Sunnudagur, 31. október 2010
Stjórnlagaþing - Við eigum að koma á fót Stjórnlagadómstóli.
Eitt stærsta skrefið í að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og að stjórnarskráin verði virt er að koma hér á fót Stjórnlagadómstóli.
Ef grunur er um að lög sem Alþingi er að setja eða hefur sett brjóti í bága við stjórnarskrána, alþjóðlega sáttmála sem Ísland hefur undirgengist eða önnur íslensk lög þá á að vera hægt að vísa slíkum málum til sérstaks Stjórnlagadómstóls eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Eins ef ráðherrar, ráðuneyti eða aðrar valdastofnanir eru með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, þá á að vera hægt að fara með slík mál fyrir Stjórnlagadómstól.
Sem dæmi um mál sem slíkur dómstóll myndi fjalla um er þegar núverandi forsætisráðherra setti norðmanninn Svein Harald Öygard tímabundið í embætti Seðlabankastjóra. Sjá hér. Í 20. grein stjórnarskrárinnar stendur: "Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt". Sjá hér.
Annað dæmi er þegar EES samningurinn var gerður á sínum tíma. Mjög var deilt um hvort samningurinn bryti í bága við Stjórnarskrána. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins fullyrtu að svo væri ekki. Aðrir héldu því fram að EES samningurinn skerti það mikið sjálfsforræði þjóðarinnar að slíkan samning yrði annað tveggja að leggja undir þjóðaratkvæði eða gera breytingar á Stjórnarskránni þannig að þessi samningur rúmaðist innan ákvæða hennar.
Þriðja dæmið sem má nefna var þegar þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra ákváðu nánast upp á sitt einsdæmi að Ísland yrði þátttakandi í stríðinu í Írak. Áfram má telja slík dæmi því þau eru mörg þessi álitamál.
Ef við Íslendingar hefðum sett á fót Stjórnlagadómstól strax við stofnun Lýðveldisins, dómstól sem hefði staðið vörð um stjórnarskrána, þá hefði verið hægt að skjóta ráðningu norðmannsins og EES samningnum fyrir slíkan dómstól. Dómstóllinn hefði þá úrskurðað hvort þessar athafnir framkvæmdavaldsins hefðu rúmast innan ramma stjórnarskrárinnar. Eins hvort ráðherrarnir tveir höfðu umboð til að skuldbinda Ísland sem þátttakanda í Írak stríðinu.
Það er tilgangslaust að vera með stjórnarskrá sem engin fer eftir. Það er ástæðulaust að blása til Stjórnlagaþings og setja þjóðinni nýja stjórnarskrá ef löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið halda áfram og komast upp með að virða ákvæði stjórnarskrárinnar að vettugi. Ef við ætlum okkur að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá þá verðum við einnig að setja á fót Stjórnlagadómstól að t.d. þýskri fyrirmynd sem úrskurðar um hvort ný lög, samningar við erlendi ríki og embættisfærslur ráðherra og reglugerðir ráðuneytanna samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar og annarra laga og samninga sem Ísland hefur gert.
Þessi dómstóll þarf að vera þannig að einstaklingar, félög og fyrirtæki geta kært löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið til slíks dómsstóls telji þeir á sér og stjórnarskránni brotið. Höfundur þessa pistils á t.d. að geta kært forsætisráðherra fyrir að hafa ráðið norðmann í stól Seðlabankastjóra þegar skýrt er skv. stjórnarskrá að það er bannað!
Fyrir hvaða dómstóli er í dag hægt að láta reyna á réttmæti slíkra embættisfærslna?
Hvað nú með önnur mál. T.d. samræmist það ákvæðum stjórnarskrárinnar að ríkið og í framhaldi sveitarfélögin hafa leigt/selt afnotaréttinn á orkuauðlindum HS orku til næstu 130 ára?
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt að með núgildandi fiskveiðilögum er íslenska ríkið að brjóta mannréttindi á almenningi á Íslandi. Við, almenningur höfum engin úrræði til að stöðva framkvæmdavaldið í þessum brotum sínum. Hér þarf úrræði og Stjórnlagadómstólar í löndunum hér í kring hafa slík úrræði. Þeir einfaldlega fella slík lög úr gildi. Þeir geta fellt úr gildi lög sem brjóta gegn stjórnarskránni og þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.
Málið er að slíkur Stjórnlagadómstóll er eitur í beinum íslensku stjórnmálaflokkanna og fulltrúum þeirra á þingi. Þetta fólk vill hafa sjálfdæmi í því hvernig ber að túlka stjórnarskrána og þá erlendu sáttmála sem Ísland hefur undirritað. Þetta fólk vill hafa sjálfdæmi í því hvort samningur eins og EES samningurinn stenst stjórnarskrána eða ekki. Þetta fólk vill ekki hafa yfir höfði sér einhvern dómstól sem getur stöðvað stjórnmálaflokkana i hagsmunagæslu þeirra og vildarvinaþjónustu. Þess vegna hafa þingmenn okkar síðasta mannsaldurinn sjaldan eða aldrei minnst á að setja hér á fót Stjórnlagadómstól. Stjórnlagadómstól sem mun halda í eyrun á Alþingi og stjórnsýlunni.
Ef Stjórnlagadómstóll hefur komið til umræðu þá er farið að bera við kostnaði o.s.frv. Að halda út slíkum dómstól er álíka kostnaður og fer í dag í að reka almannatengsladeildina hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Kostnaður er engin ástæða fyrir því að að stofna ekki Stjórnlagadómstól. Ef við höfum ekki efni á að vera hér með Stjórnlagadómstól þá höfum við ekki efni á að vera sjálfstæð þjóð.
Er það ekki löngu tímabært að við komum okkur upp dómsvaldi sem er í einhverju samræmi við það sem tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum?
Að setja hér á fót Stjórnlagadómstól er eitt mikilvægasta skrefið í þá átt að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins og að farið verði eftir þeirri stjórnarskrá sem þjóðin mun setja sér á næstu misserum.
Með nýrri stjórnarskrá eiga einnig að fylgja réttarbætur eins og að hér verði stofnaður Stjórnlagadómstóll.
Sjá nánar áherslur mínar varðandi stjórnlagaþingið hér: www.fridrik.info
Mynd: Gönguleiðin upp Esju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.11.2010 kl. 01:41 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir góðan og þarfan pistil.
Ég hef einmitt verið að velta þessu fyrir mér og komist að sömu niðurstöðu.
Það hefur reyndar verið bent á að slíkur dómstóll kosti peninga og kannski væri hægt að fela Hæstarétti fullskipuðum sama hlutverk. Hvað finnst þér um það?
Umboðsmaður alþingis þarf líka að hafa frumkvæði að því að kanna hvort ný lög og stjórnvaldsaðgerðir standist stjórnarskrá. Hann gæti haft skyldu til að vísa hugsanlegum stjórnarskrárbrotum til Hæstaréttar.
Frosti Sigurjónsson, 1.11.2010 kl. 00:40
Löndin hér í kring hafa valið að hafa slíkan Stjórnlagadómstól alveg sjálfstæðan. Ég held að í okkar litla samfélagi þá sé það heppilegast að vera með þessa dómstóla aðskilda.
Hæstiréttur túlkar lögin og kveður upp fordæmisgefandi dóma.
Stjórnlagadómstóllinn tekur á brotum Alþingis og stjórnsýslunnar á stjórnarskránni og ef verið er að brjóta erlenda samninga og sáttmála sem Ísland hefur undirgengist.
Þetta er í eðli sínu sitthvor hluturinn. Ég held það eigi ekki að blanda þessu saman. Það eru ástæður fyrir því að menn vilja hafa sér dómstól sem tekur á þessum málum.
Það hentar ekki að dómarar sem eru að dæma menn fyrir manndráp og nauðganir að þeir dæmi í málum eins og brotum Alþingis á og ráðherra á stjórnarskránni.
Trúverðugleikinn verður svo miklu minni ef Hæstarétti er falið þetta allt. Enda eins og ég segi hvert og hvernig á að kæra forsætisráðherra sem ræður erlendan mann sem Seðlabankastjóra. Á að byrja á því að fara með það mál fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur?
Ég held við eigum að notast við fyrirmynd eins og við höfum í Stjórnlagadómstólnum í Þýskalandi.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 1.11.2010 kl. 01:02
Hér væri mál fyrir stjórnlaga dómstólinn.
1.11.2010 | 17:10
Yfirlögfræðingur Alþingis Íslands biðst undan að svara einfaldri spurningu sem gæti sýnt fram á að Umsókn vegna Inngöngu í ESB sé ólögleg. Forseti Íslands átti að skrifa undir hana en það gleymdist í hamaganginum á Alþingi Íslands
Þetta er hið versta mál og ef ekkert er hægt að gera vegna þessa galla á umsókninni sem er efni til þess að draga hana til baka hvar eru við þá stödd. Fyrst eru gerð landráð samkvæmt kafla X greinar 86/87/88 síðan eru brotin stjórnarskrár lög grein 18 og grein 19 ég spyr verðum við fólkið ekki að láta taka þessa ráðherra fasta fyrir brot á stjórnarskránni.
18. gr. Sá ráðherra, sem mál hefur undirritað, ber það að jafnaði upp fyrir forseta.
19. gr. Undirskrift forseta lýðveldisins undir löggjafarmál eða stjórnarerindi veitir þeim gildi, er ráðherra ritar undir þau með honum. Sjá umsókn http://www.mbl.is/media/79/1579.pdf
Samkvæmt stjórnarskránni þá er umsókn ólöglegt plagg þar sem hún er stjórnarerindi og þarf undirritun Forseta Íslands til að ún sé gild
Valdimar Samúelsson, 1.11.2010 kl. 23:11
Sæll Valdimar
Sammála þér í því, þetta er einkennilegt mál.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 2.11.2010 kl. 00:22