Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Ástandið á Íslandi lyginni líkast
Þó þetta sé "frétt ársins" að formaður Samfylkingarinnar vill kosningar í vor þá kemur hún ekki á óvart. Nú hefur formaður Samfylkingarinnar og varaformaður Sjálfstæðisflokksins lýst því yfir í dag að kosningar eigi að fara fram á árinu. Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins er boðuð á skyndifund í hádeginu á morgun. Samfelld mótmæli og átök hafa staðið á þriðja sólahring fyrir utan Alþingishúsið.
Þingmenn og ráðherrar hóta þjóðinni að ef þeir sitji ekki áfram og fái að sýsla með bankana þá missi enn fleiri vinnuna og fleiri fyrirtæki fari í gjaldþrot.
Sögusagnir ganga um að fresta eigi Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og að formaður Samfylkingarinnar muni draga sig út út stjórnmálum af heilsufarsástæðum.
Forsætisráðherra ljáir enn ekki máls á því að neinir verið kallaðir til ábyrgðar á hruninu, hvorki útrásarvíkingar, eigendur bankanna, stjórnendur bankanna, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið eða ráðherrar ríkisstjórnarinnar.
Ástandið á Íslandi í dag er lyginni líkast.
![]() |
Ingibjörg vill kosningar í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.1.2009 kl. 14:25 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Pólitísk afskipti af lánveitingum banka til fyrirtækja aðal starf ríkisstjórnarinnar?
Það eru mikil tímamót þegar varaformaður sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra lýsir því yfir í ræðustól Alþingis að það verði að kjósa á miðju kjörtímabili.
Í miðri kreppunni eru Bandaríkjamenn að skipta um forseta, ráðherra og yfirstjórn í allri stjórnsýslunni. Þau stjórnarskipti fylla Bandaríkjamenn bjartsýni og þau blása þeim von í brjóst. Ef Bandaríkjamenn geta gert þetta í miðri kreppu þá eigum við að geta gert það líka.
Og hvað er stjórnin að gera svo mikilvægt að ekki er hægt að boða til kosninga? Menntamálaráðherra svarar því í ræðustól Alþingis, sjá fréttina:
"Og við höfum ekki efni á því á næstu dögum og vikum að bíða með að taka þær stóru ákvarðanir sem lúta að því að koma bankakerfinu af stað á ný".
Bíddu, er ekki það eina sem ríkið þarf að gera í því sambandi að leggja bönkunum til það stofnfé sem rætt hefur verið um, þ.e. þessar 385 milljarða? Ætla þingmenn og ráðherrar að vera að vasast í einhverjum örðum málum er tengjast rekstri þessara banka? Ég hefði haldið að bankarnir væru í dag fullir af fólki og vandalaust væri fyrir bankana að leysa sín mál með stjórn þeirra. Hvaða "stóru ákvarðanir" þurfa þingmenn og ráðherrar að taka í því sambandi?
Þá sagði ráðherra:
"þau mörgu verkefni, svo sem að leysa úr flækju vegna erlendra kröfuhafa og koma samskiptum banka og fyrirtækja í betri farveg".
Ég spyr eru þingmenn og ráðherrar að vinna í því að leysa úr flækju vegna erlendra kröfuhafa og þess vegna ekki hægt að kjósa? Ég ætla nú bara rétt að vona að þingmenn og ráðherra komi ekki nálægt þeim flækjum og láti sérfræðingum það eftir að leysa þær.
Þegar ég las þetta síðasta þá setti að mér hroll: "og koma samskiptum banka og fyrirtækja í betri farveg".Þetta er það sem ég hef óttast. Þingmenn og ráðherrar eru á kafi í því í gegnum nýja bankakerfið að vasast í fyrirgreiðslu bankana til fyrirtækja. Þeir vilja ráða því hvaða fyrirtæki fá fyrirgreiðslu og hver ekki. Þeir vilja ráða því hverjir lifa og hverjir deyja. Með því vilja þeir kaupa sér velvild, stuðning og fjárframlög um ókomin ár.
Er þetta einmitt það sem við þurfum, pólitísk afskipti af lánveitingum banka til fyrirtækja?
Ég segi nei. Ef ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna eru svo uppteknir af störfum sínum í bönkum landsins að þeir hafa ekki tíma til þess að fara í kosningar þá held ég að þessir ráðherrar og þingmenn séu fullkomlega úr tengslum við raunveruleikann. Þeirra tími á að fara í allt önnur verkefni en vasast í lánafyrirgreiðslu banka til fyrirtækja.
Þeir ættu til dæmis að vera að setja lög um fjármálastofnanir. Ég bendi á áherslur Norræna Íhaldsflokksins sem vill að sett verði lög um fjármálastofnanir sem m.a. kveða á um að þeir sem eiga meira en 1% í fjármálastofnun þeir mega ekki eiga fyrirtækum í samkeppnisrekstri á almennum markaði. Eins að fjármáalstofnunum verði bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Stefni í meiri hagnað ber þeim að lækka vexti eða þjónustugjöld. Jafnframt verði tekin upp ákvæði Danskra bankalaga sem banna stjórnendum fjármálastofnanna að eiga í hlutafélögum í samkeppnisrekstri á almennum markaði. Þá verði fjármálastofnunum bannað að eiga í fyrirtækjum og félögum.
![]() |
Ekki hjá því komist að kjósa á þessu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Norðurlöndin bíta af sér kreppuna
Greiningardeild norræna bankans Nordea spáir því að samdráttur verði á öllum Norðurlöndunum á árinu. Mestur verður samdrátturinn hér á landi, eða 12% samkvæmt spá bankans og 1,5% í Svíþjóð, 1,3% í Finnlandi, 1% í Danmörku og 0,1% í Noregi.
Í ljósi þess að yfir heimsbyggðina gengur nú versta kreppa síðan kreppan mikla skall á 1929, þá er ljóst samkvæmt þessari spá að hún mun ekki hafa dramatísk áhrif á hinum Norðurlöndunum. Núll til 1,5% samdrætti er spáð á erfiðasta ári kreppunnar í þessum löndum. Þar hefur undanfarin ár verið 3% til 6% hagvöxtur. Þessum samdrætti sem nú er spáð mun þýða að staðan verður í lok ársins 2009 eins og hún var í þessum löndum sumarið 2008. Þessi lönd munu síðan halda sjó árið 2010 með hagvöxt í kringum núll. Eftir það er bjart framundan.
Atvinnuleysi mun aukast og vera frá 5% til 9% eftir löndum. Svíar verða með mest atvinnuleysi. Bandaríkjamenn og Bretar gera ráð fyrir töluvert meiri samdrætti og atvinnuleysi en þetta.
Án þess að hafa gert á því rannsókn þá trúi ég því að fá ef nokkur lönd muni ná að bíta þessa kreppu jafn vel af sér og Norðurlöndin.
Ef þessi spá Nordea reynist rétt þá eru Norðurlöndin að standast þetta mikla álagspróf sem núverandi heimskreppa er með toppeinkunn. Þetta eru lönd sem standa á öllum sviðum fremst meðal jafninga og eru um leið með eitt besta velferðarkerfi í heimi byggt á gildum hægrisinnuðu borgaraflokkanna þar sem atvinnulífinu er sannanlega leyft að njóta sín þó um leið sé haldið fast í eyrun á því.
Er nema von að ég og fleiri horfi til hinna Norðurlandanna og spyrji "Af hverju get ég ekki fengið svona samfélag á Íslandi"?
Ef þú sem þetta lest vilt líka þetta Norræna samfélag á Íslandi þá skoðaðu heimasíðu Norræna Íhaldsflokksins hér.
http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/
![]() |
Samdráttur á öllum Norðurlöndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Nýtt fólk valið til forystu
Við hljótum að fagna þessum tímamótum með Bandaríkjamönnum. Ég skal viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að Bandaríkjamenn ættu það til að kjósa blökkumann sem forseta sinn.
Á sama hátt skal ég viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að Framsóknarmenn ættu það til að kjósa mann "utan úr bæ" sem formann sinn og hafna öllum þeim sem hafa starfað og gengt trúnaðarstöðum í flokknum.
Þessir tímar sem við nú lifum kalla á pólitískt uppgjör. Bandaríkjamenn og framsóknarflokkurinn hafa stigið sín skref.
Slegist er fyrir utan Alþingi Íslendinga á sama tíma og ég skrifa þessi orð. Miklu meiri endurnýjunar er þörf á Íslandi þó það sé gott skref að framsóknarmenn hafi valið sér nýtt fólk í forystu.
Bandaríkjamenn og Framsóknarmenn verðskulda hamingjuóskir.
![]() |
Gífurlegt fjölmenni í Washington |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 19. janúar 2009
Einhliða upptaka evru?
Þetta eru athyglisverðar niðurstöður. Willem H Buiter prófessor í evrópskri stjórnmálahagfræði við London School og Economics leggur til að langtímamarkmið okkar eigi að vera að ganga í Myntbandalagið og taka upp evru.
Horft til þeirra ára sem mun líða þar til það er hægt þá leggur hann til að við tökum upp norska eða danska krónu. Ef við ætlum að nota íslensku krónuna áfram þá þurfum við að vera með gjaldeyrishöft hér næstu ártugina og hverfum atvinnulega áratugi aftur í tímann.
Ef Noregur eða Danmörk væru tilbúin til þess að leyfa okkur að nota þeirra gjaldmiðil og Seðlabanki þeirra yrði lánveitandi íslensku bankana til þrautavara þá ættum við að þiggja það. En væru Norðmenn og Danir til í það? Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst það ólíklegt en það er sjálfsagt að reyna. Þetta var nefnt við norska ráðamenn og við sáum þá hlægja að því hér fyrir jól. Þeir tóku þessu sem brandara þá. Kannski skilja þeir alvöruna nú.
En ég spyr, hvað gerist ef þjóðin hafnar aðild að ESB og upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvert er þá "Plan B"? Íslensk króna og gjaldeyrishöft næstu áratugina?
Ég er sammála Birni Bjarnasyni að við eigum að taka einhliða upp evru og það sem fyrst. Samhliða eigum við að gera þrennt.
- Lýsa því yfir að við óskum eftir aðildarviðræðum við ESB.
- Að við stefnum að því að uppfylla Maastricht skilyrðin sem er forsenda þess að fá að nota evruna.
- Síðast en ekki síst eigum við að senda okkar besta fólk af stað til ríkisstjórna landanna í ESB og skýra þeim frá stöðu mála hér heima. Einstaklingar, fyrirtæki og þjóðin öll eru að stefna í gjaldrot og við getum aldrei unnið okkur út úr þessum vanda né borgað skuldir okkar nema við skiptum um gjaldeyrir. Ekki sé verið að biðja um samþykki heldur er verið að óskað er eftir að okkur sé sýndur skilningur á þessum sérstöku aðstæðum á Íslandi og þetta sé algjört neyðarúrræði að taka evruna upp einhliða með þessum hætti. Ég held að okkur verði sýndur ákveðinn skilningur og þessar þjóðir muni setja "kíkirinn fyrir blinda augað" veljum við að fara þessa leið.
Að fara í myntbandalag við Dani og Norðmenn, það ferli gæti tekið mörg ár ef það er þá raunhæfur kostur. Hin leiðin er fær að taka upp einhliða evru.
Áhyggjur af því að bankakerfið hafi þá ekki lánveitanda til þrautavara eru skiljanlegar en er það ekki nákvæmlega sama staða og við höfum í dag? Ég get ekki séð að Seðlabankinn hafa neina burði til að verja bankana hvort heldur við erum hér með krónur eða evrur.
Að gjaldeyrir muni streyma úr landinu vegna jöklabréfanna ef við tökum upp evru er eru einnig skiljanlegar. En þetta eru bara að mér skilst átján aðilar sem eiga þessi bréf. Er ekki spurningin að semja við þá um að þeir fái þetta fé í áföngum á næstu 4 til 6 árum og aflétta þar með þessari pressu? Við getum í versta falli verið með einhver gjaldeyrishöft á þessu tímabili.
Já, ég er alltaf að styrkjast í því að við eigum að taka einhliða upp evru. Þetta á að vera okkar "Plan B" hafni þjóðin aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.
![]() |
Voru í raun án Seðlabanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 15. janúar 2009
Eiður Smári skorar sigurmarkið
Ég varð aftur stoltur af því að vera Íslendingur þegar ég horfði á Eið Smára skora sigurmark Barcelona í kvöld. Hann stóð sig vel, var út um allan völl, átti bestu stoðsendingar leiksins og það var bara unun að fylgjast með honum.
Eiður Smári er okkar besti sendiherra í Evrópu í dag. Það má ekki gleyma því að þó við séum í dag hnýpin þjóð í vanda þá búum við enn að öllum okkar mannauði, þekkingu og auðlindum. Okkar besta fólk er að berjast á fullu, hvert á sínum velli.
Nú þarf að endurskipuleggja vörnina og skipta um markmann. Þá getum við farið að spila sóknarleik á ný og skora mörk.
![]() |
Eiður Smári skoraði sigurmark Barcelona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Sjávarútvegsstefna Norræna Íhaldsflokksins
Teknar verði upp vistvænar veiðiaðferðir að fyrirmyndi Normanna og bannaðar veiðar með botntroll og snurvoð. Hættum að slétta hafsbotninn umhverfis landið og breyta með því vistkerfinu og þar með lífsskilyrðum nytjastofnanna.
Áratugur verið tekin í slíka aðlögun og aflaheimildirnar færðar yfir á neta og krókabáta. Þessir bátar skipa öllum sínum afla á land í sjávarplássunum kring um landið. Aukin hlutur dagróðrarbáta mun veita á ný súrefni, birtu og il inn í þessa bæi. Landsbyggðin mun þá ganga í endurnýjun lífdaga sinna. Endurreisn sjávarplássanna um land allt með þessum hætti er eitt af markmiðum Norræna Íhaldsflokksins.
Þegar allar aflaheimildir eru komnar á hendur dagróðrabáta og aflanum öllum landað á Íslandi þá erum við um leið búin að tryggja að eignarhaldið og nýting auðlindarinnar verður um ókomin ár í höndum aðila sem búa í sjávarplássunum á Íslandi.
Sjá hér allt um auðlindastefnu Norræna Íhaldsflokksins og heimasíðu hans:
http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/index.htm
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Sveitarstjórnarmenn, sýnið samfélagslega ábyrgð.
Hugtakið samfélagsleg ábyrgð var kynnt fyrir okkur Íslendingum fyrir nokkrum árum. Þetta hugtak var einkum notað af stjórnmálamönnum sem svipa á fyrirtæki landsins, að þau ættu að sýna samfélagslega ábyrgð og taka þátt í hinum og þessum verkefnunum og leggja eitt og annað til samfélagsins. Almennt tel ég að fyrirtæki á Íslandi sýni mikla samfélagslega ábyrgð og þau taka öll, eftir efnum og aðstæðum, mikinn þátt í þeim samfélögum þar sem þau eru starfandi. Sem þátttakandi í Lionshreyfingunni á Íslandi og íþróttahreyfingunni þá þekki ég hvað gott er að leita til íslenskra fyrirtækja.
Nú er hins vegar komið að því að ríki og sveitarfélög sýni samfélagslega ábyrgð í þeirri kreppu sem nú gengur yfir. Það finnst mér ríki og sveitarfélög ekki vera að gera. Stærstu sveitarfélög landsins hafa nýverið kynnt fjárhagsáætlanir sínar. Í kreppunni ætla þau að keyra blákalt með óbreytt góðærismarkmið í fjármálum sínum, þ.e. að vera með hallalausa bæjarsjóði. Ekkert annað virðist skipta þau máli. Þetta er hræðileg stefna og alröng við núverandi aðstæður. Nú eiga og verða þessir aðilar að koma sterkir inn með mannaflsfrekar framkvæmdir.
Á þremur mánuðum hafa ellefu þúsund íslendingar skráð sig atvinnulausa. Á sama tíma ætla stærstu bæjarfélög landsins ekki að taka mikinn þátt né axla miklar byrgðar til að minnka það atvinnuleysi. Gömul góðærismarkmið yfirskyggja allt, hallalausir bæjarsjóðir. Jafnvel vel stæð sveitarfélög eins og Seltjarnarnesbær virðist einnig ætla að halda að sér höndunum.
Hvað ríkið varðar þá hefur það verði með útboðsbann í meira en hálft ár. Fátt er þaðan að frétta og ekkert sem er til þess fallið að draga úr atvinnuleysinu.
Ótrúlegt er að horfa upp á þetta aðgerðarleysi og ótrúlegt er að horfa upp á stærstu og öflugustu sveitarfélög landsins ekki ætla að taka á sig neinar byrgðar aðrar en þær sem rúmast innan hallalausra bæjarsjóða. Einmitt nú þegar þessir aðilar þurfa að koma inn með mannaflsfrekar framkvæmdir.
Opinberir aðilar eru búnir að rifta öllum samningum sínum við arkitekta- og verkfræðistofur landsins. Búið er að fresta eða slá af allar framkvæmdir og með því eru opinberir aðilar að skapa gríðarlegt atvinnuleysi.
Þegar á reynir er ekkert gert með allt talið um sveiflujöfnun. Í uppsveiflunni var sagt að ríki og sveitarfélög væru að halda að sér höndunum. Í niðursveiflu ætluðu þau að koma öflug inn með framkvæmdir og atvinnu. Hvað erum við ekki búin að heyra þetta oft frá núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra?
Hverjar eru efndirnar? Efndirnar eru þær að þegar niðursveiflan kemur þá hleypur ríkissjóður og sveitarfélögin á undan öllum öðrum og sker niður allt sem heita opinberar framkvæmdir og setur á útboðsbann. Ekkert gert með fyrri loforð, ekkert gert með fyrri áætlanir og plön. Hér er stjórnað frá hendinni til munnsins, engar áætlanir og engin ábyrgð. Og hverjum datt í hug að á mesta kreppuári í okkar samtímasögu þá eigi að reka Borgarsjóð Reykjavíkur suldlausan? Ef Reykjavíkurborg ætlar ekki að taka þátt og skapa hér atvinnu hvað er þá hægt að ætlast til af öðrum sveitarfélögum?
Opinberir aðilar eru ekki að axla þá samfélagslegu ábyrgð sem þeim ber í því ástandi sem hér ríkir.
Skorað er á sveitarfélögin að falla frá markmiðum sínum um hallalausa bæjarsjóði á þessum tveim til þrem kreppuárum sem framundan eru. Setjið í gang mannaflsfrekar framkvæmdir, þ.e. byggingaframkvæmdir við skóla, leikskóla og íþróttahús. Borgum síðan "Kreppulánin" í góðærinu sem hefst hér eftir tvö til þrjú ár. Þá geta opinberir aðilar dregið úr framkvæmdum og nýtt tekjurnar til að greiða þessar skuldir niður.
Sveitarstjórnarmenn, sýnið samfélagslega ábyrgð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.1.2009 kl. 01:15 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 9. janúar 2009
Íslenskur hægriflokkur sem vill ganga í ESB og taka upp evru.
Það vantar á Íslandi hægri flokk sem vill ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Borgaraflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa leitt baráttuna fyrir inngöngu landanna í ESB og að tekin verði upp evra. Slíkan valkost vantar hér.
Sjá heimasíðu Norræna Íhaldsflokksins:
http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.1.2009 kl. 02:14 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 8. janúar 2009
Fer Geir að fordæmi Guðna Ágústssonar?
Það er orðið daglegur viðburður að hrópað er á afsagnir ráðherra. Skipulögð fjöldamótmæli af stærðargráðu sem við höfum aldrei séð áður eru það einnig. Margt hefur breyst á örskömmum tíma.
Hér í byrjun nýs árs, horfandi á þau ósköp sem yfir okkur eru að ganga þá hvörfluðu eftirfarandi hugleiðingar að mér:
Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð þá spáði ég því að hér væri verið að mynda ríkisstjórn sem myndi sitja að lámarki tvö kjörtímabil. Ég taldi að með myndun ríkisstjórnar þessara stóru flokka þá hafi ekki verið tjaldað til einnar nætur. Formenn þessara flokka ætluðu sér að sitja saman í ríkistjórn næsta áratuginn og í framhaldi af því hætta í stjórnmálum.
En það sem gerðist á síðasta ári var ekki bara að bankarnir urðu gjaldþrota og hér skall á gjaldeyrisskreppa. Stefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með forsætis- og fjármálaráðuneytið í sautján ár hefur beðið skipbrot.
Ekki veit ég hvað er að gerast á stjórnarheimilinu en er eins og fleiri að reyna að lesa í þau spil sem okkur almenningu eru sýnd og þar hefur fernt vakið athygli mína.
a) Bjarni Ben segir af sér stjórnarformennsku í N1 og dregur sig alveg út úr umsvifum í fyrirtækjarekstri. Er hann að gera ráð fyrir að breytingar verið á hans högum sem óbreytts þingmanns og seta hans í stjórn stórfyrirtækis eins og N1 er þá orðin óheppileg? Þar gæti tvennt komið til, ráðherrastóll eða trúnaðarstaða í Sjálfstæðisflokknum.
b) Kristján Arason hættir sem framkvæmdastjóri innlendra útibúa Kaupþings. Tengist það eitthvað eiginkonu hans, Þorgerði Katrínu? Eru að verða einhverjar breytingar á högum Þorgerðar Katrínu að seta hans sem einn af gömlu framkvæmdastjórum í bankanum er talin óheppileg? Hvaða breytingar gætu orðið á högum Þorgerðar Katrínar? Hún er jú varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra. Ætlar hún að bjóða sig fram til formanns á komandi Landsfundi Sjálfstæðisflokksins?
c) Breytingar á eftirlaunalögunum taka ekki gildi fyrr en í sumar. Af hverju og fyrir hverja / hvern er verið að gera þetta? Þeir sem hafa hér mestra hagsmuna að gæta og eru að missa mest eru þeir sem voru með bestu sérkjörin. Þeir sem voru með bestu sérkjörin voru ráðherrar og formenn stjórnmálaflokkanna. Ég held það sé ljóst að það er verið að fresta gildistöku þeirra til að gefa einhverjum tækifæri á að hætta í lok vorþings á fullum eftirlaunum samkvæmt gömlu kjörunum. Var þetta gert fyrir einhverja af formönnum flokkanna; Valgerði, Steingrím, Ingibjörgu, Guðjón eða Geir. Þeir sem er komnir með full réttindi sem ráðherrar og geta í vor hætt á gömlu kjörunum eru; Sturla, Einar, Árni, Björn og Geir. Það er ljóst að Geir mun tapa mest hætti hann ekki í vor. Með því að halda áfram er Geir að skerða væntanleg eftirlaun sín verulega.
d) Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegu lámarki og jafn tísýnt um hvenær það lagast og hvenær kreppan lagast. Það getur tekið mörg ár. Gjaldeyriskreppan sem hér geisar og það tjón sem hún er að valda er afleiðing þeirrar stefnu Sjálfstæðisflokksins að halda í krónuna og hafa ekki ljáð máls á að ganga í ESB og taka upp evru. Gjaldþrot bankana er afleiðing þess regluverks sem gildir um bankastarfsemi hér heima og hvernig þeir störfuðu og fengu að starfa með stuðningi ríkisstjórnarinnar. Sá stuðningur kemur meðal annars fram í ummælum Forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali síðast í apríl þar sem hann fullyrðir að þó skuldbindingar bankakerfisins væru tíu sinnum meiri en þjóðarframleiðslan þá væri það í góðu lagi. Í ljósi fylgishruns Sjálfstæðisflokksins og þess gríðarlega tjóns sem hér hefur orðið og þar með þess skipbrots sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur orðið fyrir þá verður ekkert auðvelt fyrir Geir að mæta og óska eftir endurkjöri á Landsfundi flokksins. Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mætt á Landsfund með fylgi flokksins í jafn slæmri stöðu. Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt er Forsætisráðherra hefur áður mætt á Landsfund með þjóðarbúið nánast gjaldþrota. Hann hlýtur að búast við mótframboði.
Eins og ég tók fram í upphafi þá eru þetta mínar hugleiðingar hér í byrjun árs. Niðurstaðan er tilgáta og mín tilgáta er sú að á komandi Landsfundi Sjálfstæðismanna muni Geir fara að fordæmi Guðna Ágústssonar og hætta sem formaður, Þorgerður mun bjóða sig fram í formanninn og Bjarni Ben í varaformanninn.
![]() |
Ráðherra segi af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.1.2009 kl. 11:53 | Slóð | Facebook