Eru auðmenn Íslands að krefjast undirritunar Icesave samningsins?

Þeir innlendu aðilar sem eiga í dag fé inni á bankareikningum á Íslandi gætu tapað miklu neiti Alþingi að staðfesta þennan Icesave samning sem nú liggur fyrir Alþingi. Hafni Alþingi þessum samningi þá skapast óvissa um þær innistæður sem geymdar eru í bönkum á Íslandi.

Samkvæmt Íslenskum lögum þá er ekki ríkisábyrgð á innistæðum í Íslenskum bönkum. Þessar innistæður tryggir sérstakur Tryggingasjóður innlána. Eins og ég skil þetta mál þá eiga innistæðueigendur aðeins rétt á bótum frá þessum Tryggingasjóði fari banki í gjaldþrot. Dugi sjóðurinn ekki fyrir þessum innistæðum þá tapar fólk því fé sem Tryggingasjóðurinn nær ekki að tryggja.

Samkvæmt regluverki ESB þá eiga bankar á ESB svæðinu að tryggja að lámarki rúmar 20.000 evrur á hverjum innistæðureikningi. Icesave samningarnir ganga út á að standa við þá skuldbindingu.

Þáverandi forsætisráðherra lofaði, án umboðs frá Alþingi, að allar innistæður væru að fullu tryggðar í öllum Íslenskum bönkum. Alþingi, sem eitt getur skuldbundið þjóðina fjárhagslega, hefur að því er ég best veit aldrei staðfest þetta. Enda er þetta innistæðulaust loforð. Ekkert fé er til í bönkunum til að standa við þessi orð þáverandi forsætisráðherra. Álíka og ef hann hefði lofað flugvelli þar og jarðgöngum hér um leið og hann bað Guð og blessa þjóðina. Slík loforð eru innistæðulaus þar til Alþingi er búið að staðfesta þau með lögum.

15062009043Auk þess er ekki til neitt fé til þess að tryggja þessar innistæður í þessum gjaldþrota bönkum sem allt eins gætu aftur orðið gjaldþrota. Þetta fé verður að koma með einum eða öðrum hætti frá almenningi því bankarnir eru tómir. Að innistæður í þessum bönkum séu að fullu tryggðar er í raun ekkert annað en innantóm orð eins manns sem horfinn er á braut úr stjórnmálum. Hér er heldur ekki um neitt smá mál að ræða ef tryggja á að fullu allar innistæður hér innanlands. Alls er þetta talið vera töluvert stærra dæmi en allt Icesave málið. Og ekki til króna upp í þessar innistæður frekar en upp í Icesave.

Ég spyr, er ætlast til þess að þjóðin borgi Icesave og tryggi að auki að fullu allar innistæður á Íslandi?

Mín tilgáta er sú að þeir innlendu eigendur sem eiga fé sem geymt er í bönkum hér heima leggi nú mjög hart að ríkisstjórninni og alþingismönnum að samþykkja Icesave samninginn. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem náði að selja í Landsbankanum hlutabréf fyrir rúmar 100 milljónir nokkrum dögum fyrir hrun er án efa með það fé inni á einhverjum innlánsreikningi. Hann vill ábyggilega að þjóðin taki á sig ábyrgðir vegna Icesave og samþykki samninginn. Því verði það raunin þá er björninn unnin fyrir hann og aðra íslenska innistæðueigendur sem þá geta verið öryggir um að þjóðin verður líka látin tryggja og í framhaldi borga þeim þeirra innistæður.

Þá er það mín tilgáta að það hafi ekki verið nein tilviljun að það eigi að byrja að borga Icesave eftir sjö ár. Það passar fínt fyrir núverandi stjórnvöld, það gefur þeim frí í tvö kjörtímabil áður en þjóðin þarf að takast á við þetta mál. Forystumenn ríkisstjórnar gera væntanlega ráð fyrir að þau verið þá horfin af sjónarsviðinu. Núverandi stjórnvöld velja þá leið að flýja vandann og ætla annarri kynslóð að takast á við Icesave greiðslurnar. Þess vegna er núverandi stjórnvöldum slétt sama um þetta mál.

Já, látum börnin borga þetta. Látum þau taka þennan slag fyrir okkur, það er inntak þessa samnings.

Ég skora á Alþingi að fella þennan samning. Ég skora á Forsetann að neita að staðfesta lögin verði þau lögð fyrir hann. 

Við eigum ekki að greiða neitt vegna þessa Icesave máls nema við verðum dæmd til þess eftir málaferli fyrir alþjóðlegum dómstólum.

Í öllu falli eigum við alls ekki að skuldbinda komandi kynslóðir vegna þessa máls eins og nú er verið að reyna að gera með fáránlegu kúluláni og svívirðilegum vöxtum. 

Á lágkúran hér sér engin takmörk?

Mynd: Júní nótt á Vallabökkunum.

 

 


mbl.is Enn leynd yfir Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Snaran er að lokast um hálsinn - fljótlega getum við okkur ekki hreyft.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 16.6.2009 kl. 17:11

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hef ekki mótað mér endanleg afstöðu um hvað sé rétt að gera í sambandi við Icesave-málið, en máta málið við ákvörðun einstaklings um hvort hann á að halda áfram með málarekstur gegn t.d. voldugum banka fyrir dómi eða ná sátt við hann. Einstaklingurinn þarf að gera sér grein fyrir öllu sem málareksturinn kostar í tíma og óþægindum og hver stað hans er á meðan á málferlunum stendur, velja á milli þess að ljúka málinu núna með tilteknum byrðum inní framtíðina eða eyða mörgum árum í málarekstur og vera allan tíman útaf sakramentinu gagnvart öllum viðskiptum, - og geta þá eftir sem áður tapað málinu og hver er samningsstaðan þá? Spurningin er e.t.v. um að takmarka áhættuna með samningum annarsvegar eða að gimbla stórt til að geta bæði tapa stórt og unnið stórt en jafnvel þá e.t.v. bara formlega en hafa samt á tímanum sem það tæki og í ferlinu glatað miklu glatað öllu. - Sem einstaklingur gæti ég tekið slíka ákvörðun en teldi mig vart geta það fyrir þjóðina.

- Sárt mál þar sem engir kostir eru góðir kostir.

Helgi Jóhann Hauksson, 16.6.2009 kl. 18:31

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

„gambla stórt“ átti það að vera.

Helgi Jóhann Hauksson, 16.6.2009 kl. 18:32

4 identicon

Icesave-samningurinn: Fullur af gildrum breskra lögspekinga?

Icesave-samningurinn við Breta er einhliða nauðasamningur, fullur af gildrum breskra lögspekinga, faldar í óvenjuerfiðu ensku lagamáli. Ísland afsalaði sér þjóðréttarlegri stöðu sinni með samningum.

Þessu heldur Ívar Pálsson, viðskiptafræðingur og útflytjandi, fram og vitnar í heimildarmenn sína í íslenska kerfinu.  Orðrétt segir Ívar:

„Fólk djúpt innan kerfisins sem þekkir til Icesave- bardagans, staðfestir að þetta er einhliða nauðasamningur. Nú þegar greinar hans birtast lögspekingum kemur í ljós að allt morar í gryfjum gegn Íslandi. Gryfjurnar eru faldar í óvenju- erfiðu ensku lagamáli. Helst þar má nefna afsal Íslands á þjóðréttarlegri stöðu sinni, þar sem Bretum tókst að færa málið úr þjóðarétti, samningum á milli þjóða, yfir í breskan einkarétt. Lögsagan yrði í raun bresk, í stað þess að vera þjóðréttarleg. Þetta er gert með því að draga íslenska ríkið inn í einkaréttarsamninga á milli banka og tryggingarsjóðsins, sem er einkaaðili. Fyrir vikið missir íslenska ríkið flestan þann rétt og þá stöðu sem fyrir hendi er í dag í þessu máli. Nær ómögulegt yrði að koma viðhlítandi vörnum við frá okkar hendi. Mál þessi fengjust ekki rædd t.d. hjá Sameinuðu þjóðunum, þar sem um einkarétt yrði að ræða. Mál með rakinn rétt Íslands yrðu að engu með afsalinu stóra.“

Ívar segir að vegna þessa fái Bretar í raun ýmsar eignir íslenska ríkisins að veði ef greiðslubrestur verði á samningnum. Þannig gætu Bretar í raun gengið að ýmsum eignum fjármálaráðuneytisins sjálfs.

„Breska ríkið setti raðir lögfróðs fólks, sérfræðinga í það að semja hverja grein samningsins. Hér er mjög undirmannað og eðlilegir umsagnaraðilar fá hvorki samninginn né þá ráðrúm til þess að skoða hann. Brotið er á grundvallarrétti manna með þessari samningagerð. Maður ber ekki ábyrgð á gjörðum annarra nema að maður hafi skrifað undir slíka ábyrgð.“


Ívar segir samninginn bera augljós merki þess að vera einhliða gjörningur breska ríkisins...

„...nauðungarsamningur sem íslenska samninganefndin telur sig hafa orðið að verða við vegna stjórnmálalegs þrýstings, í stað jafnhliða samnings á milli þjóða. Þrýstingurinn að ljúka málinu er svo mikill að augljóslega varð djöfullinn eftir í smáatriðunum.“

(Forsíðugrein á Pressan.is 16.06.)

anna (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 19:35

5 identicon

Friðrik, þetta Icesavemál er nú meira klúðrið. Ég veit ekki hvar á að byrja. Ég þykist vita að Jóhanna, Steingrímur og kó eru prýðisfólk, en þessu verki gersamlega óvaldandi. Hver veit hverjir eru að setja þrændi í þeirra götur og afvegaleiða kannski með þeim hætti sem þú ýjar að. Þetta er ekki verkefni fyrir nema eitilharða jaxla. Og meðan ég man, Svavar Gestsson er ekki einn slíkur. Ekki öfunda ég dómsmálaráðherra af að reyna greiða götur Evu Jóly móti þeirri klíku samtryggingarinnar sem er bergrunnin í kerfinu, en það er önnur saga.Ég vil eindregið taka undir þín orð, og andmæla Helga Jóhanni, að reyna þarf á Icesavemálið fyrir dómstólum. Einnig þarf að láta reyna á beitingu hryðjuverkalaganna á Bretlandi fyrir dómstólum þar. Ég vil benda á að Engilsaxar hafa allt annað lagakerfi en við. Þeir hafa yfir 2000 ára hefð fyrir sínu "common law" kerfi. Það er ekkert, EKKERT, mál sem ekki er í þess verkahring. Reyndar myndi ég halda að setja þessi mál EKKI fyrir dómstóla á Bretlandi sé alger sóun á fínu kerfi og glötun á tækifæri til að setja grundvallarfordæmi sem engilsaxneska kerfið gengur svo mikið út á. Líklegt er að ýmsir færustu lögmenn þeirra myndu glaðir spreita sig á þessu verkefni. Reyndar tel ég að dómari á Bretlandi gæti orðið okkar besti liðsmaður og borið blak af okkur meðan málum er ráðið. Þetta kann að hljóma undarlega fyrir mörgum, en í engilsaxneska kerfinu er dómskerfið mótvægi við það pólitíska. Allir hafa einblínt á pólitískar lausnir og hunsað þær lagalegu. Þær lagalegu yrðu alls ekki verri en þær pólitísku, því dómari myndi afgreiða málið á faglegan hátt. 

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 19:45

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Þetta kemur þér ekki við.... Athyglisvert sem Anna bendir á frá Ívari Pálssyni!

Ævar Rafn Kjartansson, 16.6.2009 kl. 22:58

7 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Þetta "IceSLAVE mál" er vægast sagt "glæpasamlegt klúður" og það er eitt mikilvægasta hlutverk Alþingi íslendinga að sjá til þess að menn hætti að semja ENDARLAUST af sér í svona STÓRMÁLUM...!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 17.6.2009 kl. 00:53

8 identicon

Er enginn að vinna í því að finna alla þessa peninga sem hurfu? Á bara að gleyma þeim því stjórnin er svo upptekin af að skuldbinda okkur fyrir þeim.

Getur einhver sagt mér af hverju, Geir og Solla á sínum tíma fóru ekki beint til Breta og Hollendinga og þeirra sem málið varða, og sömdu um samstarf og hjálp að finna peningana og rekja alla enda og finna ábyrga? Og nú eru Jóhanna og Vinstri grænir fallin í sömu gryfju.

Við Íslendingar, Bretar og Hollendingar erum jú öll fórnarlömb þessara glæpamanna.

Hvað eru Ráðherrar okkar endalaust að fela?  Því eru þau ekki að semja um að leysa glæpinn, en eingöngu að reyna að binda hann sem myllustein um þjóðarhálsinn um ókomna framtíð.

Vei okkur sem þjóð ef Alþingi samþykkir þetta bull.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 01:30

9 identicon

Ævar,

það er eflaust nákvæmt sem Ívar Pálsson segir. Ég tel hins vegar að samningar þeir sem Bretar hafa skrifað upp séu ekkert einsdæmi; það er þannig sem alvöru lögmenn vinna sín verk. Það er talandi að Bretar og Hollendingar eru að njörva þessa samninga niður í lagakrækjum til að verja  fyrir hugsanlegum árásum fyrir dómstólum. Sem sýnir að þetta er lagalegt atriði fyrst og síðast. Og eins og Friðrik bendir á þarf að láta dómstóla fjalla um.....áður en Íslendingar hafa afsalað sér sínum rétti.

Gallinn er sá að okkar menn eru hugsanleg komnir of langt út og botna ekki lengur. Ég er ekki einu sinni viss að þeir viti hversu grátt leiknir þeir eru sbr. yfirlýsingar Svavars Gestssonar í viðtölum. Mig grunar líka að Íslendingar og ríkistjórnin nú- og fyrrverandi séu hræddir og líti á sína stöðu sem veika, og vonist til að kaupa sér grið með undirgefni. Sem er rangt í öllum atriðum.

Ég þekki nóg til Engilsaxa að það er ekkert sem þeir fyrirlíta meira en linkind og skráveifa. Bretar og Hollendingar (plús Ameríkanar) eru "fighters" að eðlisfari. Þeir virða þá sem berjast; sem er hvað þeir gera sjálfir þegar ögrað. En það er hugtak sem hefur gersamlega dottið úr hugarfari okkar Íslendinga og hinna evrópsku linkindanna sem við teljum okkar nánastar. 

En staðan er sú að Icesavemálið er slagur.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 01:38

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband