Föstudagur, 20. mars 2009
Arðgreiðslur til Simma - léttmeti fyrir helgina í boði BYR.
Eigandi Söluturns Simma greiddi sjálfum sér arð af rekstri félagsins á síðasta ári, tíu milljarða króna, þrátt fyrir að söluturninn hafi ekki skilað nema fimm þúsund króna hagnaði.
"Þetta var nú bara tala sem ég áætlaði. Ég var ekkert að reikna þetta í drep. Ég hafði rosalega góða tilfinningu fyrir rekstrinum, var með margar mjög sterkar spólur í leigu, Spætermann þrjú og svona - þannig að ég ákvað bara að tríta mig aðeins" segir Simmi en viðurkennir um leið að hann hafi aðeins farið fram úr sér.
"Ég vona bara að stjórnvöld sýni þessu skilning og komi með pening inn í reksturinn. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að halda þessum litlu vídeóleigum gangandi."
Fékk þetta sent í pósti til mín.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 20. mars 2009
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn notar stýrivexti sem refsivönd á fyrirtæki og almenning.
Frá því í október hefur öllum verið ljóst að það er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, AGS, sem ákvarðar stýrivexti á Íslandi. Að vera með stýrivexti í 17% eða 18% á mesta samdráttarskeiði frá stríðslokum er óskiljanlegt. Enn furðulegra þegar hér eru gjaldeyrishöft og engin getur flutt fé úr landi án sérstakrar heimildar. Þeir sem eiga fé á Íslandi verða því að geyma það á Íslandi. Þeir sem eiga fé, þeir geyma það annað hvort undir koddanum eða í bankanum. Hvort stýrivextir eru 7% eða 17% breytir engu þar um.
Í febrúar þegar Seðlabankinn vildi lækka stýrivexti þá kom AGS í veg fyrir það. Sú ákvörðun hafði ekkert með ástand efnahagsmála að gera. Pólitískar ástæður sögðu þeir.
Þegar stýrivextir eru 17% til 18% þá eru vextir bankana með álagi 22% til 28%. Enginn rekstur stendur undir slíku vaxtaokri. Á annað ár hafði Seðlabankinn mergsogið almenning og fyrirtækin í landinu. Nú hefur AGS tekið við og bætt um betur.
Markmiðið með þessari vaxtastefnu er ljós. AGS ætlar sér að ná inn í bankakerfið eins mikið af fé og hann mögulega getur. Hann ætlar að hirða eins mikið af fé af einstaklingum og fyrirtækjum á Íslandi og hægt er og koma því inn í bankana. Sannið til, stýrivextir fara ekki undir 12% til 14% á þessu ári né á því næsta. Allt þetta er til þess að Seðlabankinn geti borgað vexti af lánunum til þeirra.
Almenningur og fyrirtækin í landinu eru meðsek í því ráni sem bankarnir, eigendur þeirra og útrásarvíkingarnir frömdu hjá þeim þjóðum sem standa á bak við AGS. Þessar þjóðir eru að tapa á okkur a.m.k fimmtán þúsund milljörðum. Látum okkur ekki dreyma um að þessar þjóðir ætli sér ekki að refsa okkur fyrir það. Enda eru við meðsek. Við erum þjófsnautar í augum þessa fólks. Við leyfðum þessum mönnum að ræna ekkjur og vandalausa niðri í Evrópu með gylliboðum um háa ávöxtun á innlánsreikningum sem gat aldrei gengið upp. Við nutum ávaxtanna í formi hárra skatttekna sem þessir bankar skiluðu inn í ríkissjóð þessi fáu ár. Við þögðum og nú er komið að skuldadögunum
Refsivöndurinn bítur fast þessa dagana og svo mun verða áfram. Afleiðingarnar eru gjaldþrot og atvinnuleysi. Þessi refsing á eftir að verða okkur dýrkeypt en hún á líka eftir að verða okkur lesning.
Nú þarf réttlæti og nú þarf að snúa vörn í sókn.
Mynd, hús veiðivarða í Veiðivötnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 19. mars 2009
"Strákarnir okkar" góðir á móti Makedóníu.
Þeir stóðu sig vel ungu leikmennirnir í handboltalandsliðinu okkar sem spilaði á móti Makedóníu í gærkveldi. Það vekur góðar vonir um að næsta áratuginn verði framhald á þeirri hefð að við Íslendingar eigum eitt af betri haldknattleiksliðum heims.
Silfurverðlaunahafarnir frá Ólympíuleikunum sem spiluðu í leiknum sýndu að það er engin tilviljun að þeir eru silfurverðlaunahafar.
![]() |
Guðmundur Þórður: Frábær frammistaða allra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 18. mars 2009
Gríðarleg vonbrigði að ekki var skipað faglegt bankaráð yfir Seðlabankanum.
Að lesa um skipun þessa fólks í bankaráð Seðlabankans urðu mér mikil vonbrigði. Ég var svo grunnhygginn að halda, eftir allt sem á undan hefur gengið, að stjórnvöld myndu skipa fagfólk í bankaráð Seðlabankans.
Að skipa fólk í bankaráð Seðlabankans sem hefur ekki gripsvit á bankastarfsemi er á þessum tímum bara skelfilegt.
Af hverju voru ekki öll sæti bankaráðsins fyllt af sérfræðingum sem þekkja til reksturs Seðlabanka, sérfræðingum í alþjóðlegri fjármálastarfsemi og sérfræðingum um bankastarfsemi almennt? Nóg er til að slíku fólki.
Af hverju er á þessum tímum ekki leitað til erlendra óháðra sérfræðinga, tveggja eða þriggja og þeim boðin seta í stjórn bankans?
Hvað hefur stjórnmálamaður á áttræðisaldri sem hætti fyrir áratug í pólitík fram að færa í bankaráði Seðlabankans í dag? Er hann ekki vel kominn með sín eftirlaun og hægt að fá sérfræðing, helst erlendan í hans stað?
Þessi skipun í bankráðið veldur miklum vonbrigðum á sama hátt og skipan í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Fátt hefur breyst hjá þingmönnum okkar þó allt hafi breyst í samfélaginu. Stjórnarasetu í þessum stjórnum er úthlutað eins og kjötbeinum til vina og vandamanna eins og ávallt áður.
Algjörlega vanhæfar pólitískt skipaðar stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hrökkluðust frá völdum fyrir nokkrum vikum. Þrjár kynslóðir Íslendinga þarf til að borga skaðann sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið ollu undir stjórn þessara manna.
Ný ríkisstjórn hefur ekkert lært og skipar á ný pólitískt bankaráð yfir Seðlabankanum og Fjármáleftirlitinu. Helreið okkar Íslendinga ætlar engan endi að taka. Búið er að ráða nýja reiðmenn til starfans, alla af sama sauðahúsi og þeir sem fyrir voru. Reiðlagið verður það sama, ekkert hefur breyst og helreiðin mun halda áfram.
Þetta eru gríðarleg vonbrigði.
Mynd frá Snjóölduvatni, Veiðivötnum
![]() |
Nýtt bankaráð Seðlabankans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.3.2009 kl. 00:18 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 16. mars 2009
Milljónatjón er gæðingur fótbrotnar og knapi slasast á hættulegum reiðstíg í Mosfellsbæ.
Um miðjan dag á laugardaginn fór ég í reiðtúr með Kristjáni bróður mínum frá hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ og út að Blikastaðanesi. Út á Blikastaðanes liggur nýlegur reiðstígur sem Mosfellsbær lagði fyrir um tveim árum. Þetta er vinsæl reiðleið meðal hestamanna sem halda hesta sína í þessu hesthúsahverfi og er hún mikið farin.
Síðasta laugardag gengu yfir landið hlýindi með mikilli rigningu. Á miðri leið út á nes missti klárinn sem ég var á annan afturfótinn niður í gegnum mölina á reiðstígnum. Við vorum þá að fara yfir ræsi og héldum kannski að það væri að renna úr ræsinu í þeim vatnavöxtum sem var í öllum smálækjarsprænum þennan dag. Við hægðum því á för okkar þegar við fórum yfir önnur ræsi sem urðu á okkar leið. Þegar við vorum komnir lang leiðina út á nes þá fælist við hesturinn sem ég var með í taumi, en ég reið fremst, og um leið sé ég að klárinn sem Kristján teymdi hleypur á harða stökki fram hjá mér.
Ég snéri við og sé hvar Kristján stendur á stígnum og horfir á vinstri framfót á reiðhesti sínum. Hesturinn hélt upp framfætinum en fóturinn dinglaði laus tíu sentímetrum fyrir ofan hnéð. Fóturinn hafði kubbast í sundur. Knapi og hestur voru allir ataðir út í sandi og möl. Ég sá seinna að það var möl ofaná hnakknum.
Það sem gerst hafði var það sama og gerst hafið fyrir klárinn minn fyrr í ferðinni en hér hafði afturfóturinn ekki farið niður í gegnum mölina heldur annar framfóturinn. Skipti engum togum að hesturinn fellur niður að framan, kubbar í sundur á sér framfótinn og knapi og hestur fara kollhnís. Kristján taldi að hann að væri með brotið hné eða hefði slitið þar öll krossbönd.
Guði sé lof fyrir GSM símana. Hjálpsamir hestamenn úr hesthúsahverfinu voru mættir innan stundar og dýralæknir. Sá upplýsti að þetta væri ekki fyrsta slysið sem hefði orðið á þessum stað. Fyrir ári síðan þá urðu knapi og hestur fyrir því sama einmitt þarna. Hesturinn fótbrotnaði ekki en hann heltist samt það illa að hann náði sér ekki og það varð að fella hann.
Nú er komið í ljós að Kristján er minna skaddaður á hné en haldið var í fyrstu, samt illa meiddur.
Mikið lán var að hann slasaðist ekki verr. Mikill gæðingur er fallinn.
Nýr reiðstígur á hreint frábærri leið, sem liggur rétt ofan við fjöruna í Leirvoginum út á Blikastaðanes er dauðagildra í leysingum og rigningartíð. Þessari reiðleið verður að loka þegar þannig viðrar þar til búið er að styrkja og laga þennan reiðstíg. Ef ekki, þá verða þarna fleiri slys og það mun enda með því að þessi stígur, réttnefndur "Leggjabrjótur", verður ekki bara hestum að fjörtjóni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.3.2009 kl. 15:42 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 15. mars 2009
Neitar fjármálaeftirlitið að afhenda embætti sérstaks saksóknara gögn og ber við bankaleynd?
Í viðtali við Norska sjónvarpið sem sýnt var áðan í þættinum hjá Agli Helgasyni þá var ekki annað að skilja á Eva Joly en að Fjármálaeftirlitið, FME, neiti að afhenda embætti sérstaks saksóknara nauðsynleg gögn þannig að rannsókn geti hafist. Ber FME við bankaleynd.
Áður hefur komið fram að Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur ekkert að gera. Þeim hefur aðeins borist eitt smámál til rannsóknar. Þeirra hlutverk er að rannsaka þau mál sem FME sendir þeim. Þeir bíða og eru búnir að bíða í fimm mánuði eftir að eitthvað komi frá FME.
Í FME sitja allir sömu starfsmenn og þar voru starfandi í aðdraganda bankahrunsins. Þegar forstjóri FME var rekinn þá tók aðstoðarforstjórinn við forstjórastöðunni.
Allar líkur eru á því að eftirlitsaðilar hafi brugðist mjög illa í aðdraganda bankahrunsins. Ásakanir þessa efnis hafa hljómað hátt hér heima og erlendis. Þá er sérstaklega horft til FME.
Eins og ég skil stöðu mála þá er staðan sú að FME er að rannsaka sjálft sig.
Er það þess vegna sem ekkert fréttist og ekkert virðist vera að gerst í þessum málum? Er þetta ástaða þess að Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefur aðeins fengið eitt smámál til rannsóknar?
Það er grafalvarlegt mál ef þetta er rétt hjá Evu Joly að embætti sérstaks saksóknara fái ekki aðgang að þeim gögnum sem embættið þarf á að halda til að geta unnið að sínum rannsóknum.
Það vakna fjölmargar spurningar af hverju FME vill ekki afhenda þessi gögn.
Nú er nýbúið að skipa nýja stjórn yfir FME. Er þessi nýja stjórn FME sátt við þessa afstöðu starfsmanna FEM?
Myndin hér að ofan er tekin við Litlasjó, Veiðivötnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 14. mars 2009
Bankarnir líklega brotið lög.
"Eva Joly segir að miklar líkur séu á að stjórnendur íslensku bankana hafi gerst brotlegir við lög í starfsemi sinni. Hún lét þessi orð falla í vinsælum sjónvarpþætti í Noregi í gærkveldi. Um milljón Norðmenn horfa á þáttinn hverju sinni. Eva leggur til að fleiri erlendir sérfræðingar komi að rannsókninni og sagði það fáránlegt að bankaleynd hvíldi enn yfir gögnum frá bönkunum."
Ofangreind tilvitnun er tekin af vef ruv.
4% þjóðarinnar treystir bönkunum í dag skv. skoðunarkönnun sem birt var í síðustu viku. 96% þjóðarinnar treystir ekki bönkunum. Aðra eins falleinkunn hafa engar stofnanir eða fyrirtæki fengið áður á Íslandi.
Það verður að grípa til róttækra aðgerða með því að skipta út fólki í stjórnun þessara banka til þess að reyna að endurvekja traust á þessum nauðsynlegu stofnunum samfélagsins.
Það verður að endurvekja þetta traust svo fólk þori aftur að geyma peningana sína í bönkunum. Fjöldi fólks geymir peningana sína heima hjá sér og óttast að sjá þá aldrei framar setji það þetta fé sitt inni í bankana.
Á ekkert að gera til að reyna að endurvekja traust á bönkunum?
Þeir sem "líklega hafa brotið lög", er það til að auka traust á bönkunum að hafa þetta fólk áfram starfandi þar?
Ef ekkert verður gert þá er líklegt að þessi 4% þjóðarinnar, Alsheimer sjúklingar og fólk sem ekkert hefur fylgst með fréttum undanfarin ár, að það fólk verði einnig búið að átta sig á stöðunni og næsta skoðunarkönnun komi enn verr út fyrir bankana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 14. mars 2009
Hversdagshetja verðlaunuð

Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fá Sigríður Höskuldsdóttir fyrir þátttöku sína og dugnað við sölu á styrktarmiðum fyrir átakið "Karlmenn með krabbamein" og Krabbameinsfélagið fyrir þrotlaust starf sitt við baráttuna við þennan marbrotna og illvíga sjúkdóm.
![]() |
Ofursölustúlka verðlaunuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 13. mars 2009
Sjálfstæðismenn, veljum nýtt fólk til forystustarfa. Gefum fyrrverandi ráðherrum frí.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná árangri í komandi kosningum þá þurfum við stuðningsmenn flokksins að gera tvennt:
- Gefa öllum fyrrverandi ráðherrunum frí í þessu prófkjöri.
- Skipta um sem flesta í tveim efstu sætunum í öllum kjördæmum.
Nú horfir þjóðin til okkar stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og spyr hvernig við ætlum, eftir 18 ára stjórnarsetu, að axla okkar ábyrgð á þessu mesta efnahagshruni sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Ég skora á félaga mína í Sjálfstæðisflokknum sem ætla að kjósa í prófkjörinu nú um helgina að sýna þjóðinni að við stuðningsmennirnir ætlum að axla okkar ábyrgð með því að kalla núverandi trúnaðarmenn okkar til ábyrgðar.
Það gerum við með því að kalla nýtt fólk til forystustarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Leyfum sem flestum af núverandi þingmönnum okkar að fóta sig utan Alþingis á vinnumarkaðnum eins og hann er í dag. Leyfum þeim að finna á eigin skinni hvaða afleiðingar aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi hafa haft.
Fimmtudagur, 12. mars 2009
Rekum stjórnendur bankana frá útibústjórum og upp úr. Fyrr treystir enginn bönkunum.
Spillingin sem viðgengist hefur í bönkunum, hjá eigendum þeirra og stjórnendum virðist hafa verið mikil. Bankarnir hafa notað greiða og gjafir, lán og fyrirgreiðslur til að afla sér rekstrarfjár og viðskiptavina. Með greiðum og gjöfum, fyrirgreiðslum og lánum virðast þeir hafa náð heljatökum á okkar litla samfélagi.
Sukk og óráðssía virðast hafa stjórnað för þar sem fé bankana var sólundað. Með því að bjóða viðskiptavinum, stjórnmálamönnum, fréttamönnum og embættismönnum í veiðiferðir og fótboltaleiki erlendis og svo framvegis þá voru bankarnir að kaupa sér velvild. Að kaupa velvild er ekkert annað en mútur.
Sú dapurlega niðurstaðan blasir við að stærstu eigendur bankana sem sátu í bankaráðum og stjórnendur bankana sjálfra virðast hafa haft lítið ef nokkurt vit á bankarekstri.
Við stöndum nú frammi fyrir því að í bönkunum sitja nánast allir sömu stjórnendurnir og tóku þátt í að keyra þá og síðan samfélagið okkar í þrot. Sama máli gegnir með Fjármálaeftirlitið. Þar var forstjórinn rekinn en aðstoðarforstjórinn var látinn taka við og ekki hreyft við neinum starfsmanni þar inni. Þetta vanhæfa fólk er nú að rannsaka sinn eigin þátt í bankahruninu, eins gáfulega og það hljómar.
Quisling leiddi þjóðverja inn í Noreg og stjórnaði í þeirra nafni Noregi öll stríðsárin. Í lok stríðsins var hann tekinn til fanga, dæmdur til dauða og skotinn. Í framhaldinu eltu Norðmenn upp alla "Kvislinga", það er menn sem höfðu aðstoðað Quisling og þjóðverjana meðan á hernámi Noregs stóð. Þessa "Kvislinga" eltu Norðmenn uppi eftir stríð og drógu þá fyrir dóm eða drápu.
Á Íslandi eru eigendur bankana okkar "Quisling". Eva Joly og hennar lið mun vonandi elta þá upp. Við Íslendingar þurfum hins vegar að elta uppi okkar "Kvislinga", fólk sem aðstoðaði eigendur bankana við að féfletta þjóðina. Þessir "Íslensku Kvislingar", þeir sitja allir enn í sínum stöðum í bönkum landsins og í Fjármálaeftirlitinu. Það er óþolandi að þetta fólk sé enn að stjórna bönkunum okkar.
4% þjóðarinnar treystir bönkunum í dag. Það verður að taka á því máli.
Nú þegar allir bankar landsins eru orðnir ríkisbankar þá krefst ég þess að allir þeir sem sátu sem stjórnendur í þessum bönkum þegar bankahrunið varð, útibústjórar og upp úr, þeir verði reknir úr þessum störfum sínum fyrir þjóðina.
Á síðustu 2 til 7 árum var mjög miklu af okkar reyndasta bankafólkinu sagt upp störfum og skipt út fyrir ungt reynslulítið fólk. Þetta nýja fólk hefur verið sett í stjórnunarstöður sem það greinilega hefur ekkert ráðið við.
Endurráðum okkar reynda bankafólk og látum það stjórna þessum ríkisbönkum okkar og ráðum með því nýtt fólk til aðstoðar.
Fyrr næst engin sátt um bankana okkar. Það mun engin treysta bönkum með sama fólk þar við stjórnvölinn og leiddi bankana og þjóðina í þrot. Fólk sem tók þátt í öllu sukkinu og spillingunni, segjum því öllu upp störfum.
![]() |
Eigendur virðast hafa fengið há lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 11. mars 2009
Næst fram réttlæti eftir allt?
Eftir að hafa hlýtt á Evu Joly hjá Agli Helgasyni og lesið hér að hún er nú orðin ráðgjafi íslenskra yfirvalda varðandi rannsóknir á efnahagsbrotum þá kviknar allt í einu hjá mér von um að við náum kannski fram réttlæti eftir allt.
Eins og málum var háttað þá hafði ég enga von um að ætlunin væri að komast til botns í því sem hér átti sér stað. Þegar bankarnir féllu þá var það samdóma álit allra að það yrði að fá erlenda sérfræðinga til að rannsaka ástæður þess og hvort hugsanleg efnahagsbrot hefðu átt sér stað.
Í stað þess að ráða manneskju eins og Evu Joly í október í fyrra þá fékk þáverandi dómsmálaráðherra tvo feður, þá Valtý Sigurðsson og Boga Níslen til m.a. að rannsaka embættisfærslur sona sinna. Annar sonurinn var forstjóri Exista hf., hinn sonurinn yfirmaður lögfræðideildar FL Group hf. Feðurnir áttu síðan að gefa dómsmálaráðherra álit sitt á því hvort þörf væri á frekari rannsókn.
Ég hef aldrei orðið vitni að jafn blygðunarlausri tilraun til yfirhylmingar af hálfu stjórnsýslunnar. Þá missti ég alla von um að það væri ætlun stjórnvalda að rannsaka þessi mál af alvöru. Mér varð ljóst að þessum málum öllum átti að sópa undir teppi.
Nú vaknar hins vegar von hjá mér og væntanlega fleirum sem krefjast réttlætis.
![]() |
Gagnrýnir fámenna rannsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 10. mars 2009
Lög á bankana, starfsmenn þeirra og eigendur.
Í lögum flestra landa er að finna eftirfarandi lagaákvæði.
- Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
- Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
- Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
- Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
Ég skora á stjórnvöld að setja á bankana, starfsmenn þeirra og eigendur lög í líkingu við það sem hér er líst að ofan.
Óbreytt lagaumhverfi þar sem bankarnir eru sjálfir að gambla í kaupum á hótelum, byggingalóðum, fyrirtækjum og fasteignum er í raun fáránlegt.
Eins að stjórnendum bankana skuli vera heimilt að eiga fyrirtæki eða vera hluthafar í fyrirtækum sem eru í viðskiptum hjá þeim sjálfum. Að staðan skuli hafa verið þannig undanfarin ár og vera þannig enn að stjórnendur bankana hafi verið í aðstöðu til að útvega eigin fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í fyrirgreiðslu og lán er einnig fáránlegt.
Verst er þó að eigendum bankana skuli vera leyft að eiga í öðrum fyrirtækum. Við sjáum hvernig það endaði. Kaupþing lánaði fyrirtækum eigenda sinna 500 milljarða.
Ekki bara er núverandi ástand ávísun á sukk, spillingu og ógætilega meðhöndlun fjár heldur eru allar líkur á að núverandi ástand hindri samkeppni. Það hlýtur að vera tilhneiging hjá bönkunum, starfsmönnum og eigendum þeirra að veita ekki bara eigin fyrirtækum "sérstaka" fyrirgreiðslu heldur líka setja steina í götu samkeppnisaðilanna.
Setjum ströng en réttlát lög á bankana.
Komum í veg fyrir aðra helreið í boði bankana, starfsmanna þeirra og eigenda.
![]() |
Gylfi: Fleira kom til hjá Straumi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 9. mars 2009
Sjálfstæðismenn, kjósum nýtt fólk í efstu sætin í komandi prófkjörum um land allt.
Senn líður að prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná árangri í komandi kosningum þá þurfum við stuðningsmenn flokksins að gera tvennt:
- Skipta um forystumenn í öllum efstu sætum listans í öllum kjördæmum.
- Ekki bara kjósa nýjan formann á Landsfundi heldur einnig nýjan varaformann og ritara.
Nú horfir þjóðin til okkar landsfundarfulltrúa og stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og spyr hvernig við ætlum að axla okkar ábyrgð á þessu mesta efnahagshruni sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Ég skora á félaga mína í Sjálfstæðisflokknum sem ætla að kjósa í prófkjörum á næstunni að sýna þjóðinni að við stuðningsmennirnir ætlum að axla okkar ábyrgð með því að kalla þessa trúnaðarmenn okkar til ábyrgðar.
Það gerum við með því að velja nýtt fólk í allar helstu trúnaðarstöður í flokknum.
Kjósum nýtt fólk í efstu sætin í öllum kjördæmum í komandi prófkjörum. Nú er tíminn til að gefa nýju fólki tækifæri. Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða endurreisn Íslands með nýju fólki í forystu um land allt. Mikið af góðu fólki er að bjóða sig fram til forystustarfa fyrir flokkinn. Gefum þessu nýja fólki tækifæri.
Kippum þingmönnum flokksins út úr þinginu og leyfum þeim að fóta sig á vinnumarkaðnum eins og hann er í dag. Leyfum þessum þingmönnum að finna á eigin skinni hvaða afleiðingar aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi hafa haft.
Sunnudagur, 8. mars 2009
Rétt ákvörðun hjá formanni Samfylkingarinnar að segja af sér.

Ekki þarf þjóðin að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu þessa fólks. Þau hætta á réttum tíma til að tryggja sér lúxuskjör samkvæmt eftirlaunafrumvarpi Davíðs Oddssonar. Þau lenda ekki í þeim "hörmungum" að þurfa að þiggja eftirlaun eins og ótýndir menntaskólakennarar eins og verður hlutskipti þingmanna þegar nýja eftirlaunafrumvarpið hefur verður samþykkt.
![]() |
Ingibjörg Sólrún hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 8. mars 2009
Hvalfjarðargöngin án kampavíns
Þar sem umræður um Hvalfjarðargöngin ber upp með reglulegu millibili hér á blogginu mínu þá vil ég minna á eftirfarandi atriði sem ég var og er enn ósáttur við varðandi þessi jarðgöng.
Ég sá aldrei skynsemina í því hvar gögnunum var valin staður. Að velja Hnausaskersleiðina sem var dýrari kosturinn skildi ég aldrei. Ef Kiðafellsleiðin hefði verið valin hefðu göngin orðið kílómetri styttri og leiðin frá Reykjavíkur til Akureyrar hefði stytts um níu kílómetra. Af hverju vildu menn ekki ódýrari göng og styttingu leiðarinnar til Akureyrar?
Ég var heldur ekki sáttur við þá miklu áhættu sem var tekin með því að hefja gangnagerð undir fjörðinn án nauðsynlegra jarðtæknirannsókna. Aðeins var boruð ein rannsóknarhola í landi að sunnanverðu. Hvergi í heiminum hefur verið ráðist í jafn umfangsmikla framkvæmd á grundvelli jafn lítilla rannsókna. Vegagerðin hefur verið að skoða möguleika á því að þvera Kleppsvíkina með göngum. Þar er gert ráð fyrir að bora 15 til 20 rannsóknarholur á þeirri leið. Ég er sáttur við það. Þar er staðið rétt að undirbúningi. Hitt var bull.
Verktakar sem ætluðu að bjóða í Hvalfjarðargöngin á sínum tíma hættu við, töldu verkið og áhættusamt vegna þeirra takmörkuðu rannsókna sem lágu fyrir. Þessi mikla áhætta þýddi að þau tvö tilboð sem bárust voru mjög há. Sprengdur rúmeter í Hvalfjarðargöngunum var til dæmis 50% dýrari en rúmeterinn í aðrennslisgöngum Sultartangavirkjunar sem unnin voru á svipuðum tíma.
Að ekki sé minnst á þann gríðarlega fjármagnskostnað sem fallið hefur aukalega á þetta verk vegna þess að það er eignarlaust félag sem er eigandi þeirra og tekur öll lánin. Ef Vegagerðin hefði verið falin gerð gangana þá hefði þessi fámagnskostnaður verði minnst tvöfalt lægri. Vegagerðin/ríkið hefði fengið miklu hagstæðari lánakjör en hlutafélag sem var án ríkisábyrgðar að gera göng. Kostnaður almennings sem borgar þessi göng, hefði verið miklu lægri ef staðið hefði verið að gerð þeirra með hefðbundnum hætti og þau fjármögnuð gegnum fjárlög.
Þá skildi ég aldrei að gerð gangana væri kölluð einkaframkvæmd. Þegar Ríkið, Vegagerðin, sveitarfélögin í Hvalfirði og Sementsversmiðjan sem var 100% í eigu ríkisins stofna saman hlutafélag um að gera jarðgöng er það þá "einkaframkvæmd"? Ríkið lét síðan þetta félag sitt fá án útboðs einkarétt á þverun Hvalfjarðar og heimild til gjaldtöku að vild.
Rangar eru þær fullyrðingar að ríkið hafði ekki haft efni á að fjármagna þessi göng í gegnum fjárlög. Á þeim árum sem liðin eru frá gerð þessara ganga þá er ríkið búið eða er að gera fern önnur göng og í ofanálag borga upp allar sínar skuldir og fylla lífeyrissjóð opinberra starfsmanna af peningum. Sjóð sem átti að vera gegnumstreymissjóður. Nei, nægir peningar voru til og hafa verið til að fjármagna þessi göng með hefðbundnum hætti ef vilji hefði verið fyrir hendi.
Verst af öllu finnst mér þó að þarna skuli hafa verið hent út í ystu myrkur þeim gildum sem allar okkar framkvæmdir í vegagerð höfðu byggst á. Það að taka upp veggjald á þessum eina stað á öllu landinu er í algjörri andstöðu við allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður staðið fyrir í Íslenskri pólitík. Á grundvelli okkar gömlu gilda var innheimt gjald á eldsneyti og bíla. Því dýrari sem bíllinn var og því meir sem ekið var því meira er borgað í skatt. Þessar skatttekjur hafa verið það miklar að þær hafa einnig verið notaðar í annað. En á grundvelli þessa skattstofns og á grundvelli þess félagslega jafnréttis sem hér var í hávegum haft voru allar brýrnar yfir Svartá í Svarárdal byggðar. Einnig brúin yfir Jökulsá Austari að einum bæ, Merkigili. Sömuleiðis fjallvegurinn að fjórum bæjum á Rauðasandi fyrir Vestan. Öllum þessum gildum var fórnað þegar "Íslenski Thatcherisminn" var innleiddur í vegagerð á Íslandi. Ég hef frá upphafi hafnað þessum "Thatcherisma" og margir hafa hafnað mér vegna þess. Það verður svo að vera.
Það fellst mikið félagslegt ranglæti í því að skattleggja með þessum hætti einn landshluta umfram aðra. Slík mismunun er óþolandi. Þennan skatt átti aldrei að leggja á og þennan skatt á að fella niður strax. Þar eru siðblindir menn sem sjá ekki ranglæti í þessari gjaldtöku.
Þá leyfi ég mér að benda þeim sem áhuga hafa á að lesa meira um "Hvalfjarðargöngin án kampavíns" á annan stað hér á blogginu mínu þar sem þessi göng eru til umræðu og á gömlu heimasíðuna mín en þar er að finna þessar fimm greinar sem ég hef skrifað um málið.
http://fhg.blog.is/blog/fhg/entry/711516/
http://www.simnet.is/fhg/index_files/Page2550.htm
Myndin hér fyrir ofan er af ísbirni sem hangir inni í flugstöðinni í Kulusuk, Grænlandi. Hann var skotinn fyrir utan flugstöðina veturinn 1995 eftir að hafa brotið fjórðunginn af flugbrautarljósunum á flugvellinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 6. mars 2009
Eigendurnir "rændu" bankana og skuldsettu komandi kynslóðir um ókomin ár.
Þessar upplýsingar sem Morgunblaðið er að bera hér á borð staðfesta það sem marga hefur grunað frá því í bankahruninu í október. Eigendur bankana tæmdu þá innanfrá. Þessir eigendur og þeir starfsmenn bankana sem aðstoðuðu við þessi lán / millifærslur, þeir skilja þjóð sína eftir í botnausum skuldum sem þjóðin mun verða áratugum saman að vinna sig út úr. Það mun þurfa fleiri en eina kynslóð Íslendinga til að vinna sig út úr þessum skuldum.
- Banki í einkaeign, Landsbankinn, safnar á tveim árum yfir 1.000 milljörðum í útlöndum inn á innlánsreikninga sem Seðlabanki Íslands ábyrgist og þjóðin er ábekkingur. Hundruð milljarða munu falla á Íslensku þjóðina vegna þessa.
- Útgefendur Jöklabréfa koma með hundruð milljarða inn í landið og setja í ríkisskuldabréf og inn á innlánsreikninga sem ríkið ábyrgist og þjóðin er ábekkingur. Bankarnir töpuðu öllu þessu fé. Hundruð milljarða eru nú að falla á Íslensku þjóðina vegna þessara Jöklabréfa þegar útlendingarnir kalla nú eftir sínu fé, fé sem var geymt í ríkisskuldabréfum eða á reikningum sem voru með ábyrgð ríkisins.
- Fiskveiðiauðlindina er búið að skuldsetja fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar. Þessi auðlind er sameign þjóðarinnar og þjóðin er því í raun ábekkingur á þessum skuldum. Ef útgerðin og bankarnir fara í þrot en erlendir lánadrottnar eru með veð í veiðiheymildunum, þá verður þjóðin að yfirtaka og borga þær skuldir vilji hún nýta auðlindina.
Það er ótrúlegt að einakaðilum skuli hafa tekist að veðsetja þjóðina með þessum hætti.
Þeir menn sem þetta gerðu og þeir sem þetta heimiluðu eru ekki beint að reynast þjóð sinni vel. Þeir menn sem leyfðu sér að "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.
Þeir sem þetta gerðu hljóta að verða látnir axla ábyrgð.
Morgunblaðið fær Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fyrir að upplýsa þjóðina um þetta mál.
Myndin hér fyrir ofan er af ref uppi í Veiðivötnum með dauðan álftarunga.
![]() |
Lánuðu sjálfum sér milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.3.2009 kl. 15:36 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 6. mars 2009
Sjálfstæðismenn, kjósum nýtt fólk í efstu sætin í komandi prófkjörum um land allt.
Senn líður að prófkjörum í Sjálfstæðisflokknum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ná árangri í komandi kosningum þá þurfum við stuðningsmenn flokksins að gera tvennt:
- Skipta um forystumenn í öllum efstu sætum listans í öllum kjördæmum.
- Ekki bara kjósa nýjan formann á Landsfundi heldur einnig nýjan varaformann og ritara.
Forystumenn flokksins og þingmenn hans hafa leitt þjóðina inn í mesta efnahagshrun sem nokkur þjóð í Evrópu hefur mátt þola frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Nú horfir þjóðin til okkar landsfundarfulltrúa og stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og spyr hvernig við ætlum að axla okkar ábyrgð á þessu hruni. Á öllu þessu tapi og öllum þessum skuldum sem "okkar fólk" ber mikla ábyrgð á að hefur hvolfst yfir þjóðina.
Ég skora því á félaga mína sem ætla að taka þátt í prófkjörinu að sýna þjóðinni að við stuðningsmennirnir ætlum að axla okkar ábyrgð með því að kalla þessa trúnaðarmenn okkar til ábyrgðar.
Það gerum við með því að velja nýtt fólk í allar helstu trúnaðarstöður í flokknum.
Kjósum nýtt fólk í efstu sætin í öllum kjördæmum í komandi prófkjörum. Nú er tíminn til að gefa nýju fólki tækifæri. Sjálfstæðisflokkurinn á að leiða endurreisn Íslands með nýju fólki í forystu um land allt. Mikið af góðu fólki er að bjóða sig fram til forystustarfa fyrir flokkinn. Gefum þessu nýja fólki tækifæri.
Kippum þingmönnum flokksins út úr þinginu og leyfum þeim að fóta sig á vinnumarkaðnum eins og hann er í dag. Leyfum þessum þingmönnum að finna á eigin skinni hvaða afleiðingar aðgerðir þeirra og aðgerðarleysi hafa haft.
Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fá Björgunarsveitir landsins fyrir sitt mikla óeigingjarna starf í þágu lands og þjóðar og Það að vera alltaf til taks hvort sem er að nóttu til í ofsaveðrum eða að degi til eins og undanfarna daga við leit hér á Höfuðborgarsvæðinu.
![]() |
Deildu hart í þingsal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 5. mars 2009
Böðlar bankana blóðugir upp að öxlum, brosandi út að eyrum og Alþingi lítur undan.
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar "beina þeim tilmælum" til banka að þeir mildi innheimtuaðgerðir.
Fréttir berast hins vegar um samfélagið að þar sé í engu slakað á. Þvert á móti eru bankarnir að herða tökin. Þeir eru sem aldrei fyrr að hirða af fólki fasteignir og fyrirtæki. Þeir virðast láta sig það litlu varða hvað stjórnmálamennirnir eru að segja.
Þeir nota tækifærið nú til hins ýtrasta að féfletta almenning og reyna með öllum ráðum að ná til sín eins mikið af eignum og þeir geta áður en gengið styrkist of mikið. Nú sjá þeir tækifæri að ganga að viðskiptavinum sínum meðan bankakerfið er fjárvana af því að ríkið hefur enn ekki lagt inn í það þessar 385 milljarða og því hvergi neina fyrirgreiðslu að fá.
Böðlar bankana eru blóðugir upp að öxlum, brosandi út að eyrum og Alþingi lítur undan.
Þó bankastjórarnir hafi verið látnir fara hefur í engu verið hróflað við innviðum bankana. Í bönkunum er meira og minna allt sama fólkið að sýsla sem stjórnendur og millistjórnendur og var í bönkunum þegar þetta fólk sigldi samfélaginu okkar í strand. Ásamt bankastjórunum ber þetta fólk alla ábyrg á mesta bankahruni og í framhaldi efnahagshruni sem gengið hefur yfir land í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Nú er þetta fólk að ganga kerfisbundið að almenningi í landinu og er að svipta það fyrirtækum, fasteignum og bílum, öllu fémætu sem það kemur höndum sínum á í nafni bankana.
Eitthvað er búið að hreinsa út úr Kaupþingi en ég spyr á ekki að skipta út öllum stjórnendum í þessum bönkum? Eftir hverju er verið að bíða? Er tjónið sem þetta fólk hefur þegar valdið Íslenskri þjóð ekki þegar orðið nóg?
Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fær Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta. Stelpurnar okkar lögðu á Algarve-bikarmótinu eitt allra besta kvennalandslið heims í fótbolta undanfarinna ára, Norðmenn. Það eru svona sigrar sem blása okkur þjóðarstolt í brjóst og hvetja okkur öll til að takast af djörfung og dáð á við þau verkefni sem við erum að fást við hvert og eitt. Ef stelpurnar gátu þetta þá hljótum við að geta það líka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 4. mars 2009
Þingmenn koma á óvart, von kviknar hjá okkur byggingaköllunum!
Þessar fréttir gleðja hjörtu okkar í byggingariðnaðinum. Arkitektar, verkfræðingar og aðrir tæknimenn hringla þessa mánuðina inni á teiknistofunum sínum. Undanfarin ár sáu þessar starfstéttir ekki út úr augunum fyrir verkefnum. Á síðasta ári snarstoppaði byggingaiðnaðurinn. Vikurnar eftir bankahrunið var öllum verkefnum frestað eða þau slegin af. Opinberir aðilar fóru þar fremstir í flokki.
Ég hef á undanfönum mánuðum hitt menn sem hafa unnið alla æfi í byggingariðnaðinum, fimmtuga, sextuga iðnaðarmenn, málara, smiði og múrara. Margir þessara manna eru í fyrsta sinn á ævinni atvinnulausir. Það sem verra er það er ekkert framundan.
Mér finnst ótrúlegt að samfélagið skuli ætla að láta eina starfstétt, byggingaiðnaðinn, taka út afleiðingar bankahrunsins og að það skuli vera ein grein samféflagsins sem ríki og sveitarfélög sameinast um að skera niður við trog.
Ríkið og sveitarfélög ætluði að koma inn með framkvæmdir á þessum tíma þegar framkvæmdum við Kárahnjúka lyki. Hverjar eru efndirnar? Efndirnar eru þær að þegar framkvæmdum við Kárahnjúka lauk þá var sett á útboðsbann hjá hinu opinbera í stað þess að auka við framkvæmdir. Er þetta er það sem mínir menn í Sjálfstæðisflokknum kalla "sveiflujöfnun".
Hræðilegt var að heyra af þessum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem komu fram með þá hugmynd á Alþingi í gær að fresta hönnun og undirbúningi nýja hátæknisjúkrahússins. Er þessum mönnum ekki sjálfrátt? Af hverju vilja þeir setja fleiri hönnuði á atvinnuleysisbætur? Tveir milljarðar voru greiddir út um mánaðarmótin í atvinnuleysisbætur. Stór hluti af þessu fólki er úr byggingariðnaðinum. Af hverju eru þessir iðnaðarmenn ekki kallaðir til starfa og látnir byggja skóla, íþróttahús, sjúkrahús? Ef þessi menn eru látnir vinna 8 tímana þá er þetta ekkert svo mikið meiri kostnaður en að borga þeim atvinnuleysisbætur.
Í dag fær samfélagið ekkert fyrir þessa tvo milljarða sem voru greiddir út um helgina annað en "vandræði". Með því að setja byggingakallana í vinnu í stað þess að borga þeim atvinnuleysisbætur þá er verið að bæta við þjóðarauðinn, þeir skapa eignir sem þjóðin mun síðan njóta um ókomin ár. Og næg eru verkefnin.
Þó þessir ákveðnu Sjálfstæðismenn hafi einhverjar einkennilegar hugmyndir um hvernig eigi að taka á kreppunni og minnka atvinnuleysið í landinu þá hefur kviknað von hjá okkur byggingaköllunum. Ákvörðun um halda áfram byggingu tónlistarhúss, nokkur útboð í síðustu viku, m.a. stækkun stöðvarhúss Helisheiðarvirkjunar vekur trú og von um að á Alþingi og í stjórnsýslunni sé eitthvað verið að gera og að þar eru einhverjir að átta sig á því sem þarf að gera.
Þetta útspil efnahags- og skattanefndar slær mann svo kaldann. Það er bara snilld þetta frumvarp með þessum breytingum.
Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fær efnahags- og skattanefnd Alþingis vegna þeirra breytinga sem nefndin vill gera á tímabundinni endurgreiðslu virðisaukaskatts þannig að þessi breyting nái nú yfir miklu víðtækara svið, m.a vinnu hönnuða.
![]() |
Sátt um víðtækari endurgreiðslu VSK |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 2. mars 2009
Af hverju tók Íslandsbanki Moggann úr höndum eigendanna og seldi?

Af hverju var eigendum Morgunblaðsins ekki gefinn kostur á frystingu lána í eitt til tvö ár þar til krónan réttir úr kútnum og afborganir af erlendum lánum verða orðnar skaplegar? Af hverju mátti ekki afskrifa skuldir Árvakurs með óbreytt eignarhald? Af hverju þurfti að skipta um eigendur? Af hverju var ekki hægt að una þeim sem hafa lagt mikla vinnu og fé í að byggja upp fyrirtækið að eiga það áfram ef afskrifa átti skuldir? Hefði ekki verið hægt að minnka verulega þessar afskriftir ef lán hefðu verið fryst í eitt til tvö ár og fyrri eigendur haldið áfram að reka blaðið?
Er það krafa frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að öll fyrirtæki sem lenda í vandræðum með greiðslur af lánum skuli tekin úr höndum eigenda sinna og seld? Er það krafa frá ríkisstjórninni? Eru þetta vinnureglur sem starfsmenn bankana hafa búið sér til sjálfir? Þessara sömu starfsmanna og keyrðu þessa sömu banka í gjaldþrot og þjóðina í greiðsluþrot. Ætla bankarnir í framhaldi að ganga á röðina og taka samskonar "snúning" á öllum fyrirtækum landsins? Er markmið bankana enn það sama og það var þegar þeir voru í einkaeign, að féfletta viðskipavini sína?
Þessir bankar sem eru að hirða Moggann, þeir eru ástæða þess að Mogginn er í vandræðum með að borga af lánum sínum. Það eru bankarnir og eigandi þeirra ríkið sem bera alla ábyrgð á stöðu mála. Það eru bankarnir og eigandi þeirra ríkið sem keyrðu þjóðina í mesta bankagjaldþrot sem nokkur þjóð í Evrópu hefur staðið frammi fyrir frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Afleiðing þessa er gjaldeyriskreppa og verðfall krónunnar sem hækkað hefur öll erlend lán um 100%.
Ekkert af þessu er af völdum eða á ábyrgð eigenda Moggans. Þessar utanaðkomandi ástæður hafa valdið því að Mogginn og öll önnur fyrirtæki í landinu hafa átt í miklum erfiðleikum að borga af lánum sínum. 70% allra lána fyrirtæja í landinu eru erlend lán og þau hafa öll hækkað um 100%. Allar afborganir af þessum lánum hafa því hækkað um 100%.
Ég spyr hvað er í gangi? Er þetta meðferðin sem býður allar fyrirtækja í landinu sem ekki ná að standa í skilum? Ætla þeir sem unnið hafa mestu efnahagslegu skemmdarverk Íslandssögunnar, bankarnir og starfsmenn þeirra, að halda áfram í umboði ríkisins að valda enn meira tjóni? Sætta eigendur Moggans sig við þessa meðhöndlun?
Ég skora á ríkisstjórnina að sjá til þessa að bankarnir gefi fyrirtækjum í landinu greiðslufrest í eitt eða tvö ár á þeim lánum sem þau geta ekki staðið í skilum á. Gefið eigendum fyrirtækjanna í landinu tækifæri að til að lifa af þessar efnahagshamfarir. Að sleppa böðlum bankana lausum á þessi fyrirtæki eins og staðan er í dag er engum til hagsbóta. Ekki láta bankana auka tjónið í samfélaginu enn meir. Nóg er tjónið hér orðið samt.
Holtasóley dagsins frá Norræna Íhaldsflokknum fær Ásta Möller þingkona Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa beðið þjóð sína afsökunar í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins á því að hafa ekki staðið sig betur sem kjörinn fulltrúi, þegar bankakerfið stækkaði ört og að lokum hrundi.
![]() |
3 milljarðar sagðir afskrifaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.3.2009 kl. 00:24 | Slóð | Facebook