Martröð í Kaupmannahöfn

Var í Kaupannahöfn í nokkra daga í vikunni. Verðlagið þar er orðið ævintýralegt. Kippa af bjór í matvöruverslunum er jafn dýr og sumstaðar dýrari en kippa af bjór í Ríkinu hér heima. Vandfundinn er sá veitingastaður sem selur hálfs lítra bjór undir þúsund krónum íslenskum. Verð á mat og fatnaði er í sama dúr. Það setur að mér hroll að hugsa til þess að þessa dagana eru íslenskir kaupmenn að kaupa inn fyrir jólin og eru að senda jólavarninginn heim. Maður svitnar við að hugsa til verðhækkananna framundan hér heima. 

Undanfarin ár hefur danska krónan verið að rokka á milli 10 og 12 krónur íslenskar. Nú er hún komin yfir 18 krónur. Við íslendingar erum í sama pakkanum og allir aðrir hvað varðar lækkun á verði hlutabréfa og fasteigna. Til viðbótar bætist ofaná almenning hér heima gríðarlegt gengisfalla íslensku krónunnar sem gerir ástandið nöturlegt. Kaupmáttur okkar er að engu orðinn á erlendri grundu. Okkar launalægsta fólki erum við að greiða um 900 íslenskar krónur á tímann.  Lægstu laun sem Danir greiða sínu fólki eru í dag rúmar 1.800 íslenskar krónur á tímann. Launamunur milli Íslands og Danmerkur milli þessara hópa er aftur orðin tvöfaldur eins og hann var lengst af á síðustu öld.  

Eignir okkar íslendinga standa í björtu báli, kaupmátturinn fuðrar upp á fórnaraltari íslensku krónunnar. Sú staða sem við Íslendingar eru í þessa dagana er óþolandi og ólíðandi. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að svona geti gerst nokkurntíma aftur er að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Það eigum við að gera, þangað eigum við að stefna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Lægstu laun sem Danir greiða sínu fólki eru í dag rúmar 1.800 íslenskar krónur á tímann. Launamunur milli Íslands og Danmerkur milli þessara hópa er aftur orðin tvöfaldur eins og hann var lengst af á síðustu öld.


Sæll og blessaður Friðrik

Þetta er mikið rétt. En þess ber einnig að gæta að tekjuskattur láglaunþega er hár. Þannig að ef launþegi sem vinnur 160,33 tíma á mánuði, sem er fullur vinnu-mánuður og matartími sem er 30 mín. á dag er ekki greiddur, og sem er á þessum tímalaunum sem þú nefnir (1.800 ISK), þá greiðir viðkomandi 8% í vinnumarkaðsskatt (stundum nefndur brúttóskattur) plús 39% í tekjuskatt (A skatt) eftir að búið er að draga persónuafslátt frá, og svo kemur ATP-skyldugreiðsla uppá 1700 kr af þessum mánaðarlaunum. Þessi launþegi er því á mánaðarlaunum sem heita 293.000 ISK. Hann fær útborgað 186.887 ISK á mánuði og hefur greitt 104.500 í skatta sem er 35,5% í reynd af þessum algengum lægstu launum. Svo hækka skattaþrepin upp í max. 63%

Þetta eru því tímalaun uppá 1.163 ISK eftir skatt og þá getur þú fyrst framið innkaup á þessum vörum sem þér finnst svo dýrar hér í Danmörku, með þessum kaupmætti.

Það eru engin lögfest lágmarkslaun í Danmörku. Lágmarkslaun geta því verið lægri en þú nefnir þarna. En þetta eru þó mjög algeng "lægstu laun". En 17 ára unglingar sem vinna til dæmis á bensínstöðvum (vinsælt meðal skólanema) alla virka daga, kvöld og helgar eru þó á mun lægri launum og fá ekkert álag greitt en greiða samt þessa skatta. Svo er þeim sagt upp þegar þeir verða 18 ára því þá þarf að greiða þeim hærri laun.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 26.9.2008 kl. 14:00

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Til skemmtunar er hægt að geta þess að hitaveita, ragmagn, kallt vatn og frárennsli kostar marga láglaunþega allt að 84.000 ISK á mánuði t.d. fyrir lítið einbýlishús í dreifbýli. Þetta kostar minna í blokkaríbúð. Svo eru bifreiðar ca. tvöfalt til þrefalt dýrari en á Íslandi, því það er 180% tollur (skráningargjald) á bifreiðum og svo kemur 25% vaskur ofaní.

Gunnar Rögnvaldsson, 26.9.2008 kl. 14:14

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband