Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að afloknum Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Ég kvaddi Landsfund Sjálfstæðisflokksins í fyrra fallinu annan daginn í röð.

SjálfstæðisFálkinnFormannskjörið hafið ekki farið eins og ég vonaði og enginn af forystumönnum flokksins hafði boðið sig fram á móti sitjandi varaformanni. Þegar ég yfirgaf fundinn var fyrirséð að drottning hrunadansleiksins yrði endurkosin varaformaður. Fyrirséð var að Landsfundur ætlaði að láta það duga að formaðurinn hefði hætt. 

Þá voru það vonbrigði að ábyrgðarmaður númer eitt á Icesave reikningunum, bankaráðsmaður í Landsbankanum um árabil, Kjartan Gunnarsson, skildi kosinn í Miðstjórn flokksins.

Sú iðrun og yfirbót og krafa um nýja og breytta forystu sem ég var að vonast eftir að sjá og finna á Landsfundinum var til staðar og ég hefði viljað að hún hefði náð að koma skýrar í ljós og með táknrænni hætti en raunin varð.

Ég held það hefði verið mjög sterkt fyrir flokkinn ef hann hefði stillt upp nýjum varaformanni við hlið nýs formanns ásamt því að fella Kjartan Gunnarsson úr Miðstjórn.

Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins ætla ég að vona að ég hafi rangt fyrir mér og hann munu nú raka að sér fylginu sem aldrei fyrr.

 


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöföld atkvæðagreiðsla um ESB til þess eins að stöðva málið

Það er ekki hægt að taka afstöðu til inngöngu í ESB ef ekki liggur fyrir samningur. Enginn veit þá um hvað er verið að kjósa.

Þetta er óskaniðurstaða andstæðinga ESB.

 

 


mbl.is Leggja til tvöfalda atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegur landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag.

Nú Þegar hálft ár er liðið frá yfirtöku Seðlabankans á Glitni sem markaði upphafið að mesta efnahagshruni sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar þá safnast Sjálfstæðismenn saman hér í Reykjavík og halda Landsfund.

IMG_1236 (2)Eftir að hafa veitt ríkisstjórnum forystu í 18 ár er fylgi flokksins samkvæmt skoðunarkönnunum í sögulegu lámarki.

Mörgu góðu var komið til leiðar. Hræðileg mistök hafa verið gerð.

Þessi fundur hlýtur að verða ákveðinn vettvangur að uppgjöri á þessum  mistökum. Prófkjörin að undanförnu hafa gefið tóninn. Þrír af sex fyrrverandi ráðherrum flokksins ákváðu að gefa ekki kost á sér, hinum þremur var öllum hafnað sem oddvitum í sínum kjördæmum. Þó margir hefðu án efa viljað sjá meiri og róttækari breytingar þá er samt augljós sá vilji Sjálfstæðismanna að axla ábyrgð og þeir hafa látið  sína trúnaðarmenn finna þann vilja.

Framundan er tækifæri til að endurnýja áherslur og gildi Sjálfstæðisflokksins. Eins að kjósa flokknum forystu.

Með fullri virðingu fyrir Engeyjarættinni, auðmönnum Íslands og "bankakynslóðinni" þá held ég að Sjálfstæðisflokkurinn væri miklu betur kominn með margreindan félagsmálamann, sveitarstjórnarmann og bæjarstjóra sem kemur upp úr flokkstarfinu á eigin verðleikum sem formann flokksins á næstu árum.

Á þessum tímapunkti í sögu flokksins þá held ég að við landsfundarfulltrúar eigum að stíga skrefið til fulls og endurnýja alla forystu flokksins. Ég tel að við eigum að gera tvennt:

  • Kjósa með nýja formanninum nýjan varaformann.
  • Samþykkt verði sérstök ályktun þess efnis að það verið þingmenn flokksins sem koma fram fyrir hans hönd og túlki í fjölmiðlum stefnu hans í hinum aðskiljanlegustu málum, ekki aðkeyptir lögmenn og kennarar.

Verði þetta niðurstaða landfundar þá held ég að fleiri verði tilbúnir til þess að kjósa flokkinn á ný en núverandi skoðunarkannanir gefa til kynna.

Mynd: Á Þverfellshorni, Esjunni.

 


Vonandi býður Kristján Þór Júlíusson sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins.

SjálfstæðisFálkinnKristján Þór, oddviti Sjálfstæðismanna í NA-kjördæmi tilkynnir vonandi í dag að hann ætli að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum.

Með fullri virðingu fyrir Engeyjarættinni, auðmönnum Íslands og "bankakynslóðinni" þá held ég að Sjálfstæðisflokkurinn væri miklu betur kominn með margreindan félagsmálamann, sveitarstjórnarmann og bæjarstjóra sem kemur upp úr flokkstarfinu á eigin verðleikum sem formann flokksins á næstu árum.

 


Arðgreiðslur til Simma - léttmeti fyrir helgina í boði BYR.

wall street aEigandi Söluturns Simma greiddi sjálfum sér arð af rekstri félagsins á síðasta ári, tíu milljarða króna, þrátt fyrir að söluturninn hafi ekki skilað nema fimm þúsund króna hagnaði.

"Þetta var nú bara tala sem ég áætlaði. Ég var ekkert að reikna þetta í drep. Ég hafði rosalega góða tilfinningu fyrir rekstrinum, var með margar mjög sterkar spólur í leigu, Spætermann þrjú og svona - þannig að ég ákvað bara að tríta mig aðeins" segir Simmi en viðurkennir um leið að hann hafi aðeins farið fram úr sér.

"Ég vona bara að stjórnvöld sýni þessu skilning og komi með pening inn í reksturinn. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að halda þessum litlu vídeóleigum gangandi."

 

Fékk þetta sent í pósti til mín.

 

 


Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn notar stýrivexti sem refsivönd á fyrirtæki og almenning.

IMG_1339 (2)Frá því í október hefur öllum verið ljóst að það er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, AGS, sem ákvarðar stýrivexti á Íslandi. Að vera með stýrivexti í 17% eða 18% á mesta samdráttarskeiði frá stríðslokum er óskiljanlegt. Enn furðulegra þegar hér eru gjaldeyrishöft og engin getur flutt fé úr landi án sérstakrar heimildar. Þeir sem eiga fé á Íslandi verða því að geyma það á Íslandi. Þeir sem eiga fé, þeir geyma það annað hvort undir koddanum eða í bankanum. Hvort stýrivextir eru 7% eða 17% breytir engu þar um.

Í febrúar þegar Seðlabankinn vildi lækka stýrivexti þá kom AGS í veg fyrir það. Sú ákvörðun hafði ekkert með ástand efnahagsmála að gera. Pólitískar ástæður sögðu þeir. 

Þegar stýrivextir eru 17% til 18% þá eru vextir bankana með álagi 22% til 28%. Enginn rekstur stendur undir slíku vaxtaokri. Á annað ár hafði Seðlabankinn mergsogið almenning og fyrirtækin í landinu. Nú hefur AGS tekið við og bætt um betur.

Markmiðið með þessari vaxtastefnu er ljós. AGS ætlar sér að ná inn í bankakerfið eins mikið af fé og hann mögulega getur. Hann ætlar að hirða eins mikið af fé af einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi og hægt er og koma því inn í bankana. Sannið til, stýrivextir fara ekki undir 12% til 14% á þessu ári né á því næsta. Allt þetta er til þess að Seðlabankinn geti borgað vexti af lánunum til þeirra.

Almenningur og fyrirtækin í landinu eru meðsek í því ráni sem bankarnir, eigendur þeirra og útrásarvíkingarnir frömdu hjá þeim þjóðum sem standa á bak við AGS. Þessar þjóðir eru að tapa á okkur a.m.k fimmtán þúsund milljörðum. Látum okkur ekki dreyma um að þessar þjóðir ætli sér ekki að refsa okkur fyrir það. Enda eru við meðsek. Við erum þjófsnautar í augum þessa fólks. Við leyfðum þessum mönnum að ræna ekkjur og vandalausa niðri í Evrópu með gylliboðum um háa ávöxtun á innlánsreikningum sem gat aldrei gengið upp. Við nutum ávaxtanna í formi hárra skatttekna sem þessir bankar skiluðu inn í ríkissjóð þessi fáu ár. Við þögðum og nú er komið að skuldadögunum

Refsivöndurinn bítur fast þessa dagana og svo mun verða áfram. Afleiðingarnar eru gjaldþrot og atvinnuleysi. Þessi refsing á eftir að verða okkur dýrkeypt en hún á líka eftir að verða okkur lesning.

Nú þarf réttlæti og nú þarf að snúa vörn í sókn.

Mynd, hús veiðivarða í Veiðivötnum.

 


"Strákarnir okkar" góðir á móti Makedóníu.

Þeir stóðu sig vel ungu leikmennirnir í handboltalandsliðinu okkar sem spilaði á móti Makedóníu í gærkveldi. Það vekur góðar vonir um að næsta áratuginn verði framhald á þeirri hefð að við Íslendingar eigum eitt af betri haldknattleiksliðum heims.

Silfurverðlaunahafarnir frá Ólympíuleikunum sem spiluðu í leiknum sýndu að það er engin tilviljun að þeir eru silfurverðlaunahafar.

 


mbl.is Guðmundur Þórður: Frábær frammistaða allra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milljónatjón er gæðingur fótbrotnar og knapi slasast á hættulegum reiðstíg í Mosfellsbæ.

Um miðjan dag á laugardaginn fór ég í reiðtúr með Kristjáni bróður mínum frá hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ og út að Blikastaðanesi. Út á Blikastaðanes liggur nýlegur reiðstígur sem Mosfellsbær lagði fyrir um tveim árum. Þetta er vinsæl reiðleið meðal hestamanna sem halda hesta sína í þessu hesthúsahverfi og er hún mikið farin.

hestar bSíðasta laugardag gengu yfir landið hlýindi með mikilli rigningu. Á miðri leið út á nes missti klárinn sem ég var á annan afturfótinn niður í gegnum mölina á reiðstígnum. Við vorum þá að fara yfir ræsi og héldum kannski að það væri að renna úr ræsinu í þeim vatnavöxtum sem var í öllum smálækjarsprænum þennan dag. Við hægðum því á för okkar þegar við fórum yfir önnur ræsi sem urðu á okkar leið. Þegar við vorum komnir lang leiðina út á nes þá fælist við hesturinn sem ég var með í taumi, en ég reið fremst, og um leið sé ég að klárinn sem Kristján teymdi hleypur á harða stökki fram hjá mér.

Ég snéri við og sé hvar Kristján stendur á stígnum og horfir á vinstri framfót á reiðhesti sínum. Hesturinn hélt upp framfætinum en fóturinn dinglaði laus tíu sentímetrum fyrir ofan hnéð. Fóturinn hafði kubbast í sundur. Knapi og hestur voru allir ataðir út í sandi og möl. Ég sá seinna að það var möl ofaná hnakknum.

Það sem gerst hafði var það sama og gerst hafið fyrir klárinn minn fyrr í ferðinni en hér hafði afturfóturinn ekki farið niður í gegnum mölina heldur annar framfóturinn. Skipti engum togum að hesturinn fellur niður að framan, kubbar í sundur á sér framfótinn og knapi og hestur fara kollhnís. Kristján taldi að hann að væri með brotið hné eða hefði slitið þar öll krossbönd.

Guði sé lof fyrir GSM símana. Hjálpsamir hestamenn úr hesthúsahverfinu voru mættir innan stundar og dýralæknir. Sá upplýsti að þetta væri ekki fyrsta slysið sem hefði orðið á þessum stað. Fyrir ári síðan þá urðu knapi og hestur fyrir því sama einmitt þarna. Hesturinn fótbrotnaði ekki en hann heltist samt það illa að hann náði sér ekki og það varð að fella hann.

Nú er komið í ljós að Kristján er minna skaddaður á hné en haldið var í fyrstu, samt illa meiddur.

Mikið lán var að hann slasaðist ekki verr. Mikill gæðingur er fallinn.

Nýr reiðstígur á hreint frábærri leið, sem liggur rétt ofan við fjöruna í Leirvoginum út á Blikastaðanes er dauðagildra í leysingum og rigningartíð. Þessari reiðleið verður að loka þegar þannig viðrar þar til búið er að styrkja og laga þennan reiðstíg. Ef ekki, þá verða þarna fleiri slys og það mun enda með því að þessi stígur, réttnefndur "Leggjabrjótur", verður ekki bara hestum að fjörtjóni.

 


Neitar fjármálaeftirlitið að afhenda embætti sérstaks saksóknara gögn og ber við bankaleynd?

114_1442Í viðtali við Norska sjónvarpið sem sýnt var áðan í þættinum hjá Agli Helgasyni þá var ekki annað að skilja á Eva Joly en að Fjármálaeftirlitið, FME, neiti að afhenda embætti sérstaks saksóknara nauðsynleg gögn þannig að rannsókn geti hafist. Ber FME við bankaleynd.

Áður hefur komið fram að Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur ekkert að gera. Þeim hefur aðeins borist eitt smámál til rannsóknar. Þeirra hlutverk er að rannsaka þau mál sem FME sendir þeim. Þeir bíða og eru búnir að bíða í fimm mánuði eftir að eitthvað komi frá FME.

Í FME sitja allir sömu starfsmenn og þar voru starfandi í aðdraganda bankahrunsins. Þegar forstjóri FME var rekinn þá tók aðstoðarforstjórinn við forstjórastöðunni.

Allar líkur eru á því að eftirlitsaðilar hafi brugðist mjög illa í aðdraganda bankahrunsins. Ásakanir þessa efnis hafa hljómað hátt hér heima og erlendis. Þá er sérstaklega horft til FME.

Eins og ég skil stöðu mála þá er staðan sú að FME er að rannsaka sjálft sig.

Er það þess vegna sem ekkert fréttist og ekkert virðist vera að gerst í þessum málum? Er þetta ástaða þess að Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur aðeins fengið eitt smámál til rannsóknar?

Það er grafalvarlegt mál ef þetta er rétt hjá Evu Joly að embætti sérstaks saksóknara fái ekki aðgang að þeim gögnum sem embættið þarf á að halda til að geta unnið að sínum rannsóknum.

Það vakna fjölmargar spurningar af hverju FME vill ekki afhenda þessi gögn.

Nú er nýbúið að skipa nýja stjórn yfir FME. Er þessi nýja stjórn FME sátt við þessa afstöðu starfsmanna FEM?

 

Myndin hér að ofan er tekin við Litlasjó, Veiðivötnum.

 


Bankarnir líklega brotið lög.

bankar a"Eva Joly segir að miklar líkur séu á að stjórnendur íslensku bankana hafi gerst brotlegir við lög í starfsemi sinni. Hún lét þessi orð falla í vinsælum sjónvarpþætti í Noregi í gærkveldi. Um milljón Norðmenn horfa á þáttinn hverju sinni. Eva leggur til að fleiri erlendir sérfræðingar komi að rannsókninni og sagði það fáránlegt að bankaleynd hvíldi enn yfir gögnum frá bönkunum."

Ofangreind tilvitnun er tekin af vef ruv.

4% þjóðarinnar treystir bönkunum í dag skv. skoðunarkönnun sem birt var í síðustu viku. 96% þjóðarinnar treystir ekki bönkunum. Aðra eins falleinkunn hafa engar stofnanir eða fyrirtæki fengið áður á Íslandi.

Það verður að grípa til róttækra aðgerða með því að skipta út fólki í stjórnun þessara banka til þess að reyna að endurvekja traust á þessum nauðsynlegu stofnunum samfélagsins.

Það verður að endurvekja þetta traust svo fólk þori aftur að geyma peningana sína í bönkunum. Fjöldi fólks geymir peningana sína heima hjá sér og óttast að sjá þá aldrei framar setji það þetta fé sitt inni í bankana.

Á ekkert að gera til að reyna að endurvekja traust á bönkunum?

Þeir sem "líklega hafa brotið lög", er það til að auka traust á bönkunum að hafa þetta fólk áfram starfandi þar?

Ef ekkert verður gert þá er líklegt að þessi 4% þjóðarinnar, Alsheimer sjúklingar og fólk sem ekkert hefur fylgst með fréttum undanfarin ár, að það fólk verði einnig búið að átta sig á stöðunni og næsta skoðunarkönnun komi enn verr út fyrir bankana.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband