Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 30. október 2009
Hver er sannleikurinn um dráttinn á afgeiðslu láns AGS?
Mark Flanagan fulltrúi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, í málefnum Íslands býður okkur Íslendingum upp á enn eina útskýringuna eða útúrsnúninginn á því af hverju dregist hefur í átta mánuði að afgreiða lán AGS til okkar.
Þeir sem bera ábyrgð á þessu máli hafa allir sína sér skýringu á þessum drætti. Allar stangast þær á.
Flanagan bendir í fumi og fáti, flani og gani, á alla aðra en sjálfan sig og AGS þegar blaðamenn ganga eftir skýringum af hverju AGS hefur dregið að afgreiða umsamin lán til Íslands í átta mánuði.
Ég hvet blaðamenn að fylgja þessu máli eftir og bera þessi ummæli Mark Flanagan undir hin Norðurlöndin og Jón Sigurðsson.
Annað hvort AGS eða hin Norðurlöndin eru að segja okkur Íslendingum rangt til um þetta mál.
Ef AGS er nú að reyna að snúa sig út úr þessu máli og rétta skýringin á drættinum er að þeir voru að knýja Íslendinga til að ganga að nauðasamningum Breta og Hollendinga í Icesave þá þarf að fá það staðfest.
AGS mun ekki geta þurrkað af sér þann handrukkarastimpilinn sem þeir fá á sig hér á landi með þessum vinnubrögðum sínum.
Ísland er stofnaðili að AGS og Alþjóðabankanum. Sem stofnaðili á okkar næsta skref að vera á næsta aðalfundi AGS að leggja fram tilllgögur um breytingar á starfi og skipulagi sjóðsins þannig að í framtíðinni þá verði komið í veg fyrir að ákveðnar þjóðir geti beitt sjóðnum fyrir sig með þeim hætti sem hér hefur verið gert.
Það er skylda okkar sem stofnaðilar að koma í veg fyrir að sjóðnum sé misbeitt í þeim löndum þar sem hann er kallaður til.
Svona vinnubrögð á ekki að líða.
Sé hins vegar Mark Flanagan að segja satt og rétt frá, þá þurfum við heldur betur að endurskoða allt okkar samstarf við hin Norðurlöndin.
Mynd: Skálmárdalur
![]() |
Hver bendir á annan í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 29. október 2009
Seðlabankinn fær 100 milljarða í viðbót til að sólunda.
Mikið óskaplega leggst það illa í mig að Seðlabanki Íslands skuli vera að fá í hendur 100 milljarða í erlendum gjaldeyri.
Ég myndi treysta flestum betur en Seðlabankanum og til að gæta þessa fjár vilji menn endilega taka þetta fé að láni.
Þetta er eini Seðlabanki í Evrópu sem hefur orðið gjaldþrota frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Allt sama fólkið er þarna enn sem stóð að þeim ákvörðunum sem leiddu til þess að bankinn varð gjaldþrota.
Og við erum að láta þetta sama fólk hafa hundruð milljarða af erlendum gjaldreyri að sýsla með.
Allar líkur eru á að bankinn muni sólunda þessu fé á örfáum misserum í einhverju rugli við að verja krónuna.
Þessi banki og starfsfólk hans var ófært að verja sjálfan sig og þjóðina í aðdraganda hrunsins.
Er ekki borin von að hann sé eitthvað frekar fær um það nú?
Mynd: Í Skálmárdal
![]() |
Nota forðann í afborganir lána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 27. október 2009
Samstarf Íslands við hin Norðurlöndin verður aldrei aftur eins.
Mikið er ég sammála ræðu Bjarna Benediktssonar sem hann flutti á þingi Norðurlandaráðs þar sem hann gagnrýnir hin Norðurlöndin fyrir að blanda saman fjárhagsaðstoð sinni til okkar og deilu okkar við Breta og Hollendinga. Ég vil sjá meira af þessu frá hinum fulltrúum okkar á þessu þingi. Þetta þing er tilgangslaust ef þessi mál eru ekki rædd þarna hispurslaust.
Við höfum heyrt marga, bæði innlenda og erlenda lögspekinga, gagnrýna mjög þennan Icesave samning.
Þrátt fyrir rökstudda gagnrýni á Icesave samninginn og réttmæti hans þá velja Norðurlöndin að taka einhliða afstöðu með Bretum og Hollendingum í þessu máli gegn okkur.
Af hverju hin Norðurlöndin hafa valið að aðstoða Breta og Hollendinga við að stilla okkur Íslendingum upp við vegg með þessum hætti er mér óskiljanlegt.
Pólverjar og Færeyingar voru með engin slík skilyrði fyrir sínum lánum. Af hverju gerðu hin Norðurlöndin ekki slíkt hið sama?
Af hverju hin Norðurlöndin völdu að taka svona afgerandi afstöðu í þessum Icesave máli á móti okkur er mér óskiljanlegt. Af hverju þau vilja neyða okkur til að við tökum á okkur skuldbindingar sem eru meiri og ná langt út yfir gildandi lög og reglur ESB um innistæðutryggingar skil ég ekki.
Nokkuð hefur verið í umræðunni að Bretar sem eru að fjármagna sig á lánum með 3,6% vöxtum, þeir endurlána okkur með Icesave samningnum á 5,55% vöxtum. Menn telja að Bretar munu vegna þessa vaxtamunar þéna um 270 milljarða króna eða um 1,5 milljarð evra á þessum Icesave samningi.
Við skulum átta okkur á því að sama staðan er uppi með lán hinna Norðurlandanna til okkar. Svíarnir t.d. eru að fjármagna sig með erlendum lánum með 3,6% vöxtum frá Seðlabanka Bandaríkjanna. Þeir endurlána okkur þessa sömu dollara í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn á 5,5% vöxtum. Þessi lán Norðurlandanna til okkar eru því engin góðgerðastarfsemi. Norðurlöndin ætla sér að græða hundruð milljarða króna á okkur með því að hirða sjálf vaxtamunninn, alveg eins og Bretarnir ætla sér að gera.
Við sjáum vel hvað hug forystumenn hinna Norðurlandanna bera til okkar. Skilaboðin geta ekki verið skýrari.
Það er mitt mat að þeir Íslendingar sem nú eru á lífi munu aldrei líta samstarfið við hin Norðurlöndin sömu augum og áður. Þeim hefur án efa fjölgað mikið á Íslandi sem vilja minnka þetta "samstarf".
Þetta Icesave mál og þessi afstaða Norðurlandanna til þess er ekki beint að vinna með okkur íslensku Evrópusinnunum. Núverandi forystufólk Breta, Holendinga og Norðurlandanna er að öllum líkindum að gera út um vonir okkar Evrópusinnanna að við Íslendingar göngum nokkurn tíma í ESB.
Höfnum þessum lánum frá Norðurlöndunum. Látum ekki þvinga okkur til nauðasamninga. Látum Breta og Hollendinga með aðstoð hinna Norðurlandanna og AGS ekki svínbeygja okkur í þessu Icesave máli þó við séum komin niður á annað hnéð.
Engin þjóð á að láta bjóða sér þessa afarkosti.
Mynd: Á hestbaki við Álku, v-Hún.
![]() |
Ísland stóð eitt í hvirfilbylnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.10.2009 kl. 00:20 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 26. október 2009
Allt jákvætt við það að McDonald´s hættir á Íslandi
Fyrir mér er þetta ein af jákvæðu fréttunum í þessari kreppu. Til hvers í ósköpunum eigum við að vera að flytja inn frá útlöndum nautakjöt, ost og brauð til að búa til hamborgara?
Það er bara jákvætt að þessum innflutningi á matvöru er hætt og það verði hér eftir innlent hráefni sem þessi hamborgarastaður notar í sína "rétti".
![]() |
McDonald's hættir - Metro tekur við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 25. október 2009
Þrálátur orðrómur um peningaþvætti bankana.
Sögusagnir um peningaþvætti íslensku bankana hafa verið þrálátar undanfarin ár. Eins sögusagnir um gríðarlegan flutning á beinhörðum peningum úr landi með íslenskum leiguflugvélum og þeim einkaflugvélum sem hingað lögðu leið sína frá ársbyrjun 2008 fram að hruni í október 2008.
Ganga þessar sögur út á að menn mættu á Reykjavíkurflugvöll með fullt af ferðatöskum, töskum sem vógu 80 kg til 90 kg, og höfðu á brott með sér til útlanda í þessum leiguvélum. Taska full af bókum eða öðrum pappír vegur um 80 til 90 kg. Ef þessar sögusagnir eru réttar þá geta Íslensku leiguflugfélögin, hleðslumenn, og aðrir starfsmenn á Reykjavíkurflugvelli sem þjónuðustu þessar vélar veitt nánari upplýsingar.
Svo eru aðrar sögusagnir sem greina frá því að í íslensku bönkunum hafi verið bankakerfi inni í bankakerfinu sem sérstakar "tölvur/serverar" héldu utan um. Færslur sem fóru fram í þessu "innra" bankakerfi, þær sjást ekki í hinu hefðbundnar bankakerfi. Peningarnir í þessu bankakerfi eru ekki geymdir í bönkum heldur í öryggishólfum sem víða er hægt að leigja í flestum stærri skrifstofubyggingum. Nokkrir slíkir "serverar" er sagðir hafa verið hér á landi og þeim hafi verið flogið úr landi frá Reykjavíkurflugvelli nokkrum vikum fyrir hrun.
Það er öllum í hag að þessi mál séu rannsökuð og þessar fjölmörgu sögusagnir sem eru og hafa verið í gangi verið kveðnar í kútinn, séu þær ósannar.
![]() |
Ásakanir um peningaþvætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 24. október 2009
Bretar og Hollendingar munu þéna þykkt á Icesave samningnum.
"Vaxtakostnaður breska ríkisins á 10 ára skuldbindingum er nú um 3,4 prósent og hollenska ríkið getur fjármagnað sig á 3,6 prósent vöxtum til sama tíma. Jafnaðarvaxtakostnaður Breta og Hollendinga er því um 3,5 prósent. Icesave samningurinn kveður á um að íslenska ríkið þarf að borga 5,55 prósent vexti, eða meira en tveimur prósentustigum yfir því, sem það kostar Breta og Hollendinga að fjármagna Icesave lánið.Þetta leiðir af sér að á þeim 15 árum, sem fyrirhugað er að taki Ísland að endurgreiða Icesave skuldbindinguna, munu bresk og hollensk stjórnvöld hirða um 1,5 milljarða evra í vaxtamun af íslenskum skattgreiðendum. Á gengi dagsins í dag jafngildir þetta meira en 270 milljörðum króna."
Segir í frétt á Pressunni í viðtali við Ársæl Valfells lektor.
Það að Bretar og Hollendingar eru að gera þetta Icesave mál að féþúfu sinni og munu hagnast á þessum samningi um að minnsta kosti 270 milljarða króna er þannig mál að þennan samning má ekki samþykkja óbreyttan.
Ranglætið í þessu Icesave máli er fullkomnað með þessu.
Hvað í ósköpunum gekk þessari íslensku samninganefnd til?
Hvers vegna í ósköpunum samþykkir ríkisstjórnin svona samning?
Eru stjórnvöld búin að missa alla tenginu við raunveruleikann og hætt að geta skilið á milli þess sem er rétt og rangt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 23. október 2009
Gott mál ef lífeyrissjóðirnir eignast Landsvirkjun
Mikið fagna ég þeirri umræðu sem nú er hafin að lífeyrissjóðir landsmanna eignist Landsvirkjun. Slíkt myndi styrkja stöðu bæði ríkissjóðs og Landsvirkjunar. Með nýjum eiganda að Landsvirkjun sem væri fjárhagslega jafn sterkur og lífeyrissjóðirnir eru þá mun lánshæfismat bæði Landsvirkjunar og ríkisins hækka.
Þetta myndi þýða að þau lán sem Landsvirkjun þarf að taka á næstu misserum til að endurfjármagna eldri lán, þau lán munu fást með verulega hagstæðari vaxtakjörum.
Mér fróðari menn segja mér að ef ríkið færi úr ábyrgð fyrir Landsvirkjun og hætti þar með að vera í beinni ábyrgð fyrir skuldum Landsvirkjunar, skuldum sem í dag nema 500 til 600 milljörðum, þá muni lánshæfismat Íslenska ríkisins hækka. Staða ríkisins mun batna það mikið við þetta að vextir af lánum sem ríkið eða aðrir opinberir aðilar þurfa að taka á komandi misserum og árum munu verða töluvert lægri.
Fyrir okkur Íslendinga skiptir það í sjálfu sér ekki máli hvort við eigum Landsvirkjun í gegnum lífeyrissjóðina okkar eða í gegnum ríkið. Það hefur lengi verið skylduaðild að lífeyrissjóðakerfinu okkar þannig að allir Íslendingar munu eftir sem áður vera eigendur að Landsvirkjun.
Fyrir lífeyrissjóðina er Landsvirkjun mjög góð eign. Annars vegar er um að ræða fasteignaveð í virkjunum og línum og hins vegar sölusamningar á raforku til margra áratuga. Langtíma arðsemi í virkjunum og orkusölu fellur vel að langtíma ávöxtun lífeyrissjóðanna enda hafa lífeyrissjóðir um allan heim mikið fjárfest í orkufyrirtækjum.
Fyrir Landsvirkjun og starfsmenn fyrirtækisins eru lífeyrissjóðirnir miklu betri eigandi en ríkið. Lífeyrissjóðirnir er fagfjárfestar og með þeim koma fagleg vinnubrögð og fagþekking á fjárfestingum og rekstri. Í stjórn Landsvirkjunar mun því setjast fyrir hönd lífeyrissjóðanna fagfólk í rekstri í stað pólitískt skipaðra silkihúfa. Þetta mun án efa skila sér í bættum rekstri félagsins á komandi árum.
Fyrir erlenda fjárfesta er það miklu betra ef félag eins og Landsvirkjun er ekki í eigu ríkisins. Það eru margir hræddir við að eiga viðskipti við ríkisfyrirtæki. Mörg erlend stórfyrirtæki eru með það í Samþykktum sínum að þeim er bannað að eiga viðskipti við banka eða önnur félög sem eru í eigu opinberra aðila. Áratuga reynsla víða um heim hefur kennt þessum fyrirtækjum að það er ekki hægt að treysta ríkisbönkum eða ríkisfyrirtækjum.
Ef Landsvirkjun fer í hendur fagfjárfesta eins og lífeyrissjóðanna þá munu fleiri erlend fyrirtæki á komandi árum sýna því áhuga að eiga viðskipti við Landsvirkjun.
Ég skora á stjórnvöld og lífeyrissjóðina að skoða mjög vel hvort ekki sé rétt að lífeyrissjóðirnir eignist Landsvirkjun.
Þetta er "win win" staða fyrir alla.
Mynd: Gamall torfbær frammi á Kjálka.
![]() |
Landsvirkjun ekki föl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 22. október 2009
Lögbann á afborganir af gjaldeyrislánum?
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda íhugar að krefjast lögbanns á að bankar innheimti afborganir gjaldeyrislána og miði við gengi krónunnar eins og það er nú. Sagði Gísli í fréttum Ríkisútvarpsins, að ástæðan sé sú að fyrri tillögum hans til stjórnvalda og banka hafi ekki verið svarað.
Það er sérstakt að hvorki bankar eða stjórnvöld hafa svarað þessu erindi talsmanns neytenda.
Er það á þennan hátt sem loforð ríkisstjórnarinnar um skjaldborgina um fjölskyldurnar eru efnd?
Ef talsmaður neytenda er ekki virtur viðlits, hverju má þá einstaklingurinn búast við?
![]() |
Lögbann á afborganir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.10.2009 kl. 08:29 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 21. október 2009
Málstaður Íslands bíður hnekki eftir tap Kaupþings í máli gegn breska fjármálaeftirlitinu.
Það er áfall fyrir okkur Íslendinga að Kaupþing skuli tapa máli sem bankinn höfðaði gegn breska fjármálaeftirlitinu. Í frétt breska blaðsins Financial Times af málinu birtist ný söguskoðun og ný lýsing af stöðu Kaupþings í aðdraganda hrunsins.
Financial Times vitnar í málsgögn þar sem fram kemur að breska fjármálaeftirlitið hafði í aðdraganda hrunsins ítrekað varað Kaupþing / Singer og Friedlander við bágri fjárhagsstöðu bankans í Bretlandi og hafði krafist þess að bankinn kæmi með meira fé inn í reksturinn.
Samkvæmt gögnum málsins sinnti Kaupþing ekki þessum ítrekuðu fyrirmælum breska fjármálaeftirlitsins. Því hafi ekki verið um annað að ræða en að taka yfir bankann því hann uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru.
Sú söguskoðun sem að okkur Íslendingum hefur verið haldið er að Kaupþing hafi staðið vel og það hafi verið eitthvert gerræði af hálfu Breta og þeir nánast tilefnislaust farið inn í Singer og Friedlander og yfirtekið hann. Það hafi svo aftur valdið falli Kaupþings. Auðsótt muni vera að sækja bætur í hendur Bretum vegna þessara ranginda og líklegt að verulegar fjárhæðir muni fást í bótagreiðslur vegna falls Kaupþings.
Ef niðurstaða þessa dómstóls í Bretlandi er rétt og hún látin standa þá þarf að umskrifa söguskoðun okkar Íslendinga.
Ef þessi nýja söguskoðun er rétt þá stóðu mál þannig rétt fyrir hrun að Kaupþing var á barmi gjaldþrots og í raun í gjörgæslu breska fjármálaeftirlitsins þegar ríkistjórnin ákveður að lána bankanum stærsta lán Íslandssögunnar, um 92 milljarða króna (500 milljónir evra).
Í ljós þessa þá er þessi lánveiting ríkisins til Kaupþings hreint ótrúleg. Þetta lán hefði aldrei átt að veita nánast gjaldþrota bankanum.
Var ríkisstjórnin blekkt til að veita þetta lán?
Vissi ríkisstjórnin hver raunveruleg staða Kaupþings var?
![]() |
Mál Kaupþings óraunhæft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 20. október 2009
Seðlabankinn áfram eitt okkar af okkar stærstu vandamálum.
Aftur og aftur berast böndin að sömu örfáu aðilunum sem bera nær alla ábyrgð á hvernig fyrir þessari þjóð er komið.
Lán Seðlabankans upp á 250 til 300 milljarða til bankana þriggja án haldbærra veða er eitthvert ótrúlegasta málið í þessu hruni.
Um það mál segir dr. Jón Steinsson hagfræðingur á Pressunni í dag:
Það er grundvallarregla í viðbrögðum seðlabanka við fjármálakrísu að seðlabanki láni einungis þannig að hann hafi algeran forgang varðandi eignir bankanna sem hann lánar til ef þeir fara í þrot. Þetta er grunnregla! En Seðlabankinn okkar fór því miður svo rosalega á skjön við þessa grunnreglu að ég tel líklegt að gjaldþrot hans verði notað sem víti til varnaðar í kennslubókum í hagfræði í a.m.k. nokkur hundruð ár. Jafn æðisgengið klúður hefur líklega aldrei áður átt sér stað í peningamálasögu heimsins.
Það er ótrúlegt að menn ætli að láta duga í Seðlabankanum að skipta bara um þá pólitískt skipuðu bankastjóra sem þar voru og ráða í staðinn fyrrverandi aðalhagfræðing bankans sem bankastjóra.
Þó bankastjórar Seðlabankans beri á því alla ábyrgð að Seðlabankinn hélt þannig á málum að bankinn varð gjaldþrota þá er það skelfileg tilhugsun að það fagfólk sem stóð á bak við þær ákvarðanir sem þar voru teknar skuli í dag ennþá sitja í bankanum og einn þeirra skuli hafa verið gerður að Seðlabankastjóra.
Þjóðin nýtur þessa dagana "ávaxtanna" af áframhaldandi "stjórnvisku" þess "fagfólks" sem hefur það einstaka afrek á ferilskrá sinni að hafa starfað í eina Seðlabanka heims sem hefur orðið gjaldþrota.
Miðað við stefnu bankans í vaxta- og gengismálum þá er eins og metnaður starfsmanna bankans standi í dag helst til þess að gera sem flesta einstaklinga og fyrirtæki gjaldþrota.
Það er eins og bankinn sé að reyna að safna sem flestum meðlimum í "Seðlabankaklúbbinn", klúbb gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga.
Það er því miður bara ein leið sem þjóðin á ef hún ætlar að komst úr höndum þessara "hæfu" manna sem nú stjórna Seðlabanka Íslands. Það er að ganga í Evrópusambandið, ESB. Í framhaldi mun Evrópski seðlabankinn hafa yfirumsjón með starfsemi Íslenska seðlabankans og Maastricht skilyrðin verða aðal leiðarljósið í peninga- og fjármálastjórn landsins.
Ég sé ekki aðra leið til að komast úr út þeirri vanhæfu og spilltu stjórnsýslu sem hér hefur hreiðrað um sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook