Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verði neyðarlögunum hnekkt falla 1.200 milljarðar á ríkissjóð.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef málaferlin vegna neyðarlagana tapast og við samþykkt ríkisábyrgð á Icesave skuldbindingunni þá falla 1.200 milljarðar á ríkissjóð.

Ef þessi gjörningur Alþingis að breyta forgangsröðum krafna verður dæmdur ólöglegur og felldur úr gildi þá verða engir fjármunir teknir úr þrotabúi Landsbankans og þeir fjármunir notaðir til að greiða Icesave. Fyrrum lánadrottnar og núverandi kröfuhafar í þrotabúi Landsbankans eignast þá allt það fé sem er í þrotabúinu, eins og lög stóðu og standa til.

  • Gerum okkur grein fyrir því að það fé sem nota á til að greiða Icesave, því fé ætlum við okkur að stela með neyðarlögum af núverandi kröfuhöfum þrotabús Landsbankans. 
  • Gerum okkur grein fyrir því að Icesave samningurinn gengur út á það að þrír aðilar ætla að skipta á milli sín þýfi sem stolið var frá helstu fjármálastofnunum heims. 

Lítill fugl hvíslaði því að mér að ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar hafa sótt það svo fast að fá ríkisábyrgð á Icesave samninginn er að Bretar og Hollendingar gera ráð fyrir að neyðarlögin muni á endanum ekki halda. Þeir gera ráð fyrir því að íslenska ríkið muni á endanum tapa málaferlum vegna neyðarlagana. Það þýðir að það verður ekki hægt að nota þá fjármuni sem nú liggja og lágu inni í þrotabúum bankana til að tryggja innistæður hér heima og erlendis.

Þetta álit sem kom frá ESA að "líklega"myndu neyðarlögin halda var pantað álit af Bretum og Hollendingum til að róa Íslending og fá þá til að samþykkja ríkisábyrgðina.

Ég skil ekki hvað þingið er að hugsa þegar það samþykkir 1.200 milljarða ríkisábyrgð á skuldbindingu sem engin veit í dag hvort verður greidd úr þrotabúi Landsbankans eða fellur öll á ríkissjóð. 

Tapist málaferlin vegna neyðarlagana og við búin að samþykkja ríkisábyrgð á 1.200 milljarða Icesave samningi, í hvaða stöðu erum við þá?

Nei, fellum þennan Icesave samning í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki forsvaranlegt að samþykkja 1.200 milljarða ríkisábyrgð í þeirri von að málaferli vegna neyðarlagana vinnist. 

Ég er gamblari en ekki svona mikill.

 


mbl.is Meirihluti segist styðja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, ég vel dómstólaleiðina. Það geri ég áhyggjulaust.

Einfaldir útreikningar, sjá hér, staðfesta að útreikningar InDefence á kostnaði við dómstólaleiðina eru réttir. Með einföldum útreikningum er hægt að staðfesta að kostnaðurinn við dómstólaleiðina er af þeirri stærðargráðu sem InDefence reiknar hann.

Mín niðurstaða er því sú að:

  • Það er ekkert þannig að Icesave kosti 47 ma. eins og stjórnvöld halda fram.
  • Það er ekkert þannig að dómstólaleiðin kosti 500 ma. eins og stjórnvöld halda fram.

Það er hins vegar hægt að treysta tölunum frá InDefence. Sjá nánar hér. Þeirra mat er þetta: 

  • 75 ma. kostar það okkur ef við samþykkjum Icesave.
  • 140 ma. kostar það okkur ef við töpum dómsmálinu algjörlega.

Þetta eru hinir raunverulegu valkostir sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Ég trúi að Lárus Blöndal fari með rétt mál varðandi réttarstöðu okkar. Ég trúi því að við annað hvort vinnum málið fyrir dómstólum eða verðum dæmd til að tryggja lágmarks innistæður upp á 20.887 evrur per reikning. Í báðum tilfellum mun ríkissjóður ekki þurfa að greiða krónu. Þrotabú Landsbankans á fyrir þessum dómi.

Ég trúi líka áliti þeirra lögspekinga sem lögðu fram sína umsögn um Icesave 3 fyrir fjárlaganefnd, þar sem fram kom að afar ólíklegt er að við verðum dæmd til að tryggja allar innistæður að fullu.

Ég er tilbúinn út frá þessum forsendum að fara dómstólaleiðina að gambla með það að geta hugsanlega lent í því að borga 140 ma í stað þess að þurfa með vissu að borga 75 ma. Með þessu er ég að gambla með 65 ma. (140 - 75 = 65 ma.)

Ég þykist líka vita að Bretar og Hollendingar eru EKKI tilbúnir að gambla í þessu máli með það undir að geta tapað 1.200 ma. Gerum okkur grein fyrir því að ef við vinnum málið fyrir Hæstarétti Íslands þá fá þeir ekki krónu. Tapi þeir málinu fyrir Hæstarétti Íslands þá tapa þeir 1.200 ma.

Gerum okkur líka grein fyrir því að ef við verðum dæmd til þess að tryggja lágmarks innistæður, 20.887 evrur per reikning, þá verður þrotabú Landsbankans gert að greiða Bretum og Hollendingum 630 ma. en það er kostnaðurinn við að tryggja þessar lágmarks innistæður. Það þýðir að Bretar og Hollendingar tapa 570 ma. miðað við fyrirliggjandi Icesave samning þar sem gert er ráð fyrir að þeir fái 1.200 ma.

Aðeins með því að þeir vinni málið og við dæmd til að tryggja allar innistæður að fullu fá þeir út úr dómsmáli eitthvað í líkingu við Icesave samninginn. Og hverjar eru líkurnar á því? 5% til 10%?

  • Löngu áður en Hæstiréttur Íslands fær málið í sínar hendur þá semja Bretar og Hollendingar og hirða sína 1.200 ma. úr þrotabúinu án þess að nokkur ríkisábyrgð fylgi eða greiðsla frá ríkinu. Með slíkum samningi fá Bretar og Hollendingar 94% af núverandi Icesave samningi.
  • Slíkan samning gætu þeir klárað fyrir hádegi á morgun með Steingrími J. Það þarf engin lög frá Alþingi til að ganga frá slíkum samning. Það er bara vegna þess að Bretar og Hollendingar vilja fá ríkisábyrgð og 75 ma. til viðbótar við það sem er í þrotabúi Landsbankans að þessi Icesave samningur fór aftur fyrir þing og þjóð.  

Tapi Bretar og Hollendingar þessu máli fyrir dómstólum þá tapa þeir 1.200 ma. Hverjar eru líkurnar á því? 20% til 30%? Myndu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands þola það? Eru þessar ríkisstjórnir til í slíkt gambl?

Verði Íslendingar dæmdir til að greiða lágmarks trygginguna, sem margir telja líklega niðurstöðu, þá greiðir þrotabúið út 630 ma. Þá fellur ekki króna á íslenska ríkið. Þrotabúið á í dag í peningalegum eignum 700 ma. Bretar og Hollendingar tapa hinsvegar 570 ma. miðað við fyrirliggjandi Icesave samning. Myndu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands þola það? Eru þessar ríkisstjórnir til í slíkt gambl?

Nei, löngu áður en málið fer í hendur Hæstaréttar Íslands þá verða Bretar og Hollendingar búnir að gleyma öllu um ríkisábyrgðir og einhverjum smá greiðslum úr ríkissjóði Íslands. Þeir taka þrotabúið og fá þar með 94% af sínum kröfum.

Já, ég er tilbúinn að fara dómstólaleiðina og með því gambla með 65 ma. Það geri ég áhyggjulaust.


mbl.is Samningsbrotamál líklegast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versta niðurstaða úr dómsmáli 200 milljarðar.

Ingvi Hrafn á þakkir skyldar fyrir góðan þátt á ÍNN í gær með Lárusi Blöndal samningamanni í samninganefnd Íslands um Icesave. Eins var Lárus mjög góður og skýrði vel út þennan samning þannig að allir þeir sem á horfðu urðu miklu fróðari á eftir.

Það eina sem ég skildi ekki þegar ég horfði á þáttinn í gær var þegar Lárus fór að tala um þann kostnað sem gæti fallið á ríkissjóð, tapaðist málið fyrir dómstólum og við dæmd til að tryggja allar innistæður að fullu.

Þegar Lárus fór að tala um 300, 400 og jafnvel 500 milljarða vaxtakostnað sem gæti fallið á okkur færi dómsmálið á versta veg þá missti ég alveg áttirnar. 

Ég ætlað mér aldrei að fara út í það að vaxtareikna þetta dæmi en ef þessar útskýringar er það eina sem okkur býðst, tölur ekki studdar neinum útreikningum, þá á greinilega að setja það í hendurnar á almenningi að finna út úr þessu.

Til að reyna að skilja þessar tölur þá setti ég upp eins einfalt dæmi og hægt er út frá því sem við vitum.

  • Við vitum að allur Icesave pakkinn var, 09.01.2011, rétt rúmir 1.200 ma.
  • Við vitum að til að tryggja lámarksinnistæðu, 20.887 evru per reikning þá kostar það 630 ma.
  • Lárus Blöndal sagði okkur í gær að "peningalegar eignir" þrotabús Landsbankans eru um 700 ma, það er þrotabúið á í dag um 700 ma. í reiðufé.
  • Lárus Blöndal sagði okkur líka í gær að eins og staðan væri í dag myndi öllum greiðslum vegna Icesave ljúka fyrir 2016.

Fari málið fyrir dómstóla þá getum við valið tvær leiðir:

A) Borga þó svo dómsmál verði í gangi

B)  Borga ekkert nema við verðum dæmd til þess.

Við skulum gefa okkur að dómsmálið fari á versta veg og við eftir fjögur ár, 2015, verðum dæmd til þess að tryggja allar innistæður að fullu. Um 1.200 ma. munu þá falla með vöxtum á ríkissjóð. Segjum með 6% vöxtum frá og með árbyrjun 2010.

Leið A) 

Við veljum að borga og setja þrotabú Landsbankans upp í Icesave eftir því sem greiðslur berast þó svo dómsmálið sé í gangi. Þá lítur greiðsluflæðið út eins og sést á töflunni hér fyrir neðan. Vaxtakostnaðurinn verður 162 ma.

Icesave skuldin A

  • Á árinu 2010 falla á okkur 1.200 ma. Miðað við 6% vexti falla á árinu á okkur í vexti kr. 72 ma.
  • Á árinu 2011 þá greiðum við Bretum og Hollendingum það fé sem er til í þrotabúinu, 700 ma. Eftirstöðvar eru þá 500 ma. og vextir af 500 ma. á ári eru 30 ma.
  • Næstu fimm árin fram til 2016 koma þessir 500 ma. inn í þrotabúið, 100 ma. á ári. Vextir á eftirstöðvunum árið 2012 eru 24 ma., árið 2013 eru þeir 18 ma. svo 12 ma. og að lokum 6 ma. Samtals gera þetta 162 ma. í vexti.

Leið B)

Við veljum að borga ekki neitt úr þrotabúi Landsbankans vegna Icesave fyrr en við verðum dæmd til þess og gerum ráð fyrir því að það gerist 2015. Þá töpum við málinu stórt og þá fellur á ríkissjóð öll upphæðin, 1.200 ma. Þessi upphæð fellur öll á ríkisjóð með fullum vöxtum frá ársbyrjun 2010 og til ársins 2015. Þegar dómur fellur 2015 þá borgum við út það sem þá er til í þrotabúinu. Sjá töflu B) hér fyrir neðan. Ef við gerum þetta svona þá er vaxtakostnaðurinn 366 ma. Nú erum við farin að nálgast aðeins þær tölur sem Lárus Blöndal er að tala um.

En gleymum því ekki að þessir 700 ma. sem eru til í reiðufé í þrotabúinu í dag það fé hlýtur að vera geymt á vöxtum á einhverjum reikningum, í þýskum ríkisskuldabréfum eða eitthvað. Það fé hlýtur að safna vöxtum meðan við bíðum dóms og féð er í okkar vörslu. Við erum að fá um 2,5% vexti á gjaldeyrisforðann sem við tókum að láni hjá AGS og er geymdur í banka í BNA. Við skulum ætla að þrotabúið geti ávaxtað þetta fé með 3% vöxtum og þá lítur dæmið út eins og sést í töflu C). Vextirnir sem þrotabúið fær við það að greiða ekkert út og ávaxta féð er 171 ma.

Kostnaður ríkissjóðs vegna vaxta fyrir að borga ekkert fyrr en við verðum dæmd til þess er því 366 ma. - 171 ma.  =  195 ma.

Icesave skuldin

 

Hér er mjög einföld sviðsmynd af þeirri stöðu sem nú er uppi veljum við að hafna Icesave samningnum og fara dómstólaleiðina. Ég vil hafa alla fyrirvara á þessum útreikningum enda eru þeir eingöngu ætlaðir til að skynja stærðargráðu þess vaxtakostnaðar sem við stöndum frammi fyrir höfnum við Icesave og töpum málinu algjörlega fyrir dómi. Samkvæmt þessum einföldu útreikningum þá verður vaxtakostnaður okkar að fara dómstólaleiðina samt aldrei meiri en um 200 ma.

  • Íslendingar hafa alla tíð sagst vilja borga og ef við veljum leið A) í þessum málaferlum og byrjum strax að borga inn á Icesave það sem er til í þrotabúinu þá mun versta niðurstaða úr málaferlum kosta okkur þessa 47 ma. sem ríkið gerir ráð fyrir að falli á ríkissjóð plús vextir upp á  162 ma, samtals 209 ma.
  • InDefence metur þennan kostnað 140 ma., sjá nánar hér, enda gera þeir ráð fyrir lægri vöxtum en þessum 6% sem ég miða við. 

Ég get ekki skilið að versta niðurstaða fyrir dómstólum muni kosta ríkissjóð einhverja 500 milljarða eins og Lárus Blöndal vill halda fram.

Ég ítreka þá ósk mína að þessir útreikningar Lárusar / samninganefndarinnar verði lagðir fram svo menn eins og ég sem fyrirmunað er að reikna svona hluti út í huganum yfir sjónvarpsþætti, getum skilið hvernig þessir 500 ma. verða til.

Jafnframt vil ég benda á að ef við verðum dæmd til að tryggja lágmarksinnistæður, 20.887 evrur per reikning, sem að mati margra er líklegasta niðurstaðan í dómsmáli, þá mun það kosta 630 ma. Í þrotabúinu eru til í dag í reiðufé 700 ma. svo slík niðurstaða myndi ekki kosta ríkisjóð krónu. Slík niðurstaða í dómsmáli væri sigur fyrir okkur og fyrir þá sem vilja ekki borga krónu. Ég tala nú ekki um ef við vinnum málið og eigum ekki að greiða neitt. Fyrrum lánadrottnar Landsbankans sem nú bíða þess hvað kemur í þeirra hlut úr þrotabúinu myndu fagna þeirri niðurstöðu því þá verða þessir 1.200 ma. þeirra.

  • Bretum og Hollendingum mun sjálfsagt standa til boða á meðan málaferlunum stendur að taka þrotabúið upp í kröfur sínar en án ríkisábyrgðar og án þess að króna falli á almenning á Íslandi vegna þessa máls.
  • Slíkan samning þyrfti ekki að leggja fyrir Alþingi. Þetta geta embættismennirnir klárað því það er bara vegna kröfu Breta og Hollendinga um að fá aukalega 47 ma. og ríkisábyrgð að þetta mál endaði aftur fyrir þingi og þjóð. Bretar og Hollendingar gætu klárað þetta mál með Steingrími J fyrir hádegi á morgun ef þeir vildu.

Þeir hljóta að vega það og meta, Bretar og Hollendingar, hvort þeir vilja taka áhættuna af málaferlum og fá hugsanlega ekkert eða hirða þrotabúið og fá 96% af sínum kröfum.

Er þessi dómstólaleið ekki bara góð leið til að leiða þetta mál til lykta?

 

 


mbl.is Réttlætir ekki herferð Breta og Hollendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave 3 kostar 25-230 milljarða. Dómstólaleiðin 0-140 milljarða.

Valið sem við stöndum frammi fyrir eftir að forsetinn synjaði Icesave lögunum staðfestingar er:

  • Icesave 3 sem mun kosta okkur 25 til 230 milljarða
  • Dómstólaleiðin sem mun kosta okkur 0 til 140 milljarða 

Ég vil benda áhugasömum á þessar umsagnir hér um Icesave 3.

Í umsögn InDefence er að finna eina matið sem ég hef sé á því hvað það mun kosta þjóðina ef dómstólaleiðin verður farin.

Þetta eru niðurstöður InDefende. Sjá töflu bls 49 í greinargerð þeirra:

  • 140 milljarða mun það kosta ríkið ef málaferlin tapast algjörlega.
  • 22 milljarða mun það kosta ríkið ef við verðum dæmd til að tryggja lámarksinnistæður, rúmlega 20 þúsund evrur per reikning.
  • 0 milljarða mun það kosta ríkið ef við vinnum málaferlin.

Þá er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

  • 75 milljarða mun Icesave 3 kosta okkur að mati InDefence.
  • 25 til 230 milljarða mun Icesave 3 kosta okkur að mati að mati GAM Management.
  • 47 milljarða  mun Icesave kosta skv. stjórnvöldum.

Miðað við lögfræðiálitið þá er líklegasta niðurstaðan í dómsmáli að við verðum dæmd til að tryggja allar innistæður upp að rúmlega 20 þúsund evrum. Það mun kosta okkur 22 milljarða, að mati InDefence.

Í umsögn lögmannanna er talið mjög ólíklegt að við töpum málinu algjörlega og verðum dæmd til að tryggja allar innistæður að fullu en það mun kosta okkur 140 milljarða að mati InDefence.

Valið sem við stöndum frammi fyrir er:

  • Icesave 3 sem mun kosta okkur 25 til 230 milljarða
  • Dómstólaleiðin sem mun kosta okkur 0 til 140 milljarða 

Er þetta svo erfitt val, hafandi í huga að Bretar settu hryðjuverkalög á ríkissjóð og Seðlabankann og frystu með því inni í J.P. Morgan bankanum í London gull- og gjaldeyrisforða þjóðarinnar á ögurstundu og lýstu því síðan yfir í heimspressunni að Ísland væri gjaldþrota?

Er þetta svo erfitt val?

 

 


mbl.is Afar ólíkir kostir en síðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki byrjar hún vel kynningin á Icesave 3.

Ekki byrjar hún vel kynningin á nýjasta Icesave samningnum. Lárus Blöndal kemur fram með tölur í þessu viðtali um væntanlegan kostnað þjóðarinnar af Icesave 3 sem eru í engu samræmi við önnur gögn í málinu.

Í umsögn GAM Management sem lögð var fyrir þingið í janúar, sjá hér,  eru reiknaðar út nokkrar mögulegar sviðsmyndir vegna Icesave 3. Niðurstaða þessara sérfræðinga er að Icesave 3 muni kosta þjóðina 25 til 230 milljarða. Engir þeirra óháðu aðila sem reiknað hafa og metið væntanlegan kostnað þjóðarinnar af Icesave 3 hafa komist að sömu bjartsýnis niðurstöðu sem ríkisstjórnin og Lárus Blöndal eru að kynna, að Icesave 3 muni kosta ríkissjóð 47 milljarða.

InDefence reiknar þennan kostnað 75 milljarða, sjá hér

Þá segist Lárus bjartsýnn á að þrotabú Landsbankans muni duga fyrir Icesave.

Ljóst er að Bretar og Hollendingar deila þessari bjartsýni ekki með Lárusi. Teldu Bretar og Hollendingar að þrotabú Landsbankans dygði fyrir þessum skuldbindingum þá væru þeir ekki að sækja það svona fast að ríkissjóður gangist í ábyrgðir fyrir því sem þeir gera ráð fyrir að standi út af borðinu þegar þrotabúið er uppgert.

Ef Bretar og Hollendingar væru sammála þessu mati Lárusar að þrotabú Landsbankans muni duga fyrir Icesave þá væri þeir ekki að fara fram með þennan Icesave samning og þeir væru þá ekki að krefjast þess að fá ríkisábyrgð á samninginn.

Nú þegar forsetinn hefur vísað Icesave 3 til þjóðarinnar þá er mikilvægt að fram fari heiðarleg umræða um samninginn, kosti hans og galla.

Mikilvægt er að stjórnvöld og samningamenn leggi fram réttar upplýsingar og kynni raunsanna mynd af samningnum.

Það að koma fram með ótrúverðugar bjartsýnisspár og mála samninginn miklu bjartari litum en tilefni er til er ekki að hjálpa neinum í þessu máli.

 


mbl.is Skýrir kostir í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn sjálfum sér samkvæmur

Með því að synja aftur lögum um Icesave staðfestingar og vísa þeim til þjóðarinnar þá er forsetinn sjálfum sér samkvæmur. Hann notar nú sömu rök og sömu ástæður og hann notaði þegar hann vísaði Icesave 2 samningnum til þjóðarinnar.

Icesave 3 er í eðli sínu sami samningur og Icesave 2. Bara aðeins lægri vextir fyrstu árin. Þess vegna hefði það verið sérstakt að vísa bara Icesave 2 til þjóðarinnar en ekki Icesave 3.

Í þessu ölduróti sem hér hefur gengið yfir stendur forsetinn fastur fyrir, trúr sínum eigin rökum og fyrri ákvörðunum og lætur hótanir og heimsendaspár ekki villa sér sýn.

Fyrir þetta á forsetinn þakkir skyldar.  

----- o ---- 

Nú er komið að þjóðinni að hrinda af höndum sér fyrirætlunum stjórnvalda og erlendra ríkja að velta skuldum gjaldþrota fjármálastofnunar yfir á launafólk og skattgreiðendur á Íslandi.

Þessir stjórnmálamenn og þessi stjórnvöld eru búin að skuldsetja þetta samfélag nóg. Látum þessa stjórnmálamenn og þessi stjórnvöld ekki skuldsetja okkur enn frekar.

Göngumst ekki í ábyrgð fyrir skuldir gjaldþrota banka.

Höfnum Icesave 3 í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu.


mbl.is Forsetinn staðfestir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin er að taka Icesave úr höndum þingsins. 39.035 undirskriftir á www.kjosum.is

Það er ljóst að þjóðin er að taka Icesave úr höndum þingsins. það rignir inn undirskriftum á vefnum http://www.kjosum.is.

Enda ekki nema von. Engin haldbær rök hafa verið lög fyrir þjóðina hvers vegna hún á að taka á sig þessar skuldbindingar.

"Af því bara" eru engin rök.

"Betri samningur en síðast" eru heldur engin rök.

"Óvissa er um niðurstöður dómsmáls" eru heldur engin rök

Eftir að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög, lýstu því yfir að Ísland væri gjaldþrota og frystu inni í útibúi J.P. Morgan í London gull- og gjaldeyrisforða þjóðarinnar þá er ekki hægt að tefla fram einhverjum sanngirnissjónarmiðum í þessu máli gagnvart okkur Íslendingum

Þessi samningur er í eðli sínu sami samningur og Davíð Oddsson og Árni Mathiesen skrifuðu undir á sínum tíma.

Fyrstu árin eru jú aðeins lægri vextir en síðast en svo fara vextir að sveiflast með einhverjum millibankavöxtum sem engin veit hverjir verða. Þá er búið að fella út nokkur ákvæði í eldri samningum sem voru sett inn í þeim tilgangi einum að niðurlægja okkur sem þjóð.

Það að þessi samningur er orðin "svo hagstæður" eins og kynnt hefur verið er vegna nýrra upplýsinga frá Landsbankanum að nú er gert ráð fyrir hærri endurheimtum úr þrotabúinu. Auk þess sem gengi krónunnar hefur styrks frá því fyrir ári.

Að öðru leiti er allt óbreytt. Sjá nánar hér á blogginu.

 

Þetta mál á að taka úr höndum þingsins eins og síðast. Ef við og börnin okkar eigum að borga þetta þá skulum við í það minnsta hafa samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

http://www.kjosum.is.


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin er að taka Icesave úr höndum þingsins. 27.257 undirskriftir á www.kjosum.is

Það er ljóst að þjóðin er að taka Icesave úr höndum þingsins. það rignir inn undirskriftum á vefnum http://www.kjosum.is.

Enda ekki nema von. Engin haldbær rök hafa verið lög fyrir þjóðina hvers vegna hún á að taka á sig þessar skuldbindingar.

"Af því bara" eru engin rök.

"Betri samningur en síðast" eru heldur engin rök.

"Óvissa er um niðurstöður dómsmáls" eru heldur engin rök

Eftir að Bretar settu á okkur hryðjuverkalög, lýstu því yfir að Ísland væri gjaldþrota og frystu inni í útibúi J.P. Morgan í London gull- og gjaldeyrisforða þjóðarinnar þá er ekki hægt að tefla fram einhverjum sanngirnissjónarmiðum í þessu máli gagnvart okkur Íslendingum

Þessi samningur er í eðli sínu sami samningur og Davíð Oddsson og Árni Mathiesen skrifuðu undir á sínum tíma.

Fyrstu árin eru jú aðeins lægri vextir en síðast en svo fara vextir að sveiflast með einhverjum millibankavöxtum sem engin veit hverjir verða. Þá er búið að fella út nokkur ákvæði í eldri samningum sem voru sett inn í þeim tilgangi einum að niðurlægja okkur sem þjóð.

Það að þessi samningur er orðin "svo hagstæður" eins og kynnt hefur verið er vegna nýrra upplýsinga frá Landsbankanum að nú er gert ráð fyrir hærri endurheimtum úr þrotabúinu. Auk þess sem gengi krónunnar hefur styrks frá því fyrir ári.

Að öðru leiti er allt óbreytt. Sjá nánar hér á blogginu.

 

Þetta mál á að taka úr höndum þingsins eins og síðast. Ef við og börnin okkar eigum að borga þetta þá skulum við í það minnsta hafa samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

http://www.kjosum.is.


mbl.is „Hið ömurlegasta mál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

22.165 undirskriftir komnar á www.kjosum.is

Um tuttugu og eitt þúsund manns hafa frá því á föstudag skrifað undir áskorun til forseta Íslands að synja lögum um Icesave 3 staðfestingar.

Þegar ég skrifaði undir þessa áskorun um hádegi á laugardag þá höfðu rétt rúmlega þúsund manns skrifað undir. Síðan þá hafa um tuttugu og eitt þúsund manns undirritað áskorunina.

Slóðin er http://www.kjosum.is

Ég hvet alla til að undirrita þessa áskorun.


mbl.is Lokaumræða um Icesave-frumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr undirskriftarlisti vegna Icesave 3 kominn fram. Slóðin er: www.kjosum.is

Nýjum  undirskriftarlista vegna Icesave 3 hefur verið hrundið af stað á netinu. Þennan undirskriftarlista er að finna á slóðinni: www.kjosum.is

Þar segir meðal annars: 

Samstaða gegn Icesave eru samtök fjölmargra aðila sem stofnuð eru til þess að berjast gegn því að Ríkissjóður Íslands taki á sig ábyrgð á Icesave- innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Samtökin hafa hrint af stað undirskriftasöfnun til að skora á forseta Ísland að staðfesta ekki ný lög sem fela í sér ábyrgð ríkissjóðs á Icesave og vísa þeim til þjóðarinnar.

Samstaða minnir á að samkvæmt lögum sem giltu í EES við hrun íslensku bankanna haustið 2008 var ábyrgð innistæðna ekki á ríkissjóði heldur þvert á móti var ríkisábyrgð bönnuð. Lámarksábyrgð sem getið var um í lögum var á hendi ábyrgðasjóða innistæðueigenda sem bankar greiddu í. Viðurkennt er að þetta kerfi var aldrei hugsað til að mæta kerfishruni. Sú ákvörðun breskra og hollenskra ríkisstjórna að bæta innistæðueigendum Icesave tjón sitt áður en ljóst væri hvort forgangskröfur yrðu bættar úr þrotabúi LÍ var á þeirra ábyrgð.  

Samstaða bendir á að mikil óvissa er um hvaða upphæð lendir á ríkissjóði því Icesave-samningurinn er háður mörgum  óþekktum aðstæðum og getur upphæð samningsins farið í hundruð milljarða króna og þannig íþyngt framtíð þjóðarinnar með miklum skuldum. Óvissa er um hverjar eignir þrotabús Landsbankans verða, þær eru bundnar til lengri tíma og því háðar mörgum þáttum um verðgildi, s.s. efnahagsþróun almennt og markaðsþróun. Einnig er óvissa vegna mögulegra málaferla sem gætu haft áhrif á forgang krafna vegna Icesave. Mikil óvissa er einnig um gengisþróun krónunnar m.a. vegna of mikilla skulda ríkisins.

Samstaða telur fullyrðingar um að Ísland og íslenskir aðilar verði útilokaðir frá samskiptum og hagstæðum viðskiptum séu ekki byggðar á haldbærum rökum. Reynslan sýnir að slíkar þvinganir komi frá pólitískum stofnunum eins og Evrópska fjárfestingabankanum og renna fljótt út í sandinn. Það hefur sýnt sig að þrátt fyrir höfnun þjóðarinnar á Icesave hafa íslenskir aðilar getað fjármagnað sig á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Lánshæfi íslenska ríkisins, og þar með trúverðugleiki Íslands sem efnahagslega sjálfstæðrar þjóðar, mun hins vegar bíða mikið tjón ef Alþingi samþykkir mikla óvissa skuldabyrði.

Samstaða telur það vanvirðu við Alþingi og íslensku þjóðina að ríkisstjórnin leggi enn einu sinni fram kröfu um ríkisábyrgð á Icesave, að íslenska þjóðin viðurkenni og greiði skuld sem hún hefur hafnað og henni ber ekki að greiða. Litlu skiptir þó skuldakjör séu betri því ábyrgðinni á allri skuldinni yrði velt yfir á þjóðina með niðurskurði í samfélaginu og meiri skattbyrði um næstu framtíð.

Samstaða telur að Ríkissjóði Íslands beri ekki að gangast undir slíka ábyrgð og hafi lögin sín megin. Hræðsluáróður um tapaðan málstað er byggður á vanþekkingu eða tilfinningum og ætlaður til að hræða almenning.  Málið varðar gjaldþrota banka og kröfur í bú hans. Engu skiptir hvað ESA úrskurðar í málinu, ríkisábyrgð er bönnuð samkvæmt reglum EES samningsins.

Samstaða hvetur landsmenn til þátttöku í undirskriftasöfnun til þess að skora á Forseta Íslands að staðfesta ekki ný Icesave-lög ef Alþingi samþykkir samninginn. Þrátt fyrir hugsanlega aukin meirihluta á Alþingi fyrir málinu nú vegna hagstæðari samningskjara er ljóst að Icesave-samningurinn mun skerða lífsgæði þjóðarinnar með byrðum sem henni er óskylt að bera og því eigi hún sjálf að taka ákvörðun um niðurstöðuna.

Ég hvet alla að fara inn á vefinn  http://www.kjosum.is/  og skrifa þar undir þessa áskorun til forseta Íslands.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband