Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 19. júní 2009
Mun ekkert fást upp í Icesave úr þrotabúi Landsbankans?
Mín tilgáta er sú að það muni lítið sem ekkert fást upp í Icesave skuldirnar úr þrotabúi Landsbankans. Ástæðurnar eru tvær:
Í fyrsta lagi þá munu ákvæði neyðarlagana þar sem lánadrottnum er mismunað, það er, kröfur innistæðueigenda eru gerðar rétthærri en aðrar kröfur, það ákvæði mun ekki halda fyrir dómi. Þessi neyðarlög munu falla úr gildi eftir 15 mánuði og þá geta lánadrottnar bankana lögsótt þá. Ríkinu og bönkunum verður örugglega stefnt vegna þessarar mismununar. Í öllum réttarríkjum er það grundvallaratriði að kröfuhöfum sé ekki mismunað. Að gera þetta svona eftirá eins og gert var þegar neyðarlögin voru sett á hlýtur að vera mjög hæpið. Mín tilgáta er sú að enginn af stóru kröfuhöfunum muni sætta sig við þetta. Mín tilgáta er sú að það verði erlendir dómstólar sem muni ákvarða hvort Íslenska ríkinu sé stætt á að mismuna kröfuhöfum með þessum hætti. Mín tilgáta er sú að ríkið muni tapa slíku dómsmáli. Það sem kemur þá til skiptana úr þrotabúi Landsbankans mun þá skiptast milli lánadrottnana. Lítið mun þá fást upp í Icesave og þjóðin mun borga rest.
Í öðru lagi þá er það mín tilgáta að Breska fjármálaeftirlitið sem er búið að sýsla með eignir Landsbankans í Bretlandi frá því í október, í tæpa níu mánuði, það er þegar búið að ráðstafa öllum eignum bankans í Bretlandi til breskra aðila. Mín tilgáta er sú að þessi eignaupptaka hafi þegar átt sér stað og Íslenska fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt fljótlega eftir að Íslendingar hafa undirritað Icesave samninginn og tekið á sig að fullu allar ábyrgðir vegna Icesave, þá tilkynni Breska Fjármálaeftirlitið því Íslenska hvað hafi fengist fyrir eignir Landsbankans í Bretlandi. Mín tilgáta er sú að þá muni koma í ljós að Breska fjármálaeftirlitið hafi afhent þessar eignir breskum aðilum fyrir slikk. Með þessum hætti fá Bretar eitthvað upp í það tjón sem bankarnir þeirra urðu fyrir vegna tapaðra útlána til Íslensku bankana. Yrði það ekki þannig sem Íslendingar myndu höndla Grænlenskan banka sem hefði hagað sér á Íslandi eins og Landsbankinn hagaði sér á Bretlandi? Ég held það sé alveg fyrirséð að það verður ekki mikið sem Íslendingar fá til skiptana úr eignasafni Landsbankans á Bretlandi.
Ef Alþingi samþykkir þennan Icesave samning þá er það mitt mat að það eru allar líkur á því að það muni lítið sem ekkert koma úr þrotabúi Landsbankans upp í þessa Icesave reikninga og þeir muni lenda með fullum þunga á þjóðinni.
Mynd: Við Norðurá.
![]() |
Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 17. júní 2009
Nýja sjálfstæðisbaráttan hafin á 17. júní á Álftanesi.
Það fer vel á því að sjálfstæðisbaráttan hin nýja sem kallað var eftir í hátíðarræðu á Austurvelli í dag hefjist á Álftanesi, í sömu sveit og Forsetaembættið hefur sinn embættisbústað.
Uppreisn íbúðareigandans sem lagði hús sitt í rúst í stað þess að afhenda það bankanum gefur tónninn um það sem koma skal.
Mín spá er sú að búsáhaldabyltingin sé bara upphafið að því sem koma skal. Uppreisn almennings gegn siðblindum bankamönnum, gegnumrotnu embættismannakerfi og svikulum stjórnmálamönnum er rétt að hefjast. Stjórnmálamönnum sem hafa lofað að vernda heimilin og fyrirtækin í landinu en hafa ekki dug, döngun, kraft eða þá áræðni sem þarf til að standa við neitt af því sem þeir lofuðu.
Í því ástandi sem er að skapast þá hefur þjóðin enga þolinmæði gagnvart lýðskrumurum sem standa ekki við það sem þeir lofa fyrir kosningar og svíkja lit í öllum sínum helstu baráttumálum.
Ég spái því að samþykki Alþingi Icesave samningin og siðblindum fjárglæframönnum verður leyft að halda áfram að stjórna bönkum landsins þá munu margir fleiri bílar brenna og mörg hús fara á sama veg og þetta hér á Álftanesi.
![]() |
Bankinn fékk ekki lyklana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Eru auðmenn Íslands að krefjast undirritunar Icesave samningsins?
Þeir innlendu aðilar sem eiga í dag fé inni á bankareikningum á Íslandi gætu tapað miklu neiti Alþingi að staðfesta þennan Icesave samning sem nú liggur fyrir Alþingi. Hafni Alþingi þessum samningi þá skapast óvissa um þær innistæður sem geymdar eru í bönkum á Íslandi.
Samkvæmt Íslenskum lögum þá er ekki ríkisábyrgð á innistæðum í Íslenskum bönkum. Þessar innistæður tryggir sérstakur Tryggingasjóður innlána. Eins og ég skil þetta mál þá eiga innistæðueigendur aðeins rétt á bótum frá þessum Tryggingasjóði fari banki í gjaldþrot. Dugi sjóðurinn ekki fyrir þessum innistæðum þá tapar fólk því fé sem Tryggingasjóðurinn nær ekki að tryggja.
Samkvæmt regluverki ESB þá eiga bankar á ESB svæðinu að tryggja að lámarki rúmar 20.000 evrur á hverjum innistæðureikningi. Icesave samningarnir ganga út á að standa við þá skuldbindingu.
Þáverandi forsætisráðherra lofaði, án umboðs frá Alþingi, að allar innistæður væru að fullu tryggðar í öllum Íslenskum bönkum. Alþingi, sem eitt getur skuldbundið þjóðina fjárhagslega, hefur að því er ég best veit aldrei staðfest þetta. Enda er þetta innistæðulaust loforð. Ekkert fé er til í bönkunum til að standa við þessi orð þáverandi forsætisráðherra. Álíka og ef hann hefði lofað flugvelli þar og jarðgöngum hér um leið og hann bað Guð og blessa þjóðina. Slík loforð eru innistæðulaus þar til Alþingi er búið að staðfesta þau með lögum.
Auk þess er ekki til neitt fé til þess að tryggja þessar innistæður í þessum gjaldþrota bönkum sem allt eins gætu aftur orðið gjaldþrota. Þetta fé verður að koma með einum eða öðrum hætti frá almenningi því bankarnir eru tómir. Að innistæður í þessum bönkum séu að fullu tryggðar er í raun ekkert annað en innantóm orð eins manns sem horfinn er á braut úr stjórnmálum. Hér er heldur ekki um neitt smá mál að ræða ef tryggja á að fullu allar innistæður hér innanlands. Alls er þetta talið vera töluvert stærra dæmi en allt Icesave málið. Og ekki til króna upp í þessar innistæður frekar en upp í Icesave.
Ég spyr, er ætlast til þess að þjóðin borgi Icesave og tryggi að auki að fullu allar innistæður á Íslandi?
Mín tilgáta er sú að þeir innlendu eigendur sem eiga fé sem geymt er í bönkum hér heima leggi nú mjög hart að ríkisstjórninni og alþingismönnum að samþykkja Icesave samninginn. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem náði að selja í Landsbankanum hlutabréf fyrir rúmar 100 milljónir nokkrum dögum fyrir hrun er án efa með það fé inni á einhverjum innlánsreikningi. Hann vill ábyggilega að þjóðin taki á sig ábyrgðir vegna Icesave og samþykki samninginn. Því verði það raunin þá er björninn unnin fyrir hann og aðra íslenska innistæðueigendur sem þá geta verið öryggir um að þjóðin verður líka látin tryggja og í framhaldi borga þeim þeirra innistæður.
Þá er það mín tilgáta að það hafi ekki verið nein tilviljun að það eigi að byrja að borga Icesave eftir sjö ár. Það passar fínt fyrir núverandi stjórnvöld, það gefur þeim frí í tvö kjörtímabil áður en þjóðin þarf að takast á við þetta mál. Forystumenn ríkisstjórnar gera væntanlega ráð fyrir að þau verið þá horfin af sjónarsviðinu. Núverandi stjórnvöld velja þá leið að flýja vandann og ætla annarri kynslóð að takast á við Icesave greiðslurnar. Þess vegna er núverandi stjórnvöldum slétt sama um þetta mál.
Já, látum börnin borga þetta. Látum þau taka þennan slag fyrir okkur, það er inntak þessa samnings.
Ég skora á Alþingi að fella þennan samning. Ég skora á Forsetann að neita að staðfesta lögin verði þau lögð fyrir hann.
Við eigum ekki að greiða neitt vegna þessa Icesave máls nema við verðum dæmd til þess eftir málaferli fyrir alþjóðlegum dómstólum.
Í öllu falli eigum við alls ekki að skuldbinda komandi kynslóðir vegna þessa máls eins og nú er verið að reyna að gera með fáránlegu kúluláni og svívirðilegum vöxtum.
Á lágkúran hér sér engin takmörk?
Mynd: Júní nótt á Vallabökkunum.
![]() |
Enn leynd yfir Icesave-samningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 15. júní 2009
Siðblindir bankamenn og gegnumrotið embættismannakerfi?
Er það virkilega svo að á þessum fimm árum þegar bankakerfið okkar var allt í einkaeign þá hafi eigendur bankana valið til trúnaðarstarfa fyrir sig í æðstu stöður í bönkunum siðblinda menn? Menn sem svifust einskis, virtu hvorki lög né siðareglur og gerðu allt til þess að skara eld að eigin köku og þjóna hagsmunum eigenda sinna?
Er það virkilega svo að auðmenn Íslands og þessir siðblindu starfsmenn þeirra hafi farið hér um allt og keypt sér velvild embættis- og stjórnmálamanna með gjöfum og greiðum, laxveiðiferðum og lánum, utanlandsferðum og vildarkjörum? Sitjum við hér Íslendingar uppi með spilltustu stjórnsýslu í Evrópu?
Er það virkilega svo að við Íslendingar sitjum í dag uppi með bæði ónýtt bankakerfi og ónýtt stjórnkerfi?
Verður Ísland byggt upp á ný fyrr en búið er að moka þennan flór?
Mynd: Á Mýrunum.
![]() |
Fékk 70 milljóna lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 10. júní 2009
Kærum þá sem veðsettu þjóðina fyrir Icesave reikningunum fyrir landráð.
Að Landsbankanum skyldi leyft að safna innlánum erlendis fyrir meira en þúsund milljarða á tveim árum án afskipta Fjármálaeftirlitsins og án þess að Seðlabankinn gerði kröfu um aukna bindiskyldu eða stóraukin framlög í tryggingasjóð innlánsreikninga eru óskiljanlega afglöp.
Þau stjórnvöld sem heimiluðu þessa veðsetningu settu á mjög umdeild neyðarlög. Erlendir lánadrottnar munu án efa láta reyna á ýmis ákvæði þeirra fyrir alþjóðlegum dómstólum. Í þessum neyðarlögum eru m.a. ákvæði þess efnis að innistæður eru gerðar að forgangskröfum. Bent hefur verið á að með þessu er verið að mismuna kröfuhöfum. Verði látið reyna á þetta ákvæði neyðarlaganna fyrir alþjóðlegum / erlendum dómstólum og íslenska ríkið tapar því máli þá munu a.m.k. 650 milljarðar falla á Íslensku þjóðina. Haldi þessi ákvæði neyðarlaganna þá munu 150 til 650 milljarðar falla á þjóðina.
Með því að safna þessum innlánum var verið að veðsetja almenning á Íslandi og gera hann ábyrgan fyrir rúmlega þúsund milljörðum króna.
Komi í ljós að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fengu ekki umboð ráðherra til þess að heimila bankanum að veðsetja þjóðina með þessum hætti þá vil ég að þeir embættamenn sem bera ábyrgð á því að þjóðin var veðsett fyrir rúma þúsund milljarða verði ákærðir fyrir landráð.
Eins að þeir sem sem sátu í bankastjórn Landsbankans á þessum tíma svo og bankastjórar bankans verði ákærðir fyrir landráð.
Ég vil að þessir aðilar verði ákærðir fyrir landráð vegna þess að þeir gerðu þjóðina ábyrga fyrir þvílíkum skuldbindingum að þjóðin mun ekki með góðu móti geta greitt þessar ábyrgðir falli þær á okkur. Ef við lendum í því að þurfa að greiða 650 milljarða vegna Icesave þá mun það hafa slíkar efnahagshörmungar í för með sér að við munum ekki geta séð út úr því næstu áratugina. Að leggja slíkar ábyrgðir á þjóðina vegna þessara Icesave reikninga er ekkert annað en landráð. Þeir sem "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.
Þó með setningu neyðarlaga takist að bjarga þjóðinni að einhverju leiti frá þessu máli þá breytir það í engu eðli hins upphaflega gjörnings.
Umboð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til að heimila bönkunum að safna þessum innlánsreikningum og þar með að veðsetja Íslensku þjóðina um 20.887 evrur í hvert sinn og stofnaður var nýr Icesave reikningur hlýtur samt sem áður að hafa komið frá ráðherrum og ríkisstjórn. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hljóta að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og þar með bönkunum sitt samþykki með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.
Ég spyr, höfðu þessir ráðherrar umboð til þess að veðsetja Íslensku þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum?
Ef svarið við þeirri spurningu er nei, ríkisstjórnin hafði ekki umboð til þess að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum þá vil ég að það fólk sem sat í ríkisstjórn og heimilaði með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi þessa veðsetningu verði ákært fyrir landráð.
Það er skýrt í stjórnarskrá að Alþingi eitt hefur fjárveitingarvaldið og það er Alþingi eitt sem getur og má veðsetja þjóðina. Alþingi hefur að því er ég best veit aldrei veitt heimild til þess að banki í einkaeign mætti veðsetja þjóðina á tveim árum fyrir þúsund milljarða.
Undirritaður skorar á þingmenn í öllum flokkum að hafna þeim samningi sem nú liggur fyrir þinginu.
Bretar tóku yfir allar eignir Landsbankans með hryðjuverkalögum. Sú aðför kostaði okkur alsherjar bankahrun og í framhaldi 50% gengisfall. Vegna þessa blasir nú við gjaldþrot 60% til 70% allrar Íslenskra fyrirtækja. Fyrst Bretarnir hirtu eignir Landsbankans þá er ekkert eðlilegra en að þeir hirði þá líka skuldir bankans og þar með Icesave. Þjóðin er búin að blæða nóg vegna þessara Bresku hryðjuverkalaga þó ekki bætist við slíkar Icesave "stríðsskaðabætur".
Hópur manna er þegar byrjaður að undirbúa slíka ákæru um landráð. Rétt er að ákæra sem þessi komi frá hópi almennra borgara. Stjórnvöld munu ekkert aðhafast. Látum reyna í fyrsta sinn á ákvæði stjórnarskrárinnar um landráð. Okkur vantar fleiri til að vera með okkur. Hafið samband og skráið ykkur til þátttöku á netfangið: fhg@simnet.is
Mynd: Hestar og menn í Fljótsdrögum.
![]() |
Valtur meirihluti í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 3. júní 2009
Letigarðar, The Peoples Garden of Iceland
Áhugamannafélag um matjurtarækt í görðum við heimahús, Letigarðar, The Peoples Garden of Iceland, hefur fengið aðstöðu að Dalvegi 32, Kópavogi, rétt hjá BYKO, fyrir starfsemi sína og er að koma sér þar fyrir. Þar var áður Gróðrarstöðin Birkihlíð.
Félagið verður með þrennskonar starfsemi í Letigarðagróðrarstöðinni að Dalvegi 32, Kópavogi.
Matjurtagarðar.Í fyrsta lagi er almenningi boðið að rækta matjurtir í bestu ræktunarbeðum á Höfuðborgarsvæðinu á besta stað í bænum að Dalvegi 32, Kópavogi. Garðarnir sem boðið er upp á eru ræktunarbeðin sem Gróðrarstöðin Birkihlíð bjó til og notaði undir sína ræktun í mörg ár. Þessi beð eru gull til að rækta í matjurtir. Boðið verður upp á garða sem eru 10m2, 15m2 og 25m2. Þeir sem hafa áhuga á að rækta matjurtir í beðum gróðrarstöðvarinnar í skjóli aspanna að Dalvegi 32, Kópavogi, vinsamlega hringið í síma 894 1949 eða 615 0730 og gerið pantanir. Verð kr. 4.000 / 6.000 / 8.000.
Útimarkaður með grænmeti.
Í öðru lagið þá hyggst félagið opna útimarkað með grænmeti í aðalstöðvum Letigarða að Dalvegi 32, Kópavogi. Þar vill félagið bjóða þeim sem það vilja upp á aðstöðu til að koma og selja sína framleiðslu. Þessi aðstaða mun standa öllum til boða, jafnt almenningi og garðyrkjubændum. Öllum er velkomið að koma og setja upp borð og selja sína framleiðslu, hvort sem það eru kartöflur, rófur og kál, rabbabari, rifsber eða krækiber eða hvað eina sem fólk er að rækta eða tína. Til stendur að opna þennan markað í byrjun júlí og hafa hann opinn þrisvar í viku, miðvikudaga, föstudaga og laugardaga frá 9.00 til 18.00. Markaðurinn verður opinn fram í október. Áhugasömum er bent á að panta pláss í tíma. Pöntunarsími 894 1949.
Letigarðar í heimagörðum (fyrir næsta vor 2010).
Í þriðja lagi eru það Letigarðarnir en svo köllum við vermireiti sem settir eru á borð. Beðið og þar með plönturnar eru þá komnar í þægilega hæð til að sýsla við. Nú hættum við öllu bogri og bjástri þó við séum með matjurtarækt í görðunum okkar heima. Þetta er ræktunaraðferð fyrir okkur sem erum hætt að nenna að skríða um og bogra yfir matjurtagarðinum. Af þessari ræktunaraðferð dregur félagið nafn sitt. Með því að lyfta beðunum upp á borð þá gerist líka margt annað. Við það þá slítum við kuldaleiðnina frá jörðinni og upp í ræturnar og með því að setja beðin undir plast náum við fram mjög öflugum gróðurhúsaáhrifum. Með réttu vali á plöntum, gróðurmold og réttri útfærslu á borðunum þá vonumst við til að almenningur eigi sjálfur að geta ræktað allt sitt grænmeti yfir sumarmánuðina. Þar á meðal tómata, agúrkur, paprikur og annað það grænmeti sem hingað til hefur verið ræktað í gróðurhúsum. Letigarðar eru komnir í samstarf við aðila vestan hafs og austan til að þróa þessa ræktunaraðferð og aðstoða við val á plöntum þannig að uppskeran geti verið að koma frá því snemma vors og seint fram á haust. Meðal annars er kominn á samstarfssamningur við NordGen í Noregi sem m.a. rekur stærsta fræbanka heims sem nýlega var tekinn í notkun á Svalbarða. Þeim sem hafa áhuga á að gerast meðlimir í Letigörðum og taka þátt í að móta þessa nýju ræktunaraðferð við heimahús, vinsamlega hafið samband.
Allar frekari upplýsingar veitir formaður Letigarða, Friðrik Hansen Guðmundsson, síma: 894 1949.
![]() |
Letigarðar í Kópavog |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 2. júní 2009
Á að hleypa bönkunum á stað aftur án þess að lögin um þá séu hert?
Ég skora á stjórnvöld, nú Þegar verið er að setja bankana aftur á flot, að setja á bankana, starfsmenn þeirra og eigendur lög í líkingu við það sem víða er að finna annarstaðar.
Í lögum margra landa er að finna eftirfarandi lagaákvæði.
- Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
- Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
- Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
- Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum
.
Óbreytt lagaumhverfi þar sem bönkunum er heimilt að vera sjálfir að gambla í kaupum á hótelum, byggingalóðum, fyrirtækjum og fasteignum er í raun fáránlegt.
Eins að stjórnendum bankana skuli vera heimilt að eiga fyrirtæki eða vera hluthafar í fyrirtækum sem eru í viðskiptum hjá þeim sjálfum. Að staðan skuli hafa verið þannig undanfarin ár og vera enn þannig að stjórnendur bankana hafi verið í aðstöðu til að útvega eigin fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í fyrirgreiðslu og lán er fáránlegt.
Verst er þó að stórum eigendum bankana skuli vera leyft að eiga í öðrum fyrirtækum. Við sjáum hvernig það endaði. Kaupþing lánaði fyrirtækum eigenda sinna 500 milljarða. Svipaða sögu er að segja með alla hina bankana. Þetta hefur verið kallað af sumum að "ræna bankana innanfrá".
Ekki bara er núverandi ástand ávísun á sukk, spillingu og ógætilega meðhöndlun fjár heldur eru allar líkur á að núverandi ástand hindri samkeppni. Það hlýtur að vera tilhneiging hjá bönkunum, starfsmönnum og eigendum þeirra að veita ekki bara eigin fyrirtækum "sérstaka" fyrirgreiðslu úr heldur einnig setja steina í götu samkeppnisaðilanna.
Setjum ströng en réttlát lög á bankana.
Komum í veg fyrir aðra helreið í boði bankana, starfsmanna þeirra og eigenda.
![]() |
Viðræður að hefjast um uppgjör bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 30. maí 2009
Á þjóðin nú að borga skuldir óreiðumanna?
Ekki hljómar þessi lausn á Icesave vel í mín eyru. Með þessum gjörningi mun ábyrgðin á Icesave lenda með fullum þunga á þjóðinni. Ég hélt það væri það sem menn ætluðu einmitt ekki að gera.
Í þessari frétt kemur reyndar ekki fram hvað nákvæmlega er verið að semja um. Eins og ég skil þetta hafa menn verið að tala um þrjár leiðir til að loka þessu Icesave máli.
- Ríkið tryggir Icesave innistæður með þeim fjármunum sem liggja í sérstökum tryggingasjóði sem innlánsstofnanir lögðu fé í. Þessi sjóður er til að tryggja innistæður innlánseigenda skv. Íslenskum lögum.
- Ríkið tryggir rúmar 20.000 evrur á hverjum innlánsreikningi sem er skuldbinding okkar skv. reglum ESB.
- Ríkið tryggir allar innistæður í Icesave að fullu óháð upphæð. Geir Haarde taldi sig hafa umboð til þess sem forsætisráðherra að skuldbinda þjóðin fyrir þúsund milljarða þegar hann hélt sjónvarpsávarp í haust í beinni útsendingu og lofaði að ríkið myndi tryggja allar innistæður í Íslenskum bönkum. Og ég sem hélt að Alþingi eitt hefði fjárveitingarvaldið en ekki einstaka þingmenn þó þeir gegni tímabundið ráðherrastöðu.
Ekki kemur fram í fréttinni hvaða leið af þessum þrem er verið að semja um.
Ég neita að trúa því að Íslenska samninganefndin ætli að láta þjóðina taka á sig þessar Icesave skuldbindingar að fullu samkvæmt lið 3 hér að ofan. Ég neita að trúa því að Íslenska samninganefndin ætli að láta þjóðina taka á sig ábyrgðir umfram þessar 20.000 evrur á hverjum innlánsreikning. Best væri að halda sig við Íslensku lögin, samanber lið 1) hér að ofan og láta eignir Landsbankans + það sem er í tryggingasjóð innlánsstofnanna upp í þetta og búið.
Ekki samþykkja að þjóðin sé veðsett út af þessu Icesave sukki. Ekki láta skuldir vegna Icesave falla á almenning á Íslandi.
Mynd: Í túninu á Hrafnabjörgum, Svínadal.
![]() |
Takmarka ábyrgð vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 29. maí 2009
Skipun AGS, borgið niður erlendar skuldir með því að skera niður velferðarkerfið.
Skipun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, er óbreytt og skýr. Borgið niður erlendar skuldir ykkar með því að skera niður velferðarkerfið. Líka hefur komið fram í fréttum að AGS krefst þess að samfélagið verði áfram mergsogið með óheyrilegum stýrivöxtum sem eru langt, langt yfir þeim vöxtum sem allar aðrar vestrænar þjóðir búa við. Þá vilja þeir einnig viðhalda gjaldeyrishöftunum sem kemur í veg fyrir alla nýja erlenda fjárfestingu í landinu.
Með þessum áherslum AGS þar sem gjaldeyristekjur þjóðarinnar eru teknar í afborganir af erlendum lánum, atvinnulífið og almenningur er mergsoginn sem svívirðilegum vöxtum og skera á ríkisútgjöld niður um 1/3 þá er kreppan rétt að byrja hér á Íslandi og ekki mun sjá hér til sólar fyrr en eftir áratug eða svo.
Ég trúi því ekki að stjórnvöld ætli að halda áfram á þessari braut. Hver svo sem gerði þessa áætlun sem AGS keyrir eftir þá mun þjóðin aldrei sætta sig við þessa framvindu mála.
Að skera velferðarkerfið niður um 1/3 og standa á sama tíma við allar skuldbindingar við erlenda lánadrottna mun aldrei verða samþykkt. Ætli ríkisstjórnin virkilega að keyra þetta prógramm AGS fram þá mun allt loga hér í óeirðum.
Það sem á að gera nú er að semja um að frysta greiðslur af öllum erlendum lánum í þrjú til fimm ár. Ef samningar nást ekki um það á samt að hætta að borga af þessum lánum. Lækka síðan stýrivexti í 2% og koma hjólum atvinnulífsins í gang. Þegar ríkissjóður fer aftur að skila hagnaði á að byrja að borga af þessum erlendu lánum okkar.
Að ríkið skuli vera að borga á fullu af erlendum lánum sínum í miðri þessari djúpu kreppu þegar tekjur ríkissjóðs hafa minnkað svona gríðarlega er eitthvað sem verður að endurskoða.
Mynd: Hafnarfjarðarhöfn
![]() |
Ísland stendur undir skuldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 28. maí 2009
Bankarnir ríki í ríkinu sem almenningur vantreystir.
Bankarnir halda að sér spilunum og vilja ekki láta neinn sjá á þau. Almenningi og réttkjörnum fulltrúum hans er haldið í myrkrinu meðan bankamenn landsins fá óáreittir að stunda sín viðskipti. Það virðist að bankarnir óttast inngrip löggjafarvaldsins fái almenningur og fulltrúar hans réttar upplýsingar um stöðu mála.
Engar stofnanir samfélagsins njóta minna trausts en bankarnir. 4% til 6% þjóðarinnar treystir bönkunum skv. skoðunarkönnunum sem gerðar hafa verði á síðustu mánuðum.
Það verður að taka á þessu vandamáli sem þetta vantraust er. Það gengur ekki að þessari mikilvægu þjónustu sem fjármálaþjónusta er sé sinnt af fyrirtækjum sem almenningur ber ekkert traust til.
Það verður að höggva þetta bankakerfi upp, búa til nýtt bankakerfi með nýju fólki svo skapa megi traust um þessa starfsemi.
Ég hefði viljað sjá eftirfarandi breytingar gerðar:
- Stóru ríkisbankarnir þrír verði lagðir niður og einn nýr banki búinn til. Þessi eini ríkisbanki ásamt Sparisjóðunum og öðrum smáum fjármálafyrirtækjum sem eru starfandi í dag er án efa miklu meira nóg til að sinna Íslenska markaðnum næsta áratuginn.
- Til þessa nýja ríkisbanka verði ráðið nýtt fólk.
- Þessi ríkisbanki verði í eigu ríkisins næstu 5 til 10 árin eða þar til öllum málaferlum verður lokið. Málaferlum sem fyrirséð að fara í gang þegar neyðarlögin falla úr gildi eftir 16 mánuði. Hvorki þessi banki né aðrir bankar á íslandi verða nein söluvara fyrr en öllum uppgjörum og málaferlum er verður lokið. Þetta ferli mun án efa taka mörg ár.
Það á að vera forgangsatriði ríkistjórnarinnar að sjá til þess að hér sé starfandi bankakerfi sem almenningur getur treyst. Það er ekki nóg að gera það með því að hella fullt að peningum inn í banka sem enginn treystir.
Mynd: Við Deildartunguhver
![]() |
Vill upplýsingar úr Wyman-skýrslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook