Norðurlöndin bíta af sér kreppuna

NorðurlöndinGreiningardeild norræna bankans Nordea spáir því að samdráttur verði á öllum Norðurlöndunum á árinu. Mestur verður samdrátturinn hér á landi, eða 12% samkvæmt spá bankans og 1,5% í Svíþjóð, 1,3% í Finnlandi, 1% í Danmörku og 0,1% í Noregi.

Í ljósi þess að yfir heimsbyggðina gengur nú versta kreppa síðan kreppan mikla skall á 1929, þá er ljóst samkvæmt þessari spá að hún mun ekki hafa dramatísk áhrif á hinum Norðurlöndunum. Núll til 1,5% samdrætti er spáð á erfiðasta ári kreppunnar í þessum löndum. Þar hefur undanfarin ár verið 3% til 6% hagvöxtur. Þessum samdrætti sem nú er spáð mun þýða að staðan verður í lok ársins 2009 eins og hún var í þessum löndum sumarið 2008. Þessi lönd munu síðan halda sjó árið 2010 með hagvöxt í kringum núll. Eftir það er bjart framundan.

Atvinnuleysi mun aukast og vera frá 5% til 9% eftir löndum. Svíar verða með mest atvinnuleysi. Bandaríkjamenn og Bretar gera ráð fyrir töluvert meiri samdrætti og atvinnuleysi en þetta.

Án þess að hafa gert á því rannsókn þá trúi ég því að fá ef nokkur lönd muni ná að bíta þessa kreppu jafn vel af sér og Norðurlöndin.

Ef þessi spá Nordea reynist rétt þá eru Norðurlöndin að standast þetta mikla álagspróf sem núverandi heimskreppa er með toppeinkunn. Þetta eru lönd sem standa á öllum sviðum fremst meðal jafninga og eru um leið með eitt besta velferðarkerfi í heimi byggt á gildum hægrisinnuðu borgaraflokkanna þar sem atvinnulífinu er sannanlega leyft að njóta sín þó um leið sé haldið fast í eyrun á því.

Er nema von að ég og fleiri horfi til hinna Norðurlandanna og spyrji "Af hverju get ég ekki fengið svona samfélag á Íslandi"?

Ef þú sem þetta lest vilt líka þetta Norræna samfélag á Íslandi þá skoðaðu heimasíðu Norræna Íhaldsflokksins hér.

 http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/

 


mbl.is Samdráttur á öllum Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt fólk valið til forystu

ObamaVið hljótum að fagna þessum tímamótum með Bandaríkjamönnum. Ég skal viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að Bandaríkjamenn ættu það til að kjósa blökkumann sem forseta sinn.

Á sama hátt skal ég viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að Framsóknarmenn ættu það til að kjósa mann "utan úr bæ" sem formann sinn og hafna öllum þeim sem hafa starfað og gengt trúnaðarstöðum í flokknum.

Þessir tímar sem við nú lifum kalla á pólitískt uppgjör. Bandaríkjamenn og framsóknarflokkurinn hafa stigið sín skref. 

Slegist er fyrir utan Alþingi Íslendinga á sama tíma og ég skrifa þessi orð. Miklu meiri endurnýjunar er þörf á Íslandi þó það sé gott skref að framsóknarmenn hafi valið sér nýtt fólk í forystu.

Bandaríkjamenn og Framsóknarmenn verðskulda hamingjuóskir.

 

 


mbl.is Gífurlegt fjölmenni í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhliða upptaka evru?

evraÞetta eru athyglisverðar niðurstöður. Willem H Buiter prófessor í evrópskri stjórnmálahagfræði við London School og Economics leggur til að langtímamarkmið okkar eigi að vera að ganga í Myntbandalagið og taka upp evru.

Horft til þeirra ára sem mun líða þar til það er hægt þá leggur hann til að við tökum upp norska eða danska krónu. Ef við ætlum að nota íslensku krónuna áfram þá þurfum við að vera með gjaldeyrishöft hér næstu ártugina og hverfum atvinnulega áratugi aftur í tímann.

Ef Noregur eða Danmörk væru tilbúin til þess að leyfa okkur að nota þeirra gjaldmiðil og Seðlabanki þeirra yrði lánveitandi íslensku bankana til þrautavara þá ættum við að þiggja það. En væru Norðmenn og Danir til í það? Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst það ólíklegt en það er sjálfsagt að reyna. Þetta var nefnt við norska ráðamenn og við sáum þá hlægja að því hér fyrir jól. Þeir tóku þessu sem brandara þá. Kannski skilja þeir alvöruna nú.

En ég spyr, hvað gerist ef þjóðin hafnar aðild að ESB og upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvert er þá "Plan B"? Íslensk króna og gjaldeyrishöft næstu áratugina?

Ég er sammála Birni Bjarnasyni að við eigum að taka einhliða upp evru og það sem fyrst. Samhliða eigum við að gera þrennt.

  • Lýsa því yfir að við óskum eftir aðildarviðræðum við ESB. 
  • Að við stefnum að því að uppfylla Maastricht skilyrðin sem er forsenda þess að fá að nota evruna.
  • Síðast en ekki síst eigum við að senda okkar besta fólk af stað til ríkisstjórna landanna í ESB og skýra þeim frá stöðu mála hér heima. Einstaklingar, fyrirtæki og þjóðin öll eru að stefna í gjaldrot og við getum aldrei unnið okkur út úr þessum vanda né borgað skuldir okkar nema við skiptum um gjaldeyrir. Ekki sé verið að biðja um samþykki heldur er verið að óskað er eftir að okkur sé sýndur skilningur á þessum sérstöku aðstæðum á Íslandi og þetta sé algjört neyðarúrræði að taka evruna upp einhliða með þessum hætti. Ég held að okkur verði sýndur ákveðinn skilningur og þessar þjóðir muni setja "kíkirinn fyrir blinda augað" veljum við að fara þessa leið.

Að fara í myntbandalag við Dani og Norðmenn, það ferli gæti tekið mörg ár ef það er þá raunhæfur kostur. Hin leiðin er fær að taka upp einhliða evru.

Áhyggjur af því að bankakerfið hafi þá ekki lánveitanda til þrautavara eru skiljanlegar en er það ekki nákvæmlega sama staða og við höfum í dag? Ég get ekki séð að Seðlabankinn hafa neina burði til að verja bankana hvort heldur við erum hér með krónur eða evrur.

Að gjaldeyrir muni streyma úr landinu vegna jöklabréfanna ef við tökum upp evru er eru einnig skiljanlegar. En þetta eru bara að mér skilst átján aðilar sem eiga þessi bréf. Er ekki spurningin að semja við þá um að þeir fái þetta fé í áföngum á næstu 4 til 6 árum og aflétta þar með þessari pressu? Við getum í versta falli verið með einhver gjaldeyrishöft á þessu tímabili.

Já, ég er alltaf að styrkjast í því að við eigum að taka einhliða upp evru. Þetta á að vera okkar "Plan B" hafni þjóðin aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 


mbl.is Voru í raun án Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Melurinn"

IMG_2458Við vorum á leiðinni niður fjallið. Þetta var einn af þessum fallegu sumardögum, síðla í júní í fyrra. Lúpínan öll blómstrandi, birkið full laufgað og holtablómin öll byrjuð að blómgast. Veðrið var kyrrt og milt, sól skein í heiði. Dreifðir skýjaflákar voru yfir Bláfjöllunum. Stundin uppi á Þverfjallshorni hafði verið einstök að vanda. Í þetta sinn hafði verið logn. Það er alltaf einstakt að upplifa það. Útsýnið alltaf jafn stórbrotið.

Við vorum að ganga yfir brúna á læknum þegar hann spyr. "Friðrik, værir þú ekki til í að aðstoða mig aðeins á eftir. Ég er sem sex hesta á húsi, náði að hreyfa tvo í gær en hefði þurft að hreyfa hina fjóra á eftir".

Ég vissi að bróðir minn var búinn að vera í þessu hestastússi frá því hann kom heim frá námi. Hann hafði oft boðið mér að koma mér sér á hestbak en það hafði aldrei freistað mín. Ég hafði reyndar verið mikið á hestbaki þegar ég var í sveit í Blönduhlíðinni hjá ömmu og frændfólki mínu þar. Þá var ég daglega á hestbaki, reið berbakt að sækja kýrnar og fór í útreiðartúra á sunnudögum. Skemmtilegast var þó að fara ríðandi að vitja neta í vötnunum. Þar lærði ég að sundríða. En það er svo óralangt síðan þrjátíu, fjörutíu ár eða eitthvað.

Þetta flögraði allt í gegnum huga minn þarna á göngubrúnni og það hefur líklega tekið einhvern tíma því hann bætti við. ´" Ég ætla að fara upp á Laxnes á hestunum á eftir. Ég býð þér upp á kaldan öl á barnum ef þú kemur með". "Ha"? spurði ég forviða. "Er bar þarna"? "Já". Svaraði hann. "Það er hestahótel, ferðaþjónusta og reiðskóli". "Ha"? spurði ég forviða. "Er hestahótel og bar í Laxnesi"?

Tveim tímum seinna var ég eftir alla þessa áratugi aftur kominn á hestbak. Þennan sunnudag var áfangastaðurinn ekki gamla útisundlaugin á Víðivöllum sem við bræður fórum svo oft í á sunnudögum hér áður fyrr. Nú var áfangastaðurinn nýr heimur uppi í Laxnesi. Heimur sem hafði alveg farið framhjá mér.

Hann hringdi rétt áðan. "Friðrik, það þarf að hreyfa hesta í dag. Ég verð uppi í hesthúsi klukkan hálf tvö". Ég sit hér við tölvuna og horfi út um gluggann. Veðrið er hreint óborganlegt hér í borginni í dag, sól, stilla og heiður himinn. Ég hugsa til þeirra Grána og Brúns í hesthúsinu uppi í Mosfellsbæ. Ég hugsa upp í Laxness og finn að ég er lagður af stað í huganum. Ég hugsa til bróður míns og segi hálf upphátt við sjálfan mig. "Melurinn".

 


Eiður Smári skorar sigurmarkið

Eiður SmáriÉg varð aftur stoltur af því að vera Íslendingur þegar ég horfði á Eið Smára skora sigurmark Barcelona í kvöld. Hann stóð sig vel, var út um allan völl, átti bestu stoðsendingar leiksins og það var bara unun að fylgjast með honum.

Eiður Smári er okkar besti sendiherra í Evrópu í dag. Það má ekki gleyma því að þó við séum í dag hnýpin þjóð í vanda þá búum við enn að öllum okkar mannauði, þekkingu og auðlindum. Okkar besta fólk er að berjast á fullu, hvert á sínum velli.

Nú þarf að endurskipuleggja vörnina og skipta um markmann. Þá getum við farið að spila sóknarleik á ný og skora mörk.


mbl.is Eiður Smári skoraði sigurmark Barcelona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegsstefna Norræna Íhaldsflokksins

HoltasóleyTeknar verði upp vistvænar veiðiaðferðir að fyrirmyndi Normanna og bannaðar veiðar með botntroll og snurvoð. Hættum að slétta hafsbotninn umhverfis landið og breyta með því vistkerfinu og þar með lífsskilyrðum nytjastofnanna.

Áratugur verið tekin í slíka aðlögun og aflaheimildirnar færðar yfir á neta– og krókabáta. Þessir bátar skipa öllum sínum afla á land í sjávarplássunum kring um landið. Aukin hlutur dagróðrarbáta mun veita á ný súrefni, birtu og il inn í þessa bæi. Landsbyggðin mun þá ganga í endurnýjun lífdaga sinna. Endurreisn sjávarplássanna um land allt með þessum hætti er eitt af markmiðum Norræna Íhaldsflokksins.

Þegar allar aflaheimildir eru komnar á hendur dagróðrabáta og aflanum öllum landað á Íslandi þá erum við um leið búin að tryggja að eignarhaldið og nýting auðlindarinnar verður um ókomin ár í höndum aðila sem búa í sjávarplássunum á Íslandi.

Sjá hér allt um auðlindastefnu Norræna Íhaldsflokksins og heimasíðu hans:

http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/index.htm

  

Sveitarstjórnarmenn, sýnið samfélagslega ábyrgð.

 

Hugtakið samfélagsleg ábyrgð var kynnt fyrir okkur Íslendingum fyrir nokkrum árum. Þetta hugtak var einkum notað af stjórnmálamönnum sem svipa á fyrirtæki landsins, að þau ættu að sýna samfélagslega ábyrgð og taka þátt í hinum og þessum verkefnunum og leggja eitt og annað til samfélagsins. Almennt tel ég að fyrirtæki á Íslandi sýni mikla samfélagslega ábyrgð og þau taka öll, eftir efnum og aðstæðum, mikinn þátt í þeim samfélögum þar sem þau eru starfandi. Sem þátttakandi í Lionshreyfingunni á Íslandi og íþróttahreyfingunni þá þekki ég hvað gott er að leita til íslenskra  fyrirtækja.

Byg penNú er hins vegar komið að því að ríki og sveitarfélög sýni samfélagslega ábyrgð í þeirri kreppu sem nú gengur yfir. Það finnst mér ríki og sveitarfélög ekki vera að gera. Stærstu sveitarfélög landsins hafa nýverið kynnt fjárhagsáætlanir sínar. Í kreppunni ætla þau að keyra blákalt með óbreytt góðærismarkmið í fjármálum sínum, þ.e. að vera með hallalausa bæjarsjóði. Ekkert annað virðist skipta þau máli. Þetta er hræðileg stefna og alröng við núverandi aðstæður. Nú eiga og verða þessir aðilar að koma sterkir inn með mannaflsfrekar framkvæmdir.

Á þremur mánuðum hafa ellefu þúsund íslendingar skráð sig atvinnulausa. Á sama tíma ætla stærstu bæjarfélög landsins ekki að taka mikinn þátt né axla miklar byrgðar til að minnka það atvinnuleysi. Gömul góðærismarkmið yfirskyggja allt, hallalausir bæjarsjóðir. Jafnvel vel stæð sveitarfélög eins og Seltjarnarnesbær virðist einnig ætla að halda að sér höndunum.

Hvað ríkið varðar þá hefur það verði með útboðsbann í meira en hálft ár. Fátt er þaðan að frétta og ekkert sem er til þess fallið að draga úr atvinnuleysinu.

Ótrúlegt er að horfa upp á þetta aðgerðarleysi og ótrúlegt er að horfa upp á stærstu og öflugustu sveitarfélög landsins ekki ætla að taka á sig neinar byrgðar aðrar en þær sem rúmast innan hallalausra bæjarsjóða. Einmitt nú þegar þessir aðilar þurfa að koma inn með mannaflsfrekar framkvæmdir.

Opinberir aðilar eru búnir að rifta öllum samningum sínum við arkitekta- og verkfræðistofur landsins. Búið er að fresta eða slá af allar framkvæmdir og með því eru opinberir aðilar að skapa gríðarlegt atvinnuleysi.

Þegar á reynir er ekkert gert með allt talið um sveiflujöfnun. Í uppsveiflunni var sagt að ríki og sveitarfélög væru að halda að sér höndunum. Í niðursveiflu ætluðu þau að koma öflug inn með framkvæmdir og atvinnu. Hvað erum við ekki búin að heyra þetta oft frá núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra?

Hverjar eru efndirnar? Efndirnar eru þær að þegar niðursveiflan kemur þá hleypur ríkissjóður og sveitarfélögin á undan öllum öðrum og sker niður allt sem heita opinberar framkvæmdir og setur á útboðsbann. Ekkert gert með fyrri loforð, ekkert gert með fyrri áætlanir og plön. Hér er stjórnað frá hendinni til munnsins, engar áætlanir og engin ábyrgð. Og hverjum datt í hug að á mesta kreppuári í okkar samtímasögu þá eigi að reka Borgarsjóð Reykjavíkur suldlausan? Ef Reykjavíkurborg ætlar ekki að taka þátt og skapa hér atvinnu hvað er þá hægt að ætlast til af öðrum sveitarfélögum?

Opinberir aðilar eru ekki að axla þá samfélagslegu ábyrgð sem þeim ber í því ástandi sem hér ríkir.

Skorað er á sveitarfélögin að falla frá markmiðum sínum um hallalausa bæjarsjóði á þessum tveim til þrem kreppuárum sem framundan eru. Setjið í gang mannaflsfrekar framkvæmdir, þ.e. byggingaframkvæmdir við skóla, leikskóla og íþróttahús. Borgum síðan "Kreppulánin" í góðærinu sem hefst hér eftir tvö til þrjú ár. Þá geta opinberir aðilar dregið úr framkvæmdum og nýtt tekjurnar til að greiða þessar skuldir niður.

Sveitarstjórnarmenn, sýnið samfélagslega ábyrgð.

 


Íslenskur hægriflokkur sem vill ganga í ESB og taka upp evru.

everurÞað vantar á Íslandi hægri flokk sem vill ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Borgaraflokkarnir á hinum Norðurlöndunum hafa leitt baráttuna fyrir inngöngu landanna í ESB og að tekin verði upp evra. Slíkan valkost vantar hér.

Sjá heimasíðu  Norræna Íhaldsflokksins:

http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/

 


Fer Geir að fordæmi Guðna Ágústssonar?

483463Það er orðið daglegur viðburður að hrópað er á afsagnir ráðherra. Skipulögð fjöldamótmæli af stærðargráðu sem við höfum aldrei séð áður eru það einnig. Margt hefur breyst á örskömmum tíma.

Hér í byrjun nýs árs, horfandi á þau ósköp sem yfir okkur eru að ganga þá hvörfluðu eftirfarandi hugleiðingar að mér:

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð þá spáði ég því að hér væri verið að mynda ríkisstjórn sem myndi sitja að lámarki tvö kjörtímabil. Ég taldi að með myndun ríkisstjórnar þessara stóru flokka þá hafi ekki verið tjaldað til einnar nætur. Formenn þessara flokka ætluðu sér að sitja saman í ríkistjórn næsta áratuginn og í framhaldi af því hætta í stjórnmálum.

En það sem gerðist á síðasta ári var ekki bara að bankarnir urðu gjaldþrota og hér skall á gjaldeyrisskreppa. Stefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með forsætis- og fjármálaráðuneytið í sautján ár hefur beðið skipbrot.

Ekki veit ég hvað er að gerast á stjórnarheimilinu en er eins og fleiri að reyna að lesa í þau spil sem okkur almenningu eru sýnd og þar hefur fernt vakið athygli mína.

a) Bjarni Ben segir af sér stjórnarformennsku í N1 og dregur sig alveg út úr umsvifum í fyrirtækjarekstri. Er hann að gera ráð fyrir að breytingar verið á hans högum sem óbreytts þingmanns og seta hans í stjórn stórfyrirtækis eins og N1 er þá orðin óheppileg? Þar gæti tvennt komið til, ráðherrastóll eða trúnaðarstaða í Sjálfstæðisflokknum.

b) Kristján Arason hættir sem framkvæmdastjóri innlendra útibúa Kaupþings. Tengist það eitthvað eiginkonu hans, Þorgerði Katrínu? Eru að verða einhverjar breytingar á högum Þorgerðar Katrínu að seta hans sem einn af gömlu framkvæmdastjórum í bankanum er talin óheppileg? Hvaða breytingar gætu orðið á högum Þorgerðar Katrínar? Hún er jú varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra. Ætlar hún að bjóða sig fram til formanns á komandi Landsfundi Sjálfstæðisflokksins?

c) Breytingar á eftirlaunalögunum taka ekki gildi fyrr en í sumar. Af hverju og fyrir hverja / hvern er verið að gera þetta? Þeir sem hafa hér mestra hagsmuna að gæta og eru að missa mest eru þeir sem voru með bestu sérkjörin. Þeir sem voru með bestu sérkjörin voru ráðherrar og formenn stjórnmálaflokkanna. Ég held það sé ljóst að það er verið að fresta gildistöku þeirra til að gefa einhverjum tækifæri á að hætta í lok vorþings á fullum eftirlaunum samkvæmt gömlu kjörunum. Var þetta gert fyrir einhverja af formönnum flokkanna; Valgerði, Steingrím, Ingibjörgu, Guðjón eða Geir. Þeir sem er komnir með full réttindi sem ráðherrar og geta í vor hætt á gömlu kjörunum eru; Sturla, Einar, Árni, Björn og Geir. Það er ljóst að Geir mun „tapa mest“ hætti hann ekki í vor. Með því að halda áfram er Geir að skerða væntanleg eftirlaun sín verulega.

SjálfstæðisFálkinnd) Fylgi Sjálfstæðisflokksins er í sögulegu lámarki og jafn tísýnt um hvenær það lagast og hvenær kreppan lagast. Það getur tekið mörg ár. Gjaldeyriskreppan sem hér geisar og það tjón sem hún er að valda er afleiðing þeirrar stefnu Sjálfstæðisflokksins að halda í krónuna og hafa ekki ljáð máls á að ganga í ESB og taka upp evru. Gjaldþrot bankana er afleiðing þess regluverks sem gildir um bankastarfsemi hér heima og hvernig þeir störfuðu og fengu að starfa með stuðningi ríkisstjórnarinnar. Sá stuðningur kemur meðal annars fram í ummælum Forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali síðast í apríl þar sem hann fullyrðir að þó skuldbindingar bankakerfisins væru tíu sinnum meiri en þjóðarframleiðslan þá væri það í góðu lagi. Í ljósi fylgishruns Sjálfstæðisflokksins og þess gríðarlega tjóns sem hér hefur orðið og þar með þess skipbrots sem stefna Sjálfstæðisflokksins hefur orðið fyrir þá verður ekkert auðvelt fyrir Geir að mæta og óska eftir endurkjöri á Landsfundi flokksins. Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mætt á Landsfund með fylgi flokksins í jafn slæmri stöðu. Enginn formaður Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt er Forsætisráðherra hefur áður mætt á Landsfund með þjóðarbúið nánast gjaldþrota. Hann hlýtur að búast við mótframboði.

Eins og ég tók fram í upphafi þá eru þetta mínar hugleiðingar hér í byrjun árs. Niðurstaðan er tilgáta og mín tilgáta er sú að á komandi Landsfundi Sjálfstæðismanna muni Geir fara að fordæmi Guðna Ágústssonar og hætta sem formaður, Þorgerður mun bjóða sig fram í formanninn og Bjarni Ben í varaformanninn.

 
mbl.is Ráðherra segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðshreyfingin á réttri leið.

Ég styð eindregið þessar tillögur verkalýðshreyfingarinnar. Þeir eru á réttri leið. Til að koma hjólum atvinnulífsins á stað þá á að grípa til aðgerða eins og þessara.

Í þessu sambandi vil ég benda á aðgerðaráætlun sem Norræni Íhaldsflokkurinn hefur sent frá sér sem er á sömu nótum.

AÐGERÐARÁÆTLUN :

  • Allar vinnandi hendur verið kallaðar til starfa. Tilkynna á nú þegar að framundan sé vertíð sem muni standa í nokkur ár. Við þurfum að vinna okkur út úr miklum efnahagsvanda. Það gerum við ekki með svartsýni, aðgerðarleysi, samdrætti og atvinnuleysi. Það gerum við með því að blása til sóknar. Það þarf ekki mikið til að koma eins litlu hagkerfi og því íslenska í gang á ný. Til þess höfum við allt við höndina. Við viljum grípa til eftirfarandi aðgerða... 

  • Evra verði tekin upp einhliða innan þriggja mánaða. Í framhaldi verði sótt um aðild að ESB og Myntbandalaginu. 

  • Eftir upptöku evru verða gefin út ríkistryggð skuldabréf upp á 200—300 hundruð milljarða króna. Þessi bréf kaupa lífeyrissjóðirnir í landinu. Lífeyrissjóðunum er þar með tryggð ein öruggasta fjárfestingin sem þeir geta fengið.

  • Ríkið setur þetta fé inn í bankana og þeir koma með súrefni inn á markaðinn. Bankarnir verja þessu fé í eftirfarandi verkefni:

  • Byggingaiðnaðurinn þarf 5 milljarða króna á mánuði, þá rúllar hann áfram í þokkalegu lagi. Fyrirsjáanlegu hruni hans yrði þar með afstýrt og því gríðarlega tjóni sem því hefði fylgt. Haldið verði áfram með þau arðsömu og nauðsynlegu verkefni sem þar eru í gangi. Tónlistarhúsið verði steypt upp og það klárað að utan. Kjallararnir á húsunum við hliðina verið steyptir upp í götuhæð og svæðið grófjafnað. Ákveðið verði með framhaldið síðar.  

  • Nýju bankarnir standa við lánsloforð gömlu bankana og lána til álversins í Helguvík.  

  • Nýju bankarnir lána Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkuveitu Suðurnesja þannig að þessi félög geti byggt þau orkuver og lagt til þá orku sem til stendur að útvega.

  • Um leið og búið er að taka einhliða upp evru þá byrja nýju bankarnir og Íbúalánsjóður að lána 90% lán til allt að 80 ára til kaupa á almennu íbúðarhúsnæði. 

  • Ríkið standi við skuldbindingar sínar við Nýsköpunarsjóð og fyrirhugaða aðstoð við sprotafyrirtæki.

  • Skólum landsins verði gert kleyft að taka við stórauknum fjölda nemenda.

  • Samþykkt verði að mest öll aukning á veiðiheimildum í bolfiski á næstu þrem árum verði veidd með vistvænum veiðum af dagróðrarbátum, það er í net og með krókum. Kveikjum meira líf í útgerðarbæjum um land allt.

  • Samþykkt verði stækkun og flýting á framkvæmdum í Helguvík án þess að gefa afslátt af kröfum okkar í umhverfismálum.

  • Undirbúin virkjun í neðri hluta Þjórsá og framkvæmdir hafnar sem fyrst. Sett verði í gang hönnun nýrra vatnsafls– og jarðvarmavirkjana. 

  • Samþykkt verði gerð olíuhreinsistöðvar í Kvestu enda verði ströngustu kröfur til umhverfismála uppfylltar.

  • Flýtt verði framkvæmdum við álveri á Húsavík eins og hægt er án þess að gefa afslátt af kröfum okkar í umhverfismálum.

  • Búinn verði til sérstakur Byggingasjóður sem fær það hlutverk að yfirtaka óseljanlegar og yfirveðsettar íbúðir sem nú eru í byggingu eða standa fullbúnar. Þessi sjóður sér um að ljúka þeim íbúðum sem standa ókláraðar. Þessar íbúðir verði síðan seldar á almennum markaði og inn í félagslega kerfið með 90% lánum til 80 ára.

  • Gjaldtöku Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu við sölu lóða verði í framtíðinni stillt í hóf. Verð á lóðum sem sveitarfélögin liggja með núna verði lækkað um 50%. Sett verið lög á sveitarfélögin ef með þarf til að ná þessari lækkun fram. Opinbert eftirlit verið í framtíðinni haft með úthlutun lóða og verðlagningu með það að markmiði að svona “lóðabóla” endurtaki sig ekki aftur.

  • Sveitarfélögum verða hvött til framkvæmda og þeim verða lánuð sérstök framkvæmdalán sem gera þeim kleyft að setja í gang á næstu tveim til þrem árum mannaflsfrekar framkvæmdir, gerð skóla og íþróttahúsa og svo framvegis.

  • Settur verði á fót sérstakur lánasjóður hjá Íbúðalánasjóði sem lánar hagkvæm langtímalán til viðhalds og endurbóta á eldra húsnæði. 

Sjá nánar heimasíðu Norræna Íhaldsflokksins hér:

http://www.simnet.is/ihaldsflokkurinn/


mbl.is Lífeyrissjóðir fjármagni framkvæmdir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mbl.is í fararbroddi þjóðmálaumræðunnar

Það ber að þakka þetta framtak mbl.is.

Með þessari umfjöllun þá er mbl.is enn á ný að sanna sig sem einn besti og helsti vefurinn þar sem þjóðmálaumræðan fer fram.

Ég segi takk.


mbl.is Fréttaskýringar um ESB 4.-15. janúar: Kostir og gallar aðildar að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræni íhaldsflokkurinn með nýja heimasíðu

 

HoltasóleyÉg vil vekja athygli ykkar sem þetta lesið á nýrri heimasíðu Norræna íhaldsflokksins.

Þetta er vettvangur áhugafólks um ákveðnar breytingar sem við viljum að gerðar verði á Íslensku samfélagi.

Einnig er búið að setja upp bloggsíðu.

 


Sjúk hross í miðju hesthúsahverfi?

Ótrúleg var sú ráðstöfun að taka þessi sýktu hross og fara með í hesthúsahverfið í Mosfellsbæ. Mikil er ábyrgð þeirra sem tóku þá ákvörðun. Í þessu hesthúsahverfi eru fyrir á annað þúsund hross og mikill umgangur þar sem allir eru nú að taka hesta á hús.

Ég veit dæmi þess að hestaeigendur í nálægum húsum hafa ekki þorað taka hesta sína á hús vegna þess að dauðsjúkir hestar eru þarna enn í húsum og ekki er búið að sótthreinsa húsin, gerðið og næsta nágreni. Menn spyrja sig líka, verður þeim hestum sem lifa þetta af leyft að vera í þessum húsum í vetur? Þó þessir hestar lifi eru þeir ekki smitberar næstu mánuði? Þarf annað en mús að skjótast á milli húsa til að þetta smit berist um allt hverfið? Stafar mönnum hætta af þessu salmonellusmiti? Nú eru menn að járna og með hendurnar á kafi í hófum hesta sinna. Þurfa allir í hverfinu að gæta sérstaklega að hreinlæti umfram það sem vaninn er á komandi misserum? Mönnum er jú bannað að heilsa fólk sem er með salmonellusmit og það fær sér salerni á spítölum. Verða þessi hús þar sem þessi hross eru ónothæf fyrir ósýkt hross í hálft ár, eitt ár eða lengur? Gildir það sama um gerðin?

Berist salmonellusmit í aðra hesta er þá hægt að sækja bætur til þeirra sem heimiluðu að fársjúkt hestastóð með alvarlegan smitsjúkdóm var sett inn í mitt hesthúsahverfið? Hver ber ábyrgð á því og hver borgar þá það tjón? 

Það er tilfinnanlegt það tjón sem þeir eigendur eru að verða fyrir sem eru að missa sína hesta vegna þessa og þeir eiga alla mína hluttekningu. Það er hins vegar enginn bættari með því að setja aðra hesta þarna í hverfinu og hestamennina sjálfa í hættu.


mbl.is Óbreytt ástand á hrossunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

 

Ég óska Bloggvinum mínum gleðilegra jóla og farsælar á komandi ári.

Svo og öllum þeim sem heimsækja síðuna mína og lesa þessa kveðju.

 

Jólin 2008


Hver má veðsetja þjóðina?

Eftir íslensku bankakreppuna 2006 þegar m.a. Danske Bank spáði gjaldroti íslensku bankana minkuðu verulega möguleikar þeirra á að fjármagna sig með lánum frá öðrum bönkum. Það var með vilja og vitund Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að íslensku bankarnir hófu að safna innlánum erlendis.

Það var með vitund og vilja FME og Seðlabanka Íslands að Landsbankinn tók að safna sparifé útlendinga inn á innlánsreikninga sem voru skráðir á Íslandi og voru þar með á ábyrgð Seðlabanka Íslands með íslensku þjóðina sem ábekking.

Með því að safna þessum innlánum erlendis var verið að veðsetja almenning á Íslandi. Til þess að safna þessum innlánum þurfti meira en grænt ljós frá FME og Seðlabanka Íslands. Valdið til að veðsetja þjóðina liggur ekki hjá starfsmönnum þessara stofnanna. Það vald hlýtur að liggja hjá þeim ráðherrum sem stýra þessum stofnunum og ríkisstjórninni.

Heimild til þessara veðsetningar hlýtur að hafa komið frá ráðherrum og ríkisstjórn. Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra hljóta að hafa gefið bönkunum sitt samþykki með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi. Ég spyr, höfðu þessir ráðherrar umboð til að veðsetja á tveim árum almenning fyrir meira en þúsund milljarða?

Þeir sem bera pólitíska ábyrgð á að hafa aukið skuldir/ábyrgðir ríkisins um þúsund milljarða á tveim árum vegna innlánsreikninga bankanna í útlöndum hljóta að axla sína ábyrgð. 


mbl.is Um 150 milljarða bakreikningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótayfirlýsing Utanríkisráðherra

Þessi yfirlýsing Utanríkisráðherra markar tímamót. Hún markar tímamót í samstarfi stjórnarflokkanna. Hún markar tímamót í sögu beggja þessara flokka. Í sautján ára samfelldri stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins þá í fyrsta sinn stendur flokkurinn frammi fyrir miklum líkum á kosningum á miðju kjörtímabili.

En þessi yfirlýsing Utanríkisráðherra markar tímamót um fleira en það. Þau tímamót felast í því að kalla á til ábyrgðar þá aðila í stjórnsýslunni sem bera ábyrgð á hinu opinbera eftirliti með bönkunum. Þessir eftirlitsaðilar heimiluðu bönkunum að veðseta þjóðina fyrir meira en þúsund milljarða á tveim árum vegna Icesave reikninga Landsbankans. Eins á að kalla til ábyrgðar þá ráðherra sem með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi bera faglega ábyrgð á störfum þessara eftirlitsstofnana og bera þar með pólitíska ábyrgð á þúsund milljarða skuld/ábyrgðum sem þjóðin nú er ábyrg fyrir.

Fyrir liggur að þjóðin þarf að greiða hundruð milljarða úr eigin vasa vegna þessara innlánsreiknina. Þeir sem bera á því ábyrgð að hafa heimilað Landsbankanum að vestetja þjóðina með þessum hætti, með aðgeðum sínum eða aðgeðarleysi, eiga auðvita að axla sína ábyrgð. Það er í raun ótrúlegt að þessir menn skuli ekki sjálfir vera búnir að segja af sér.

Að mínu mati er þetta rétt ákvörðun og ég fagna þessari yfirlýsingu Utanríkisráðherra. Ég sakna hinsvegar þess að Forsætisráðherra skuli ekki sjálfur hafa gefið út svipaða yfirlýsingu. Ég neita að trúa því að það sé hans ætlan að láta stjórnsýsluna og þá ráherra sem bera hér mesta ábyrgð sitja áfram í sínum sætum. Ég neita að trúa því að hann átti sig ekki á að gjaldþrot bankana og gjaldeyriskreppan sem fylgdi í kjölfarið og það gríðarlega tjón sem almenningur hefur orðið fyrir og er að verða fyrir er of stórt mál til þess að hægt sé að láta kyrrt liggja og gera ekki neitt.

Ég hef sagt það áður og segi það enn. Ég vil að ríkistjórnin biðji almenning í landinu opinberlega afsökunar á þeim mistökum sem hér hafa verið gerð. Hún á að víkja úr starfi þeim starfsmönnum sínum sem þiggja há laun fyrir bera ábyrgð á þessum eftirlitsstofnunum. Eftirlitsstofnunum sem brugðust hlutverki sínu. Samhliða afsökunarbeiðni og brottrekstri þessara manna á ríkisstjórnin að tilkynna að boðað verði til kosninga á næsta ári og ríkisstjórnin óski eftir að endurnýja umboð sitt og fá tækifæri til að leiða það uppbyggingarstaf sem framundan er.

 

 


mbl.is Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullveldið, sjálfstæðið og ESB

Er það einhver sem heldur því fram að Frakkar, Ítalir eða Danir séu ekki sjálfstæðar og fullvalda þjóðir?

Það voru þjóðir Evrópu sem færðu okkar stjórnarskrána okkar, gáfu okkur fullveldið og hafa leyft okkur að vera sjálfstæð þjóð frá 1944.

Til skamms tíma var litið á okkur sem leppríki Bandaríkjanna.

Með inngöngu í ESB þá eru við orðin hluti af Evrópu, þjóð meðal sjálfstæðustu og öflugustu þjóða heims.

Hvar annarstaðar eigum við skipa komandi kynslóðum Íslendinga til borðs?


Það vantar nýjar íbúðir ef eitthvað er

Ég hef aldrei skilið fullyrðingar um að of mikið hafi verið byggt af íbúðum á undanförnum árum. Fasteignamarkaðurinn hafði verið sveltur í nærri aldarfjórðung þegar bankarnir loksins komu inn á þann markað haustið 2004. Fyrir þann tíma hafði Íbúalánasjóður og forveri hans verið þeir einu sem lánuðu hagstæð langtímalán til íbúakaupa ásamt nokkrum lífeyrissjóðum. Alla tíð miðaði þessi ríkisrekni lánasjóður við ákveðna fjárhæð sem hann var tilbúinn að lána. Ef kaupendur þurftu viðbótarlán voru þeir neyddir til að taka dýr skammtímalán í bönkum. Frá tímum ríkisrekna bankakerfisins fyrir 2004 þá er hér mikil uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir.

Frá haustinu 2004 og fram á haustið 2007, það er í þrjú ár buðu bankarnir almenningi upp á lán til íbúðakaupa eins og tíðakast hafa nær alla síðustu öld í nágrannalöndum okkar. Frá því í október 2007 drógu bankarnir sig vegna fjárskorts út af þessum markaði og hafa nánast ekkert lánað til íbúðakaupa síðustu 12 mánuði. Íbúðalánasjóður varð þá aftur einn eftir á markaðnum og engin hefur verið til að brúa bilið ef fjárþörf kaupenda er meiri. Stærsti framleiðandi og seljandi íbúða á Íslandi, BYGG, seldi eina íbúð á mánuði síðustu þrjá mánuði síðasta árs. Síðan fór ástandið versnandi, sögðu þeir.

Þegar bankarnir hættu að lána almenningi til íbúðakaupa þá hættu íbúðir að seljast. Það hafði ekkert með framboð eða eftirspurn að gera. Það að íbúðir hættu að seljast var vegna þess að kaupendur fengu ekki þá lánafyrirgreiðslu sem þeir þurftu.

Þegar horft er til þess að á Íslandi búa 2,7 íbúar í hverri íbúð en 1,8 í Kaupmannahöfn og 1,9 í Osló þá ætti öllum að vera það ljóst að við erum ekki búin að byggja yfir allt okkar unga fólk. Við eigum langt í land með að vera búin að leysa úr þessari uppsöfnuðu þörf eftir íbúðum frá tímum ríkiseinokunar á íbúðalánamarkaði.

Íslendingar eiga almennt fleiri börn en frændur okkar á Norðurlöndunum en ef skoðaðir eru þeir Norrænu bæir þar sem flestar barnafjölskyldur eru þá búa í þeim 2,3 til 2,4 íbúar per íbúð. Til þess að við hér komumst niður í þessa tölu þá þarf að byggja öll þau hverfi sem sveitarfélögin hér á Höfuðborgarsvæðinu eru búin að skipuleggja. Ef við ætlum að fara niður í tölu sem ég teldi vera eðlilega, 2,0 til 2,1 íbúa per íbúð, þarf að bæta við öllu því húsnæði sem Selfoss, Reykjanesbær og Akranes eru búin að skipuleggja.

Áttatíu og átta árgangurinn var fjölmennasti árgangur Íslandssögunnar. Þetta fólk varð tvítugt í ár. Árgangarnir sem á eftir komu eru enn fjölmennari. Á næstu árum kemur þetta fólk inn á fasteignamarkaðinn. Margt fólk milli tvítugs og þrítugs býr enn í heimahúsum. Þetta er unga fólkið sem keypti sér ekki húsnæði á þessu þriggja ára tímabili þegar bankarnir voru opnir. Þetta unga fólk flytur að heiman um leið og því býðst húsnæði á kjörum sem það ræður við. Við þekkjum þetta öll og öll þekkjum við fullt af ungu fólki sem býr enn í foreldrahúsum af þessum ástæðum.

Síðasta ríkisstjórn gerði tilraun til að höggva á þennan hnút og það var vel. Byggingamarkaðurinn, sveitarfélögin og bankarnir svöruðu því kalli og settu í gang löngu tímabærar íbúðabyggingar. Við áttum og eigum að halda áfram á þeirri braut. Það er ótrúlegt að stjórnvöld sem settu þetta mál í gang skuli nú horfa aðgerðarlaus upp á byggingariðnaðinn settan í rúst. Settan í rúst með því að horfa aðgerðarlaus á bankana skorta fé til að halda áfram eðlilegri lánafyrirgreiðslu til íbúðakaupa. Lánafyrirgreiðslu sem var í gangi þegar allar núverandi íbúðabyggingar voru settar í gang.  

Nú er byggingaiðnaðnum látið blæða út því ríkið er búið að kippa að sér höndunum og afturkalla ekki bara 90% og síðar 80% lánin heldur er horfið alveg aftur í óbreytt ástand þar sem lánað er að hámarki ákveðin upphæð, óháð verði eða stærð húsnæðis.

Tjónið sem þetta hefur valdið byggingaiðnaðnum og fasteignamarkaðnum að ríkið bauð 90% lán í þrjú ár en hætti svo skyndilega við allt saman er gríðarlegt. Allar áætlanir allra góðra mann sem starfa í þessum geira eru úr skorðum gengnar. En yfir þennan geira ríður ekki bara þessi sölutregða vegna þess að bankarnir hætta að lána. Við þetta bætast vandræði vegna 100% gengisfalls með tilheyrandi hækkunum á byggingavörum og vaxtaokur vegna mjög hárra stýrivaxta. Opinber aftaka á öllum þeim sem starfa í byggingariðnaðnum fer nú fram. 

Það hefur verið í tísku að tala um "félagslega ábyrgð" fyrirtækja. Ég spyr, hver er "félagsleg ábyrgð" ríkisins?

Það vantaði ekki kaupendur að þessum íbúðum sem eru og hafa verið í byggingu. Það vantaði einfaldlega eðlilega lánafyrirgreiðslu svo venjulegt fólk geti keypt. Þess vegna standa þessar íbúðir auðar í dag. Eins og kemur fram í þessari frétt þá eru þetta ekki margar íbúðir sem eru fullbúnar og óseldar í dag.

Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði hér í upphafi, ég hef aldrei skilið þessar fullyrðingar að of mikið hafi verið byggt. Þvert á móti þá vantar hér fleiri íbúðir. Það þarf bara að gera þessu unga fólki kleyft að kaupa þær.

Með þessari stöðvun sem nú er í gangi þá er verið að búa til enn eina stífluna. Þessi stífla á síðan eftir að bresta. Þegar það gerist þá verður aftur hrópað og þess krafist að byggingakallarnir komi og byggi á örskotsstundi allt sem þarf að byggja.

Þið sem voruð að segja brandarann um píparann:

Ef þú vilt láta ljúga að þér hringdu þá í pípara og láttu hann nefna daginn sem hann ætlar að koma.

Þessir píparar ganga nú um og mæla göturnar.

Þá skora ég á stjórnvöld að grípa til sérstakra ráðstafana varðandi þetta íbúðarhúsnæði sem byggingaaðilar liggja nú með og geta ekki selt. Húsnæði sem er orðið yfirveðsett vegna mikils vaxtaokurs í skjóli hárra stýrivaxta og mikils falls krónunnar. Ég skora á stjórnvöld að skera þessa menn niður úr snörunni. Ég sé ekki tilganginn með því að setja þau fyrirtæki sem liggja með slíkar yfirveðsettar íbúðir í gjaldþrot. Þessar íbúðir enda hvort sem er í höndum Íbúðalánasjóðs eða hjá ríkisbönkunum. Til hvers þá að slátra þessum fyrirtækjum og eigendum þeirra? Ekki bera þeir ábyrgð á ástandi efnahagsmála og hvernig komið er. Ekki hengja bakara fyrir smið.

Ein leiðin er að búa til félag sem leysir þetta húsnæði til sín. Ef það er ekki fullbúið þá á þetta félag að láta klára það og fullgera. Þetta húsnæði mætti síðan bjóða til sölu með hagstæðum lánum til 60/80 ára.

 

 


mbl.is Segja fjölda nýbygginga ýktan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðug fjárlög

Miðað við þessa stuttu frétt þá þykir mér ljóst að ríkistjórnin er að taka skynsamlega á málum. Bæði eru skattar hækkaðir og ríkisfjármálin skorin niður. Eftir gríðarlega aukningu í útgjöldum ríkisins á undanförnum góðærisárum þá má svo sem segja að margar ríkisstofnanir hljóti að hafa borð fyrir báru.

Langstærstu útgjaldapóstarnir eru eins og allir vita í heilbrigðismálin, menntamálin og tryggingamálin. Þessa pósta má ekki skera niður í þessari kreppu. Um þess málaflokka verður að standa vörð og mér sýnist það eigi að gera það.

Ég held flestum hafi verið það ljóst frá því bankarnir fóru á hausinn og gjaldeyriskreppan skall á að það yrði að hækka skatta. Þessi hækkun er minni en ég bjóst við. Reyndar segir ekki hve mikið sveitarfélögum verður heimilt að hækka útsvarið.

Að fresta vega- og jarðgangagerð er einnig skynsamlegt. 70% til 80% af kostnaði við þessar framkvæmdir fara í vinnuvélar og rekstur þeirra. Fjármunir sem settir eru til vegagerðar skapa til þess að gera fá störf. Miklu fleiri störf skapast fyrir sama fjármagn við gerð annarra mannvirkja eins og smíði tónlistarhúss, gerð nýs Landsspítala eða álvers í Helguvík auk venjulegar húsbygginga.

Ljóst er á þeim tölum sem hér eru kynntar að ríkið býst við gríðarlegum samdrætti í skatttekjum og þar með miklum samdrætti á öllum sviðum samfélagsins.

Til að minnka þennan samdrátt og um leið stemma stigum við atvinnuleysinu þá eru margir að benda á ýmsar leiðir. Halldór Jónsson, sendi mér eftirfarandi tillögur á síðuna mína í gær:

 

Við Íslendingar erum í einstakri stöðu til þess að rjúfa kreppumúrinn. Einmitt núna !

Gefa út ríkistryggð skuldabréf sem lífeyrissjóðirnir geta keypt. Fara í hönnun framtíðarmannvirkja og mannfrekar framkvæmdir við tímabært viðhald á innviðum þjóðfélagsins . Auka önglakvótann um allt land.

Okkur vantar ekki meiri eymd eins og Persson boðaði. Okkur vantar átak og viðspyrnu ! Við getum sýnt heiminum hvernig menn bregðast við kreppu á réttan  hátt.

 

Með því að ríkið gefur út ríkistryggð skuldabréf sem lífeyrissjóðirnir kaupa þá fá þeir góða og örugga ávöxtun á sitt fé en ríkið/bankarnir fá fjármuni sem þeir geta sett inn í atvinnulífiðið og þannig blásið lífi í t.d. byggingaiðnaðinn sem er nánast í dauðateigunum um þessar mundir.

Í dag eru átta þúsund manns á atvinnuleysisskrá og þiggja atvinnuleysisbætur. Það fellst mikil skynsemi í því að ríki og sveitarfélög geri nú átak í því að setja í gang mannaflsfrekar byggingaframkvæmdir þannig að þetta fólk sem nú þiggur bætur og mælir göturnar, hætti því en fái í staðin laun og vinnu við að skapa verðmæti.

Ég vil skora á ríkisstjórnina að "rjúfa kreppumúrinn" eins og Halldór segir. Blásum til sóknar og köllum til allar vinnandi hendur í þá uppbyggingu sem framundan er þannig að þjóðin geti hratt og örugglega unnið sig út út vandanum og við greitt sem hraðast niður þessar nýju skuldir okkar.

 

 

 

 


mbl.is Tekjuskattur og útsvar hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt, þetta er góð spá og björt.

Ég skil ekki þetta mat fréttamanns að þessi spá Alþjóðabankans sé svört. Að mínu mat er þetta alrangt mat. Hér er bankinn að spá hagvexti í heiminum upp á tæpt eitt prósent á næsta ári. Það eitt að bankinn spái ekki samdrætti í ljósi þeirrar miklu kreppu sem nú gengur yfir heiminn gerir það að verkum að þessi spá er góð og björt. Ef bankinn hefði spáð samdrætti hvaða orð hefðu þá verið notuð?

Bankinn sér ljósið framundan og gerir ráð fyrir því að efnahagskerfi heimsins nái að halda í horfinu og það verði vöxtur um eitt prósent hagvöxtur en ekki samdráttur eins og ég allavega óttaðist. Að það verði vöxtur um tæpt prósent í heild á næsta ári í heiminum er bara frábært.

Þetta eru bestu fréttir sem ég hef lesið hér á mbl.is.frá því í byrjun október.

 

 


mbl.is Svört spá um efnahagslífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband