Landinu skipt í tvö kjördæmi?

Ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið í aðdraganda Stjórnlagaþings er að landinu verið skipt í tvö kjördæmi.

Comic_blablaHér verði eitt landsbyggðarkjördæmi og annað kjördæmi fyrir höfuðborgarsvæðið.

Þessi kjördæmi verði með jafn marga þingmenn og jafnt vægi atkvæða. Oddamaður flyst á milli kjördæma á fjögurra ára fresti. Þannig fer landsbyggðin með meirihluta á Alþingi í eitt kjörtímabil og höfuðborgarsvæðið á næsta kjörtímabili.

Við verðum að horfast í augu við það að ef við ætlum að endurnýja stjórnarskána og uppfæra mannréttindakafla hennar þá er ljóst að ekki er hægt að mismuna landsmönnum eftir búsetu með þeim hætti sem nú er gert. Ekki frekar en ef kosningafyrirkomulagið væri þannig að atkvæði karla gilti tvöfalt á við atkvæði kvenna og nýbúa. Með núverandi fyrirkomulagi er verið að brjóta mannréttindi á stórum hluta landsmana.

Íbúar landsbyggðarinnar eru vanir að hafa "sína þingmenn". Að breyta landinu í eitt kjördæmi hentar því mörgum á landsbyggðinni ekkert sérlega vel og leggst ekki vel í marga.

Að skipta landinu í tvö kjördæmi, eitt landsbyggðarkjördæmi og annað á höfuðborgarsvæðinu, er kannski ágætis lausn og góð málamiðlun á milli þeirra sem vilja halda í óbreytta kjördæmaskipan og þeirra sem vilja gera landið að einu kjördæmi.

Mynd: Göngustígurinn upp Esju.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef í bloggi mínu í sambandi við framboð mitt til stjórnlagþings reifað þessa hugmynd ásamt fleirum og bendi á þessa pistla.

Ég legg mikla áherslu á að á Stjórnlagaþingi skapist breið samstaða og sátt svo að Alþingi eigi ekki eins auðvelt með að hunsa niðurstöður þess.

Ég hef bent á að hægt sé að ná jöfnu vægi atkvæða án þess að landið sé allt eitt kjördæmi, en þá þurfi þingmannafjöldi að vera í hlutfalli við atkvæðafjölda í kjördæmunum. 

Ekki er hægt að ná þessu jafna atkvæðavægi ef landinu er skipt í tvö kjördæmi og jafn mörgum þingmönnum, því að yfir 64% landsmanna búa nú í Reykjavíkurkjördæmunum og í Kraganum en aðeins 36% í landsbyggðarkjördæmunum. 

Ef bæði kjördæmin eiga að hafa jafn marga þingmenn og jafnt atkvæðavægi þyrfti að taka Mosfellsbæ, Hafnarfjörð og Garðabæ og flytja yfir í landsbyggðarkjördæmi. 

Það yrði að mínu mati arfavitlaus aðgerð og algerlega í stíl við þá hrákasmíð sem núverandi kjördæmaskipan er. 

Íbúi á Arnarnesi á nákvæmlega enga sameiginlega landsbyggðarsérhagsmuni með íbúa á Þórshöfn. 

Ég hef gert ráð fyrir því að ef kjördæmin yrðu tvö yrðu mörkin dregin í samræmi við raunverulega landfræðilega hagsmuni við Hítará í vestri og Markarfljót í austri. 

Svæðið þarna á milli er í raun orðið eitt atvinnusvæði. 

Ég hef nefnt nokkur önnur afbrigði sem hugsanlegan samkomulagsgrundvöll sem skapi sátt sem allir geti sætt sig við. 

Eitt þeirra er blönduð leið að erlendri fyrirmynd, - sú, að landið verði annars vegar allt eitt kjördæmi og boðnir fram landslistar í því en hins vegar verði níu einmenningskjördæmi, Reykjavík - Vesturland - Vestfirðir - Norðurland vestra - Norðurland eystra - Austurland - Suðurland  -  Suðurnes. 

Það tryggir að hvert þessara kjördæma fái minnst einn þingmann. Það raskar ekki atkvæðavægi út af fyrir sig, til dæmis, þótt Vestfirðingar fái einn þingmann sérstaklega. 

Þrátt fyrir misvægi atkvæða eru þingmenn úr landsbyggðarkjördæmunum þremur nú orðnir aðeins færri en þingmenn frá Reykjavíkursvæðinu. 

Ég er fylgjandi aðgerðum til að jafna aðstöðumun fólks eftir búsetu eins og unnt er með sanngirnissjónarmið í huga. Það er hægt að gera á fleiri vegu en með því að vera með stórgallaða kjördæmaskipan og stórfellt og vaxandi misvægi atkvæða. 

Það er engin glóra í því að atkvæði kjósanda á Akranesi vegi 2,5 sinnum þyngra en atkvæði Hafnfirðings á Hvaleyrarholti, sem er aðein 15 mínútum fljótari að aka niður á Austurvöll en Akurnesingurinn. 

Ómar Ragnarsson, 23.11.2010 kl. 13:16

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Takk Ómar fyrir þetta fróðlega innlegg.

það er rétt sem þú segir að miðað við þessi hlutföll  í búsetu 64% / 36% þá yrði misvægi atkvæða 1,78 ef þessi kjördæmi ættu að hafa jafnan þingmannafjölda. Þetta er svipað hlutfall og það sem nú er tekið mið af.

Það er erfitt að samræma þessi sjónarmið.

En þetta er bara svona, byggðin og búsetan hefur þróast með þessum hætti.

Við búum við lýðræði og þar eiga allir að vera með jafnan rétt. Eitt af því er rétturinn til að kjósa til Alþingis. Þar eiga sumir ekki að hafa meiri rétt en aðrir.

Líklega er eina leiðin að hafa sama háttinn á og gert er við forsetakosningar og nú kosningar til Stjórnlagaþings, þ.e. landið er eitt kjördæmi.

Ef við förum að kröfu þjóðfundarin um skýrari aðskilnað framkvæmda- löggjafar- og dómsvalds og að ráðherrar sitji ekki á þingi, þá er það í raun krafa um franskt / finnskt /evrópskt lýðveldi. Lýðveldi þar sem forseti sem kosinn í beinni kosningu á fjögurra ára fresti fer með framkvæmdavaldið. Forseti sem skipar ríkisstjórn með því að skipa í hana ráðherra sem hann velur sjálfur. Þessir ráðherrar sem forseti skipar eru þá fagmen sem jafnframt þurfa að njóta trausts þingsins. Ef það traust er ekki til staðar þá þarf forseta að tilnefna nýja(n) ráðherra.  

Ef þessi breyting er gerð þá skipta þessar Alþingiskosningar ekki eins miklu máli og áður því í slíkum Alþingiskosningum er bara verið að kjósa þingmenn til að fara með löggjafar- og fjárveitingarvaldið. Það er ekki verið að kjóa þingmenn til að fara með framkvæmdavaldið. Þingmenn í þessum lýðveldum verða ekki ráðherrar. Ef fólk er óánægt með ríkisstjórnina þá kýs fólk sér bara nýjan forseta í næstu forsetakosningum. Þannig virkar lýðveldið í hinum lýðveldum Evrópu. Þannig er hægt að ná raunverulegum aðskilnaði milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds.

Núverandi stjórnskipan miðar að því að hér sé konungsveldi eða forseti sem er eitthvað "óskilgreint sameiningartákn". Þetta er stjórnskipan sem í raun engin skilur og er í hrópandi ósamræmi við allt það sem stendur í stjórnarskránni. Hér byggist allt á einhverjum hefðum og venjum sem hefur endað í þessu mikla ráðherraræði og flokksræði. 

Vegna þessa ráðherraræðis þá er þessi mikla áhersla á kosningarnar til Alþingis og landsbyggðin rígheldur í sína þingmenn / væntanlegu ráðherra. Allt vegna þess að löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið er runnið í eitt.

Í núverandi þingkosningum er verið að kjósa sama fólkið, 63 einstaklinga, til að fara með löggjafarvaldið, fjárveitingarvaldið, framkvæmdavaldið og valdið til að skipa dómara. Hverskonar þrískipting valdsins er það?

Ef þessu yrði breytt að kröfu þjóðfundar þá verða alþingismenn ekki ráðherrar.

Líklega er eina leiðin til að leysa þetta mál með kjördæmaskipanina, það er að við tökum hér upp lýðveldi að franskri / finnskri / evrópskri fyrirmynd og kjósum í beinni kosningu forseta til að fara með framkvæmdavaldið, forseta sem situr að hámarki í tvö kjörtímabil. Þingmenn svo kosnir til að fara með löggjafar- og fjárveitingavaldið

Sjá þessa greinar hér:

Forseti tilnefnir ráðherra að franskri / finnskri fyrirmynd.

Hér verði forseti að Franskri / Finnskri / Bandarískri fyrirmynd.

Stjórnlagaþing - Við eigum að koma á fót Stjórnlagadómstóli.

Stjórnlagaþing - Forseti og Alþigi skipi dómara.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.11.2010 kl. 14:46

3 identicon

Hvers vegna þurfa þeir sem búa á smærri stöðum úti um land að greiða jafnháan tekjuskatt og aðrir sem eiga mun auðveldara að nálgast þjónustu þá sem er kostuð með skattpeningum okkar allra ? Þetta sama fólk þarf gjarna að eyða mun meiri tíma og fjármunum í það að nýta sér þjónustuna og ekki verð ég var við að við í þéttbýlinu vælum yfir þessu.  Er ekki þarna komið annað dæmi um mismunun sem ef til vill ætti að leiðrétta, t.d. lækka skatta í mesta strjálbýlinu ?

Sigurður Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 15:36

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sigurður

Á móti má spyrja:

Af hverju greiða þeir sem búa á Höfuðborgarsvæðinu jafnháan tekjuskatt og þeir sem búa á smærri stöðum úti á landi þar sem kostnaður við vegagerð, hafnargerð , flugvallagerð, rafveitur og síma er hærri per mann en á höfuðborgarsvæðinu?

Af hverju eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu að taka þátt í því með sínum skattpeningum að greiða niður húshitunarkostnað á landsbyggðinni?

Af hverju er sama verð á matvöru, bensíni og dagblöðum á smærri stöðum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu svo eitthvað sé nú nefnt?

Af hverju er verið að jafna út þennan kostnað? Allir gera sér grein fyrir að þessi vara ætti að vera dýrari úti á landi þar sem flutningskostnaður bætist ofaná vöruverðið.

Allt eru þetta hér spurningar um peninga en ekki spurning um grundvallar mannréttindi eins og að allir eru jafn réttháir þegar kemur að kosningum.

Það er sátt um það í samfélaginu að við jöfnum aðstöðu okkar með þessum hætti eftir búsetu. Það er sátt um það að vöruverð á matvöru,  bensíni og dagblöðum er meira og minna það sama um allt land. Það er líka sátt um það að jafna húshitunarkostnað.

Ég held það verði lítil breyting þar á þó svo landið verði eitt kjördæmi.

Ekki gleyma því að nær allar okkar gjaldeyristekjur koma frá landsbyggðinni. Mikið vald er fólgið í þeim miklu fjármunum sem landsbyggðin leggur með sér inn í okkar sameiginlegu sjóði. Fiskur, orka, matvæli og olía, allt eru þetta auðlindir sem landsbyggðin nýtir. Að ógleymdri ferðaþjónustunni.

Það þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að íslenskir stjórnmálamenn á komandi árum gleymi landsbyggðinni eða hagsmunum hennar. Þar fyrir utan hafa margir af helstu hagsmunagæslumönnum landsbyggðarinnar verið og eru þingmenn höfuðborgarsvæðisins.

Ég held að landsbyggðin þurfi ekkert að óttast þó landið verði gert að einu kjördæmi. Það gleymir engin að hugsa um gullgæsina sína.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.11.2010 kl. 16:20

5 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Blessaður Friðrik

Ég fagna því að þú gefir kost á þér til stjórnlagaþings og ég hef aðeins verið að kynna mér áherzlur þínar.

Þú gerir þér nokkuð tíðrætt um forsetaembættið og mikilvægi þess að forseti verði valdameiri en gert er ráð fyrir í okkar stjórnskipun í dag.

Ég get vel tekið undir það. Forseti, sem valdamikill þjóðkjörinn embættismaður, væri gott mótvægi við þingið og myndi styrkja framkvæmdarvaldið. Slíkt embætti yrði jafnframt til þess að íslenzkir kjósendur myndu vanda betur valið á forseta sínum og láta stjórnast af öðrum forsendum en hingað til.

Það hafa hins vegar í þessu sambandi flogið ýmsar fullyrðingar, sem ekki eru alveg sannar.

Það er miklu víðar en hér, sem forseti er valdalítill og gegnir að mestu táknrænu hlutverki. Það er t.a.m. ekki rétt að allar þjóðir A-Evrópu hafi eftir hrunið tekið upp stjórnafar að frönskum hætti. Forsetar Tékklands og Ungverjalands eru t.d. valdalitlir og sama má segja um forseta Þýzkalands, Indlands og Ítalíu. Það sem hins vegar greinir þessa ágætu embættismenn frá forseta Íslands er að þeir eru allir þingkjörnir en ekki þjóðkjörnir.

Almennt er talað um að lýðveldi heimsins í dag séu ýmist þingræðis (e. parliamentary) eða forsetaræðis (e. presidential). Er þá átt við hvort þar ríki þingræði og að ríkisstjórn sé þá alfarið háð meirihluta á þingi (sem einnig á við flest konungsríki í okkar heimshluta) eða hvort forseti hafi það vald að skipa ríkisstjórn óháð þingi. Þar sem forsetaræði ríkir, eins og t.d. í Bandaríkjunum og flestum löndum S-Ameríku getur ríkisstjórn verið í andstöðu við löggjafarþingið og er á engan hátt háð stuðningi þess en í þingræðislöndum eins og Íslandi þá getur sú krafa að ríkisstjórn verði að njóta stuðnings meirihluta þings snúist upp í andhverfu sína og gert þingið að þægum þjóni ríkisstjórnarinnar. Bæði kerfin hafa því ákveðna galla: Forsetaræðið býður upp á að ríkisstjórnin, sem á að framkvæma þau lög sem þingið setur, sé mótfallin þeim reglum sem henni ber að fara eftir og geri sér far um fara í kringum lögin. Hins vegar er sú staða, sem er einmitt uppi hér á landi, að ríkisstjórnin setji sjálfri sér þær reglur sem hún kýs að fara eftir og neyðir þingið til þess að samþykkja þær í krafti þess að stýra þar meirihluta þingmanna.

En það er hægt að fara bil beggja, eins og t.d. Frakkar, Finnar, Rússar o. fl. hafa kosið að gera. Það er nefnilega alls ekki rétt að stjórnarfar Bandaríkjanna sé sambærilegt stjórnarfari t.d. Frakka og Finna, eins og mér sýnist þú telja. Í þessum löndum ríkir það kerfi sem kallaða er á ensku "semi-presidential". Þar er forseti vissulega þjóðkjörinn og hann hefur töluverð völd. Hann m.a. annars útnefnir forsætisráðherra, sem síðan útnefnir aðra ráðherra en tilnefning forsetans á forsætisráðherra verður jafnframt að vera staðfest af þjóðþinginu. Auðvitað er útfærsla þessa kerfis mismunandi eftir löndum. Mér skilst að t.d. í Rússlandi geti forseti neitað að undirrita lög og í bæði Frakklandi og Finnlandi geti hann vísað þeim til frekari umræðu í þingi og í Finnlandi þá einnig krafist aukins meirihluta.

Það er sjálfsagt að leita okkur fyrirmynda og fordæma meðal annara þjóða og það er löngu tímabært að skilja betur á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. En við verðum jafnframt að forðast allar öfgar í hvora áttina sem er.

Síðan langar mig að nefna það að í umræðum síðustu daga hefur það gjarnan flogið að hér ríki ekki lýðræði. Því fer fjarri. Ísland er lýðræðisríki, það leikur enginn vafi á því. Lýðræðið er hins vegar í eðli sínu ófullkomið, þó það sé skásta stjórnarfar sem við þekkjum. Því verðum við að hlúa að því og gæta þess að það virki rétt. Ég segi fyrir mig að ég er ákaflega ósáttur við núverandi ríkisstjórn, ég tel hana getulausa og vanhæfa og ég er ósammála gengdarlausri forsjárhyggju þeirra flokka sem hana skipa. Mér dytti þó aldrei í hug  að halda öðru fram en að hún hafi komizt til valda í lýðræðislegum kosningum.

Þeir sem hæzt mæla um að hér ríki ekki lýðræði ættu að kynna sér stjórnarfar í ýmsum öðrum löndum heims.

Emil Örn Kristjánsson, 23.11.2010 kl. 18:19

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Emil

Þetta eru mjög góðar athugasemdir hjá þér og skýr og góð greining sem ég tek heils hugar undir.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.11.2010 kl. 19:48

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll aftur Emil

Á vísindavef HÍ sjá hér er að finna þessa tilvitnun: 

"Hugmyndir hafa komið fram um að nefna þingræðisregluna skýrum orðum í stjórnarskránni, m.a. í stjórnarskrárfrumvarpi Gunnars Thoroddsens 1983 en í núverandi stjórnarskrá leikur vafi á því hvort orðalagið "þingbundin stjórn" feli þingræðisregluna í sér. [?] Ólafur Jóhannesson bendir réttilega á að orðalagið "þing­bundin" lögfesti ekki þingræðisregluna á Íslandi. Þá vaknar engu að síður sú spurning hvaða stjórnskipunarreglu höfundar stjórnarskrárinnar hafi ætlað sér að innleiða með þessu ákvæði. Hvergi í umræðum á Alþingi er að finna viðhlítandi skýringu á þessu orðalagi að öðru leyti en því að í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að þessi grein geri "enga efnisbreytingu á þeirri skipan, sem nú er, svo langt sem hún nær." (Alþ. tíð. A, 1919: 104.)"

Þetta er eitt það merkilegasta sem ég hef lesið um stjórnarskrána. Okkar helsti sérfræðingur um stjórnskipun Íslands, Dr. Ólafur Jóhannesson fyrrv. lagaprófessor taldi að það léki vafi á því hvort orðalagið "þingbundin stjórn" fæli í sér þingræðisregluna.

Af hverju völdu þeir sem sömdu stjórnarskrána að nota þetta nýyrði "þingbundin stjórn" í stað þess að segja einfaldlega að á íslandi væri "þingræði". Setning og orð sem allir vissu hvað þýddi og merkti?

Á því eru bara tvær skýringar. Annað hvort voru þessir menn sem sömdu stjórnarskrána á sínum tíma að rugla með hugtök og orð, með öðrum orðum vissu ekki hvað þeir voru að gera, eða þeir hreinlega ætluðu sér að koma hér á fót lýðræði að franskri fyrirmynd. Ef það var ætlunin þá þurfti að finna nýtt íslenskt orð yfir það sem þú nefnir hér að ofan  "semi-presidential".

Ég spyr Emil, er það ekki rökrétt ályktun fyrst höfundar stjórnarskrárinnar sömdu sérstakt nýyrðið "Þingbundin" en notuðu ekki hið vel þekkta orð "þingræði"?

Þessi túlkun stjórnarskrárinnar hlýtur að hafa verið eins og eitur í beinum íslensku stjórnmálaflokkanna á sínum tíma. Með því missa þeir framkvæmdavaldið úr sínum höndum og í hendur þjóðarinnar sem í beinni kosningu skiptir um forseta og þar með ráðherra eftir geðþótta. Það hefur engin íslenskur þingmaður áhuga á því, hvorki nú né þá.

Frá því ég las stjórnarskrána "aftur" fyrir 3 til 4 árum þá rann þessi "sannleikur" upp fyrir mér. Stjórnmálaforingjar okkar frá lýðveldisstofnun hafa náð að túlka stjórnarskrána eins og þeim hentar af því að hér er engin Stjórnlagadómstóll. Þannig hafa þeir náð að sölsa undir sig vald forsetans, heimtað að hann verði sameiningartákn, svipt hann málfrelsi og sett í stofufangelsi á Bessastöðum. Með þessu hefur þjóðin misst mikils sem er hið beina lýðræði sem við eigum að hafa skv. stjórnarskránni með því að kjósa handahafa framkvæmdavaldsins í beinni kosningu.

Raunveruleikinn er síðan sá að framkvæmdavaldið hefur lent í höndum flokkana og eigendum þeirra. Flokkarnir hafa frá lýðveldisstofnun skipst á að fara með framkvæmdavaldið og skipa ráðherra.

Það er þess vegna sem sátt hefur verið um það á þingi frá lýðveldisstofnun að hreifa ekki við stjórnarskránni. 

Mín niðurstaða er því sú að ég vil fá það lýðveldi sem við eigum að hafa hér skv stjórnarskránni, franskt / finnst lýðveldi þar sem þjóðin kýs handhafa framkvæmdavaldsins í beinni kosningu, þ.e. forsetann og framkvæmdavaldið þar með tekið úr höndum stjórnmálaflokkanna.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.11.2010 kl. 20:48

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll enn á ný Emil.

Í finnsku stjórnarskránni fær þingið að kjósa um forsætisráðherrann sem forsetinn tilnefnir. Hafni þingið forsætisráðherraefni forseta þá tilnefnir forseti annað forsætisráðherraefni. Hafni þingið líka þeim einstakling þá fær þingið að kjósa á milli þessara tveggja forsætisráðherraefna. Sá þeirra sem þá fær fleiri atkvæði hann verður forsætisráðherra.

Eins þurfa aðrir ráðherrar að hafa traust finnska þingsins. Engin getur setið sem ráðherra ef hann hefur ekki traust þingsins.

Þess vegna eru þessi tíðu ráðherraskipti verði ráðherra uppvís að mistökum eða vanrækslu. Stundum verður forseti að skipta heilu og hálfu ríkisstjórnunum út.

Þingið fer svo með fjárveitingarvaldið og löggjafarvaldið.

Stjórnlagadómstóll passar svo upp á allt saman svo ný lög, samningar eða embættisfærslur stangist ekki á við ákvæði stjórnarskrána. Það er ekki eftirlátið ráðherrum og þingmönnum á hverjum tíma að túlka slík vafaatriði.

Þetta stjórnarfar er ekki kallað þingræði. Þetta er heldur ekki forsetaræði. Þetta stjórnarfar er líklega það sem við að góðri íslensku myndum kalla "Þingbundin stjórn"?

Sjá tengil á finnsku stjórnarskrána á ensku hér

Sjá tengil á frönsku stjórnarskrána á ensku hér

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.11.2010 kl. 21:24

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband