Breytið líka lögum um gjaldþrot einstaklinga

Það er gleðilegt að nú sé verið að færa lög um ábyrgðarmenn að því sem gerist í nágrannalöndunum. Þó auðvita hefði átt að vera búið að þessu fyrir löngu þá eiga þessir þingmenn heiður skilinn sem að þessu standa.

Annað brýnt mál er að færa lög um gjaldþrot einstaklinga í átt til þess sem gerist á Norðurlöndunum. Í Danmörku fyrnast persónuleg gjaldþrot einstaklinga á 5 árum. Að fimm árum liðnum geta Danir aftur farið að taka þátt í samfélaginu. Þeir geta þá eins og annað fólk farið að eignast persónulega hluti eins og  bíla, íbúð, hús o.s.frv.

Á Íslandi er í dag persónulegt gjaldþrot lífstíðardómur. Dæmi eru um fólk sem árum og jafnvel áratugum saman hefur ekki geta keypt svo mikið sem mótorhjól í eigin nafni. Auðvelt er að „vakta“ einstaklinga og ef þeir eru skráðir fyrir einhverjum eignum þá koma gömlu lánadrottnarnir og hirða eignirnar upp í gamlar skuldir. Að bjóða fólki sem lendir í þeim hörmungum að missa allt sitt upp á slíkan lífstíðardóm í framhaldinu er ein sú mesta mannvonska sem er að finna í íslenskum lögum.

Því miður blasir við hrina persónulegar gjaldþrota á næstu missirum vegna kreppunnar sem er að hvolfast yfir samfélagið. Ástands sem þetta fólk sem er að fara að missa allt sitt ber enga ábyrgð á.

Ég skora á þessa ágætu þingmenn sem sýndu það góða frumkvæði að leggja fram þessar löngu tímabæru breytingar á lögum um ábyrgðarmenn að láta hér ekki staðar numið heldur halda áfram og gangast fyrir endurskoðun laga um gjaldþrot einstaklinga.

Áskorun:

Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon, Pétur H. Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðni Ágústsson og Ágúst Ólafur Ágústsson. Breytið lögum um gjaldþrot einstaklinga til samræmis við dönsku lögin og látið persónuleg gjaldþrot fyrnast á fimm árum. Það er miklum meira en næg refsing.


mbl.is Frumvarp um ábyrgðarmenn lagt fyrir Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Eru einhverjir fógeta embætti enn á Íslandi?

Hélt það væri bara sýslumenn, bæjarstjórar og lögregluembætti. 

Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 22:13

2 Smámynd: corvus corax

Lögtakshæfar skuldir fyrnast á 4 árum. Ég held því að skattaskuldir fyrnist á fjórum árum frá því að síðast var greitt inn á þær. Hvert skipti sem greitt er af skuld byrjar nýr fyrningarfrestur að líða.
Almennur fyrningafrestur kröfuréttinda (skulda) er 4 ár, en kröfur samkvæmt skuldabréfi og kröfur sem skráðar hafa verið með rafrænni skráningu í verðbréfamiðstöð fyrnast á 10 árum. Þessar upplýsingar eru úr lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150, 20. desember 2007.

corvus corax, 6.11.2008 kl. 22:32

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir upplýsingarnar corvus, en þá er ég með hugmynd að leið til að núllstilla þjóðfélagið: Að sameiginleg ákvörðun verði tekin um að lögfræðingar og innheimtumenn verði allir með tölu lýstir gjaldþrota umsvifalaust, en þá verður enginn eftir sem heldur áfram að rukka okkur hin. Þá hættum við einfaldlega að borga og lýsum okkur öll gjaldþrota samtímis, setjum okkur svo bara í hungurstellingar og notum skömmtunarmiða eða whatever í þennan fjögurra ára fyrningartíma. Að þeim tíma liðnum hafa skuldir heimilanna hafa þurrkast út á einu bretti og allir eru stikkfrí, "...við munum ekki borga skuldir þessara óreiðumanna...", né heldur "leggja skuldaklafa á komandi kynslóðir". Að þessum tíma liðnum þegar fólk byrjar að skríða út úr gjaldþroti getur uppbyggingin hafist að nýju, en þetta er álíka langt og eitt kjörtímabil og við yrðum svo sannarlega "öll í sama bátnum"... ekki satt?


Guðmundur Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 23:12

4 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Bankalán fyrnast á enn lengri tíma.  Kannið það. Hinn venjulegi maður þarf að fá réttmæta meðferð.  Þeir sem minna skulda þurfa alltaf að borga í topp og þeir sem meira skulda geta hlaupið frá því.  Munið Hafskips málið!

Já styð breytingu á gjaldþrotalögum einstaklinga.

Kolbrún Jónsdóttir, 7.11.2008 kl. 02:29

5 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Góður pistill. Gott að einhver tekur þetta upp!

Baldur Gautur Baldursson, 7.11.2008 kl. 09:43

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband