Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvalveiðarnar enn ein mistökin

Það er ljóst að útgerðarmenn landsins geta alls ekki sætt sig við að ferðamannaiðnaðinum verði látið eftir að nytja hvalastofnana við landið.

112_1284Það er dapurlegt að horfa upp á enn ein mistökin eiga sér stað hér á landi í kjölfar bankakreppunnar.

Það grátlega við þetta er að málið snýst ekki um peninga. Þessar veiðar snúast ekki um að ná hagnaði út úr þessum veiðum. Það vita það allir sem vilja vita að þessar veiðar verða reknar með bullandi tapi því það er enginn til að kaupa af okkur þetta hvalkjöt.

Því miður snúast þessar veiðar um eitthvað allt annað en peninga.

Á örfáum árum hefur risið hér upp í landinu umfangsmikill iðnaður sem gengur út á það að sigla með ferðamenn út á hvalamiðin og sýna þeim þessa hvali sem þar halda sig.

Í fyrra fóru yfir 100.000 manns í slíkar hvalaskoðunarferðir. Það samsvarar því að þriðjungur þjóðarinnar hafi farið út á sjó að skoða hvali.

Útgerðarmenn virðast vera að fara á límingunum yfir því að verið sé að nýta miðin umhverfis landið til annarra hluta en veiða.

Ég er orðin algjörlega á móti þessum hvalveiðum. Hvalveiðar eru atvinnugrein gærdagsins. Hvalaskoðun er atvinnugrein framtíðarinnar. Tekjumöguleikar okkar eru margfaldir ef við veðjum á hvalaskoðun í stað hvalveiða.

Hvenær verður það í þessu samfélagi að hagkvæmnissjónarmið verða látin ráða för en ekki einstrengingsháttur og sérhagsmunir einstakra manna?

Ég skora hér með á stjórnvöld að stöðva þegar í stað þessar hvalveiðar, gera hvalskipin hjá Hval hf. upptæk og láta breyta þeim í hvalaskoðunarskip og gefa síðan eitt slíkt á hvern landshluta sem framlag ríkisins til uppbyggingar í ferðaþjónustu á sviði hvalaskoðunar.

Hættum síðan þessu bulli að ætla að fara að veiða hval þvert ofaní vilja alþjóðasamfélagsins.

Mynd: Við ósa Vatnsdalsár.

 


mbl.is Fyrsta hrefnan veidd í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn háskóli er miklu meira en nóg.

Ég hefði haldið að það væri kapp nóg að vera með einn Háskóla á Íslandi. Þið verðið að fyrirgefa en ég sé ekki snilldina í því að reka hér tvo háskóla sem báðir eru að kenna verkfræði sem eru í 700 metra fjarlægð hvor frá öðrum í landi þar sem búa 300.000 manns . Til hvers? Hvað hagnast samfélagið á því að reka tvær rándýrar deildir sem eru báðar að kenna sömu greinina, sitt hvoru megin við flugvöllinn? Þessir skólar munu hvort sem er aldrei geta byggt upp þá rannsóknaraðstöðu sem nauðsynleg er til að þeir geti kennt nemendum sínum sómasamlega til meistaranáms. Hvað þá til doktorsnáms. Þannig má áfram telja hverja greinina á fætur annarri.

IMG_1274 (2)Menntamálaráðherrar undanfarinna ára hafa misst málefni þessara háskóla algjörlega úr böndunum. Fyrirséð var að um leið og tekjur ríkisins drægjust saman yrði að skera niður þetta bruðl.

Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af eru gæði þeirrar kennslu sem allir þessir "sjálfstæðu" háskólar bjóða upp á. Hver hefur eftirlit með gæðum þeirrar kennslu sem þessir skólar eru að bjóða?

Einn lélegur háskóli á Íslandi mun leggja í rúst orðspor allra hinna háskólanna. Erlendis verður enginn greinarmunur gerður á Háskóla Íslands eða Háskólanum á Bifröst svo dæmi sé tekið. Ef einn háskólinn okkar bregst þá mun það spyrjast út um allt. Erlendis munu menn þá segja, "Háskólanám á Íslandi hefur hrakað gríðarlega og þessar háskólagráður þeirra eru í dag jafn mikils virði og krónan þeirra". Það er þetta sem ég hef áhyggjur af með alla þessa sjálfstæðu háskóla sem enginn veit hvað eru að gera. Það sem ég og fleiri óttast er að þetta nám margra þessara skóla sé í raun framlenging á menntaskólanáminu á viðkomandi stað en ekki raunverulegt háskólanám með þeim áherslum sem alvöru Háskólar hafa. 

Rétt er mat þessara finnsku sérfræðinga að við Íslendingar eigum í besta falli að einbeita okkur að tveim í mesta lagi þrem fræðasviðum. Háskólinn á að öðru leiti að einbeita sér að góðri almennri grunnkennslu í BS og BA námi. Meistaranám og doktorsnám sækja Íslendingar síðan erlendis. Þannig var Háskóli Íslands rekinn þar til fyrir  rúmum áratug eða svo.

Það hefur ekkert haft nema afturför í för með sér að mennta okkar unga fólk til meistaranáms og doktorsnáms hér heima. Þetta bankahrun er ekki síst afleiðing þessarar menntastefnu. Hefði allt þetta unga fólk okkar sem lokið hefur háskólanámi á síðustu 10 - 15 árum tekið sínar meistaragráður við erlenda háskóla þá er ég sannfærður um að þessi "bankakynslóð" okkar hefði aldrei keyrt bankana og samfélagið í þrot með þeim hætti sem raun varð á.

 


mbl.is Mæla með tveggja háskóla kerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Njótum kreppuárana framundan.

Í framhaldi af því hruni sem orðið hefur þá þarf nýja hugsun til að takast á við þann raunveruleika sem við okkur blasir og mun blasa við okkur næstu árin. Þó hlutirnir gangi ekki á sama hátt og þeir hafa gert síðasta áratuginn þá er samt engin ástæða til þess að við getum ekki notið lífsins. Við verðum bara að gera það með aðeins öðrum hætti.

02092007017Nú þegar heilu atvinnugreinarnar eru hrundar og víða búið að draga verulega saman seglin þá erum við í raun að horfa á gerbreytt samfélag. Þessi kreppa er ekki neitt sem hverfur á einu eða tveim árum. Við erum að horfa upp á fimm til tíu ár ef ekki lengur þar til við komumst upp á svipað stig og var 2004 til 2006. Nú er það verkefni hvers og eins að fóta sig í þessu nýja umhverfi og njóta þessara kreppuára sem framundan eru.

Sú "blessun" sem kreppan er að færa okkur er aukinn frítími. Ef fólk notar þennan frítíma sjálfum sér og öðrum til ánægu þá munu kreppuárin framundan geta orðið að bestu árum ævinnar.

Nú og á næstu árum munu margir hafa tíma til að stunda allskonar tómstundir, sport og útivist. Margt skemmtilegt "sportið" tengist líka því að spara sér matarinnkaup. Það mega allir fara út á sjó og veiða sér í matinn. Margir gera það og eiga alltaf "heimaveiddan" fisk í frystikistunni. Aðrir fara og rækta kartöflur og grænmeti. Fjöldi fólks er á ferðinni þessa dagana að tína svartbaksegg sem mörgum þykja lostæti. Einhverjir eru búnir að koma sér upp þrem, fjórum hænum og eru alltaf með ný egg með morgunmatnum. Svona má áfram telja möguleikana sem nú opnast fjölda fólks með auknum frítíma.

Þar fyrir utan gefst svo tími til ótal margs annars sem hægt er að njóta. Má minna á listasöfnin, menninguna og allar ólesnu bækurnar.

Já, við eigum að gera komandi kreppuár að bestu árum ævinnar. Nú þegar við höfum eignast aukinn frítíma þá eigum að grípa tækifærið og njóta þessa frítíma.

Mynd: Smábátahöfnin á Akranesi.

 


Koma þarf í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja

Þingvellir 2009006Það er mikil hætta á að nú falli hvert fyrirtækið á fætur öðru í þeirri gjaldþrotahrinu sem gengur yfir. Við gjaldþrot þá verða alltaf fjöldi fyrirtækja og einstaklinga sem sem tapa fé. Slík töp ofaná slæmt árferði er ekki góður kokteill. Það er því skiljanlegt að menn óttist "dóminnáhrif" sem gætu þýtt enn fleiri gjaldþrot en ætlað var.

Fjöldagjaldþrot fyrirtækja er engum í hag. Nú þegar ríkið er með nær alla banka landsins á sínum vegum þá hlýtur að vera hægt að beita þeim í þeim tilgangi að takmarka það tjón sem þessi gjaldþrot eru að valda. 

 


mbl.is Fjöldi fyrirtækja í ríkiseigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til Þingvalla á hestbaki.

Þingvellir 2009004Að ríða til Þingvalla í veðri eins og það var í dag er hreint ótrúleg upplifun. Við lögðum upp frá hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ skömmu eftir hádegi í dag.

Við vorum búnir fyrr um daginn að fara með bíl og hestakerru til Þingvalla. Það var heitt í veðri svo við tókum okkur góðan tíma. Þetta var fyrsta dagleiðin þetta árið fyrir bæði menn og hesta. 

Við vorum tveir og höfðum fimm til reiðar. Þetta var rólegheita ferð sem tók okkur 8 tíma. Þegar komið var til IMG_3743Þingvalla var sprett af hestum, áð smá stund og síðan ekið í bæinn.

Að koma ríðandi til Þingvalla og ríða eftir þessum þúsund ára gömlu reiðslóðunum sem liggja með bökkum Öxarár fyrir utan allt annað sem maður sér og upplifir í svona ferð er eitthvað sem allir þeir sem hafa heilsu og getu til ættu að gera.

 

 

Þingvellir 2009025

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Glæsileg frammistaða hjá Jóhönnu.

Þetta er glæsileg niðurstaða. Ég óska Jóhönnu og samverkafólki til hamingju með frábæra frammistöðu.

 


mbl.is Ísland í 2. sæti í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður fagnað á Austurvelli í kvöld?

Flutningur Jóhönnu var frábær.

Ef við við vinnum þá verður án efa fagnað á Austurvelli fram á nótt.

 


mbl.is Jóhönnu vel fagnað í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gefa gömlu hefðum þingsins fingurinn.

Er einhvern tíma var þörf fyrir að standa vörð um þau gildi sem hafa gert okkur að þjóð og þann sameiginlega menningararf sem við eigum, þá er það nú.

Að snúa baki við þeim hefðum sem hafa tíðkast á elsta þingi heimsins á þeim ögurtímum sem við nú lifum er ekki hátterni sem ég kann að meta.

 


mbl.is Óþarfi að blanda Guði inn í þinghaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Böðull Alþjóða gjaldeyrissjóðsins mættur til vinnu.

Það er ljóst að markmið Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, með veru sinni á Íslandi er bara eitt: Tryggja hag erlendra lánadrottna.

Við verðum að átta okkur á því að "eigendur" AGS eru Seðlabankarnir í Evrópu og Bandaríkjunum. Þessir bankar eru að tapa gríðarlega á gjaldþroti íslensku bankanna.

110_1096Kaupþing var þriðja stærsta gjaldþrot sem orðið hefur í heiminum. Glitnir var það fimmta stærsta. Þessi gjaldþrot lenda með einum eða öðrum hætti á Seðlabönkum þessara landa í gegnum bankana sem eru að tapa sínu fé á Íslensku bönkunum. Þessir Seðlabankar sem standa að AGS bera ábyrgð á þeim bönkum sem eru að tapa miklu fé á íslensku bönkunum. Þessir erlendu Seðlabankar hafa orðið að dæla gríðarlegu fé inn í þessa banka sína vegna þessa taps.

Fulltrúi þessara erlendu Seðlabanka, starfsmaður AGS, er nú mættur hér til að tryggja hagsmuni eigenda sinna. Tilgangurinn sá eini að blóðmjólka samfélagið til að ná sem mestu upp í þetta gríðarlega tap.

Ástæða þess að böðull AGS vill halda hér óbreyttum stýrivöxtum er eingöngu sú að útvega Seðlabanka Íslands nægjanlegt fé til að hann geti borgað vexti af þeim lánum sem hann er í ábyrgð fyrir. Lækki menn stýrivexti eins og um hefur verið rætt niður í 2% til 3% mun Seðlabanki Íslands ekki geta staðið í skilum með greiðslur. Það vill AGS ekki að gerist. Böðli AGS er nokk sama þó hér fari allt í þrot. Þó þessir vextir verði þess valdandi að 80% allra fyrirtækja í landinu fari í gjaldþrot og helmingur þjóðarinnar missi húsnæði sitt. Bara að Seðlabanki Íslands greiði af lánum.

Að vera hér með gjaldeyrishöft um ókomin ár er á sama hátt eingöngu til þess að tryggja hag hinna erlendu lánadrottna. Þannig kemst Seðlabanki Íslands yfir allan þann gjaldeyrir sem kemur inn í landið. Með því að Seðlabankinn stjórnar hverri evru sem við fáum fyrir okkar útflutning þá tryggir það getu Seðlabanka Íslands til að greiða af erlendum lánum sínum. Böðli AGS er slétt sama þó þessi gjaldeyrishöft komi í veg fyrir alla nýja erlenda fjárfestingu í landinu því meðan þessi gjaldeyrishöft eru þá koma engir erlendir fjárfestar til landsins.

AGS ætlar að láta almenning og fyrirtækin á Íslandi með þessum hætti borga sem mest upp í kröfur erlendu lánadrottna bankana. Þeir ætla sér að þurrausa alla sjóði almennings og komast yfir allar okkar auðlindir. Þeir munu ekki hætta fyrr en þeir eru búnir að arðræna okkar og líkskjör hér orðin eins og var upp úr 1960.

Viðskiptaráðherra og fleiri áhrifamenn í stjórnsýslunni fullyrða að fyrsti hluti láns AGS hafi ekki verið hreyfður. Lánið liggi óhreyft á banka í Bandaríkjunum á 2% vöxtum. Við borgum hins vegar af þessu láni 7% vexti. Hvaða fjármálasnilli liggur þar á bak við skil ég ekki.

Þá hefur AGS ekki enn greitt út lán númer tvö. Það átti að greiðast út í lok febrúar.

Til hvers erum við að taka þessi lán frá AGS ef við erum ekki að nota þau?

Af hverju er AGS að stjórna ríkisfjármálunum?

Af hverju erum við að fara eftir skipunum AGS og höldum hér uppi okurvöxtum og gjaldeyrishöftum?

Er það vegna þess að við höfum tekið lán frá þeim sem við erum ekki að nota?

Af hverju hættum við ekki í þessu prógrammi hjá AGS og stýrum okkar málum sjálf?

Við vitum þá í það minnsta að þær ákvarðanir sem teknar eru, þær eru teknar með hagsmuni okkar Íslendinga að leiðarljósi. Hagsmunir erlendra lánadrottna verða þá ekki látnir ráða för eins og nú er.

Erum við virkilega að afsala okkur allri stjórn ríkisfjármála í hendur erlendra manna vegna þess að við höfum tekið lán sem við erum ekki að nota?

Hversu ömurleg er sú staða sem búið er að koma okkur í?

Ég segi: Hættum í prógramminu hjá AGS, við þurfum hvort sem er ekki að nota lánin þeirra. Neitum að borga Krónubréfin og vextina af þeim, afskrifum þau. Borgum bara innlánstrygginguna vegna Icesave, rúmar 20.000 evrur vegna hvers innlánsreiknings.

Lækkum strax stýrivexti í 2% og afnemum gjaldeyrishöftin. Engin þörf er fyrir gjaldeyrishöft þegar Krónubréfin eru afskrifuð.

Hefjum síðan uppbyggingu í samstarfi við Lífeyrissjóðina í landinu og gerum átak í að fá hingað inn erlenda fjárfesta og bjóðum þeim góða skattalega aðstöðu eins og best gerist í Kanada, Írlandi og víðar þar sem stjórnvöld hafa reynt að fá inn erlend fyrirtæki og erlenda fjárfestingu.

Um 5.000 erlend fyrirtæki hafa staðsett sig í Kanada á síðustu árum vegna þeirrar aðstöðu sem erlendum fyrirtækjum er boðið þar upp á. Bjóðum erlendum fyrirtækjum slík hið sama hér á landi og hefjum nýja sókn.

 

Mynd: Minnismerkið um Stefán G Stefánsson, Skagafirði.

 


mbl.is Þaulsetin gjaldeyrishöft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Jöklabréfin aðallega í eigu Íslendinga?

Nú gengur sú saga fjöllunum hærra að eigendur Jöklabréfanna eru ekki einhverjir Austurískir tannlæknar heldur Íslendingar sem geymdu fé sitt í Íslensku bönkunum í Lúxemborg. 

HeklaMargir Íslendinga  náðu að senda óhemju fé úr landi inn á leynireikninga í Íslensku bönkunum í Lúxemborg. Íslensku bankarnir í Lúxemborg sáu um að ávaxta þetta fé og fengu m.a. bankana í löndunum í kring til að gefa út Jöklabréf í samstarfi við þá og Seðlabanka Íslands.

Þá eru sömu heimildir sem halda því fram að þessi Jöklabréfaútgáfa hafi í mörgum tilfellum verið að frumkvæði Seðlabanka Íslands. Bankinn hafi ekki viljað taka fé að láni erlendis sem honum bauðst á mjög hagstæðum kjörum því slík lán koma fram sem skuld hjá ríkinu. Ofurkapp hafi verið lagt í að sýna ríkissjóð skuldlausan og öllu til kostað þannig að svo mætti vera. Þess vegna hafi þessi rándýra leið verið farin til að útvega erlendan gjaldeyrir inn í landið. Fyrir 18 mánuðum voru útistandandi Jöklabréf fyrir meira en 700 milljarða. Raunveruleg skuldastaða ríkissjóðs var því í mínus upp á 700 milljarða. Jöklabréfin voru því notuð til að "falsa" raunverulega stöðu ríkissjóðs.

Þessi Jöklabréf hvíla nú eins og mara á samfélaginu. Gengið er skráð 50% of lágt vegna þeirra. Þar verður engin breyting á næstu 2 til 3 árin er spáð. Gríðarlega ströng gjaldeyrishöft eru í gildi vegna þessara Jöklabréfa. Þessi gjaldeyrishöft valda því að engir erlendir fjárfestar koma til landsins á meðan þessi höft eru í gildi.

Allar þessar hörmungar vegna Jöklabréfa sem eru að stærstum hluta ef ekki öllu leyti í eigu Íslendinga. Í mörgum tilfellum er þetta illa fengið fé, fé sem svindlað hefur verið út úr þessu samfélagi þar sem menn hafa hirt féð úr landi en skilið skuldirnar eftir. Skuldir sem með einum eða öðrum hætti lenda á almenningi að borga.

Í þessari stöðu er bara einn leikur. Neitum að borga þessi Jöklabréf. Borgum ekki krónu meir af þessum Jöklabréfum. Afskrifum þessi bréf og afléttum gjaldeyrishöftunum. Þá mun krónan ná jafnvægi á tveim til þrem mánuðum í stað tveggja til þriggja ára. Ef gengið lagast þá mun verðbólgan strax lækka og þá nun verðtryggingin á innlendu lánunum hætta að hækka.

Mynd: Á leið upp að Hofsjökli, Sultartangalón og Hekla.

 

 


mbl.is Það versta mögulega afstaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband