Það er engin lausn að gera bankafólkið gjaldþrota.

Það er engin lausn að gera þá hundruð starfsmanna sem fengu lán til að kaupa hlutafé í bankanum sem það starfaði í gjaldþrota. Það eina sem samfélagið fær út úr því er brotið fólk og brotnar fjölskyldur.

Fossvogsdalur aGríðarlega mikið fé og miklar eignir töpuðust í Hruninu.  Nú þarf að horfast í augu við þetta tjón og afskrifa það sem hefur tapast. Þetta tjón er það umfangsmikið og snertir svo marga að sú tiltekt sem þarf að fara fram verður að vera á samfélagslegum forsendum þannig að hér verði ekki enn meira tjón en orðið er. Við getum ekki minnkað fjárhagstjón okkar en við getum komið í veg fyrir að hér verið meira samfélagstjón.

Ég hef gagnrýnt mjög bankana eins og víða má lesa á þessu blogg mínu. Ég vil sjá miklar breytingar á starfsemi þeirra, jafnt breytingar á þeim lögum sem þeir starfa eftir og ég hef mælt með mikilli endurnýjum á stjórnendum þeirra. Hvorutveggja hefur verið og er í gangi. Eins að hafi menn brotið lög þá verði menn dæmdir.

Hins vegar finnst mér það ekki rétt að við förum að elta það starfsfólk sem bauðst að kaupa á sérkjörum hlutabréf í bankanum sínum og gera það gjaldþrota. Það græðir enginn neitt á því.

Markmið okkar nú sem samfélags hlýtur að vera það að sem flestir komist óbrotnir út úr þessu hruni og sem flestir geti tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er á næstu árum.

Mynd: Fossvogsdalur, 1.11.09

 


mbl.is Þrýstu á um að sleppa við að borga skatta af afskrifuðum skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fékk kúlulán = tók við mútum til að falsa gengi hlutabréfa!      Þurfti ekki að borga nema lámarks lántökugjald o.fl., fékk arð, skattalegt hagræði og fleira.     Vitorðsmenn glæpamanna eiga ekki að sleppa á einn eða neinn hátt,  þeir settu sig í þessa stöðu og eiga að taka afleiðingunum og láti svo almenning bera byrðarnar.  Þeir hafa brotið fjölskyldur, valdi úlfúð og leiðindum í þjóðfélaginu og eiga ekkert gott skilið umfram aðra!

Ragnar

Ragnar Eiriksson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 12:45

2 identicon

"Það er engin lausn að gera þá hundruð starfsmanna sem fengu lán til að kaupa hlutafé í bankanum sem það starfaði í gjaldþrota."

En það er réttlæti, Friðrik, harðýðgi er hið sanngjarna í þessu máli. Þetta fólk skammtaði sjálfu sér lánakjör og seldi fyrir slæleg vinnubrögð í bönkum sem nú leiða til kostnaðar fyrir okkur öll. Þar fyrir utan vitum við ekki hvað fengist úr gjaldþrotunum, kannski yrði það þó eitthvað og væri þá vel þess virði. Ef þessu "besta fólki okkar" liði eitthvað illa með þetta þá gæti það einfaldlega hypjað sig úr landi. Þar að auki er í flestum tilfellum um að ræða yfirmenn sem keyptu fyrir miklar upphæðir og bera jafnframt mikla ábyrgð á hvernig bankarnir voru reknir.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 13:07

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Er það eitthvað eðlilegt að einstakar fjölskyldur eigi einbýlishús eða raðhús sumarbústað jeppa fólksbíl sleða hesta fjórhjól mótorhjól golfsett og fari að minnstakosti þrisvar til útlanda á ári. Þar er spurning um lífstíl og honum verðum við að breyta annað gengur ekki upp. Hvað ef ekki hefði orðið hrun heldu þú að þessar fjölskyldur hefðu borgað eitthvað aukalega til samfélagsins eftir þann væntanlega stórgróða? Hvers vegna á ekki eitt yfir alla að ganga ef það verður ekki gert þá splundrast þjóðin endanlega.

Sigurður Haraldsson, 13.11.2009 kl. 13:21

4 identicon

"Er það eitthvað eðlilegt að einstakar fjölskyldur eigi einbýlishús eða raðhús sumarbústað jeppa fólksbíl sleða hesta fjórhjól mótorhjól golfsett og fari að minnstakosti þrisvar til útlanda á ári."

Já, það er raunar fullkomlega eðlilegt, ef heiðarlega var unnið fyrir því. En það er ekki svo í öllum tilfellum.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 14:24

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Fallegt að vilja standa vörð um þá sem ætluðu að skófla til sín gróðanum, í skjóli sérkjara, en vilja ekki gangast við tapinu.

Það er sennileg heldur engin lausn að stinga Lalla Johns sí og æ í tugthús fyrir smáhnuplið hans.

En allir verða að lúta lögunum. Og sérkennilegt ef sett yrðu lög til bjargar sérhagsmunahópnum, sem hugðist nýta sér gróðatækifæri sem almenningi bauðst ekki.

Ketill Sigurjónsson, 13.11.2009 kl. 14:34

6 identicon

frekar að skattleggja þessa peninga heldur en almennar skattahækkanir á alla !!!!

Guðný (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 14:49

7 identicon

Það er aldrei gott mál þegar einhver verður gjaldþrota. En harmleikir ókunnugs fólks eru vissulega missorglegir í mínum augum.

Þetta fólk sem þú sérð aumur á tilheyrir þeim flokki sem fær lágmarks samúð úr mínu horni !!

Mikið af þessu fólki hagnaðist stórkostlega meðan góðæðið gekk yfir, hegðaði sér líkt og rokkstjörnur og naut ómældrar aðdáunar alþýðunnar sem þvert á móti "hagnaðist" einungis á hækkandi húsnæðisverði (ef hagnað skyldi  kalla).

Þetta fólk, bankafólkið, (ekki skúringakonan og gjaldkerinn) ætti, umfram flesta landa sína, að vera tilbúið fyrir smá fjárhagslegan brotsjó.

Það er göfugt að bera umhyggju fyrir öðrum, en umhyggjan hefur, verður að hafa, sín takmörk !! Meðvirkni á ekkert skylt með umhyggju þrátt fyrir svipað hegðunarmunstur þolanda og á meðan Jón er að missa allt sitt þá verður það sama að ganga yfir nafna hans sem ber titilinn séra !!!

runar (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 15:36

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Já, þið segið það.

Mín tilgáta er sú að vildarkaup þessa fólks á hlutafé í bönkunum hafi í raun verið mútugreiðslur frá eigendum bankana til þessara starfsmanna. Þetta voru "greiðslur" sem þetta fólk fékk fyrir að ganga erinda eigendanna. Þetta fólks samþykkt lán og aðrar fyrirgreiðslur til eigenda bankanna og fékk sem þóknun fyrir "vel unnin störf" að kaupa bréf í bankanum á þessum vildarkjörum. Þannig "keyptu" ákveðnir eigendurnir þessa starfsmenn og létu þá gera hvað eina sem þeim datt í hug.

Það breytir ekki því að þetta er horfinn heimur.

Ég vil ítreka það sem ég nefni hér fyrir ofan og hef gert áður, ég vil að þetta fólk fari út úr bönkunum og finni sér annan starfa. Lengra vill ég ekki ganga í að refsa þessu fólki. Ég sé ekki tilganginn almennt með því að gera fólk gjaldþrota í þessu hruni.

Hins vegar vil ég að gerðar verði eftirfarandi breytingar á lögum um fjármálastofnanir og eftirfarandi ákvæði sett inn: 

  • Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
  • Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
  • Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
  • Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum á samkeppnismarkaði.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.11.2009 kl. 17:25

9 identicon

Segðu þetta við þær þúsundir fjölskyldna sem eru í gjaldþroti núna... segðu þeim að þeir sem tóku mest, voru gráðugastir.. að það sé ekkert sniðugt að þeir þurfi að standa skil eins og aðrir og aðrar fjölskyldur.

Við skulum bara fá lánuð orðin hans Bjarna Ármanns: Það er óábyrgt af okkur að láta þessar fjölskyldur borga...

DoctorE (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 17:39

10 identicon

Viltu ekki "refsa" fólki?

Er það refsing að greiða skatta af "greiðslum sem þetta fólk fékk fyrir að ganga erindum eigendanna"?

Guðný (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 19:26

11 identicon

Mér findist að það ætti að díla við bankastarfsmenn,bankarnir og íbúðalánasjóður færi öll lán til greiðslu hjá íbúða og bilaeigendum eins og þau voru í maí 2008,í staðinn fá þeir skattaafsláttinn.Er það ekki bara sanngjarnt,þjóðin myndi örugglega samþykkja það.

S.Árnason. (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 19:44

12 identicon

Ef bankamönnunum yrði "fyrirgefið" eitthvað af græðgi sinni þá væri lágmark að þeir skiluðu öllum arði, með vöxtum og verðbótum, sem þeir hirtu af hlutabréfunum sem þeir borguðu aldrei.

Arðurinn einn og sér, af kúlulána-hlutabréfakaupum þeirra, er mældur í tugum og hundruðum milljóna hjá þeim flestum. Þetta er ekkert annað en þýfi, sem þessu fólki ber siðferðileg skylda til að skila samfélaginu. Þetta á líka við um Þorgerði Katrínu og Kristján í Hafnarfirðinum.

Ingi GunnarJóhannsson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 21:15

13 Smámynd: Magnús Jónsson

Friðrik :1,5% var það ekki eða áttirðu við 15% í alvöru, ég trúi ekki að þú sért að réttlæta 15 % vexti í raun eða hvað????

Magnús Jónsson, 14.11.2009 kl. 00:25

14 Smámynd: Snjalli Geir

Einsog einn bankastjórin / útrásarvíkingurinn orðaði það þegar þeir borguðu sér út himinn háan arð:  "Þeir sem taka áhættu og fjárfesta í bankastarfsemi eiga að njóta þess".

þEIR GERÐU ÞAÐ OG VIÐ SKULUM BARA HAFA ÞAÐ ÞANNIG. 

Snjalli Geir, 14.11.2009 kl. 09:24

15 identicon

Stór hluti af þessu bankafólki á dýrar eignir og stórar fjárhæðir inn á reikningum erlendis.

Með því að gera fjárnám hjá þessu fólki gætu bankarnir fengið stóran hluta af því fé sem þetta fólk fé "lánað" hjá bönkunum.

Skattayfirvöld á Íslandi telja að um 1000 milljarðar ískr séu faldir í erlendum skálkaskjólum.

Hermann (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 09:41

16 identicon

DOH !

Ef þeir sem nutu góðs af þessum "lánum" hefðu náð að fá xx milljónir í gróða hefðu þeir verið ánægðir og sjálfsagt keypt sér hús bíl og bát.

Ef af því að þeir tapa á þeim, þá á að sleppa þeim við að borga ?

Vá hefuru enga réttlætikend maðr ? Auðvitað eiga þeir að þurfa að greiða allt til baka. alveg einsog VIÐ hin !

BTG (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 09:59

17 Smámynd: Höfundur ókunnur

Gíruð kaup í hlutabréfum eru alltaf áhættusöm, mun áhættusamari en hefðbundin kaup.  Þetta vissi bankafólkið, eða átti amk. að vita (ellegar er það ekki starfi sínu vaxið).

Hinn venjulegi Íslendingur þarf að borga af öllum sínum lánum, sem flest eru á verri kjörum en lán gegn hlutafjárkaupum. Enginn afsláttur í boði þar. Samfara afskriftum er yfirleitt bein leið inn á vanskilaskrár.

Mín skoðun er sú að mjög margir eigi eftir að verða gjaldþrota, og það er eina leiðin. Bæði bankafólk og aðrir. Það þarf bara að breyta viðhorfinu gagnvart gjaldþroti og viðurlög...ekki má endalaust endurvekja kröfur osfrv. Ef 5% þjóðar verður gjaldþrota breytist sjálfkrafa almenningsálit, þetta verður ekki sami smánarstimpill og verið hefur.

Skv. reglum FME má fólk sem hefur lent í greiðsluerfiðleikum ekki starfa í bönkum. Þannig var ég látinn fylla út þegar ég átti minn stutta frama innan bankakerfisins. Engin sanngirni er í því að hafa Sveinbjörnsson í efsta laginu hjá Kaup, né heldur að hafa Birnu á sama stað hjá hinum. Þau eru bæði sek um vangreiddar skuldir, fyrirsjáanlega amk. ef ekki nú þegar.  Að vísu var stigsmunur á þeirra einkamálum.

Höfundur ókunnur, 14.11.2009 kl. 10:27

18 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Ég sé í blöðunum í morgun að það hefur komið fram í fréttum á Stöð 2 í gærkvöldi að þetta mál er ekki eins vaxið og mátti skilja á frétt mbl.is.

Ef þetta mál snýst um það að skatturinn er að enduráætla skatt á einhverja 28 einstaklinga, þar á meðal fyrrum æðstu stjórnendur Kaupþingi og hæsta endurálagningin er 200 milljónir, þá er þetta allt annað mál. Ég geri engar athugasemdir við það.

Ég skildi þetta mál hins vegar þannig að hér ætti að leggja skatt á nokkur hundruð manns og taldi að skatturinn yrði það hár að þetta fólk færi allt í gjaldþrot og ég sé engan tilgang í því.

Nr. 9 - DoktorE

Það er mitt mat að við sem þjóð höfum ekki efni á því að fara að gera nokkur hundruð fjölskyldur gjaldþrota, hvað þá þúsundir fjölskyldna. Það má bara alls ekki gerast. Þingið hefur verið að vinna í því að koma í veg fyrir að svo verði með nýjum og breyttum  lögum um greiðsluaðlögun, gjaldþrotalögum og nú síðast frábært frumvarp Lilju Mósesdóttur um að ábyrgðir takmarkist við þá eign sem veðsett er. Er það vel.

Ég vil ítreka það sem ég segi hér fyrir ofan. Við verðum að reyna að takmarka það tjón sem við sem þjóð erum að verða fyrir vegna hrunsins. Ef við ætlum að setja alla þá sem nú eru í erfiðleikum í gjaldþrot þá munum við stórauka það tjón sem kreppan er og hefur valdið okkur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2009 kl. 12:36

19 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Magnús, nr. 13

Ég geri ráð fyrir að þú sért að vísa til þess að ég legg til að bankar megi hagnast um sem samsvarar 15% af eigin fé.

Þetta er ekki misritun, þetta eru 15%.

Taktu eftir, þetta er af "eigin fé". Ef þú leggur fé í banka þá er í eðlilegu árferði boðið upp á 3% til 7% ávöxtun eftir löndum og gjaldmiðli. Þeir sem kaupa hlutafé í banka myndu þá fá að hámarki 15% ávöxtun á sínu fé. Það er helmingi hærra en á bestu bankabókum en menn eru líka að taka áhættu með sitt fé að kaupa hlutabréf, þess vegna verður ávöxtunin að vera hærri.

Þessa tölu og þau ákvæði sem ég vitna til í innslagi nr. 8, það eru allt ákvæði sem finna má í lögum og reglum um banka í löndunum hér í kring.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2009 kl. 12:52

20 Smámynd: ThoR-E

Þetta fólk fékk milljónir í arð vegna þessara hlutabréfa, en þarf ekki einusinni að borga fyrir bréfin sjálf.

Er ekki lágmarkið að það borgi skatta af þessu ???

Ég þarf að borga mínar skuldir. Ég hef þurft að borga skatt af mínum tekjum í gegnum tíðina.

Á ekki sama að ganga yfir alla ?

ThoR-E, 14.11.2009 kl. 13:44

21 identicon

Þú segir nokkuð í lögum og reglum í nágrannalöndum okkar voru þær reglur hjá þeim fyrir hrunið,af hverju hafa ekki verið slíkar reglur hérlendis,við erum ætíð að miða okkur við aðra.Var frjálsræðið svona yfirgengilegt eftir að bankarnir voru einkavæddir.Máttu menn leika sér eins þeir vildu í skjóli frjálshyggjunnar.

S.Árnason. (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 13:45

22 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll AceR

Ég er ekki að mæla með að þetta fólk borgi ekki skatta af sínum tekjum.

Ég er að leggja til að við gerum þetta fólk ekki gjaldþrota geti það ekki í dag borgað þessa skatta

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2009 kl. 14:23

23 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll S.Árnason

Sum þessara ákvæða sem ég vísa í færslu nr. 8 til er að finna í lögum nágranna okkar og sum eru reglum sem bankarnir sjálfir hafa sett sér.

Til dæmis það ákvæði að bankastjórar og útibússtjórar mega ekki eiga hlutabréf í fyrirtækjum, þetta ákvæði hefði komið í veg fyrir glórulaus lán þeirra til fyrirtækja sem þeir sjálfir áttu í. Eins voru þeir í aðstöðu til að setja fótinn fyrir fyrirtæki sem voru í samkeppni við fyrirtæki sem þeir áttu hlut í.

Eins að stórir eigendur bankanna gátu notað bankana til að sölsa undir sig allt Íslandi með botnlausum lánum til sjálfra sín og sett samkeppnisaðilana upp við vegg.

Það er alveg með ólíkindum að þessi ákvæði sem ég nefni skuli ekki enn vera komin inn í lög og reglur um fjármálastarfsemi á Íslandi.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2009 kl. 14:33

24 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Live by the sword, die by the sword" is a metaphorical expression meaning that living one's life in a certain way will, in the end, affect one's destiny. The proverb comes from the Book of Matthew, verse 26:52, which describes a follower of Jesus drawing a sword to defend him against Roman soldiers, but is rebuked by Jesus, who tells him to sheath the weapon:

Then said Jesus unto him, Put up again thy sword into his place: for all they that take the sword shall perish with the sword.
—Matthew 26:52, King James Version
 
###############################################################
 
Þeir eiga að fá að njóta ávaxatanna af því sem þeir hafa gert.
 
Snjalli Geir skrifaði: "Eins og einn bankastjórin / útrásarvíkingurinn orðaði það þegar þeir borguðu sér út himinn háan arð:  "Þeir sem taka áhættu og fjárfesta í bankastarfsemi eiga að njóta þess".
 
Látum þá "njóta þess" sem þeir hafa gert.

Hörður Þórðarson, 15.11.2009 kl. 18:37

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband