Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Setja verður ströng lög á Íslenskar fjármálastofnanir

bankarSetja verður ströng lög um fjármálafyrirtæki sem kveða m.a. á um:

  • Bönkum verði bannað að eiga í öðrum fyrirtækjum og félögum. 
  • Að þeir sem eiga meira en 1% í bönkum þeir mega ekki eiga fyrirtækum í samkeppnisrekstri á almennum markaði.
  • Að viðskiptabönkum verði bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Stefni í meiri hagnað ber þeim að lækka vexti eða þjónustugjöld. Með þessu er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
  • Tekin verði upp ákvæði Danskra bankalaga sem banna stjórnendum fjármálastofnanna að eiga í hlutafélögum í samkeppnisrekstri á almennum markaði.

Ofangreind ákvæði er að m.a. finna í lögum landanna hér í kring. Látum ekki núverandi og komandi eigendur og stjórnendur Íslenskra banka koma Íslenskri þjóð út svipuð vandræði aftur.

Sjá nánar stefnu Norræna Íhaldsflokksins í ríkisfjármálum hér.


mbl.is Mál gegn Landsbankanum á Spáni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákærum þá fyrir landráð vegna Icesave

482547Eftir Íslensku bankakreppuna 2006 þegar m.a. Danske Bank spáði gjaldroti Íslensku bankana minnkuðu verulega möguleikar þeirra að fjármagna sig með lánum frá öðrum bönkum. Það var með vilja og vitund Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að Íslensku bankarnir hófu að safna innlánum erlendis þegar flestir erlendir bankar höfðu lokað á Íslensku bankana.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn áttu að vita og hlutu að vita allt um tilskipun Evrópusambandsins (94/19/EC), sem samþykkt var á Alþingi 12. janúar 1993 og lagði þær kvaðir á Seðlabankann að hann ábyrgðist alla innistæðureikninga Íslenskra banka upp að 20.887 evrum.

Það var með vitund og vilja Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að Landsbankinn tók að safna sparifé útlendinga inn á innlánsreikninga sem voru skráðir á Íslandi og voru þar með á ábyrgð Seðlabanka Íslands með íslensku þjóðina sem ábekking. Að Landsbankanum skyldi leyft að safna þessum innlánum án þess að Seðlabankinn gerði kröfu um aukna bindiskyldu eða stóraukin framlög í tryggingasjóð innlánsreikninga eru óskiljanleg afglöp. 

Landsbankanum var þar með heimilað að safna innlánum í Evrópu, innlánum sem voru með beinni og óskorðaðri ábyrgð Íslenskra skattgreiðenda.

Með því að safna þessum innlánum erlendis var verið að veðsetja almenning á Íslandi og gera hann ábyrgan fyrir þúsund milljarða króna. Til þess að safna þessum innlánum hlýtur að hafa þurft að koma meira til en grænt ljós frá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Valdið til að veðsetja þjóðina liggur ekki hjá starfsmönnum þessara stofnanna. Það vald hlýtur að liggja hjá þeim ráðherrum sem stýra þessum stofnunum og ríkisstjórninni.

Komi það í ljós að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fengu ekki umboð ráðherra til þess að heimila bönkunum að veðsetja þjóðina með þessum hætti þá vil ég að þeir embættamenn sem bera ábyrgð á því að þjóðin var veðsett fyrir þúsund milljarða án þess að bindiskylda væri aukin og án þess að safnað hafi verið í tryggingasjóð innlána verði ákærðir fyrir landráð.

Eins verði þeir sem sem sátu í bankastjórn Landsbankans á þessum tíma svo og bankastjórar og framkvæmdastjórar ákærðir fyrir landráð.

Ég vil að þessir aðilar verði ákærðir fyrir landráð vegna þess að þeir gerðu þjóðina ábyrga fyrir þvílíkum skuldbindingum að þjóðin hefði ekki með góðu móti geta greitt þær ábyrgðir ef þær hefðu allar fallið á okkur. Ef við hefðum lent í því að þurfa að greiða þúsund milljarða vegna Icesave þá hefði það haft slíkar efnahagshörmungar í för með sér að við hefðum ekki séð út úr því næstu áratugina. Að leggja slíkar ábyrgðir á þjóðina vegna þessara Icesave reikninga er ekkert annað en landráð. Þeir sem "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.

Mótmæli nUmboð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til að heimila bönkunum að safna þessum innlánsreikningum og þar með að veðsetja Íslensku þjóðina um 20.887 evrur í hvert sinn og stofnaður var nýr Icesave reikningur hlýtur samt sem áður að hafa komið frá ráðherrum og ríkisstjórn. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hljóta að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og þar með bönkunum sitt samþykki með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.

Ég spyr, höfðu þessir ráðherrar umboð til þess að veðsetja Íslensku þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum?

Ef svarið við þeirri spurningu er nei, ríkisstjórnin hafði ekki umboð til þess að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum þá vil ég að það fólk sem sat í ríkisstjórn og heimilaði með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi þessa veðsetningu verði ákært fyrir landráð.

Ég hélt það væri skýrt í stjórnarskrá að Alþingi eitt hefði fjárveitingarvaldið og þar með væri það bara Alþingi sem getur og má veðsetja þjóðina. Ég spyr veitti Alþingi ríkisstjórninni umboð sitt, með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi, til að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða? Ef svarið við þeirri spurningu er já, Alþingi veitti leyfi sitt til þessarar veðsetningar þá vil ég að allt það fólk sem sat á Alþingi þegar Landsbankinn safnaði fé inn á þessa Icesave reikninga verði ákært fyrir landráð.

Ég legg til að þeir sem eru sammála mér í þessu við tökum höndum saman og byrjum að undirbúa slíka ákæru. Búinn verði til vinnuhópur til að takast á við þetta mál. Vonlaust er að ætlast til að þeir sem eru hér undir sök, þingmenn, ráðherrar og embættismannakerfið,  muni neitt aðhafast.

Ákæra sem þessi verður að koma frá hópi almennra borgara.

Látum reyna í fyrsta sinn á ákvæði stjórnarskrárinnar um landráð.


mbl.is Hægt að leysa jöklabréfavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir milljarðar á mánuði í atvinnuleysisbætur, byggingaiðnaðurinn þarf fimm.

bygg gGreiddir voru út tæpir tveir milljarðar í atvinnuleysisbætur um síðustu mánaðarmót. Byggingaiðnaðurinn þarf 5 milljarða króna á mánuði, þá rúllar hann áfram í þokkalegu lagi. Fyrirsjáanlegu hruni hans yrði þar með afstýrt og því gríðarlega tjóni sem því fylgir. Haldið verði áfram með þau arðsömu og nauðsynlegu verkefni sem þar eru í gangi. Tónlistarhúsið verði steypt upp og það klárað að utan. Kjallararnir á húsunum við hliðina verið steyptir upp í götuhæð og svæðið grófjafnað. Ákveðið verði með framhaldið síðar. 

Byggingaiðnaðurinn getur tekið við öllu þessu fólki sem nú er á atvinnuleysisskrá. Næg eru verkefninu um land allt. Margt þarf að laga, gera við og víða vantar ýmiskonar hús og mannvirki. Ef þeim fjármunum sem nú er verið að verja til greiðslu atvinnuleysisbóta væru settir inn í byggingaiðnaðinn með viðbótar fé til efniskaupa þá gætum við komið öllum þeim sem nú eru á atvinnuleysisskrá í vinnu á tveim til þrem mánuðum. Vinnu sem skilur eftir sig verðmæti og eykur við þjóðarauðinn.

Búinn verði til sérstakur Byggingasjóður sem fær það hlutverk að yfirtaka yfirveðsettar íbúðir af einstaklingum og byggingaaðilum, fullbúnar eða hálfgerðar. Þessi sjóður sér um að ljúka þeim íbúðum sem standa ókláraðar. Þessar íbúðir verði síðan seldar eða leigðar á almennum markaði og inn í félagslega kerfið með 90% lánum til 80 ára. Einstaklingum verður gefin kostur á kaupa aftur eða leigja sínar íbúðir.

Gjaldtöku Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu við sölu lóða verði í framtíðinni stillt í hóf. Verð á lóðum sem sveitarfélögin liggja með núna verði lækkað um 50%. Sett verið lög á sveitarfélögin ef með þarf til að ná þessari lækkun fram. Opinbert eftirlit verið í framtíðinni haft með úthlutun lóða og verðlagningu með það að markmiði að svona “lóðabóla” endurtaki sig ekki aftur. 

Ofangreinda punkta er á finna í Aðgerðaráætlun Norræna Íhaldsflokksins. Allt um Norræna Íhaldsflokkinn hér.


mbl.is Íslendingar „nýju Pólverjarnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalfjarðargöngin án kampavíns

KirkjaÞar sem umræður um Hvalfjarðargöngin ber upp með reglulegu millibili hér á blogginu mínu þá vil ég minna á eftirfarandi atriði sem ég var og er enn ósáttur við varðandi þessi jarðgöng.

Ég sá aldrei skynsemina í því hvar gögnunum var valin staður. Að velja Hnausaskersleiðina sem var dýrari kosturinn skildi ég aldrei. Ef Kiðafellsleiðin hefði verið valin hefðu göngin orðið kílómetri styttri og leiðin frá Reykjavíkur til Akureyrar hefði stytts um níu kílómetra. Af hverju vildu menn ekki ódýrari göng og styttingu leiðarinnar til Akureyrar?

Ég var heldur ekki sáttur við þá miklu áhættu sem var tekin með því að hefja gangnagerð undir fjörðinn án nauðsynlegra jarðtæknirannsókna. Aðeins var boruð ein rannsóknarhola í landi að sunnanverðu. Hvergi í heiminum hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla framkvæmd á grundvelli jafn lítilla rannsókna. Vegagerðin hefur verið að skoða möguleika á því að þvera Kleppsvíkina með göngum. Þar er gert ráð fyrir að bora 15 til 20 rannsóknarholur á þeirri leið. Ég er sáttur við það. Þar er staðið rétt að undirbúningi. Hitt var bull.

Verktakar sem ætluðu að bjóða í Hvalfjarðargöngin á sínum tíma hættu við, töldu verkið og áhættusamt vegna þeirra takmörkuðu rannsókna sem lágu fyrir. Þessi mikla áhætta þýddi að þau tvö tilboð sem bárust voru mjög há. Sprengdur rúmeter í Hvalfjarðargöngunum var til dæmis 50% dýrari en rúmeterinn í aðrennslisgöngum Sultartangavirkjunar sem unnin voru á svipuðum tíma.

Að ekki sé minnst á þann gríðarlega fjármagnskostnað sem fallið hefur aukalega á þetta verk vegna þess að það er eignarlaust félag sem er eigandi þeirra og tekur öll lánin. Ef Vegagerðin hefði verið falin gerð gangana þá hefði þessi fámagnskostnaður verði minnst tvöfalt lægri. Vegagerðin/ríkið hefði fengið miklu hagstæðari lánakjör en hlutafélag sem var án ríkisábyrgðar að gera göng. Kostnaður  almennings sem borgar þessi göng, hefði verið miklu lægri ef staðið hefði verið að gerð þeirra með hefðbundnum hætti og þau fjármögnuð gegnum fjárlög.

Þá skildi ég aldrei að gerð gangana væri kölluð einkaframkvæmd. Þegar Ríkið, Vegagerðin, sveitarfélögin í Hvalfirði og Sementsversmiðjan sem var 100% í eigu ríkisins stofna saman hlutafélag um að gera jarðgöng er það þá "einkaframkvæmd"? Ríkið lét síðan þetta félag sitt fá án útboðs einkarétt á þverun Hvalfjarðar og heimild til gjaldtöku að vild.

Rangar eru þær fullyrðingar að ríkið hafði ekki haft efni á að fjármagna þessi gögn í gegnum fjárlög. Á þeim árum sem liðin eru frá gerð þessara ganga þá er ríkið búið eða er að gera fern önnur göng og í ofanálag borga upp allar sínar skuldir og fylla lífeyrissjóð opinberra starfsmanna af peningum. Sjóð sem átti að vera gegnumstreymissjóður. Nei, nægir peningar voru til og hafa verið til að fjármagna þessi göng með hefðbundnum hætti ef vilji hefði verið fyrir hendi.

Verst af öllu finnst mér þó að þarna skuli hafa verið hent út í ystu myrkur þeim gildum sem allar okkar framkvæmdir í vegagerð höfðu byggst á. Það að taka upp veggjald á þessum eina stað á öllu landinu er í algjörri andstöðu við allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður staðið fyrir í Íslenskri pólitík. Á grundvelli okkar gömlu gilda var innheimt gjald á eldsneyti og bíla. Því dýrari sem bíllinn var og því meir sem ekið var því meira er borgað í skatt. Þessar skatttekjur hafa verið það miklar að þær hafa einnig verið notaðar í annað. En á grundvelli þessa skattstofns og á grundvelli þess félagslega jafnréttis sem hér var í hávegum haft voru allar brýrnar yfir Svartá í Svarárdal byggðar. Einnig brúin yfir Jökulsá Austari að einum bæ, Merkigili. Sömuleiðis fjallvegurinn að fjórum bæjum á Rauðasandi fyrir Vestan. Öllum þessum gildum var fórnað þegar "Íslenski Thatcherisminn" var innleiddur í vegagerð á Íslandi. Ég hef frá upphafi hafnað þessum "Thatcherisma" og margir hafa hafnað mér vegna þess. Það verður svo að vera.

Það fellst mikið félagslegt ranglæti í því að skattleggja með þessum hætti einn landshluta umfram aðra. Slík mismunun er óþolandi. Þennan skatt átti aldrei að leggja á og þennan skatt á að fella niður strax. Þar eru siðblindir menn sem sjá ekki ranglæti í þessari gjaldtöku.

Þá leyfi ég mér að benda þeim sem áhuga hafa á að lesa meira um "Hvalfjarðargöngin án kampavíns" á annan stað hér á blogginu mínu þar sem þessi göng eru til umræðu og á gömlu heimasíðuna mín en þar er að finna þessar fimm greinar sem ég hef skrifað um málið.

http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/711516/

http://www.simnet.is/fhg/index_files/Page2550.htm

 


Kattaþvottur Seðlabankastjóra.

seðlabkDapurlegt er að lesa þetta yfirklór Ingimundar Friðrikssonar seðlabankastjóra. Vorið 2006 féll Íslenska krónan um 25% í kjölfar gagnrýni ýmissa erlendra aðila, m.a. Danske Bank. Þar voru á ferð aðilar sem af velvild og vinsemd voru að vara stjórnvöld og almenning á Íslandi við þeirri helreið sem Íslensku bankarnir voru þá á. Í framhaldi lokuðu margar stærstu lánastofnanir heims  dyrum sínum á Íslensku bankana. 

Ekkert gerði Seðlabankinn með þessar viðvaranir og vísað þeim frá sem hverjum öðrum þvættingi. Þetta ár lækkaði Seðlabankinn bindiskyldu bankana hér heima og afnam hana í erlendum útibúum þeirra. Á helreið Íslenska bankakerfisins á þessum krítíska tímapunkti þá sló Seðlabankinn undir nára í stað þess að taka í taumana og spyrna við fótum.

Þegar Íslensku bankarnir gátu ekki fengið meiri lán í erlendum bönkum til að halda áfram að stækka þá hófu þeir, í boði og með blessun Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar, að safna sparifé almennings í Evrópu inn á innlánsreikninga sína og buðu bestu innlánskjör sem þekkst hafa í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Íslensk þjóð mun súpa seiðið af því bulli um ókomin ár. Í stað þess að taka í taumana og spyrna við fótum slær Seðlabankinn enn á ný undir nára.

Menn miða upphaf þessarar miklu kreppu við júlí eða ágúst 2007. Í september það ár var farið að gæta lausafjárþurrðar hjá Íslensku bönkunum. Í október 2007 voru allir Íslensku bankarnir hættir að geta lánað almenningi hér á landi til kaupa á íbúðarhúsnæði. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar það gerðist?

Fyrir ári síðan, í febrúar 2008, var staðan orðin þannig að fjármögnunarfyrirtæki bankana gátu ekki lengur boðið einstaklingum upp á bílalán. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar það gerðist?

Frá vorinu 2006 hefur fjöldi aðila varað við hruni bankana. Flestir þeirra höfðu hér engra hagsmuna að gæta og voru í vinsemd og virðingu að vara stjórnvöld og almenning við fyrirsjáanlegu bankahruni. Stjórnvöld, bankarnir og Seðlabankinn vísuðu öllum slíkum aðvörunum á bug með skætingi. Ráðamenn létu þá hafa eftir sér ótrúleg ummæli. Þessum aðilum bent á að fara í endurmenntun, þeir kallaðir öfundarmenn og þar fram eftir götunum. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar allar þessar aðvaranir allra þessara góðu manna streymdu á þriðja ár inn í Seðlabankann?

Stærsta spurningin í mínum huga er þó af hverju bönkunum var ekki sett svipað lagaumhverfi og er t.d. á hinum Norðurlöndunum. Í lögum flestra annarra landa er  að finna eftirfarandi lagaákvæði.

  • Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
  • Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
  • Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
  • Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum á samkeppnismarkaði.

Ég spyr, af hverju gerði Seðlabankinn og stjórnvöld ekkert í því að setja á bankana lög og reglur svipuðum þeim sem gilda í öðrum löndum?  Þessi afglöp eru að kosta Íslenska þjóð slíka fjármuni að það þarf fleiri en eina kynslóð Íslendinga til að greiða þær skuldir. 

Að seðlabankastjóri komi nú og skýli sér á bak við gjaldþrot eins banka úti í Bandaríkjunum er lákúra. Það gjaldþrot var kannski kornið sem fyllti mælinn en sá mælir var þá þegar orðin barmafullur.

Axlaðu þína ábyrgð á gjalþroti Íslenska bankakerfisins Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri og segðu af þér.

Engir embættismenn hafa á lýðveldistímanum brugðist Íslenskri þjóð jafn illa og stjórnendur Seðlabankans nema ef vera skildi stjórnendur Fjármálaeftirlitsins.

 

Áherslur okkar í Norræna Íhaldsflokknum í ríkisfjármálum og hvaða lög við viljum setja á fjármálastofnanir má finna hér.

 


mbl.is Örlög bankanna réðust með falli Lehman Brothers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fórnarlömb frjálsu netmiðlanna

bílar aNú erum við að byrja að sjá ýmis áhrif sem frjálsu metmiðlarnir eru að hafa á samfélagið okkar. Þessir frjálsu netmiðlar blómstra nú um allan heim og eru að breyta öllum fréttaflutningi. Fréttir sem áður voru ekki sagðar og hinir hefðbundnu fjölmiðlar þögðu yfir, þessar fréttir berast nú um allt á óritskoðuðu netinu. 

Forstjórinn sem fær athenta frjórtán milljón króna glæsibifreið á sama tíma og hann er í stórfelldum niðurskurði í fyrirtækinu er allt í einu orðinn miðdepill í fjölmiðlaumræðu sem aldrei hafði farið um allt samfélagið ef ekki hefði netið og bloggararnir komið til.

Þó svo fyrirtækið sendi skýr skilaboð til starfsmanna sinna að þeir starfsmenn sem tjá sig um fyrirtækið á vefsíðum sínum þeir verða reknir þá breytir það ekki þeirri staðreynd að þessir nýju netmiðlar munu auka aðhald. Stjórnendur fyrirtækja hljóta að hugsa sig tvisvar um áður en þeir framkvæma hluti sem eru líklegir til að misbjóða starfsmönnum.

 


mbl.is Bloggari rekinn fyrir skrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sinnum sjálf okkar öryggisgæslu með eigin her

þyrla bÍslandi á eins og önnur ríki að koma sér upp eigin her. Íslendingar eiga að verja sama hlutfalli þjóðarframleiðslunnar til hermála og hinar Norðurlandaþjóðirnar. Við eigum að stefna að því að vera í stakk búin eftir tíu til fimmtán ár að geta sjálf sinnt öryggisgæslu í okkar eigin efnahagslögsögu með skipum og flugvélum, þ.e. "patrólað" sjálf okkar eigin svæði.

Það er rétt að árétta að með her er verið að tala um heimavarnarlið og miklu öflugri Landhelgisgæslu. Þetta heimavarnarlið og „Landhelgisgæslan“ hafi skip, flugvélar, þyrlur, búnað, tæki, tól og þjálfun til að geta tekið þátt í heræfingum nágranna okkar hér á Norður Atlantshafinu. Markmiðið með uppbyggingunni er að við eftir 10-15 ár sinnum sjálf öryggisgæslu í okkar eigin efnahagslögsögu. 

Með slíkum her verðum við ekki lengur upp á aðra komin með að geta kallast sjálfstæð fullvalda þjóð.

Í dag eru það skattgreiðendur í Evrópu sem eru að taka af sínum skattpeningum til þess að halda uppi öryggisgæslu hér við landi. Vegna þessara fjárframlaga verkamanna, kennara og ekkna niðri í Evrópu getum við kallað okkur sjálfstæða fullvalda þjóð á alþjóðavettvangi. Er það þannig sem við viljum byggja þetta land um ókomin ár? Eins og ölmusufólk, alltaf upp á aðra komna?

Ég segi nei, okkar þjóðarstolt á að vera meira en það. Ég vil ekki að sjálfstæði okkar byggist á skattpeningum sem launafólk í Evrópu er að leggja fram til öryggisgæslu hér við land. Ísland á að axla ábyrgð á eigin fullveldi og sjálfstæði. Við eigum að hætta að hugsa eins og við höfum gert frá 1944. Við eigum að hætta að hugsa eins og leppríki USA.

Eins og fram kom við umsókn okkar um sæti í Öryggisráðinu þá eru margar þjóðir sem líta ekki á okkur sem sjálfstæða fullvalda þjóð þar sem við höfum engan her. Að mati margra þeirra hefur herlaus þjóð ekkert að gera í Öryggisráðið. Slíkur her þarf ekki  að vera mikill að vöxtum eða fjölmennur en hann þarf að vera til staðar. Þá getur enginn á komandi áratugum tekið frá okkur þær auðlindirnar sem í efnahagslögsögu okkar kunna að leynast.

Þá getum við eftir 25 ár aftur sótt um sæti í öryggisráðinu og okkur verður þá ekki hafnað af því að þjóðir heims líta ekki á okkur sem fullvalda sjálfstæða þjóð.

Að vera með eigin her hefur verið um aldir ein forsenda þess að þjóðir heims hafa geta skilgreint sig sem þjóðir. Það er tímabært að við sem þjóð öxlum þá ábyrgð.

Í kreppunni í dag gerum við ekki mikið en þetta er samt rétti tíminn til að endurskoða okkar áherslur.

Sjá hér áherslur Norræna Íhaldsflokksins í varnar- og örygismálum. Eins hér í utanríkismálum.


mbl.is Norðurlöndin gæti loftrýmis Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að skoða þá eða skjóta þá?

HvalaskoðunFyrir mér er þetta einföl spurning. Hvernig nýtum við þessa auðlind best til lengri tíma litið? Hvort mun gefa meira í aðra hönd, að skoða hvalina eða skjóta þá?

Hvort eigum við að láta sjávarútvegsfyrirtækin eða ferðaþjónustufyrirtækin um að nýta þessa auðlind?

Ferðaþjónustan segir að á síðasta ári hafi 115.000 manns farið í hvalaskoðunarferðir og um 200 manns hafi af þessu atvinnu.

Sjávarútvegurinn segir að hvalveiðar muni skapa rúm 200 störf.

Báðir þessir atvinnuvegir skapa okkur gjaldeyri. Eins og staðan er í dag skapar nýting hvalastofnanna álíka mörg störf hvort heldur sem hvalir eru skoðaðir eða skotnir.

Framtíð hvalveiða við Ísland er ótrygg. Stofnkostnaður við að "græja" samfélagið í slíkar veiðar er hár. Endurnýja þarf skip, vinnslur og veiðarfæri. Hvalskipin eru enn með gufuvélar svo dæmi sé tekið. Ef við veiðum þennan kvóta sem nú er búið að úthluta hverjir eru þá vaxtamöguleikarnir? Hann er enginn nema kvótinn verði aukinn. Hvað gerist eftir 5 ár, 10 ár, eða 15 ár?

Framtíð hvalaskoðunar er björt. Þetta er atvinnugrein sem á sér örfárra ára sögu en hefur vaxið gríðarlega ár frá ári. Þar er ekkert nema vöxtur og auknar tekjur framundan. Það eina sem getur komið í veg fyrir það að þessi grein blómstri á komandi árum og að boðið verði upp á hvalaskoðunarferðir víðar á landinu eru veiðar. Menn óttast að veiðar kenni skepnunum að hræðast menn og báta.

Mitt mat er það að ferðaþjónustan muni skapa okkur meiri tekjur horft til lengri tíma litið en sjávarútvegsfyrirtækin geta gert.

Við munum hagnast meira á því að skoða hvalina en skjóta þá.

Látum ferðaþjónustunni eftir að nytja hvalastofnana við Ísland.

Sjá stefnu Norræna Íhaldsflokksins í nýtingu náttúruauðlinda okkar.


mbl.is Meirihluti fylgjandi hvalveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgum skattana frísk og í fullu starfi.

HoltasóleyÞessu framtaki heilbrigðisráðherra ber að fagna.

Ég vil borga mína skatta þegar ég er frískur og í fullu starfi. Ekki þegar ég er veikur og þarf að leggjast inn á sjúkrahús.

Ef þarf að leysa tímabundin fjárskort í heilbrigðiskerfinu þá á ekki að gera það með því að leggja skatta á sjúklinga.

Ég var ósammála fyrrverandi heilbrigðisráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins þegar þau héldu því fram að það væri bara tvennt í stöðunni varðandi heilbrigðismálin, flatur niðurskurður eða hækkun þjónustugjalda. Þetta er leið "Íslensku Thatcheristanna".

Ég veit að fyrir fólk með eina og hálfa milljón í laun á mánuði þá skipta þessi gjöld engu máli. Þau skipta hins vegar fólk með hundrað og fimmtíu þúsund á mánuði miklu máli. Því má aldrei gleyma. Ég neita að trúa því að það hafi verið almennur vilji minna gömlu félaga í Sjálfstæðisflokknum að leggja á þessi gjöld.

Má ég þá frekar biðja um almennar skattahækkanir, hækkun skatta á fjármagnstekjur eða hátekjuskatt sem leggst á laun hærri en laun forsætisráðherra.

Sjá nánar hér áherslur okkar í Norræna Íhaldsflokknum í heilbrigðismálum og skattamálum.

 

 


mbl.is Innlagnargjöld afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnum bug á kreppunni - Norræni Íhaldsflokkurinn

Byg penÞetta eru háar tölur, 13.280 manns atvinnulausir. Það versta er að það lítur út fyrir að atvinnuleysið muni aukast verulega. Ég spjallaði við legubílstjóra um helgina og spurði hvernig staðan væri hjá þeim. Hann sagðist hafa verið lengi í bransanum en aldrei hafi ástandið verið eins og nú. Staðan væri þannig að þeir væru í akstri 6 til 8 tíma á dag. Hitt væri bið.

Sömu fréttir fáum við allstaðar. Bílasala hefur dregist saman um 90%, sömuleiðis sala á fasteignum. Samfélagið er að stefna í meiriháttar hrun og engar áætlanir í gangi að auka framboð á vinnu og verkefnum. Sveitarfélögin halda að sér höndunum og ríkið er að fagna um þessar mundir árs afmæli "útboðsbannsins", en ríkið er búið að banna öll útboð á sínum vegum í nær heilt ár.

Allar þjóðir sem hafa tekist á við djúpar kreppur nota byggingaiðnaðinn til þess að keyra upp atvinnulífið með því að setja í ganga framkvæmdir. Það er skjótvirkasta aðferðin og eftir standa eignir sem verða hluti af þjóðarauðnum. Framkvæmdir í byggingariðnaði kalla á mikla afleidda þjónustu og umsvif. Það er þessi leið sem þjóðir heims hafa farið þegar þær hafa unnið sig út úr djúpum kreppum.

Alls ekki má fara þá leið sem síðasta ríkistjórn fór að skera byggingariðnaðinn niður við trog og hætta og fresta öllum framkvæmdum.

Ég vil fara sömu leið og Person, forsætisráðherra Svíþjóðar, og keyra byggingariðnaðinn í gang. Það kostar 5 milljarða á mánuði að halda byggingariðnaðnum gangandi. Því er spáð að í vor kosti atvinnuleysisbæturnar okkur 2 milljarða á mánuði.

Er ekki skynsamlegar að setja í gang byggingar á skólum, sundlaugum og íþróttahúsum, mannvirkjum sem við munum eiga og njóta um ókomin ár, í stað þessa að láta tvo milljarðar á mánuði gufa upp í atvinnuleysisbótum.

Skoðið þessar tillögur hér að leið til að vinna okkur út úr kreppunni.

 


mbl.is 13.280 á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband