Að sætta sig ekki við lýðræðið.

Þeir eru sérstakir þessir "aðgerðarhópar" sem sprottið hafa upp víða um hinn vestræna heim á síðustu árum. Hópar sem sætta sig ekki við aðferðir lýðræðisins og hvernig þessi lýðræðisríki ráða ráðum sínum og hvernig þau stýra og stjórna sínum samfélögum.

197Þetta fólk vill ekki viðurkenna leikreglur lýðræðisins. Þetta fólk telur sig rétthærra en þeir sem byggja þessi samfélög. Þessu fólki finnst eðlilegt að krefjast þess að það fái að ráða meiru en aðrir. Það vill ekki taka þátt á þeim vettvangi þar sem lýðræðisríkin ákveða eftir hvaða straumum og stefnum unnið er eftir.

Þetta fólk vill ekki taka þátt í lýðræðinu. Það vill ekki taka þátt í flokkspólitísku starfi, framboðum til Alþingis og sveitarstjórna og reyna með þeim hætti að vinna málstað sínum fylgi og hafa áhrif á gang mála. Og "Nota Bene", allir flokkar standa þessu fólki opnir. 

Nei, þetta fólk heimtar að fá að ráða og gefur skít og skömm í þúsund ára gamla þinghefð okkar Íslendinga. Á Alþingi höfum við "í sátt og samlindi" ráðið ráðum okkar frá því land byggðist. Þar ræður einfaldur meirihluti og minnihlutinn í hverju máli verður að sætta sig við ákvörðun meirihlutans, hversu ósammála sem menn í minnihlutanum á hverjum tíma annars kunna að vera. Þannig hefur þetta gengið í þúsund ár og þannig eigum við að láta þetta ganga næstu þúsund árin.

Þetta fólk sem fer hér um landið og lokar stofnunum og fyrirtækjum, það er að gefa þessum hefðum okkar fingurinn.

Við eigum að standa vörð um okkar þingræðishefð og okkar lýðræði. Þeir einstaklingar sem ekki virða okkar þingræðishefð og okkar lýðræði, á því fólki ber að taka af fullri hörku. Látum ekki svona "aðgerðarhópa" eyðileggja samfélag okkar.

Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.

 


mbl.is Lokuðu skrifstofum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Heiðar Valgarðsson

vertu ekki svona mikill hálfviti... ég hélt að fólk eins og þú væri að hverfa.

Guðjón Heiðar Valgarðsson, 28.7.2009 kl. 12:42

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Nei, nei Guðjón, við eru ekki að hverfa og ekki heldur að fara neitt, þó löngum stundum þegar allt leikur í lindi, þá ber lítið á okkur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.7.2009 kl. 13:19

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Meirihlutaræði og lýðræði er alls ekki það sama

Það er megn galli meirihlutaræðis eins og við rekum það á Íslandi að sumir þ.e. þeir sem hafa meirihlutann á bak við sig ráða öllu og þá bókstaflega öllu, en aðrir sem hafa samt kannski mikinn fjölda fólks á bak við sig en ekki meirihluta, þeir ráða engu - alls engu.

Margar kenningar um lýðræði vefengja að það sé lýðræðislegt að svo verulega halli á mikinn fjölda fólks í nafni „meirihlutaræðis“. Nær færi lýðræði ef hópar réðu fjölda ákvarðanna í hlutfalli við styrk sinn í stað þess að stærsti hópurinn réði öllum ákvöðunum (100%). Þá myndi t.d. minnihlutinn með 45% bak við sig ráða niðurstöðu 45% mála eða fjölda þeirra ákvarðanna sem teknar eru, en meirihlutinn réði þá ákvörðun í 55% mála í stað þess sem og nú er að 55% hópurinn ræður 100% allra ákvarðana.

Þetta misvægi og valdaleysi minnihluta hvar sem þeir koma fyrir, veldur ólgu og uppreisnum í ýmsum myndum ef ekkert tillit er tekið til minnihlutans.

Helgi Jóhann Hauksson, 28.7.2009 kl. 13:20

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Tek fram að ég kann ekki aðra almenna lausn en að ákvarðanir séu teknar með meirihluta atkvæða en að meirihlutinn sé alltaf meðvitaður um minnilhutahópa og að þeir fái sínum hagsmunum og málum borgið.

Helgi Jóhann Hauksson, 28.7.2009 kl. 13:23

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Einræði er mikið betra form á lýðræði og alveg tilvalið fyrir Íslendinga. 

Björn Heiðdal, 28.7.2009 kl. 14:20

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Dæmi Helga Jóhanns Haukssonar er athyglisvert. Það er stundum næstum ógerlegt að finna einhvverja millileið. Hugsanlega má setja "vinnureglu" um að meirihluti þurfi að vera "afgerandi" ca, 67 % á móti 33 % o.s.frv. Þetta getur verið ansi snúið .

Kv., KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 28.7.2009 kl. 14:27

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Friðrik

Flott hausmynd á síðunni hjá þér.  :-)

Ég get verið sammála þér í því að ýmsir aðgerðarhópar gætu staðið sig betur í því að reyna að koma málum sínum á framfæri innan stjórnmálaflokkanna, en það geta legið fyrir því ýmsar ástæður af hverju þeir reyna það ekki eða verður ekki ágengt þrátt fyrir að vera með gott málefni í höndunum.

  1. Stóru stjórnmálaflokkarnir halda sig gjarnan við mál sem orka ekki tvímælis á meðal skilgreindra stórra hagsmunahópa meðal kjósenda þeirra og því eru þessi mál harðlæst í flokksskúffunni.  Dæmi um þetta eru mál er varða þjóðkirkjuna, bændur og útvegsmenn. 
  2. Ýmis smá mál en mikilvæg fá aldrei uppi á pallborðið hjá stjórnmálaflokkunum og er í sífelldu frestað.  Dæmi:  textun frétta og íslensks efnis hjá RÚV fyrir heyrnarlausa. 
  3. Vinnubrögð stjórnmálaflokkanna geta verið gloppótt og þar er stundum traðkað á minnihlutaröddum vegna þess að "það er ekki nægur tími" eða "málið ekki nógu mikilvægt" eða "ekki nógu mikið rætt" og svo framvegis.  Alls kyns afsakanir og réttlætingar eru fundnar til að losna við "óþægilegar" raddir.

Þú talar svo um hefðir sem séu svo góðar hér, enda aldagamlar.  Hefðarök eru alltaf léleg rök eða besta falli veik rök.  Svo þegar betur er að gáð þá eru blessaðar hefðirnar ekki svo ýkja gamlar heldur.  Þó að það hafi heitað Alþingi hér áður, var ekki í raun um lýðræðislega skipað Alþingi að ræða eins og við höfum þekkt það síðastliðna öld.  Þá ber einnig að hugsa til þess að lýðræði er ekki eitthvað sem er skipulagt í eitt skipti fyrir öll.  Það tekur breytingum og það er eðlilegt að það þróist.  Megin inntak lýðræðisskipaninnar er valddreifingin og því er það ákaflega gott að Alþingi hlusti á raddir aðgerðarhópa (frjáls félagasamtök) til þess að sem mestar og bestar upplýsingar liggi fyrir þegar ákvarðanir um lög eru teknar. 

Fæst aðgerðarsamtök fara með valdi eða brambrölti og koma sínu á framfæri friðsamlega og með rökum.  Þú mátt því ekki lita öll slík samtök með þeim dómi sem þú setur á þá sem eru með ólæti og hindra störf opinberra aðila.  Hefðir eru ekki góðar vegna aldurs þeirra heldur einungis ef þær standast sífellda endurskoðun og kröfur um jafnræði og jafnrétti.  

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 28.7.2009 kl. 14:56

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll á ný

Smá leiðrétting:  í lið 1) hjá mér hér að ofan tala ég um "þessi mál", en ég á þar við um mál minnihlutahópa.

Smá viðbót:  Stundum hallar á meirihlutalýðræði vegna sterkra hópa sem hafa komið sér til valda og eru inngrónir í þjóðfélagið.  Dæmi:  Samkvæmt könnunum Gallup í áraraðir um það hvort að þjóðin vilji viðhalda þjóðkirkjuskipulaginu, er oftar en ekki meirihluti fyrir því að leggja það niður, en samt hefur þjóðin aldrei fengið að ræða þetta mál í kosningum (flokkarnir og fréttamenn forðast að ræða það fyrir kosningar) og aldrei fengið að kjósa um það.  Þó að þjóðkirkjan innihaldi um 80% Íslendinga var meirihluti fyrir því að leggja hana niður, en meirihlutaálitið sem þú hrósar svo mikið í grein þinni fær ekki að ráða þar.   Kirkjan er fjársterk og hugsanlega áhrifamikil gagnvart frekar stórum hópi kjósenda og þeim báti vilja stóru flokkarnir ekki rugga nema þá helst Vinstri grænir. 

Vonandi sérðu að málin eru flóknari en þú gefur í skyn í skrifum þínum og að aðgerðarsinnar geta verið hið þarfasta fólk.  Stjórnmálamenn eru jú sjálfir aðgerðarsinnar þó þeir starfi innan viðurkenndra aðgerðarflokka.

Svanur Sigurbjörnsson, 28.7.2009 kl. 15:15

9 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Hvaða lýðræði? Ertu að halda því fram að hér hafi ríkt samfellt lýðræði í gegnum þingið í þúsund ár? Fulltrúarræði samtímans með sjónarspili kosninga á fjögurra ára fresti er ekki  lýðræði. Kynntu þér Íslandssöguna og veruleikann.

Þorri Almennings Forni Loftski, 28.7.2009 kl. 15:43

10 Smámynd: Héðinn Björnsson

Meðan að valdhafar þessa samfélags geta skamtað sínum málstað allt að óendanlega miklum fjármunum úr arði okkar sameiginlegu vinnu er það tómt mál að tala um að þeir sem vilji breyta stefnu á Íslandi geti bara starfað innan flokkkanna og komið málum sínum á framfæri þar. Ég er viss um að talsmenn kerfisins á Stalíntímanum í Sóvétríkjunum hafi talað á sama hátt um þá sem höfðu aðrar skoðanir en valdhafarnir á því hvernig landinu ætti að stjórna.

Héðinn Björnsson, 28.7.2009 kl. 18:43

11 Smámynd: Skeggi Skaftason

Æ hvers slag bull er þetta!  Einn svona "aðgerðarhópur" spratt upp í haust sem leið, kallaði sig "Raddir fólksins", hópur fólks tengdist þeim svo beint og óbeint og lét í sér heyra og til sín taka.

Áttu samkvæmt þessum pistli þínum allir bara að sitja heima og bíða eftir að kjörnir fulltrúar okkar (sem sátu sem lamaðir) unnu í málunum?  Og við svo segja skoðun okkar í kosningum þremur árum seinna?!

"Aðgerðarhópar" sem þú kallar svo eiga fullan rétt á sér, en þurfa auðvitað að standa skil á aðgerðum sínum.

Skeggi Skaftason, 28.7.2009 kl. 22:59

12 Smámynd: Gunnar Þórðarson

Hverju orði sannara Friðrik.  Þessir ofbeldishópar eru óþolandi.  Það er einnig greinilegt að margir þessara hópa tengjast stjórnmálaflokki, og fer ekki á milli mála.

Þegar fólk heima á Íslandi talar um ,,bananalýðveldi" og óvirðir lýðræðisskipan hjá okkur, þá svellur í mér blóðið af illsku.  Ég held að það fólk viti ekkert hvað það er að tala um.  Ég er að flytja héðan frá Úganda í dag, eftir rúmt ár hérna.  Ég bjó áður á Sri Lanka og hef búið í Mexíkó og Rússlandi og dvalið töluvert í Íran.  Ég er tilbúinn að taka umræðu um lýðræði við hvern sem er að þessum ofbeldismönnum, ef þeir skilja þá hugtakið.

Gunnar Þórðarson, 29.7.2009 kl. 04:49

13 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Gunnar: Mér þykir nokkuð undarlegt að sjá þig nota orðið ofbeldi í þessu samhengi. Ég hefði haldið að eftir dvöl þína í Mexíkó, Rússlandi, Íran, Úganda og á Sri Lanka, ættirðu að þekkja muninn á því að loka nokkrum skrifstofum á friðsaman hátt og alvöru ofbeldi. Orðið ofbeldi hefur orðið fyrir undarlegri gengisfellingu undanfarið. Nú er sama orðið notað yfir það að læsa skrifstofum svo fólk mæti 20 mínútum of seint í vinnuna, og það að berja einhvern til óbóta með hafnaboltakylfu. 

Fullyrðing þín um að þessir "ofbeldishópar" tengist stjórnmálaflokki er svo algjörlega órökstudd. Þó stuðningsmenn Saving Iceland séu sammála einum flokkanna í umhverfismálum, þýðir það ekki að bein tengsl séu á milli. Éger t.d. sammála bandarískum demókrötum í nokkrum málum, en ég er ekki tengd flokknum á nokkurn hátt.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 29.7.2009 kl. 08:46

14 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Sumir eins og Þorgerður Katrín og Kínversk stjórnvöld telja í lagi að mótmæla á meðan það truflar engan. Þar að segja mótmæli sem eru ekki mótmæli og fáir taka eftir, aðeins marklausar og máttlausar samkomur. Ekkert gerðist s.l. vetur fyrr en við trommuritúalið sjamaníska þegar ráðherrar og alþingismenn voru teknir af taugum og löggunni rutt frá við Alþingishúsið. Sumir kalla það ofbeldi þótt mesta ofbeldið hafa verið frá vopnuðum sveitum ríkisvaldsins að venju.

Raddir fólksins náðu engum árangri áður. Mótmælaðagerðir þurfa að vera afgerandi, sérstaklega í þeirri samkepnni er ríkir um athyglina nú á dögum.

Sammála að hugtakið ofbeldi er ákaflega misnotað og útvatnað með því að klína því á alltof margt.

Þorri Almennings Forni Loftski, 30.7.2009 kl. 16:56

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband