Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 7. ágúst 2009
Bretar ófyrirleitnir
Þeir eru ófyrirleitnir þessir menn í Breska fjármálaráðuneytinu sem svöruðu Morgunblaðinu því til að búið væri að semja um Icesave þegar málið er þannig statt að fyrir liggja drög að samningi sem Alþingi á eftir að staðfesta. Ef Alþingi staðfestir þessi drög þá er þetta orðið að samningi ekki fyrr. Þetta vita Bretarnir manna best enda löng hefð hjá þeim að Breska þingið hafni bæði samningum og lagafrumvörpum sem lögð eru fyrir það. Þessir menn eru því ekki að gera neitt annað en sýna okkur lítilsvirðingu.
En hverjar eru skyldur okkar í þessu máli?
- Er það skylda okkar að tryggja 20.887 evrur á hverjum Icesave reikning?
- Er það skylda okkar að tryggja allar innistæður að fullu?
Íslensk lög og reglur ESB gera ráð fyrir að við eigum að tryggja 20.887 evrur á hverjum reikningi.
Með því að við samþykkjum að tryggja 20.887 evrur á hverjum Icesave reikning og látum Breta og Hollendinga fá 50% af eignum Landsbankans erum við þá ekki að gera miklu meira en Íslensk lög og reglur ESB mæla fyrir um?
Bretar og Hollendingar ætla að nota þetta fé, 50% af eignum Landsbankans, til að láta innistæðueigendur í Icesave hafa. Hollendingar ætla að nota þetta fé til að tryggja 100.000 evrur per reikning og Bretar allar innistæður að fullu.
Landsbankinn er Íslenskt fyrirtæki og hann á að gera upp skv. Íslenskum lögum. Ef Íslendingar væru að fá allar eignir Landsbankans en ekki bara 50% af þeim þá myndu þær eignir fara langt með að dekka allan kostnað við að greiða út 20.887 evrur per reikning. Þá væru ekki af falla á okkur þessir 400 til 700 milljarðar sem fyrirséð er að munu falla á okkur vegna Icesave.
Af hverju eru Bretar og Hollendingar að fá 50% af eignum Landsbankans til sín?
Af hverju erum við að tryggja nánast allar innistæður að fullu þó okkur beri engar lagalegar eða siðferðilegar skyldur til þess?
Getum við nokkurn tíma staði undir því að tryggja allar innistæður að fullu í bankakerfi sem var tíu sinnum stærra en þjóðarbúið, bankakerfi sem er í dag gjaldþrota og fjárvana?
Þetta er ekki bara Icesave, þetta eru líka allir innlánsreikningar í hinum bönkunum hér heima. Kostnaður við að tryggja allar þessar innistæður nemur sem samsvarar landsframleiðslunni. Er forsvaranlegt að skuldbinda þjóðina næstu áratugina vegna þessa og hneppa hana þar með í fjötra fátæktar?
Eigum við ekki að stíga fram og segjast ætla að tryggja 20.887 evrur per reikning, hér heima og erlendis, og allar eignir Landsbankans verði notaðar í það. Við hljótum að hafna því að Bretar og Hollendingar fái til sín 50% af eignum Landsbankans til viðbótar við það að við tryggjum 20.887 evrur per reikning.
![]() |
„Það er búið að semja!“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 5. ágúst 2009
Opinberir aðilar að drepa niður allt tengt byggingaiðnaði
Það er ljóst að það á ekki að skipta niður birgðunum jafnt á milli atvinnugreina í þessari kreppu. Sumum er ætlað að bera meiri og þyngri birgðar en aðrir. Svo eru það sumir sem eiga engar birgðar að bera.
Engum sem er í stéttarfélagi sem skamstafast BSRB hefur verið sagt upp störfum þó hér geisi dýpsta kreppa frá Lýðveldisstofnun. Á sama tíma er nær öllum framkvæmdum á vegum opinberra aðila slegið á frest.
Vöxtum er haldið það háum að nánast engir hreyfa sig, hvorki við nýbyggingar, viðhald eða kaupa fasteignir. Þetta þykir mönnum allt í "gúddý" en að segja upp einum opinberum starfsmanni, nei, guð forði okkur frá því!
Botnlaust atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot og landflótti þykir hið besta mál og alls ekki neitt til að gera veður út af í starfsgreinum sem tengjast byggingaiðnaðinum.
Já, mönnum er ætlað misjafnt hlutskipti í þessari kreppu undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Mynd: Flugstöðin í Kulusuk er Íslensk arkitekta- og verkfræðihönnun.
![]() |
110 sagt upp í hópuppsögnum í júlí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.8.2009 kl. 10:00 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 4. ágúst 2009
Ekkert hefur breyst á Íslandi frá bankahruni
Nú um Verslunarmannahelgina afhjúpast það fyrir almenningi að hér hefur ekkert breyst frá bankahruni. Þetta afhjúpaðist í tveim uppákomum.
Fyrst reynir Kaupþing að hylma yfir þá glæpi sem framdir voru í bankanum í aðdraganda hrunsins með því að setja lögbann á rúv. Jú, jú, bankinn dregur lögbannið til baka þegar við blasir þrot bankans þegar á annað þúsund manns hóta að flytja sín viðskipti úr bankanum verði látið reyna á lögbannið. Nú reynir bankastjórinn með hinum einkennilegustu rökum að afsaka sig og gerðir bankans.
Síðan birtist einstæð grein Karls Vernerssonar. Karl og félagar tæmdu m.a. tryggingasjóð Sjóvár og skildu félagið eftir gjaldþrota. Ríkið varð að leggja til á annan tug milljarða inn í félagið af skattpeningum almennings til þess að þeir sem tryggja hjá Sjóvá séu ekki með allt sitt ótryggt. Þessi Karl spyr: Knésetja menn eigin fyrirtæki af ásetningi? Þjóðin öll veit svarið, það er eitt stórt JÁ. Þetta er algengasti ósiður í Íslenskum atvinnurekstri, eigendur stela frá sínum eigin fyrirtækjum. Ótrúlegt að maður sem er nýbúinn að tæma tryggingarsjóðinn hjá Sjóvá skuli láta sér detta í hug að spyrja þjóðina þessarar spurningar.
Því miður, ekkert hefur breyst í Íslensku viðskiptalífi frá bankahruni, enginn hefur lært neitt. Siðblindir menn og veruleikafyrtir bankamenn ríða hér enn húsum.
Nú þegar við "fögnum" 10 mánaða afmæli bankahrunsins hefur ekkert réttlæti náð fram að ganga, engin verið svo mikið sem ákærður og engar hreinsanir hafa átt sér stað fyrir utan fjóra eða fimm menn. Getuleysi stjórnsýslunnar og réttarkerfisins virðist algjört.
![]() |
Falla frá lögbanni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 3. ágúst 2009
Falla sex milljónir á hvern Íslending vegna loforðs um að allar innstæður skuli tryggðar?
Íslendingum er ætlað að greiða um 300 milljarða vegna Icesave, skv Seðlabankanum. Með vöxtum er Icesave áætlað um 600 milljarða. Aðrir en Seðlabankinn áætla Icesave aldrei undir 1.000 milljörðum.
Þetta er fyrir utan innistæður sem þjóðinni er ætlað að ábyrgjast á öðrum innlánsreikningum hér heima. Þegar er búið að borga 270 milljarða inn í bankana til að tryggja innistæðueigendum sínar fjárhæðir í peningamálasjóðunum.
Til viðbótar hef ég heyrt að þurfi 500 til 700 milljarða eigi að tryggja allar innistæður Íslenskra aðila í bönkunum hér heima. Þetta er ekki staðfest tala.
Þegar Geir Haarde bað Guð að blessa þjóðina lofaði hann því að ríkið myndi tryggja allar innistæður í Íslensku bönkunum, óháð fjárhæð. Þetta loforð er að kosta þjóðina með Icesave, peningamálasjóðunum og öllum öðrum innistæðum í bönkunum 1.500 til 2.000 milljarðar.
Ef þessari upphæð er deilt á 320.000 manns þá eru þetta fimm til sex milljónir á mann. Á hverja fjögurra manna fjölskyldu eru því að falla 20 til 24 milljónir.
Bretar eru að greiða út til Breskra fjármagnseigenda 4.461 milljarða króna. En Bretar eru jú sextíu milljón manna þjóð. Á hvern Breta eru þetta rúmar sjötíu þúsund krónur. Þar fyrir utan eru Bretar að tryggja á hverjum reikning ákveðið hámark sem nemur um 20 milljónir króna. Þeir tryggja ekki ótakmarkað á hverjum reikning eins og ætlunin er að láta okkur gera.
Það er því ólíku saman að jafna, þeim byrgðum sem eru að falla á Íslendinga annars vegar og Breta hinsvegar vegna þessa bankahruns. Um 70.000 kr. eru að lenda á hverjum Breta, 5.000.000 til 6.000.000 kr. á hverjum Íslending.
Getur þjóðin nokkurn tíma staðið við þetta loforð Geirs Haarde að þjóðin tryggji allar innistæður að fullu í bankakerfi sem var tíu sinnum stærra en þjóðarbúskapurinn, bankakerfi sem er allt gjaldþrota og fjárvana?
Af hverju erum við að taka á okkur ábyrgðir vegna þessar banka, hér heima og erlendis, sem eru langt út yfir lágmarkstryggingar skv. lögum og reglum Íslands og ESB?
Lámarks trygging per reikning skv lögum og reglur er 20.887 evrur eða um 3,5 milljónir. Er það ekki bara það sem við eigum að tryggja hér heima og erlendis?
Mynd: Við Skógarhóla, Þingvöllum.
![]() |
21 milljarður punda greiddur út vegna fallinna banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 2. ágúst 2009
Áfram Eva Joly.
Eva Joly á heiður skilið fyrir þessa grein sína sem hún birtir í nokkrum helstu blöðum Evrópu í dag. Frá því Egill Helgason kynnti fyrst Evu Joly fyrir okkur Íslendingum þá hefur tvennt gerst.
Annars vegar hefur hjá okkur sem enga von áttum, hjá okkur hefur vakað von. Von um að hér nái réttlætið fram að ganga. Án Evu Joly ættum við enga von í því gjörspillta samfélagi sem hér hefur verið afhjúpað síðustu misserin.
Hins vegar eru það sakamennirnir sem hryllir við og varðhundar þeirra, hinir ólíklegustu menn, hafa risið upp á afturlappirnar og gagrýnt öll hennar störf, orð og athafnir.
Nú þegar Eva Joly sýnir okkur Íslendingum hina hliðina á sér, þingmann Frakklands á Evrópuþinginu, þá spretta upp nýir gagnrýnendur á hreint ólíklegustu stöðum.
Ég segi, áfram Eva Joly.
Mynd: Snæfellsjökull í "náttlausri voraldar veröld".
![]() |
Hrannar sendir Joly tóninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 1. ágúst 2009
Á að tryggja innnlendar innistæður hér heima yfir 20.887 evrur?
Eva Joly kemur að kjarna málsins þegar hún bendir á að Icesave gengur út á það að láta Íslensku þjóðina tryggja innistæður í bönkum, hér heima og erlendis, langt út yfir lög og reglur.
Hollendingar ætla að ábyrgjast Icesave reikningana hjá sér upp að 100.000 evrum og Bretar að ég held upp að 150.000 pundum. Samkvæmt Icesave samningnum eiga þessar þjóðir að fá 50% af eignum Landsbankans til sín til að svo geti orðið. Þessar tryggingar Breta og Hollendinga á Icesace eru hrein viðbót við þær tryggingar sem okkur Íslendingum ber skylda að tryggja skv. Íslenskum lögum og reglum ESB, þ.e. 20.887 evrur per reikning.
Með öðrum orðum, eignir Landsbankans á að nota til að tryggja erlendum innistæðueigendum upphæðir langt umfram það sem Íslensk lög og reglur ESB gera ráð fyrir að Ísland eigi að ábyrgjast.
Ef bara væri verið að tala um að tryggja þessar 20.887 evrur per reikning og allar eignir Landsbankans væru notaðar í það þá væru væntanlega ekki að falla miklar ábyrgðir á okkur Íslendinga. Eignir bankans myndu sjálfsagt duga langt upp í það að greiða út 20.887 evrur per reikning. En samkvæmt Icesave samningnum fáum við bara 50% af eignum bankans til okkar. Bretar og Hollendingar fá 50% eigna bankans til sín og eins og samningurinn er þá munu falla 300 til 1000 milljarðar króna á þjóðina vegna þessa.
Af hverju Íslenska samninganefndin samþykkti að Bretar og Hollendingar eigi að fá 50% af eingnum Landsbankans skil ég ekki frekar en Eva Joly.
En Icesave samningurinn gengur ekki bara út að gera upp við Breta og Hollendinga. Hann gengur út á að Alþingi staðfesti loforð Geirs Haarde frá því í haust að allar innistæður hér heima væru að fullu tryggðar af ríkinu, óháð fjárhæð. Þar lofaði Geir upp í ermina á sér með ekkert umboð frá Alþingi og tóma banka á bak við sig.
Ef Icesave samningurinn verður ekki samþykktur og samið upp á ný þar sem Ísland ábyrgist bara þessar 20.887 evrur per reikning þá er líklegt að allar innistæður yfir 20.887 evrum sé tapað fé. Það gildir þá jafnt um innistæður Íslenskra aðila sem erlendra.
Sjá nánar bloggfærslu mína um þetta mál frá í gær, Í átökunum um Icesave endurspeglast örvænting innlendra fjármagnseigenda.
![]() |
Stöndum ekki undir skuldabyrði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 31. júlí 2009
Í átökunum um Icesave endurspeglast örvænting innlendra fjármagnseigenda
Í átökunum um Icesvae endurspeglast örvænting þeirra Íslendinga sem eiga fé frosið fast inni í bankakerfinu. Þegar Geir Haarde bað Guð að blessa þjóðina síðasta haust þá lofaði hann því að Íslenska þjóðin myndi ábyrgjast að fullu allar innistæður í Íslenska bankakerfinu, þó svo Íslenska bankakerfið hafi þá verið tíu sinnum stærra en Íslenska þjóðarbúið.
Margir Íslendingar eiga mikið undir því komið að Alþingi staðfesti þetta loforð Geirs Haarde með því að samþykkja Icesave.
Um leið og búið er að samþykkja Icesave þá anda allir þeir Íslendingar sem eiga fé inni í Íslensku bönkunum léttar. Þeirra fé er þá líka tryggt, óháð upphæð þó að ekki sé til króna í bönkunum í dag til að endurgreiða þeim þetta fé. Nú stendur til að endurfjármagna bankana með fé sem ríkið tekur að láni en nýju bankarnir þurfa líka að borga þrotabúum gömlu bankana þær eignir sem þeir hafa yfirtekið.
Ekkert fé er því til í bönkunum í dag til að greiða Íslenskum fjármagnseigendum það fé sem þeir eiga þar inni. Samþykki Alþingi hins vegar Icesave þá vita þeir að Íslenska þjóðin verður skattlögð út í eitt til að þeir endurheimti sitt fé.
Hafni Alþingi hinsvegar Icesave samningnum þá skapast hjá þessum aðilum mikil óvissa. Verði samið um Icesave upp á nýtt og ríkið ábyrgist bara þessar 20.887 evrur þá mun það sama væntanlega yfir Íslenskar og erlendar kennitölur ganga. Margir Íslenskir aðilar sem telja sig eiga mikið fé inni í bönkunum, þeir munu þá tapa miklu fé.
Þess vegna eru það svo margir hér heima sem vildu keyra Icesave nánast umræðulaust í gegnum þingið og að þingmenn fengju sem minnst af gögnum um málið. Þetta átti bara að samþykkja.
Icesave samningurinn gengur nefnilega ekki bara út að gera upp við Breta og Hollendinga. Hann gengur út á að Alþingi staðfesti loforð Geirs Haarde frá því í haust að allar innistæður hér heima væru að fullu tryggðar af ríkinu, óháð fjárhæð. Þar lofaði Geir upp í ermina á sér með ekkert umboð frá Alþingi og tóma banka á bak við sig.
Margir þeirra sem nú berjast sem harðast fyrir því að þjóðin samþykki Icesave eiga tugi ef ekki hundruð milljóna frysta inni í bönkunum. Hvernig var t.d. með ráðuneytisstjórann fyrrverandi í fjármálaráðuneytinu? Seldi hann ekki hlutabréf sín í Landsbankanum tveim dögum fyrir hrun fyrir 130 milljónir? Hvar ætli það fé sé geymt? Á bankabók? Ef Alþingi staðfestir ekki Icesave og þar með loforð Geirs þá getur ráðuneytisstjórinn átt von á því að tapa því öllu nema sem svarar 20.887 evrum sem gera um 3,5 milljón.
Eiga menn eins og Indriði H Þorláksson og Svavar Gestsson háar fjárhæðir frosnar inni í bönkunum? Hvað með "sérfræðingana" í Seðlabankanum sem eru einu aðilarnir á Íslandi sem fullyrða að þjóðin geti borgað Icesvase og gefa sér ótrúlegar forsendur eins og að það fáist 75% upp í eignir Landsbankans, eiga þeir háar fjárhæðir bundnar þarna inni?
Venjulegu fólki ofbýður eðlilega þessi Icesave gjörningur allur og lái það þeim hver sem vill. Mér finnst ekki ganga upp að láta þjóðina, aðallega börnin okkar, ábyrgjast að fullu innistæður í bankakerfi sem var tíu sinnum stærra en landsframleiðslan. Það sér það hver sanngjarn maður.
Menn verða að fara að horfast í augu við það að Íslenskir innistæðueigendur, eins og þeir erlendu, munu tapa miklu fé á þessu bankahruni. Þar á meðal lífeyrissjóðir, sveitarfélög, góðgerðarfélög, fyrirtæki og einstaklingar.
Valið stendur milli þess að skuldsetja þjóðin og börnin okkar upp í rjáfur næsta aldarfjórðunginn samhliða verulegri lífskjararýrnun með því að samþykkja Icesave eða láta þessa fjármagnseigendur taka skellinn og tryggja öllum, Íslendingum sem og útlendingum, eingöngu lámarksfjárhæðina sem Alþingi samþykkti með lögum frá 1999 að yrði tryggð, þ.e. 20.887 evrur per kennitölu.
Hér stendur valið milli tveggja slæmra kosta eins og oft vill verða þegar svona er komið.
Ég veit hvora leiðina ég myndi velja, ég myndi setja næstu kynslóð í forsæti og senda hana inn í framtíðina skuldlausa en ekki með skuldaklafa á herðunum og taka slaginn við þessa fjármagnseigendur.
Mynd: Eftir harða baráttu á bökkum Grenlækjar.
![]() |
Icesave tefur endurskoðun AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 30. júlí 2009
Seðlabankinn mun sólunda þessu fé og þjóðin mun sitja uppi með skuldina.
Þetta lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum upp á 4,5 milljarðar USD, eða sem samsvarar nærri 700 milljörðum ÍKR, á ekki að nota til annars en leggja það inn á banka í USA og borga af því vexti. Þessa peninga á ekki að nota í neina uppbyggingu hér heima. Þetta fé á eingöngu að nota sem gjaldeyrisvarasjóð.
Fram til ársins 2001 höfðum við áratugum saman um 7 milljarða í gjaldeyrisvarasjóð, eða sem svarar gjaldeyri til að kaupa aðföng til landsins í þrjá mánuði.
Hvaða yfirskot er þetta að fara nú að hundraðfalda gjaldeyrisforðann? Ef 7 milljarðar dugðu vel áratugum saman af hverju þarf allt í einu 700 milljarða nú þegar öll erlend bankastarfsemi í landinu er hætt?
Við það að taka þetta lán þá erum við að auka skuldir ríkisins um 50% af vergri landsframleiðslu. Við það mun lánshæfismat ríkisins lækka og afleiðingar þess verða að erfiðara verður fyrir ríkið og alla hér á landi að fá lán auk þess sem vextir á þeim lánum sem fást á komandi árum verða hærri.
Ég held því miður að þessi ákvörðun um þessa 700 milljarða sé enn eitt bullið sem ákveðið var á "strandstað" í haust þegar skipstjórinn og áhöfn hans vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Það hefði kannski verið skynsemi að vera með slíkan gjaldeyrisvarasjóð misserin fyrir kerfishrun en hver er tilgangurinn sem slíkum sjóði nú?
Ég fyrir mitt leyti yrði guðs lifandi feginn ef þetta lán yrði ekki tekið. Ég hef enga trú á að þetta lán breyti neinu um gengi krónunnar. Áhættan sem við erum að taka með þessu láni er hins vegar gríðarleg. Allar líkur eru á að Seðlabankinn eyði þessu fé í tilgangslausa baráttu við að verja krónuna. Saga Argentínu mun endurtaka sig hér þegar í Argentínu 10 milljarðar USD hurfu þar á einum degi. Ef við tökum þetta lán þá mun ekkert breytast annað en þetta fé hverfur og þessir 700 milljarðar munu bætast ofaná skattana okkar á komandi árum.
Það eina sem við vitum með vissu er að við getum ekki treyst Seðlabankanum fyrir þessu fé. Eftir að þeir lánuðu 350 milljarða í fyrrasumar án veða inn í gjaldþrota bankakerfi og settu 270 milljarða í peningamálasjóði þeirra strax eftir hrun, þá er alveg ljóst að bankinn mun sóa þessum 700 milljörðum. Þetta fé mun gufa upp í höndunum á þeim. Þess vegna er betra að þjóðin taki ekki þetta lán. Þó einn nýr maður hafi komið inn í Seðlabankann frá því i kerfishruninu þá sitja allir hinir snillingarnir þarna ennþá.
Til hvers í óskupunum erum við að taka þetta lán? Af hverju þarf svona svakalegan gjaldeyrisvarasjóð þegar öll erlend bankastarfsemi er hætt hér á landi? Við eigum í dag gjaldeyrisvarasjóð sem er töluvert meira en sem svarar þriggja mánaða innflutningi, er það ekki bara nóg?
![]() |
Afgreiðslu AGS frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 29. júlí 2009
Orkusala og rekstur orkufyrirtækja óráðsía og rugl?
Hreint ótrúlegt var að lesa forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag um fjármálagjörninga álfyrirtækjana eftir frétt mbl.is í gær um taprekstur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja.
Ég veit satt að segja ekki yfir hvorri fréttinni mér leið verr þegar ég las þær.
Álfyrirtækin nýta sér í fulls og rúmlega það þessa sérstöku afsláttarsamninga sem þau hafa gert við ríkið og orkufyrirtækin. Álfyrirtækin hafa verið staðin að eftirfarandi:
- Í fyrsta lagi hafa þau verið að brjóta lög með því að kaupa íslenskar krónur á svarta markaðnum með þeim afleiðingum að gjaldeyrir skilar sér ekki sem skyldi hingað heim sem aftur veldur því að Íslenska krónan hefur ekki styrkst eins og væntingar stóðu til. Óbreytt veik króna er að kosta Íslensku þjóðina aukalega milljarða tugi mánaðarlega í hærra verði á innfluttum vörum og þar með verðbólgu, hærri afbogrunum af erlendum lánum o.s.frv. Þar fyrir utan þá er hér á meðan brunaútsala á öllu, tækjum, búnaði, fasteignum og fyrirtækjum fyrir þá sem eiga erlendan gjaldeyrir. Ótrúlegt er að þessi félög skuli ekki enn hafa verið kærð og sektuð fyrir þessi lögbrot.
- Í öðru lagi hafa álfyrirtækin skuldsett íslensk dótturfélög sín um hundruð milljarða eða sem nemur 40% af vergri landsframleiðslu, VLF. Þetta er miklu hærri fjárhæð en sem nemur verðmæti þessara fyrirtækja. Með því að skuldsetja þessi Íslensku dótturfélög álfyrirtækjanna með þessum hætti þá er verið að sökkva Íslensku þjóðinni í skuldir. Þessar skuldir munu verða þjóðinni dýrkeyptar. Fyrir það fyrsta þá þýðir þetta lægri matseinkunn þeirra fyrirtækja sem meta lánshæfi þjóðarbúsins. Lægri matseinkunn mun þýða hærri vexti. Þessar miklu skuldir Íslensku álveranna þýðir hærri vexti á öllum lánum sem við Íslendingar munum taka á komandi árum. Milljarða kostnaður mun falla á Íslensku þjóðina á komandi árum í formi hærri vaxta vegna þess að þessi dótturfélög álfyrirtækjana eru svona skuldum hlaðin. Maastricht skilyrðin fyrir upptöku evru gera ráð fyrir að skuldir nemi ekki meira en 60% af VLF. Með slíkri skuldsetningu álveranna, upp á 40% af VLF, þá verður aldrei tekin upp evra á Íslandi. Eru þetta aðilarnir sem eiga að ráða því?
- Í þriðja lagi eru ljóst að tilgangur skuldsetningar þessara Íslensku dótturfyrirtækja álfyrirtækjana er bara einn. Hann er sá að móðurfélagið er að mjólka dótturfélagið með himinháum vaxtagreiðslum. Þessi lán sem álfyrirtækin eru að lána Íslenskum dótturfélögunum sínum bera 8% til 17% vexti. Samkvæmt samningum álveranna við ríkið er vaxtakostnaður ekki skattlagður. Það má öllum vera ljóst að tilgangur þessarar gríðarlegur skuldsetningar er sá einn að komast hjá því að greiða skatta á Íslandi. Græðgin hefur hér að blindað menn.
Á sama tíma og álverin moka inn hagnaði með löglegri og ólöglegri starfsemi sinni hér á landi þá er Landsvirkjun rekin með tapi og hefur verið rekin með tapi eða á núllinu frá 1988 til 2006 skv. skýrslu sem Sjónarrönd ehf. vann fyrir fjármálaráðuneytið. Með tapi segi ég því í þessa samantekt vantar árin 2007, 2008 og 2009. Þessi þrjú ár eru mjög þung þar sem orkufyrirtækin fjárfestu gríðarlega á þessum árum, Kárahnjúkar, Hellisheiðarvirkjun o.s.frv. og álverð byrjaði að falla haustið 2007. Ef þessi ár eru tekin með þá er það mín spá að Íslensk orkufyrirtæki hafa frá 1988 til dagsins í dag verið rekin með gríðarlegu tapi.
Þó sú spá mín sé ekki rétt, þá er þessi niðurstaða sem nú liggur fyrir algjörlega óviðunandi. Þetta er mjög alvarlega niðurstaða. Það verður að endurskoða rekstur og verðlagningu þessara orkufyrirtækja frá grunni. Ljótt er að þessi félög skuli ekki hafa verið fær um að semja um sölu á raforku með lámarks arðsemissjónarmið að leiðarljósi.
Mér, hörðum virkjunar- og stóriðjusinna, blöskrar. Hvurslags aulaháttur er þetta?
Ég sé ekki nema eina leið út úr þessu. Það má ekki halda áfram að reka þessi orkufyrirtæki á núllinu eða með tapi. Það gengur ekki upp! Það verður að gera þá lámarks arðsemiskröfu að þau skili 5% til 10% hagnaði á ári. það er ljóst að því markmiði er ekki hægt að ná með óbreyttum samningum við álfyrirtækin.
Ef ég mætti ráða þá myndi ég rifta núverandi samningum við álverin. Þau hafa með framferði sínu eins og lýst er hér að framan í raun brotið sína samninga og fyrirgert sínum rétti. Reyndar fer að koma að endurnýjun sumra þessara raforkusamninga. Þá á ekki að endurnýja óbreytta. Álfyrirtækin eru að kosta og hafa kostað samfélagið gríðarlega fjármuni með framferði sínu. Riftum þessum samningum við álverin. Bjóðum þeim síðan nýjan og betri samning fyrir Ísland þar sem arðsemi orkufyrirtækjanna er tryggð, skuldir álfyrirtækjanna fara í burt og fyrirtækin borga eðlilega skatta. Ella mega þau taka sitt hafurtask og hverfa á brott með sín vélabrögð.
Nægir eru kaupendur að þessari raforku. Í hendi eru kaupendur á neytendamarkaði sem vilja kaupa hana í gegnum sæstreng, bæði fyrir vestan haf og austan, á hundraðföldu verði miðað við það sem þessi álver eru að greiða í dag.
![]() |
Lítil arðsemi af orkuvinnslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 28. júlí 2009
Að sætta sig ekki við lýðræðið.
Þeir eru sérstakir þessir "aðgerðarhópar" sem sprottið hafa upp víða um hinn vestræna heim á síðustu árum. Hópar sem sætta sig ekki við aðferðir lýðræðisins og hvernig þessi lýðræðisríki ráða ráðum sínum og hvernig þau stýra og stjórna sínum samfélögum.
Þetta fólk vill ekki viðurkenna leikreglur lýðræðisins. Þetta fólk telur sig rétthærra en þeir sem byggja þessi samfélög. Þessu fólki finnst eðlilegt að krefjast þess að það fái að ráða meiru en aðrir. Það vill ekki taka þátt á þeim vettvangi þar sem lýðræðisríkin ákveða eftir hvaða straumum og stefnum unnið er eftir.
Þetta fólk vill ekki taka þátt í lýðræðinu. Það vill ekki taka þátt í flokkspólitísku starfi, framboðum til Alþingis og sveitarstjórna og reyna með þeim hætti að vinna málstað sínum fylgi og hafa áhrif á gang mála. Og "Nota Bene", allir flokkar standa þessu fólki opnir.
Nei, þetta fólk heimtar að fá að ráða og gefur skít og skömm í þúsund ára gamla þinghefð okkar Íslendinga. Á Alþingi höfum við "í sátt og samlindi" ráðið ráðum okkar frá því land byggðist. Þar ræður einfaldur meirihluti og minnihlutinn í hverju máli verður að sætta sig við ákvörðun meirihlutans, hversu ósammála sem menn í minnihlutanum á hverjum tíma annars kunna að vera. Þannig hefur þetta gengið í þúsund ár og þannig eigum við að láta þetta ganga næstu þúsund árin.
Þetta fólk sem fer hér um landið og lokar stofnunum og fyrirtækjum, það er að gefa þessum hefðum okkar fingurinn.
Við eigum að standa vörð um okkar þingræðishefð og okkar lýðræði. Þeir einstaklingar sem ekki virða okkar þingræðishefð og okkar lýðræði, á því fólki ber að taka af fullri hörku. Látum ekki svona "aðgerðarhópa" eyðileggja samfélag okkar.
Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.
![]() |
Lokuðu skrifstofum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook