Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Forsetinn og undirskriftalisti InDefence nú Íslands eina von.

Ég skora á alla þá sem ekki hafa þegar skráð sig á undirskriftalista InDefence að gera það nú þegar og skora á forsetann að synja Icesave lögunum staðfestingar og láta þjóðina kjósa um málið.

Tæp 53.000 hafa þegar skrifað undir.

Sjá undirskriftarlistann hér:

http://www.indefence.is/ 

Sjá einnig þessa grein hér

 


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarslit og nýjar kosningar, takk!

Eftir allar þessar uppákomur í þessu Icesave máli þar sem endalaust eru að koma fram ný gögn sem stjórvöld hafa vitað af en reynt að koma í veg fyrir að yrðu gerð opinber þá er ég alveg hættur að treysta núverandi stjórnvöldum. Sama tilfinningin og ég hafði í fyrra gagnvart þeim stjórnvöldum sem þá voru við völd er komin aftur. 

18122009214Í fyrra óttaðist ég að þáverandi stjórnvöld, ríkistjórn Geirs Haarde, réði ekkert við það verkefni sem hún var að kljást við og ríkisstjórnin væri að gera hvert axarskaftið á eftir öðru. Allt var síðan gert og öllu kostað til að hylma yfir mistökin. Allt var gert til að koma í veg fyrir að það fréttist hvaða mistök höfðu verið gerð. Þá hafði ég það á tilfinningunni að ríkisstjórnin væri að verða hættuleg vegna þess skaða sem hún var að valda þjóðinni. Sama tilfinning gerir nú vart við sig.

Trúverðugleiki stjórnvalda er að verða lítill sem enginn. Þessar tvær setningar úr fréttum nú í morgun segja meira en mörg orð.

  • Það benda mjög sterkar líkur til þess, að lögfræðistofuna misminni hressilega þegar hún fullyrðir að hún hafi kynnt utanríkisráðherra þetta með „glærusjói" sem utanríkisráðherra hafði aldrei séð og vissi ekki að væri til," sagði Steingrímur.
  • Svavar Gestsson, formaður samninganefndar um Icesave, neitaði að koma fyrir fjárlaganefnd.

Nú á þjóðin að trúa annað hvort orðum utanríkisráðherra eða orðum einnar virtustu lögfræðistofu Bretlands. Hverslags staða er það?

Í framhaldi af þeirri frétt upplýsist það að formaður samninganefndar um Icesave neitar að koma fyrir fjárlaganefnd að ræða ásakanir um yfirhylmingar og að hann hafi falið og haldið upplýsingum leyndum fyrir stjórnvöldum. Ef rétt reynist þá er það með ólíkindum.

Ég spyr:

Hagsmuna hverra eru og hafa stjórnvöld verið að gæta í þessu Icesave máli?

Því miður, ég átta mig ekki á því. 

Það eina sem mér er orðið ljóst er að stjórnvöld eru ekki að gæta hagsmuna barnanna minna í þessu máli.

Þessi stjórnvöld eiga að fara frá og við eigum að kjósa á ný um páska. Það er búið að sýna sig að þeir ráðherrar sem sitja nú sem ráðherrar og sátu sem ráðherrar í hrunastjórn Geirs Haarde, þetta fólk verður allt að fara. Annars heldur sama ruglið áfram með sömu leikendum og sömu leikstjórum.

Við verðum að kosta því til að fara í kosningar svo fljótt sem auðið er á næsta ári svo Samfylkingin geti endurnýjað forystu sína og Sjálfstæðisflokkurinn geti haldið áfram með sína endurnýjun. Við verðum að endurnýja meira þetta fólki á þingi og losa okkur við alla gömlu hrunaráðherrana og koma þeim þarna út. Það á að vera sameiginlegt verkefni allra þessara flokka.

Stjórnarslit og nýjar kosningar, takk.

Mynd: Suður- og vesturhluti Hofsjökuls.

 


mbl.is Svavar neitaði að mæta á fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru mestu örlagadagar Íslensku þjóðarinnar framundan?

Margir halda því fram að mestu örlagadagar þjóðarinnar frá lýðveldisstofnum séu nú framundan á Alþingi.

18122009208Nú á milli jóla og nýárs verður skorið úr um það hvort þjóðin verður dæmd til  fátæktar næsta aldarfjórðunginn eða ekki.

Nú milli jóla og nýárs verður á Alþingi ákveðið hvort þjóðin verður látin axla ábyrgðir sem Landsbankinn stofnaði til þegar bankinn hóf að safna innlánum inn á Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi. 

Nú milli jóla og nýárs verður ákveðið hvort Alþingi samþykki og staðfesti nauðasamning þann sem stjórnvöldin sem silgdu hér öllu í strand gerðu við Breta og Hollendinga nokkrum dögum eftir hrun í október í fyrra.

Nú milli jóla og nýárs verður ákveðið hvort við undirgöngumst þessa nauðarsamninga og samþykkjum þar með að við ætlum að verða ein fátækasta þjóð Evrópu að aldarfjórðungi liðnum.

Nú milli jóla og nýárs verður ákveðið hvort við neyðumst til að fórna öllum og þá meina ég "öllum" okkar viðkvæmustu og fallegustu landsvæðum undir orkuver til að skapa okkur tekjur til að standa undir Icesave skuldunum.

Samþykki Alþingi þessa nauðasamninga þá er það mín spá að þeir þingmenn sem það gera, enginn þeirra mun sitja á þingi eftir 6 til 8 ár.

Mín spá er sú að eftir 10 til 15 ár verði stór hluti þeirra þingmanna sem samþykkja þennan Icesave nauðasamning, þeir munu hafa flutt af landi brott. Mín spá er sú að hús útrásarvíkinganna munu fá frí fyrir skemmdarverkum á næstu mánuðum. Hús þessara stjórnmálamanna munu hins vegar fá sína yfirhalningu.

Mitt mat er það að mjög stór hluti þjóðarinnar mun aldrei fyrirgefa þeim þingmönnum sem samþykkja þennan Icesave samning. Þeim verður aldrei fyrirgefið það að hafa dæmt þjóðina til þeirrar fátæktar sem blasir við axli þjóðin ábyrgð á þessu Icesave máli.

Staðfesti forsetinn þennan samning, nú þegar um 35.000 manns hafa undirritað áskorun til hans að gera það ekki, sjá hér, þá er það mín spá að næstu rúður sem verða brotna á Íslandi þær verða á Bessastöðum. Og það verða ekki einu rúðurnar sem munu brotna á næsta ári.

Mynd: Hásteinar á miðjum Hofsjökli.

 


Jólakveðja.

Sendi landsmönnum öllum hugheilar jólakveðjur.

18122009197

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd: Öskjuvatn.

 


mbl.is Tók við af „búskussa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rauð jól í Reykjavík.

Það verða rauð jól í Reykjavík þetta árið. Í það minnsta er aðfangadagur nær snjólaus hér í borginni.

Jólin 2009 fhg copy

Nokkra snjóföl er þó að finna í "efri byggðum" borgarinnar eftir hretið sem skall á um miðjan dag í gær. Hér í næsta nágreni við mig er "hvíti" liturinn þannig álíka áberandi en sá "rauði". Þegar líður á daginn og sólin fer að láta sjá sig á ég von á að þessi þunna snjóföl hverfi.

 

Mynd: Herðubreið í des. 2009, séð úr lofti úr flugvél Flugfélags Íslands.

 


Margir taka sér frí fram á nýár.

Margir taka sér gott frí yfir jólin þetta árið. Víða loka fyrirtæki eða eru með litla eða lámarks starfsemi í gangi milli jóla og nýárs.

IMG_3758Það er góður siður að taka sér frí milli jóla og nýárs og eyða því með fjölskyldu, ættingjum og vinum, við bóklestur eða hvað annað sem hentar að gera í skammdeginu, myrkrinu og jólaljósunum.

Eftir eitt mesta átakaár í sögu þjóðarinnar þá er við hæfi að halda heilög jól með hógværum en hefðbundnum hætti.

Næg eru verkefnin sem bíða okkar allra sem einstaklinga, samfélags og þjóðar eftir áramótin.

Mynd: Á Landmannaleið, við Frostastaðavatn. 

 


Góðar fréttir berast af efnahagsmálum frá öllum heimshornum nema Íslandi.

Það er huggun harmi gegn að á sama tíma og við Íslendingar búum okkur undir tvö til þrjú mjög erfið kreppuár þá stígur hvert þjóðlandið fram af öðru og lýsir því yfir að kreppunni í viðkomandi landi sé lokið. Síðast voru það Bretarnir. Þeir lýstu því nú í desember yfir að kreppunni hefði formlega lokið þar í landi á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Þeir höfðu gert ráð fyrir 0,4% samdrætti í hagvexti á þeim ársfjórðungi en hagvöxturinn varð 0%. Þar með hafi samdráttur í hagvextinum stöðvast og gert er ráð fyrir hægum bata næstu misserin.

IMG_3756Evrópa, að Íslandi undanskildu, er því að sigla farsællega út úr þessu mesta samdráttarskeiði frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Almennt er talið að með samræmdum aðgerðum stjórnvalda um allan heim hafi tekist að koma í veg fyrir áhlaup kreppunnar númer tvö en mjög margir óttuðust að á þessu ári sem nú er að líða kæmi önnur kreppubylgja og harðari. Það varð ekki raunin sem betur fer og stærstu bankar heims eru nú í óða önn að skila fjármunum til baka sem þeir fengu lánaða hjá ríkisstjórnum Bandaríkjanna, Þýskalandi og Bretlands.

Grikkir eru taldir standa einna verst fjárhagslega í Evrópu. Moodys var að lækka hjá þeim lánshæfismatið. Það fór í A2. Þrátt fyrir vandræði Grikklands eru þeir með margfalt betra lánshæfismat en Ísland sem er Baa3, flokki fyrir ofan ruslflokk. Það er því rétt sem Grikkir halda fram, staða þeirra er ekki sambærileg við stöðu Íslands. Á Íslandi er staðan önnur og verri.

Alþingi ætlar milli jóla og nýjárs að setja á þjóðina drápsklyfjar Icesave skuldanna og dæma þjóðina til fátæktar næsta aldarfjórðunginn.

Þjóðin er að taka hátt í fimm milljarða dollara að láni með aðstoð AGS með tilheyrandi vaxtakostnaði bara til þess eins að geta haldið í krónuna.

Við erum að taka á okkur eitthvert mesta tjón sem nokkur þjóð hefur orðið fyrir vegna gjaldeyriskreppu sem á sér ekki fordæmi í Evrópu frá stríðslokum með gríðarlegu falli krónunnar þannig að erlendur gjaldeyrir og innfluttar vörur hafa hækkað um 100%. Þetta tjón endurspeglast meðal annars í því að eignir lífeyrissjóða landsmanna var í ársbyrjun 2008 rúmir 20 milljarðar evra. Í dag eiga lífeyrissjóðirnir tæpa 10 milljarða evra.

Þá bætast við:

  • hæsta verðbólga í Evrópu,
  • hæstu vextir í Evrópu,
  • við erum að verða ein skattpíndasta þjóð Evrópu
  • og það sem versta er að vegna gengisfallsins þá eru launþegar á Íslandi orðnir þeir launalægstu í vestur Evrópu. Lægstu laun hér eru orðin mjög svipuð í evrum talið og í Póllandi.

"Allt þetta og miklu meira" fáum við fyrir það að vera að reyna að halda hér úti sjálfstæðum gjaldmiðli.

Er ekki mál að linni?

Mynd: Á Landmannaleið, við Frostastaðavatn. 

 


mbl.is Verðbólgan 7,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið að þurrka út bygginga- og verktakastarfsemina í landinu.

Einkennilegar eru þær áherslur sem hér hafa tíðkast hjá opinberum aðilum þegar kreppir að. Af einhverjum ástæðum þá þykir það sjálfsagt mál að skera niður eins og hverjum og einum lystir í bygginga- og verktakastarfsemi um leið og einhver samdráttur verður í tekjum hins opinbera. Það þykir eðlilegt að þegar skorin eru niður fjárframlög opinbera aðila að þegnar samfélagsins sitji þá ekki við sama borð þegar kemur að þeim niðurskurði.

IMG_3753Á sama hátt þá þykir sjálfsagt mál að allir geti farið í gang með allar þær framkvæmdir sem mönnum dettur í hug þegar þenslan er hvað mest. Geti innlendir byggingaaðilar ekki sinnt öllum þessum verkefnum þá eru ráðnir erlendir verktaka í verkið og þeir fengnir til að byggja hér skóla og og annað fyrir sveitarfélög landsins.

Í þessari afstöðu íslenskra stjórnvalda til verklegra framkvæmda, sérstaklega á krepputímum, endurspeglast mikill munur á milli þeirra og stjórnvalda í löndunum hér í kring. Þau lönd hafa fyrir löngu áttað sig á því að það má ekki skilja bygginga- og verktakaiðnaðinn eftir úti í kuldanum þegar kreppir að með tilheyrandi gjaldþrotum og eignabruna í greininni. Þar ríkir félagslegt jafnrétti þar sem bygginga- og verktakastarfsemi er jafn rétthá öðrum atvinnugreinum.

Á Íslandi þykir það sjálfsagt mál að stór hluti fyrirtækja í þessum geira séu þurrkuð út með reglulegu millibili. Mörg helstu fyrirtækin sem voru starfandi hér 1990 voru árið 2000 flest horfin af sjónarsviðinu eftir gríðarlegan verkefnaskort í næstum heilan áratug. Má þar nefna fyrirtæki eins og Hagvirki, Byggðaverk, Steintak, SH verktaka, Ármannsfell, Álftarós o.s.frv., o.s.frv.

Uppsveifla sem hófst upp úr 2000 í þessum geira var að mestu keyrð áfram vegna þess að hér var mikil uppsöfnuð þörf fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði því lítið hafði verið byggt á áratugnum frá 1990 til 2000. Má nefna á á árunum 1994 og 1995 var byrjað á færri íbúðum í Reykjavík en í kreppunni sem kom eftir hvarf síldarinnar árin 1967 og 1968.

Nú þegar ein af dýpstu kreppum Íslandssögunnar ríður yfir þá á að taka þessa grein samfélagsins sömu tökum og áður. Nánast allir liðir í fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar eru með óbreytta krónutölu frá fyrra ári nema þegar kemur að nýframkvæmdum og viðhaldi. Það er stærstan hluta niðurskurðarins í fjárlagafrumvarpinu að finna. Eftir höfðinu dansa limirnir því sama er uppi á teningnum í nær öllum sveitarfélögum landsins. Ríkið stjórnar í dag bönkunum og Íbúðalánasjóði og þar er lítið verið að lána til framkvæmda, nýbygginga eða íbúðakaupa. Seðlabankinn heldur öllu fé landsmanna föstu inni í bönkunum með því að bjóða svimandi háa innlánsvexti og þannig halda Seðlabankinn, bankarnir og Íbúðalánasjóður fasteignamarkaðnum í frosti. Þver öfug stefna er í í Noregi en þar streymir fé út úr bönkunum inn á fasteignamarkaðinn vegna vaxtastefnunnar sem þar er rekin.

Um ofangreint má einnig lesa hér:

Ég hef mikið velt fyrir mér hvers vegna menn leyfa sér að taka þessa grein samfélagsins svona tökum. Eina niðurstaðan sem ég hef komist að er að þessar starfsgreinar hafa ekki með sér samtök sem standa undir nafni og þau hafa ekki átt í áratugi talsmann sem talar þeirra máli.

Ég held það hafi verið mikil mistök þegar menn lögðu niður Verktakasambandið á sínum tíma og sameinuðu það Samtökum iðnaðarins. Þessi stóru samtök hafa aldrei virkað sem fulltrúar og talsmenn byggingar- og verktakaiðnaðarins. Þessi samtök hafa verið að sinna öðrum hagsmunum. Komið í veg fyrir að óhollustan sem börn og unglingar þamba og borða í óhófi sé skattlög og sinnt slíkum þjóðþrifamálum. Þegja svo þunnu hljóði þegar bygginga- og verktakaiðnaðurinn er lagður í rúst. 

Með þeim gríðarlega niðurskurði í verklegum framkvæmdum sem nú standa fyrir dyrum á næsta ári hjá hinu opinbera þá stendur bygginga- og verktakaiðnaðurinn einn. Hann er óskipulagður, án raunverulegra hagsmunasamtaka og án talsmanns, án andlits.

Þess vegna leyfa ráðamenn sér að ganga yfir þessa grein atvinnulífsins á skítugum skónum.

Hilmar Konráðsson hjá Verktökum Magna ehf. á heiður skilið fyrir hans framlag við að standa að sameiginlegum mótmælum verktaka við þessum niðurskurði. Mótmæla á fyrirhuguðum niðurskurði með því að verktakar ætla að mæta með vinnuvélar sínar á Austurvöll í dag kl. 13.45.

Mynd: Á Landmannaleið, Dómadalur.

 

 


mbl.is Verktakar á Austurvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þjóðin meðvirk eins og nýbarin eiginkona ofbeldismanns?

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með umræðum um skattaívilnanir til handa fyrirtæki sem vill reisa hér gagnaver. Fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu þess manns sem ber hvað mesta ábyrgð á því að banki í einkaeigu veðsetti þjóðina á tæpum tveim árum fyrir um 1.500 milljarða með því að safna innlánum í Bretlandi  og Hollandi.

IMG_3752Engir menn hafa komið fram við þjóðina með slíkum hætti og það fólk gerði sem veðsetti íslensku þjóðina fyrir heilli landsframleiðslu þegar það safnaði þúsundum milljarða af sparifé almennings í Hollandi og Bretlandi inn á reikninga Landsbankans.

Engir menn hafa misþyrmt og eyðilagt orðspor íslensku þjóðarinnar á jafn afdrifaríkan hátt og það fólk sem veðsetti þjóðina fyrir Icesave.

Engir menn hafa lagt aðrar eins fjárhagslegar byrgðar á íslensku þjóðina og á börnin okkar og þessir menn gerðu þegar þeir ákváðu að safna þúsundum milljarða af sparifé Breta og Hollending inn á reikninga Landsbankans í Austurstræti.

Það að Alþingi ætli nú að taka einum af aðalleikurunum í Icesave málinu og fyrirtæki hans opnum örmum og veita því sérstakar skattaívilnanir, það er með ólíkindum.

"Það er sama hvaðan gott kemur" segir þjóðin með sprungna vör, glóðaraugu og brotin rifbein eftir spörk og högg ofbeldismannsins um leið og hann lætur glitta í dollarana sína.

Nei takk, segi ég.

Þetta fyrirtæki á ekki að fá sérstakar ívilnanir meðan þessi maður er þarna inni sem stór eigandi.

Við eigum að koma okkur út úr þessu sambandi. Hættum að láta misþyrma okkur. Skiljum á borði og sæng við þennan mann og hefjum nýtt líf án hans og hans líka. Þessu sambandi við þetta fólk verður að ljúka þó það kosti einhverjar fórnir.

Mynd: Á Landmannaleið, Dómadalsvatn. 

 

 


Loks búið að ganga frá endurreisn bankana.

Margir þeir erlendu sérfræðingar sem hafa tjáð sig um endurreisn bankana hafa undrast hve langan tíma endurreisn þeirra hefur tekið. Sumir þessara sérfræðinga hafa kveðið mjög fast að orði í undrun sinni og fullyrt að hvergi í heiminum hafi menn leyft sér að dunda í því jafn lengi og hér að ljúka gerð efnahagsreikninga bankana og endurfjármögnun þeirra.

IMG_3751Margir erlendir aðilar fullyrða einnig að þessi níu mánaða dráttur sem varð á fyrstu endurskoðun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, hafi fyrst og frest stafað að því að efnahagsreikningar bankana lágu ekki fyrir. Þetta var forsenda þess að AGS gæti tekið málið fyrir á fundi og samþykkt að afgreiða næsta skammt af peningum til Íslands að þessir reikningar bankana lægju fyrir. 

Til að hylma yfir eigin slóðaskap og beina athyglinni frá eigin seinagangi við að útbúa þessa reikninga þá fór stjórnsýslan að beina athyglinni annað og gefa í skyn að tafirnar á afgreiðslu mála hjá AGS væru um að kenna afstöðu AGS og Norðurlandanna til Icesave. Reynt var að finna annan sökudólg og benda á aðrar ástæður en raunverulegu ástæður þessarar seinkunar.

Það að samfélagið hefur verið hér með nánast óstarfhæft bankakerfi í 15 mánuði hefur gert mikinn skaða meiri og mikinn vanda enn verri. 

Vonandi að þess sjáist fljótlega merki að við erum aftur komin með starfhæft bankakerfi.

Mynd: Á Landmannaleið, Dómadalsvatn.

 


mbl.is Endurreisn bankanna lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband