Verið að þurrka út bygginga- og verktakastarfsemina í landinu.

Einkennilegar eru þær áherslur sem hér hafa tíðkast hjá opinberum aðilum þegar kreppir að. Af einhverjum ástæðum þá þykir það sjálfsagt mál að skera niður eins og hverjum og einum lystir í bygginga- og verktakastarfsemi um leið og einhver samdráttur verður í tekjum hins opinbera. Það þykir eðlilegt að þegar skorin eru niður fjárframlög opinbera aðila að þegnar samfélagsins sitji þá ekki við sama borð þegar kemur að þeim niðurskurði.

IMG_3753Á sama hátt þá þykir sjálfsagt mál að allir geti farið í gang með allar þær framkvæmdir sem mönnum dettur í hug þegar þenslan er hvað mest. Geti innlendir byggingaaðilar ekki sinnt öllum þessum verkefnum þá eru ráðnir erlendir verktaka í verkið og þeir fengnir til að byggja hér skóla og og annað fyrir sveitarfélög landsins.

Í þessari afstöðu íslenskra stjórnvalda til verklegra framkvæmda, sérstaklega á krepputímum, endurspeglast mikill munur á milli þeirra og stjórnvalda í löndunum hér í kring. Þau lönd hafa fyrir löngu áttað sig á því að það má ekki skilja bygginga- og verktakaiðnaðinn eftir úti í kuldanum þegar kreppir að með tilheyrandi gjaldþrotum og eignabruna í greininni. Þar ríkir félagslegt jafnrétti þar sem bygginga- og verktakastarfsemi er jafn rétthá öðrum atvinnugreinum.

Á Íslandi þykir það sjálfsagt mál að stór hluti fyrirtækja í þessum geira séu þurrkuð út með reglulegu millibili. Mörg helstu fyrirtækin sem voru starfandi hér 1990 voru árið 2000 flest horfin af sjónarsviðinu eftir gríðarlegan verkefnaskort í næstum heilan áratug. Má þar nefna fyrirtæki eins og Hagvirki, Byggðaverk, Steintak, SH verktaka, Ármannsfell, Álftarós o.s.frv., o.s.frv.

Uppsveifla sem hófst upp úr 2000 í þessum geira var að mestu keyrð áfram vegna þess að hér var mikil uppsöfnuð þörf fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði því lítið hafði verið byggt á áratugnum frá 1990 til 2000. Má nefna á á árunum 1994 og 1995 var byrjað á færri íbúðum í Reykjavík en í kreppunni sem kom eftir hvarf síldarinnar árin 1967 og 1968.

Nú þegar ein af dýpstu kreppum Íslandssögunnar ríður yfir þá á að taka þessa grein samfélagsins sömu tökum og áður. Nánast allir liðir í fjárlagafrumvarpi ríkistjórnarinnar eru með óbreytta krónutölu frá fyrra ári nema þegar kemur að nýframkvæmdum og viðhaldi. Það er stærstan hluta niðurskurðarins í fjárlagafrumvarpinu að finna. Eftir höfðinu dansa limirnir því sama er uppi á teningnum í nær öllum sveitarfélögum landsins. Ríkið stjórnar í dag bönkunum og Íbúðalánasjóði og þar er lítið verið að lána til framkvæmda, nýbygginga eða íbúðakaupa. Seðlabankinn heldur öllu fé landsmanna föstu inni í bönkunum með því að bjóða svimandi háa innlánsvexti og þannig halda Seðlabankinn, bankarnir og Íbúðalánasjóður fasteignamarkaðnum í frosti. Þver öfug stefna er í í Noregi en þar streymir fé út úr bönkunum inn á fasteignamarkaðinn vegna vaxtastefnunnar sem þar er rekin.

Um ofangreint má einnig lesa hér:

Ég hef mikið velt fyrir mér hvers vegna menn leyfa sér að taka þessa grein samfélagsins svona tökum. Eina niðurstaðan sem ég hef komist að er að þessar starfsgreinar hafa ekki með sér samtök sem standa undir nafni og þau hafa ekki átt í áratugi talsmann sem talar þeirra máli.

Ég held það hafi verið mikil mistök þegar menn lögðu niður Verktakasambandið á sínum tíma og sameinuðu það Samtökum iðnaðarins. Þessi stóru samtök hafa aldrei virkað sem fulltrúar og talsmenn byggingar- og verktakaiðnaðarins. Þessi samtök hafa verið að sinna öðrum hagsmunum. Komið í veg fyrir að óhollustan sem börn og unglingar þamba og borða í óhófi sé skattlög og sinnt slíkum þjóðþrifamálum. Þegja svo þunnu hljóði þegar bygginga- og verktakaiðnaðurinn er lagður í rúst. 

Með þeim gríðarlega niðurskurði í verklegum framkvæmdum sem nú standa fyrir dyrum á næsta ári hjá hinu opinbera þá stendur bygginga- og verktakaiðnaðurinn einn. Hann er óskipulagður, án raunverulegra hagsmunasamtaka og án talsmanns, án andlits.

Þess vegna leyfa ráðamenn sér að ganga yfir þessa grein atvinnulífsins á skítugum skónum.

Hilmar Konráðsson hjá Verktökum Magna ehf. á heiður skilið fyrir hans framlag við að standa að sameiginlegum mótmælum verktaka við þessum niðurskurði. Mótmæla á fyrirhuguðum niðurskurði með því að verktakar ætla að mæta með vinnuvélar sínar á Austurvöll í dag kl. 13.45.

Mynd: Á Landmannaleið, Dómadalur.

 

 


mbl.is Verktakar á Austurvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband