Letigarðar, The Peoples Garden of Iceland

Áhugamannafélag um matjurtarækt í görðum við heimahús, Letigarðar, The Peoples Garden of Iceland, hefur fengið aðstöðu að Dalvegi 32, Kópavogi, rétt hjá BYKO, fyrir starfsemi sína og er að koma sér þar fyrir. Þar var áður Gróðrarstöðin Birkihlíð.

Dalvegur 32

Félagið verður með þrennskonar starfsemi í Letigarðagróðrarstöðinni að Dalvegi 32, Kópavogi.

Matjurtagarðar.

Í fyrsta lagi er almenningi boðið að rækta matjurtir í bestu ræktunarbeðum á Höfuðborgarsvæðinu á besta stað í bænum að Dalvegi 32, Kópavogi. Garðarnir sem boðið er upp á eru ræktunarbeðin sem Gróðrarstöðin Birkihlíð bjó til og notaði undir sína ræktun í mörg ár. Þessi beð eru gull til að rækta í matjurtir. Boðið verður upp á garða sem eru 10m2, 15m2 og 25m2. Þeir sem hafa áhuga á að rækta matjurtir í beðum gróðrarstöðvarinnar í skjóli aspanna að Dalvegi 32, Kópavogi, vinsamlega hringið í síma 894 1949 eða 615 0730 og gerið pantanir. Verð kr. 4.000 / 6.000 / 8.000.

 

Útimarkaður með grænmeti.

Í öðru lagið þá hyggst félagið opna útimarkað með grænmeti í aðalstöðvum Letigarða að Dalvegi 32, Kópavogi. Þar vill félagið bjóða þeim sem það vilja upp á aðstöðu til að koma og selja sína framleiðslu. Þessi aðstaða mun standa öllum til boða, jafnt almenningi og garðyrkjubændum. Öllum er velkomið að koma og setja upp borð og selja sína framleiðslu, hvort sem það eru kartöflur, rófur og kál, rabbabari, rifsber eða krækiber eða hvað eina sem fólk er að rækta eða tína. Til stendur að opna þennan markað í byrjun júlí og hafa hann opinn þrisvar í viku, miðvikudaga, föstudaga og laugardaga frá 9.00 til 18.00. Markaðurinn verður opinn fram í október. Áhugasömum er bent á að panta pláss í tíma. Pöntunarsími 894 1949.

 

Letigarðar í heimagörðum (fyrir næsta vor 2010).

Í þriðja lagi eru það „Letigarðarnir“ en svo köllum við vermireiti sem settir eru á borð. Beðið og þar með plönturnar eru þá komnar í þægilega hæð til að sýsla við. Nú hættum við öllu bogri og bjástri þó við séum með matjurtarækt í görðunum okkar heima. Þetta er ræktunaraðferð fyrir okkur sem erum hætt að nenna að skríða um og bogra yfir matjurtagarðinum. Af þessari ræktunaraðferð dregur félagið nafn sitt.  Með því að lyfta „beðunum“ upp á borð þá gerist líka margt annað. Við það þá slítum við kuldaleiðnina frá jörðinni og upp í ræturnar og með því að setja „beðin“ undir plast náum við fram mjög öflugum „gróðurhúsaáhrifum“. Með réttu vali á plöntum, gróðurmold og réttri útfærslu á borðunum þá vonumst við til að almenningur eigi sjálfur að geta ræktað allt sitt grænmeti yfir sumarmánuðina. Þar á meðal tómata, agúrkur, paprikur og annað það grænmeti sem hingað til hefur verið ræktað í gróðurhúsum. Letigarðar eru komnir í samstarf við aðila vestan hafs og austan til að þróa þessa ræktunaraðferð og aðstoða við val á plöntum þannig að uppskeran geti verið að koma frá því snemma vors og seint fram á haust. Meðal annars er kominn á samstarfssamningur við NordGen í Noregi sem m.a. rekur stærsta fræbanka heims sem nýlega var tekinn í notkun á Svalbarða. Þeim sem hafa áhuga á að gerast meðlimir í Letigörðum og taka þátt í að móta þessa nýju ræktunaraðferð  við heimahús, vinsamlega hafið samband.

  

Allar frekari upplýsingar veitir formaður Letigarða, Friðrik Hansen Guðmundsson, síma: 894 1949.

 


mbl.is Letigarðar í Kópavog
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Gott framtak hjá þér Friðrik og jákvætt í allri neikvæðninni!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.6.2009 kl. 23:49

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Snilld! Þetta er alvöru verðmætasköpun, enginn pappírs- eða loftbóluhagnaður heldur beinharður sparnaður í matarinnkaupum heimilisins. Í framtíðinni þegar matvæli verða af skornum skammti á heimsvísu, þá verða svona auðæfi miklu eftirsóttari en einhver verðbréf og kúlulánaviðskipti, þess vegna er m.a. mikilvægt að standa vörð um fullveldi Íslands og sjálfsákvörðunarrét sem snýr að matvælaframleiðslu. (Tek það fram vegna samhengisins að ég sit í stjórn samtaka fullveldissinna.)

P.S. Er ekki hægt að bjóða þeim fjölmörgu sem hafa þurft að leita til fjölskylduhjálpar og mæðrastyrksnefndar að fá inni í svona ræktun? Með svona flotta aðstöðu ætti hver sem á annað borð er vinnufær að geta unnið fyrir matnum sínum, bókstaflega!

Guðmundur Ásgeirsson, 4.6.2009 kl. 00:27

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Ekkert mál Guðmundur, allir eru velkomnir og nóg er plássið þarna á Dalveginum.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.6.2009 kl. 00:36

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband