Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 17. september 2009
Hét góðri uppskeru fyrir kynlíf
Ætli Íslendingur standi líka á bak við þetta svindl? Það er viðbúið að reynt verið að klína þessu á okkur.
Eða er það bara þegar kemur að fjármálum og einhver hefur verið hlunnfarinn að þar leynist Íslendingur á bak við?
Það þótti svo sem ekkert tiltökumál hér á árum áður að menn færu í víking, hvort sem þeir voru frá Grundarfirði, Svarfaðardal eða Rauðasandi.
Þessir forfeður okkar, þeir rændu og nauðguðu.
Það er rétt, menn voru ekki að eiða tíma sínum í að narra fólk til einhverra kynlífsathafna.
Nei, líklega er enginn Íslendingur á bak við þetta mál.
![]() |
Hét góðri uppskeru fyrir kynlíf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 16. september 2009
Eitt núll fyrir íslensku Thatcheristunum í orkumálum
Eflaust hefur víða verði skálaði í kampavíni í gær þegar íslenskir Thatcheristar fögnuðu fyrsta sigri sínum í átökunum um eignarhaldið á orkuauðlindunum.
Allir þeir sem fylgst hafa með þessum málum vita að þessi barátta þeirra að koma orkuauðlindunum úr sameiginlegri eign þjóðarinnar er búin að standa lengi.
En þetta eru hugsjóna menn og í þessari baráttu þeirra hefur það hjálpað að verðið sem fæst fyrir auðlindina er algjört auka atriði í þeirra huga, það er prinsippið sem skiptir öllu máli, að einkaaðili fái að njóta arðsins af nýtingu auðlindarinnar, ekki almenningur eða samfélagið.
Það sjá það allir að það er ómögulegt að svona orkuveitur sem hafa einokun á sínu svæði og geta þar með haldið orkuverði í lámarki almenningi til hagsbóta séu í eigu almennings. Það er álíka mikið rugl og að gamlir barnaskólar standi skuldlausir í eigu sveitarfélaga "engum til ánægju". Auðvita á að selja alla barnaskóla landsins fjárfestum svo einhverjir geti hagnast á að eiga þá.
Með þessa stefnu fyrir Stafni auglýsti ríkisstjórn Geirs Haarde hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til sölu og bannaði jafnframt að opinberir aðilar mættu kaupa.
Nú er málið loks í höfn, búið að tryggja að allur arður af nýtingu orkuauðlinda þeirra Suðurnesjamanna munu renna heill og óskiptur næstu 65 til 130 árin í hendur erlendra fjárfesta.
Jafnframt er þessum erlendu fjárfestum tryggð einokun á sölu á öllu rafmagni og heitu vatni á Suðurnesjunum næstu tvo mannsaldrana eða svo. Með því er þeim veittur frír og frjáls aðgangur að tína það sem þeim þóknast upp úr vösum þeirra Suðurnesjamanna fyrir rafmagn og hita.
Innrás íslenskra Thatcherista inn í orkugeirann er hafin og búið er að blása til nýrrar sóknar í kjördæmi fjármálaráðherra. Nú á að beygja allt sem hægt er að beygja og í framhaldi mun Landsvirkjun falla.
Eftir mun þjóðin sitja arðrænd þar sem allur arður af nýtingu náttúruauðlinda landsins mun renna til útlanda næstu mannsaldrana.
Þegar engar tekjur koma lengur inn af nýtingu auðlindanna og orkuverð hefur hækkað hér 5 til 10 fallt hver verður þá staða okkar Íslendinga?
Sú sama og staða fátækra sveitarfélaga hér suður með sjó sem eru nú að reyna að greiða leiguna fyrir að fá að nota barnaskólana sína, skóla sem þau áttu skuldlausa hér fyrir nokkrum árum?
Mynd: Kerlingafjöll
![]() |
Stærsti álframleiðandi Kína spáir í Þeistareyki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 15. september 2009
Auðvita á að selja mjólkurkýrnar.
Auðvita á að selja mjólkurkýrnar. Menn hafa alltaf grætt á því, það vita allir. Þá fær maður líka svo mikinn pening úr að moða meðan maður er sjálfur við stjórnvölin. Þetta hljóta allir að skilja.
Það er svo bara annarra að hafa áhyggjur af því sem gerist þegar þarf að fara á næsta bæ á komandi árum og áratugum til að kaupa mjólk handa börnunum. "Den tid den sorg" eins og Danirnir segja.
Er ekki bara um að gera á meðan gengið er svona hagstætt erlendum fjárfestum að reyna að selja þeim enn meira af þessum mjólkurkúm okkar?
Er ekki einmitt tækifærið nú að reyna að koma hinum orkufyrirtækjunum og fiskveiðiauðlindinni í hendurnar á útlendingum þegar þeir sjá hér kauptækifæri þegar krónan hefur lækkað um 50% til 60% gagnvart evru og dollar?
Ætli það sé ekki líka möguleiki að selja Gvendarbrunnana og aðrar vatnsveitur sveitarfélaganna? Gæfi það ekki líka pening?
Við getum þá lifað hér fínu lífi út þetta kjörtímabil og það er ekki svo langt eftir hvort sem er, rétt rúmt hálft ár í næstu sveitarstjórnarkosningar. Menn hljóta að skilja það að borgin verður að hafa einhverja peninga úr að moða nú fyrir kosningar. Það verður að sýna lit í borginni fyrir kosningar í vor, slá og mála gangstéttar við kjörstaði og svona.
Ég meina, það er ekki okkar vandamál hér í borginni þó orkureikningar þeirra Suðurnesjamanna komi til með að hækka um heil ósköp á næstu árum þegar einkaaðili verður komin með einokun á sölu á öllu rafmagni og hita á svæðinu, er það?
Ég meina, þeir voru fyrstir til að selja sinn hlut fyrir slikk til einkaaðila. Af hverju mega Reykvíkingar ekki gera það líka?
Hvað með næstu kynslóð, spyr kannski einhver, sem verður þá hér eignarlaus þjóð án auðlinda í eigin landi ofurseld einokun þeirra erlendu manna sem sitja á orkuauðlindunum, neysluvatninu og fiskimiðunum?
Ég spyr þá bara á móti fyrir hönd okkar Íslenskra Thatcherista, er það ekki bara þeirra vandamál?
Hvernig er það annars, eru ekki einhverjar altaristöflur og kirkjugripir til í kirkjunum hér í Reykjavík sem væri líka hægt að koma í verð?
Já, það stefnir allt í stórsigur okkar Sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum nú í vor, enda framsýni, almannaheill og gamla kjörorðið "Íslandi allt" verði okkar leiðarljós þetta kjörtímabil.
Borgarbúar munu án efa verða flokknum gjöfulir á atkvæðin sín og verðlauna okkur í samræmi við verkin okkar. Borgarbúar sjá öruggleg líka til þess að Framsóknarmenn í borginni njóti þess sem þeir hafa sáð til.
Með öðrum orðum, ég er æfur yfir því að við erum að selja orkuauðlindirnar úr landi.
Hvað erum við án auðlindanna?
Mynd: Dómadalsvatn
![]() |
Endurskoðendur í svaðið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 14. september 2009
Af hverju er Viðskiptanefnd ekki kölluðu úr sumarfríi til að ræða vanda heimilana?
Auðmenn Íslands eiga og áttu mikla fjármuni í Íslensku bönkunum í Lúxemborg. Nú þegar upp kemur kvittur um að hugsanlega megi finna að vinnubrögðum skilanefndar Landsbankans vegna útibúsins í Lúx, þá er "eðlilegt" að þeir sem telja sér málið skylt hlaupi upp til handa og fóta og heimti að nefndarmenn í Viðskiptanefnd Alþingis verði kallaðir til starfa í miðju sumarfríi til að ræða þetta mál því "hugsanlega" gæti verið fótur fyrir þessum kvitti.

Gekk þessi þjónusta undir heitinu "Einkabankaþjónusta" því þessir bankar tóku í framhaldi að sér að ávaxta þetta fé á mjög háum vöxtum. Hæstu vextir sem hægt var að fá í Evrópu voru á Íslandi í seðlabankatíð Davíðs Oddssonar. Samkvæmt mínum heimildum kom þetta fé því mikið til aftur heim til Íslands og er kjarninn í þessum svokölluðu Jöklabréfum.
Þegar bankamenn tala um að á bak við Jöklabréfin hafi verið "Austurrískir tannlæknar" sem hafi verið að leita sér að hárri ávöxtun þá er átt við "Íslenska auðmenn".
Eðlilega má ekkert til spara og einskis má láta ófreistað þegar slíkir hagsmunir eru annars vegar. Eða eins og þingmaðurinn sem biður um þennan neyðarfundi í Viðskiptanefnd Alþingis orðaði það:,,Það er nauðsynlegt að fá allar upplýsingar um hvernig eigi að vernda þá hagsmuni sem þarna eru undir," segir Guðlaugur Þór
Á sama tíma titrar allt Íslenska samfélagið.
Mörg þeirra lána sem hafa verið fryst, þeirri frystingu líkur 1. október næstkomandi. Bæði á það við um erlend bílalán og íbúðalán. Eins fellur þá úr gildi það tímabundna bann sem sett var á nauðungaruppboð.
Nú er sláturtíðin að hefjast. Og ekki bara hjá bændum landsins. Það er líka að hefjast sláturtíð í bönkunum landsins og hjá sýslumönnum.
Alþingi var slitið eftir sumarþing í lok ágúst án þess að nokkuð væri tekið á málum þessara fjölskyldna sem verst eru settar. Gálgafresturinn sem mörgum var gefinn rennur út 1. okt. Ljóst er að sá frestur verður látinn renna út með þingið allt í sumarfríi og fyrir liggur að margar fjölskyldur fara þá beint undir hamarinn.
En það er gott að vita til þess að það eru þó hér menn sem standa vörð um það sem mestu máli skiptir í þessu samfélagi og krefjast þess að Viðskiptanefnd þingsins verði kölluð saman úr sumarfríi á þessum ögurtímum til að ræða það hvort standa hefði mátt öðruvísi að uppgjöri á bankaútibúi niðri í Evrópu.
Og þessar fjölskyldur sem eru að fara undir hamarinn, "Who fucking cares?"
Varla hvarflar það að nokkrum manni að ætlast til þess að Viðskiptanefnd Alþingis verið kölluð saman í miðju sumarfríi til að ræða málefni þessara fjölskyldna?
![]() |
Vill fund um Landsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 10. september 2009
Versta leiðin valin að fara með Alþjóða gjaldeyrissjóðnum?
Fréttir bárust af því að Rússar vildu lána hingað mikið fjármagn, 5 milljarða dali, síðasta haust. Það tilboð staðfesti Sendiherra Rússlands í viðtali við Netvarpið.is fyrir skömmu. "Þið völduð Alþjóða gjaldeyrissjóðinn" sagði hann svo.
Nú berast af því fréttir að hópur Japan hafi viljað koma hingað inn með einn milljarð dala, 126 milljarða króna.
Eins eru sögusagnir í gangi um að Bandaríkjamenn hafi boðið stórt lán síðasta haust.
Allt er þetta fé sem þarna var verið að bjóða hugsað til uppbyggingar og atvinnusköpunar.
Öllu þessu hafa Íslensk stjórnvöld hafnað og valið leið Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, sem vill að við tökum lán upp á 4,6 milljarða dala, um 700 milljarða króna, til þess eins að láta það liggja inni á bankabók í USA sem gjaldeyrisforða og borga af því vexti. Þetta fé eigi ekki að nota til neins annars en láta það liggja þarna.
Fram til ársins 2000 var gjaldeyrisforði okkar 7 milljarðar króna og hafði verið svo um áratuga skeið. Jú, jú sjálfsagt var eðlilegt að hafa hann eitthvað meiri þegar bankarnir voru orðnir tíu sinnum stærri en umsvif þjóðarbúsins. En nú eru þetta aftur orðnir litlir bankar með enga starfsemi erlendis. Til hvers þarf þá nú að 100 falda stærðina á gjaldeyrisforðanum frá því það sem hann var árið 2000? Auðvita er þetta algjört yfirskot.
Í mínum huga er það óskiljanlegt að við skulum vera að taka þetta lán. Verst af öllu er að aðalhagfræðingur Seðlabankans í aðdraganda hrunsins er nú orðinn Seðlabankastjóri og allir gömlu starfsfélagarnir hans sitja enn þarna í bankanum. Hvað haldið þið á að það taki Seðlabankann langan tíma að sóa þessum 700 milljörðum?
Einn dag?
Eina viku?
Einn mánuð?
Eitt ár?
Ég fer ekki ofar. Það er því miður mín spá þetta fé verður allt horfið á innan við 12 mánuðum. Við sitjum þá áfram uppi með ónýtan gjaldmiðil og búin að skuldsetja þjóðina um hálfa landsframleiðslu til viðbótar við allt hitt sukkið.
Til að kóróna allt þá þurftum við að samþykkja Icesave nauðasamninginn til að fá þetta lán.
Af hverju í ósköpunum völdu menn AGS í stað þess að fara með Rússunum eða Japönunum? Þá hefðum við fengið fé inn í landið til að fara í uppbyggingu. Þá værum við ekki að fara þennan stíg niðurrifs, samdráttar, okurvaxta og gjaldeyrishafta sem virðist vera ær og kýr AGS.
Og takið eftir, ekkert fé er að koma frá AGS til að byggja hér upp eitt eða neitt.
Hefðu ekki allar leiðir verið skárri en þessi leið sem verið er að feta í dag með AGS?
Er AGS og þær þjóðir sem stjórna AGS, þjóðirnar sem eiga bankana sem eru sem að tapa mest á Íslensk bankahruninu, ekki að leiða okkur beint í gríðarlega skuldsetningu þannig að við eigum okkur ekki viðreisnar von næstu áratugina?
Er tilgangurinn ekki sá eini að skuldsetja okkur svo gríðarlega að hægt verði að féfletta okkur og hirða af okkur auðlindirnar og allt það sem fémætt kann að finnast hér?
Rekum AGS úr landi og hættum við að taka þetta lán frá þeim!
Mynd: Kerlingafjöll
![]() |
Vilja fjárfesta fyrir milljarð dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 8. september 2009
Ánægjuleg þróun í menntamálum.
Það er ánægjulegt að sjá það staðfest hvað við Íslendingar erum að standa okkur vel í fjárframlögum til menntamála. Eins verð ég að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með skólana okkar og stjórnvöld að það skuli hafa tekist að koma öllum þeim mikla fjölda sem sótti um skóavist í haust í nám.
Eins og atvinnuástandið er þá hefði það bara verið hræðilegt ef ekki hefði verið hægt að koma því unga fólki sem sótti um skólavist í nám. Þeirra hefði ekkert beðið nema atvinnuleysi.
Þar fyrir utan vantar okkur meira af menntuðu fólki inn í atvinnulífið. Fjöldi ófaglærðra á Íslandi er of hár, það eru of fáir doktorar o.s.frv., ef við miðum okkur við nágranalöndin.
Þetta er það svið, menntamálin, sem við eigum með kjafti og klóm að standa vörð um í kreppunni.
Hitt er annað mál að án ef má spara stórfé með skipulagsbreytingum og samruna skóla. Í Kaupmannahöfn er til dæmis bara einn Háskóli sem kennir verkfræði.
Af hverju erum við með tvo Háskóla hér í Reykjavík , sitt hvoru megin við Vatnsmýrina, að kenna verkfræði?
Ég held að allt of mikið af fé fari í að borga rektorum og ýmis konar skrifstofufólki laun og halda úti allskonar starfsemi sem sjálfstæður Háskóli þarf að halda úti, heimasíðum o.s.frv , o.s.frv. sem hægt er að spara ef þessir skólar eru sameinaðir.
Fyrir utan svo gæði kennslunnar. Hver fylgist með gæðum kennslunnar í öllum þessum litlu Háskólum út um allt? Það eru margir sem halda því fram að þessir Háskólar séu einfalt framhald Menntaskólanna á viðkomandi stað og kennslan þar eigi ekkert skylt við eiginlega Háskólakennslu eins og hún þekkist í Evrópu.
Mynd: Skriðuklaustur
![]() |
Ísland ver hlutfallslega mestu til menntamála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 3. september 2009
Umhverfisvænar veiðar framtíðin.
Ég er ekki sammála framkvæmdastjóra LÍÚ þegar hann gagnrýnir auknar línuveiðar á kostnað togveiða. Í mínum huga ætti að vera búið að takmarka mjög ef ekki banna alveg togveiðar. Veiðar með snurvoð átti aldrei að leyfa að yrðu hafnar á ný hér á Íslandsmiðum.
Ég hefði vilja sjá okkur Íslendinga taka upp vistvænar veiðiaðferðir að fyrirmynd Normanna og Rússa og bannaðar verði veiðar með botntroll og snurvoð. Hættum að slétta hafsbotninn umhverfis landið og breyta með því vistkerfinu og þar með lífsskilyrðum nytjastofnanna.
Markmið Normanna og Rússa er meðal annars að vernda kóralinn og svæðin þar í kring. Gríðarlegt lífríki er í kring um þennan kóral, þar eru miklar uppeldisstöðvar. Mikill kórall er allt í kringum Ísland og þennan kóral er verið að brjóta daglega niður á miðunum um allt land. Við það eyðileggjast lífsskilyrðin og fiskgengd minnkar.
Áratuga rannsóknir liggja fyrir hjá Normönnum og Rússum á skaðsemi þessara veiðarfæra. Veiðar með botntroll eru bara leyfðar á ákveðnum svæðum þar sem botninn er sléttur og mat fiskifræðinga að þar sé ekki verið að eyðileggja neitt með því að nota þessi veiðarfæri. Eins til veiða á rækju og skel.
Við ættum að taka áratug eða svo í slíka aðlögun og færa aflaheimildir yfir á neta, línu- og krókabáta. Íslenskir bátasmiðir eru að búa til slíka báta hér heima. Við eigum í framhaldi að geta átak í því að setja í þessa báta þessar nýju metanvélar sem m.a. eru komnar í fullt af bílum.
Þá getum við sótt þennan afla á bátum sem við smíðum sjálf og notað til þess orku sem við framleiðum sjálf.
Þessir bátar skipa öllum sínum afla á land í sjávarplássunum kring um landið. Aukin hlutur dagróðrarbáta mun veita á ný súrefni inn í þessa bæi. Landsbyggðin mun þá ganga í endurnýjun lífdaga sinna.
Þegar allar aflaheimildir eru að mestu komnar á hendur dagróðrabáta og aflanum öllum þar með landað á Íslandi þá erum við um leið búin að tryggja dreifða eignaraðild á auðlindinni og að nýting hennar verður um ókomin ár í höndum aðila sem lifa og búa í sjávarplássunum á Íslandi.
Mynd: Sér yfir Vopnafjörð.
![]() |
Sérkennileg aðferðafræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 1. september 2009
Fjárhagstjón vegna Hryðjuverkalaganna sambærilegt og ef Reykjavík hefði verið jöfnuð við jörðu?
Hernaðarárásin á Ísland.
Það fjárhagslega tjón sem ríkisstjórn Gordon Brown hefur valdið hér á landi með því að setja Hryðjuverkalög á Íslenska ríkið og frysta allar eigur allra Íslenskra banka í Bretlandi, þar með talið gull- og gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands hefur valdið þjóðinni gríðarlegu tjóni.
Vissulega settum við Íslendingar mjög hæpin lög sem eru og voru Neyðarlögin en þurftu Bretar að gera okkur gjaldþrota vegna þeirra?
Áttum okkur á því að Bretar vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera þegar þeir settu á okkur hryðjuverkalögin og frystu meira að segja eignir Seðlabanka Íslands í Bretlandi.
Þeir vissi nákvæmlega að með því að fyrsta eigur þriggja stærstu banka Íslands og Seðlabankans voru þeir að setja þessa banka í gjaldþrot og um leið lama efnahagslíf landsins og vinna þar með eitt mesta efnahagslega hryðjuverka á einni þjóð sem sést hefur í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Þeir vissu nákvæmlega hvað afleiðingar það myndi hafa að setja hryðjuverkalögin á okkur.
Í framhaldi féllu allir Íslensku bankarnir, krónan féll um 50% sem þýddi að allar erlendar skuldir hækkuðu um 100%. Um 70% af öllum skuldum fyrirtækja í landinu voru í erlendum gjaldeyri þegar þetta gerðist og urðu mörg þeirra þá þegar tæknilega gjaldþrota.
Ríki, sveitarfélög og orkufyrirtækin okkar sem tekið hafa háar fjárhæðir að láni í erlendum gjaldeyrir eru líka mjög illa stödd þegar skuldirnar og afborganir af þeim hafa tvöfaldast.
Að ekki sé minnst á almenning og erlendu lánin hans, íbúðarlán, bílalán o.s.frv.
Vegna þessa gengishruns þá hefur allur innflutningur tvöfaldast í verði með tilheyrandi verðbólgu og vísitöluhækkunum verðtryggðra lána.
"Hit them where it hurts" segja Bretarnir og í stað þess að senda herþotur til að sprengja Reykjavík í loft upp þá settu þeir á okkur hryðjuverkalög sem hafa valdið okkur sambærilegu tjóni og ef Reykjavík hefði verið jöfnuð við jörðu.
Stór hluti landsmanna hefur verið í afneitum frá því fyrir hrun og ekki viljað enn horfast í augu við raunveruleikann og það sem hér gerðist. Eitt af því sem við höfum ekki viljað horfast í augu við er að við urðum fyrir nútímalegri hernaðarárás þjóðar sem við tölum vera vinaþjóð okkar.
Þessi árás hafið þann eina og sama tilgang og aðrar hernaðaraðgerðir og það er að valda óvininum eins miklu tjóni og hægt er án þess að verða sjálfur fyrir tjóni. Tilgangur hernaðaraðgerðarinnar var að mola niður óvininn og fá hann til að gefast upp og samþykkja nauðarsamninga sem sigurvegaranum eru þóknanlegir.
Við sem þjóð þurfum að fara að horfast í augu við veruleikann. Það var ráðist á okkur eins og ef um hernaðaraðgerð hafði verið um að ræða og samfélagið okkar mölbrotið fjárhagslega af nágrannalandi okkar, Bretlandi. Tjónið samsvarar því að Reykjavík hafi verið jöfnuð við jörðu.
Við höfum í framhaldi verið neydd til þess að skrifa undir nauðasamningana.
Hvers vegna í ósköpunum erum við enn með sendiráð og sendiherra hjá þessum kúgurum okkar?
Af hverju er ekki fyrir löngu búið að slíta stjórnmálasambandi því Breta?
Af hverju er ekki búið að selja sendiráðið og sendiráðsbústaðinn í London?
Af hverju er ekki búið að reka sendiherra Breta og allt hans lið burt úr landinu?
![]() |
Hegðun Breta og Hollendinga ekki sæmandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 31. ágúst 2009
Að missa auðlindir landsins í hendur útlendinga.
Svo illa er nú komið fyrir þessari þjóð að erlendir fjárglæframann eru byrjaðir að kaupa upp auðlindir þjóðarinnar og gengur það vel. Fjárglæframenn segi ég því það er ekki hægt að kalla þá annað, menn sem bjóðast til að kaupa hlut Reykjavíkurborgar í hitaveitu þeirra Suðurnesjamanna með því að greiða út 25% kaupverðs og fá 75% kaupverðsins lánað hjá Seljanda á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum.
Svona og svipaða "díla" höfum við séð á síðustu árum hjá þeim mönnum sem gerðu þessa þjóð gjaldþrota. Þeir þurrkuðu upp allt fé úr bönkum landsins og allt fé í öllum okkar helstu og stærstu fyrirtækjum hvort heldur voru tryggingarfélög, flutningsfyrirtæki eða fisksölufyrirtæki og voru langt komnir með að féfletta lífeyrissjóðina þegar ruglið loks stöðvaðist.
Er ekki komið nóg að svona "dílum" í þessu samfélagi? Erum við ekki búin að sjá nóg af vinnubrögðum af þessum toga?
Er stór hluti forystumanna okkar í sveitarstjórnum og á Alþingi virkilega orðnir eins og þessar "meðvirku" konur sem alltaf sækja í ný og ný sambönd við drykkfelda menn sem berja þær?
Liggur ekki ljóst fyrir hvað þessir menn ætla sér að gera við þetta félag ef þeir ætla sé að fá 75% af kaupverðinu lánað hjá Seljanda og einu veðin eru bréfin sjálf? Hversu mikils virði verða þessi bréf þegar búið er að tvöfalda skuldir Hitaveitunnar frá því sem nú er?
Er ekki öllum ljóst að þessir menn líta ekki á þessi kaup sem langtíma fjárfestingu? Skilja menn það ekki að ef þetta væri langtíma fjárfesting hjá þessum aðilum þá kæmu þeir með sitt eigið fé og keyptu þennan hlut OR?
Liggur ekki fyrir að nái þeir meirihluta í félaginu þá munu þeir "taka á því snúning". Eftir mun standa orkufyrirtæki enn verr sett en það er í dag, skuldsett upp fyrir haus og þær skuldir munu eins og allt hitt ruglið lenda á þjóðinni. Þegar búið verður að veðsetja og taka lán út á vinnsluleyfi Hitaveitunnar sem er til 65 ára með vilyrði um framlengingu í önnur 65 ár þá munu allar skuldir Hitaveitunnar á endanum lenda á þjóðinni ætli menn að nýta orkuna á þessu svæði til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Og af hverju er verið að veita mönnum vinnsluleyfi í svona mörg ár? Erlendis eru slík leyfi veitt í 5 til 10 ár með vilyrði um framlengingu.
Þessa taglhnýtinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eigum við að senda til síns heima. Þessa menn sem koma hér og vilja komast yfir orkuauðlindir þjóðarinnar þegar hægt er að kaupa þær fyrir tíu sent á dollar en finnst það ekki nóg og hafa til að bera þá óskammfeilni að reyna að komast yfir þær án þess að borga fyrir þær með því að reyna að fá kaupverðið lánað hjá okkur Reykvíkingum, slík fyrirtæki og slíka menn getum við verið án.
Við eigum sjálf nóg til af fólki af þessu sauðahúsi. Það er óþarfi að vera að flytja slíkt fólk til landsins.
Þar fyrir utan þá eiga auðlindir þessa lands að vera í höndum og eigu þjóðarinnar. Það minnsta sem við getum gert nú þegar Alþingi er nýbúið að samþykkja að skuldsetja næstu kynslóð upp fyrir haus með því að samþykkja Icesave er að við höldum auðlindunum í eigu þjóðarinnar þannig að afraksturinn af þeim nýtist þjóðinni um ókomin ár, ekki útlendingum.
Mynd: Á Löngufjörum.
![]() |
Eignast meirihluta í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 28. ágúst 2009
Að sitja á Alþingi í boði Landsbankans.
Eins og við var að búast þá valdi Alþingi auðveldustu leiðina út úr Icesave málinu. Að láta börnin borga.
Að óska eftir breytingum á samningum sjálfum var of erfitt og of mikið mál. Auðveldast var að samþykkja óbreyttan samninginn frá því í haust, samning sem gerður var af fyrri ríkisstjórn á strandstað í óðagoti, með fársjúkt fólk í forystu.
Mikil er ábyrgð stjórnar Landsbankans sem ákvað að veðsetja þjóðin fyrir 1.400 milljarða króna til þess að fjármagna eigin rekstur.
Meðan Landsbankinn veðsetti þjóðina fyrir 1.400 milljarða settu þeir milljónir á milljónir ofan inn í prófkjörsbaráttu flestra þeirra þingmanna sem sátu, og sitja enn, á Alþingi meðan þessi veðsetning fór fram.
Meðan Landsbankinn veðsetti þjóðina fyrir 1.400 milljarða settu þeir tugir milljóna inn í stjórnmálaflokkana á Íslandi. Bara er búið er að upplýsa um hluta af þeim greiðslum. Upplýst hefur verið um greiðslur sem aðalskrifstofurnar fengu frá Landsbankanum. Ekkert hefur verið upplýst um fjárstuðning sem einstök flokksfélög þessara flokka um land allt hafa fengið.
Meðan Landsbankinn veðsetti þjóðina fyrir 1.400 milljarða þáðu starfsmenn Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og annarra eftirlitsaðila gjafir, greiða, kauprétti og boð á ýmiskonar uppákomur, golfmót, móttökur, utanlandsferðir, endalaust áfengi fyrir jól, áramót og páska. Svo má áfram telja. Sjá þessa grein hér.
Nú er komið að þjóðinni að axla ábyrgð á þessari veðsetningu.
Veðsetningu sem er til komin vegna þess að bankinn fór og féfletti almenning í Bretlandi og Hollandi. Féfletti segi ég því fram hefur komið að vitað var þegar bankinn hóf að safna innlánum í Hollandi vorið 2008 að bankinn var gjaldþrota.
Nú er komið að þjóðinni að axla ábyrgð á aðgerðum og aðgerðarleysi þingmanna / ráðherra þegar þeir leyfðu þessum Landsbankamönnum að féfletta almenning á Bretlandi og Hollandi um leið og þeir veðsettu þjóðina.
Nú er komið að þjóðinni að axla ábyrgð á aðgerðum og aðgerðarleysi starfsmanna eftirlitsaðila þegar þeir leyfðu þessum Landsbankamönnum að féfletta almenning í Bretlandi og Hollandi um leið og þeir veðsettu þjóðina.
Hvenær rennur sá dagur að þeir sem komu okkur í þessa stöðu, að eigur þeirra verið gerðar upptækar og þeir dæmdir af verkum sínum?
Hvenær rennur sá dagur að þeir alþingismenn / ráðherrar sem komu okkur í þessa stöðu þurfi að axla sín skinn?
Hvenær rennur sá dagur að þeir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans sem komu okkur í þessa stöðu verði látnir sæta ábyrgð fyrir sín afglöp í starfi?
Hvenær nær réttlætið fram að ganga?
Mun það nokkurn tíma ná fram að ganga meðan á þingi situr fjöldi þingmanna í boðið, ekki bara Landsbankans heldur líka í boði Kaupþing og Glitnis?
Við þekkjum hvernig þetta fólk vinnur. Það sáum við þegar núverandi og fyrrverandi ríkissaksóknurum var falið að rannsaka syni sína þegar til stóð að rannsaka hvort eitthvað saknæmt hefði verið gert í aðdraganda bankahrunsins. Þessi blygðunarlausa tilraun til yfirhylmingar er fordæmalaus í vestrænum réttarríkjum.
Með allt þetta fólk enn á þingi í boðið bankana, með alla sömu starfsmennina í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, nú og fyrir hrun, með ríkissaksóknara sem tók að sér að rannsaka hvort sonur hans hefði framið lögbrot, þá mun aldrei nást fram neitt réttlæti á Íslandi.
Auðvita samþykkti þetta fólk óbreyttan Icesave samning. Í framhaldi mun fara í gang þöggun og yfirhylmingar og öllum óþægilegum málum verður sópað undir teppi. Engin mun verða ákærður og engin mun þurfa að axla ábyrgð.
Málið er leyst með því að þjóðin er látin borga. Og það besta við "dílinn" er að þetta lendir á næstu kynslóð. Einfalt og þægilegt.
Sem áhorfandi héðan utan úr samfélaginu þá er það þessi mynd sem blasir við og hún er sorgleg.
Mynd: Við Deildartunguhver
![]() |
Icesave-frumvarp samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook