Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 27. júlí 2009
Afköst í ríkisbönkum og stjórnsýslunni undir öllum væntingum.
Það hefur verið einkennilegt að fylgjast með framgangi áætlunar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, hér á landi. Þar eru allar tímasetningar farnar úr skorðum. Sleifarlagi stjórnsýlunnar og ríkisbankana er um að kenna. Greiðsla númer tvö úr sjóðnum átti að berast í febrúar og greiðsla númer þrjú í maí. Nú í lok júlí hefur hvorug þessara greiðslna borist. Ástæður eru tafir á því að ákveðin vinna sé unnin og ákveðin gögn liggi fyrir. Þessa vinnu og þessi gögn á stjórnsýslan og ríkisbankarnir að vinna og leggja fram.
Þeir erlendu sérfræðingar sem hingað hafa verið fengnir til aðstoðar eftir kerfishrunið þeir kvarta sáran undan því hvað öll vinna hér gengur hægt og að stjórnsýslan sé mjög svifasein. Gildir það jafnt um sænska efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, norsk/franska rannsóknardómarann sem og aðra.
Í viðtölum við Íslenska embættismenn þá kveður við allt annar tónn. Íslenskir embættismenn geta ekki hætt að hæla hver öðrum í viðtölum. Hve lánsöm þjóðin sé að samstarfsmenn þeirra séu slíkir afburða menn, harðduglegt gáfufólk sem leggi svo hart að sér í vinnu fyrir þjóðina að mörgum þeirra vöknar um augun þegar þeir minnast þessa.
Já, það er annað hvort í ökkla eða eyra þessi misserin hér á landi.
Auðvita vill ég trúa því að frábært starfsfólk sé að störfum í stjórnsýslunni og í bönkunum.
Ótrúlegt samt að allt þetta frábæra starfsfólk sem starfar í ríkisbönkunum og stjórnsýslunni skuli með sleifarlagi sínu bera ábyrgð á því að það hefur dregist í meira en hálft ár að AGS geti afgreitt lán númer tvö og lán númer þrjú er nú að dragast á þriðja mánuð.
Ótrúlegt líka að þeir erlendu sérfræðingar sem hér hafa verið fengnir til starfa skuli kvarta yfir sleifarlagi og seinagangi eins og þetta frábæra starfsfólk hafi ekki verið og sé ekki að vinna vinnuna sína.
Ég held að embættismenn ríkisins eigi að temja sér aðeins lástemmdari hól um samstarfsfólk sitt. Í það minnsta meðan þetta fólk skilar ekki á réttum tíma þeim verkefnum sem því er falið að vinna og erlendir sérfræðingar sem hér eru að störfum ganga um gólf reitandi hár sitt að reyði yfir seinagangi þessa "frábæra" starfsfólks.
Á ekkert að taka á þessu "stafsmannavandamáli"? Er virkilega ætlunin að keyra á næstu árum á sama starfsfólkinu og var við stjórnvölin í öllum helstu lykilstofnunum samfélagsins og bönkunum misserin fyrir kerfishrun? Jú, jú það er kominn nýr Seðlabankastjóri og nýr forstjóri í FME en það er líka það eina.
Verður nokkurn tíma hægt að endurreisa traust almennings á þessum stofnunum ef þetta er það eina sem á að gera og allir aðrir sitja áfram á sínum stað?
Mynd: Húseyjarkvísl.
![]() |
Ísland á dagskrá stjórnar AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 26. júlí 2009
Alþingi á að bjóða Bretum og Hollendingum nýjan Icesave samning fyrir vikulok.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 25. júlí 2009
Allir munu lúta ákvörðun elsta starfandi þings í heimi.
Opnuviðtal Morgunblaðsins við Indriða H Þorláksson í blaðinu í dag er um margt fróðlegt. Tvennt í viðtalinu stakk mig þó. Í fyrsta lagi sagði Indriði þetta:
"Það er mikilvæg forsenda í öllum samningum að menn setji sig vel inn í hagsmuni og afstöðu viðsemjenda sinna og geri þeim grein fyrir eigin afstöðu og hagsmunum. Það er yfirleitt ekki svo að þeir sem sitja við samningaborðið séu óvinir sem reyna að klekkja hvorir á öðrum heldur eru þeir í samneiginlegum leiðangri að leita að lausn sem er viðunandi fyrir báða aðila".
Það sem ég hef séð og lesið mér til um þennan Icesave samning þá sýnist mér það vera deginum ljósara að þessi orð Indriða lýsa vel afstöðu Íslensku samninganefndarinnar í samningum sínum við Bresk og Hollensk yfirvöld.
Það er líka jafn ljóst að þetta var ekki afstaða Bresku og Hollensku samninganefndarinnar. Indriði segir að "yfirleitt" séu samningar með þeim hætti sem hann lýsir og það er rétt hjá honum en það ekki "alltaf" þannig. Eins og samningurinn er þá er ljóst að samninganefndir Breta og Hollendinga mættu til leiks sem "óvinur sem var að reyna að klekkja á viðsemjenda sínum".
Íslenska samninganefndin virðist hafa gefið sér að viðsemjendurnir væru að nálgast málið með sama hætti og þeir og gleymt hinum fornu sannindum: Ekki eru allir viðhlæjendur vinir.
Hitt atriðið í viðtalinu sem stakk mig var þetta:
Þetta er siðferðileg og pólitísk spurning og henni verður ekki svarað nema sem slíkri. Það svar var gefið síðastliðið haust með viðurkenningu Íslenskra stjórnvalda á siðferðilegri og pólitískri skyldu sinni og samningarnir nú eru punkturinn á eftir því svari.
Í þessu svari rís ráðherraræðið á Íslandi í sínar hæstu hæðir og Íslenska embættismannakerfið afhjúpast. Valdið allt er í ráðuneytunum. Það er ráðherra og embættismenn þeirra sem hér stjórna og öllu ráða. Alþingi og réttkjörnir fulltrúar almennings á Alþingi skipta engu. Það er eins og Alþingi sé valdalaus afgreiðslustofnun, verkfæri til að blekkja þjóðina þannig að þjóðin haldi að valdið sé hennar.
Hafi ráðherra og Íslenska embættismannakerfið "viðurkennt skyldu sína" þá þarf ekki að ræða það mál frekar. Alþingi og þjóðinni ber að axla allar þær "skyldur" sem ráðherrar og embættismenn ríkisins hafa samþykkt, óháð því hverjar "skyldurnar" eru og óháð því hvort ráðherrar eða embættismenn hafa hugsanlega talað eða samið af sér.
Hótanir þess efnis að hér fari allt í kalda kol, lán Norðurlandanna dregin til baka o.s.frv. ef þessi stærsti milliríkjasamningur sem Íslandi hefur gert komist ekki í fyrsta umgang í gegnum Alþingi eru þeim sem þær setja fram til skammar.
Á Íslandi er starfandi elsta þing í heimi. Það er þetta rótgróna þing sem hefur valdið á Íslandi til að skuldbinda þjóðina, ekki ráðherrar og embættismenn. Taki þessi gamla rótgróna valdastofnun, vagga þess vestræna lýðræðis sem þjóðirnar hér í kring búa við, ákvörðun um að hafna þessum samningi og óska eftir betri samningi þá mun enginn hér í löndunum í kring skirrast við. Þetta er bara lýðræðið í hnotskurn og Indriði jafnt sem sparifjáreigandinn í London verður að sætta sig við þær leikreglur sem gilda í löndum þar sem er þingræði. Og eigi menn einhvers staðar að hafa í heiðri leikreglur þingræðisins þá er það hér.
Það að teknir séu tveir til þrír umgangar í flóknum samningum er ekki óvanalegt og ekkert athugavert við það.
Fellum þennan samning, hann er ekki ásættanlegur. Bretar og Hollendingar eru búnir að borga sínu fólki sínar innistæður. Vilji þeir að við komum að þessu máli með þeim að borga þetta Icesave þá verða þeir að koma til okkar. Við eigum þá að taka þeim opnum örmum og segja að við viljum axla okkar ábyrgð en þingi hafi ekki samþykkt samninginn. Til að þingið samþykki samninginn þá verði að gera á honum eftirfarandi breytingar ....
Er þetta svo flókið?
Þar fyrir utan þá eigum við sem þjóð ekki að láta stilla okkur upp við vegg með þessum hætti.
Við eigum ekki að láta stilla okkur upp við vegg þar sem okkur er hótað, ef þið borgið ekki þá fáið þið ekki lán og við eyðileggjum fyrir ykkur hér og þar og allstaðar.
Engin þjóð á að láta undan slíkum hótunum.
Mynd: Við Varmahlíð
![]() |
Niðurlægjandi ákvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 22. júlí 2009
Kjartan Gunnarsson, segðu þig úr Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Nú er komið í ljós að Landsbankinn var rekinn eins og glæpafyrirtæki. Þegar alþjóðlega bankaumhverfið hafði lokað á bankann í "Íslandskreppunni" vorið 2006 og hann gat ekki lengur framlengt líf sitt sem því að taka ný lán til að borga upp gömlu lánin þá greip bankinn til þess ráðs að veðsetja þjóðina og lokka með því almenning á Bretandi og Hollandi til að geyma sparifé sitt í bankanum.
Til að tryggja aðgerðaleysi stjórnvalda borgaði bankinn tugi milljóna inn í flokksjóði stærstu stjórnmálaflokka landsins. Þegar ljóstrað var upp um þær svimandi greiðslur sem gengu til Sjálfstæðisflokksins frá Landsbankanum þá afhjúpaðist þá kaldi veruleiki að Landsbankinn hafið verið að kaupa sér velvild hjá forystumönnum flokksins. Ungur drengur sem tók við starfi sem framkvæmdastjóri flokksins á sama tíma og þessar tugmilljónagreiðslur voru lagðar inn á reikning flokksins var vikið úr starfi. Í framhaldi tók nýr formaður Sjálfstæðisflokksins ákvörðun um að flokkurinn skyldi endurgreiða mútugreiðslurnar.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins áratugina á undan og varaformaður stjórnar Landsbankans sagðist hafa verið að æfa Lögreglukórinn linnulaust síðustu ár og í engu getað sinnt starfi sínu sem framkvæmdastjóri flokksins vegna æfinganna. Hvað þá að hann hafi getað gengt starfi sínu sem varaformaður stjórnar bankans enda vissi hann ekki neitt hvað hafði gerst í bankanum frá því hann tók þar við varaformennsku.
Ungum dreng var fórnað, bakari var hengdur fyrir smið og er það Sjálfstæðisflokknum til skammar.
Ótrúlegt er að aðal ábyrðarmenn Landsbankans, formaður og varaformaður ásamt bankastjórum skuli ekki enn hafa verið ákærðir fyrir að hafa greitt mútur og bera fé á stjórnmálaflokka.
Svívirðilegast af öllu er þó þetta Icesave mál. Hvaða menn eru þetta sem veðsettu þjóð sína fyrir 1.500 milljarða á tæpum tveim árum? Hvernig menn eru þetta sem gambla með þjóð sína með þessum hætti? Er hægt að kalla slíka menn annað en Landráðamenn? Af hverju ganga slíkir menn enn lausir?
Af hverju situr ábyrgðarmaður númer tvö á Icesave, varaformaður stjórnar Landsbankans, ennþá í Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins?
Það síðasta sem fréttist af Kjartani Gunnarssyni var að hann var að rífa kjaft í Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins yfir því að einhverjir þingmenn flokksins kusu ekki eins og honum þóknaðist í ESB málinu.
Að tíu mánuðum liðnum. 29. maí 2010 verður kosið til sveitarstjórna. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn virkilega að hefja undirbúning þeirra kosninga nú í haust með ábyrgðarmann á Icesave númer tvö sitjandi í valdamestu stofnun flokksins, stofnun sem fer með vald Landsfundar milli þess sem Landsfundir eru haldnir? Finnst Sjálfstæðismönnum það bara í lagi? Er mér einum sem ofbýður?
Já, það verður styrkur í komandi kosningabaráttu fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa slíkan mannkosta mann í æðstu trúnaðarstörfum. Mann sem hefur unnið þjóð sinni svo vel. Mann sem hefur fært okkur svo mikla gæfu og auðlegð og borið nafn okkur og orðspor um heim allan þannig að eftir hefur verður tekið. Það heilladrjúga starf sem þessi maður hefur unnið þjóð sinni verður öllum núlifandi Íslendingum ógleymanlegt enda einstakur mannkosta maður hér á ferð, heiðarlegur, grandvar og góður. Þeim verður seint ofþakkað þeim mönnum sem báru ábyrgð á og hleyptu Icesave af stokkunum.
Það er tær snilld að hafa slíkan mann í Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins nú þegar við Sjálfstæðismenn förum að undirbúa komandi sveitarstjórnarkosningar. Fátt mun auka meira fylgi okkar í komandi kosningum nema ef vera skildi að maðurinn léti tilleiðast og sitja í Miðstjórn fram yfir næstu Alþingiskosningar.
Já við Sjálfstæðismenn höfum margt að gleðjast yfir.
Sjá einnig hér:
Kærum þá sem veðsettu þjóðina fyrir Icesave reikningunum fyrir landráð
Axla þú þín skinn, Kjartan Gunnarsson.
Mynd: Sauðburður í Blönduhlíð.
![]() |
Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:26 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 16. júlí 2009
Hrossakaup Borgaraflokksins afþökkuð
Niðurstaða Alþingis í atkvæðagreiðslunni að leita samninga við ESB kemur ekki á óvart. Frá því þetta þing kom saman þá hafa menn talið að það væri meirihluti í þinginu fyrir því að láta á það reyna hvaða samningar okkur bjóðast sýnum við áhuga á að ganga í sambandið. Niðurstaðan er því í samræmi við það sem vitað var.
Það eina sem kom á óvart í þessu máli er þau vinnubrögð sem fulltrúar Borgaraflokksins hafa viðhaft. Að rifta gerðu samkomulagi, hóta og reyna að stilla ríkisstjórninni upp við vegg eins og þingmenn Borgaraflokksins reyndu með því að blanda saman tveim ólíkum málum var dapurlegt að sjá. Ég vil hafna Icesave samningnum en svona má ekki vinna.
"Ef þið komið ekki til móts við okkur í þessu máli þá munum við ekki standa við okkar samkomulag og við munum reyna að eyðileggja fyrir ykkur í hinu málinu" sögðu þingmenn Borgaraflokksins.
Vinnubrögð eins og þessi er fyrir neðan allar hellur. Orð og samningar þessa fólks er hér eftir einskis virði. Það er ekki hægt að treysta fólki sem hagar sér með þessum hætti. Það er ekki hægt að gera við svona fólk samninga. Pólitískar skoðanir, pólitísk sannfæring, persónulegur metnaður, heiðarleiki og trúverðugleik, allt er þetta farið því allt er þetta falt. Bara nefna verðið og prútta.
Núverandi stjórnvöld eiga heiður skilið að hafa ekki látið þingmenn Borgaraflokksins stilla sér upp við vegg með þessum hætti.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar eiga heiður skilið fyrir að hafa ekki freistast til að kaupa sér atkvæði þingmanna Borgaraflokksins og tryggja þar með ESB tillöguna en létu frekar skeika að sköpum í málinu
Forystumenn ríkisstjórnarinnar eiga heiður skilið að hafnað þessum hrossakaupum Borgaraflokksins og koma þar með í veg fyrir að Alþingi breyttist í stóðrétt og þingmenn í hrossaprangara.
Mynd: Keypt og seld hross á Löngufjörum
![]() |
Samþykkt að senda inn umsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 15. júlí 2009
Skýjaborgir Seðlabankans
Ótrúlegar eru þær forsendur sem Seðlabankinn gefur sér þegar hann metur getu ríkisins til að standa við Icesave samninginn.
Að það fáist 75% upp í eignir gamla Landsbankans er hreint ótrúleg bjartsýni. Var ekki verið að taka eignir út úr gamla bankanum og setja yfir í þann nýja með gríðarlegum afföllum. Voru Íslensku útrásarvíkingarnir ekki með fjórðung útlána bankans og er það fé ekki allt glatað? Þessar eignir bankans, hve mikið af þeim er þegar veðsett og verða því ekki til skiptana?
Til þess að dæmið geti þar að auki gengið upp hjá Seðlabankanum þá þarf að koma til hagvöxtur og mikill afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum.
Aðrar afborganir sem ríkið þarf að greiða á sama tíma, ekkert er gerð grein fyrir þeim.
Til að afla fár til greiðslu á Icesave stingur Seðlabankinn upp á skattahækkunum og hefur með öllu gleymt nýgerðum Stöðugleikasáttmála sem ríkið og aðilar vinnumarkaðarins hafa gert þar sem samið er um niðurskurð og skattahækkanir á næstu árum til að brúa 150 milljarða halla á ríkissjóði.
Það voru svona Excel útreikningar sem settu þjóðina í gjaldþrot. Forsendurnar allar byggðar á glórulausri bjartsýni og efnahagslífið allt byggt á skýjaborgum.
Þessir Excel snillingar eru greinilega enn á fullu í Seðlabankanum og eru að kveikja þar villuljós sem er að leiða stjórnvöld og þjóðina út í enn eina kelduna.
Hafi þeir þökk fyrir.
Mynd: Á Löngufjörum
![]() |
Skuldin 340 milljarðar 2015 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 14. júlí 2009
Seðlabankinn stendur vörð um þjóðargersemina
Bankarnir okkar þrír eru slík þjóðargersemi að eðlilegt er að þjóðin fórni öllu því sem hún á í þeirra þágu. Þó þjóðin skuldsetji sig og börnin sín til margra áratuga þá er það í góðu lagi ef aðeins er hægt að halda starfsemi þeirra áfram í núverandi húsnæði. Það er einfaldlega ekki hægt að gera of mikið og ekkert er það sem við eigum sem ekki má fórna í þeirri viðleitni að halda starfi þeirra áfram og tryggja störf þeirra sem þar starfa.
Þó í heilan áratug þurfi verkamaður á Íslandi að vinna í tvo klukkutíma til að eiga fyrir einum kaffibolla á Strikinu í Kaupmannahöfn þá er það vel þess virði að halda gengi Íslensku krónunnar í lægstu lægðum þann áratug ef aðeins bankarnir okkar þrír fái starfað áfram.
Með núverandi gengisskráningu þá erum við Íslendingar lægst launaða þjóð í Vestur Evrópu. Það skiptir engu máli þó svo verði næsta áratuginn ef aðeins bankarnir okkar þrír fái starfað áfram.
Þó gengið hafi lækkað um 50% og innfluttar vörur og erlend lán því hækkað um 100% á síðustu 12 mánuðum með tilheyrandi verðbólgu og hækkun vísitölutryggðra fasteignalána þá skiptir það engu máli ef aðeins bankarnir okkar þrír fái starfað áfram.
Þó öll okkar öflugustu orkufyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög fari í gjaldþrot og lendi í höndum erlendra lánadrottna sinna vegna gengisskráningarinnar þá skiptir það engu máli ef aðeins bankarnir okkar þrír fái starfað áfram.
Til að tryggja þetta er ekkert gjald of hátt og engin fórn of stór.
Megi bankarnir okkar blómstra sem aldrei fyrr og færa okkur auðleg, velsæld og virðingu um heim allan, hér eftir sem hingað til.
Ekki má ekki standa á þjóðinni að færa þær fórnir sem þarf til að svo megi verða.
Mynd: Okvegur riðinn með Skjaldbreið í baksýn.
![]() |
Gjaldeyrishöft hugsanlega nokkur ár í viðbót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.7.2009 kl. 09:50 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 13. júlí 2009
Svisslendingar forhertir fjármálaglæpamenn
Við lestur þessarar fréttar þá áttar maður sig á því að Íslenskir bankamenn og Íslensk stjórnvöld eru eins og börn í samanburði við þá forhertu glæpamenn sem stýra og stjórna Sviss og Svissnesku bönkunum. Stjórnvöld í Sviss og Svissnesku bankarnir halda hlífiskildi yfir öllum þeim lögbrjótum þessa heims sem velja að geyma peningana sína í skjóli Svissnesku bankna og láta ríkisstjórn Sviss vermda fé sitt með kjafti og klóm.
Sviss hefur aldrei orðið að fullu hluti af Evrópu. Peningar spilla og Svissnesk stjórnvöld og bankamenn eru gjörspilltir og líta á það sem hlutverk sitt í lífinu að vernda glæpamenn sem geyma fé sitt í bönkunum þeirra. Þeir vilja ekki lúta lögum og reglum Evrópu og annarra réttarríkja en hafa valið sér það hlutskipti að standa utan við önnur réttarríki. Þeir hafa valið að þjónusta þjófa og glæpamenn.
Græðgi Svissneskra bankamanna hefur þó líklega borið þá af leið þegar þeir ákváðu að setja upp útibú í Bandaríkjunum til að auðvelda Bandaríkjamönnum að fela peningana sína fyrir þarlendum yfirvöldum.
Vonandi tekst Bankaríkjamönnum að brjóta á bak aftur þessa glæpamannabanka og bakhjarl þeirra, Svissnesku ríkisstjórnina.
Vonandi verður þetta til þess að tekið verði á öllum þeim skattaskjólum og aflandseyjum sem starfrækt eru víða um heim í skjóli stjórnvalda á þessum stöðum. Fyrir utan Svisslendinga fara þar fremstir í flokki hér í Evrópu, Bretar og Lúxemborgarar. Siðblindir bankamenn með spillt stjórnvöld sem sinn bakhjarl er ekki góð blanda.
Vonandi var það ekki Sviss sem menn horfðu á sem fyrirmynd hér fyrir nokkrum árum þegar þeir töluðu um að gera Ísland að fjármála- og bankaveldi.
Guði sé lof fyrir bankahrunið ef það kom í veg fyrir að Ísland endaði á botninum í samfélagi þjóðanna með þjóðum eins og Sviss.
Guð forði okkur frá því að bankamenn og þeirra fyrirmyndarríki verði á ný hafin til vegs og virðingar í Íslensku samfélagi.
![]() |
Vilja fresta réttarhöldum um UBS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 9. júlí 2009
Ábyrgðarmaður númer tvö á Icesave situr enn í Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins
Forysta Sjálfstæðisflokksins fékk umboð Landsfundar að selja bankana í dreifðri eignaraðild. Lítið hefur verið gert með samþykktir Landsfundar og loforð gefin fyrir kosningar síðasta áratuginn.
Ótrúlegt er að Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og ábyrgðarmaður númer tvö á Icesave reikningunum sem varaformaður bankastjórnar Landsbankans skuli hafa verið kosinn í Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og að hann skuli sitja þarna enn!
Að ekki sé minnst að tugmilljónagreiðslurnar sem gengu milli Landsbankans og Sjálfstæðisflokksins þegar hann var varaformaður bankastjórnar bankans og framkvæmdastjóri flokksins. Og maðurinn situr enn í Miðstjórn flokksins!
![]() |
Dýrt fyrir ríkið að selja banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 7. júlí 2009
Falla bankarnir og gríðarlegar ábyrgðir lenda á þjóðinni?
Sífellt fleiri og fleiri spurningar vakna hvort rétt hafi verið að endurreisa bankana. Frá því þeir fóru í gjaldþrot í haust hefur þeim verið haldið sofandi á lífi í gjörgæslu. Til þess að halda þeim á lífi þá hefur þjóðin verið látin brjóta hvern siðferðilega þröskuldinn á fætur öðrum.
Bara það eitt að fara í kennitöluflakk með bankana og stofna upp úr gjaldþrota bönkum nýja banka á nýrri kennitölu var þannig skref að þá skammaðist ég mín í fyrsta sinn á ævinni fyrir að vera Íslendingur. Að fara í kennitöluflakk með banka eða fyrirtæki sem eru komin í vandræði er ekkert nema þjófnaður, í besta falli tilraun til þjófnaðar. Með slíku kennitöluflakki halda eigendur áfram rekstri en skilja skuldirnar eftir á gömlu kennitölunni og lánadrottna eftir með sárt ennið. Að ríkið skuli hafa farið úr í slíkt og gert þjóðina að þjófsnaut sínum með sér í þessu máli er hreint ótrúleg svívirða. Hvernig verður "mórallinn" hjá Íslenskum atvinnurekendum eftir að þeir hafa horft upp á ríkið gera þetta? Eftir höfðinu dansa limirnir.
Í annan stað þá eru bankarnir enn á lífi og ekki búið að taka þá til gjaldþrotaskipta vegna þess að hér voru sett neyðarlög. Þessi neyðarlög þverbrjóta margar þær grundvallarreglur er varða mismunun fólks vegna þjóðernis. Þessi neyðarlög eru engin lög, þetta eru ólög. Það er með ólíkindum að þjóð eins og við skulum hafa sett slík lög til þess eins að bjarga þrem einkafyrirtækjum í fjárhagsvandræðum. Öllum okkar fyrri gildum var hent út í ystu myrkur í þeim tilgangi að verja illa fengið fé þessara fyrirtækja. Fyrirséð eru endalaus málaferli erlendra aðila við bankana, fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og ríkið vegna þessara neyðarlaga og þeirra athafna sem þessir aðilar hafa framkvæmt á grundvelli þessara laga.
Þau málaferli sem fyrirséð eru vegna þessara neyðarlaga er þess eðlis að tapist eitthvað af þessum málum þá verða þessir bankar gjaldþrota og gott ef ekki Íslenska þjóðin líka. Þessi neyðarlög eru líkleg einhver versti gjörningur og verstu lög sem nokkur ríkisstjórn hefur sett. Um leið og Alþingi var illi heilli búið að samþykkja þau þá sáu Bretar sig tilneydda að verja sig og sitt fólk og beittu sínum hryðjuverkalögum á Íslensku bankana og Seðlabankann.
Tjónið sem þessi neyðarlög eru búin að valda þjóðinni er þegar orðið gríðarlegt og ekki fyrirséð hvernig það muni enda.
Ég spyr verður einhvertíma hægt að taka þessi neyðarlög úr gildi? Verður að framlengja gildistíma þeirra um tvö ár í viðbót svo ekki verði hægt að lögsækja bankana og ríkið? Liggur ekki fyrir að ef málaferli fara í gang sem snúast um rétt Íslenska ríkisins til að mismuna innistæðueigendum eftir þjóðerni, að þeim málaferlum tapar Íslenska ríkið?
Liggur það ekki fyrir að ef neyðarlögunum verður aflétt þá tapast slík málaferli og nýju bankarnir fara allir í gjaldþrot og tvö til þrjú þúsund milljarðar falla á ríkið og þar með Íslensku þjóðina? Verðum við þá eins og Hondúras með neyðarlög í gildi til að halda bönkunum gangandi næsta aldarfjórðunginn?
Allt þetta til þess að tryggja innistæður íslenskra aðila í Íslensku bönkunum að fullu, óháð upphæð.
Innistæður sem ríkið er að ábyrgjast með þessum neyðarlögum eru eftir því sem ég best veit 2.300 milljarðar. Inni í þessari upphæð er Icesave upp á um 300 milljarða. Falli dómar þannig að ríkinu verður ekki stætt að mismuna innistæðueigendum með þessum hætti og því beri að ábyrgjast allar innistæður óháð upphæð og óháð þjóðerni þá sjálfsagt tvöfaldast eða þrefaldast þessi upphæð. Við vitum að það er ekki til fé í bönkunum til að ábyrgjast þessa 2.300 milljarða. Hvað þá ef þessi tala er tvöfölduð eða þrefölduð.
Ég spyr, var nokkurt vit í því í október að setja þessi neyðarlög? Getur þjóðin nokkurn tíma staðið undir því að ábyrgjast innistæður í bankakerfi sem er 10 sinnum stærra en landsframleiðslan? Af hverju nægir það ekki að ríkið tryggi innistæður að ákveðinni upphæð eins og 100.000 evrum eins og gert er í Evrópu? Þá losnum við við fullt af málaferlum. Af hverju er verið að skuldsetja þjóðina og axla ábyrgð á öllu reikningum óháð upphæð?
Er ekki fyrirséð að þegar neyðarlögunum sleppir eftir 15 mánuði þá verður bönkunum stefnt og í framhaldi fara þeir í gjaldþrot og gríðarlegar skuldbindingar falla á þjóðina?
Mynd: Kirkjan á Hvanneyri
![]() |
Óvíst um ábyrgð á Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook
Af hverju skilgreinir Alþingi ekki þær breytingar sem það vill gera á Icesave samningnum og lætur í framhaldi skrifa upp nýjan samning? Samning sem þingið gæti hugsað sér að samþykkja. Af hverju skipar Alþingi ekki nýja samninganefnd og sendir hana með þessi nýju drög að Icesave samningi til Bretlands og Hollands? Af hverju gefur Alþingi sér ekki viku í að semja þessi drög og gefur sér síðan aðra viku í að semja við Breta og Hollendinga og stefnir á að leggja þennan nýja samning fyrir þingið helgina eftir Verslunarmannahelgi?
Það væri þá Breta og Hollendinga að samþykkja þessi drög eða koma með tillögur að breytingum.
Í nýjum drögum að Icesave samningi væri þannig hægt að taka út ákvæði er varða hvaða lög gilda varðandi þennan samning, hvar varnarþingið er og hvar málaferli sem honum tengjast eiga að fara fram. Af hverju setja menn þennan samning ekki undir lög í óháðu landi? Svíþjóð og sænsk lög er oft notuð í þeim tilgangi.
Þá má nefna ábendingar Jóns Daníelssonar sem segir að þegar verið er að skipta upp þrotabúi þá eru aldrei greiddir vextir á þeim tíma þegar beðið er eftir að eignir þrotabúsins seljist. Hann segir að við eigum að neita að greiða vexti. Innistæðueigendurnir eins og aðrir kröfuhafar verið að bíða eftir að eignir bankans / þrotabúsins seljist og á þeim tíma greiðast engir vextir. Þetta er þörf og rétt ábending. Eins atriði er varða hvernig greitt er út úr þrotabúinu, skilgreiningu á hámarks greiðslubyrgði sem hlutfall af landsframleiðslu o.s.frv..
Þannig má áfram telja þau mörgu atriði sem gera það að verkum að þjóðin og þingið á mjög erfitt með að samþykkja óbreyttan samning.
Það liggur fyrir að það þarf nýjan samning. Alþingi á að drífa í að skrifa upp drög að nýjum samning og senda hið snarasta á Breta og Hollendinga.
Sá samningur á að vera á Íslensku.