Þriðjudagur, 23. júní 2009
Verkefni ríkisstjórnarinnar hvert öðru erfiðara.
Þau verkefni sem það fólk sem nú situr í ríkisstjórn og á Alþingi er að glíma við eru svakaleg. Það er sama hvar borið er niður. Allstaðar er staðan svipuð, allar leiðir sem hægt er að fara eru vondar leiðir. Tekjutap ríkissjóðs samsvarar því að segja þarf um þriðja hverjum ríkisstarfsmanni til að koma fjármálunum í jafnvægi. Gjaldeyristekjur af fiskveiðum hafa dregist saman um þriðjung mælt í evrum. Álverð hefur fallið úr 3.500 $/tonn í 1.200 $/tonn. Ég þori ekki einu sinni að reikna út hvað það þýðir í tekjutapi í evrum fyrir þjóðarbúið og Landsvirkjun.
Þar fyrir utan er bankakerfið gjaldþrota og óstarfhæft. Afleiðingar þess eru að verða skelfilegar, gjaldþrot fyrirtækja og fjöldaatvinnuleysi. Atvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Vextir eru svo háir að engin ný atvinnutækifæri eru að verða til og gjaldeyrishömlur koma í veg fyrir erlendar fjárfestingar.
Þessu til viðbótar þarf ný ríkisstjórnin að takast á við ævintýralegan rekstur á Seðlabankanum sem lánaði viðskiptabönkunum 350 milljarða án ábyrgða. Landsbankanum sem veðsetti þjóðina fyrir 700 til 1.500 milljarða, allt eftir hvernig á það er litið. Og samkomulagið við Breta og Hollendinga um þetta Icesave mál þar sem fyrri ríkisstjórn virðist alveg hafa spilað rassinn úr buxunum þegar hún gerði þann samning um þau mál í haust. Svo má endalaust telja.
Mitt mat er það að það væri alveg sama hvaða flokkar og hvaða einstaklingar það væru sem nú gengdu ráðherraembættum, á þá yrði deilt gríðarlega og um þá stæði orrahríð.
Þegar maður horfir fram á veg og hugsar um allar þær erfiðu ákvarðanir sem bíða stjórnvalda þá er nú eins gott að þeir sem nú sitja á ráðherrastólum hafi sterk bein og bakland þeirra sé gott. Ég held það séu ekki margir sem hafa áhuga á sitja á ráðherrastól á Íslandi á næstu þrem árum. Það má kannski líkja því við pólitískt sjálfsmorð að taka að sér ráðherraembætti í dag. Í besta falli er það Rússnesk rúlletta. Það eru allar líkur á því að pólitískum ferli sé lokið eftir ráðherradóm við þessar aðstæður.
Guð blessi það fólk sem nú situr á Alþingi með öll þessi þungu mál í fanginu.
Mynd: Refur við Arnarpoll, Veiðivötnum.
![]() |
Eignir duga ekki fyrir Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 21. júní 2009
Veist þú hvað varð um peningana?
Hvað varð um alla peningana sem voru í bönkunum? Það ganga þær sögur að það hafi ekki verið til dollar í Landsbankanum þegar ríkið yfirtók bankann. Svipuð staða hafi verið í hinum bönkunum. Hvað varð um alla peningana sem voru í bönkunum og hvað varð um peninga útrásarvíkinganna?
Enn hefur þeim sem vilja koma fram og segja frá ekki verið boðin sakaruppgjöf. Það var rætt um það í upphafi að bjóða þeim sem vildu koma fram með upplýsingar sem gætu upplýst undanskot eða lögbrot, þeim yrði boðin friðhelgi gegn lögsókn. Ekkert slíkt hefur litið dagsins ljós.
Eins eru það þeir sem búa yfir ýmsum upplýsingum en vegna ýmissa aðstæðna vilja ekki, geta ekki eða hreinlega nenna ekki að koma fram með þessar upplýsingar og fara í gegnum allt það ferli sem því mun fylgja.
Nú eru liðnir 8 mánuður frá gjaldþroti bankana. Enginn hefur enn verið ákærður. Rannsóknaraðilar virðast ekki finna eða fá í hendur þau gögn sem þarf til að þeir geti ákært. Er ekki rétt að við almennir borgarar reynum að aðstoða við þessa rannsókn? Ég vil leggja mitt af mörkum.
Það þarf að skapa þeim sem vilja koma fram með upplýsingar um undanskot og lögbrot sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins og eftir það vettvang til að láta þær í té. Það þarf að skapa vettvang þar sem þessu fólki er boðið að koma fram með sínar ábendingar án þess að það þurfi sjálft að stíga fram undir nafni og að það geti lagt slíkar upplýsingar fram í skjóli nafnleyndar.
Þeir sem vilja koma slíkum upplýsingum á framfæri en vilja ekki fara með þær til lögreglu eða í fjölmiðla, þeim er velkomið að koma slíkum upplýsingum á framfæri við undirritaðan, netfangið er fhg@simnet.is eða síma 894 1949.
Fyllsta trúnaði er heitið.
Undirritaður mun koma þeim upplýsingum sem honum berst í hendur til réttra aðila og upplýsa að þetta séu nafnlausar ábendingar sem honum hafi borist í gegnum þessa vefsíðu.
Mynd: Blönduhlíðarfjöll
![]() |
Rætt við matsfyrirtækin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 20. júní 2009
Fækkum sendiráðum úr 17 í 6
Ég hef hvatt til þess að við Íslendingar skerum niður utanríkisþjónustuna um 80%. Ég hef hvatt til þess að við fækkum sendiráðum okkar úr 17 í 6. Utanríkisþjónusta Íslands er eins og bankakerfið okkar, allt, allt of stórt fyrir umfang og stærð þjóðarinnar.
Þess vegna er ástæða til þess að fagna þessum fyrstu skrefum ríkisstjórnarinnar í þessa átt en betur má ef duga skal.
Ef einhvern tíma hefur verið ástæða til að spara og draga saman seglin í utanríkisþjónustunni þá er það nú.
Auðvita á að skera utanríkisþjónustuna niður í það sem hún var fyrir 1960. Það mun enginn finna fyrir því.
Ég hefði vilja halda þrem sendiráðunum á hinum Norðurlöndunum, í Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi og auka samstarf utanríkisþjónustu okkar við sendiráð þessara landa. Samstarf sem þegar er í gangi. Þannig sér t.d. sendiráð Danmerkur í Peking um vegabréfsáritanir fyrir Kínverja sem vilja koma til Íslands.
Þó starfsmenn okkar í sendiráðinu í Peking hafi ekki þekkingu og getu til að stimpla vegabréf kínverskra ferðamanna á leið til Íslands þá vil ég halda því og hafa það jafnframt sem eina sendiráðið Íslands í Asíu.
Þá vil ég halda einu sendiráði í Ameríku og hafa það í Kanada vegna tengslanna við Íslendingabyggðirnar þar. Öðru vil ég halda í höfðastöðvum ESB í Brussel. Þá hefði ég viljað loka öllum ræðismannsskrifstofum.
Fastanefndunum eigum við að halda, í Genf, Strassborg, hjá Nato og í New York.
Fjárlög Utanríkisráðuneytisins eru þessi:
- 2007 - 7,5 milljarðar
- 2008 - 8,9 milljarðar
- 2009 - 11,4 milljarðar
Ljóst er að í Utanríkisráðuneytinu hafa menn á síðustu árum verið í orðsins fyllstu merkingu á fylleríi, slík er útgjaldaaukningin.
Með því að skera utanríkisþjónustuna niður í það sem hún var fyrir 1960 þá færu 2 til 3 milljarðar í þessi útgjöld. Við það sparast á ári um 9 milljarðar.
Með sölu eigna þar sem þessi 11 sendiráð eru sem yrði lokað þá fást sjálfsagt 9 til 12 milljarðar.
Samanlagt eru þetta um 20 milljarðar sem svarar til um 20% af útgjöldum til heilbrigðismála. Starfsfólkið í heilbrigðisþjónustunni ætlar að taka á sig 10% launalækkun sem eru um 10 milljarðar.
Alls er Þetta tvennt, framlag starfsfólks og sparnaður í utanríkisþjónustunni um 30 milljarðar sem er nánast sá sparnaður sem ætlunin er að ná fram á næsta ári í heilbrigðisþjónustunni.
Mynd: Við Varmahlíð
![]() |
Sendiherrum fækkað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 19. júní 2009
Mun ekkert fást upp í Icesave úr þrotabúi Landsbankans?
Mín tilgáta er sú að það muni lítið sem ekkert fást upp í Icesave skuldirnar úr þrotabúi Landsbankans. Ástæðurnar eru tvær:
Í fyrsta lagi þá munu ákvæði neyðarlagana þar sem lánadrottnum er mismunað, það er, kröfur innistæðueigenda eru gerðar rétthærri en aðrar kröfur, það ákvæði mun ekki halda fyrir dómi. Þessi neyðarlög munu falla úr gildi eftir 15 mánuði og þá geta lánadrottnar bankana lögsótt þá. Ríkinu og bönkunum verður örugglega stefnt vegna þessarar mismununar. Í öllum réttarríkjum er það grundvallaratriði að kröfuhöfum sé ekki mismunað. Að gera þetta svona eftirá eins og gert var þegar neyðarlögin voru sett á hlýtur að vera mjög hæpið. Mín tilgáta er sú að enginn af stóru kröfuhöfunum muni sætta sig við þetta. Mín tilgáta er sú að það verði erlendir dómstólar sem muni ákvarða hvort Íslenska ríkinu sé stætt á að mismuna kröfuhöfum með þessum hætti. Mín tilgáta er sú að ríkið muni tapa slíku dómsmáli. Það sem kemur þá til skiptana úr þrotabúi Landsbankans mun þá skiptast milli lánadrottnana. Lítið mun þá fást upp í Icesave og þjóðin mun borga rest.
Í öðru lagi þá er það mín tilgáta að Breska fjármálaeftirlitið sem er búið að sýsla með eignir Landsbankans í Bretlandi frá því í október, í tæpa níu mánuði, það er þegar búið að ráðstafa öllum eignum bankans í Bretlandi til breskra aðila. Mín tilgáta er sú að þessi eignaupptaka hafi þegar átt sér stað og Íslenska fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt fljótlega eftir að Íslendingar hafa undirritað Icesave samninginn og tekið á sig að fullu allar ábyrgðir vegna Icesave, þá tilkynni Breska Fjármálaeftirlitið því Íslenska hvað hafi fengist fyrir eignir Landsbankans í Bretlandi. Mín tilgáta er sú að þá muni koma í ljós að Breska fjármálaeftirlitið hafi afhent þessar eignir breskum aðilum fyrir slikk. Með þessum hætti fá Bretar eitthvað upp í það tjón sem bankarnir þeirra urðu fyrir vegna tapaðra útlána til Íslensku bankana. Yrði það ekki þannig sem Íslendingar myndu höndla Grænlenskan banka sem hefði hagað sér á Íslandi eins og Landsbankinn hagaði sér á Bretlandi? Ég held það sé alveg fyrirséð að það verður ekki mikið sem Íslendingar fá til skiptana úr eignasafni Landsbankans á Bretlandi.
Ef Alþingi samþykkir þennan Icesave samning þá er það mitt mat að það eru allar líkur á því að það muni lítið sem ekkert koma úr þrotabúi Landsbankans upp í þessa Icesave reikninga og þeir muni lenda með fullum þunga á þjóðinni.
Mynd: Við Norðurá.
![]() |
Enginn sýnt fram á að samningurinn stofni Íslandi í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 17. júní 2009
Nýja sjálfstæðisbaráttan hafin á 17. júní á Álftanesi.
Það fer vel á því að sjálfstæðisbaráttan hin nýja sem kallað var eftir í hátíðarræðu á Austurvelli í dag hefjist á Álftanesi, í sömu sveit og Forsetaembættið hefur sinn embættisbústað.
Uppreisn íbúðareigandans sem lagði hús sitt í rúst í stað þess að afhenda það bankanum gefur tónninn um það sem koma skal.
Mín spá er sú að búsáhaldabyltingin sé bara upphafið að því sem koma skal. Uppreisn almennings gegn siðblindum bankamönnum, gegnumrotnu embættismannakerfi og svikulum stjórnmálamönnum er rétt að hefjast. Stjórnmálamönnum sem hafa lofað að vernda heimilin og fyrirtækin í landinu en hafa ekki dug, döngun, kraft eða þá áræðni sem þarf til að standa við neitt af því sem þeir lofuðu.
Í því ástandi sem er að skapast þá hefur þjóðin enga þolinmæði gagnvart lýðskrumurum sem standa ekki við það sem þeir lofa fyrir kosningar og svíkja lit í öllum sínum helstu baráttumálum.
Ég spái því að samþykki Alþingi Icesave samningin og siðblindum fjárglæframönnum verður leyft að halda áfram að stjórna bönkum landsins þá munu margir fleiri bílar brenna og mörg hús fara á sama veg og þetta hér á Álftanesi.
![]() |
Bankinn fékk ekki lyklana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 16. júní 2009
Eru auðmenn Íslands að krefjast undirritunar Icesave samningsins?
Þeir innlendu aðilar sem eiga í dag fé inni á bankareikningum á Íslandi gætu tapað miklu neiti Alþingi að staðfesta þennan Icesave samning sem nú liggur fyrir Alþingi. Hafni Alþingi þessum samningi þá skapast óvissa um þær innistæður sem geymdar eru í bönkum á Íslandi.
Samkvæmt Íslenskum lögum þá er ekki ríkisábyrgð á innistæðum í Íslenskum bönkum. Þessar innistæður tryggir sérstakur Tryggingasjóður innlána. Eins og ég skil þetta mál þá eiga innistæðueigendur aðeins rétt á bótum frá þessum Tryggingasjóði fari banki í gjaldþrot. Dugi sjóðurinn ekki fyrir þessum innistæðum þá tapar fólk því fé sem Tryggingasjóðurinn nær ekki að tryggja.
Samkvæmt regluverki ESB þá eiga bankar á ESB svæðinu að tryggja að lámarki rúmar 20.000 evrur á hverjum innistæðureikningi. Icesave samningarnir ganga út á að standa við þá skuldbindingu.
Þáverandi forsætisráðherra lofaði, án umboðs frá Alþingi, að allar innistæður væru að fullu tryggðar í öllum Íslenskum bönkum. Alþingi, sem eitt getur skuldbundið þjóðina fjárhagslega, hefur að því er ég best veit aldrei staðfest þetta. Enda er þetta innistæðulaust loforð. Ekkert fé er til í bönkunum til að standa við þessi orð þáverandi forsætisráðherra. Álíka og ef hann hefði lofað flugvelli þar og jarðgöngum hér um leið og hann bað Guð og blessa þjóðina. Slík loforð eru innistæðulaus þar til Alþingi er búið að staðfesta þau með lögum.
Auk þess er ekki til neitt fé til þess að tryggja þessar innistæður í þessum gjaldþrota bönkum sem allt eins gætu aftur orðið gjaldþrota. Þetta fé verður að koma með einum eða öðrum hætti frá almenningi því bankarnir eru tómir. Að innistæður í þessum bönkum séu að fullu tryggðar er í raun ekkert annað en innantóm orð eins manns sem horfinn er á braut úr stjórnmálum. Hér er heldur ekki um neitt smá mál að ræða ef tryggja á að fullu allar innistæður hér innanlands. Alls er þetta talið vera töluvert stærra dæmi en allt Icesave málið. Og ekki til króna upp í þessar innistæður frekar en upp í Icesave.
Ég spyr, er ætlast til þess að þjóðin borgi Icesave og tryggi að auki að fullu allar innistæður á Íslandi?
Mín tilgáta er sú að þeir innlendu eigendur sem eiga fé sem geymt er í bönkum hér heima leggi nú mjög hart að ríkisstjórninni og alþingismönnum að samþykkja Icesave samninginn. Fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem náði að selja í Landsbankanum hlutabréf fyrir rúmar 100 milljónir nokkrum dögum fyrir hrun er án efa með það fé inni á einhverjum innlánsreikningi. Hann vill ábyggilega að þjóðin taki á sig ábyrgðir vegna Icesave og samþykki samninginn. Því verði það raunin þá er björninn unnin fyrir hann og aðra íslenska innistæðueigendur sem þá geta verið öryggir um að þjóðin verður líka látin tryggja og í framhaldi borga þeim þeirra innistæður.
Þá er það mín tilgáta að það hafi ekki verið nein tilviljun að það eigi að byrja að borga Icesave eftir sjö ár. Það passar fínt fyrir núverandi stjórnvöld, það gefur þeim frí í tvö kjörtímabil áður en þjóðin þarf að takast á við þetta mál. Forystumenn ríkisstjórnar gera væntanlega ráð fyrir að þau verið þá horfin af sjónarsviðinu. Núverandi stjórnvöld velja þá leið að flýja vandann og ætla annarri kynslóð að takast á við Icesave greiðslurnar. Þess vegna er núverandi stjórnvöldum slétt sama um þetta mál.
Já, látum börnin borga þetta. Látum þau taka þennan slag fyrir okkur, það er inntak þessa samnings.
Ég skora á Alþingi að fella þennan samning. Ég skora á Forsetann að neita að staðfesta lögin verði þau lögð fyrir hann.
Við eigum ekki að greiða neitt vegna þessa Icesave máls nema við verðum dæmd til þess eftir málaferli fyrir alþjóðlegum dómstólum.
Í öllu falli eigum við alls ekki að skuldbinda komandi kynslóðir vegna þessa máls eins og nú er verið að reyna að gera með fáránlegu kúluláni og svívirðilegum vöxtum.
Á lágkúran hér sér engin takmörk?
Mynd: Júní nótt á Vallabökkunum.
![]() |
Enn leynd yfir Icesave-samningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 15. júní 2009
Siðblindir bankamenn og gegnumrotið embættismannakerfi?
Er það virkilega svo að á þessum fimm árum þegar bankakerfið okkar var allt í einkaeign þá hafi eigendur bankana valið til trúnaðarstarfa fyrir sig í æðstu stöður í bönkunum siðblinda menn? Menn sem svifust einskis, virtu hvorki lög né siðareglur og gerðu allt til þess að skara eld að eigin köku og þjóna hagsmunum eigenda sinna?
Er það virkilega svo að auðmenn Íslands og þessir siðblindu starfsmenn þeirra hafi farið hér um allt og keypt sér velvild embættis- og stjórnmálamanna með gjöfum og greiðum, laxveiðiferðum og lánum, utanlandsferðum og vildarkjörum? Sitjum við hér Íslendingar uppi með spilltustu stjórnsýslu í Evrópu?
Er það virkilega svo að við Íslendingar sitjum í dag uppi með bæði ónýtt bankakerfi og ónýtt stjórnkerfi?
Verður Ísland byggt upp á ný fyrr en búið er að moka þennan flór?
Mynd: Á Mýrunum.
![]() |
Fékk 70 milljóna lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 10. júní 2009
Kærum þá sem veðsettu þjóðina fyrir Icesave reikningunum fyrir landráð.
Að Landsbankanum skyldi leyft að safna innlánum erlendis fyrir meira en þúsund milljarða á tveim árum án afskipta Fjármálaeftirlitsins og án þess að Seðlabankinn gerði kröfu um aukna bindiskyldu eða stóraukin framlög í tryggingasjóð innlánsreikninga eru óskiljanlega afglöp.
Þau stjórnvöld sem heimiluðu þessa veðsetningu settu á mjög umdeild neyðarlög. Erlendir lánadrottnar munu án efa láta reyna á ýmis ákvæði þeirra fyrir alþjóðlegum dómstólum. Í þessum neyðarlögum eru m.a. ákvæði þess efnis að innistæður eru gerðar að forgangskröfum. Bent hefur verið á að með þessu er verið að mismuna kröfuhöfum. Verði látið reyna á þetta ákvæði neyðarlaganna fyrir alþjóðlegum / erlendum dómstólum og íslenska ríkið tapar því máli þá munu a.m.k. 650 milljarðar falla á Íslensku þjóðina. Haldi þessi ákvæði neyðarlaganna þá munu 150 til 650 milljarðar falla á þjóðina.
Með því að safna þessum innlánum var verið að veðsetja almenning á Íslandi og gera hann ábyrgan fyrir rúmlega þúsund milljörðum króna.
Komi í ljós að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands fengu ekki umboð ráðherra til þess að heimila bankanum að veðsetja þjóðina með þessum hætti þá vil ég að þeir embættamenn sem bera ábyrgð á því að þjóðin var veðsett fyrir rúma þúsund milljarða verði ákærðir fyrir landráð.
Eins að þeir sem sem sátu í bankastjórn Landsbankans á þessum tíma svo og bankastjórar bankans verði ákærðir fyrir landráð.
Ég vil að þessir aðilar verði ákærðir fyrir landráð vegna þess að þeir gerðu þjóðina ábyrga fyrir þvílíkum skuldbindingum að þjóðin mun ekki með góðu móti geta greitt þessar ábyrgðir falli þær á okkur. Ef við lendum í því að þurfa að greiða 650 milljarða vegna Icesave þá mun það hafa slíkar efnahagshörmungar í för með sér að við munum ekki geta séð út úr því næstu áratugina. Að leggja slíkar ábyrgðir á þjóðina vegna þessara Icesave reikninga er ekkert annað en landráð. Þeir sem "gambla" með þjóð sína með þessum hætti eru ekkert annað en landráðamenn.
Þó með setningu neyðarlaga takist að bjarga þjóðinni að einhverju leiti frá þessu máli þá breytir það í engu eðli hins upphaflega gjörnings.
Umboð Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands til að heimila bönkunum að safna þessum innlánsreikningum og þar með að veðsetja Íslensku þjóðina um 20.887 evrur í hvert sinn og stofnaður var nýr Icesave reikningur hlýtur samt sem áður að hafa komið frá ráðherrum og ríkisstjórn. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hljóta að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og þar með bönkunum sitt samþykki með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.
Ég spyr, höfðu þessir ráðherrar umboð til þess að veðsetja Íslensku þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum?
Ef svarið við þeirri spurningu er nei, ríkisstjórnin hafði ekki umboð til þess að veðsetja þjóðina fyrir þúsund milljarða á tveim árum þá vil ég að það fólk sem sat í ríkisstjórn og heimilaði með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi þessa veðsetningu verði ákært fyrir landráð.
Það er skýrt í stjórnarskrá að Alþingi eitt hefur fjárveitingarvaldið og það er Alþingi eitt sem getur og má veðsetja þjóðina. Alþingi hefur að því er ég best veit aldrei veitt heimild til þess að banki í einkaeign mætti veðsetja þjóðina á tveim árum fyrir þúsund milljarða.
Undirritaður skorar á þingmenn í öllum flokkum að hafna þeim samningi sem nú liggur fyrir þinginu.
Bretar tóku yfir allar eignir Landsbankans með hryðjuverkalögum. Sú aðför kostaði okkur alsherjar bankahrun og í framhaldi 50% gengisfall. Vegna þessa blasir nú við gjaldþrot 60% til 70% allrar Íslenskra fyrirtækja. Fyrst Bretarnir hirtu eignir Landsbankans þá er ekkert eðlilegra en að þeir hirði þá líka skuldir bankans og þar með Icesave. Þjóðin er búin að blæða nóg vegna þessara Bresku hryðjuverkalaga þó ekki bætist við slíkar Icesave "stríðsskaðabætur".
Hópur manna er þegar byrjaður að undirbúa slíka ákæru um landráð. Rétt er að ákæra sem þessi komi frá hópi almennra borgara. Stjórnvöld munu ekkert aðhafast. Látum reyna í fyrsta sinn á ákvæði stjórnarskrárinnar um landráð. Okkur vantar fleiri til að vera með okkur. Hafið samband og skráið ykkur til þátttöku á netfangið: fhg@simnet.is
Mynd: Hestar og menn í Fljótsdrögum.
![]() |
Valtur meirihluti í Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 3. júní 2009
Letigarðar, The Peoples Garden of Iceland
Áhugamannafélag um matjurtarækt í görðum við heimahús, Letigarðar, The Peoples Garden of Iceland, hefur fengið aðstöðu að Dalvegi 32, Kópavogi, rétt hjá BYKO, fyrir starfsemi sína og er að koma sér þar fyrir. Þar var áður Gróðrarstöðin Birkihlíð.
Félagið verður með þrennskonar starfsemi í Letigarðagróðrarstöðinni að Dalvegi 32, Kópavogi.
Matjurtagarðar.Í fyrsta lagi er almenningi boðið að rækta matjurtir í bestu ræktunarbeðum á Höfuðborgarsvæðinu á besta stað í bænum að Dalvegi 32, Kópavogi. Garðarnir sem boðið er upp á eru ræktunarbeðin sem Gróðrarstöðin Birkihlíð bjó til og notaði undir sína ræktun í mörg ár. Þessi beð eru gull til að rækta í matjurtir. Boðið verður upp á garða sem eru 10m2, 15m2 og 25m2. Þeir sem hafa áhuga á að rækta matjurtir í beðum gróðrarstöðvarinnar í skjóli aspanna að Dalvegi 32, Kópavogi, vinsamlega hringið í síma 894 1949 eða 615 0730 og gerið pantanir. Verð kr. 4.000 / 6.000 / 8.000.
Útimarkaður með grænmeti.
Í öðru lagið þá hyggst félagið opna útimarkað með grænmeti í aðalstöðvum Letigarða að Dalvegi 32, Kópavogi. Þar vill félagið bjóða þeim sem það vilja upp á aðstöðu til að koma og selja sína framleiðslu. Þessi aðstaða mun standa öllum til boða, jafnt almenningi og garðyrkjubændum. Öllum er velkomið að koma og setja upp borð og selja sína framleiðslu, hvort sem það eru kartöflur, rófur og kál, rabbabari, rifsber eða krækiber eða hvað eina sem fólk er að rækta eða tína. Til stendur að opna þennan markað í byrjun júlí og hafa hann opinn þrisvar í viku, miðvikudaga, föstudaga og laugardaga frá 9.00 til 18.00. Markaðurinn verður opinn fram í október. Áhugasömum er bent á að panta pláss í tíma. Pöntunarsími 894 1949.
Letigarðar í heimagörðum (fyrir næsta vor 2010).
Í þriðja lagi eru það Letigarðarnir en svo köllum við vermireiti sem settir eru á borð. Beðið og þar með plönturnar eru þá komnar í þægilega hæð til að sýsla við. Nú hættum við öllu bogri og bjástri þó við séum með matjurtarækt í görðunum okkar heima. Þetta er ræktunaraðferð fyrir okkur sem erum hætt að nenna að skríða um og bogra yfir matjurtagarðinum. Af þessari ræktunaraðferð dregur félagið nafn sitt. Með því að lyfta beðunum upp á borð þá gerist líka margt annað. Við það þá slítum við kuldaleiðnina frá jörðinni og upp í ræturnar og með því að setja beðin undir plast náum við fram mjög öflugum gróðurhúsaáhrifum. Með réttu vali á plöntum, gróðurmold og réttri útfærslu á borðunum þá vonumst við til að almenningur eigi sjálfur að geta ræktað allt sitt grænmeti yfir sumarmánuðina. Þar á meðal tómata, agúrkur, paprikur og annað það grænmeti sem hingað til hefur verið ræktað í gróðurhúsum. Letigarðar eru komnir í samstarf við aðila vestan hafs og austan til að þróa þessa ræktunaraðferð og aðstoða við val á plöntum þannig að uppskeran geti verið að koma frá því snemma vors og seint fram á haust. Meðal annars er kominn á samstarfssamningur við NordGen í Noregi sem m.a. rekur stærsta fræbanka heims sem nýlega var tekinn í notkun á Svalbarða. Þeim sem hafa áhuga á að gerast meðlimir í Letigörðum og taka þátt í að móta þessa nýju ræktunaraðferð við heimahús, vinsamlega hafið samband.
Allar frekari upplýsingar veitir formaður Letigarða, Friðrik Hansen Guðmundsson, síma: 894 1949.
![]() |
Letigarðar í Kópavog |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 2. júní 2009
Á að hleypa bönkunum á stað aftur án þess að lögin um þá séu hert?
Ég skora á stjórnvöld, nú Þegar verið er að setja bankana aftur á flot, að setja á bankana, starfsmenn þeirra og eigendur lög í líkingu við það sem víða er að finna annarstaðar.
Í lögum margra landa er að finna eftirfarandi lagaákvæði.
- Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
- Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
- Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
- Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum
.
Óbreytt lagaumhverfi þar sem bönkunum er heimilt að vera sjálfir að gambla í kaupum á hótelum, byggingalóðum, fyrirtækjum og fasteignum er í raun fáránlegt.
Eins að stjórnendum bankana skuli vera heimilt að eiga fyrirtæki eða vera hluthafar í fyrirtækum sem eru í viðskiptum hjá þeim sjálfum. Að staðan skuli hafa verið þannig undanfarin ár og vera enn þannig að stjórnendur bankana hafi verið í aðstöðu til að útvega eigin fyrirtækjum eða fyrirtækjum sem þeir eiga hlut í fyrirgreiðslu og lán er fáránlegt.
Verst er þó að stórum eigendum bankana skuli vera leyft að eiga í öðrum fyrirtækum. Við sjáum hvernig það endaði. Kaupþing lánaði fyrirtækum eigenda sinna 500 milljarða. Svipaða sögu er að segja með alla hina bankana. Þetta hefur verið kallað af sumum að "ræna bankana innanfrá".
Ekki bara er núverandi ástand ávísun á sukk, spillingu og ógætilega meðhöndlun fjár heldur eru allar líkur á að núverandi ástand hindri samkeppni. Það hlýtur að vera tilhneiging hjá bönkunum, starfsmönnum og eigendum þeirra að veita ekki bara eigin fyrirtækum "sérstaka" fyrirgreiðslu úr heldur einnig setja steina í götu samkeppnisaðilanna.
Setjum ströng en réttlát lög á bankana.
Komum í veg fyrir aðra helreið í boði bankana, starfsmanna þeirra og eigenda.
![]() |
Viðræður að hefjast um uppgjör bankanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 30. maí 2009
Á þjóðin nú að borga skuldir óreiðumanna?
Ekki hljómar þessi lausn á Icesave vel í mín eyru. Með þessum gjörningi mun ábyrgðin á Icesave lenda með fullum þunga á þjóðinni. Ég hélt það væri það sem menn ætluðu einmitt ekki að gera.
Í þessari frétt kemur reyndar ekki fram hvað nákvæmlega er verið að semja um. Eins og ég skil þetta hafa menn verið að tala um þrjár leiðir til að loka þessu Icesave máli.
- Ríkið tryggir Icesave innistæður með þeim fjármunum sem liggja í sérstökum tryggingasjóði sem innlánsstofnanir lögðu fé í. Þessi sjóður er til að tryggja innistæður innlánseigenda skv. Íslenskum lögum.
- Ríkið tryggir rúmar 20.000 evrur á hverjum innlánsreikningi sem er skuldbinding okkar skv. reglum ESB.
- Ríkið tryggir allar innistæður í Icesave að fullu óháð upphæð. Geir Haarde taldi sig hafa umboð til þess sem forsætisráðherra að skuldbinda þjóðin fyrir þúsund milljarða þegar hann hélt sjónvarpsávarp í haust í beinni útsendingu og lofaði að ríkið myndi tryggja allar innistæður í Íslenskum bönkum. Og ég sem hélt að Alþingi eitt hefði fjárveitingarvaldið en ekki einstaka þingmenn þó þeir gegni tímabundið ráðherrastöðu.
Ekki kemur fram í fréttinni hvaða leið af þessum þrem er verið að semja um.
Ég neita að trúa því að Íslenska samninganefndin ætli að láta þjóðina taka á sig þessar Icesave skuldbindingar að fullu samkvæmt lið 3 hér að ofan. Ég neita að trúa því að Íslenska samninganefndin ætli að láta þjóðina taka á sig ábyrgðir umfram þessar 20.000 evrur á hverjum innlánsreikning. Best væri að halda sig við Íslensku lögin, samanber lið 1) hér að ofan og láta eignir Landsbankans + það sem er í tryggingasjóð innlánsstofnanna upp í þetta og búið.
Ekki samþykkja að þjóðin sé veðsett út af þessu Icesave sukki. Ekki láta skuldir vegna Icesave falla á almenning á Íslandi.
Mynd: Í túninu á Hrafnabjörgum, Svínadal.
![]() |
Takmarka ábyrgð vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 29. maí 2009
Skipun AGS, borgið niður erlendar skuldir með því að skera niður velferðarkerfið.
Skipun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, er óbreytt og skýr. Borgið niður erlendar skuldir ykkar með því að skera niður velferðarkerfið. Líka hefur komið fram í fréttum að AGS krefst þess að samfélagið verði áfram mergsogið með óheyrilegum stýrivöxtum sem eru langt, langt yfir þeim vöxtum sem allar aðrar vestrænar þjóðir búa við. Þá vilja þeir einnig viðhalda gjaldeyrishöftunum sem kemur í veg fyrir alla nýja erlenda fjárfestingu í landinu.
Með þessum áherslum AGS þar sem gjaldeyristekjur þjóðarinnar eru teknar í afborganir af erlendum lánum, atvinnulífið og almenningur er mergsoginn sem svívirðilegum vöxtum og skera á ríkisútgjöld niður um 1/3 þá er kreppan rétt að byrja hér á Íslandi og ekki mun sjá hér til sólar fyrr en eftir áratug eða svo.
Ég trúi því ekki að stjórnvöld ætli að halda áfram á þessari braut. Hver svo sem gerði þessa áætlun sem AGS keyrir eftir þá mun þjóðin aldrei sætta sig við þessa framvindu mála.
Að skera velferðarkerfið niður um 1/3 og standa á sama tíma við allar skuldbindingar við erlenda lánadrottna mun aldrei verða samþykkt. Ætli ríkisstjórnin virkilega að keyra þetta prógramm AGS fram þá mun allt loga hér í óeirðum.
Það sem á að gera nú er að semja um að frysta greiðslur af öllum erlendum lánum í þrjú til fimm ár. Ef samningar nást ekki um það á samt að hætta að borga af þessum lánum. Lækka síðan stýrivexti í 2% og koma hjólum atvinnulífsins í gang. Þegar ríkissjóður fer aftur að skila hagnaði á að byrja að borga af þessum erlendu lánum okkar.
Að ríkið skuli vera að borga á fullu af erlendum lánum sínum í miðri þessari djúpu kreppu þegar tekjur ríkissjóðs hafa minnkað svona gríðarlega er eitthvað sem verður að endurskoða.
Mynd: Hafnarfjarðarhöfn
![]() |
Ísland stendur undir skuldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 28. maí 2009
Bankarnir ríki í ríkinu sem almenningur vantreystir.
Bankarnir halda að sér spilunum og vilja ekki láta neinn sjá á þau. Almenningi og réttkjörnum fulltrúum hans er haldið í myrkrinu meðan bankamenn landsins fá óáreittir að stunda sín viðskipti. Það virðist að bankarnir óttast inngrip löggjafarvaldsins fái almenningur og fulltrúar hans réttar upplýsingar um stöðu mála.
Engar stofnanir samfélagsins njóta minna trausts en bankarnir. 4% til 6% þjóðarinnar treystir bönkunum skv. skoðunarkönnunum sem gerðar hafa verði á síðustu mánuðum.
Það verður að taka á þessu vandamáli sem þetta vantraust er. Það gengur ekki að þessari mikilvægu þjónustu sem fjármálaþjónusta er sé sinnt af fyrirtækjum sem almenningur ber ekkert traust til.
Það verður að höggva þetta bankakerfi upp, búa til nýtt bankakerfi með nýju fólki svo skapa megi traust um þessa starfsemi.
Ég hefði viljað sjá eftirfarandi breytingar gerðar:
- Stóru ríkisbankarnir þrír verði lagðir niður og einn nýr banki búinn til. Þessi eini ríkisbanki ásamt Sparisjóðunum og öðrum smáum fjármálafyrirtækjum sem eru starfandi í dag er án efa miklu meira nóg til að sinna Íslenska markaðnum næsta áratuginn.
- Til þessa nýja ríkisbanka verði ráðið nýtt fólk.
- Þessi ríkisbanki verði í eigu ríkisins næstu 5 til 10 árin eða þar til öllum málaferlum verður lokið. Málaferlum sem fyrirséð að fara í gang þegar neyðarlögin falla úr gildi eftir 16 mánuði. Hvorki þessi banki né aðrir bankar á íslandi verða nein söluvara fyrr en öllum uppgjörum og málaferlum er verður lokið. Þetta ferli mun án efa taka mörg ár.
Það á að vera forgangsatriði ríkistjórnarinnar að sjá til þess að hér sé starfandi bankakerfi sem almenningur getur treyst. Það er ekki nóg að gera það með því að hella fullt að peningum inn í banka sem enginn treystir.
Mynd: Við Deildartunguhver
![]() |
Vill upplýsingar úr Wyman-skýrslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 27. maí 2009
Hvalveiðarnar enn ein mistökin
Það er ljóst að útgerðarmenn landsins geta alls ekki sætt sig við að ferðamannaiðnaðinum verði látið eftir að nytja hvalastofnana við landið.
Það er dapurlegt að horfa upp á enn ein mistökin eiga sér stað hér á landi í kjölfar bankakreppunnar.
Það grátlega við þetta er að málið snýst ekki um peninga. Þessar veiðar snúast ekki um að ná hagnaði út úr þessum veiðum. Það vita það allir sem vilja vita að þessar veiðar verða reknar með bullandi tapi því það er enginn til að kaupa af okkur þetta hvalkjöt.
Því miður snúast þessar veiðar um eitthvað allt annað en peninga.
Á örfáum árum hefur risið hér upp í landinu umfangsmikill iðnaður sem gengur út á það að sigla með ferðamenn út á hvalamiðin og sýna þeim þessa hvali sem þar halda sig.
Í fyrra fóru yfir 100.000 manns í slíkar hvalaskoðunarferðir. Það samsvarar því að þriðjungur þjóðarinnar hafi farið út á sjó að skoða hvali.
Útgerðarmenn virðast vera að fara á límingunum yfir því að verið sé að nýta miðin umhverfis landið til annarra hluta en veiða.
Ég er orðin algjörlega á móti þessum hvalveiðum. Hvalveiðar eru atvinnugrein gærdagsins. Hvalaskoðun er atvinnugrein framtíðarinnar. Tekjumöguleikar okkar eru margfaldir ef við veðjum á hvalaskoðun í stað hvalveiða.
Hvenær verður það í þessu samfélagi að hagkvæmnissjónarmið verða látin ráða för en ekki einstrengingsháttur og sérhagsmunir einstakra manna?
Ég skora hér með á stjórnvöld að stöðva þegar í stað þessar hvalveiðar, gera hvalskipin hjá Hval hf. upptæk og láta breyta þeim í hvalaskoðunarskip og gefa síðan eitt slíkt á hvern landshluta sem framlag ríkisins til uppbyggingar í ferðaþjónustu á sviði hvalaskoðunar.
Hættum síðan þessu bulli að ætla að fara að veiða hval þvert ofaní vilja alþjóðasamfélagsins.
Mynd: Við ósa Vatnsdalsár.
![]() |
Fyrsta hrefnan veidd í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 25. maí 2009
Einn háskóli er miklu meira en nóg.
Ég hefði haldið að það væri kapp nóg að vera með einn Háskóla á Íslandi. Þið verðið að fyrirgefa en ég sé ekki snilldina í því að reka hér tvo háskóla sem báðir eru að kenna verkfræði sem eru í 700 metra fjarlægð hvor frá öðrum í landi þar sem búa 300.000 manns . Til hvers? Hvað hagnast samfélagið á því að reka tvær rándýrar deildir sem eru báðar að kenna sömu greinina, sitt hvoru megin við flugvöllinn? Þessir skólar munu hvort sem er aldrei geta byggt upp þá rannsóknaraðstöðu sem nauðsynleg er til að þeir geti kennt nemendum sínum sómasamlega til meistaranáms. Hvað þá til doktorsnáms. Þannig má áfram telja hverja greinina á fætur annarri.
Menntamálaráðherrar undanfarinna ára hafa misst málefni þessara háskóla algjörlega úr böndunum. Fyrirséð var að um leið og tekjur ríkisins drægjust saman yrði að skera niður þetta bruðl.
Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af eru gæði þeirrar kennslu sem allir þessir "sjálfstæðu" háskólar bjóða upp á. Hver hefur eftirlit með gæðum þeirrar kennslu sem þessir skólar eru að bjóða?
Einn lélegur háskóli á Íslandi mun leggja í rúst orðspor allra hinna háskólanna. Erlendis verður enginn greinarmunur gerður á Háskóla Íslands eða Háskólanum á Bifröst svo dæmi sé tekið. Ef einn háskólinn okkar bregst þá mun það spyrjast út um allt. Erlendis munu menn þá segja, "Háskólanám á Íslandi hefur hrakað gríðarlega og þessar háskólagráður þeirra eru í dag jafn mikils virði og krónan þeirra". Það er þetta sem ég hef áhyggjur af með alla þessa sjálfstæðu háskóla sem enginn veit hvað eru að gera. Það sem ég og fleiri óttast er að þetta nám margra þessara skóla sé í raun framlenging á menntaskólanáminu á viðkomandi stað en ekki raunverulegt háskólanám með þeim áherslum sem alvöru Háskólar hafa.
Rétt er mat þessara finnsku sérfræðinga að við Íslendingar eigum í besta falli að einbeita okkur að tveim í mesta lagi þrem fræðasviðum. Háskólinn á að öðru leiti að einbeita sér að góðri almennri grunnkennslu í BS og BA námi. Meistaranám og doktorsnám sækja Íslendingar síðan erlendis. Þannig var Háskóli Íslands rekinn þar til fyrir rúmum áratug eða svo.
Það hefur ekkert haft nema afturför í för með sér að mennta okkar unga fólk til meistaranáms og doktorsnáms hér heima. Þetta bankahrun er ekki síst afleiðing þessarar menntastefnu. Hefði allt þetta unga fólk okkar sem lokið hefur háskólanámi á síðustu 10 - 15 árum tekið sínar meistaragráður við erlenda háskóla þá er ég sannfærður um að þessi "bankakynslóð" okkar hefði aldrei keyrt bankana og samfélagið í þrot með þeim hætti sem raun varð á.
![]() |
Mæla með tveggja háskóla kerfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 24. maí 2009
Njótum kreppuárana framundan.
Í framhaldi af því hruni sem orðið hefur þá þarf nýja hugsun til að takast á við þann raunveruleika sem við okkur blasir og mun blasa við okkur næstu árin. Þó hlutirnir gangi ekki á sama hátt og þeir hafa gert síðasta áratuginn þá er samt engin ástæða til þess að við getum ekki notið lífsins. Við verðum bara að gera það með aðeins öðrum hætti.
Nú þegar heilu atvinnugreinarnar eru hrundar og víða búið að draga verulega saman seglin þá erum við í raun að horfa á gerbreytt samfélag. Þessi kreppa er ekki neitt sem hverfur á einu eða tveim árum. Við erum að horfa upp á fimm til tíu ár ef ekki lengur þar til við komumst upp á svipað stig og var 2004 til 2006. Nú er það verkefni hvers og eins að fóta sig í þessu nýja umhverfi og njóta þessara kreppuára sem framundan eru.
Sú "blessun" sem kreppan er að færa okkur er aukinn frítími. Ef fólk notar þennan frítíma sjálfum sér og öðrum til ánægu þá munu kreppuárin framundan geta orðið að bestu árum ævinnar.
Nú og á næstu árum munu margir hafa tíma til að stunda allskonar tómstundir, sport og útivist. Margt skemmtilegt "sportið" tengist líka því að spara sér matarinnkaup. Það mega allir fara út á sjó og veiða sér í matinn. Margir gera það og eiga alltaf "heimaveiddan" fisk í frystikistunni. Aðrir fara og rækta kartöflur og grænmeti. Fjöldi fólks er á ferðinni þessa dagana að tína svartbaksegg sem mörgum þykja lostæti. Einhverjir eru búnir að koma sér upp þrem, fjórum hænum og eru alltaf með ný egg með morgunmatnum. Svona má áfram telja möguleikana sem nú opnast fjölda fólks með auknum frítíma.
Þar fyrir utan gefst svo tími til ótal margs annars sem hægt er að njóta. Má minna á listasöfnin, menninguna og allar ólesnu bækurnar.
Já, við eigum að gera komandi kreppuár að bestu árum ævinnar. Nú þegar við höfum eignast aukinn frítíma þá eigum að grípa tækifærið og njóta þessa frítíma.
Mynd: Smábátahöfnin á Akranesi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 19. maí 2009
Koma þarf í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja
Það er mikil hætta á að nú falli hvert fyrirtækið á fætur öðru í þeirri gjaldþrotahrinu sem gengur yfir. Við gjaldþrot þá verða alltaf fjöldi fyrirtækja og einstaklinga sem sem tapa fé. Slík töp ofaná slæmt árferði er ekki góður kokteill. Það er því skiljanlegt að menn óttist "dóminnáhrif" sem gætu þýtt enn fleiri gjaldþrot en ætlað var.
Fjöldagjaldþrot fyrirtækja er engum í hag. Nú þegar ríkið er með nær alla banka landsins á sínum vegum þá hlýtur að vera hægt að beita þeim í þeim tilgangi að takmarka það tjón sem þessi gjaldþrot eru að valda.
![]() |
Fjöldi fyrirtækja í ríkiseigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 18. maí 2009
Til Þingvalla á hestbaki.
Að ríða til Þingvalla í veðri eins og það var í dag er hreint ótrúleg upplifun. Við lögðum upp frá hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ skömmu eftir hádegi í dag.
Við vorum búnir fyrr um daginn að fara með bíl og hestakerru til Þingvalla. Það var heitt í veðri svo við tókum okkur góðan tíma. Þetta var fyrsta dagleiðin þetta árið fyrir bæði menn og hesta.
Við vorum tveir og höfðum fimm til reiðar. Þetta var rólegheita ferð sem tók okkur 8 tíma. Þegar komið var til Þingvalla var sprett af hestum, áð smá stund og síðan ekið í bæinn.
Að koma ríðandi til Þingvalla og ríða eftir þessum þúsund ára gömlu reiðslóðunum sem liggja með bökkum Öxarár fyrir utan allt annað sem maður sér og upplifir í svona ferð er eitthvað sem allir þeir sem hafa heilsu og getu til ættu að gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:51 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 16. maí 2009
Glæsileg frammistaða hjá Jóhönnu.
Þetta er glæsileg niðurstaða. Ég óska Jóhönnu og samverkafólki til hamingju með frábæra frammistöðu.
![]() |
Ísland í 2. sæti í Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 16. maí 2009
Verður fagnað á Austurvelli í kvöld?
Flutningur Jóhönnu var frábær.
Ef við við vinnum þá verður án efa fagnað á Austurvelli fram á nótt.
![]() |
Jóhönnu vel fagnað í Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |