Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað ætlar ríkistjórn Íslands að gera?

Við erum að sjá ríkisstjórnir um allan heim reyna að örvar hjá sér atvinnulífið með því að setja inn fjármagn til atvinnuuppbyggingar. Ríkistjórn Íslands kynnti nú í vikunni aðgerðaráætlun sína. Þá var skýrt tekið fram að ríkissjóður ætlar ekki að leggja neitt af mörkum. Ef ég skildi þetta útspil ríkistjórnarinnar rétt þá er það ætlun hennar að það verði sjóðir launafólks, þ.e. lífeyrissjóðirnir sem eiga að bera hitann og þungann af aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar. Engar fjárhæðir voru hins vegar nefndar í þessu sambandi þannig að engin veit hvað þessi aðgerðarpakki þýðir í raun. Var og er þessi aðgerðaráætlun bara enn ein froðan?

Misjafnt hafast menn að. Svíar grípa nú til sinna ráða þó ástandið þar sé ekki nærri eins alvarlegt og hér. Þar er ríkisstjórnin að setja inn mikið fjármagn til að örva sitt atvinnulífið.

Hvaða fjárhæðir erum við að tala um að sett verið inn í atvinnulífið á Íslandi í sama tilgangi?

Ætlar ríkissjóður virkilega ekkert að koma að þessu máli?

 


mbl.is 128 milljarðar í atvinnulífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott framtak hjá Félagi viðskipta- og hagfræðinga

Þetta er gott og þarft framtak hjá Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Vonandi að stjórnvöld taki tillit til niðurstöðu þessarar vinnuráðstefnu og fari að láta verkin tala.  

Ég tek heils hugar undir þessar niðurstöður og mér virðist allir sem um þessi mál fjalla að raunsæi og án tilfinninga komast að sömu niðurstöðu, inn í ESB og tökum upp evru.

Atvinnulífið er að hrynja, það verður að fara í gang einhver aðgerðaráætlun eins og hér er bent á.


mbl.is Viðskipta- og hagfræðingar afhenda stjórnvöldum tillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vargfuglum hleypt inn í bankana

Sjötíu prósent allra lána sem Íslensk fyrirtæki hafa tekið eru í erlendri mynt. Þessi lán hafa á einu ári hækkað vel yfir 100%. Þar með hafa mánaðarlegar afborganir af þeim hækkað vel yfir 100%. Vel rekin og góð fyrirtæki er nú í vandræðum vegna aukinnar greiðslubyrgði af þessum erlendu lánum ásamt því að þurfa að takast á við samdrátt og gjaldeyrishöft. Mörg eru þetta góð fyrirtæki sem eigendur eru búnir að byggja upp og setja í mikið eigið fé. Mörg ef ekki flest  fyrirtækja landsins þurfa nú að leita til banka til að fá fyrirgreiðslu í þessu óeðlilega og einkennilega efnahagsástandi.

   

Ekki má búast við að móttökurnar sem þessi fyrirtæki fá í nýju ríkisbönkum verði beint glæsilegar miðað við yfirlýsingar forystumanna ríkisstjórnarinnar á fréttamannafundinum þar sem aðgerðarpakki til fyrirtækjanna var kynntur. Þar kemur meðal annars fram:

 

 „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir að reglurnar verði að vera skýrar og að allir eigi aðgang að bönkunum hafi þeir áhuga á að kaupa fyrirtæki í fjárhagskröggum. Slá verði á tortryggnina.“  

 

Ljóst er að þau fyrirtæki sem þurfa á fjárhagslegri fyrirgreiðslu nýju bankana að halda mega búast við að missa fyrirtækin sín hafi einhver áhuga á að kaupa þau. Allt það eigið fé sem í þessum fyrirtækum liggur eiga „Vargfuglarnir“ í Íslensku viðskiptalífi að fá að kaupa. Er ríkið að fara að standa fyrir stærstu brunaútsölu Íslandssögunnar á fyrirtækum og fasteignum undir því yfirskini að það verði að „slá á tortryggnina“.

Ég spyr, af hverju eiga „allir að hafa aðgang að bönkunum hafi þeir áhuga á að kaupa fyrirtæki í fjárhagskröggum“? Þessi fyrirtæki eru í fjárhagskröggum vegna mjög sérstaks ástands sem er til komið vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu sem margfölduð var upp hér heima með heimatilbúinni bankakreppu sem er ein sú mesta sem yfir eitt land hefur riðið. Ekki nóg með það heldur er hér einnig heimatilbúinn gjaldeyriskreppa til komin vegna rangrar stefnu í gengismálum þar sem stjórnvöld hafa í hreinu rugli verið að halda úti séríslenskum gjaldeyri sem landið hefur enga burði til að verja.

   

Vegna þess ástands sem upp er komið í efnahagsmálum þjóðarinnar eru 70% til 80% Íslenskra fyrirtækja tæknilega gjaldþrota. Á það jafnt við um opinber fyrirtæki sem einkafyrirtæki. Í þessu mjög svo sérstaka ástandi þá ætlar ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að „allir eigi að hafa aðgang að bönkunum hafi þeir áhuga á að kaupa fyrirtæki í fjárhagskröggum“.

   

Ljóst er að eigendur að „fyrirtækjum í fjárhagskröggum“ geta ekki boðið hátt verð í fyrirtækin sín, annars væru þau ekki í fjárhagskröggum. Það verður auðvelt fyrir þá sem eiga eitthvert fé að kaupa slík fyrirtæki og þar með húsnæði þeirra, lóðir, lendur og rekstur fyrir lítið fé á þeirri brunaútsölu sem ríkisstjórnin virðist vera að að efna til. Með þessari ráðstöfun að bjóða þriðja aðila að kaupa þessi fyrirtæki í stað þess að vinna að lausn með núverandi eigendum þá er verið að fjölga mjög fórnarlömbum „Íslenska efnahagshrunsins“. Ætlar ríkistjórnin að „bjarga fyrirtækum“ landsins með þá stefnu að leiðarljósi að gera þá ríku ríkari. Ein mesta eignaupptaka Íslandssögunnar er væntanlega í uppsiglingu.

   

Ég held því miður að hér sé verið að stíga enn eitt ógæfusporið á þeirri ógæfubraut sem Íslensk samfélag hefur fetað undanfarin misseri.

 

mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að lögreglunni stjórna góðir menn.

Það kom mér bæði á óvart og ekki að mótmælendur ruddust inn í Seðlabankann. Það er ljóst að mikill hiti er í fólki og það er reitt.  

Enn og aftur reynir á lögregluna okkar. Auðvita geta þeir tekið á þessu af hörku og rekið alla út með látum. Hættan er þá sú að þetta stigmagnist og þegar næstu mótmæli verða þá mæta mótmælendur undirbúnir og átök þeirra við lögreglu verði harðari og harðari. Slíkt mun gera erfiða og þunga stöðu mótmælenda og lögreglu enn verri. 

Þess vegna segi ég enn og aftur, það er gott að lögreglunni stjórna góðir menn.

 


mbl.is Reynt að fá fólk út með góðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirbúningur álvers á Bakka heldur áfram.

Við hljótum að fagna þessari frétt. Það er vel að Skipulagsstofnun sendi frá sér jákvæða frétt eins og þessa nú þegar björgunaraðgerðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru að hefjast. Það er gott að vita til þess að verið er að vinna á fullu að undirbúningi álversins á Bakka. Ekki mun veita af á næstu misserum að fá innspýtingu eins og þetta álver inn í samfélagið.

Ég vil að stefnt sé að því að við höldum áfram að nýta okkar orkuauðlindir þar til við náum því markmiði að tryggt sé að vöruskiptajöfnuður við útlönd verði okkur alltaf hagstæður næsta aldarfjórðunginn. Þegar við erum búin að ná því markmiði þá getum við hægt á, ekki fyrr. 

Fréttir berast utan úr heimi að sjálfri „lausafjárkreppunni“ sé lokið. Nóg var og er til af peningum, vandinn var að enginn þorði að lána þá. Búið er að leysa það vandamál með aðkomu Seðlabankana á millibankamarkaði. Hlutabréf eru hætt að vera í frjálsu falli. Þau hafa lækkað gríðarlega, það fall er hætt og eru þau nú að rokka upp og niður. Botninum þar er vonandi náð. Ríkistjórnir um allan heim og Seðlabankar þeirra eru með sameiginlegu átaki að vinna úr afleiðingum þessarar fjármálakreppu. Fyrirséður er samdráttur en ekki hrun. 

Líkur eru því til þess að áframhald verði á þeim verkefnum sem var verið að skipuleggja. Nú þarf gengið að jafna sig og þá verða Orkuveitan og Landsnet aftur trúverðugir lántakendur. 

Við erum örfá sem byggjum þetta landi. Það þarf ekki mikið til að koma öllu í gang aftur. Með sameiginlegu átaki stjórnvalda, samtaka launþega og atvinnulífs og með þátttöku lífeyrissjóðanna á okkur að vera í lófa lagið að koma hjólum atvinnulífsins aftur á fulla ferð. Ég vildi sjá nýju bankana og lífeyrissjóðina lána til verkefnanna í Helguvík og Húsavík. Eins til orkufyrirtækjanna okkar. Allt eru þetta arðbærar framkvæmdir og bráðnauðsynlegar nú til að skapa vinnu og tekjur.

 


mbl.is Geri grein fyrir orkuþörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafa forseta ASÍ um uppstokkun sanngjörn.

Ég er sammála forseta ASÍ. Það er mikil reiði í samfélaginu vegna hruns bankana. Öllum er ljóst í dag að gjaldþrot bankana var óumflýjanlegt og hefði orðið óháð hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. Seðlabanki Íslands gat aldrei staðið einn sem lánveitandi til þrautavara og varið íslenska bankakerfið fyrirséðum árásum. Öllum er ljóst í dag að Danske Bank og margir aðrir sem bentu þegar 2006 á að íslensku bankarnir stefndu beint í gjaldþrot höfðu rétt fyrir sér. Frá 2006 og fram á haust 2008 voru fjölmargir sem bentu á hættuna á gjaldþroti bankana.  

Margir hafa bent á leiðir sem hægt hefði verið að fara til að koma í veg fyrir þetta hrun. Ein leiðin var að skipta bönkunum í tvennt og erlendi hluti bankana fluttur úr landi þannig að Seðlabanki Íslands bæri bara ábyrgð á innlenda hlutanum. Önnur leið ef menn vildu halda bönkunum hér heima og fá af þeim skatttekjur var að ganga í ESB. Seðlabanki Evrópu væri þá lánveitandi þeirra til þrautavara. Hvorug þessara leiða var valin. Svo virðist sem ekkert hafi verið gert til að afstýra gjaldþroti bankana, nema menn rifu kjaft við þá sem voru í vinsemd að benda á hætturnar.

Stjórnvöld og bankarnir virðast ekkert hafa gert til að vernda hagsmuni íslensku þjóðarinnar ef til slíkra gjaldþrota kæmi. Þjóðar sem bankarnir voru meðal annars búnir veðsetja fyrir þúsund milljarða í gegnum þessa IceSave reikninga.

Bylgja óánægju og reiði breiðist nú yfir samfélagið af meiri þunga en við höfum nokkurn tíma sé hér á landi. Stjórnvöld, stjórnsýslan og bankarnir virðast vera búnir að slá skjaldborg hver um annan og eru samtaka í því að engan skal draga til ábyrgðar fyrir þetta mesta efnahagshrun Íslandssögunnar. Hrun sem sannanlega er heimatilbúið og er af mannavöldum.

Það er rangt mat hjá forsætisráðherra ef hann heldur að stjórnin og stjórnsýslan komist upp með að kalla enga til ábyrgðar í þessu máli. Til þess er þetta mál of stórt, tjón almennings of mikið.

Tillögur forseta ASÍ að þessir tveir ráðherrar fari og stokkað upp hjá Seðlabanka og FME er einfaldlega endurómun kröfu launafólks um land allt. Ef þessi uppstokkun fer fram þá vænti ég þess að ASÍ forystan treysti sér til að róa sitt fólk og sátt geti skapast í samfélaginu. Þá getur forysta ASÍ í framhaldinu farið í það nauðsynlega uppbyggingarstarf sem þarf að fara í gang með ríkisstjórninni og Samtökum atvinnulífsins.

Það er mín trú að það verði mjög erfitt fyrir fulltrúa launafólks í landinu að ganga til slíks samstarfs og hugsanlega leggja fjármuni lífeyrissjóðanna inn í slíka uppbyggingu verði engar breytingar gerðar í þeim hópi sem bera faglega og pólitíska ábyrgð á þessu hruni með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.


mbl.is Undrandi á forseta ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar eiga sjálfir að kynna svona uppsagnir.

Til hvers eru vikulegir fréttamannafundir stjórnvalda ef ekki til að kynna áform sem þessi? 

Lítilmannlegt er af þeim ráðherrum sem taka þessar ákvarðanir að greina ekki frá þeim sjálfir. Fréttir af uppsögnum og niðurskurði í þjónustu hins opinbera eru látnar "leka" til fjölmiðla í gegnum forstöðumenn stofnana eins og engin hafi í raun tekið þessar ákvarðanir og engin beri á þeim pólitíska ábyrgð.

Ég geri þær kröfur til þeirra sem taka ákvarðanir sem þessar að þeir hafi manndóm í sér til þess að kynna þær sjálfir.

Jafnframt skora ég á forstöðumenn ríkisstofnana að þeir neiti að láta nota sig í að kynna slíkan niðurskurð. Láið þá ráðherra sem þessar ákvarðanir taka sjálfa kynna þær.

 

 


mbl.is HSS segir upp fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið sýnir styrk sinn og samstöðu

Í þessari frétt kristallast tilgangur myntbandalagsins og sameiginlegrar fjármálastjórn ríkja Evrópu.

Sannast hér enn á ný hið fornkveðna:

Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum við.


mbl.is ESB undirbýr 130 milljarða evra björgunarpakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg frétt af aflabrögðum

Eftir stanslaus ótíðindi úr fjármálaheiminum frá því fyrir göngur þá er yndislegt að fá þessa góðu og þjóðlegu frétt nú þegar sláturtíð er að ljúka. Sjómennirnir bergðast ekki þjóð sinni. Þó mörg krosstrén hafi brugðist, halda sjómennirnir áfram að draga björg í bú.


mbl.is Aflaði fyrir 223 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt framtak á erfiðum tímum

Þessir listamenn eiga heiður skilið. Við erum fámenn þjóð í harðbýlu landi og erfiðasti vetur okkar kynslóðar er framundan. Það sem við þurfum á að halda er samhugur og samstaða og við þurfum að vita að við stöndum ekki ein. Saman ætlum við að standa þennan vetur af okkar sem ein heild,  sem þjóð. Við ætlum að taka saman þau högg sem á okkur munu dynja. Þetta framtak þessara listamann er mikilvægt skref á þeirri leið. 

Ekki breyta þessu framtaki í eitthvað annað! 

Ég segi við alla þá sem eru að gefa vinnu sína þarna í kvöld. Takk fyrir.

 


mbl.is „Hlýleg“ stemmning í Höllinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband