Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Aðförin að forsetaembættinu - Embættið svipt málfrelsi og er í stofufangelsi á Bessastöðum

hestar cNú vilja margir breyta því fyrirkomulagi sem viðhaft hefur verið við stjórn landsins. Í þeim tilgangi stendur til að boða til Stjórnlagaþings. Óánægja ríkir með það flokks- og ráðherraræði sem hér er og hefur verið undafarna áratugi. Almennt má segja að flestir telja að framkvæmdavaldið sé of sterkt og Alþingi of veikt. Eins og mál hafa þróast þá er Alþing ekkert annað en valdalaus afgreiðslustofnun fyrir ráðherra í ríkisstjórn.

Þetta var ekki alltaf svona. Stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir að landinu eigi að stjórna með þessum hætti. Hún hefur bara verið túlkuð svona af þeim sem hafa farið með framkvæmdavaldið síðustu fjóra áratugina eða svo.

Ég vil gera þrennar breytingar á Stjórnarskránni:

  • Ég vil breyta orðalagi í 13 greininni og bæta við einni setningu til áréttingar þeirri fyrri. Með þeirri breytingu þá breytist allt.
  • Ég vil að Forsetinn skipi dómara, ekki dómsmálaráðherra.
  • Ég vil að ráðherrar segi af sér þingmennsku og missi atkvæðisrétt á Alþingi verið þeir ráðherrar.

Ef við gerum þessar breytingar á Stjórnarskránni þá breytum við öllu. Framkvæmdavalið missir mikil völd. Völd sem framkvæmdavaldið hefur sölsað undir sig. Þau völd flytjast til Forseta og Alþingis. Því meira sem við aukum völd Forseta því meira aukum við beint lýðræði í landinu.

Nú skulum við í þessari umræðu ekki horfa til þeirra persóna sem í augnablikinu gegna embættum forseta, ráðherra eða þingmennsku. Þessi mál verður að ræða án þess að fara að blanda persónum inn í þessa umræðu.

Þrettánda grein Stjórnarskrárinnar hljómar svo:

13. grein Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.  

Ég vil breyta þessari grein svona: 

13. grein breytt: Forsetinn lætur ráðherra sjá um daglegan rekstur ríkisins. Forseta er ekki heimilt að framselja til ráðherra það vald sem í stjórnarskrá er sérstaklega tilgreint að er á valdsviði forseta.  

Ef grein 13 væri breytt á þennan hátt á værum við á vissan hátt að endurreisa lýðveldi Sveins Björnssonar, fyrsta forseta lýðveldisins. Sveinn Björnsson skipaði utanþingsstjórn í sinni tíð. Einnig ráðherrana í stjórn sem sat í tvö ár. Hann var mjög atkvæðamikill forseti, sérstaklega fyrstu árin. 

Frá hans tíð á forsetastóli þá hefur framkvæmdavaldinu tekist að setja bæði Alþingi og forsetaembættið til hliðar. Ráherrarnir hafa túlkað 13 grein stjórnarskrárinnar sér mjög í hag og með þeirri túlkun sölsað undir sig öll völd forseta. Þeir hafa heimtað að forsetaembættið sé valdalaust sameiningartákn þjóðarinnar.  

Framkvæmdavaldið er búið að svipta forsetann málfrelsi og vill viðhalda því banni. Forsetinn situr í raun í dag í stofufangelsi á Bessastöðum, sé horft til þeirra valdheimilda sem hann hefur samkvæmt Stjórnarskrá. 

Að Forsetinn megi ekki tjá sig um utanríkismál hefur líka verið kokkað upp af einhverjum utanríkisráðherranum sem vildi fá frjálsar hendur í utanríkismálunum. Sjá grein 21 hér fyrir neðan. Þvert á móti þá er samkvæmt stjórnarskrá það utanríkisráðherra sem ekki má tjá sig um utanríkismál né gera samninga við erlend ríki. Það er á valdi Forseta að gera slíkt. 

Ég held við höfum hér ágætis grunn að stjórnarskrá og með breytingum á henni þá er hægt að styrkja forsetaembættið og Alþingi verulega á kostnað framkvæmdavaldsins. Það er einmitt það sem þarf að gera. Þá þarf að höggva á tengingu framkvæmdavaldsins við dómsvaldið með því að framkvæmdavaldið hættir að skipa dómara.

Ef við bætum nýrri setningu við 15. greinna: Forsetinn skipar dómara og veitir þeim lausn. Þá væri það leyst. Valnefndin sem kemur með tillögur til dómsmálaráðherra um skipun dómara, þessi nefnd heyrði í staðinn undir Forsetaembættið og Forseti skipar alla dómara.  Það tryggir best aðskilnað dómsvaldsins frá framkvæmda- og löggjafarvaldinu.

Eðlilegra er að fela forseta þessar valdheimildir sem tilteknar eru í Stjórnarskrá fremur en ráðherrum. Ráðherrar sitja nær alltaf í „öruggum“ sætum á listum flokka sinna. Þeir þurfa því aldrei að bera embættisfærslur sínar beint undir þjóðina. Það eru flokkarnir sem bera stefnu sína í heild sinni undir þjóðina og þjóðin kýs stefnur þeirra. Flokkarnir velja þingmenn sína í lokuðum prófkjörum eða uppstillingarnefndir tilnefna þá. Á lokuðum Landsfundum velja flokkarnir forsætisráðherraefni sín. Forsætisráðherra á hverjum tíma stjórnar í umboði flokksins. Þjóðin á engan kost á að sýna álit sitt á einstökum embættisfærslum hans eða annarra ráðherra. (Nema jú með pottum og pönnum)  

Forsetinn þarf hins vegar að endurnýja umboð sitt hjá þjóðinni á fjögurra ára fresti. Það er því eðlilegt að hann beri ábyrgð á störfum ráðherra, á samningum við önnur lönd og öðru því sem stjórnarskráin hefur frá upphafi falið Forseta að bera ábyrgð á. Það er rökrétt og eðlilegt að þessi eini þjóðkjörni embættismaður okkar hann beri ríka ábyrgð á því hvernig landinu er stjórnað. Til dæmis hvort taka á þátt í stríðsrekstri í Írak o.s.frv.. Þjóðin getur kosið sér nýja forseta á fjögurra ára fresti ef henni líkar ekki ákvarðanir hans.  

Með þessari breytingu á grein 13 í stjórnarskránni þá værum við ekki bara að endurvekja lýðveldi Sveins Björnssonar. Við værum að auka verulega beint lýðræði í landinu. Með þessari breytingu á 13. greininni þá öðlast Forseti vald til að rjúfa þing og boða til kosninga. Hann getur hvenær sem er sett ríkistjórnir af og skipað utanþingsstjórn í staðinn.  

Breytingar eins og þessar eru eins og eitur í beinum þingmanna og ráðherra. Sömuleiðis hugmyndir um stjórnlagaþing eða breytingar á Stjórnarskránni. Ástæðan er einföld. Þeir vita að ef einhverju er breytt þá munu völd flokkanna minnka. Þess vegna hafa allar nefndir sem settar hafa verið í gang til að breyta stjórnarskránni dagað uppi. Flokkarnir vilja standa vörð um óbreytt ástand. Óbreytt ástand tryggir þeim mest völd.

Flokkarnir vilja hafa forsetaembættið áfram bundið í stofufangelsi á Bessastöðum, svipt málfrelsi. Þeir vilja ekki "nýjan Svein Björnsson".

Skjaldamerki-IslandsSjá hér það vald sem forseta er falið samkvæmt stjórnarskrá:


15. grein Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.
16. grein
Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.
17. grein
Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra.
18. grein
Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
19. grein
Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum.
20. grein
Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, sem lög mæla. Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það. Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk. Með lögum má undanskilja ákveðna embættismannaflokka auk embættismanna þeirra, sem taldir eru í 61. grein.
21. grein
Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.
22. grein
Forseti lýðveldisins stefnir saman Alþingi eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Forsetinn setur reglulegt Alþingi ár hvert.
23. grein
Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþingis tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþingi getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum. Hafi Alþingi verið frestað getur forseti lýðveldisins eigi að síður kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til. Forseta er það og skylt ef ósk berst um það frá meiri hluta alþingismanna.
24. grein
Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.
25. grein
Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.
26. grein
Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.
27. grein
Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.
28. grein
Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný. Samþykki Alþingi ekki bráðabirgðalög, eða ljúki ekki afgreiðslu þeirra innan sex vikna frá því að þingið kom saman, fall þau úr gildi. Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþykkt fjárlög fyrir fjárhagstímabilið.
29. grein
Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.

Sjá tenging hér inn á Stjórnarskrá Íslands. 

 


Af hverju á Íslenska þjóðin að borga upp Jöklabréf fyrir hundruð milljarða?

hestar bNú þegar bankarnir eru fallnir og Seðlabankinn er fjárvana þá stendur þjóðin allt í einu frammi fyrir því að eiga að borga upp Jöklabréf fyrir hundruð milljarða. Hvernig má það vera að Íslenska þjóðin eigi að greiða upp þessi Jöklabréf?

Af hverju eru þeir aðilar sem stunduðu viðskipti með Jöklabréf ekki að tapa sínu fé eins og aðrir lánadrottnar bankana? Af hverju eigum við að borga?

Skýringin er sú að þessum Jöklabréfum hefur greinilega verið stýrt inn í fjárfestingar á Íslandi þar sem þetta fé var tryggt með fullum ábyrgðum frá ríkinu og með íslensku þjóðina sem ábekking.

Jöklabréfin eru skuldabréfaútgáfa erlendra banka í íslenskum krónum og íslenskra banka í evrum. Bankarnir skipta síðan á bréfum þannig að erlendi bankinn fær evrur og íslenski bankinn fær krónur. Okkur er sagt að þetta hafi ekkert með íslenska skattgreiðendur, ríkið eða Seðlabankann að gera. Þannig voru þessi Jöklabréf alltaf kynnt.

Þessi gjörningur með Jöklabréfin gekk fyrir sig eins og lýst er hér fyrir ofan nema að það gleymdist alltaf að segja okkur frá því að íslensku bankarnir fóru með þessar krónur og fjárfestu fyrir erlenda eigendur þeirra í ríkistryggðum skuldabréfum, húsnæðisbréfum eða lögðu þær inn á ríkistryggða innlánsreikninga hjá Seðlabanka eða í viðskiptabönkunum. Erlendum eigendum Jöklabréfanna var því tryggð há ávöxtun ásamt því að peningarnir þeirra voru geymdir í öruggu skjóli ríkisábyrgðar.

Þetta erlenda fé sem þannig kom inn í Seðlabankann og aðra banka í formi íslenskra króna, þær krónur hlýtur Seðlabankinn og bankarnir þurft að ávaxta með útlánum til viðskiptavina. Ekki þurfti ríkið á fé að halda. Seðlabankinn hlýtur að hafa lánað viðskiptabönkunum það fé sem hann fékk með þessum hætti. Það fé sem Seðlabankinn lánaði viðskiptabönkunum er væntanlega allt tapað. 

Bankarnir virðast hafa leitað allra leiða til þess að ná sér í fjármagn. Ein af þeim leiðum var að selja útlendingum aðgang að íslenskum ríkistryggðum bréfum og ríkistryggðum innlánsreikningum í gegnum útgáfu á Jöklabréfum. Á þennan hátt fengu bankarnir hundruð milljarða að láni erlendis frá og Íslenska þjóðina var ábekkingur. Bankar í einkaeign "gömbluðu" síðan með þetta fé og hafa tapað því öllu.

Erlendir eigendur 400 milljarðar króna vilja nú fá sitt fé til baka. 70 milljarðar eru á gjalddaga núna, 1. júní. 

Til samanburðar má nefna að erlendar skuldir heimilanna í landinu eru um 370 milljarðar. Landsvirkjun og hin orkufyrirtækin skulda 500 milljarða.

Á síðustu árum hefur Íslenska þjóðin verið veðsettsett fyrir eftirfarandi:

  • Banki í einkaeign safnar á tveim árum yfir 1.000 milljörðum í útlöndum inn á innlánsreikninga sem Seðlabanki Íslands ábyrgist og þjóðin er ábekkingur.
  • Útgefendur Jöklabréfa koma með hundruð milljarða inn í landið og setja í ríkisskuldabréf og innlán þar sem ríkið er í ábyrgð og þjóðin er ábekkingur. Bankarnir töpuðu öllu þessu fé.
  • Fiskveiðiauðlindina er búið að skuldsetja fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar. Þessi auðlind er sameign þjóðarinnar og þjóðin er því í raun ábekkingur á þessum skuldum. Ef útgerðin og bankarnir fara í þrot en erlendir lánadrottnar eru með veð í veiðiheymildunum, þá verður þjóðin að yfirtaka og borga þær skuldir vilji hún nýta auðlindina.

Í september síðastliðnum kom forsætisráðherra þáverandi og fullyrti að ríkissjóður væri skuldlaus. Af hverju var aldrei minnst á allar þessar ábyrgðir sem hvíldu á þjóðinni? Af hverju var þjóðinni ekki sagt frá þeim fyrr en nú þegar við eigum allt í einu að borga?

Það er ótrúlegt að einakaðilum skuli hafa tekist að veðsetja þjóðina með þessum hætti. Það skelfilega er að þessar ábyrgðir eru nú allar að falla á þjóðina. 

Þeir menn sem þetta gerðu og þeir sem þetta heimiluðu eru ekki beint að reynast þjóð sinni vel. Þeir menn sem leyfðu sér að "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.

Þeir sem þetta gerðu hljóta að verða látnir axla ábyrgð.

 


Á að skoða þá eða skjóta þá?

HvalveiðarHvernig nýtum við þessa auðlind sem hvalastofnarnir við Ísland eru best til lengri tíma litið? Hvort mun gefa meira í aðra hönd, að skoða hvalina eða skjóta þá?

Hvort eigum við að láta sjávarútvegsfyrirtækjunum eða ferðaþjónustufyrirtækjunum það eftir að nýta þessa auðlind?

Ferðaþjónustan segir að á síðasta ári hafi 115.000 manns farið í hvalaskoðunarferðir og um 200 manns hafi af þessu atvinnu.

Sjávarútvegurinn segir að hvalveiðar muni skapa 200 til 300 störf.

Báðir þessir atvinnuvegir skapa okkur gjaldeyri. Eins og staðan er í dag mun nýting hvalastofnanna skapa álíka mörg störf hvort heldur sem hvalir eru skoðaðir eða skotnir.

Framtíð hvalveiða við Ísland er ótrygg. Hverjir eru vaxtamöguleikarnir? Hverjar eru söluhorfurnar? Þá er stofnkostnaðurinn við að "græja" samfélagið í slíkar veiðar hár. Endurnýja þarf skip, vinnslur og veiðarfæri. Er í raun forsvaranlegt að fara í miklar fjárfestingar vegna atvinnugreinar þar sem jafn mikil óvissa ríkir um sölu á afurðunum? Ekki myndi ég þora að lána eða hætta mínu fé í þessa atvinnugrein.

Framtíð hvalaskoðunar er björt. Þetta er ung atvinnugrein sem hefur vaxið gríðarlega ár frá ári. Þar er ekkert nema vöxtur og auknar tekjur framundan ef horft er til þess hve vinsælar slíkar ferðir eru víða erlendis. Það eina sem getur komið í veg fyrir að þessi grein ferðamennskunnar blómstri á komandi árum og að boðið verði upp á hvalaskoðunarferðir víðar um land eru veiðar. Menn óttast að veiðar kenni skepnunum að hræðast menn og báta.

Mitt mat er það, horft til lengri tíma, að ferðaþjónustan muni skapa okkur meiri tekjur ef hún fær að nýta hvalastofnana en ef sjávarútvegsfyrirtækjunum er látið eftir að nýta þá.

Við munum hagnast meira á því að skoða hvalina en skjóta þá.

Látum því ferðaþjónustunni eftir að nytja hvalastofnana við Ísland.

Sjá stefnu Norræna Íhaldsflokksins í nýtingu náttúruauðlinda okkar.


mbl.is Ákvörðun um hvalveiðar stendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jöklabréfin voru í raun ríkistryggð. Þjóðin skuldar 400 milljarða vegna þeirra.

sauðféÉg er þess dagana að jafna mig á enn einu sjokkinu. Í þetta sinn eru það Jöklabréfin. Ég er að átta mig á því að þessi Jöklabréf voru í raun ríkistryggð. Seðlabankinn ætlar að greiða þeim sem voru í þessum viðskiptum allt sitt fé til baka. Þeir sem stunduðu þessi viðskipti tapa ekki stærstum hluta af sínu fé eins og aðrir lánadrottnar gömlu bankana.

Jöklabréfin eru skuldabréfaútgáfa erlendra banka í íslenskum krónum og íslenskra banka í evrum. Bankarnir skipta síðan á bréfum þannig að erlendi bankinn fær evrur og íslenski bankinn fær krónur. Okkur er sagt að þetta hafi ekkert með íslenska skattgreiðendur, ríkið eða Seðlabankann að gera. Þannig voru þessi Jöklabréf alltaf kynnt í fjölmiðlum.

Þessi gjörningur með Jöklabréfin gekk fyrir sig eins og lýst er hér fyrir ofan nema að það gleymdist alltaf að segja okkur frá því að íslensku bankarnir fóru með þessar krónur og fjárfestu fyrir erlenda eigendur þeirra í ríkistryggðum skuldabréfum, húsnæðisbréfum eða lögðu þær inn á ríkistryggða innlánsreikninga hjá Seðlabanka eða viðskiptabönkunum. Erlendum eigendum Jöklabréfanna var því tryggð há ávöxtun ásamt því að peningarnir þeirra voru geymdir í öruggu skjóli ríkisábyrgðar.

400 milljarðar króna komu inn í landið með þessum hætti. Útlendingar keyptu ríkistryggð skuldabréf fyrir 270 milljarða. Þeir peningar runni því inn í Seðlabankann. Þetta fé hlýtur Seðlabankinn að hafa þurft að ávaxta. Ekki þurfti ríkið á því að halda. Því hlýtur Seðlabankinn að hafa lánað viðskiptabönkunum þetta fé. Það fé sem Seðlabankinn lánaði bönkunum er væntanlega allt gufað upp. 70 milljarðar eru á eindaga núna 1. júní. Það lendir væntanlega á þjóðinni að borga upp þessi ríkistryggðu bréf og innlánsreikninga sem eru í eigu þessara útlendinga.

Með öðrum orðum íslenski hluti Jöklabréfanna var í raun með ríkisábyrgð og það er að lenda á þjóðinni að greiða þau upp.

Til samanburðar má nefna að erlendar skuldir heimilanna í landinu eru um 130 milljarðar. Landsvirkjun og hin orkufyrirtækin skulda 500 milljarða.

Á síðustu árum hefur Íslenska þjóðin verið skuldsett fyrir eftirfarandi:

  • Banki í einkaeign veðsetur þjóðina á tveim árum fyrir 1.000 milljarða vegna innlánsreikninga sem hann var að safna í útlöndum.
  • Ríkið er látið ábyrgjast Jöklabréfaútgáfu einkabanka upp á 400 milljarða.
  • Fiskveiðiauðlindin er sameign þjóðarinnar, hana er búið að veðsetja í dag fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar.

Í september síðastliðnum kom forsætisráðherra þáverandi og fullyrti að ríkissjóður væri skuldlaus.

Það er ótrúlegt að einkaaðilum skuli hafa tekist að skuldsetja þjóðina með þessum hætti. Þeir sem bera á því ábyrgð, faglega og pólitískt, hljóta að verða látnir axla hana.

 


mbl.is Vill semja um krónubréfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fækkum sendiráðum úr 17 í 6

HoltasóleyUtanríkisþjónusta íslands er orðin eins og bankakerfið okkar var, allt of stórt fyrir umfang og stærð þjóðarinnar.

Ég vil breyta áherslum utanríkis- og öryggismálum. Ég vil fækka sendiráðum úr sautján í sex. Ég vil halda sex sendiráðum. Í Kaupmanahöfn, Osló, Stokkhólmi, Brussel, Peking og Kanada.

Er þetta ekki passlegt umfang? Við höldum okkar gömlu sendiráðum á hinum Norðurlöndunum, í höfuðstöðvum ESB, eitt í Asíu og eitt í Ameríku. Höfum það í Kanada í ljósi tengsla okkar við gömlu byggðir Íslendinga þar.

Hinum sendiráðunum verði lokað og allar eignir seldar. Starfsmönnum þessara sendiráða öllum sagt upp og þeim stórlega fækkað í ráðuneytinu hér heima.

Fjármunir sem við þetta fást verða til að byrja með notaðir til að milda áhrif kreppunnar á velferðarkerfið. Til lengri tíma litið verði þeir fjármunir sem annars hefðu farið í að reka þessa umfangsmiklu utanríkisþjónustu varið til þess að byggja hér upp heimavarnarlið / her þannig að við munum sjálf eftir 10 til 15 ár geta sinnt öryggisgæslu í okkar eigin efnahagslögsögu með okkar eigin flugvélum og skipum.

Sjá áherslur Norræna Íhaldsflokksins í utanríksimálum og varnarmálum.


mbl.is Erlendar skuldir þjóðinni ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að handsnúa efnahagslífinu í gang

Mótmæli qÞað verður að grípa til alvöru ráðstafanna til að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang. Um það eru allir sammála en ekkert gerist. Samfélagið sekkur dýpra og dýpra niður í öldudalinn.

Þó auglýst hafa verið nokkur útboð upp á síðkastið hjá Ríkiskaupum þá virðist útboðsbann enn verið í gangi hjá hinu opinbera. Einu fréttirnar sem berast þaðan eru af niðurskurði og launalækkunum. Ekki er það til að minnka atvinnuleysið.

Bankarnir hafa ekki enn fengið nauðsynlegt fjármagn til að teljast starfhæfir.

Krónan er ekki skráð á erlendum gjaldeyrismörkuðum.

Bankarnir eru að klúðra fyrirgreiðslunni hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum af því að þeir eru ekki komnir með nothæfan efnahagsreikning. Uppgjöri sem þeir voru búnir að lofa að hafa tilbúið nú um miðjan febrúar. Það tjón sem þetta bankafólk okkar er að valda okkur virðist bara halda áfram að aukast.

Allir eru sammála um að það verði að lækka vexti. Vaxtalækkun mun óbeint skapa flest störfin. Ekkert gerist.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar "beina þeim tilmælum" til banka að þeir mildi innheimtuaðgerðir. Fréttir berast um samfélagið að þar sé í engu slakað á. Þvert á móti virðast bankarnir vera að herða tökin. Þeir eru á fullu að hirða eignir af fólki og fyrirtækjum og senda síðan liðið gjaldþrot. Þeir virðast láta sig það litlu varða hvað stjórnmálamennirnir eru að segja.

Fréttir berast að stýrivextir í löndunum hér í kring séu komir niður undir núll og af umfangsmiklum aðgerðum til að auka atvinnu. Í Bandaríkjunum eru gríðarlegar fjárhæðir settar inn í byggingaiðnaðinn. Þannig skapast strax fjöldi starfa, starfa sem þurfa á þjónustu að halda um allt samfélagið. Hér heima standa óbyggð hús um allt. Af hverju er ekki veitt fé í að ljúka þeim og sköpuð þannig ný störf? Um næstu mánaðamót verða yfir 2 milljarðar greiddir út í atvinnuleysisbætur. Ef tveir milljarðar væru settir á mánuði inn í byggingaiðnaðinn væri hægt að stórfækka atvinnulausum og eftir standa eignir sem við munum nýta og njóta um ókomin ár.

Nú þarf að handsnúa gömlu dráttarvélinni í gang. Dráttarvélin getur dregið vörubílinn í gang og þegar vörubíllinn er kominn í gang þá fara hlutirnir að gerast.

Fjöldi aðila hafa lagt fram góðar tillögur að því hvað þurfi að gera til að rífa efnahagslífið í gang. Þar á meðal Norræni Íhaldsflokkurinn. Okkar tillögur er að finna hér.

 


mbl.is Alkul í bílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákærum fyrir landráð

bankar aÓháð því hvað fæst upp í Icesave innlánsreikningana þá er raunveruleikinn sá að banki í einkaeign veðsetti Íslensku þjóðina fyrir þúsund milljarða. Það að banka í einkaeign skuli hafa verið heimilað af stjórnvöldum að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum er ekki hægt að kalla annað en landráð. Þeir menn sem "gambla" með þessum hætti með þjóð sína eru ekkert annað en landráðamenn.

Stjórnvöld og embættismenn segjast ekkert hafa geta gert vegna regluverks EES samningsins. Það er rangt. Þeir gátu víst gripið í taumana. Þeir gátu hækka bindiskyldu. Þeir gátu krafjist þess að bankinn greiddi háar fjárhæðir í tryggingasjóð. Þeir gátu gripið til lagasetningar þegar ábyrgðirnar voru orðnar það háar að það var ekki lengur forsvaranlegt að leggja slíkar ábyrgðir á þjóðina.

Falli þúsund milljarðar á okkur vegna Icesave þá mun það um ókomin ár rýra lífskjör okkar og komandi kynslóða að með síkum hætti að engu er til  að jafna nema ef vera skyldi Móðuharðindunum. Tjónið sem varð í Suðurlandsskjálftunum var ekki nema 6 milljarðar. Tjónið sem varð í Vestmannaeyjagosinu eru einnig smáaurar í samanburði við þessi ósköp.

Menn sem veðsetja þjóð sína fyrir slíkum fjárhæðum á tveim árum, með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi, eru ekkert annað en landráðamenn.

Í framhaldi af fyrri grein minni um sama mál hefur fólk verið að hafa samband og spurt hvort ekki eigi líka að ákæra fyrir eftirfarandi:

  • Seðlabankinn lánar viðskiptabönkunum 300 milljarða á árinu 2008 án ábyrgða. Þetta fé er sagt tapað.
  • Seðlabankinn ábyrgðist Jöklabréfa fyrir 500 milljarða. Við hrun bankana lenda þessi bréf á Seðlabanka Íslands og þar með þjóðinni.
  • Seðlabankinn lánar Kaupþingi 80 milljarða 4 dögum áður en hann fer í þrot með veði í dönskum banka, FHI, sem í dag er metinn á 30 milljarða. 50 milljarðar eru að tapast á þessu stærsta láni Íslandssögunnar til eins aðila.
  • Samtals eru þetta 850 milljarðar sem Seðlabanki Íslands hefur tapað á innan við einu ári og það tap er nú að lenda á þjóðinni. Seðlabankinn er sagður gjaldþrota.

Ætlast menn til að almenningur borgi þessa 850 milljarða skuld í Seðlabankanum og að enginn verði dreginn til ábyrgðar?

Aldrei hefur verið ákært á Íslandi fyrir landráð. Engin hefð er fyrir því hvernig það er gert. Hér væri verið að gera allt í fyrsta sinn. Eftir því sem mér er sagt þá er það bara dómsmálaráðherra sem getur ákært fyrir landráð.

Væri það ekki hið eðlilegasta mál að hópur borgara leggi fyrst fram slíka ákæru? Er ekki eðlilegt að slík ákæra kæmi fyrst fram vel rökstudd frá borgurum þessa lands og lögð fyrir dómsmálaráðherra. Með ákæruni myndu fylgja undirskriftir fjölda fólks. Þessum undirskriftum væri safnað á heimasíðu sem sérstaklega væri gerð vegna þessa máls.

Dómsmálaráðherra hefði þá um tvennt að velja:

  • Ákæra á grundvelli þeirrar ákæru sem hópur borgara hefði lagt fram. Ráðuneytið mun þá greiða kostnað við málssóknina.
  • Ákæra ekki og taka þann pólitíska slag sem þeirri ákvörðun fylgir.

Allir eru velkomnir í hóp að undirbúa slíka ákæru.

 


mbl.is Aldrei of blönk til að hugsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bankarnir fullir af ungu og reynslulausu fólki?

bygg eÞað sló út á mér svita þegar ég las þessa frétt. Í mínum bransa, byggingariðnaðinum, þá er það bara þannig að félag þar sem meðalstarfsaldur starfsmanna væri 5 ár, það fyrirtæki ætti enga möguleika. Á fimm árum erum menn ekki einu sinni búnir að átta sig á leikreglunum, hvað þá út á hvað starfsgreinin gengur.

Til þess að geta rekið fyrirtæki farsællega, hvort sem það er í byggingariðnaði, fiskvinnslu eða fjármálastarfsemi þá þarf að koma til áratuga reynsla og þekking.

Að fara síðan inn á alþjóðlega markaði með slíkan mannskap, fólk sem aldrei hefur starfað erlendis í faginu, það er algjörlega dauðadæmt. Ég vil ekki trúa því að bankarnir okkar hafi starfað með þessum hætti.

Ef þessi frétt er rétt hjá Morgunblaðinu þá spyr ég, eru bankarnir okkar ennþá fullir af þessu unga reynslulausa fólki? 

Er það þess vegna sem ekkert gengur né rekur með skýrslurnar um fjárhagsstöðu bankana sem átti að afhenda Alþjóða gjaldeyrissjóðnum nú um miðjan febrúar og ekkert bólar á? Þessi dráttur er að stefna í hættu fjárhagslegri fyrirgreiðslu sjóðsins til okkar. Eins kemur þessu dráttur í veg fyrir að þessir 385 milljarðar séu settar inn í bankana og þeir eru því ennþá peningalausir og þar með óstarfhæfir. Hvað er að gerst í þessum bönkum okkar? Er verið að stefna öllu í voða af því menn hafa ekki og eru ekki að vinna heimavinnuna sína? Ég væri æfur ef það væri ég sem bæri faglega eða pólitíska ábyrgð á þessum drætti.

 

Þá verður að fara að setja lög um starfsemi banka og sparisjóði. Nú verður að fara að halda í eyrun á þessum fjármálastofnunum, eigendum þeirra og starfsmönnum. Sjá allt um það í þessari grein hér.


mbl.is Reynslulausir réðu í bönkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar á Íslandi norrænan borgaraflokk sem stendur fyrir sömu lífsgildi og hægri flokkarnir þar.

“Ameríkusering” og “Thatcherismi” hafa leitt íslenskt samfélag í átt til samfélagsgerðar sem við erum ekki sátt við. Snúum af braut notendagjalda og félagslegs ranglætis.

Sjá heimasíðu Norræna Íhaldsflokksins.

Nafnið "Norræni Íhaldsflokkurinn" hefur ekkert með þjóðernisstefnu og rasisma" að gera frekar en nafnið á "Norræna húsinu".


Setjum reglur um hámarks lengd vinnuviku.

Bygg cÁ nýjum tímum skapast ný tækifæri. Nú er tækifærið til að stuðla að heilbrigðu fjölskyldulífi og góðum starfskilyrðum á vinnustöðum landsins.

Nú eigum við að setja svipaðar reglur um hámarks lengd vinnuviku launafólks og er í gildi á hinum Norðurlöndunum (Afspassering). Við eigum til að byrja með að hafa viðmiðið hærra hér en þar eða 45 til 50 stundir á viku.

Ársfjórðungslega verði vinnustundir reiknaðar út og hafi verið unnið meira en sem samsvarar 45 eða 50 stundum á viku að jafnaði síðustu þrjá mánuði þá skal viðkomandi taka launalaust frí á móti því. Hægt er að flytja slík frí á milli ársfjórðunga en fríið skal taka innan ársins.

Með þessu eru atvinnurekendur alltaf með úthvílt vinnuafl sem þýðir meiri afköst og færri dýra næturvinnutíma.

Þekkt er að afköst eru meiri hjá þeim sem vinna stuttan vinnudag en þeirra sem vinna langan vinnudag. Þetta sýna rannsóknir og þetta þekkja allir þeir sem hafa unnið í ákvæðisvinnu árum saman. Ef vel er unnið kemur best út að vinna 8 tíma á dag. 

Vinnan dreifist með þessu  fyrirkomulagið á fleiri hendur og atvinnulausum fækkar.

Með þessu vinnulagi þá fá launþegar meiri tíma fyrir sig og fjölskyldulífið blómstrar. Til þess er jú barist, að eiga tíma fyrir sjálfan sig og fjölskylduna.

Ofangreint er tekið upp úr áherslum Norræna Íhaldsflokksins um atvinnumál.


mbl.is Staðið verði við launahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband