Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 7. desember 2009
Efnahagslífið um allan heim er að taka flugið á ný.
Hvar sem borið er niður þessa dagana þá er stóra myndin sú að efnahaglífið um alla heim er að rétta úr kútnum. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs, á ársfjórðungnum sem markar ár frá bankahruninu, þá var hagvöxtur á öllum helstu efnahagssvæðum heimsins.
Hér á Íslandi en við fórum einna verst út úr efnahagshruninu þar er samdráttur í landsframleiðslu mikill, 6%, en minni er spár gerðu ráð fyrir, 9%.
Atvinnuleysi á árinu hefur verið minna, 7% - 8%, en spár gerðu ráð fyrir.
Ég held við Íslendingar megum vel við una hvernig okkur er að takast að snúa okkur út úr þessari djúpu kreppu.
Ef atvinnulífið nær að halda sjó með þessum hætti næsta árið og takist okkur að ná hér inn nýjum atvinnutækifærum, hvort sem það eru gagnaver, einkarekin sjúkrahús, álver eða hvað annað sem skapar hér nýjar tekjur þá er framtíðin björt.
Það þarf ekki mikið að koma til þannig að hér fari allt í gang á ný.
Eina hættan sem að okkur stafar í dag eru þau lán og þær skuldir sem Seðlabankinn og ríkið eru að taka og ætla sér að axla. Hér á ég við lánin sem Seðlabankinn vill taka hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, AGS, og síðan Ieesave skuldbindingarnar sem ríkið vill axla.
Ef við tökum á okkur Icesave skuldbindingarnar og tökum þessi lán frá AGS þá lítur staðan miklu verr út.
Ég óttast að Seðlabankinn sólundi þessum lánum sem tekin verða hjá AGS og Icesave skuldbindingarnar verði okkur óviðráðanlegar.
Fengi ég einhverju um ráðið þá yrðu ekki tekin frekari lán hjá AGS og innistæður Landsbankans bara tryggðar upp að 20.887 evrum per reikning. Þá værum við að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar og engin gæti ásakað okkur um annað. Vitað er að eignir Landsbankans munu örugglega duga til að tryggja allar innistæður á öllum reikningum upp að 20.887 evrum þó þær dugi ekki til að tryggja allar innistæður að fullu eins og nú stendur til að gera.
Tökum ekki meiri lán hjá AGS og komum okkur út úr þessu Icesave máli án þess að það falli króna á skattgreiðendur á Íslandi.
Þá mun okkur farnast vel.
Við sem þjóð erum að taka of mikla áhættu með því að samþykkja Icesave í þeirri mynd sem nú liggur yfir Alþingi. Ef forseti synjar þá gilda lögin um Icesave frá því í sumar með öllum fyrirvörunum Alþingis í fullu gildi.
Stöðvum Icesave málið í núverandi mynd og skorum á forsetann að synja lögunum staðfestingar sjá hér: http://indefence.is/.
Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11.09..
![]() |
Mikill samdráttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.12.2009 kl. 08:47 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 4. desember 2009
Getur nokkur forseti hunsað áskorun frá 20% til 25% þjóðarinnar?
Undirskriftarsöfnun InDefence á netinu er nú komin í tæp 25.000 manns. Um 12% þjóðarinnar hafa skorað á forsetann að staðfesta ekki lögin um ríkisábyrgð á Icesave samningnum. Með sama áframhaldi verður fjöldi undirskrifta um jól orðin 20% - 25% þjóðarinnar.
Í drögum að lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu er gert ráð fyrir að 10% þjóðarinnar geti kallað á að mál fari í slíka atkvæðagreiðslu.
Verði þetta niðurstaðan að það safnast um 25.000 til 30.000 undirskriftir, þ.e. 12% til 15% atkvæðisbærra manna, þá á ég ekki von á því að forsetinn neiti að staðfesta lögin.
Safnist hins vegar tvöfalt fleiri undirskriftir, 50.000 til 60.000, eða sem samsvarar því að fimmtungur til fjórðungur þjóðarinnar skrifi undir áskorun InDefence og skori á forsetann að staðfesta ekki lögin þá er forsetaembættið komið í mikil vandræði.
Að ganga fram hjá áskorun 20% til 25% atkvæðabærra manna er eitthvað sem engin Íslenskur þjóðkjörinn forseti getur gert. Sérstaklega í ljósi þeirrar hefðar sem þessi sami forseti skapaði þegar hann neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin hér fyrir fáum árum.
Safnist áfram undirskriftir á lista InDefence með sama hætti og verið hefur þá gæti vel farið svo að þessi undirskriftasöfnun muni valda straumhvörfum í þessu máli. Málið verði þá tekið úr höndum þingsins og sett í hendur forseta og þjóðarinnar.
Vegna þeirrar hefðar sem núverandi forseti skapaði þegar hann neitaði að undirrita fjölmiðlalögin þá er það bara þannig að hann verður að taka tillit til áskorunar eins og þessarar. Hann getur vel litið svo á að 10% til 15% sé ekki nægjanlega margir til að hann fari að synja þessum lögum staðfestingar en þegar fjöldi áskorenda er orðin 20% til 25% þjóðarinnar þá lendir hann í miklum vandræðum með hvað hann á að gera.
Ef forsetinn, æðsti yfirmaður Lýðveldisins og eini trúnaðarmaður þjóðarinnar sem þjóðin fær að kjósa í beinni kosningu, verður ekki við vilja 20% til 25% þjóðarinnar, það yrði til þess að forsetaembættið setti mikið niður. Svo mikið niður að ég tel að embættið muni aldrei ná sér eftir það. Það mun aldrei ná sér eftir það að hafa ekki svarað kalli 20% til 25% þjóðarinnar sem óska eftir að fá að kjósa um ákveðið mál í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég tel að eftir slíka meðferð á þjóðinni þá verði allar líkur á, í það minnsta ríkjur vilji til, að embættið í núverandi myndi verði þurrkað út þegar væntanlegt stjórnlagaþing leggur drög að nýju stjórnskipulagi á Íslands.
Nú þegar um 12% atkvæðisbærra manna hefur undirritað áskorun til forsetans þá aukast líkurnar með hverri nýrri undirskrift á því að forsetinn verði að synja lögunum staðfestingar, hvort sem forseta líkar betur eða verr. Mín tilgáta er sú að þessi mörk í þessu máli sé um 20% til 25% þjóðarinnar.
Engin forseti getur horft fram hjá og ekki tekið tillit til áskorunar frá 20% - 25% atkvæðisbærra Íslendinga.
Á meðan það bætast við undirskriftir á listann hjá InDefence (http://indefence.is/) þá lifir enn von.
Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11.09.
![]() |
Ekkert mál hentar betur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.12.2009 kl. 11:20 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 2. desember 2009
Á nú að fela það í 80 ár að okkar helstu stjórnmálamenn og embættismenn þáðu mútur?
"Allt að 80 ára leynd mun hvíla á viðkvæmum upplýsingum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur haft til meðferðar í tengslum við skýrslu um bankahrunið. Um er ræða upplýsingar sem snerta launakjör einstaklinga og rekstur fyrirtækja. Forseti Alþingis segir að þetta muni ekki rýra gildi skýrslunnar". Þetta kemur fram í frétt á visir.is um málið.
Ef ég ætlaði að hylma yfir og fela það að greiðslur / mútur hafi átt sér stað frá fyrirtækjum til stjórnmálamanna eða embættismanna þá myndi ég gera það með þeim hætti sem hér er lýst.
Nú er það svo að stjórnmála- og embættismenn eru opinberir starfsmenn og launakjör þeirra hafa ekki verið og eru ekki trúnaðarmál. Þeir fá laun samkvæmt opinberum kjarasamningum. Af hverju á nú að fela það í 80 ár hvaða fjárhæðir hafa verið lagðar inná þeirra persónulegu reikninga á undanförum árum? Hvað er verið að fela?
Er það svo að það hafa komið reglulega eða óreglulega háar fjárhæðir frá bönkunum eða fyrirtækum þeim tengdum eða öðrum aðilum inn á persónulega reikninga okkar helstu lykilmanna og kvenna í stjórnmálunum og stjórnsýslunni?
Ég var einmitt að bíða eftir því að Rannsóknarnefnd Alþingis kvæði upp úr með það hvort okkar helstu stjórnmála- og embættismenn hefðu þegið mútur. Um það hefur gengið þrálátur orðrómur í mörg ár. Ljóst er á öllu að rannsóknarnefndin hefur kannað þetta mál, eðlilega.
Niðurstaða þeirrar rannsóknar er sú að Alþingi vill að þær niðurstöður verið lokaðar niðri í skúffu í 80 ár.
Hvaða upplýsingar eru svo viðkvæmar, upplýsingar er varða persónuleg fjármál / launkjör opinberra starfsmanna að það þarf að setja á þær 80 ára leynd?
Er nokkuð annað sem kemur til greina en að rannsóknin hafi sýnt að okkar æðsta fólk hafi þegið ýmsar greiðslur, greiða og gjafir, með öðrum orðum mútur, og þetta sama forystufólkið sameinast nú um að þessu verði öllu leynt næstu 80 árin?
Ég neita að trúa því að þetta fólk komist upp með að leyna þessum upplýsingum!
Í hvernig samfélagi hef ég búið í öll þessi ár?
Á spillingin hér sér engin takmörk og teygir hún anga sína um alla stjórnsýsluna og inn í forystu allra flokka á Alþingi?
Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11.09.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 30. nóvember 2009
Eftir misheppnuðustu einkavæðingu í heimi endar, á Fullveldisdaginn, helmingurinn af þjóðarauðunum í höndum útlendinga.
Eftir misheppnuðustu einkavæðingu Íslandssögunnar ef ekki heimssögunnar þá enda tveir af þrem gömlu ríkisbönkunum í höndum útlendinga.
Afleiðing einkavæðingar ríkisbankana fyrir sex árum, árið 2003, endaði með þriðja og sjötta stærsta gjaldþroti heims þegar Kaupþing og Landsbankinn féllu. Þessu til viðbótar er svo stærsta persónulega gjaldþrot heims þegar stjórnarformaður Landsbankans og ábyrgðarmaður númer eitt á Icesave reikningunum lýsti sig gjaldþrota fyrr á þessu ári.
Með það í huga að þetta þrennt gerðist allt á fimm árum, stærsta persónulega gjaldþrot heims og þriðja og sjötta stærstu gjaldþrot í heimi "í flokki fyrirtækja" þá held ég það muni fáir mótmæla því mjög hátt þó ég láti það eftir mér að fullyrða að einkavæðing íslensku bankana hafi verið misheppnasta einkavæðing heimssögunnar.
En það er ekki bara íslenska þjóðin sem mun njóta ávaxtanna af þessari einkavæðingu um ókomin ár. Erlendir aðilar, bankar, sjóðir, fyrirtæki og einstaklingar hafa tapað tugum þúsunda milljarða króna.
Allar áætlanir sem hér voru uppi þegar neyðarlögin voru sett um að við ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna og bankarnir okkar, Seðlabankinn og viðskiptabankarnir, myndu á endanum koma mjög vel út úr þessum gjörningi sem neyðarlögin voru, öll eru þessi loforð horfin. Gufuð upp.
Í staðin er þjóðin að axla ábyrgð á skuldum þessara óreiðumana og erlendir aðilar eru að eignast tvo stærstu banka landsins. Þar með talin lán þúsunda einstaklinga, fyrirtækja, útgerðarfélaga, sveitarfélaga og orkufyrirtækja. Það eru allar líkur á því að það verði útlendingar sem munu eiga á morgun, fullveldisdaginn 1. des., stærstan hluta lána okkar Íslendinga og þar með talin þau veð sem á bak við þessi lán eru.
Með því að erlendir aðilar hafa eignast stærstan hluta í Kaupþingi og Glitni þá hafa erlendir aðilar í raun "eignast" hálft Ísland.
Á fimm árum tókst í misheppnuðustu einkavæðingu veraldarsögunnar
- að gera Seðlabankann gjaldþrota,
- veðsetja þjóðina með Icesave reikningunum um sem samsvarar landsframleiðslunni
- skuldsetja ríkissjóð um sem samsvarar landsframleiðslunni
- og þar að auki missa helming allra lána okkar Íslendinga í hendur erlendra aðila og þar með í raun um helminginn af þjóðarauðnum í hendur útlendinga.
Hvað er til ráða?
Halda áfram á braut ríkisstjórnarinnar sem gengur aðallega út á það að skuldsetja samfélagið enn meira með Icesave og lánum frá AGS?
Halda áfram að fylgja stefnu Davíðs Oddsonar með íslensku krónuna sem gjaldmiðil og einangra okkar frá Evrópu á sama hátt og búið er að einangra okkur frá Bandaríkjunum?
Nú þarf nýjar lausnir og nýtt fólk!
Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11.09.
![]() |
Kröfuhafar eignast Arion |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 29. nóvember 2009
Góðar fréttir því nú er rétti tíminn til að byggja skóla
Það eru ánægjulegar fréttir að Framkvæmdasýsla ríkisins skuli vera að bjóða út hönnun Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Áætluð verklok fyrsta áfanga eru 2012 - 2013.
Ég vil sjá fleiri svona verkefni. Verkefni sem fækka þeim atvinnulausu sem margir eru úr byggingariðnaði. Verkefni sem nýta starfskrafta sem engin er að nota í dag. Starfskrafta sem hægt er að nota til að skapa og búa til verðmæti sem munu nýtast samfélaginu um ókomin ár.
Að borga mönnum laun eru vissulega meiri kostnaður en borga þeim atvinnuleysisbætur og til viðbótar kemur efniskostnaður en eftir standa mannvirkin og í þessum mannvirkjum felast mikil verðmæti fyrir utan notagildi þeirra.
Í dag fær "engin neitt" fyrir þessa 20 milljarða sem fara í atvinnuleysisbæturnar á þessu ári.
Byggingaverkefnin bíða okkar um allt.
Hvenær ætla menn að fara í gang með að ljúka þessum íbúðum sem standa í dag hálfkláraðar? Bankarnir eiga þær flestar og þar með við. Af hverju nýta menn ekki þennan slaka sem er á byggingamarkaðnum í dag og setja atvinnulausa iðnaðarmenn í að klára þessar íbúðir í rólegheitunum?
Væri það ekki skynsamlegra og betur farið sem peningana okkar en vera að borga þessum iðnaðarmönnum atvinnuleysisbætur? Við vitum að það er þörf á þessum íbúðum og þær munu á endanum seljast. Af hverju ekki að klára þær?
Ætla menn að flytja inn iðnaðarmenn í stórum stíl frá útlöndum þegar stíflan springur og allt fer hér aftur á fljúgandi ferð?
Mynd: Við Skerjafjörðinn, 1.11.09.
![]() |
Hönnun framhaldsskóla boðin út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 28. nóvember 2009
Eru sjómenn yfirstétt eða ölmusumenn?
Eru sjómenn yfirstétt á Íslandi? Yfirstétt sem nýtur sérstakra forréttinda? Yfirstétt sem borgar ekki skatta af launum sínum á sama hátt og aðrir þegnar þessa samfélags?
Eða eru sjómenn ölmusumenn sem eru á svo lágum launum og búa við svo bág kjör að öllum finnst rétt og eðlilegt að jafnvel einstæðar mæður og ekkjur þessa lands borgi hærra hlutfall af launum sínum en þeir til að hægt sé að senda börn sjómanna í skóla og tryggja heilsugæslu þeirra sjálfra?
Hvernig má það vera að ákveðin stétt mann býr hér við sérstök skattafríðindi áratugum saman? Af hverju er það svo að ákveðnir hópar í þessu samfélagi leggja lægra hlutfall af launum sínum til samneyslunnar, til skólanna, heilsugæslunnar o.s.frv. en aðrir þegnar þessa lands?
Ég fagna tillögum fjármálaráðherra um afnám þessara forréttinda. Þessar tillögur eru þar fyrir utan eins mildar og hægt er að hafa þær. Þessi sjómannaafsláttur nemur að meðaltali á sjómann um kr. 190.000 á ári og sjómenn og útgerðarmenn fá fimm ár til að leysa þetta mál sín á milli.
Í hálfa öld hefur engin fjármálaráðherra haft pólitískan kjark né þor til að taka á þessu misrétti, þessum forréttindum, fyrr en nú. Steingrímur J. Sigfússon á heiður skilið nái hann þessu í gegn.
Í hálfa öld höfum við Íslendingar þurft að bíða eftir að eignast fjármálaráðherra sem skynjar það ranglæti sem felst í þessum sjómannaafslætti og hefur haft pólitíska burði til að taka á þessu máli. Ég fagna því að við höfum eignast slíkan ráðherra.
Fyrir sjómenn hlýtur afnám þessa sjómannaafsláttar að vera ákveðið fagnaðarefni. Þeir verða efir 50 ára mismunum aftur fullgildir þegnar í þessu samfélagi og taka þátt í því á jafnréttisgrundvelli.
Gangi afnám þessa sjómannaafsláttar eftir þá verður hvorki litið á þá sem yfirstétt né heldur ölmusumenn.
Mynd: Við Nauthólsvík, horft til Öskjuhlíðar.
![]() |
Sjómenn búa við betri kjör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 26. nóvember 2009
Embætti sérstaks saksóknara byrjað að standa undir væntingum.
Á síðustu tveim mánuðum hafa þeir atburðir gerst að ég er byrjaður að fyllast bjartsýni á að embætti sérstaks saksóknara ætli að taka á málum tengdum hruninu.
Það að frysta eigur fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins sem seldi hlutafé sitt í Landsbankanum rétt fyrir hrun var fyrsta alvöru yfirlýsing embættisins þess efnis að það verður tekið á öllum málum þar sem einhver grunur er á að um ólögmæta háttsemi hafi verið að ræða og að við rannsókn embættisins munu allir sitja við sama borð, bæði Jón og séra Jón.
Þegar sparisjóðsstjóri BYR hrökklast í dag úr starfi í kjölfar húsleitar sérstaks saksóknara nú í vikunni hjá BYR og MP banka vegna gruns um ólöglegt athæfi þá er ég byrjaður að hafa trú á þessari rannsókn og þessu embætti.
Til að endurreisa traust í samfélaginu þá þarf að draga þá til ábyrgðar sem sem brutu lög og brugðust í aðdraganda hrunsins.
Það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að þetta fólk sé dregið til ábyrgðar og það er líka nauðsynlegt fyrir þá erlendu aðila sem hafa tapað óhemju fé á viðskiptum við íslensku bankana.
Bara þannig getum við endurreist traust hér heima og erlendis.
Ég hvet sérstakan saksóknara og samstarfsfólk hans til að láta engan bilbug á sér finna og halda óðrauð áfram.
Mynd: Horft fram Fossvoginn.
![]() |
Sparisjóðsstjóri Byrs í leyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2009 kl. 18:15 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 24. nóvember 2009
Dansað á bryggjunni í Nauthólsvík.
Þó á móti blási nú um stundir í efnahagsmálum þá er ljóst að kreppan hefur takmörkuð áhrif á okkur Íslendinga.
Í það minnsta var ekki að sjá á þessu pari sem tók danssporin á bryggjunni í Nauthólsvík nein merki drunga, kvíða eða lífsleiða, nú rúmu ári eftir Hrun. Þvert á móti geislaði af þessu fólki lífsgleði og ánægja.
Á meðan Íslendingar dansa í vetrarsólinni við undirleik öldugljáfursins á bryggjum landsins þá þarf í engu að kvíða framtíðinni.
Mynd: Bryggjan í Nauthólsvík, 1.11.09.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 23. nóvember 2009
Daniel Gros: Samningamenn Íslands skildu ekki grundvöll Icesave samningsins.
Allir, innlendir sem erlendir aðilar sem kynna sér Icesave samning gera við hann mjög alvarlegar athugasemdir. Nú er það Daniel Gros, hagfræðingur og nýr bankaráðsmaður í Seðlabankanum.
Hann bendir á að helstu rök Breta fyrir því að Íslenska þjóðin eigi að greiða allar Icesave innistæður í Bretlandi að fullu er jafnræðisregla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, EES. Nú bendir Daniel Gros á að ef þessi regla eigi að gilda þá eigi hún ekki bara að gilda á einu sviði samningsins heldur á öllum sviðum hans. Þar á meðal á hún að gilda um vaxtakjörin.
Daniel Gros telur það brot á jafnræðisreglu EES að Bretar lána Íslenska innistæðutryggingasjóðnum á hærri vöxtum en Breska innistæðutryggingarsjóðnum. Vegna jafnræðisreglunnar þá eigi þessir tveir sjóðir að sitja við sama borð hvað varðar lánakjör.
Gildi jafnræðisreglan þá á Íslenski innistæðutryggingarsjóðurinn ekki að greiða 5,55% vexti heldur um 3,5% vexti eins og sá breski og Íslendingar væru þar með að spara sér í vexti af Icesave láninu 185 milljarða króna.
Samfélagið hefur logað af illdeilum frá því Svavar Gestsson, aðalsamningamaður Íslands í Icesave málinu, kom heim með þennan samning og kynnti þjóðinni.
Samningurinn hefur verið er gagnrýndur fyrir margt. Í raun fyrir að vera hreinn nauðasamningur þar sem samningamenn Íslands virðast hafa gefið allt eftir.
Margir hafa fullyrt að sjaldan ef aldrei hafa samningamenn Íslands komið heim með jafn lélegan samning þar sem hagsmunir Íslands hafa verið með jafn augljósum hætti fyrir borð bornir.
Með þessari álitsgerð Daniel Gros kemur enn einn sérfræðingurinn fram á sjónarsviðið og gagnrýnir mjög harkalega þennan samning. En Daniel Gros er ekki bara að gagnrýna samninginn. Hann er að gera miklu meira en það.
Það sem Daniel Gros er í raun að segja er að samningamenn Íslands hafi ekki haft skilning á þeim lögum og reglum sem samningurinn er grundvallaður á.
Þessi Icesave samningur er með slíkum agnúum að Alþingi má ekki samþykkja hann. Þennan samning verður að fella.
Mynd: Nauthólsvík, 1.11.09.
![]() |
Gæti sparað 185 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 21. nóvember 2009
Gerir lágt gengi krónunnar næsta áratuginn Ísland að Albaníu norður Evrópu?
Margt bendir til þess að við sitjum upp með þetta lága gengi á krónunni næsta áratuginn. Ofaná mikla ásókn í erlendan gjaldeyri þá eru nú að bætast við nýju bankarnir sem þurfa að greiða með gjaldeyri fyrir þær eignir sem þeir tóku út úr þrotabúi gömlu bankana. Fyrir Landsbankann nema þessar greiðslur 26 milljörðum króna á ári næstu 10 árin. Sjálfsagt má búast við að svipuðum greiðslum vegna kaupa Íslandsbanka og Arion á eignum út úr þrotabúum Glitnis og Kaupþings.
Það lítur úr fyrir að á næstu árum verið slegist um hverja evru og hvern dollar sem kemur inn í landið. Þeir sem þurfa á erlendum gjaldeyri að halda eru:
- Ríkissjóður til að greiða vexti og afborgarnir af lánum.
- Orkufyrirtækin, sjávarútvegurinn, sveitarfélög og fl. vegna erlendra lána.
- Nýju bankarnir þrír til að greiða fyrir þær eignir sem þeir yfirtóku.
- Erlendir eigendur krónubréfa.
- Almennur innflutningur vöru og þjónustu
- Erlend innkaup vegna rýrra fjárfestingar sem ætlunin er að ráðast í, virkjanir o.s.frv.
Það er því ljóst að gríðarleg þörf verður fyrir erlendan gjaldeyri hér næstu árum. Mikið má vera ef krónan gefur ekki enn meira eftir og lækkar.
Í dag eru Íslendingar með lægstu laun í vestur Evrópu vegna lágs gengis krónunnar. Ef það verður staðan í heilan áratug verðum við þá eftir 10 ár orðin ein fátækast þjóð Evrópu?
Ég sé bara eina leið út út þessu. Við eigum að taka einhliða upp evru eða dollar. Við eigum ekki að láta þessa gjaldeyriskreppu gera okkur að Albaníu norður Evrópu.
Mynd: Nauthólsvík, 1.11.09.
![]() |
Samkomulag um lækkun gengisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.11.2009 kl. 10:00 | Slóð | Facebook