Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 23. apríl 2012
Pólitísku uppgjöri fjórflokksins á hruninu lokið.
Með sakfellingu fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi í dag fyrir brot á stjórnarskrá þá lýkur formlega hinu pólitíska uppgjöri fjórflokksins á hruninu.
Þetta ferli hófst með skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, nefndar sem umræddur forsætisráðherra átti stærstan heiðurinn af að setja á laggirnar. Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar er lagt til að þáverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra ásamt bankamálaráðherra yrðu dregnir fyrir Landsdóm og ákærð fyrir stórfelld afglöp í starfi og brot á stjórnarskrá.
Þingnefnd á vegum Alþingi sem fór yfir skýrsluna komst að sömu niðurstöðu og Rannsóknarnefndin og lagði fyrir Alþingi að samþykkja að þessir fjórir ráðherra yrðu ákærðir og dregnir fyrir Landsdóm.
Lágkúran á Alþingi náði áður óþekktum hæðum þegar þingið ákvað að ákæra forsætisráðherrann fyrrverandi einan en sleppa hinum ráðherrunum þrem við ákæru. Eftir þessa atkvæðagreiðslu þarf án efa að skipta út öllum núverandi þingmönnum Alþingis, eigi að endurreisa traust þjóðarinnar á þinginu.
Þó uppgjöri fjórflokksins á hruninu ljúki með þessum dómi yfir forsætisráðherranum fyrrverandi, dómi sem á sér enga hliðstæðu í íslenskri réttarsögu, þar sem forsætisráðherra er dæmdur af 15 manna Landsdómi fyrir að brjóta 17 gr. stjórnarskrárinnar, þá á dómstóll götunnar eftir að dæma í þessu máli.
Dómstóll götunar mun kveða upp sinn dóm að ári liðnu þegar kosið verður til Alþingis.
Verður það svo að fjórflokkurinn verður kosinn áfram til trúnaðarstarfa fyrir þjóðina eða hefur þjóðin fengið nóg af fjórflokknum í bili og gefur nýjum flokkum og nýju fólki tækifæri?
![]() |
Sakfelldur fyrir eitt ákæruatriði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 15. janúar 2012
Hundamatur er ekki heldur hættulegur, bara ekki ætlaður til manneldis.
Ótrúlegar eru skýringar Ölgerðarinnar á sölu sinni og dreifingu á iðnaðarsalti til mötuneyta, bakaría og annarra matvælafyrirtækja.
Að selja og nota vöru í matvæli, vöru sem ekki er ætluð til manneldis er glæpur gegn neytendum.
Það er ljóst að Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafa hylmt yfir þessum glæp gegn neytendum árum saman.
Auðvita á að svipta þessi 91 fyrirtæki starfsleyfi sem hafa staðið að sölu, dreifinu og notkun á þessu salti eða beita þau háum fjársektum.
Auðvita á að reka forstjóra Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hefur veitt Ölgerðinni starfsleyfi síðustu 13 ár og þar með samþykkt sölu og dreifingu á þessu salti.
Við vitum hins vegar öll að ekkert verður gert.
Við vitum öll að handhafar framkvæmdavaldsins og það fólk sem nú situr á Alþingi hefur hvorki burði eða getu til að taka á þeim miklu vandamálum sem eru í stjórnsýslunni og stofnunum ríkisins, vandamálum sem blasa við almenningi og kristallast í hverju málinu á eftir öðru svipuðu þessu saltmáli.
Hvað getum við neytendur gert?
Reynt að fækka sem mest gömlu hrunaþingmönnunum sem engu hafa breytt og ekkert gert frá hruni og kallað til nýtt fólk og nýja flokka í þingkosningunum eftir rúmt ár?
![]() |
Segir iðnaðarsaltið ekki hættulegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 24. desember 2011
Gleðileg jól
Óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Myndin / jólakortið sem fylgir með þessari jólakveðju var tekin fyrir nokkrum dögum án flass lengst inni í jarðgöngum / veggöngum sem verið er að gera í Alta, Finnmörk, í norður Noregi.
Ljósið, myrkrið og úðinn frá steypusprautunni skapa ákveðna töfrastemmingu inni göngunum.
Mikil og mörg eru mannanna verk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 15. maí 2011
Stjórnlagaráð á rangri leið.
Það eru vonbrigði að stjórnlagaráðið ætlar ekki að koma til móts við kröfu almennings nr. 1, 2 og 3 sem var og er að koma hér á fullum aðskilnaði löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds. Fullur aðskilnaður þessara þátta næst aldrei nema með forsetaræði eins og tíðkað er í öðrum lýðveldum Evrópu.
Það er mikil breyting að ætla að lögfesta hér þingræði þvert á ákvæði stjórnarskrárinnar frá 1944 sem gerir ráð fyrir að hér sé forsetaræði. Sjá nánar hér.
Það er mjög sérstætt ef nú á að lögfesta hér þingræði að fyrirmynd konungsríkja Evrópu þegar eðlilegra hefði verið að horfa til lýðvelda eins og þess franska og finnska. Lýðvelda sem öll nýfrjálsu ríki austur Evrópu gerðu að sinni fyrirmynd þegar þau losnuðu undan klafa kommúnismans. Munum það að Ísland er lýðveldi, ekki konungsríki. Þess vegna er það svo órökrétt að horfa til konungsríkjanna sem fyrirmynd þegar við endurnýjum stjórnarskrá okkar.
Mér líst hins vegar vel á hugmyndir stjórnlagaráðs á koma hér á fót Stjórnlagadómstól / Lögréttu sem ætlað er að úrskurða hvort lög, reglugerðir, samningar og stjórnvaldsaðgerðir stangist á við stjórnarskrá.
Ég er hins vegar mjög ósáttur við þær fyrirætlanir að veikja forsetaembættið með því að setja embættinu reglur og takmarka valdsvið forseta. Það líst mér mjög illa á. Munum það að þjóðin á forsetaembættið. Munum það að þjóðin á það það vald sem stjórnarskráin felur forsetaembættinu. Þjóðin úthlutar þessu valdi í beinni kosningu á fjögurra ára fresti. Með því að takmarka valdsvið forseta og setja forseta reglur þá er um leið verið að takmarka vald þjóðarinnar og setja þjóðinni reglur.
Með því að setja forsetaembættinu reglur og takmarka vald forseta þá er verið að taka þetta vald frá þjóðinni og setja þetta vald í hendur stjórnmálaflokkanna og stjórnsýslunnar.
Var það tilgangurinn með stjórnlagaráðinu og auka vald stjórnmálaflokka og stjórnsýslunnar á kostnað þjóðarinnar?
Það vald sem stjórnarskráin felur þjóðinni og þjóðin felur forseta sínum það vald á ekki að takmarka. Við eigum ekki við endurskoðun stjórnarskrárinnar að takmarka það beina lýðræði sem við þó búum við.
Er það ætlun stjórnlagaráðs að minnka vægi þess beina lýðræðis sem við búum við og minnka þau völd sem þjóðin fer með þegar hún kýs beint til valdamesta embættis landsins? Á endurskoðun stjórnarskrárinnar að ganga út á það að takmarka vald forsetaembættisins og þar með takmarka vald þjóðarinnar? Er þetta stjórnlagaráð þá ekki farið að snúast upp í andhverfu sína?
Þá mun þjóðin líka snúa baki við þessu stjórnlagaráði enda þjóðin þá miklu betur sett með óbreytta stjórnarskrá.
Í dag búum við að tvenns konar lýðræði.
- Beint lýðræði þar sem þjóðin kýs handhafa framkvæmdavaldsins, forsetann, á fjögurra ára fresti.
- Óbeint lýðræði eða fulltrúalýðræði þar sem við kjósum stjórnmálaflokka til að fara með fyrir okkar hönd fjárveitingarvaldið og löggjafarvaldið með forseta.
Breytingar á stjórnarskránni sem ætlað er að minnka vægi þess beina lýðræðis sem þjóðin nýtur í daga og auka í staðinn vægi fulltrúalýðræðisins, það eru slæmar breytingar.
Breytingar á stjórnarskránni sem færa valdið frá þjóðinni í hendur þingmanna og þar með í hendur fjórflokksins, slíkar breytingar mun þjóðin aldrei samþykkja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2011 kl. 01:07 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 27. apríl 2011
Icesave-dómur og mestu afglöp íslenskra fjölmiðla?
Loksins að einn af helstu fjölmiðlum landsins gerði úttekt á því og segir frá því hvaða afleiðingar það hefur verði neyðarlögunum hnekkt í þeim dómsmálum sem nú eru í gangi.
Loksins að einn af helstu fjölmiðlum landsins gerir þjóðinni grein fyrir því að ef við hefðum samþykkt Icesave 3 og neyðarlögunum verið hnekkt þá falla hundruð milljarðar á ríkissjóð og þar með íslenska skattgreiðendur.
Í umræðunni fyrir Icesave 3 kosninguna þögðu okkar helstu fjölmiðlar og fjölmiðlamenn og fjölluðu ekkert um þennan flöt málsins. Jafnvel í Silfri Egils var ekki fjallað um þennan flöt málsins og ef hann kom upp þá var honum vísað frá eins og hverri annari fjarstæðu. Lee C Buchheit benti samt á þetta atriði sem einn af þremur stærstu áhættuþáttunum í Icesave samningnum í samtali á Silfrinu en annað hvort skildi Egill hann ekki, gleymdi þessu atriði eða vísvitandi lét ógert að nefna það. Fjölmiðlamenn töldu alltaf bara upp tvö atriði í sínum samantektum sem áhættuna við Icesave 3 samninginn, þ.e. hvað mikið kæmi úr þrotabúi Landsbankans og hve mikil gengisáhættan væri. Neyðarlögin voru sjaldan eða aldrei nefnd.
Þannig komst samninganefndin og stjórnvöld alltaf upp með að ræða ekki þennan flöt málsins eins og það gæti ekki gerst að málið tapaðist fyrir dómi. Þetta eru mestu afglöp sem ég hef séð íslenska fjölmiðla gera, að láta stjórnvöld, samninganefndina og fulltrúa JÁ sinna komast upp með að ræða ekki þetta atriði.
Um þennan flöt málsins var bara fjallað á blogginu, á Facebook og í einstaka aðsendum greinum í prentmiðlum.
Nú að afloknum kosningum þá hefur þagnarhlunni loks verið lyft af þessu máli á ríkisfjölmiðlinum rúv.
Þá bregður svo við að rúv er með ágætis umfjöllum um málið, sjá nánar hér. Greinilegt er að fréttamennirnir á rúv gera sér vel grein fyrir mikilvægi þessara málaferla og hvað það þýðir ef neyðarlögunum verður hnekkt og hvað hefði gerst hefði þjóðin samþykkt Icesave 3 og þar með gengist í ábyrgð fyrir 650 milljörðum. Fréttamenn rúv gera sér fulla grein fyrir að þá hefðu hundruð milljarða fallið á ríkissjóð.
Fréttamann rúv gera sér fulla grein fyrir því að í þessum málaferlum um neyðarlögin væri allt samfélagið undir ef við hefðum samþykkt Icesave 3 samninginn.
Sérkennilegt að rúv skyldi ekki sjá ástæðu til að birta þessa frétt einhverjum dögum eða vikum fyrir Icesave 3 kosninguna.
Hefði rúv birt þessa umfjöllun vikuna fyrir Icesave 3 kosninguna þá hefði það tryggt að yfir 70% þjóðarinnar í stað 60% hefði hafnað Icesave 3 samningnum.
Alltaf gott að vita hvar við höfum rúv og að rúv stendur í blíðu og stríðu með stjórnvöldum á hverjum tíma, sama hvað gengur á, eins og Pravda á sínum tíma stóð í blíðu og stríðu við bakið á Sovéska kommúnistaflokknum.
Guði sé lof fyrir Facebook, bloggið og óháðu netmiðlana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 20. apríl 2011
Moody´s kokgleypir skammir Forseta Íslands
Auðvitað gat Moodys´s ekki lækkað lánshæfismat Íslands þó þeir hefðu viljað.
Eftir að skuldatryggingarálagið lækkað strax eftir NEI´ið í þjóðaratkvæðagreiðslunni þá gat Moody´s ekki annað en staðfest þetta mat þeirra lánastofnanna sem þeir þykjast vera að vinna fyrir. Allt annað en staðfesting á þessu mati helstu fjármálafyrirtækja heims hefði endanlega svipt Moody´s öllum trúverðugleika.
Með öðrum orðum Moody´s samþykkir og kokgleypir skammir forseta Íslands.
Aldrei fyrr hafa matsfyrirtæki þessa heims verið rassskellt opinberlega með þeim hætti sem forseti Íslands rassskellti Moody´s á Bloomberg fréttaveitunni og aldrei fyrr hafa þessi matsfyrirtæki bitið í gras með þeim hætti sem þau gerðu í dag. Með þessu mati í dag þá eru dagar Moody´s og annarra slíkra fyrirtækja liðinn sem fyrirtækja sem menn treysta.
Þetta mat Moody´s er jafnframt endanleg staðfesting á því að við sem kusum NEI, við kusum rétt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 13. apríl 2011
Auðvitað mátti ekki veita þessa ríkisábyrgð
Auðvitað lækkar skuldatryggingarálagið þegar ríkissjóður hættir við að veita ríkisábyrgð á 650 ma. skuldbindingu upp á von og óvon að það takist að láta þrotabú Landsbankans standa undir Icesave.
Það voru margir sem héldu því fram að þetta tryggingarálag myndi hækka ef við höfnuðum Icesave. Margir héldu því fram að því meira sem við tökum af lánum og því meira sem við skuldbindum okkur með ríkisábyrgðum því auðveldara yrði og fá lán og kjör þeirra yrðu betri.
Nú þegar allt rykið sem var sáldraði upp í aðdraganda þessara kosninga er að falla til jarðar og menn byrjaðir að grilla aftur í gegnum gruggið þá kemur í ljós að ekkert hefur breyst.
Auðvitað er það áfram þannig að því minna sem ríkissjóður skuldar og því minni ábyrgðir sem hvíla á ríkissjóði því betri eru lánakjörin.
![]() |
Álagið hið lægsta frá hruni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 11. apríl 2011
Fulltrúi olíufurstanna í Dubai í samninganefndinni, Lee C. Buchheit, sendur úr landi.
Aldrei skildi ég það að Alþingi valdi að gera fulltrúa olíuauðjöfranna á Arabíuskaganum að formanni íslensku samninganefndarinnar. Hverjum lukkuriddaranum á eftir öðrum hefur skolað hingað á land í kjölfar bankahrunsins. Lukkuriddurum sem hafa boðið stjórnvöldum þjónustu sína.
Að velja einn af þeim til að leiða íslensku samninganefndina var sérstakt. Enn sérstakara var að velja til starfans einn af fulltrúum olíuauðjöfranna á Arabíuskaganum. Sjá nánar þennan pistil hér frá því í febrúar 2010: Aðalsamningamaður Íslands einn af stóru hákörlunum í fjármálaheiminum.
Lee C. Buchheit situr í stjórn og starfar með stærstu fjármálafyrirtækjum heims. Fyrirtækjum sem lána Seðlabönkum heims fé. Lee C. Buchheit vinnur við það að gæta hagsmuna þessara fyrirtækja. Seðlabankar um allan heim eru þessi misserin að gæta hagsmuna sinna og þessara lánadrottna sinna, þ.e. fyrirtækjanna sem Lee C. Buchheit vinnur fyrir, með því að dæla fé skattborgaranna út í bankakerfið og eru þar með að gera skuldir bankana að skuldum almennings. Það er það sem Lee C. Bucheit starfar við.
Bjóst virkilega einhver við að fulltrúi olíufurstanna á Arabíuskaganum kæmi með samning um þetta Icesave mál sem yrði ásættanlegur fyrir okkur Íslendinga?
Bjóst virkileg einhver við því?
Það fækkar um einn lukkuriddarann á Íslandi þegar Lee C. Buchheit flýgur heim til Duabi eftir að þjóðin hefur sagt við þennan fulltrúa olíuauðjöfranna, "troddonum".
Lee C. Buchheit hverfur nú inn í blámóðuna í sögu þessarar þjóðar sem ein af stóru mistökunum sem stjórnvöld gerðu í kjölfar bankahrunsins.
![]() |
Sterk rök okkar í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 10. apríl 2011
Sigur landsbyggðarinnar og hinna vinnandi stétta.
Úrslit kosninganna um Icesave er sigur landsbyggðarinnar og hinna vinnandi stétta.
Þegar ég mætti á kjörstað seinni partinn í dag þá gekk ég í fangið á þrem iðnaðarmönnum sem greinilega höfðu komið við á kjörstað á leið úr vinnu. Þeir voru alvarlegir og ákveðnir þegar þeir í vinnufötunum yfirgáfu kjörstað.
Þá vissi ég að þessi kosning var unnin.
![]() |
57,7% hafna Icesave-lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 9. apríl 2011
Allir á kjörstað. Þetta er þitt val.
Að mínu mati er tvennt sem stendur upp úr nú á kjördag:
Í fyrsta lagi að þá er ekkert himinn og haf á milli þessara tveggja valkosta. Báðar leiðirnar hafa sína kosti og galla. Hvort heldur valið er já eða nei þá mun þetta mál halda áfram að hafa mikil áhrif á samfélag okkar og efnahag. Mikil óvissa verður um efnahagslegar afleiðingar þessa máls hvort já eða nei verður ofaná. Í raun kristallast valið í fréttum gærdagsins. Þar mælir seðlabankstjóri með JÁ og Eva Joly mælir með NEI. Við vitum öll að hvoru tveggja er þetta mikið ágætis fólk og þó svo Seðlabankstóri sé undir hæl sinna atvinnurekanda þá væntum við þess að hann sé af heilum hug að mæla með JÁ. Við vitum að þau bæði eru að mæla með valkostum sem þau meta þann besta. Þess vegna er ekki hundrað í hættunni hvora heldur leiðina við förum. Báðar hljóta að vera ágætar fyrst þetta ágætis fólk er að mæla með sitthvorri.
Fólk á að drífa sig á kjörstað og kjósa. Sumir vilja meina að þegar allt kemur til alls þá sé þetta spurningin um að fólk kjósi annað hvort með höfðinu eða hjartanu.
Í öðru lagi þá hefur verið frábært að fylgjast með því hvernig þjóðin hefur tekið á þessu verkefni sem er að ákveða hvorn valkostinn á að kjósa. Facebook hefur hreinlega logað af umræðum um þetta mál. Ég sá eina færslu seinni partinn í gær. Þar sagði:
"Á síðast klukkutíma þá hafa komið 46 "stadusar" á Facebook hjá mér og bara 2 þeirra voru ekki um Icesave."
Netmiðlarnir loga af umræðum um þetta mál. Allstaðar er verið að skeggræða málin. Áhuginn er gríðarlegur. Prentmiðlarnir og sjónvarpið með sinn fréttaflutning er í þessari umræðu eins og bermál gærdagsins og er í raun ekki þátttakandi í þessari umræðu nema fyrir börn liðins tíma sem fylgjast ekki með á þessum netmiðlum.
Þessi mikla og upplýsta umræða sem hefur verið í gangi fyrir þessar Icesave kosningar hefði ekki verið möguleg fyrir 10 árum. Þá voru þessir netmiðlar ekki til. Þá hefðu stjórnvöld matað okkur í gegnum moggann, rúv og stö 2 á "sannleikanum".
Nú er allt breytt og stjórnvöld ráða í dag bara fjölmiðlum sem flytja bermál gærdagsins til þeirra sem ekki fylgjast með á netmiðlum nútímans.
Í kosningunni um Icesave 3 þá erum við að sjá lýðræðið á Íslandi taka nýja stefnu. Þjóðin er skemmtilega klofin í tvennt í álíka stórar fylkingar en allir eru ákveðnir að ræða sig fram til bestu niðurstöðu fyrir þjóðina. Með þessari gríðarlegu umræðu sem er í gangi og hefur verið í gangi þá er ljóst að þjóðin mun taka upplýsta ákvörðun í dag.
Hvort heldur já eða nei verður ofaná þá höfum við séð það að þjóðin er meira en tilbúin að stíga fleiri skref á þessar braut. Ræða sig fram til niðurstöðu að taka sínar stóru ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslum.
Er nýtt Ísland er að líta dagsins ljós?
Svei mér þá, ég held það. Mér finnst það frábært hvernig þjóðin er að leysa þetta verkefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:41 | Slóð | Facebook