Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Laugardagur, 20. október 2012
Drífið ykkur að kjósa lömbin mín. Ekki sitja heima eins og sauðir.
Ég geri orð félaga míns, Arnars Sigurðssonar arkitekts að mínum:
"Ég styð tillögur stjórnlagaráðs þar sem íslenskur almenningur fær nú að kjósa í dag með jöfnu vægi atkvæða. Ég hef þegar greitt atkvæði og sagt JÁ í þessum mikilvægustu kosningum á minni ævi."
![]() |
Yfir 30% í SV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.10.2012 kl. 03:39 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 28. september 2012
Jóhanna Sigurðardóttir mesti stjórnmálaleiðtogi okkar tíma?
Þó ég hafi aldrei verið stuðningsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur þá er ljóst að þegar litið er yfir feril hennar í íslenskum stjórnmálum þá fer þar líklega einn farsælasti stjórnmálaleiðtogi okkar tíma. Jóhanna mun næsta vor hverfa úr íslenskum stjórnmálum eftir 35 ára þingsetu, þar af sem ráðherra í 14 ár og þarf af sem forsætisráðherra í 4 ár, fyrst íslenskra kvenna.
Til samanburðar má nefna að Davíð Oddson sat 14 ár á þingi, var ráðherra í 14 ár, þar af 12 sem forsætisráðherra.
Takist ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að koma breytingum á stjórnarskránni í gegn og færa þjóðinni þær miklu lýðræðisumbætur sem því fylgja þá er ég sannfærður um að Jóhönnu Sigurðardóttur mun verða minnst sem eins af okkar allra mikilhæfustu stjórnmálaleiðtogum. Verði þessar breytingar á stjórnrskránni að veruleika þá spái ég því að þessarar ríkisstjórnar mun á komandi árum fyrst og fremst verða minnst fyrir þetta framlag sitt, að hafa breytt stjórnarskránni og staðið fyrir þeim miklu lýðræðisumbótum sem nýju stjórnrskránni fylgja.
Ekki má heldur gleyma því að undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ríkisstjórnin gert löngu tímabærar breytingar á stjórnsýslunni með sameiningu ráðuneyta og endurskipulagningu þeirra verkefna sem þau fást við. Bara sú breyting er eitthvað sem þeir aðrir forsætisráðherrar sem setið hafa að völdum síðasta aldarfjórðung höfðu ekki til að bera það sem þurfti til að fara í slíka uppstokkun á ráðuneytunum. Hvað þá að þeir aðrir forsætisráðherrar sem hér hafa setið síðasta aldarfjórðunginn hefðu getað gert þær breytingar á stjórnarskránni sem nú stendur til að gera.
Í þessu samhengi þá ber líka að horfa til þess að þeir aðrir forsætisráðherrar sem hér hafa setið síðasta aldarfjórðunginn, þeir hafa setið í miklum og öruggum þingmeirihluta á miklum framfaratímum. Þeirra stærsta og nánast eina verkefni þessi síðustu 25 ár var að leggja fram fjárlög einu sinni á ári. Þegar litið er til baka þá stendur lítið eftir þessa forsætisráðherra annað en þessi fjárlög, samningurinn um EES, bjöguðu lög um kvótakerfið, mislukkuð einkavæðing nokkurra ríkisfyrirtækja, þar á meðal bankana og ein virkjun fyrir austan.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið forsætisráðherrastólinn á einum alverstu krepputímum sem gengið hafa yfir Íslenska þóð, á krepputímum þar sem hver stjórnarþingmaðurinn af öðrum hefur ekki þvolað ágjöfina og álagið og hoppað frá borði og flúið í skjól. Stöðugt hefur verið að kvarnast úr áhöfninni og Jóhanna Sigurðardóttir því stærstan hluta kjörtímabilsins stýrt ríkisstjórn sem hefur verið með mjög tæpan meirihluta. Allar líkur eru samt á því að Jóhönnu Sigurðardóttur takist að koma ríkisstjórninni í gegnum þá 8 mánuði sem eftir lifa af kjörtímabilinu og hefur þar með komið ríkisstjórninni og þjóðinni í gegnum verstu kreppuárin.
Og þó ég hafi aldrei kosið Jóhönnu Sigurðardóttur þá ber að virða það sem vel er gert.
![]() |
Jóhanna ætlar að hætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 17. júlí 2012
Auðlindir Íslands takmarkaðar og geta ekki staðið undir bættum lífskjörum?
Ætlum við að fylgja eftir nágrönnum okkar í Norður Evrópu í lífskjörum þá er ljóst að til þurfa að koma nýjar lausnir og ný hugsun. Þessi lönd hafa flest náð því að stækka hagkerfi sín á síðustu árum þannig að hagkerfi þeirra eru orðin stærri en var árið 2007. Þannig er staðan hreint ekki á Ísland.
Hagvöxtur síðustu tuttugu ára er horfinn og við erum í sömu stöðu og árið 1990, það er landsframleiðslan er sú sama og 1990, mælt í dollurum á föstu verðlagi. Sjá hér.
Margir vilja halda því fram að náttúruauðlindir Íslands séu líklegar til þess að bera uppi þá aukningu í hagvexti og lífskjörum sem þarf til ætlum við að fylgja lífskjörum í Norður Evrópu eftir. En er það svo?
- Uppsett afl á Íslandi er um 2.000 MW. Það samsvarar einum ofni í nýlegri gerð af kjarnorkuveri. Villtustu draumar Landsvirkjunar ganga út á það að tvöfalda þessa orkugetu. Það þýðir í hinum stóra heimi að Landsvirkjun langar til að byggja sem samsvarar einum kjarnaofni. Ef þessa orku á síðan að selja til álfyrirtækja og í annan iðnað sem greiðir lægsta raforkuverð í heimi þá er er afraksturinn af þessum "tveim kjarnaofnum" ákaflega takmarkaður og ekki líklegur til að standa undir mikilli aukningu á lífskjörum launafólks á Íslandi.
- Gjaldeyristekjur af sjávarútvegi eru um 150 ma sem er um 10% af landsframleiðslu sem er um 1.500 ma. Aukinn þorskafli og 20% til 30% auknar tekjur í sjávarútvegi skiptir auðvita máli en breytir litlu í stóru myndinni. Landsframleiðsla myndi þá aukast um 2% til 3%. Þar fyrir utan eru þessar tekjur eins og allar tekjur af veiðum mikilli óvissu undirorpnar. Að við sem þjóð ætlum að halda því áfram að byggja afkomu okkar að miklu leiti á veiðum er óásættanlegt gambl.
- Ferðaþjónustan er um allan heim láglaunagrein. Að bera fram mat og búa um rúm eru láglaunastörf. Aukning í ferðajónustu er því bæði jákvæð og neikvæð. Það sem er neikvætt við hana er að með aukningu í ferðaþjónustu þá höfum við verið að fjölga láglaunastörfum á Íslandi. Það á ekki að vera okkar langtíma markmið að fjölga hér láglaunastörfum.
Helstu arvinnuvegir okkar sem byggja á nýtingu auðlinda landsins, orku, fiski og náttúrufegurð eru ekki líklegir til þess að stækka mikið hagkerfi Íslands á næstu 10 árum og alls ekki þannig að kaupmáttur launa í evrum og dollurum aukist um 100% og almenn lífskjör batni svo að við getum boðið sömu lífskjör og á hinum Norðurlöndunum.
Nei, hér þurfa að koma til nýjar leiðir og ný hugsun.
Og við vitum og þekkjum öll hverjar þær leiðir eru og hver sú nýja hugsun er.
- Hættum að miða allt okkar samfélag og efnahagsaðgerðir við að Ísland sé verstöð og hráefnisútflytjandi. Land sem byggir afkomu sína á því að selja vinnu láglaunafólks.
- Hættum því að láta gjaldmiðilinn og efnahagsástandið sveiflast eftir því hvernig gengur í sjávarútvegi.
- Hættum þessu og skilgreinum okkur sem tæknivætt iðnaðarsamfélag sem ætlar og mun byggja afkomu sína á því selja út vinnu hátekjufólks.
Veljum sömu leið og þjóðir Norður Evrópu völdu.
Vel má vera að hagsmunum íslenskra útvegsmanna sé betur borgið utan ESB.
- Áttum okkur á því að hagsmunir launafólks eru ekki þeir sömu og hagsmunir íslenskra útvegsmanna.
- Áttum okkur á því að íslenskir útvegsmenn og núverandi efnahagsstefna sem hafnar aðild að ESB mun aldrei geta boðið upp á sömu lífskjör og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.
Að óbreyttu bíður okkur ekkert annað en einangrun og fátækt.
![]() |
Aflinn minnkar um 25,7% á milli ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 15. júlí 2012
Einangrun og fátækt hlutskipti okkar Íslendinga næstu áratugi?
Í mínum huga skiptir litlu hvort heldur Seðlabankinn hefur rétt fyrir sér eða Heiðar Már Guðjónsson þegar kemur að mati á því hvort kaupmáttur launa sé eins og var fyrir tæpum áratug eða tveim áratugum.
- Raunveruleikinn er sá að við Íslendingar höfum tapað ávinningi allra launahækkana síðustu eins til tveggja áratuga í því hruni sem hér varð í boði fjórflokksins.
- Raunveruleikinn er sá að við verðum að öllu óbreyttu föst í þessari láglaunagildru í a.m.k. einn til tvo áratugi.
Launahækkanir síðustu ára gera varla að halda í við verðbólguna. Frá hruni hefur því lítill sem engin kaupmáttaraukning orðið. Landið er lokað inni í gjaldeyrishöftum sem engin sér fyrir endann á. Að óbreyttu mun það taka á annan áratug að greiða út þær erlendu innistæður sem streymdu hér inn í landið í formi Jöklabréfa og vegna þess mikla vaxtamunar sem hér var í boði á árunum fyrir hrun. Hávaxtastefnu sem keyrði um þverbak í ríkisstjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Gengið og þar með launin eru stillt þannig af að tryggt er að vöruskiptajöfnuðurinn er hagstæður um tugi milljarða á mánuði. Þannig er hægt að standa við umsamdar afborganir af erlendum lánum og borga eitthvað út af erlendu innistæðunum eftir hávaxtaævintýri ríkisstjórnar Geirs Haarde. Þannig þarf staðan að vera a.m.k. næstu 15 árin ætli þjóðin sér að komast út úr sukkinu frá árunum fyrir hrun.
Á sama tíma og vöruskiptajöfnuðurinn er þetta hagstæður hefur fjárfesting í atvinnulífinu verið í sögulegu lágmarki. Það þýðir að framundan er stöðnun og áframhaldandi kaupmáttarrýrnun.
Í mínum heimi þá þarf að fara rúman aldarfjórðung aftur í tímann, til áranna fyrir 1990, til að finna sambærilega stöðu og launafólk á Íslandi er í gagnvart nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum. 1988 fór ég í mitt fyrsta byggingaverkefni á Grænlandi. Ég man hvað það kom illa við mig þegar ég áttaði mig á því að íslensku verkamannalaunin sem við vorum þá að greiða okkar mönnum voru um helmingi lægri en grænlensku fiskverkakonurnar voru með. Þá eins og nú eru greidd dönsk laun á Grænlandi.
Nú aldarfjórðungi síðar þá er staðan því miður ekkert betri en þá. Lágmarkslaun byggingaverkamanna á Íslandi, 6 flokkur, eftir 7 ára starf er 1.065 íkr/t.
Samsvarandi lágmarkslaun í Danmörku eru 108 ddk/t eða 2.376 íkr/t. Í Noregi eru samsvarandi lámarkslaun 187 nok/t eða 3.927 íkr. Skatthlutfall og skattar eru sambærilegir og hér.
- Í samanburði við hin Norðurlöndin þá er almennt launafólk á Íslandi í dag að minnsta kosti aldarfjórðungi á eftir hinum Norðurlöndunum í lífskjörum.
- Í samanburði við hin Norðurlöndin þá býr íslenskt láglaunafólk við fátækt.
En þetta er "íslenska leiðin", leiðin sem miðar að því að hagsmunir íslenskra útvegsmanna eru látnir hafa allan forgang þegar kemur að stjórn efnahagsmála.
Íslenska leiðin er samfélag fátækts verkafólks og modríkra útgerðarmanna. Samfélagi sem er haldið í eins mikilli einangrun og hægt er frá tæknivæddustu og ríkustu löndum heims, okkar næstu nágrönnum í Norður Evrópu.
Er ekki kominn tími á breytingar og uppbyggingu?
![]() |
Staða launa eins og 2004 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 5. júlí 2012
Icesave í góðum farvegi og í raun lokið
Eftir að Hæstiréttur staðfesti að neyðarlögin halda þá þarf ekki að hafa frekari áhyggjur af þessu Icesave máli.
Þrotabú Landsbankans stendur eftir þann dóm 100% til ráðstöfunar til að tryggja lágmarksinnistæður á Icesave reikningunum. Talið er að um 1.200 ma. séu í þrotabúinu. Það kostar um 675 ma. að tryggja þessar lámarksinnistæður sem dómsmálið fyrir ESA gengur út á. Þegar er búið að greiða Bretum og Hollendingum stóran hluta þessa fjár.
- Töpum við dómnum og Íslendingar dæmdir til að tryggja þessar lámarksinnistæður þá heldur þrotabú Landsbankans áfram að borga eins og þrotabúið er að gera í dag, skv. neyarlögunum.
- Vinnum við málið og Ísland sýknað af því þeirri kröfu að ríkið hafi átt að tryggja þessar lágmarksinnistæður þá borgar þrotabúið þessar lágmarksinnistæður út eftir sem áður, skv. neyðrlögunum.
Það skiptir því litlu máli hvernig þessi dómur fer fyrir okkur skattgreiðenur. Það mun ekki falla króna á ríkissjóð vegna þessa dóms, hvernig svo sem hann fer.
Icesave samningarnir gengu hins vegar út á það að við áttum að fá 51% af þrotabúinu (Bretar og Hollendingar rest). Samningurinn gekk út á það að þessi 51% af þrotabúinu dugðu ekki fyrir lágmarkstryggingunni þ.e. til að greiða þessa 675 ma. Þess vegna þurftu að koma til beinar greiðslur úr ríkissjóði. Auk þessi vildu Bretar og Hollendingar vexti.
Glæpamennskan við Icesave samningana var að ætla að veita ríkisábyrgð á Icesave samninginn og veita Bretum og Hollendingum þar með ríkisábyrgð upp á 675 ma. án þess að það lægi fyrir að neyðarlögin héldu. Ef neyðarlögin hefðu ekki haldið þá væri þrotabú Landsbankans í dag ekki til ráðstöfunar til að tryggja þessar innistæður. Þá hefðu fallið 675 ma. + vextir á ríkissjóð samkvæmt Icesave samningnum og þar með á okkur skattgreiðendur. Þá væri íslensk þjóð í mjög erfiðum málum í dag.
Tapi ríkið málaferlunum fyrir ESA dómstólnum þá var rætt á sínum tíma um mögulegt skaðabótamál Breta og Hollendinga á hendur íslenska ríkinu í kjölfar þess dóms. Eftir að dómur Hæstiréttar féll um að neyðarlögin halda þá eru slík málaferli ólíkleg og það að Bretar og Hollendingar vinni slíkt mál fyrir Hæstirétti enn ólíklegra. Það mál mundi þá bara snúast um vexti vegna þeirra fjármuna sem Bretar og Hollendingar lögðu fram til að tryggja þessar lágmarksinnistæður á sínum tíma. Ef slíkt mál fer í gang verður þrotabúið væntanlega búið að greiða Bretum og Hollendingu þessa 675 ma.
Fari slíkt mál af stað þá er það Hæstaréttar að úrskurða hverjar hæfilegar vaxtagreiðslur eigi að vera eigi þær yfir höfuð að vera einhverjar. Í versta falli þá verða vaxtagreiðslurnar þær sömu og kveðið var á um í Icesave samningnum. Engar líkur eru á að Hæstiréttur fari að dæma hærri vexti.
Þó allt fari á allra versta veg þá erum við samt í betri stöðu en hefðum við samþykkt Icesave samninginn vegna þess:
- að ríkissjóður er í dag ekki lestaður með 675 ma. ríkisábyrgðum með samsvarandi lakari lánshæfismati fyrir ríkisjóð og þar með sveitarfélög og fyrirtæki landsins
- að þrotabúið á fyrir lágmarkstryggingunni, þessum 675 ma. og engin þörf er á aðstoð ríkisins til að greiða þetta út
- að kostnaður vegna mjög langsótts skaðabótamáls Breta og Hollendinga á hendur ríkinu í kjölfar taps fyrir ESA dómstólnum endar í versta falli með sömu vaxtagreiðslum og ef við hefðum samþykkt samninginn.
Það er löngu tímabært að fylgisfólk Icesave samningana geri sér grein fyrir því að þessu Icesave máli er í raun lokið og löngu tímabæt að þessi minnihluti þjóðarinnar fari að sættast við meirihlutann fyrir að hafa hafnað þessum nauðasamningum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 1. júlí 2012
Lýðræðisumbætur forsetans endanlega festar í sessi.
Með þessari niðurstöðu forsetakosninganna þá er þjóðin að samþykkja þær breytingar sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert á forsetaembættinu í forsetatíð sinni.
Með þessari niðurstöðu forsetakosninganna þá er ljóst að þjóðin telur forsetann ekki hafa farið út fyrir valdsvið sitt í athöfnum sínum og orðum á undanförnum árum.
Með þessari niðurstöðu forsetakosninganna þá hefur forsetinn endanlega fest í sessi það beina lýðræði sem felst í málskotsréttinum.
Með þessari niðurstöðu forsetakosninganna þá hefur þjóðin endanlega fest í sessi þær lýðræðisumbætur sem Ólafur hefur staðið fyrir í forsetatíð sinni.
Þessi niðurstaða er þar fyrir utan enn eitt áfallið fyrir ríkisstjórnina. Enn á ný sannast að þessi ríkisstjórn gengur ekki í takt við íslenskt samfélag.
Ömurlegt er til þess að hugsa að gömlu hrunaráðherrarnir Jóhanna og Össur skuli nú tæpum fjórum árum eftir hrun enn sitja við völd og skuli enn vera að eyðileggja og skemma fyrir íslenskri þjóð.
Sem betur fer tókst skemmdarvörgum hrunsins ekki líka að eyðileggja forsetaembættið í þeirri mynd sem það er í dag. Það var reynt með því að blása til mótframboðs sem ætlað var að fella forsetann í kosningunum í gær og færa embættið aftur í þann farveg sem það var í tíð Vigdísar Finnbogadóttur. Þar með væri hægt að segja með því að Ólafur var hraktur úr embætti þá hafi þjóðin hafnað þeim breytingum sem Ólafur gerði á forsetaembættinu í forsetatíð sinni.
Vonandi að þjóðin reki endanlega af höndum sér í Alþingiskosningunum næsta vor það fólk sem sat í ríkisstjórn og á Alþingi í aðdraganda hrunsins, fólkið sem ber pólitíska ábyrgð á hruninu og því gríðarlega fjárhagslega tjóni sem hér varð hjá lífeyrissjóðunum, fyrirtækjunum og einstaklingunum.
![]() |
Ólafur hlaut 52,78% atkvæða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 17. júní 2012
Grikkir hafna "Íslensku leiðinni", leið einangrunar og fátæktar
Meirihluti Grikkja hafnaði "Íslensku leiðinni" í grísku þingkosningunum á þjóðhátíðardegi Íslendinga.
Það er ljóst að skynsemin hefur náð yfirhöndinni í Grikklandi og þeir valið áframhaldandi samstarf við Evrópusambandið. Grikkir hafa þar með hafnað "Íslensku leiðinni", leið sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa haft forystu um að fara hér heima.
Grikkir þekkja það vel að vera með ónýtan gjaldmiðil eins og við Íslendingar því þeir hafa einungis haft evruna í 6 eða 7 ár.
Þeir vita því nákvæmlega hvað felst í "Íslensku leiðinni" annars vegar og hins vegar hvað felst í því að vera með evru og vera þátttakandi í efnahagssamstarfi Evrópuríkjanna.
Niðurstaðan er einföld - Grikkir hafna því að fara "Íslensku leiðina".
Eftir stöndum við Íslendingar, einangruð útkjálkaþjóð og höldum að við getum staðið utan ESB með eigin gjaldmiðil eins og ríkasta land Evrópu, olíuríkið Noregur - þvílík blekking.
Löngu er tímabært að launafólk taki í taumana og hugi að eigin hagsmunum og hætti að láta ruglaða hugmyndafræði og hagsmuni LÍÚ stjórna þessum málum.
![]() |
Nýtt lýðræði sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.6.2012 kl. 06:45 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 16. júní 2012
Mótframboðum gegn forsetanum er ætlað að rústa embættinu í núverandi mynd.
Þegar þjóðin hefur kallað þá hefur núverandi forseti orðið við því kalli.
Þessi framboð nú og ekki síst framboð Þóru gegn sitjandi forseta er einsdæmi í sögunni. Þessum framboðum er stefnt gegn forsetanum og þeim embættisfærslum hans þegar forseti hefur svaraði kalli þjóðarinnar og tekið hagsmuni þjóðarinnar fram fyrir hagsmuni Alþingis.
Ef sitjandi forseti verður felldur í komandi kosningum þá munu andstæðingar forsetaembættisins líta á það sem áfellisdóm yfir embættisfærslum forsetans og segja að þjóðin hafi hafnað því að forsetaembættinu sé beitt með þeim hætti sem gert hefur verið og málskotsrétturinn virkjaður.
Ef sitjandi forseti verður felldur í komandi kosningum þá munu þær lýðræðisumbætur sem forsetinn hefur staðið fyrir að engu verða og þjóðin mun glata málskotsrétti sínum næsta mannsaldurinn því engin forseti mun þvora að beita málskotsréttinum af ótta við að flokkarnir á Alþingi blási þá upp mótframboð gegn honum. Það er líka einsdæmi að formaður og varaformaður Samfylkingarinnar hafa opinberlega líst andstöðu sinni við forsetann og hvatt til mótframboðs gegn honum. Munu formenn flokkanna í framtíðinni stilla komandi forsetum upp við vegg og segja: Ef þú samþykkir ekki þessi lög / samninga þá minni ég á hvernig fór fyrir Ólafi Ragnari Grímssyni og hvernig hann var hraktur úr embætti?
Þingið hefur alla tíð viljað svipta forsetann málfrelsi og hafa hann í stofufangelsi á Bessastöðum og þannig ráðskast að eigin geðþótta með völd forsetaembættisins, völd sem þjóðin á samkvæmt stjórnarskrá og úthlutar til þess sem hún velur til forseta á fjögurra ára fresti. Þegar ástandið er þannig að forsetinn situr í stofufangelsi á Bessastöðum sviptur málfrelsi, þegar ástandið er þannig þá segja þingmenn gjarnan að forsetinn sé "sameiningartákn þjóðarinnar" og um leið og þeir segja þetta þá brosa þeir gjarnan.
Við eigum að standa vörð um það beina lýðræði sem stjórnarskráin veitir almenningi á Íslandi. Þess vegna eigum við að standa vörð um forsetaembættið. Það á ekki að rýra völd þess með því að setja embættinu einhverjar siðareglur eða takmarka á annan hátt þau völd sem stjórnrskráin felur þjóðinni, völdum sem þjóðin ráðstafar í beinni kosningu á fjögurra ára fresti. Ef forseti fer út fyrir valdsvið sitt eða hagar sér ósæmilega að mati þjóðarinnar þá kýs þjóðin sér einfaldlega nýjan forseta.
Mótframboð gegn sitjandi forseta nú er ætlað að rústa forsetaembættinu í þeirri mynd sem það er í dag til þess að flokkarnir og formenn þeirra haldi þeim völdum sem þeir eitt sinn höfðu.
Verði Ólafur Ragnar Grímsson hins vegar endurkjörinn forseti þá verða þær lýðræðisumbætur sem hann hefur komið hér á með því að virkja málskotsréttinn endanlega festar í sessi.
![]() |
Ólafur Ragnar með 58% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 20. maí 2012
Pólitískt uppgjör á glæpum gegn þjóðinni verður í þingkosningunum að ári.
Með útgáfu Rannsóknarskýrslu Alþingis og dómnum yfir þáverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, þá er uppgjöri fjórflokksins á hruninu lokið.
Eftir er hinsvegar pólitískt uppgjör kjósenda á þeim glæpum sem fjórflokkurinn vann gegn þjóðinni í aðdraganda hrunsins og í kjölfar þess. Það uppgjör bíður þingkosninganna að ári.
Í því pólitískta uppgjöri kjósenda við fjórflokkinn þá verður ákært fyrir eftirfarandi glæpi og þjóðinni gefst í þingkosningunum kostur á að fella sýknu- eða sektardóm yfir fjórflokknum.
Glæpur fjórflokksins nr. 1 gegn þjóðinni er þegar Lýðveldið Ísland var skuldsett í þrot í aðdraganda hrunsins í misheppnuðum tilraunum fjórflokksins að bjarga gjaldþrota bönkum landsins. Öll lán sem buðust voru tekin og allir fjármunir sem til voru var ausið í bankana, banka sem fjórflokkurinn vissi að voru gjaldþrota, banka sem fjórflokkurinn vissi á þessum tíma að var ekki hægt að bjarga. Svo langt gekk fjórflokkurinn í þessari skuldsetningu að Lýðveldið Ísland endaði í höndum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Glæpur fjórflokksins nr. 2 gegn þjóðinni er setning neyðarlaganna sem er mesti þjófnaður sem framinn hefur verið í Evrópu frá stríðslokum og fólgst í því að tryggja innistæður langt, langt umfram innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar og nota til þess fé erlendra lánadrottna gömlu bankana. Þrot íslensku bankana er þriðja stærsta gjaldþrot í heimi. Ofaní þetta stóra gjaldþrot kom setning neyðarlaganna en með þeim þjófnaði fór Lýðveldið Ísland á lista yfir mestu "bananalýðveldi" heimsins. Fjölmargar lánastofnanir munu ekki lána til landsins næstu áratugina og allar þær lánveitingar sem fást næsta aldarfjórðunginn verða með sérstöku "Íslandsálagi". Það versta er að mannorð okkar Íslendinga var eyðilagt í heilan mannsaldur í þeim tilgangi að bæta auðmönnum Íslands það tjón sem þeir urðu fyrir þegar innistæður þeirra töpuðust í gjaldþroti bankana. (2% innistæðueigenda áttu 95% af innistæðunum, ath í samræmi við fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna áttu þeir mjög lítið af innistæðum í bönkunum).
Glæpur fjórflokksins nr. 3 gegn þjóðinni er þegar fjórflokkurinn reyndi ítrekað að fá Lýðveldið Ísland til að gangast í ábyrgðir fyrir skuldum Landsbankans og samþykkja svonefnda Icesave samninga, samninga sem tengjast beint neyðarlögunum, þannig að þjóðin tryggði, þvert á lög og reglur, að fullu þær innistæður sem innistæðueigendur töpuðu í gjaldþroti Landsbankans. (Málið sem er í dag fyrir ESA gengur út á það hvort Íslandi / ríkissjóði beri að tryggja lágmarksfjárhæð, 20.887 evrur per reikning eða ekki. Það kostar þrotabú Landsbankans 650 ma og innistæða er til fyrir þeirri upphæð. Engin hjá ESA er að tala um að Ísland eigi að tryggja allar innistæður í gamla Landsbankanum að fullu eins og Icesave samningarnir gengu út á. Icesave 3 hefði kostað þrotabú Landsbankans / þjóðina a.m.k 1.300 ma.)
Í næstu þingkosningum gefst þjóðinni tækifæri að gera upp þessi glæpaverk fjórflokksins gegn þjóðinni með því að kjósa til valda nýja flokka og nýtt fólk og hefja sókn til nýrrar velsældar á grunni nýrrar stjórnarskrár.
Mynd: Mótmæli 15. maí 2012 á Puerta del Sol, Madrid
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 15. maí 2012
Íslenski fáninn í miðpunkti "búsáhalda-mótmælanna" í Madrid í dag.
Er það búsáhaldabyltingin sem steypti ríkistjórinni, ríkistjórn sem tók öll þau lán sem hægt var að taka út á lýðveldið Ísland og skuldsetti með því ríkisjóð / almenning upp í rjáfur næstu ártugina ásamt því að setja Seðlabanka landsins í gjaldþrot í misheppnuðum tilraunum sínum að bjarga gjaldþrota bönkum landsins, bönkum sem ríkistjórnin vissi að var ekki hægt að bjarga?
Eða eru það Icesave samningarnir sem við Íslendingar höfnuðum og neituðum þar með að ríkistryggja skuldir einkabanka landsins?
Eða eru það báðar þessar ástæður?
Er ekki löngu orðið tímabært að gefa fjórflokknum og glæpaverkum hans gagnvart þjóðinni í aðdraganda hrunsins og eftir hrun frí frá störfum og kjósa til valda þá nýju flokka sem bjóða munu fram í næstu Alþingiskosningum. Sjá hér Lýðfrelsisflokkurinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2012 kl. 17:52 | Slóð | Facebook