Kattaþvottur Seðlabankastjóra.

seðlabkDapurlegt er að lesa þetta yfirklór Ingimundar Friðrikssonar seðlabankastjóra. Vorið 2006 féll Íslenska krónan um 25% í kjölfar gagnrýni ýmissa erlendra aðila, m.a. Danske Bank. Þar voru á ferð aðilar sem af velvild og vinsemd voru að vara stjórnvöld og almenning á Íslandi við þeirri helreið sem Íslensku bankarnir voru þá á. Í framhaldi lokuðu margar stærstu lánastofnanir heims  dyrum sínum á Íslensku bankana. 

Ekkert gerði Seðlabankinn með þessar viðvaranir og vísað þeim frá sem hverjum öðrum þvættingi. Þetta ár lækkaði Seðlabankinn bindiskyldu bankana hér heima og afnam hana í erlendum útibúum þeirra. Á helreið Íslenska bankakerfisins á þessum krítíska tímapunkti þá sló Seðlabankinn undir nára í stað þess að taka í taumana og spyrna við fótum.

Þegar Íslensku bankarnir gátu ekki fengið meiri lán í erlendum bönkum til að halda áfram að stækka þá hófu þeir, í boði og með blessun Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar, að safna sparifé almennings í Evrópu inn á innlánsreikninga sína og buðu bestu innlánskjör sem þekkst hafa í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Íslensk þjóð mun súpa seiðið af því bulli um ókomin ár. Í stað þess að taka í taumana og spyrna við fótum slær Seðlabankinn enn á ný undir nára.

Menn miða upphaf þessarar miklu kreppu við júlí eða ágúst 2007. Í september það ár var farið að gæta lausafjárþurrðar hjá Íslensku bönkunum. Í október 2007 voru allir Íslensku bankarnir hættir að geta lánað almenningi hér á landi til kaupa á íbúðarhúsnæði. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar það gerðist?

Fyrir ári síðan, í febrúar 2008, var staðan orðin þannig að fjármögnunarfyrirtæki bankana gátu ekki lengur boðið einstaklingum upp á bílalán. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar það gerðist?

Frá vorinu 2006 hefur fjöldi aðila varað við hruni bankana. Flestir þeirra höfðu hér engra hagsmuna að gæta og voru í vinsemd og virðingu að vara stjórnvöld og almenning við fyrirsjáanlegu bankahruni. Stjórnvöld, bankarnir og Seðlabankinn vísuðu öllum slíkum aðvörunum á bug með skætingi. Ráðamenn létu þá hafa eftir sér ótrúleg ummæli. Þessum aðilum bent á að fara í endurmenntun, þeir kallaðir öfundarmenn og þar fram eftir götunum. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar allar þessar aðvaranir allra þessara góðu manna streymdu á þriðja ár inn í Seðlabankann?

Stærsta spurningin í mínum huga er þó af hverju bönkunum var ekki sett svipað lagaumhverfi og er t.d. á hinum Norðurlöndunum. Í lögum flestra annarra landa er  að finna eftirfarandi lagaákvæði.

  • Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
  • Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
  • Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
  • Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum á samkeppnismarkaði.

Ég spyr, af hverju gerði Seðlabankinn og stjórnvöld ekkert í því að setja á bankana lög og reglur svipuðum þeim sem gilda í öðrum löndum?  Þessi afglöp eru að kosta Íslenska þjóð slíka fjármuni að það þarf fleiri en eina kynslóð Íslendinga til að greiða þær skuldir. 

Að seðlabankastjóri komi nú og skýli sér á bak við gjaldþrot eins banka úti í Bandaríkjunum er lákúra. Það gjaldþrot var kannski kornið sem fyllti mælinn en sá mælir var þá þegar orðin barmafullur.

Axlaðu þína ábyrgð á gjalþroti Íslenska bankakerfisins Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri og segðu af þér.

Engir embættismenn hafa á lýðveldistímanum brugðist Íslenskri þjóð jafn illa og stjórnendur Seðlabankans nema ef vera skildi stjórnendur Fjármálaeftirlitsins.

 

Áherslur okkar í Norræna Íhaldsflokknum í ríkisfjármálum og hvaða lög við viljum setja á fjármálastofnanir má finna hér.

 


mbl.is Örlög bankanna réðust með falli Lehman Brothers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gerður Pálma

Frábærilega skrifað, 100% sammála.

það þurfti engar viðvörunarbjöllur, auðvitað vissu þessir menn allir hvað var í gangi, það mátti bara enginn annar vita það,  mjög hugsanlega hafa þeir á einn eða annan hátt átt eigin hagsmuna að gæta og það er ekki mál sem neinn vill styðja opinberun á,  ófagleg vinnubrögð og ´reddingar´eru trúlega móðir margra mistaka, en það eru þjóðhættir sem við verðum að venja okkur af. Annars náum við okkur aldrei á eðlilegt skrið.  Það er ekkert gagn í gagnrýni og eða viðvörunabjöllum ef ekkert tillit er tekið til þeirra.

Gerður Pálma, 6.2.2009 kl. 18:14

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þessi óflutta ræða IF er og verður óspart notuð af Sjálfstæðismönnum til að hamast á núverandi stjórn. Þar skiptir sannleikurinn ekki máli, frekar en vant er. Sálfræðistríð er hafið og það á einungis eftir að harðna,. Við skulum bara muna það að Sjálfstæðisflokkurinn er æi fortíðinni, þeir eru að verja fortíðina, um og þeir sjá það betur og betur með hverjum deginum að þeir eiga ekki bara í stríði við stjórnarflokkana, heldur þjóðina sem er vöknuð og vill nýja framtíð.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.2.2009 kl. 22:49

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Flottur pistill, Friðrik, og nefna má fleiri ákvæði á sviði íslensks fjármálakerfis þar sem nýfrjálshyggjumennirnir íslensku ætluðu að slá alla aðra út í lausung og lausatökum.

Hannes Hólmsteinn og fleiri hamast nú við að skrifa söguna eftir sínu höfði í Wall Street Journal og hvar sem við verður komið til að komast undan þeim dómi, sem mun koma fram, þótt síðar verði, um ábyrgð þeirra sem réðu ferðinni í þessari helför íslensks efnahagslífs.  

Þeir skella skollaeyrum við því sem gerðist á tímabíli sem þegar er farið að kalla Thatcher-Reagan tímabilið og verður á Íslandi kallað Thatcher-Reagan / Davíðs-Halldórs tímabilið.

Ómar Ragnarsson, 6.2.2009 kl. 23:02

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Skýrsla Ingimundar er langt frá því að vera fullnægjandi, sem greining á orsökum fjármálkreppunnar. Hann víkur ekki einu orði að "torgreindu peningastefnunni" (discretionary monetary policy) sem Seðlabankinn fylgir og sem bankinn nefnir "sjálfstæða peningastefnu". Þar með er sleppt að nefna þann kerfisvanda, sem nær ávallt hefur verið orsök fjármála-hruns um allan heim og var það svo sannarlega hérlendis.

Ekki nefnir Ingimundur það brjálæði sem fylgdi inngöngu Íslands í Evrópska efnahags-svæðið (EES). Hér er ég að tala um innlána-tryggingu, vegna Íslendsku bankanna á erlendri grundu. Tilskipun Evrópusambandsins (94/19/EC), sem samþykkt var á Alþingi 12.janúar 1993, lagði slíkar kvaðir á þjóðina að seint mun verða risið undir.

Hvers vegna fjallaði Seðlabankinn ekkert um þessa tryggingu ? Af viðbrögðum Davíðs Oddsonar, dreg ég þá ályktun að ekki hafi neitt verið fylgst með regluverki EES og þeim kvöðum sem verið var að búa þjóðinni. Það kom sem sagt Seðlabankanum jafn mikið á óvart að þjóðin væri ábyrg fyrir þessum ógnvænlegu kröfum og fólki almennt. Var einhver í stjórnsýslunni sem hafði auga með þessum kröfum ? Eru ekki líkur til að meira sé af svona hryllingi sem almenningur veit ekkert um ?

Ingimundur skautar létt yfir lausafjárstöðu viðskipta-bankanna og algjöran skort á eftirliti með henni. Vissi Seðlabankinn ekki um lygar bankastjóranna, að lausafjárstaða þeirra væri trygg til 12 - 18 mánaða. Þessar lygar voru árum saman endurteknar á ársfjórðungsfundum bankanna. Svo kom í ljós, að lausaféð var háð lánalínum sem voru einskis virði þegar til átti að taka.

Vanhæfni Seðlabankans var mikil, en því miður virðist ekki ætlunin að gera neinar úrbætur á peningastefnunni. Fimm bankastjórar eiga að leysa þá þrjá af hólmi sem stjórnuðu hrunadansinum. Krafa um hagfræðimenntun til handa aðal-bankastjóranum er stórkostlegt grín í ljósi mistaka hagfræðinganna í Seðalbankanum jafnt og í viðskiptabönkunum. Sömu hagfræðingarnir og gerðu landið gjaldþrota eru ennþá á jötunni við "endurreisnina".

Loftur Altice Þorsteinsson, 7.2.2009 kl. 00:14

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mjög góð grein, Friðrik.  Málið er að menn eru í sí og æ að bera blak af sjálfum sér.  Það er þetta með flísina og bjálkann.  Af þeirri ástæðu er mjög mikilvægt að fengnir séu óháðir aðilar til að meta hvað fór úrskeiðis.  Kannski er nóg að leggja saman allt sem menn kenna hver öðrum um og þá fáum við rétta mynd.

Marinó G. Njálsson, 7.2.2009 kl. 00:25

6 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Góð grein hjá þér, það sorglega við svona góðar greinar er að það eru bara örfáir sem sjá þær og en færi sem lesa, það þarf að koma svona greinum í blöð og tímarit á hverjum degi, þar til að þessir hlutir komast í lag.

Sigurveig Eysteins, 7.2.2009 kl. 09:47

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sæll Friðrik. Orð í tíma töluð og til hamingju með nýja flokkinn. Það verður að segjast eins og er að allir sem hafa verið í valdastöðum síðastliðin 5 ár eru gjaldfallnir. Nú þarf nýtt fólk með nýjar hugmyndir sem er alls ekki það sama og gamla liðið með hugmyndir í nýjum umbúðum. Kíktu á nýja bloggið mitt um íslenska mannauðinn og hina dæmigerðu íslensku hóphugsun - þegar allir þegja og þögn er tekin sem samþykki. Annars, erum við ekki bara að fara í gengun sama ferlið og Grænlendingar þegar Danir innleiddu áfengi. Ótakmarkað áfengi á Grænlandi = ótakmarkað lánsfé á Íslandi?

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.2.2009 kl. 11:38

8 Smámynd: Billi bilaði

Tek undir með Sigurveigu.

Billi bilaði, 7.2.2009 kl. 11:40

9 identicon

Spurning hvað SÍ gat gert og átti að gera. Varla hlutverk SÍ að setja lög og reglur.

OskarJ (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 13:16

10 Smámynd: Hjalti Tómasson

Góð grein, óskandi að fleiri væru færir um að útskýra þessa hluti á mannamáli, til dæmis þeir sem í dag eru á harðspretti við að moka yfir gerðir sínar og finna blóraböggla og hafa menn í vinnu við að koma eignum sínum og fjármunum í felur.

Og athugasemd við innlegg Óskars J hér á undan. Er ekki hlutverk SÍ að sjá til þess að hér sé rekið hagkerfi á eðlilegum forsendum ?

Er það ekki það sem sjálfstæði hans gengur út á, þ.e. að vera óháður duttlungum stjórnmála eða fjáraflamanna ?

Hjalti Tómasson, 8.2.2009 kl. 22:46

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband