Er loks komið trúverðugt framboð til Alþingis?

Kortleggjum raunverulega stöðu þjóðarbúsins

Enginn veit hvert hann á að fara nema hann viti hvar hann er. Staða þjóðarbúsins virðist á reiki og því viljum við fá óháða úttekt erlendra sérfræðinga á raunverulegri stöðu bankanna, eignum þeirra og skuldum, og einnig á stöðu ríkissjóðs, sveitarfélaga, heimila og fyrirtækja. Þegar staðan liggur fyrir, verður hægt að ákveða framhaldið, m.a. hvernig hægt sé að rétta hlut skuldugra heimila frekar en orðið er.

 

 Lögfesta skýrar kröfur um öryggi og eignarhald banka svo þeir þurfi að lúta hraðahindrunum ásamt virku eftirliti

Koma þarf bankamálum í viðunandi horf til frambúðar og leiða í lög skýrar kröfur um öryggi banka, eignarhald þeirra, umfang, eigið fé, lausafé, útlánaþök, afskriftir, skuldasöfnun og skil á lánum. Með lögum þarf m.a. að setja eigendum banka ströng skilyrði til að tryggja, að bankar gegni hlutverki sínu með hagkvæmum hætti. Misheppnuð einkavæðing bankanna 1998-2003 hnykkir á nauðsyn þess, að eigendur banka séu valdir af kostgæfni og upprunarannsókn fari fram á því fé, sem notað er til að kaupa banka. Banna þarf kaupauka bankastjórnenda. Til álita kemur að laða flekklausa erlenda banka til starfs á Íslandi, sé þess kostur, svo að hér sé t.d. einn innlendur ríkisbanki eins og í Noregi og tveir erlendir bankar að auki.

 Girða þarf fyrir getu banka til að braska með innstæður með því að reisa eldveggi milli venjulegrar bankastarfsemi og áhættufjárfestingar eða aðskilja að fullu viðskiptabanka- og fjárfestingastarfsemi. Setja þarf lög eða reglur um leyfilegan hámarksvöxt útlána bankanna, gera strangar kröfur um gagnsæi, efla fjármálaeftirlit til að halda bönkunum í skefjum og stuðla að eðlilegum starfsháttum þeirra með sterkari neytendavernd á fjármálamarkaði.

 Útlánaþök banka eru ígildi hraðahindrana, sem öllum þykja sjálfsagðar til að tryggja umferðaröryggi á vegum. Bönkum má ekki líðast að vaxa landinu aftur yfir höfuð eða hegða sér eins og ríki í ríkinu.

 

Verja fólkið í landinu fyrir ágangi vogunarsjóða og losa um „snjóhengjuna“ svo hægt sé að afnema gjaldeyrishöft

Vogunarsjóðir eiga ekki heima í bankarekstri. Bankar eiga ekki að vera spilavíti. Þegar staða gjaldeyrismálanna liggur fyrir, þarf að finna leið til að losa um „snjóhengjuna“ (nú um 400 milljarða króna eign erlendra kröfuhafa í bönkunum, sem vilja flytja féð úr landi). Sé svo mikið fé flutt úr landi í einum rykk, er líklegt, að gengi krónunnar falli til muna með alvarlegum afleiðingum fyrir kaupmátt og eignastöðu heimilanna. Ein leið til að aftra slíku gengisfalli er að semja við kröfuhafa um uppgjör á löngum tíma. Önnur er að leggja útgöngugjald á úttekt fjárins í gjaldeyri. Fleiri leiðir eru færar til að losna við vogunarsjóðina og undan snjóhengjunni, en engin þeirra er góð.

 Gjaldeyrishöftin standa efnahagslífinu fyrir þrifum og þurfa að víkja, enda samrýmast þau ekki skuldbindingum Íslands innan EES nema sem neyðarráðstöfun. Upptaka evru eða annars erlends gjaldmiðils í stað krónunnar verður aðeins ákveðin í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá Veraldarvaktina sem birtist innan skamms).

 

Endurskoða ríkisbúskapinn til að halda útgjöldum og almennum sköttum í skefjum

Umbótum í fjármálum ríkisins er hægt að ná fram með uppskurði frekar en niðurskurði. Einstakar risaframkvæmdir þarf að skoða vel, áður en í þær er ráðist. Standa þarf vörð um velferðina og leita jafnframt hagkvæmra lausna með fjölbreytni og skilvirkni að leiðarljósi. Halda þarf aftur af almennri skattheimtu, en afla fjár til almannaþarfa í auknum mæli með auðlindagjöldum og hvalrekasköttum, þ.e. sköttum á skyndigróða vegna sérstakra atvika, t.d. gengisbreytinga. Gera þarf markvissa áætlun um ráðstöfun auðlindagjalda. Hækka þarf skattleysismörk til að bæta hag láglaunafólks. Grynnka þarf á skuldum ríkisins, þar eð vaxtabyrðin vegna skuldanna er nú allt of þung. Finnist olía í íslenskri lögsögu, verður ráðgjöf um meðferð olíuarðsins sótt til Noregs, ekki Nígeríu (sjá Auðlindavaktina sem birtist innan skamms).

 

Stöðugt, gróandi efnahagslíf og hagkvæma verkaskiptingu almannavalds og einkaframtaks

Styrk stjórn peningamála og fjármála ríkisins þarf að miða að fullri atvinnu, lítilli verðbólgu og endurheimt svipaðra lífskjara og annars staðar um Norðurlönd. Keppa þarf að því að skapa ákjósanleg skilyrði til innlendrar og erlendrar fjárfestingar í atvinnurekstri. Í ljósi sögunnar þarf að leggja þunga áherslu á viðnám gegn verðbólgu með því að halda ríkisútgjöldum og útlánum bankanna í skefjum. Mistök í peningastjórn á liðinni tíð kalla á betri peningastjórn, síður á umbyltingu peningakerfisins. Leita þarf leiða til að nýta einkaframtak og frjáls félagasamtök í almannaþágu að norrænum fyrirmyndum, t.d. í heilbrigðis- og menntamálum.

 

Sjálfbært atvinnulíf, engan pilsfaldakapítalisma

Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda. Ríkisvaldið á ekki heima í atvinnurekstri og má ekki heldur hygla eða mismuna atvinnufyrirtækjum og atvinnuvegum. Pilsfaldakapítalismi, þar sem einkaframtakið hirðir ágóðann undir pilsfaldi ríkisins og ríkið ber tapið, á engan rétt á sér. Setja þarf strangar reglur um fjármál stjórnmálaflokka. Svipta þarf hulunni af fjárframlögum fyrirtækja til stjórnmálaflokka aftur í tímann líkt og Rannsóknarnefnd Alþingis afhjúpaði fjárframlög og lán bankanna til stjórnmálamanna og flokka fram að hruni og setja skýrar reglur um slík fjárframlög til framtíðar í samræmi við ákvæði nýrrar stjórnarskrár. Girða þarf með lögum fyrir kennitöluflakk.

 

Frelsi í viðskiptum, frelsi með ábyrgð

Frjálst framtak og frjáls viðskipti innan lands og út á við eru undirstaða gróandi efnahagslífs. Renna þarf styrkum stoðum undir fjölbreytta útflutningsatvinnuvegi, m.a. sprotafyrirtæki og ferðaþjónustu, með réttri gengisskráningu krónunnar án gjaldeyrishafta. Frelsi fylgir ábyrgð. Þeir, sem keyra banka í þrot með lögbrotum, þurfa að sæta ábyrgð að lögum.

 

Skuldavandi heimilanna

Rétta hlut heimilanna með því að færa niður höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána með almennum aðgerðum

Tryggja að skipan húsnæðislána taki mið af ríkjandi reglum um neytendavernd innan EES sem Ísland hefur lögleitt

Gæta jafnræðis milli lántakenda og lánveitenda, m.a. með endurmati eða afnámi verðtryggingar húsnæðislána, og brúa bil kynslóðanna

Verðtrygging fjárskuldbindinga var í upphafi leidd í lög til að hemja óhóflega rýrnun sparifjár vegna langvinnrar verðbólgu. Í framkvæmd hefur verðtryggingin reynst hafa tvo megingalla:

Þegar kaupgjald hækkaði hægar en verðlag, t.d. 2008-10, leiddi verðtryggingin til þess, að skuldir heimilanna uxu hraðar en laun og mörg heimili lentu í greiðsluerfiðleikum.

Vegna viðmiðunar fjárskuldbindinga við verðlag án tillits til kaupgjalds hafa lántakendur borið mesta áhættu vegna lánasamninga og lánveitendur borið litla áhættu.

Við bætast efasemdir lögfræðinga um lögmæti verðtryggingar húsnæðis- og neytendalána eins og hún hefur verið framkvæmd.

Viðmiðun við nýja vísitölu er ætlað að girða fyrir áhrif misgengis kaupgjalds og verðlags á hag heimilanna með því að miða höfuðstól húsnæðislána sjálfkrafa við verðlag þau ár sem kaupgjald hækkar hraðar en verðlag og við kaupgjald þau ár sem kaupgjald hækkar hægar en verðlag. Markmiðið er sanngjörn áhættudreifing milli lánþega og lánveitenda, svo að

Lántakendur skaðist ekki, þegar kaupmáttur launa minnkar (t.d. 1989-90, 1992-94 og 2008-10 og einnig um og eftir 1983);

Lánveitendur haldi sínu, þegar kaupmáttur launa vex, sem er algengast;

Veitt sé færi á, að höfuðstóll verðtryggðra lána verði endurreiknaður á grundvelli nýrrar vísitölu aftur í tímann, t.d. frá og með hruninu 2008, til að rétta hlut heimilanna;

Betra færi skapist á umskipan bankamála og fjármálamarkaðar fram í tímann;

Lántakendum sé frjálst að velja milli lána, sem miðast við nýja vísitölu, og óverðtryggðra lána í skjóli nýrrar lagaverndar lántakenda gegn lánveitendum;

Skilyrði skapist til afnáms verðtryggingar húsnæðis- og neytendalána sem almennrar reglu til samræmis við skipan mála í nálægum löndum.

Aðrar leiðir eru færar að sama marki, t.d. viðmiðun húsnæðislána við verðbólgumarkmið Seðlabankans frekar en við núgildandi verðvísitölu.

Kosti og galla ólíkra leiða og kostnaðinn, sem af þeim leiðir, þarf að vega og meta.

Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, svo að vextir og gjaldtaka lánastofnana geti orðið með svipuðum hætti og í nálægum löndum og lántakendur geti auðveldlega endurfjármagnað lán sín bjóðist betri kjör. Til að auka samkeppnina þarf að lækka verulega kostnað við að flytja viðskipti á milli banka.

Viðurkenna þarf það sjónarmið, að miklar skuldir eru ekki aðeins á ábyrgð lántakandans, heldur einnig lánveitandans. Engum verður gert að bera þyngri skuldabyrði en hann getur borið.

Efnahagsvaktin  -  úr stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar.

http://xlvaktin.is/

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Aumt þykir mér af þér, Friðrik minn, að styðja Lýðræðisvaktina, sem hefur harðan ESB-innlimunarsinna í forsæti og boðar, að halda skuli áfram með aðildarviðræður! (næstu tvö ár a.m.k.). Var ekki komið meira en nóg af ESB-innlimunarsinna-stjórnmálaflokkum?

Jón Valur Jensson, 5.3.2013 kl. 23:55

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Tek undir með Jóni Val.

Það er ekki hægt að gera Þorvald Gylfason að leiþtoga lífsins, eða þjóðar okkar.

Maðurinn ætti að vera á pólitískum "VÁV" lista ævilangt, þjóðinni til ævarandi viðvörunar !

Maðurinn sem vildi greiða allar ólögvarðar ICESAVE kröfur Breta og Hollendinga upp í topp með vöxtum, alveg sama hvað og barðist fyrir því !

Jafnvel þó svo einhver alþjóðlegur dómsstóll fengist til þess að dæma þær ólöglegar.

Þá fannst Þorvaldi að við ættum og skildum samt greiða þær til þess að þóknast ESB og af siðferðilegum ástæðum.

Samkvæmt því sem hann sagði þá vill hann sjálfssagt enn greiða allar þessar kröfur upp í topp með vöxtum, vaxtavöxtum og málskostnaðinn líka.

Það kæmi ekki á óvart að það sé á stefnuskránni hjá þeim á lýðræðisvaktinni og þá auðvitað vel falið í smá letrinu, eins og sjálft ESB trúboðið. - Sem þó er eina markmið þessa framboðs !

Gunnlaugur I., 6.3.2013 kl. 10:42

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Jón og takk fyrir innlitið.

Mjög skiptar skoðanir eru meðal stofnenda Lýðræðisvaktarinnar um ESB aðild. Pétur, vinur þinn á útvarpi Sögu hefur hingað til ekki talist mikill áhugamaður um inngöngu í ESB. Þessi hópur er hins vegar sammála um að ljúka þessu ferli sem nú er í gangi með því að fram fari bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Er það ekki það lýðræðislega sem hægt er að gera með þetta stóra ágreiningsmál að láta þjóðina, ekki þingið, úrskurða í þessu máli?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.3.2013 kl. 19:56

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Gunnlaugur

Gleymum því ekki að okkar núverandi þingmenn, að örfáum undanskildum, studdu þessa Icesave samninga. Þar með talið formaður og flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Sem betur fer tók þjóðin fram fyrir hendurnar á þessu fólki en við megum samt ekki dæma tæp 40% þjóðarinnar sem óalandi og óferjandi þó þetta fólk hafi stutt Buchheit samninginn.

Og eins og sjá má á meðfylgjandi stefnu Lýðræðisvaktarinnar í efnahagsmálum þá er ljóst að okkar færustu hagfræðingar hafa komið að gerð hennar.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.3.2013 kl. 20:06

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, Friðrik. Þú segir Pétur Gunnlaugsson á útvarpi Sögu hingað ekki hafa verið mikill áhugamaður um inngöngu í ESB, en nú er heldur betur skipt um hjá honum, því að frá síðastliðnum þriðjudagsmorgni hefur hann talað gegn sjálfstæðismönnum fyrir að vilja hætta viðræðunum, og sjálfur vill hann halda þeim áfram og "fá svo bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu". Þar er þó sá hængur á, að það er ekki skv. ferlinu sem ákveðið var 2009, heldur var talað þar um "ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu."

En þú skrifar: "Þessi hópur er hins vegar sammála um að ljúka þessu ferli sem nú er í gangi með því að fram fari bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið," og bætir við: "Er það ekki það lýðræðislega sem hægt er að gera með þetta stóra ágreiningsmál að láta þjóðina, ekki þingið, úrskurða í þessu máli?"

Það lýðræðislega hefði verið að fella ekki (eins og stjórnarmeirihlutinn þó gerði) tillögur um að setja sjálfa "aðildarumsóknina" í þjóðaratkvæði strax í upphafi 2009.

Frá upphafi umsóknarinnar hefur ALDREI í öllum skoðanakönnunum verið meirhlutavilji þjóðarinnar fyrir inntöku Íslands í Evrópusambandið. Vinstri græn höfðu EKKERT umboð, nema síður væri, til að sækja um þetta. Umsóknin var á vegum Samfylkingar og VG, ekki þjóðarinnar né Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hvorki þjóðin né þeir flokkar geta því talizt bundin að halda áfram þessu "ferli" vinstri flokkanna, sem hefur kostað okkur UM EINN MILLJARÐ KRÓNA/a> og það á þeim tíma þegar fjár hefur verið sárlega vant í heilbrigðiskerfið!

Jón Valur Jensson, 7.3.2013 kl. 00:16

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þorvaldur Gylfason tók það líka alveg sérstaklega fram, að jafnvel þótt við YNNUM Icesave-málið fyrir dómstólum, þá væri þjóðin samt siðferðilega skyldug til að borga Icesave! Og þessi maður vill komast á þing! Og Pétur Gunnlaugsson heitir fánaberi hans á Útvarpi Sögu.

Jón Valur Jensson, 7.3.2013 kl. 01:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband