir fjármunir sem hér hafa horfið úr hirslum Seðlabanka og ríkisins á undanförnum árum?

Þeir menn sem eru að leggja til að þessi leið verði farin að opna lífeyrissjóðina og sækja þangað fé þeir bera ábyrgð á eftirfarandi:

  • Seðlabankinn lánaði bönkunum 345 milljarða á veða og varð í framhaldi gjaldþrota.
  • Ríkið lagði 270 milljarða inn í peningamálasjóði bankana, þar á meðal sjóð 9 í Glitni.
  • Einkabanka var heimilað að veðsetja þjóðina um 1.500 milljarða með Icesave.

Komist ríkissjóður og þessir stjórnmálamenn í Þetta fé, heldur þú þá virkilega að þetta fé veri notað til að lækka skatta á almenning?

Stöndum vörð um lífeyrissjóðina. Hleypum þessum stjórnmálamönnunum ekki í þá.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.12.2009 kl. 14:25

15 identicon

Maður einn temur sér að greiða ávallt matinn sinn með fé úr vinstri framvasa sínum. Þegar svo matarreikningurinn hækkar, launin dagast saman vegna atvinnumissis, þá dugar ekki lengur fé hans í vinstri framvasa til matarkaupanna. Hann á pening í hægri rassvasa sem hann vill frekar nota en svelta, en þú vilt meina að hann eigi frekar að taka lán í dag og taka á sig vaxtakostnað  (eða svelta) í þeirri von að 30 árum síðar geti hann hugsanlega notið rassvasafésins, frekar en kaupa sér lífsbrauð. Það er þó ekkert í hendi að hann lifi af hungursneyðina sem blasir við.

Skiptu út orðinu "ríkið" í hugsun þinni og settu inn stjórnmálamenn í staðinn. Það sínir sig ítrekað að stjórnmálamönnum er ekki treystandi, skiptir litlu hvar í flokk menn skipa sér, það eru alltaf þeirra hagsmunir sem ganga fyrir almannahag. Ég hallast að því að best væri að stjórnmálamenn fái sem minnst að komast í fé fólks og að við fáum að ráðstafa því sjálf sem við öflum okkar. Lífeyrir á að vera sá sami fyrir hvern og einn einstakling í þjóðfélaginu (einn munnur - einn rass á hverjum) og á ekki að hafa neitt með það að gera í hvernig starfi menn eyddu árum sínum. Þeir sem eru í góðum stöðum og því góðu vanir verða bara sjálfir að hyggja að eftirlaunadögum sínum og leggja til hliðar til að halda sínum lífsstandard. Það á ekki að vera vandamál barna okkar að blæða í feitan lífeyri fyrir "landráðafólk".

Menn geta svo hver fyrir sig lesið í það hvort núverandi stjórnmálafólk fyllir flokk " fólks sem fremur landráð" eða "fólks sem fer með ráð lands".

Við verðum að drepa af okkur skattaokið sem boðið er upp á um þessar mundir. Burt með verðtrygginguna. Leiðréttið höfuðstólshækkanir vegna gengishruns. Nei við Icesave samningnum.

Hafþór (IP-tala skráð) 13.12.2009 kl. 14:31

16 Smámynd: Sævar Finnbogason

Þú segir: „Það fé sem er í sameignarsjóðunum, það fé er eign sjóðanna.“ og bendir á að félagarnir eigi svo sjóðinn.

Vandinn við Lífeyrissjóðakerfið er að sjóðirnir fara með féð eins og eign sína. Í stjórn sjóðanna er menn (venjulega einungis menn) sem koma úr röðum launamanna og einnig úr röðum launagreiðenda. Þetta hefur leitt til þess að fjárfestingarstefna sjóðanna hefur verið glannaleg og heimskuleg og ekki þjónað hagsmunum sjóðsfélaga heldur sérhagsmuna. OG það hefur leitt til þess að sjóðirnir hafa rýrnað og greiðslu til einstaklinga verið leækkaðar og sumir sjóðir ekki aðeins tapað gríðarlegum fjármunum heldur þurrkast út.

Nú síðast var stofnaður sjóður fyrir tilstilli ríkissins til að fjárfesta á Íslandi og reyna að hressa uppá atvinnulífið hér, þú ert þá væntanlega á móti öllu slíku?

Almennt séð hafa lífeyrissjóðirnir ekki fjárfest vel og ekki greitt sjóðsfélögum það til baka sem þeir lögðu í þá, með nokrum undantekningum. Ég skora á þig að kynna þér málflutning Helga í GÓU og margra annarra.

 Svo spyrðu hvort ég trúi að féð verði notað til að lækka skatta
NEi, en það dregur eitthvað úr þörf fyrir lántökur og/eða skatthækkanir. Skattalækkanir eru ekki í spilunum næstu 10 til 15 árin allavega.

Þú bendir á misgjörðir fyrri ríkisstjórna og það er allt réttmætt. Samfylkig Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru sek um vítaverða heimsku. EN það hafa lífeyrissjóðirnir líka orðið. Ég treysti þeim ekki fyrir mínum peningum. Ef ég væri í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna væri ég rórri, þar sem neir njóta ríkisábyrgðar, en mér dettur ekki í hug að setja viðbótarlífeyrissparnað í Íslenska sjóði. 

Enn og aftur.

Ef ríkið fær ekki nýja tekjustofna (skítt með ICESAVE) þá verðum við að skera harkalega niður, hækka skatta á almenning og selja frá okkur helstu mjólkurkýrnar. Sá skaði er skeður. Hér verða hörmuleg félagsleg vandamál sem láta afleiðingar færeysku kreppunnar (fólksflótta, langtímaatvinnuleysi, aukna áfengis- og fíkniefnaneyslu) líta út eins og barnaleik. Ég held hreinlega að allt of margir sem eru að tjá sig um þessi mál hafi ekki kynnt sér stærðirnar nægilega vel til að skilja hvað er í húfi.

Það er aldrei mikilvægara en í svona árferði að standa vörð um velferaðkerfið og láta það taka slakann, koma þeim sem eru atvinnuleusir í skóla og borga þeim fyrir að vera þar og svo framvegis.Vilt þú bjóða kynslóðum eins og börnum okkar úppá sömu möguleika og þú hafðir?  ef svo er verður það ekki gert með því rústa "hornsteinum" samfélagsins eins og þú orðar það, Það verður á  næstu fimm árum sem öllu skiptir að almannaþjónustan, skólar, heilbrigðiskerfi og þau tæki sem við getum komið upp til að ýta unsir nýsköpun séu virk. Og hvernig eigum við að fjármagna það.

Ef þú treystir ekki stjórnmálamönnum taktu þá þátt í stjórnmálum til að sjá til þess að vel sé farið með og til að berjast gegn spillingu, freka en að vera tyggja þessa "ekki hægt að treysta stjórnmálamönnum" frasa endalaust

Sævar Finnbogason, 13.12.2009 kl. 17:25

17 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sævar

Mér finnst ósanngjarnt að blanda inn í þessa umræðu hvernig ávöxtun þessara sjóða hefur verið. Að vegna lélegrar ávöxtunar í mestu kreppu frá 1929 þá sé réttlætanlegt að ganga í sjóði lífeyrissjóðanna og nota þá til að reka ríkissjóð.

Fyrir utan umliðið kreppuár hefur ávöxtun lífeyrissjóðanna á undangengnum áratug almennt verið vel ásættanleg. Samkvæmt nýjustu tölum sem ég hef séð þá eiga þeir i dag um 1.700 milljarða króna, um 10 milljarða evra, og eru stöðugt að nálgast í krónum talið þá innistæðu sem þeir áttu fyrir hrun. 2/3 hlutar þessa fjár var geymt í krónum. Það er krónunni að kenna og gengisfalli hennar, ekki lífeyrissjóðunum, að í evrum áttu sjóðirnir fyrir hrun um 20 milljarða evra. Þetta tap í evrum talið er hluti að þeim herkostnaði að vera hér með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þetta tap er á ábyrgð stjórnvalda sem hafa viljað halda í krónuna, ekki lífeyrissjóðanna.

Ég er mjög hlynntur þessum átakssjóð sem lífeyrissjóðirnir eru að búa til. Ef verkefnin eru valin af kostgæfni þá á slíkur sjóður að geta lyft hér grettistaki. Þetta er allt annars eðlis en þegar fé er tekið úr sjóðunum og því varið til að reka ríkissjóð.

Stjórnmálamönnum eigum við að treysta til að setja okkur lög og reka ríkissjóð innan þess ramma sem fjárlögin setja hverju sinni. Ríkið hefur sína tekjustofna og sveitarfélög sína. Við eigum að gera þá kröfu að þessir opinberu aðilar reki sig á þeim tekjustofnum sem þeim eru ætlaðir. Við eigum ekki að samþykkja að ríkið telgi sig inn í lífeyrissjóðina til að ná sér í rekstarfé.

Treysta þessir stjórnmálamenn sér ekki til þess að reka ríkissjóð án þess að ganga að lífeyrissparnaði landsmanna, þá eigum við að finna aðra stjórnmálamenn sem treysta sér til þess.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.12.2009 kl. 10:50

18 Smámynd: Jón Óskarsson

Hér að ofan segir þú Friðrik: 

Stjórnmálamönnum eigum við að treysta til að setja okkur lög og reka ríkissjóð innan þess ramma sem fjárlögin setja hverju sinni. Ríkið hefur sína tekjustofna og sveitarfélög sína. Við eigum að gera þá kröfu að þessir opinberu aðilar reki sig á þeim tekjustofnum sem þeim eru ætlaðir. Við eigum ekki að samþykkja að ríkið telgi sig inn í lífeyrissjóðina til að ná sér í rekstarfé.

Það er einmitt málið að ríkið og sveitarfélögin eiga tekjustofna í lífeyrissjóðunum.  Það er ekki verið að teygja sig neitt þangað inn sem menn eiga hvort sem er ekki tekjur.  Mér sýnist að Álftanesi, Árborg og fleiri sveitarfélögum veitti ekki af því að geta innleyst þessar tekjur núna.  Til hvers að bíða eftir því að allt sé komið í þrot ?

Séreignarsparnaður, sem og almennir lífeyrissjóðir verða skattlagðir fyrr en síðar (við útborgun) og því er ekki verið að ganga að lífeyrissparnaðinum.  Heldur eingöngu að færa tekjurnar til í tíma.  Til hvers eiga líka ríkið og sveitarfélög að treysta á þessa tekjustofna einhvern tíma í framtíðinni ?  Ég sé ekki ástæðu til þess að ríki og sveitarfélög séu að treysta lífeyrissjóðunum fyrir þessu, án þess í það minnsta að það sé þá tryggt að ekki verið farið svo illa með þessa fjármuni að tekjurnar muni minnka. 

Í venjulegum rekstri er það lögbrot ef virðisaukaskatti og staðgreiðsluskatti er ekki skilað á tilskyldum eindögum.  Það er ekki leyft að fyrirtækin "gambli" með þessa fjármuni ríkis og sveitarfélaga og á sama hátt ætti það að vera þannig með lífeyrissjóðina.

Jón Óskarsson, 18.12.2009 kl. 15:30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband