Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Góður fundur hjá Herði

Horfði á fundinn á Austurvelli á Stöð tvö. Þetta var fínn fundur.


mbl.is Þúsundir mótmæla á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalfjarðargöngin

Einn að þeim sem heimsótti bloggið mitt mynnti mig góðlátlega á skrif mín um Hvalfjarðargöngin hér á sínum tíma. Í framhaldi af því þá er rétt að ég á þessum nýja vettvangi sem „bloggheimurinn“ er minni á mína afstöðu. 

Ég sá aldrei skynsemina í því hvar gögnunum var valin staður. Að velja Hnausaskersleiðina sem var dýrari kosturinn skildi ég aldrei . Ef Kiðafellsleiðin hefði verið valin hefðu göngin orðið kílómetri styttri og leiðin frá Reykjavík til Akureyrar hefði stytts um níu kílómetra.  Ég var ekki heldur sáttur við þá miklu áhættu sem var tekin með því hefja gangnagerð undir fjörðinn án nauðsynlegra jarðtæknirannsókna. Aldrei skildi ég heldur að þessi framkvæmd væri kölluð einkavæðing. Það er ekki einkavæðing þegar opinberir aðilar eins og Ríkið, Vegagerðin, Sementsverksmiðjan (100% ríkisfyrirtæki) og sveitarfélögin í Hvalfirði stofna saman félag og láta það sjá um gerð ákveðins samgöngumannvirkis. Ríkið lét síðan þetta "opinbera" félag fá án útboðs einkarétt á þverun Hvalfjarðar og heimild til gjaldtölu að vild.  

Síst af öllu skildi ég þó og skil ekki enn af hverju menn samþykktu að þarna væri tekið upp veggjald. Gjald sem er í algjörri andstöðu við grundvallarhugmyndir okkar sem þjóðar og í algjörri andstöðu við allt sem við höfum hingað til gert í vegagerð. 

Það er sátt um það meðal þjóðarinnar að vegagerð skuli greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Fjármangið til vegagerðar er fengið með því að leggja gjald á bifreiðar og eldsneyti. Því dýrari sem bíllinn er og því meira sem þú eyðir af eldsneyti því meira borgar þú í skatt. Sanngjarnt og réttlátt.  

Þessi hugmyndafræði hefur verið hornsteinn uppbyggingar íslenska vegakerfisins. Á grundvelli þessarar hugmyndafræði þá var gengið í að tengja saman sveitir landsins og vegur skyldi lagður heim á hvern bóndabæ. Í þeim anda voru allar brýrnar yfir Svartá í Svartárdal í Austur Húnavatnssýslu byggðar og brúin yfir Jökulsá Austari að einum bæ, Merkigili, vegurinn niður á Rauðasand. Svona má áfram telja "dýrar" vegaframkvæmdir sem gerðar voru fyrir fáa en var samt ráðist í á grundvelli þess jafnréttis og jafnræðis sem hingað til hafði stjórnað gjörðum ríkisins. Þessum gömlu góðu gildum var hent út í ystu myrkur við gerð Hvalfjarðarganga og hugmyndafræði „íslenska Thatcherismanns“ innleidd í vegagerð á Íslandi.  

Ég hef frá upphafi hafnað þessum „Thatcherisma“. Ég vil að gömlu gildin ráði áfram för. Þjóðin er búin að hafna þessari hugmyndafræði. Þeir sem stóðu fyrir þessari gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum hafa verið gerðir afturreka með hana þegar þeir á undanförnum árum hafa verið að reyna að koma á slíkri gjaldtöku við önnur samgöngumannvirki. Þessi hugmyndafræði á ekki heima hér. Nóg borga landsmenn samt fyrir notkun á sínum bifreiðum. 

Rétt er líka að benda á að forystumennirnir í héraði sem stóðu að gerð þessara gangna röðuðu sér allir á spenana hjá Speli, eru þar ýmist í vinnu eða í stjórn. Almenningur er látin greiða laun þeirra með veggjaldinu.

Það er mikið félagslegt ranglæti falið í því að skattleggja með þessum hætti einn landshluta umfram aðra. Slík mismunun er óþolandi. Þetta veggjald átti aldrei að setja á og það á að fella það niður strax. Það eru siðblindir menn sem ekki sjá ranglætið í þessari gjaldtöku. 


Skagamenn góðir!

Það hefur löngum búið skynsamt fólk á Skaganum.


mbl.is Stjórnendur Seðlabankans víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landflóttinn hafinn

Þetta er skelfilegt. Nú erum við að byrja við að missa allt okkar áræðnasta fólk úr landi. Ekkert virðist vera í gangi hjá hinum opinbera nema meiri og meiri niðurskurður, nú síðast var verið að fresta framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun.

Ætla menn að sigla án nokkurrar viðspyrnu beint inn í Færeysku leiðina og missa heila kynslóð ungs barnafólks úr landi? Þið sem sitjið við stjórnvölinn, á ekkert að gera?????


mbl.is Kynna Íslendingum atvinnutækifæri erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gull- og gjaldeyrisforðinn hirtur upp í IceSave?

Fé sem kom inn á innlánsreikninga Kaupþings og Glitnis í Bretlandi var safnað inn á breska banka með breska kennitölu. Meðhöndlun fjár á þeim innlánsreikningum var skv. reglum breska Fjármálaeftirlitsins. Þess vegna ber breski Seðlabankinn ábyrgð á þeim reikningum og þar með breskur almenningur. Fé sem kom inn á IceSave reikninga Landsbankans og var lagt inn í útibú bankans hér heima, það fé var geymt í íslenskum banka með íslenskra kennitölu. Meðhöndlun fjár á þeim innlánsreikningum var því skv. reglum íslenska Fjármálaeftirlitsins. Þess vegna ber íslenski Seðlabankinn ábyrgð á þessum reikningum og þar með íslenskur almenningur.

Það fé sem safnað var hjá breskum almenningi og fór inn á IceSve reikninga Landsbankans er ekki horfið. Það liggur örugglega í einhverjum góðum veðum, fasteignum og fyrirtækjum. Vandamálið er hinsvegar að það þarf að greiða allt þetta fé út þessa dagana. Það er hræðilegt að þurfa að selja fasteignir og fyrirtæki í dag. Það verður heldur ekki auðvelt á næstu mánuðum Það verður bara gert með gríðarlegum afföllum. Bresk yfirvöld eru þar að auki búin að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi með hryðjuverkalögum. Þeir eru þessa dagana að selja „sjálfum sér“ þessar eignir á smáaura.  

Bretar gera ekki ráð fyrir að eignir Landsbankans dugi til að borga þessa innlánsreikninga upp í topp. Bretar hafa sagt og tilkynnt að þeir ætli að lána okkur Íslendingum hundruðir milljarða til að  greiða almenningi á Bretlandi út innistæður sínar að fullu. Íslensk stjórnvöld segjast ekki hafa beðið um þetta lán og vilji ekki taka það né ábyrgjast þessi bresku innlán að fullu. Íslendingar ætli að ábyrgjast lámarksupphæð skv. reglum EES/ESB og ekkert umfram það.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að ríkisstjórnin er búin að segjast ætla að ábyrgjast innistæður allra Íslendinga sem eru í íslensku bönkunum hér heima. Innistæður Breta í íslensku bönkunum hér heima á hinsvegar ekki að ábyrgjast að fullu. Munum við komast upp með slíka mismunum á grundvelli þjóðernis? Sumar innistæður í sama bankaútibúinu eru tryggðar að fullu, aðrar ekki. Ef dómstólar líða ekki slíka mismunum þá lenda allir þessir IceSave reikningar á íslenskum almenningi eins og Bretar krefjast. Það má heldur ekki gleyma að Bretar hafa hér töglin og hagldirnar.  

Gull- og gjaldeyrisforði íslenska Seðlabankans er geymdur í Seðlabanka Bretlands. Seðlabanki Bretlands sér einnig um alla seðlaprentun fyrir okkur. Við getum spriklað hér og sagst ekki vilja borga en gull- og gjaldeyrisforða okkar og fáum við örugglega ekki afhentan fyrr en búið er að gera upp IceSve reikningana. Gull- og gjaldeyrisforði okkar verður örugglega hirtur upp í þessa IceSve reikninga eins og þurfa þykir að mati Breta. Við Íslendingar getum svo eitt næstu árum í málaferli við Breta og reynt að sækja þetta fé.

Þess vegna eiga þeir sem bera ábyrgð á því að þjóðin var veðsett fyrir hundruð milljarða á tveim árum með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi að axla sína ábyrgð.  


mbl.is Vegið ómaklega að ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum einhliða upp evruna

Samkvæmt þessari frétt þá liggur málið ljóst fyrir. Við fáum ekki neina fyrirgreiðslu hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðunum fyrr en búið er að semja við Breta, Hollendinga og Þjóðverja og hvar annarstaðar Landsbankamenn söfnuðu erlendu sparifé inn á innlánsreikninga sem voru skráðir og geymdir á Íslandi.

Er þá um annað að ræða en taka einhliða upp evru? Tveir af okkar færustu hagfræðingum eru búnir að útfæra þessa leið. Sérfræðingurinn sem stóð fyrir einhliða upptöku evru í Svartfjallalandi er búinn að bjóðast til að koma og framkvæma með okkur sama gjörning hér. Við eigum að þiggja það boð hans.  Aðrir Íslenskir hagfræðingar sem tjáð hafa sig um þessa leið telja hana færa. Þetta sé bara pólitísk spurning.

Samningar við Breta verða með afarkostum enda búið að féfletta bresku þjóðina. Þeir samningar gætu tekið marga mánuði. Meðan blæðir Íslandi út.

Eru aðrir kostir í stöðunni?

Er þetta ekki leikurinn sem við eigum að leika. Er þetta ekki okkar  "gammbítur" í stöðunni eins og það heitir á skákmáli.

Hvað gera Bretar þá? Með þessum leik sláum við öll vopn úr höndum Breta. Þá getum við samið við þá eins og okkar hentar.


mbl.is Bretar segjast styðja lán IMF til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða nýju bankarnir líka gjalþrota

Spurningin sem ég velti fyrir mér þessa dagana snýst ekki um spillingu heldur hvað ætla trygginga- og vogunarsjóðirnir sem tryggðu lán til íslensku bankana að gera núna. Nánast ekkert fékkst fyrir bréf íslensku bankana á uppboðum nú í vikunni þannig að þeir sem tryggðu lánin til þeirra þurfa að greiða þau upp. Vogunarsjóðirnir eru þessa dagana að borga út 7,5 milljarða evra til banka sem lánuðu íslensku bönkunum.

Þessir vogunarsjóðir eiga þar með öll lán sem gömlu bankarnir tóku og þar með eiga vogunarsjóðirnir allar eignir gömlu bankana. Þessir vogunarsjóðir eru í dag hinir eiginlegu lánadrottnar gömlu bankana. Er þetta ekki þannig? Þar með eiga þessir vogunarsjóðir væntalnega lánið frá gamla Kaupþingi sem hvílir á skrifstofunni þar sem ég vinn. Má ekki ætla að vogunarsjóðirnir reyni nú að lámarka sitt tjón og reyni að fá sem mest út úr þessum eignum sínum, þ.e. eignum gömlu bankana.

Nú mun reyna á hvort kennitöluflakk íslenska ríkisins gengur upp. Nú mun reyna á hvort nýju bönkunum tekst að halda þeim eignum sem þeir eru búnir að festa sér og hvort vogunarsjóðirnir samþykki yfirtökuverð þessara eigna. Og Nota Bene það yfirtökuverð á eftir að greiða.

Vogunarsjóðir eru ekki lánastofnanir. Þeir vilja væntanlega fá lánið sem hvílir á skrifstofunni þar sem ég vinn greitt upp nú fyrir jól. Nýja Kaupþing þarf þá væntanlega að greiða þeim það lán upp ætli nýja Kaupþing að yfirtaka það. Nýja Kaupþing þarf því að endurfjármagna þetta lán nú fyrir jól ætli þeir að eiga þetta lán. Sama hlýtur að gilda um öll lán sem nýju bankarnir hafa yfirtekið.

Ef þetta er rétt ályktað hjá mér hvað gerist ef ekki nást samningar milli nýja Kaupþings og þessara vogunarsjóða um þetta lán? Ef nýja Kaupþing getur ekki keypt upp lánið á skrifstofunni af vogunarsjóðunum hvað gerist þá? Munu vogunarsjóðirnir gjaldfella lánið og í framhaldinu hirða skrifstofuna á uppboði?  Hvernig vinna lögfræðideildir þessara vogunarsjóða? Ekki veit ég það en ég óttast að það verði ekkert gefið eftir af þeirra hálfu og þeir munu einskis látið ófreistað að gera sér eins mikinn mat úr þessum eignum eins og þeir geta.

Ég held þetta bankamál sé rétt að byrja. Ég held menn labbi ekkert út úr 10 milljarða þrotabúi og hirða út úr því þær eignir sem mönnum langar í og skilji skuldirnar eftir. Ég óttast kröfur og hugsanlegar lögsóknir vogunarsjóðanna sem eiga í dag skuldir og þar með eignir gömlu bankanna. Ég myndi ekki þora að kaupa hlutafé í þessum nýju bönkum næstu árin.

Við vitum ekkert nema þessir nýju bankar verið allir komnir í þrot innan árs. Það fer allt eftir hvernig staðið var að kennitöluflakkinu og hvort þeir geti fjármagnað þær eignir sem þeir eru búnir að yfirtaka. Framhaldið ræðst nú af því hvernig þessir vogunarsjóðir og lögfræðideildir þeirra vinna.

Nú vil ég taka það fram að ég ekki mesti sérfræðingur í heimi á þessu sviði. Ég sit hér og er eins og fleiri að reyna að giska á hvert framhald verður á þessum hörmungum sem yfir okkur eru að ganga. Svona blasir þetta hins vegar við mér og þetta er mín greining á stöðu mála. 


mbl.is Kjörumhverfi fyrir spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að lögreglunni stjórna góðir menn

Ég var að vona að mótmælin þróuðust ekki út í það að menn færu að grýta opinberar byggingar. Á stundum eins og þessum þá er það gott að það skuli vera rólegir og yfirvegaðir menn sem stjórna lögreglunni. Annars gætu svona mótmæli þróast út í slagsmál og átök.

Mitt hól í dag er til lögreglunnar. Þeir eru flottir að hafa ekki hleypt þessu upp í tóma vitleysu. Megi þeir bera gæfu til að halda næstu mótmælafundum á sömu nótunum á komandi vikum.


mbl.is Geir Jón: Lítið má út af bregða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytið líka lögum um gjaldþrot einstaklinga

Það er gleðilegt að nú sé verið að færa lög um ábyrgðarmenn að því sem gerist í nágrannalöndunum. Þó auðvita hefði átt að vera búið að þessu fyrir löngu þá eiga þessir þingmenn heiður skilinn sem að þessu standa.

Annað brýnt mál er að færa lög um gjaldþrot einstaklinga í átt til þess sem gerist á Norðurlöndunum. Í Danmörku fyrnast persónuleg gjaldþrot einstaklinga á 5 árum. Að fimm árum liðnum geta Danir aftur farið að taka þátt í samfélaginu. Þeir geta þá eins og annað fólk farið að eignast persónulega hluti eins og  bíla, íbúð, hús o.s.frv.

Á Íslandi er í dag persónulegt gjaldþrot lífstíðardómur. Dæmi eru um fólk sem árum og jafnvel áratugum saman hefur ekki geta keypt svo mikið sem mótorhjól í eigin nafni. Auðvelt er að „vakta“ einstaklinga og ef þeir eru skráðir fyrir einhverjum eignum þá koma gömlu lánadrottnarnir og hirða eignirnar upp í gamlar skuldir. Að bjóða fólki sem lendir í þeim hörmungum að missa allt sitt upp á slíkan lífstíðardóm í framhaldinu er ein sú mesta mannvonska sem er að finna í íslenskum lögum.

Því miður blasir við hrina persónulegar gjaldþrota á næstu missirum vegna kreppunnar sem er að hvolfast yfir samfélagið. Ástands sem þetta fólk sem er að fara að missa allt sitt ber enga ábyrgð á.

Ég skora á þessa ágætu þingmenn sem sýndu það góða frumkvæði að leggja fram þessar löngu tímabæru breytingar á lögum um ábyrgðarmenn að láta hér ekki staðar numið heldur halda áfram og gangast fyrir endurskoðun laga um gjaldþrot einstaklinga.

Áskorun:

Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon, Pétur H. Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðni Ágústsson og Ágúst Ólafur Ágústsson. Breytið lögum um gjaldþrot einstaklinga til samræmis við dönsku lögin og látið persónuleg gjaldþrot fyrnast á fimm árum. Það er miklum meira en næg refsing.


mbl.is Frumvarp um ábyrgðarmenn lagt fyrir Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum að koma okkur upp eigin her

Nú er talið að verulegar olíuauðlindir séu á landgrunni Íslands fyrir norðaustan land, á Drekasvæðinu. Fyrsta spurningin sem við hljótum að velta fyrir okkar er; fáum við þessi smáþjóð sem skuldum tíu til fimmtán þúsund milljarða króna í útlöndum sem mun að stærstum hluta falla á okkar nágranna, fáum við að nýta slíkar olíuauðlindir án íhlutunar þessara sömu nágranna?

Ég held ekki. Allavega ekki í dag. Ef við ætlum að sitja ein á slíkum auðlindum verðum við þá ekki að gera tvennt:

Í fyrsta lagi að trygga réttarstöðu okkar enn frekar með því að ganga inn í ESB og gerast hluti af þeirri efnahagsheild.

Í öðru lagi að koma okkur upp eigin heimavarnaliði / her í sama anda og Norðmenn, Danir og Svíar. Verðum við ekki að fara að verja sama hlutfalli af þjóðarframleiðslu í slíkt heimavarnarlið og hinar norðurlandaþjóðirnar gera. Verðum við ekki að stefna að því að vera í stakk búin eftir tíu til fimmtán ár að geta sjálf sinnt öryggisgæslu í okkar eigin efnahagslögsögu með skipum og flugvélum, þe. "patrólað" sjálf okkar eigin svæði.

Þær þjóðir sem við höfum samið við að sinni öryggisgæslu í efnahagslögsögu Íslands, þessar þjóðir geta og munu hugsanlega eftir einhverja áratugi gera tilkall til nýtingar á þessum svæðum "með okkur", á svæði sem þær gæta og hafa "patrólað" árum saman "fyrir okkur". Er það ekki þannig sem alþjólegu réttarreglurnar eru? Menn vinna sér smá saman rétt á því svæði sem þeir "patróla" og eru  með viðbúnað á. Er það ekki þannig sem Norðmenn hafa náð undir sig öllu svæðinu hér fyrir norðan land. Nú eru þeir aðal mennirnir að „patróla“ efnahagslögsögu Íslands. Hvað rétt gefur það þeim eftir nokkra áratugi? Þeir eru allavega þegar farnir að líta á lögsögu Íslands sem hluta af sínu yfirráðasvæði.

Við verðum að fara að horfast í augu við þá ábyrgð að vera sjálfstæð fullvalda þjóð en ekki leppríki USA eins og verið hefur hingað til. Eins og fram kom við umsókn okkar um sæti í Öryggisráðinu þá eru margar þjóðir sem líta í raun ekki á okkur sem sjálfstæða fullvalda þjóð þar sem við höfum engan her. Að þeirra mati hefur slík þjóð ekkert að gera í Öryggisráðið. Með öðrum orðum, stór hluti heimsins lítur ekki á herlausa þjóð sem sjálfstæða fullvalda þjóð. Ef við ætlum að vera sjálfstæð fullvalda þjóð þá verðum við að koma okkur upp heimavarnarliði / her þannig að það erum við sem sinnum öryggisgæslu á okkar svæðum. Þessi her þarf ekkert endilega að vera mikill að vöxtum eða fjölmennur en hann þarf að vera til staðar. Þá getur enginn á komandi áratugum tekið frá okkur þær auðlindirnar sem í efnahagslögsögu okkar kunna að leynast.

 

 


mbl.is Stjórnvöld afþakki loftrýmiseftirlit Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband