Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hversdagshetja verðlaunuð

Holtasóley

Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fá Sigríður Höskuldsdóttir fyrir þátttöku sína og dugnað við sölu á styrktarmiðum fyrir átakið "Karlmenn með krabbamein" og Krabbameinsfélagið fyrir þrotlaust starf sitt við baráttuna við þennan marbrotna og illvíga sjúkdóm.


mbl.is Ofursölustúlka verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn, veljum nýtt fólk til forystustarfa. Gefum fyrrverandi ráðherrum frí.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná árangri í komandi kosningum þá þurfum við stuðningsmenn flokksins að gera tvennt:

  • Gefa öllum fyrrverandi ráðherrunum frí í þessu prófkjöri.
  • Skipta um sem flesta í tveim efstu sætunum í öllum kjördæmum.

Berlin_maí45Nú horfir þjóðin til okkar stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og spyr hvernig við ætlum, eftir 18 ára stjórnarsetu, að axla okkar ábyrgð á þessu mesta efnahagshruni sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.

Ég skora á félaga mína í Sjálfstæðisflokknum sem ætla að kjósa í prófkjörinu nú um helgina að sýna þjóðinni að við stuðningsmennirnir ætlum að axla okkar ábyrgð með því að kalla núverandi trúnaðarmenn okkar til ábyrgðar.

Það gerum við með því að kalla nýtt fólk til forystustarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Leyfum sem flestum af núverandi þingmönnum okkar að fóta sig utan Alþingis á vinnumarkaðnum eins og hann er í dag. Leyfum þeim að finna á eigin skinni hvaða afleiðingar aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi hafa haft.


Rekum stjórnendur bankana frá útibústjórum og upp úr. Fyrr treystir enginn bönkunum.

IMG_1662 (2)Spillingin sem viðgengist hefur í bönkunum, hjá eigendum þeirra og stjórnendum virðist hafa verið mikil. Bankarnir hafa notað greiða og gjafir, lán og fyrirgreiðslur til að afla sér rekstrarfjár og viðskiptavina. Með greiðum og gjöfum, fyrirgreiðslum og lánum virðast þeir hafa náð heljatökum á okkar litla samfélagi. 

Sukk og óráðssía virðast hafa stjórnað för þar sem fé bankana var sólundað. Með því að bjóða viðskiptavinum, stjórnmálamönnum, fréttamönnum og embættismönnum í veiðiferðir og fótboltaleiki erlendis og svo framvegis þá voru bankarnir að kaupa sér velvild. Að kaupa velvild er ekkert annað en mútur.

Sú dapurlega niðurstaðan blasir við að stærstu eigendur bankana sem sátu í bankaráðum og stjórnendur bankana sjálfra virðast hafa haft lítið ef nokkurt vit á bankarekstri.

Við stöndum nú frammi fyrir því að í bönkunum sitja nánast allir sömu stjórnendurnir og tóku þátt í að keyra þá og síðan samfélagið okkar í þrot. Sama máli gegnir með Fjármálaeftirlitið. Þar var forstjórinn rekinn en aðstoðarforstjórinn var látinn taka við og ekki hreyft við neinum starfsmanni þar inni. Þetta vanhæfa fólk er nú að rannsaka sinn eigin þátt  í bankahruninu, eins gáfulega og það hljómar.

Quisling leiddi þjóðverja inn í Noreg og stjórnaði í þeirra nafni Noregi öll stríðsárin. Í lok stríðsins var hann tekinn til fanga, dæmdur til dauða og skotinn. Í framhaldinu eltu Norðmenn upp alla "Kvislinga", það er menn sem höfðu aðstoðað Quisling og þjóðverjana meðan á hernámi Noregs stóð. Þessa "Kvislinga" eltu Norðmenn uppi eftir stríð og drógu þá fyrir dóm eða drápu.

Á Íslandi eru eigendur bankana okkar "Quisling". Eva Joly og hennar lið mun vonandi elta þá upp. Við Íslendingar þurfum hins vegar að elta uppi okkar "Kvislinga", fólk sem aðstoðaði eigendur bankana við að féfletta þjóðina. Þessir "Íslensku Kvislingar", þeir sitja allir enn í sínum stöðum í bönkum landsins og í Fjármálaeftirlitinu. Það er óþolandi að þetta fólk sé enn að stjórna bönkunum okkar.

4% þjóðarinnar treystir bönkunum í dag. Það verður að taka á því máli.

Nú þegar allir bankar landsins eru orðnir ríkisbankar þá krefst ég þess að allir þeir sem sátu sem stjórnendur í þessum bönkum þegar bankahrunið varð, útibústjórar og upp úr, þeir verði reknir úr þessum störfum sínum fyrir þjóðina.

Á síðustu 2 til 7 árum var mjög miklu af okkar reyndasta bankafólkinu sagt upp störfum og skipt út fyrir ungt reynslulítið fólk. Þetta nýja fólk hefur verið sett í stjórnunarstöður sem það greinilega hefur ekkert ráðið við.

Endurráðum okkar reynda bankafólk og látum það stjórna þessum ríkisbönkum okkar og ráðum með því nýtt fólk til aðstoðar.

Fyrr næst engin sátt um bankana okkar. Það mun engin treysta bönkum með sama fólk þar við stjórnvölinn og leiddi bankana og þjóðina í þrot. Fólk sem tók þátt í öllu sukkinu og spillingunni, segjum því öllu upp störfum.

 


mbl.is Eigendur virðast hafa fengið há lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næst fram réttlæti eftir allt?

Mótmæli qEftir að hafa hlýtt á Evu Joly hjá Agli Helgasyni og lesið hér að hún er nú orðin ráðgjafi íslenskra yfirvalda varðandi rannsóknir á efnahagsbrotum þá kviknar allt í einu hjá mér von um að við náum kannski fram réttlæti eftir allt.

Eins og málum var háttað  þá hafði ég enga von um að ætlunin væri að komast til botns í því sem hér átti sér stað. Þegar bankarnir féllu þá var það samdóma álit allra að það yrði að fá erlenda sérfræðinga til að rannsaka ástæður þess og hvort hugsanleg efnahagsbrot hefðu átt sér stað.

Í stað þess að ráða manneskju eins og Evu Joly í október í fyrra þá fékk þáverandi dómsmálaráðherra tvo feður, þá Valtý Sigurðsson og Boga Níslen til m.a. að rannsaka embættisfærslur sona sinna. Annar sonurinn var forstjóri Exista hf., hinn sonurinn yfirmaður lögfræðideildar FL Group hf. Feðurnir áttu síðan að gefa dómsmálaráðherra álit sitt á því hvort þörf væri á frekari rannsókn.

Ég hef aldrei orðið vitni að jafn blygðunarlausri tilraun til yfirhylmingar af hálfu stjórnsýslunnar. Þá missti ég alla von um að það væri ætlun stjórnvalda að rannsaka þessi mál af alvöru. Mér varð ljóst að þessum málum öllum átti að sópa undir teppi.

Nú vaknar hins vegar von hjá mér og væntanlega fleirum sem krefjast réttlætis.

 


mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög á bankana, starfsmenn þeirra og eigendur.

Í lögum flestra landa er  að finna eftirfarandi lagaákvæði.

  • Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
  • Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
  • Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
  • Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum á samkeppnismarkaði.

IMG_1664 (2)Ég skora á stjórnvöld að setja á bankana, starfsmenn þeirra og eigendur lög í líkingu við það sem hér er líst að ofan.

Óbreytt lagaumhverfi þar sem bankarnir eru sjálfir að gambla í kaupum á hótelum, byggingalóðum, fyrirtækjum og fasteignum er í raun fáránlegt.

Eins að stjórnendum bankana skuli vera heimilt að eiga fyrirtæki eða vera hluthafar í fyrirtækum sem eru í viðskiptum hjá þeim sjálfum. Að staðan skuli hafa verið þannig undanfarin ár og vera þannig enn að stjórnendur bankana hafi verið í aðstöðu til að útvega eigin fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í fyrirgreiðslu og lán er einnig fáránlegt.

Verst er þó að eigendum bankana skuli vera leyft að eiga í öðrum fyrirtækum. Við sjáum hvernig það endaði. Kaupþing lánaði fyrirtækum eigenda sinna 500 milljarða.

Ekki bara er núverandi ástand ávísun á sukk, spillingu og ógætilega meðhöndlun fjár heldur eru allar líkur á að núverandi ástand hindri samkeppni. Það hlýtur að vera tilhneiging hjá bönkunum, starfsmönnum og eigendum þeirra að veita ekki bara eigin fyrirtækum "sérstaka" fyrirgreiðslu heldur líka setja steina í götu samkeppnisaðilanna.

Setjum ströng en réttlát lög á bankana.

Komum í veg fyrir aðra helreið í boði bankana, starfsmanna þeirra og eigenda.


mbl.is Gylfi: Fleira kom til hjá Straumi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn, kjósum nýtt fólk í efstu sætin í komandi prófkjörum um land allt.

Senn líður að prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná árangri í komandi kosningum þá þurfum við stuðningsmenn flokksins að gera tvennt:

  • Skipta um forystumenn í öllum efstu sætum listans í öllum kjördæmum.
  • Ekki bara kjósa nýjan formann á Landsfundi heldur einnig nýjan varaformann og ritara. 

Nú horfir þjóðin til okkar landsfundarfulltrúa og stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og spyr hvernig við ætlum að axla okkar ábyrgð á þessu mesta efnahagshruni sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.

Ég skora á félaga mína í Sjálfstæðisflokknum sem ætla að kjósa í prófkjörum á næstunni að sýna þjóðinni að við stuðningsmennirnir ætlum að axla okkar ábyrgð með því að kalla þessa trúnaðarmenn okkar til ábyrgðar.

Það gerum við með því að velja nýtt fólk í allar helstu trúnaðarstöður í flokknum.

Kjósum nýtt fólk í efstu sætin í öllum kjördæmum í komandi prófkjörum. Nú er tíminn til að gefa nýju fólki tækifæri. Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða endurreisn Íslands með nýju fólki í forystu um land allt. Mikið af góðu fólki er að bjóða sig fram til forystustarfa fyrir flokkinn. Gefum þessu nýja fólki tækifæri. 

IMG_1645 (2)Kippum þingmönnum flokksins út úr þinginu og leyfum þeim að fóta sig á vinnumarkaðnum eins og hann er í dag. Leyfum þessum þingmönnum að finna á eigin skinni hvaða afleiðingar aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi hafa haft.

 


Rétt ákvörðun hjá formanni Samfylkingarinnar að segja af sér.

Geir og ISGSem annar af tveim forystumönnum í síðustu ríkisstjórn þá bar formaður Samfylkingarinnar sömu ábyrgð og formaður Sjálfstæðisflokksins á mesta efnahagshruni sem nokkurt land í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Þessir tveir forystumenn þeir áttu að axla sína ábyrgð og segja af sér og hverfa af vettvangi. Það hafa þeir nú báðir gert.

Ekki þarf þjóðin að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu þessa fólks. Þau hætta á réttum tíma til að tryggja sér lúxuskjör samkvæmt eftirlaunafrumvarpi Davíðs Oddssonar. Þau lenda ekki í þeim "hörmungum" að þurfa að þiggja eftirlaun eins og ótýndir menntaskólakennarar eins og verður hlutskipti þingmanna þegar nýja eftirlaunafrumvarpið hefur verður samþykkt.

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalfjarðargöngin án kampavíns

14Þar sem umræður um Hvalfjarðargöngin ber upp með reglulegu millibili hér á blogginu mínu þá vil ég minna á eftirfarandi atriði sem ég var og er enn ósáttur við varðandi þessi jarðgöng.

Ég sá aldrei skynsemina í því hvar gögnunum var valin staður. Að velja Hnausaskersleiðina sem var dýrari kosturinn skildi ég aldrei. Ef Kiðafellsleiðin hefði verið valin hefðu göngin orðið kílómetri styttri og leiðin frá Reykjavíkur til Akureyrar hefði stytts um níu kílómetra. Af hverju vildu menn ekki ódýrari göng og styttingu leiðarinnar til Akureyrar?

Ég var heldur ekki sáttur við þá miklu áhættu sem var tekin með því að hefja gangnagerð undir fjörðinn án nauðsynlegra jarðtæknirannsókna. Aðeins var boruð ein rannsóknarhola í landi að sunnanverðu. Hvergi í heiminum hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla framkvæmd á grundvelli jafn lítilla rannsókna. Vegagerðin hefur verið að skoða möguleika á því að þvera Kleppsvíkina með göngum. Þar er gert ráð fyrir að bora 15 til 20 rannsóknarholur á þeirri leið. Ég er sáttur við það. Þar er staðið rétt að undirbúningi. Hitt var bull.

Verktakar sem ætluðu að bjóða í Hvalfjarðargöngin á sínum tíma hættu við, töldu verkið og áhættusamt vegna þeirra takmörkuðu rannsókna sem lágu fyrir. Þessi mikla áhætta þýddi að þau tvö tilboð sem bárust voru mjög há. Sprengdur rúmeter í Hvalfjarðargöngunum var til dæmis 50% dýrari en rúmeterinn í aðrennslisgöngum Sultartangavirkjunar sem unnin voru á svipuðum tíma.

Að ekki sé minnst á þann gríðarlega fjármagnskostnað sem fallið hefur aukalega á þetta verk vegna þess að það er eignarlaust félag sem er eigandi þeirra og tekur öll lánin. Ef Vegagerðin hefði verið falin gerð gangana þá hefði þessi fámagnskostnaður verði minnst tvöfalt lægri. Vegagerðin/ríkið hefði fengið miklu hagstæðari lánakjör en hlutafélag sem var án ríkisábyrgðar að gera göng. Kostnaður  almennings sem borgar þessi göng, hefði verið miklu lægri ef staðið hefði verið að gerð þeirra með hefðbundnum hætti og þau fjármögnuð gegnum fjárlög.

Þá skildi ég aldrei að gerð gangana væri kölluð einkaframkvæmd. Þegar Ríkið, Vegagerðin, sveitarfélögin í Hvalfirði og Sementsversmiðjan sem var 100% í eigu ríkisins stofna saman hlutafélag um að gera jarðgöng er það þá "einkaframkvæmd"? Ríkið lét síðan þetta félag sitt fá án útboðs einkarétt á þverun Hvalfjarðar og heimild til gjaldtöku að vild.

Rangar eru þær fullyrðingar að ríkið hafði ekki haft efni á að fjármagna þessi göng í gegnum fjárlög. Á þeim árum sem liðin eru frá gerð þessara ganga þá er ríkið búið eða er að gera fern önnur göng og í ofanálag borga upp allar sínar skuldir og fylla lífeyrissjóð opinberra starfsmanna af peningum. Sjóð sem átti að vera gegnumstreymissjóður. Nei, nægir peningar voru til og hafa verið til að fjármagna þessi göng með hefðbundnum hætti ef vilji hefði verið fyrir hendi.

Verst af öllu finnst mér þó að þarna skuli hafa verið hent út í ystu myrkur þeim gildum sem allar okkar framkvæmdir í vegagerð höfðu byggst á. Það að taka upp veggjald á þessum eina stað á öllu landinu er í algjörri andstöðu við allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður staðið fyrir í Íslenskri pólitík. Á grundvelli okkar gömlu gilda var innheimt gjald á eldsneyti og bíla. Því dýrari sem bíllinn var og því meir sem ekið var því meira er borgað í skatt. Þessar skatttekjur hafa verið það miklar að þær hafa einnig verið notaðar í annað. En á grundvelli þessa skattstofns og á grundvelli þess félagslega jafnréttis sem hér var í hávegum haft voru allar brýrnar yfir Svartá í Svarárdal byggðar. Einnig brúin yfir Jökulsá Austari að einum bæ, Merkigili. Sömuleiðis fjallvegurinn að fjórum bæjum á Rauðasandi fyrir Vestan. Öllum þessum gildum var fórnað þegar "Íslenski Thatcherisminn" var innleiddur í vegagerð á Íslandi. Ég hef frá upphafi hafnað þessum "Thatcherisma" og margir hafa hafnað mér vegna þess. Það verður svo að vera.

Það fellst mikið félagslegt ranglæti í því að skattleggja með þessum hætti einn landshluta umfram aðra. Slík mismunun er óþolandi. Þennan skatt átti aldrei að leggja á og þennan skatt á að fella niður strax. Þar eru siðblindir menn sem sjá ekki ranglæti í þessari gjaldtöku.

Þá leyfi ég mér að benda þeim sem áhuga hafa á að lesa meira um "Hvalfjarðargöngin án kampavíns" á annan stað hér á blogginu mínu þar sem þessi göng eru til umræðu og á gömlu heimasíðuna mín en þar er að finna þessar fimm greinar sem ég hef skrifað um málið.

http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/711516/

http://www.simnet.is/fhg/index_files/Page2550.htm

 

Myndin hér fyrir ofan er af ísbirni sem hangir inni í flugstöðinni í Kulusuk, Grænlandi. Hann var skotinn fyrir utan flugstöðina veturinn 1995 eftir að hafa brotið fjórðunginn af flugbrautarljósunum á flugvellinum.

 


Eigendurnir "rændu" bankana og skuldsettu komandi kynslóðir um ókomin ár.

RefurÞessar upplýsingar sem Morgunblaðið er að bera hér á borð staðfesta það sem marga hefur grunað frá því í bankahruninu í október. Eigendur bankana tæmdu þá innanfrá. Þessir eigendur og þeir starfsmenn bankana sem aðstoðuðu við þessi lán / millifærslur, þeir skilja þjóð sína eftir í botnausum skuldum sem þjóðin mun verða áratugum saman að vinna sig út úr. Það mun þurfa fleiri en eina kynslóð Íslendinga til að vinna sig út úr þessum skuldum.

Á síðustu árum hefur Íslenska þjóðin verið veðsettsett fyrir eftirfarandi:
  • Banki í einkaeign, Landsbankinn, safnar á tveim árum yfir 1.000 milljörðum í útlöndum inn á innlánsreikninga sem Seðlabanki Íslands ábyrgist og þjóðin er ábekkingur. Hundruð milljarða munu falla á Íslensku þjóðina vegna þessa.
  • Útgefendur Jöklabréfa koma með hundruð milljarða inn í landið og setja í ríkisskuldabréf og inn á innlánsreikninga sem ríkið ábyrgist og þjóðin er ábekkingur. Bankarnir töpuðu öllu þessu fé. Hundruð milljarða eru nú að falla á Íslensku þjóðina vegna þessara Jöklabréfa þegar útlendingarnir kalla nú eftir sínu fé, fé sem var geymt í ríkisskuldabréfum eða á reikningum sem voru með ábyrgð ríkisins.
  • Fiskveiðiauðlindina er búið að skuldsetja fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar. Þessi auðlind er sameign þjóðarinnar og þjóðin er því í raun ábekkingur á þessum skuldum. Ef útgerðin og bankarnir fara í þrot en erlendir lánadrottnar eru með veð í veiðiheymildunum, þá verður þjóðin að yfirtaka og borga þær skuldir vilji hún nýta auðlindina.

Það er ótrúlegt að einakaðilum skuli hafa tekist að veðsetja þjóðina með þessum hætti.

Þeir menn sem þetta gerðu og þeir sem þetta heimiluðu eru ekki beint að reynast þjóð sinni vel. Þeir menn sem leyfðu sér að "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.

Þeir sem þetta gerðu hljóta að verða látnir axla ábyrgð.

 

Holtasóley  

Morgunblaðið fær Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fyrir að upplýsa þjóðina um þetta mál.

 

Myndin hér fyrir ofan er af ref uppi í Veiðivötnum með dauðan álftarunga. 

 


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn, kjósum nýtt fólk í efstu sætin í komandi prófkjörum um land allt.

IMG_1426 (2) Senn líður að prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná árangri í komandi kosningum þá þurfum við stuðningsmenn flokksins að gera tvennt:

  • Skipta um forystumenn í öllum efstu sætum listans í öllum kjördæmum.
  • Ekki bara kjósa nýjan formann á Landsfundi heldur einnig nýjan varaformann og ritara. 

Forystumenn flokksins og þingmenn hans hafa leitt þjóðina inn í mesta efnahagshrun sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.

Nú horfir þjóðin til okkar landsfundarfulltrúa og stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og spyr hvernig við ætlum að axla okkar ábyrgð á þessu hruni. Á öllu þessu tapi og öllum þessum skuldum sem "okkar fólk" ber mikla ábyrgð á að hefur hvolfst yfir þjóðina.

Ég skora því á félaga mína sem ætla að taka þátt í prófkjörinu að sýna þjóðinni að við stuðningsmennirnir ætlum að axla okkar ábyrgð með því að kalla þessa trúnaðarmenn okkar til ábyrgðar.

Það gerum við með því að velja nýtt fólk í allar helstu trúnaðarstöður í flokknum.

Kjósum nýtt fólk í efstu sætin í öllum kjördæmum í komandi prófkjörum. Nú er tíminn til að gefa nýju fólki tækifæri. Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða endurreisn Íslands með nýju fólki í forystu um land allt. Mikið af góðu fólki er að bjóða sig fram til forystustarfa fyrir flokkinn. Gefum þessu nýja fólki tækifæri. 

Kippum þingmönnum flokksins út úr þinginu og leyfum þeim að fóta sig á vinnumarkaðnum eins og hann er í dag. Leyfum þessum þingmönnum að finna á eigin skinni hvaða afleiðingar aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi hafa haft.

 

Holtasóley

Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fá Björgunarsveitir landsins fyrir sitt mikla óeigingjarna starf í þágu lands og þjóðar og Það að vera alltaf til taks hvort sem er að nóttu til í ofsaveðrum eða að degi til eins og undanfarna daga við leit hér á Höfuðborgarsvæðinu.  


mbl.is Deildu hart í þingsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband