Það vantar nýjar íbúðir ef eitthvað er

Ég hef aldrei skilið fullyrðingar um að of mikið hafi verið byggt af íbúðum á undanförnum árum. Fasteignamarkaðurinn hafði verið sveltur í nærri aldarfjórðung þegar bankarnir loksins komu inn á þann markað haustið 2004. Fyrir þann tíma hafði Íbúalánasjóður og forveri hans verið þeir einu sem lánuðu hagstæð langtímalán til íbúakaupa ásamt nokkrum lífeyrissjóðum. Alla tíð miðaði þessi ríkisrekni lánasjóður við ákveðna fjárhæð sem hann var tilbúinn að lána. Ef kaupendur þurftu viðbótarlán voru þeir neyddir til að taka dýr skammtímalán í bönkum. Frá tímum ríkisrekna bankakerfisins fyrir 2004 þá er hér mikil uppsöfnuð þörf fyrir íbúðir.

Frá haustinu 2004 og fram á haustið 2007, það er í þrjú ár buðu bankarnir almenningi upp á lán til íbúðakaupa eins og tíðakast hafa nær alla síðustu öld í nágrannalöndum okkar. Frá því í október 2007 drógu bankarnir sig vegna fjárskorts út af þessum markaði og hafa nánast ekkert lánað til íbúðakaupa síðustu 12 mánuði. Íbúðalánasjóður varð þá aftur einn eftir á markaðnum og engin hefur verið til að brúa bilið ef fjárþörf kaupenda er meiri. Stærsti framleiðandi og seljandi íbúða á Íslandi, BYGG, seldi eina íbúð á mánuði síðustu þrjá mánuði síðasta árs. Síðan fór ástandið versnandi, sögðu þeir.

Þegar bankarnir hættu að lána almenningi til íbúðakaupa þá hættu íbúðir að seljast. Það hafði ekkert með framboð eða eftirspurn að gera. Það að íbúðir hættu að seljast var vegna þess að kaupendur fengu ekki þá lánafyrirgreiðslu sem þeir þurftu.

Þegar horft er til þess að á Íslandi búa 2,7 íbúar í hverri íbúð en 1,8 í Kaupmannahöfn og 1,9 í Osló þá ætti öllum að vera það ljóst að við erum ekki búin að byggja yfir allt okkar unga fólk. Við eigum langt í land með að vera búin að leysa úr þessari uppsöfnuðu þörf eftir íbúðum frá tímum ríkiseinokunar á íbúðalánamarkaði.

Íslendingar eiga almennt fleiri börn en frændur okkar á Norðurlöndunum en ef skoðaðir eru þeir Norrænu bæir þar sem flestar barnafjölskyldur eru þá búa í þeim 2,3 til 2,4 íbúar per íbúð. Til þess að við hér komumst niður í þessa tölu þá þarf að byggja öll þau hverfi sem sveitarfélögin hér á Höfuðborgarsvæðinu eru búin að skipuleggja. Ef við ætlum að fara niður í tölu sem ég teldi vera eðlilega, 2,0 til 2,1 íbúa per íbúð, þarf að bæta við öllu því húsnæði sem Selfoss, Reykjanesbær og Akranes eru búin að skipuleggja.

Áttatíu og átta árgangurinn var fjölmennasti árgangur Íslandssögunnar. Þetta fólk varð tvítugt í ár. Árgangarnir sem á eftir komu eru enn fjölmennari. Á næstu árum kemur þetta fólk inn á fasteignamarkaðinn. Margt fólk milli tvítugs og þrítugs býr enn í heimahúsum. Þetta er unga fólkið sem keypti sér ekki húsnæði á þessu þriggja ára tímabili þegar bankarnir voru opnir. Þetta unga fólk flytur að heiman um leið og því býðst húsnæði á kjörum sem það ræður við. Við þekkjum þetta öll og öll þekkjum við fullt af ungu fólki sem býr enn í foreldrahúsum af þessum ástæðum.

Síðasta ríkisstjórn gerði tilraun til að höggva á þennan hnút og það var vel. Byggingamarkaðurinn, sveitarfélögin og bankarnir svöruðu því kalli og settu í gang löngu tímabærar íbúðabyggingar. Við áttum og eigum að halda áfram á þeirri braut. Það er ótrúlegt að stjórnvöld sem settu þetta mál í gang skuli nú horfa aðgerðarlaus upp á byggingariðnaðinn settan í rúst. Settan í rúst með því að horfa aðgerðarlaus á bankana skorta fé til að halda áfram eðlilegri lánafyrirgreiðslu til íbúðakaupa. Lánafyrirgreiðslu sem var í gangi þegar allar núverandi íbúðabyggingar voru settar í gang.  

Nú er byggingaiðnaðnum látið blæða út því ríkið er búið að kippa að sér höndunum og afturkalla ekki bara 90% og síðar 80% lánin heldur er horfið alveg aftur í óbreytt ástand þar sem lánað er að hámarki ákveðin upphæð, óháð verði eða stærð húsnæðis.

Tjónið sem þetta hefur valdið byggingaiðnaðnum og fasteignamarkaðnum að ríkið bauð 90% lán í þrjú ár en hætti svo skyndilega við allt saman er gríðarlegt. Allar áætlanir allra góðra mann sem starfa í þessum geira eru úr skorðum gengnar. En yfir þennan geira ríður ekki bara þessi sölutregða vegna þess að bankarnir hætta að lána. Við þetta bætast vandræði vegna 100% gengisfalls með tilheyrandi hækkunum á byggingavörum og vaxtaokur vegna mjög hárra stýrivaxta. Opinber aftaka á öllum þeim sem starfa í byggingariðnaðnum fer nú fram. 

Það hefur verið í tísku að tala um "félagslega ábyrgð" fyrirtækja. Ég spyr, hver er "félagsleg ábyrgð" ríkisins?

Það vantaði ekki kaupendur að þessum íbúðum sem eru og hafa verið í byggingu. Það vantaði einfaldlega eðlilega lánafyrirgreiðslu svo venjulegt fólk geti keypt. Þess vegna standa þessar íbúðir auðar í dag. Eins og kemur fram í þessari frétt þá eru þetta ekki margar íbúðir sem eru fullbúnar og óseldar í dag.

Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði hér í upphafi, ég hef aldrei skilið þessar fullyrðingar að of mikið hafi verið byggt. Þvert á móti þá vantar hér fleiri íbúðir. Það þarf bara að gera þessu unga fólki kleyft að kaupa þær.

Með þessari stöðvun sem nú er í gangi þá er verið að búa til enn eina stífluna. Þessi stífla á síðan eftir að bresta. Þegar það gerist þá verður aftur hrópað og þess krafist að byggingakallarnir komi og byggi á örskotsstundi allt sem þarf að byggja.

Þið sem voruð að segja brandarann um píparann:

Ef þú vilt láta ljúga að þér hringdu þá í pípara og láttu hann nefna daginn sem hann ætlar að koma.

Þessir píparar ganga nú um og mæla göturnar.

Þá skora ég á stjórnvöld að grípa til sérstakra ráðstafana varðandi þetta íbúðarhúsnæði sem byggingaaðilar liggja nú með og geta ekki selt. Húsnæði sem er orðið yfirveðsett vegna mikils vaxtaokurs í skjóli hárra stýrivaxta og mikils falls krónunnar. Ég skora á stjórnvöld að skera þessa menn niður úr snörunni. Ég sé ekki tilganginn með því að setja þau fyrirtæki sem liggja með slíkar yfirveðsettar íbúðir í gjaldþrot. Þessar íbúðir enda hvort sem er í höndum Íbúðalánasjóðs eða hjá ríkisbönkunum. Til hvers þá að slátra þessum fyrirtækjum og eigendum þeirra? Ekki bera þeir ábyrgð á ástandi efnahagsmála og hvernig komið er. Ekki hengja bakara fyrir smið.

Ein leiðin er að búa til félag sem leysir þetta húsnæði til sín. Ef það er ekki fullbúið þá á þetta félag að láta klára það og fullgera. Þetta húsnæði mætti síðan bjóða til sölu með hagstæðum lánum til 60/80 ára.

 

 


mbl.is Segja fjölda nýbygginga ýktan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka góða bloggfærslu.Hvernig á að vinda ofan af þessari flækju er fyrir ofan minn skilning.Smiðir gátu ekki andað með nefinu,gamlir múrarar voru dregnir út af elliheimilum,en núna er allt stopp.!Við hljótum að þurfa að framleiða minnst 1000 íbúðir á ári,væri normal ástand.

Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 08:18

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband