Föstudagur, 6. nóvember 2009
Bretar og Hollendingar eru að gera Íslendinga afhuga aðild að ESB.
Mikill viðsnúningur hefur orðið á mjög skömmum tíma í viðhorfum Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu, ESB, ef marka má nýjustu skoðunarkannanir.
Eina haldbæra skýringin sem finna má á þessum viðsnúningi er Icesave málið sem nánast öll umræða hefur hverfst um frá því snemma í vor.
Bretar og Hollendingar hafa beitt okkur mikilli óbilgirni í þessu máli. Samningurinn sem þeir hafa verið að reyna að þvinga stjórnvöld til að samþykkja er með þvílíkum ólíkindum að hann hlaut að kalla á mikla andúð hjá almenningi.
Bretar og Hollendingar hafa beitt öllum brögðum til að þvinga okkur til að samþykkja þennan nauðasamning. Þar hafa þeir beitt leynt og ljóst jafnt pólitískum þrýstingi sem og fjárhagslegum og notað til þess Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem og vina- og frændþjóðir okkar.
Hefur þátttaka okkar helstu vina- og frændþjóða í þessum þjösnaskap Breta og Hollendinga, valdið mörgum Íslendingnum miklum vonbrigðum. Frændþjóðir okkar á hinum Norðurlöndunum hafa valið að blanda sér í deiluna um Icesave og tekið einarða og skýra afstöðu gegn okkur í þessum máli. Þau hafa sett klár skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð / lánum sínum. Við verðum að skrifa undir Icesave nauðasamninginn annars fáum við engin lán.
Þegar við Íslendingar stöndum einir Evrópuþjóða frammi fyrir fordæmalausu bankahruni og fordæmalausri gjaldeyriskreppu þá eru þessar þjóðir ekki tilbúnar að hjálpa okkur nema með því að þær lána okkur fé á okurvöxtum, lán sem þær ætla sér sjálfar að hagnast vel á. Auk þess þá krefjast þær þess að við gefum eftir rétt okkar í flóknu og erfiðu deilumáli sem við eigum í við Breta og Hollendinga.
Þessi ótrúlega afstaða frændþjóða okkar hefur án efa fengið margan Íslendinginn til að snúa baki við öllum hugmyndum um aðild að ESB.
Eins og staðan er í dag þá bendir allt til þess að Bretar og Hollendingar verði, með framgöngu sinni í Icesave deilunni, þess valdandi að þjóðin hafnar aðild að ESB.
Tjónið og skaðinn er mikill sem Bretar og Hollendingar hafa valdið okkur með því að setja á okkur hryðjuverkalög, eru að valda okkur með Icesave samningnum og munu valda okkur takist þeim að vekja upp svo mikla andúð almennings á vina- og frændþjóðum okkar að þjóðin verður fráhverf inngöngu í ESB.
Hefnd Breta og Hollendinga á þjóðinni vegna framkomu 5 til 10 íslenskra bankamanna væri þá fullkomnuð.
Mynd: Við Gullinbrú í Grafarvogi, 1.11.09.
Icesave skemmir Evrópuumræðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.11.2009 kl. 18:25 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er að mínu áliti aðeins tímabundin sveifla og mun ganga til baka þegar raunveruleg umræða um aðild fer í gang. Það sem nú er rætt í samfélaginu eru allkyns skrumskælingar á ICESAVE málinu og einnig vegur áróðursherferð kvótklikunnar og annarra andstæðinga nokkuð. Reiðin beinist að útlendingum sem er alrangt. Hrunið hjá okkur var fyrst og fremst heimatilbúið, en heimskreppan hefur trúlega haft einhver áhrif á tímasetninguna. Við erum nú að taka á margskonar þáttum í þjóðfélagsbygginunni sem hafa gert ójöfnuð meiri en gott getur talist.
Við förun inn í ESB á því er enginn vafi í mínum huga
Hólmfríður Bjarnadóttir, 6.11.2009 kl. 17:28
Það er einmitt hætt við því. Ég vona þó að hér fari fram vitræn umræða þegar að henni kemur, ekki upphrópanir, sleggjudómar, fordómar og jafnvel persónulegt níð.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 6.11.2009 kl. 23:55
Það er ekki óbilgirni Bretar og Hollendinga eða "ótrúlega afstaða frændþjóða" sem ein og sér hafa hugsanlega áhrif á afstöðuna til ESB. Heldur hitt, að ESB tók sér stöðu og er beinn gerandi í málinu. Skýrist það af hluta af því að Barroso þurfti á stuðningi Breta að halda vegna endurkjörs í embætti.
ESB hefur meiri áhuga á Íslandi vegna legu landsins en á hagsmunum þjóðarinnar sem landið byggir (sjá hér).
Framganga ESB á Írlandi 26. september sýnir að sambandið vílar ekki fyrir sér að brjóta eigin lög og afbaka lýðræðið til að ná sínu fram (sjá hér). Þessi uppákoma sýnir okkur örlítið undir grímuna, rétt eins og IceSave.
Því miður líta margir Íslendingar enn á ESB sem efnahagsbandalag og inngöngu sem efnahagsmál. En þetta er pólitískt valdabandalag þar sem lög og leikreglur eru látin víkja ef svo ber undir. Spurningin um aðild á ekki að vera efnahagsleg eingöngu heldur fyrst og fremst pólitísk. Um hvort að það sé gott og skynsamlegt fyrir Ísland að verða partur af klúbbnum til frambúðar. Mitt svar við henni er nei.
Haraldur Hansson, 7.11.2009 kl. 12:14
Mín skoðun er sú að við förum ekki inn í ESB, burt séð frá ofbeldinu í Hollendingum, Bretum og ESB í okkar garð í Icesave málinu
Birgir Viðar Halldórsson, 7.11.2009 kl. 16:10