Krafa forseta ASÍ um uppstokkun sanngjörn.

Ég er sammála forseta ASÍ. Það er mikil reiði í samfélaginu vegna hruns bankana. Öllum er ljóst í dag að gjaldþrot bankana var óumflýjanlegt og hefði orðið óháð hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. Seðlabanki Íslands gat aldrei staðið einn sem lánveitandi til þrautavara og varið íslenska bankakerfið fyrirséðum árásum. Öllum er ljóst í dag að Danske Bank og margir aðrir sem bentu þegar 2006 á að íslensku bankarnir stefndu beint í gjaldþrot höfðu rétt fyrir sér. Frá 2006 og fram á haust 2008 voru fjölmargir sem bentu á hættuna á gjaldþroti bankana.  

Margir hafa bent á leiðir sem hægt hefði verið að fara til að koma í veg fyrir þetta hrun. Ein leiðin var að skipta bönkunum í tvennt og erlendi hluti bankana fluttur úr landi þannig að Seðlabanki Íslands bæri bara ábyrgð á innlenda hlutanum. Önnur leið ef menn vildu halda bönkunum hér heima og fá af þeim skatttekjur var að ganga í ESB. Seðlabanki Evrópu væri þá lánveitandi þeirra til þrautavara. Hvorug þessara leiða var valin. Svo virðist sem ekkert hafi verið gert til að afstýra gjaldþroti bankana, nema menn rifu kjaft við þá sem voru í vinsemd að benda á hætturnar.

Stjórnvöld og bankarnir virðast ekkert hafa gert til að vernda hagsmuni íslensku þjóðarinnar ef til slíkra gjaldþrota kæmi. Þjóðar sem bankarnir voru meðal annars búnir veðsetja fyrir þúsund milljarða í gegnum þessa IceSave reikninga.

Bylgja óánægju og reiði breiðist nú yfir samfélagið af meiri þunga en við höfum nokkurn tíma sé hér á landi. Stjórnvöld, stjórnsýslan og bankarnir virðast vera búnir að slá skjaldborg hver um annan og eru samtaka í því að engan skal draga til ábyrgðar fyrir þetta mesta efnahagshrun Íslandssögunnar. Hrun sem sannanlega er heimatilbúið og er af mannavöldum.

Það er rangt mat hjá forsætisráðherra ef hann heldur að stjórnin og stjórnsýslan komist upp með að kalla enga til ábyrgðar í þessu máli. Til þess er þetta mál of stórt, tjón almennings of mikið.

Tillögur forseta ASÍ að þessir tveir ráðherrar fari og stokkað upp hjá Seðlabanka og FME er einfaldlega endurómun kröfu launafólks um land allt. Ef þessi uppstokkun fer fram þá vænti ég þess að ASÍ forystan treysti sér til að róa sitt fólk og sátt geti skapast í samfélaginu. Þá getur forysta ASÍ í framhaldinu farið í það nauðsynlega uppbyggingarstarf sem þarf að fara í gang með ríkisstjórninni og Samtökum atvinnulífsins.

Það er mín trú að það verði mjög erfitt fyrir fulltrúa launafólks í landinu að ganga til slíks samstarfs og hugsanlega leggja fjármuni lífeyrissjóðanna inn í slíka uppbyggingu verði engar breytingar gerðar í þeim hópi sem bera faglega og pólitíska ábyrgð á þessu hruni með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.


mbl.is Undrandi á forseta ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband